Fyrstu 8 vikur sumars

Spurt var um stöðu mála eftir fyrstu 8 vikur sumars. Eins og fram hefur komið í fréttum hefur veður fram undir þetta verið mjög tvískipt á landinu. Mikil hlýindi norðaustan- og austanlands, en svalara suðvestanlands. Úrkoma hefur verið óvenjumikil og sólskinsstundir fáar á Suðvestur- og Vesturlandi, framan af rigndi einnig talsvert eystra, en síðan stytti þar upp og sólin fór að skína. Síðustu daga hefur aftur breytt til.

Hitafar suðvestanlands telst vart til stórtíðinda, -0,3 stigum neðan meðallags 1961-1990 í Reykjavík, en -1,3 neðan meðallags síðustu tíu ára. Talsvert kaldara var á sama tíma 2015. Á Akureyri hefur hitinn hins vegar verið +1,7 stigum ofan meðallags 1961-1990 og +0,8 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Það er ekki mjög oft sem þessi árstími hefur verið hlýrri á Akureyri - en þó var nokkru hlýrra árið 2014. Við eigum daglegan meðalhita ekki á lager lengra aftur á Dalatanga en til 1949 og hafa fyrstu tvær vikur sumars aldrei á þeim tíma verið jafnhlýjar þar og nú. 

Eins og áður sagði hefur úrkoma verið óvenjumikil í Reykjavík. Myndin sýnir úrkomu fyrstu átta vikur sumars allt aftur til 1885 - fáein ár vantar framan af.

w-blogg150618a

Þetta er sannarlega óvenjulegt - eins og sjá má var úrkoma á þessum tíma einnig mjög mikil í fyrra. Helst er keppt við fyrstu átta vikur sumars 1896 í úrkomumagni. En myndin sýnir líka vel hversu gríðarbreytilegt magnið er frá ári til árs og að auki mjög tilviljanakennt.

Svipað má segja um sólskinsstundafjöldann. Sólin hefur lítið látið sjá sig.

w-blogg150618b

Sólarleysið hefur verið óvenjulegt miðað við síðari ár, en á árabilinu 1980 og fram yfir 1990 var það ámóta á sama tíma og það nokkrum sinnum. Sólskinsstundir voru enn færri hernámsvorið 1940 heldur en nú. 

Hálfur júnímánuður er nú liðinn. Meðalhiti hans í Reykjavík er nú 8,6 stig, nákvæmlega í meðallagi áranna 1961 til 1990, en -1,3 stigum neðan meðallags sömu daga síðustu tíu árin. Hitinn er í 15.hlýjasta sæti á öldinni (af 18). Töluvert kaldara var sömu daga 2011, 2015 og 2001. Á langa listanum eru dagarnir í 81. sæti af 144. Hlýjastir voru þeir árið 2002, meðalhiti 12,0 stig, en kaldastir 1885, meðalhiti aðeins 5,8 stig.

Á Akureyri er meðalhiti fyrstu 15 daga júnímánaðar 10,9 stig, +2,1 stigi ofan meðallags áranna 1961-1990, en +1,7 ofan meðallags síðustu tíu ára. Miðað við síðustu tíu ár hefur að tiltölu verið hlýjast á Eyjabökkum, +4,6 stig ofan meðallags, en kaldast hefur verið á Hraunsmúla í Staðarsveit, -1,8 stig neðan meðallagsins.

Úrkoma hefur mælst 17,3 mm í Reykjavík og er það við meðallag síðustu tíu ára. Óvenjuþurrt hefur verið á Vestfjörðum.

Sólskinsstundir hafa mælst óvenjufáar í Reykjavík það sem af er júnímánuði, aðeins 31. Aðeins tvisvar er vitað um færri sólskinsstundir sömu daga, það var 1988 og 2013.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 222
  • Sl. sólarhring: 256
  • Sl. viku: 2047
  • Frá upphafi: 2350783

Annað

  • Innlit í dag: 204
  • Innlit sl. viku: 1832
  • Gestir í dag: 198
  • IP-tölur í dag: 197

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband