Af veðurfari fyrstu 10 daga júnímánaðar

Meðalhiti fyrstu tíu daga júnímánaðar er 8,6 stig í Reykjavík, +0,1 stigi ofan meðallags sömu daga áranna 1961-1990, en -1,2 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára. Hitinn er í 15.sæti sömu daga á öldinni, þeir voru talsvert kaldari árin 2015, 2001 og 2011. Sé litið til lengri tíma er hitinn í 64. til 66. sæti af 144 sem við höfum aðgang að - ofan miðgildis. Dagarnir tíu voru hlýjastir árið 2016, meðalhiti var þá 11,5 stig, en kaldastir voru þeir 1885 þegar meðalhitinn var aðeins 4,9 stig.

Mun hlýrra hefur verið á Norður- og Austurlandi, á Akureyri er meðalhiti fyrstu tíu dagana 12,0 stig, þetta er fjórðahlýjasta júníbyrjun þar frá 1936, hlýrri var hún 2013, 2007 og 1940. Á Austurlandi eru dagarnir tíu einnig meðal þeirra hlýjustu sem vitað er um.

Miðað við síðustu tíu ár er jákvæða vikið mest á hálendinu norðaustanlands, við Upptyppinga, Kárahnjúka og á Eyjabökkum er hitinn 6,5 stigum ofan meðallags.

Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 11,9 mm og er það um 75 prósent af meðallagi, norðanlands og austan hefur lítið rignt ennþá í mánuðinum.

Sólarleysi hefur verið mikið í Reykjavík, síðustu fimm dagar alveg sólarlausir. Það hefur aðeins gerst einu sinni áður að fimm algjörlega sólarlausir dagar í röð hafi áður „mælst“ í Reykjavík í júní. Það var dagana 18. til 22. árið 1913 - og var reyndar mælt á Vífilsstöðum um þær mundir - og nákvæmni mælinganna ekki alveg treystandi. Sex sinnum hafa komið fjórir algjörlega sólarlausir dagar í röð í júní í Reykjavík, síðast 1986.

Tvær mjög langar sólarleysissyrpur komu í Reykjavík í júlí 1984, sú fyrri var 5 dagar, 4. til 8., en sú síðari var 7 daga löng, þann 21. til 27.

Sólskinsstundir það sem af er þessum mánuði hafa aðeins mælst 23,0 og hafa aðeins 5 sinnum verið færri síðan byrjað var að mæla, 1979, 1962, 1992, 1988 og fæstar 2013 (13,4). Við Mývatn eru sólskinsstundirnar aftur á móti orðnar 118 - eða 11,8 á dag að meðaltali.

Loftþrýstingur hefur verið óvenjuhár, sá 13.hæsti síðustu 196 árin.

Nú virðist talsverð breyting á veðurlagi vera að eiga sér stað og líklegt að saxist eitthvað á jákvæðu hitavikin norðanlands og austan næstu tíu dagana - og loftþrýstingur þokast niður á við.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

 • w-blogg250524b
 • w-blogg250524a
 • Slide10
 • Slide9
 • Slide11

Heimsóknir

Flettingar

 • Í dag (27.5.): 5
 • Sl. sólarhring: 320
 • Sl. viku: 1845
 • Frá upphafi: 2357238

Annað

 • Innlit í dag: 5
 • Innlit sl. viku: 1724
 • Gestir í dag: 5
 • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband