Af árinu 1833

Nú förum við enn lengra aftur í tíma en við höfum áður gert á þessum vettvangi, til ársins 1833. Í fljótu bragði virðist sem að ekki sé miklar fréttir að hafa af veðri frá því ári. Þorvaldur Thoroddsen er óvenjustuttorður í umfjöllun sinni og byggir langmest á yfirliti sem birtist í Skírni 1834, en nefnir líka tíðarvísur séra Jóns Hjaltalín sem heimild. 

En það er meira. Hiti var mældur á fjórum stöðum á landinu þetta ár. Jón Þorsteinsson var einmitt að flytja mælingar sína (og aðsetur) úr Nesi við Seltjörn inn í Reykjavík. Það var 18. október sem hann flutti, líklega í hús sem stóð þar sem nú er Ránargata - [Doktorshús] en er þar ekki lengur. Sömuleiðis athugaði Páll Melsteð (Þórðarson) allt árið á Ketilsstöðum á Völlum. mældi hita og loftþrýsting eins og Jón auk þess að lýsa veðri stuttaralega. Grímur Jónsson amtmaður á Möðruvöllum athugaði einnig þar til í lok júní - en aðeins tölur hafa varðveist - engar aðrar upplýsingar um veður. Grímur flutti þá til Danmerkur, en kom aftur til Möðruvalla 1842 - og lenti þar í leiðindum sem kunnugt er. Sveinn Pálsson mældi í Vík í Mýrdal - nokkuð stopult að vanda og seint í ágúst brotnaði hitamælir hans (hann fékk nýjan í janúar árið eftir). Svo er að skilja að eitthvað hafi fokið á hann og brotið. 

Fáeinar samfelldar veðurdagbækur eru einnig til frá þessu ári. Tvær voru haldnar í Eyjafirði, önnur af Ólafi Eyjólfssyni á Uppsölum í Öngulstaðahreppi, en hin inni á Möðrufelli í sömu sveit af Séra Jóni Jónssyni. Sveinn Pálsson náttúrufræðingur og læknir í Vík í Mýrdal hélt einnig veðurbók þetta ár. Sjálfsagt hafa fleiri gert það þó þau skrif hafi ekki komið fyrir augu ritstjóra hungurdiska. Veðurbækur þeirra Jóns og Sveins eru erfiðar aflestrar. 

Annálar eru líka fleiri en einn. Aðgengilegastur er svonefndur Brandstaðaannáll, ritaður af Birni Bjarnasyni sem lengst af var bóndi á Brandstöðum í Blöndudal, en bjó þó árin 1822 til 1836 á Guðrúnarstöðum í Vatnsdal. Björn segir margt af veðri í annál sínum sem hefur verið prentaður og gefinn út í heild.  

Séra Pétur Guðmundsson prestur (og veðurathugunarmaður) í Grímsey tók saman annál 19.aldar og náði hann frá upphafi hennar fram til um 1880, en var prentaður og gefinn út smátt og smátt fyrir 70 til 90 árum. Annáll Péturs er mjög gagnlegur sérstaklega vegna þess að hann hafði undir höndum eitthvað af samantektum sem ekki eru á hvers manns borði nú - en munu samt vera til í skjalasöfnum. 

ar_1833t

Lítum fyrst á yfirlit Skírnis um árið 1833, en það birtist í 8. árgangi hans 1834 (s60):

Á Íslandi var árferð á þessu tímabili góð, og almenn velgengni drottnandi, þegar á allt er litið. Veturinn 1833 var einhver enn veðurblíðasti um land allt; vorið gott nyrðra, og snemmgróið, en tirming [oftar ritað sem tyrming = uppdráttur, vesöld] kom síðan í grasvöxt nokkur af næturfrostum og kulda, er gekk yfir með Jónsmessu, og spratt útengi heldur lélega, en tún betur, en vel hirtust töður manna eystra og víðast nyrðra. Fiskiafli og annar veiðiskapur var lítill nyrðra, og sumstaðar engi, en syðra urðu góðir vetrar- og vorhlutir; veðrátta var þar miður enn nyrðra, þó var þar grasvöxtur vel i meðallagi, en töður hröktust mjög til skemmda af rigningum, en að öðru leyti var veður hlýtt og góðviðri. Skepnuhöld voru um allt land í góðu lagi, og kom peningur snemma í gagn.

Hallgrímur Jónsson á Sveinsstöðum í Húnavatnssýslu virðist, í bréfi sem hann ritar 8. ágúst 1834, telja Skírni hafa verið heldur snubbóttan (bréfið má finna í Andvara 1973):

Um árferði það, er Skírnir telur hér á landi á bls. 60, skipti í síðustu viku sumars, eða þó fyrri, nefnilega þann 14. október, þá snjóhríð gjörði víða með hafróti og ofsastormi, er braut skip og drap víða sauðfé manna norðan og vestan lands, þó mest í Ísafjarðarsýslu. Frá þeim degi varð líka haglaust fyrir útigangspening í ýmsum sveitum, og yfir höfuð var vetur mjög 'þungur víða vestan- og hvarvetna norðanlands ... 

Brandsstaðaannáll er mikið til sammála Skírni - og svo Hallgrími - gerir heldur minna þó úr júníkuldum en Skírnir - og nefnir 13. október en ekki þann 14. - sem skiptir auðvitað engu (blaðsíðutöl í prentaðri útgáfu í svigum):

Vetur frostalítill, blotasamt, svo þeir voru 20 komnir með þorra. Á honum og góu var oftast stillt veður, stundum þíða, lítill snjór og aldrei haglaust. Eftir jafndægur vorblíða. Með maí kom nægur gróður. Mátti þá túnvinna vera búin. Tvö skammvinn kafaldsköst komu í apríl. Í júní mikill gróður, svo bifinkolla sást þann 15. Góðviðri og hitar um lestatímann. Sláttur hófst 15. júlí. Var þá rekjusamt. 21. júlí, sunnudag, kom víða ofan í (s108) þurra töðu, sem lengi hraktist og skemmdist eftir það.

Í ágústbyrjun hirtu allir misjafnt verkaða töðu. Eftir það gæða heyskapartíð, oft sterkir hitar, en rigningar litlar, er við hélst til 10. okt. Þann 13. lagði snjó á fjallbyggðir og heiðar, er ei tók upp um 36 vikur, þó snöp héldist þar til jólaföstu. Var þá langur vetur með jarðleysi á jólaföstu um Laxárdal og fjallbæi, en til lágsveita auð eða næg jörð til nýárs. Meðalveðurlag, en frostamikið á jólaföstu. Hrossagrúi safnaðist mikill á útigangssveitirnar. Sumir tóku líka sauði á beit úr hagleysisplássunum. Ársæld var mikil og gagn skepna í besta lagi, (s109) ...

Jarðeplaræktin var nú hjá stöku bændum í miklum framförum þessi góðu ár. Í Ási og Þórormstungu [þessir bæir eru í Vatnsdal] var það mest, 20-20 tunnur á þessu ári. (s111)

Ekki gengur ritstjóranum vel að lesa dagbók Jóns í Möðrufelli, en sér þó að hann segir janúar hafa verið yfirhöfuð mikið góðan mánuð og febrúar hafi mestallur verið ágætur að veðráttu. Júní var mikið þurr og oftast loftkaldur að sögn Jóns, júlí mjög þurr framan af en vætur síðari partinn. September var góður yfir höfuð að kalla og nóvember dágóður. 

Brot úr samtímabréfum staðfesta þessar lýsingar:

Ingibjörg Jónsdóttir á Bessastöðum segir í bréfi 2. mars:

Vetur hefur verið frostalítill en vindasamur. Skriður hafa fallið, einkum þó í Borgarfirði. Þó held eg að sýslumaður hafi ekki orðið undir þeim. 

Einkennileg athugasemdin um sýslumann, en sýslumaður borgfirðinga var þá Stefán Gunnlaugsson. Hann byggði sér reyndar nýtt hús á árinu, í Krossholti utan við Akranes - kannski hann hafi orðið fyrir einhverju skriðutjóni veturinn 1832 til 1833 þegar allt kemur til alls? 

Skriður þessar féllu reyndar ekki á árinu, heldur fyrir áramót, m.a. á Húsafelli - kannski við lítum einhvern tíma til ársins 1832? 

Bjarni Thorarensen segir í bréfi sem dagsett er í Gufunesi 12. september:

Með nýtingu á heyi hefir á öllu Suðurlandi árað báglega, en grasvöxtur hefir þarámóti verið í besta lagi. (s213) 

Og Gunnar Gunnarsson í Laufási við Eyjafjörð segir í bréfi sem dagsett er 2. október:

Mikil þurrviðri ásamt sterkum hita hafa oftar viðvarað í sumar frammí miðjan ágúst, við það skrælnuðu og brunnu hólatún, svo grasbrestur varð víða allmikill. Þó vegna góðrar nýtingar held eg að heita megi að heyskapur yfir höfuð hafi náð meðallagi.

Gunnar skrifar svo 7. febrúar 1834: 

Sérstaklega umhleypingasamt og óstöðugt hefur veðráttufarið verið síðan í haust til þessa, með sterkum stormum og áhlaupa hríðarbyljum, þó sérílagi keyrði fram úr öllu góðu hófi bæði með rigningu og þaráofan öskukafaldshríð þann 14. og 15. október næstliðinn þegar Herta fékk slysin – fékk þá svo margur sveitabóndi stórvægilegan skaða á skepnum sínum, sem hröktu í vötn og sjó og frusu. Þó urðu ekki mikil brögð að því hér í Norðursýslu, meiri í Eyja- og Skagafjarðar- en mest í Húnavatnssýslum. Jarðbönn hafa sumstaðar viðvarað síðan um veturnætur, svosem í Bárðardal og víðar fram til dala, sumstaðar síðan með jólaföstu, en almennust hafa þau verið til allra uppsveita, ... 

Hvaða óhapp það var sem henti briggskipið Hertu hefur ritstjórinn ekki enn fengið upplýst. Frost var ekki mikið á veðurstöðvunum tveimur í þessu októberáhlaupi.  

Gaman er að líta á fáeinar tíðarvísur fyrir 1833 eftir Jón Hjaltalín:

Góða tíð, er fór nú frá,
Fékk oss vetur bestann
Glóðar lýði söknuð sá
Sent því getur mestann

Eins var vorsins tíð að tjá
Töm á heppnum sporum,
Meins og horfins fárið frá
Flúði skepnum vorum.

Svelti fár um vagna ver
Vægðin lýði gladdi
Velti-ár má heita hér
Horfin tíð er kvaddi.

...

Blítt var sumar, en gat ei
Yrju viður spornað,
Títt því gumar hlutu hey
Hirða miður þornað

Haustdaganna gnýr sem gall
Gripum háði víða
Laust svo manna hey um hjall
Hrakning náði líða.

Tók oss gripið ægir af
Orku ríkan kvíða,
Tók út skip, en hjörð í haf
Hrakti líka víða.

Ekki flækjast margir dagar ársins 1833 í það net ritstjóra hungurdiska sem hann notar til að veiða kalda og hlýja daga í Reykjavík. Enginn mjög hlýr dagur (á okkar tíma mælikvarða) skilaði sér og aðeins fjórir kaldir. Hiti náði þó einu sinni 20 stigum í Reykjavík, það var 7. júlí. Kaldastur var 6. febrúar, líklega kaldasti dagur ársins á landsvísu. Frostið í Reykjavík fór í -16 stig, -21 á Ketilsstöðum, það næstmesta sem þar mældist þau ár sem mælingarnar stóðu og frostið var -24 stig hjá Grími á Möðruvöllum. Sveinn í Vík mældi -15 stig - það langlægsta á árinu hjá honum. 

Veðurlýsing Ólafs í Uppsölum er svona 5. til 7. febrúar:

5. febrúar: Norðanhríð og heljarfrost. 6. febrúar: Sunnankylja og gnístandi frost, heiðríkur fyrst, þá þykknandi. 7. febrúar: Kyrrt, fjallabjartur frameftir, þá norðanhríð. Mikið frost. 

Tveir sérlegir kuldadagar sýna sig í júlí í Reykjavík, 24. og 25. Þá létti þar til um stund, lágmarkshiti fór niður í 2,5 stig þann 24. og Jón Þorsteinsson getur þess að frost muni hafa verið til fjalla. Nætur urðu ekki eins kaldar í skýjuðu veðri á Norður- og Austurlandi og fóru hlýnandi. Ólafur segir þann 26.: Kyrrt og blítt, stundum regn frameftir, sólskin í bland og mikill hiti. Sunnan áliðið. Sveinn getur ekki um kulda. 

Heldur svalt og blautt var í hafátt sunnanlands næstu daga. Þrýstingur í Reykjavík fór í 1030,6 hPa þann 30. júlí, það er ekki mjög algengt, gerist aðeins á 10 til 15 ára fresti að jafnaði að þrýstingur á landinu nái 1030 hPa í júlí - og nú eru um 40 ár síðan það gerðist síðast. Þennan dag 1833 var nokkuð stríð suðvestanátt austur á Héraði og mistur í lofti - væntanlega sandfok af hálendinu. Daginn eftir fór hiti þar í 23 stig á R-kvarða (28,7°C), sá langhæsti sem Páll á Ketilsstöðum mældi. Þann dag fór hiti í Reykjavík hæst í rúm 13 stig í suðvestanátt og skúraveðri. Stíf vestanátt var hjá Sveini í Vík hiti um 12 stig.  

Fjórði sérlegi kuldadagurinn í Reykjavík var 31. ágúst. Þá segir Ólafur: Sami kuldi og éljaleiðingar, stundum sólskin. 

Í annál 19. aldar séra Péturs í Grímsey má sjá að slysfarir og drukknanir af völdum veðurs hafa verið með minna móti þetta ár og ekki nema einn maður varð úti, sé að marka annálinn. Það átti sér stað í Hestsskarði, gömlu leiðinni milli Héðinsfjarðar og Siglufjarðar 20. október. 

Þorvaldur Thoroddsen segir blákalt: „ ... þá kom enginn ís“. Um það er þó varla hægt að fullyrða, en við skulum trúa því. Við vitum að sunnanáttir voru óvenjutíðar í janúar og að loftþrýstióróavísir gefur til kynna að febrúar hafi verið rólegur - þó loftþrýstingur hafi verið undir meðallagi. Hægar austan-og norðaustanáttir ríkjandi. 

Á Bretlandseyjum var febrúar í flokki þeirra blautustu og maímánuður einn þeirra hlýjustu, en sumarið almennt illviðrasamt þar um slóðir. 

Við höfum þarmeð náð sæmilegum tökum á tíðarfari ársins 1833 og enn mætti gera betur. Í viðhenginu er smávegis af tölulegum upplýsingum frá árinu 1833. Það má m.a. sjá að slétttölumánuðir voru kaldari en oddatölumánuðirnir og fyrrihluti ársins talsvert hlýrri en hinn síðar. Enginn mánuður var mjög þurr í Reykjavík, febrúar og júní þó sýnu þurrastir og úrkoma var heldur ekki mjög mikil í desember. Janúar var mjög úrkomusamur - og maí var það að tiltölu. Einnig var úrkomusamt í ágúst. 

Ritstjórinn þakkar Sigurði Þór Guðjónssyni fyrir innslátt á veðurtexta Brandstaðaannáls.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 38
  • Sl. sólarhring: 384
  • Sl. viku: 1863
  • Frá upphafi: 2350599

Annað

  • Innlit í dag: 38
  • Innlit sl. viku: 1666
  • Gestir í dag: 38
  • IP-tölur í dag: 38

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband