Bloggfærslur mánaðarins, desember 2018
30.12.2018 | 21:11
Miðað við hita síðustu tíu ára
Við skulum nú bera saman hita ársins 2018 og meðalhita síðustu tíu ára (2008 til 2017). Á landinu í heild má segja að árið hafi verið nákvæmlega í því meðallagi, en hiti var lítillega neðan þess vestanlands, en ofan við á Norðaustur- og Austurlandi. Þetta sést vel á meðfylgjandi korti. Hafa verður í huga að tölur á einstaka stöð gætu hrokkið til um 0,1 stig á síðustu 2 dögum ársins.
Bláar tölur sýna neikvæð vik, en rauðar jákvæð. Við verðum að hafa í huga að meðalhiti síðustu tíu ára er 1,0 stigi ofan við meðalhita síðustu aldar. Öll ár það sem af er 21.öld hafa verið hlý í þessu samhengi. Sé talið allt aftur til 1874 lendir landsmeðalhiti ársins 2018 í 15. til 17. hæsta sæti - sjá töfluna hér að neðan.
röð | ár | byggðir °C | |
1 | 2014 | 5,1 | |
2 | 2003 | 5,1 | |
3 | 2016 | 5,0 | |
4 | 1933 | 4,9 | |
5 | 1939 | 4,7 | |
6 | 1941 | 4,7 | |
7 | 1946 | 4,7 | |
8 | 2004 | 4,7 | |
8 | 2017 | 4,7 | |
10 | 1960 | 4,6 | |
11 | 1945 | 4,6 | |
12 | 2010 | 4,6 | |
13 | 1953 | 4,5 | |
14 | 2006 | 4,5 | |
15 | 2009 | 4,4 | |
15 | 2018 | 4,4 | |
15 | 1987 | 4,4 |
Hiti hefur síðustu 9 árin verið nokkuð í jafnvægi eftir gríðarlega hlýnun áratuginn á undan - en samt langt ofan þess sem áður var.
Hér má sjá 10-ára (120-mánaða) keðjumeðalhita á landinu. Ártalið er merkt í lok hvers tíu ára tímabils - fyrsta talan á þannig við áratuginn 1991 til 2000 (120-mánuði) og er merkt sem 2000. Meðalhiti síðustu tíu ára er nú 4,43 stig, 0,9 stigum hærri en árið 2001. Hlýnunin síðan þá samsvarar um 5 stigum á öld. Hraði hlýnunarinnar var mestur á árunum 2002 til 2010, þá samsvaraði hraðinn hlýnun um 10 stig á öld. Það sjá vonandi flestir að heimsendir er í nánd haldist slíkt áratugum saman. Gróflega má segja að við höfum þegar tekið út nærri helming þeirrar hlýnunar sem nú er helst gert ráð fyrir til næstu aldamóta. Ólíklegt er þó að það sem eftir er (komi það) eigi sér stað jafnt og þétt. Miklu líklegra er að allstór stökk verði fram og til baka - bæði til kólnunar og hlýnunar á víxl. Það er ótvírætt merki um alvarlega stöðu í heiminum gangi hlýnunin mikla sem við sjáum á myndinni hér að ofan ekki til baka að öllu eða einhverju leyti. Komi annað ámóta stökk á næstunni erum við komin í gjörólíkt tíðarfar.
Vísindi og fræði | Breytt 31.12.2018 kl. 01:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.12.2018 | 02:10
Eitt af fimm hlýjustu árum eystra
Árið 2018 var enn hlýrra austanlands heldur en um landið sunnan- og vestanvert. Svo virðist sem meðalhitinn á Teigarhorni sé sá fimmti (til sjötti-) hæsti frá upphafi mælinga þar 1873. Árin sem voru hlýrri eru 2014, 2016, 2017 og 2003 - jafnhlýtt var 1972. Á Egilsstöðum ná áreiðanlegar mælingar ekki nema aftur til 1955, en á þeim tíma er árið 2018 það fimmtahlýjasta - sömu ár hlýrri þar og á Teigarhorni, nema minna munar á 2018 og því hlýjasta (2014).
Að halda því fram að árið 2018 sé annað hvort kalt eða meðalár er auðvitað fráleitt í þessu samhengi.
Við lítum á línurit.
Hiti á Teigarhorni og Egilsstöðum fylgist allvel að - þó vetur séu kaldari á síðarnefnda staðnum og sumur hlýrri - ár eru hlý eða köld á báðum stöðum samtímis - en röðin auðvitað ekki sú nákvæmlega sama.
Langtímaleitni á Teigarhorni reiknast +1,3 stig á öld - mun meiri heldur en í Stykkishólmi, en munurinn stafar af einhverju leyti af lengd viðmiðunartímabilsins - það er mun lengra í Hólminum og nær alveg yfir allt 19.aldarhlýskeiðið - sem mæliröðin á Teigarhorni sér ekki. Núlíðandi áratugur hefur verið sérlega hlýr við austurströndina - sérstaklega frá og með 2014. Líklega hefur aðstreymi kaldsjávar að norðan (og/eða uppstreymi að neðan) brugðist í Austuríslandsstraumnum - en það eru bara vangaveltur.
28.12.2018 | 23:00
Enn einu hlýju ári að ljúka
Menn eru nú svo farnir að venjast hlýindunum að talað er um árið 2018 sem meðalár hvað hita varðar. Endanleg skipan þess í sæti verður að sjálfsögðu ekki ljós fyrr en því er alveg lokið (sætakeppnin er hörð) en það er alla vega 23. árið í röð sem hiti er yfir meðallagi áranna 1961-1990 í Reykjavík. Svo virðist sem meðalhitinn þar endi í 5,1 stigi - eða þar um bil og í um það bil 4,6 stigum á Akureyri. En bíðum með endanlegt uppgjör. Þangað til lítum við á mynd sem sýnir ársmeðalhita í Stykkishólmi frá 1798 að telja. Þar virðist ársmeðalhitinn ætla að enda í 4,5 stigum.
Hér má glöggt sjá að árið 2018 er í flokki þeirra hlýrri á langtímavísu, hitinn +1,1 stigi ofan meðallags alls tímabilsins - og hlýrra en nær öll ár kuldaskeiðsins 1965 til 1995 - og á hlýskeiðinu frá 1925 til 1964 voru aðeins tíu ár (af 40) hlýrri en 2018. Á allri 19.öld finnum við e.t.v. 1 til 2 jafnhlý ár eða hlýrri - aðeins.
En hvernig horfir málið við ef við fjarlægjum hina almennu hlýnun? Það sýnir næsta mynd.
Tölurnar á lóðrétta ásnum eru marklausar sem slíkar - við getum ímyndað okkur að þær segi frá hitanum hefði engrar almennrar hlýnunar gætt (þannig er það þó auðvitað ekki). Meðalhiti alls tímabilsins er 2,9 stig - og árið 2018 +0,3 stig ofan þess meðaltals. Hér sést enn betur heldur en á hinni myndinni hvað tímabilaskipting er mikil - hvað kólnar og hlýnar skyndilega - jafnvel á aðeins 1 til 3 árum. Sömuleiðis sést mjög vel að breytileiki frá ári til árs var mun meiri á 19.öld heldur en nú. Líklega tengist það mun meiri hafís í norðurhöfum þá heldur en þar hefur verið á síðari árum. - Norðanáttin var mun kaldari heldur en sama átt nú - ef hún á annað borð var ríkjandi.
En árið 2018 er - hvað hitafar varðar - ekki boðberi neinna breytinga frá því sem verið hefur á þessari öld. Hlýskeið hennar ríkir enn. Hvenær því lýkur vitum við ekki. Þetta hlýskeið kom nokkuð óvænt (alla vega var óvænt hversu snögglega það skall á) - kuldaskeiðið 1859 til 1925 stóð í meir en 60 ár - þeir sem bjuggust við að einhver regla væri ríkjandi í skipan hlý- og kuldaskeiða gátu alveg eins vænst þess að kuldinn sem hófst 1965 stæði í 30 ár til viðbótar því sem hann gerði (væri kannski að ljúka upp úr 2020). Þeir sem enn halda fram einhverri reglu gætu sagt að hlýskeiðið ætti að standa í 40 ár - rétt eins og þau tvö fyrri sem við þekkjum allvel gerðu. - En það hefur nú ekki staðið nema í rúm 20. - En það er engin regla - núverandi hlýskeiði gæti lokið á morgun - eða það haldið áfram eða magnast enn frekar - aukist hin almenna hlýnun eins og sumir vænta.
En við lítum betur á árið 2018 þegar því er endanlega lokið - það var t.d. mjög úrkomusamt og úrkomudagar óvenju margir.
24.12.2018 | 16:27
Árstíðasveifla snjóhulunnar
Árstíðasveiflan er ritstjóra hungurdiska hugstæð - það er margt í náttúru og mannheimum sem sveiflast með sólu - á einhvern hátt. Eitt af því er snjóhula - hún fylgir árstíðasveiflu hita að miklu leyti.
Hér lítum við á meðalsnjóhulu hvers almanaksdags áranna 1965 til 2017. Reikningarnir eru ekki alveg skotheldir - ýmislegt kusk er í gögnunum og þó töluverð vinna hafi farið í að hreinsa þau er henni seint lokið. - En aðalatriðin ættu samt að vera sæmilega áreiðanleg. Snjóhula er metin á fjölmörgum veðurstöðvum kl.9 að morgni - þá er einnig slegið á snjóhulu í 500 til 700 metra hæð í fjöllum í nágrenni stöðvarinnar - séu þau einhver. Hægt er að reikna meðalsnjóhulu landsins á ýmsa vegu - og dálítill munur er á tölum eftir aðferðum - höfum það í huga. En lögun árstíðasveiflunnar verður þó svipuð eða hin sama. Á fyrri mynd dagsins sjáum við meðalsnjóhulu hvers almanaksdags - myndin nær yfir 18 mánuði til þess að bæði sumar og vetur komi fram í heilu lagi.
Neðri ferillinn á myndinni sýnir meðalsnjóhulu í byggð. Alautt má heita á sumrin - að sjálfsögðu - en meðalsnjóhula á vetrum er lengst af á bilinu 60 til 68 prósent. - Það er nokkuð merkilegt að frá því um 20.desember til marsloka er meðaltalið nokkuð stöðugt. Frá og með marslokum fara sól og varmi að hafa betur en nýsnævið. Það er 19.janúar sem er snjóasamasti dagur ársins - en fer örugglega eftir því hvaða tímabil er undir.
Meðalsnjóhula ársins í byggð er um 30 prósent. Á myndinni fer ferillinn niður fyrir meðaltal 2.maí á vorin, en upp fyrir það aftur 3.nóvember.
Efri ferillinn sýnir meðalsnjóhulu á fjöllum (500 til 700 metra hæð). Í fljótu bragði virðist lögun hans svipuð - nema hvað hann liggur hærra - meðaltalið er um 55 prósent. Snjóhula vetrarins - frá því rétt fyrir jól til marsloka er svipuð allan tímann, en snjór endist í fjöllum fram eftir sumri og er lágmarki ekki náð fyrr en 24.ágúst. Þá fer aftur að snjóa í fjöll.
Á vorin fer fjallaferillinn niður fyrir meðaltalið 16.maí, en upp fyrir það aftur 25.október.
Þó ferlarnir sýnist í fljótu bragði svipaðir er samt nokkur munur á þeim. Hann sést vel á næstu mynd.
Rauða línan sem liggur þvert yfir myndina sýnir meðalmun snjóhulu á fjöllum og í byggð (25%). Veturinn frá því um miðjan desember til marsloka er allur nærri því meðaltali. Munurinn vex mjög ört í apríl (þegar snjó tekur ört upp í byggð - en meiri tíma tekur að vinna á fyrningum á fjöllum. Það er 11.maí sem munurinn nær hámarki. Hann fer síðan niður fyrir ársmeðaltalið 17.júní og nær lágmarki 24.ágúst - þegar bæði byggðir og hálendi eru snjólaus.
Frá 24.ágúst fer snjóa að gæta á fjöllum og meira en í byggð. Það er 3.október sem meðalmun er náð, en mestur er munurinn 7.nóvember. Úr því vinnur snjór í byggð á.
Hungurdiskar hafa áður fjallað um snjóhulu - í pistli þann 19.janúar 2016 var t.d. litið á samband meðalhita og snjóhulu. Þar kom fram að hlýnun um 1 stig myndi stytta snjótímabilið um þrjár vikur. Sú framsetning gagna sem hér er notuð gæti bent til svipaðar styttingar - en nokkra vinnu þarf að leggja í hana til að tölur varði nefnanlegar.
Ritstjóri hungurdiska óskar landsmönnum öllum gleðilegra jóla.
22.12.2018 | 21:48
Snjóhula um jólin (almenn sannindi)
Við skulum nú líta á snjóhulu um jólin. Snjóhula er metin daglega á fjölmörgum veðurathugunarstöðvum. Við getum reiknað meðaltal hennar - segjumst fá út hversu stór hundraðshluti jarðar er snævi hulinn. Flestir veðurathugunarmenn meta einnig snjóhulu í fjöllum, þá í 500 til 700 metra hæð yfir stöðinni. Upplýsingar um daglega snjóhulu eru í gagnagrunni Veðurstofunnar aftur til haustsins 1964 - (mánaðameðaltöl eigum við aftur til 1924 fyrir byggð, en aftur til 1935 fyrir fjöll).
Reiknum nú meðaltöl fyrir dagana þrjá, 24., 25. og 26. desember frá 1964.
Lárétti ásinn sýnir árin, en sá lóðrétti meðalsnjóhulu. Meðaltal allra jólanna 54 er 68 prósent. Áraskipti eru mikil - eins og vænta mátti. Minnst var snjóhulan árið 2002, en þá mátti heita alautt í öllum byggðum landsins, meðalsnjóhulan aðeins 4 prósent. Litlu meiri snjór var 1997 og sömuleiðis mjög lítill snjór um jólin 1970, 2001 og 2006. Jólasnjórinn virðist hafa jafnað sig á síðari árum. Dagarnir þrír hafa allir saman aldrei verið alhvítir á öllu landinu á tímabilinu. Snjólagsmeðaltalið var hæst á jólum 1980, 96 prósent - það má nú heita alhvítt.
Reiknum við leitnina (heldur vafasamt - eins og venjulega) kemur í ljós að snjóhulan hefur að meðaltali minnkað um 2 prósent á áratugi hverjum - varla með nokkru móti hægt að segja að það sé marktækt.
Snjóhula í fjöllum er ekki jafnbreytileg - meðaltalið er 87 prósent - nægilega hátt til þess að við getum með sæmilegri samvisku sagt að fjöll á Íslandi ofan við 500 til 700 metra séu að meðaltali alhvít á jólum. Fáein ár skera sig nokkuð úr, jólin 1997 sérstaklega áberandi, þá var snjóhulan ekki nema 36 prósent á fjöllum. Fáein ár á þessari öld hafa einnig verið snjólítil til fjalla á jólum. Leitnin er -2 prósent á áratug - sú sama og í byggð.
Annars fylgjast snjóhula á fjöllum og í byggð vel að.
Lárétti ásinn sýnir snjóhulu í byggð, en sá ljóðrétti til fjalla. Snjóhula getur auðvitað ekki orðið meiri en 100 prósent - þess vegna munar minna og minna á gildunum eftir því sem nær 100 prósentunum kemur.
Við gætum nú framkvæmt ámóta reikninga fyrir Norður- og Suðurland í sitt hvoru lagi - en látum það bíða betri tíma.
22.12.2018 | 03:06
Frostrigning?
Þegar vindur er hægur og veður heiðríkt kólnar yfirborð landsins hratt (mismikið að vísu). Hiti þess getur verið neðan frostmarks þó ekki sé frost í lofti. Við þessar aðstæður getur rigning eða súld orðið að ís við snertingu við jörð. Veðurlíkön nútímans reyna að segja fyrir um aðstæður sem þessar - en gengur það af ýmsum ástæðum misvel. Við notum tækifærið og lítum á spákort igb-líkansins um úrkomutegund aðra nótt - aðfaranótt þorláksmessu. Úrkoman sem verið er að spá er ekki mikil að magni til - og gæti þess vegna fallið annars staðar en spáin segir til um - eða ekki. Aðstæður eru svipaðar allt kvöldið og alla nóttina um mestallt sunnan- og vestanvert landið. Minniháttar súldar-, élja- og regnbakkar koma úr vestri inn yfir landið -
Fjólubláir litir segja að úrkoma sé snjókoma, grænir tákna regn - en bláir frostrigningu eða frostúða. Þegar þetta kort gildir (kl.2 á aðfaranótt þorláksmessu) er blár blettur á Reykjanesi - nærri Grindavík. Fyrr um kvöldið og síðar um nóttina eru ámóta blettir annars staðar á Suður- og Vesturlandi - aldrei mjög stórir eða langlífir - en frostrigningin er jafnhættuleg fyrir það - fljúgandi hálka getur myndast á örskammri stund þó úrkomumagnið sé sáralítið.
Vegfarendur - gangandi og akandi ættu að hafa þennan möguleika í huga og hegða sér samkvæmt því.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 03:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.12.2018 | 11:31
Fyrstu 20 dagar desembermánaðar
Hlýtt hefur verið á landinu fyrstu 20 daga desembermánaðar. Meðalhiti í Reykjavík er +2,8 stig, 2,5 stig ofan meðallags áranna 1961-1990 og +2,4 stig ofan meðallags sömu daga síðustu tíu árin. Hitinn er nú í fimmtahlýjasta sæti sömu daga á öldinni. Hlýjastir voru þeir 2016 - meðalhiti 5,6 stig,en kaldastir 2011, meðalhiti -2,8 stig. Á langa listanum er hiti mánaðarins til þessa í 15.hlýjasta sæti (af 143). Á þeim lista er 2016 líka í efsta sæti, en 1886 er í því neðsta, þá var meðalhiti -5,6 stig.
Frost hefur mælst 9 daga mánaðarins til þessa í Reykjavík (sá 21.talinn með). Árið 2016 var fjöldi frostdaga á sama tíma aðeins tveir, og árið 2002 mældist ekkert frost í Reykjavík fyrstu þrjár vikur desembermánaðar. Nokkrum sinnum hefur frost verið á hverjum degi þessar fyrstu þrjár vikur desember, siðast 2014.
Á Akureyri er meðalhiti daganna 20 0,0 stig, +1,2 ofan meðallags 1961-1990, en 1,1 ofan meðallags síðustu tíu ára.
Hiti er ofan meðallags síðustu tíu ára á öllum veðurstöðvum landsins, mest á Mörk á Landi þar sem vikið er +3,5 stig, en langminnst er vikið á Sauðárkróksflugvelli, +0,1 stig.
Úrkoma hefur mælst 53,6 mm í Reykjavík og er það í meðallagi. Á Akureyri hefur úrkoma mælst 51,7 mm, ríflegt meðallag.
Sólskinsstundir hafa aðeins mælst 5,1 í Reykjavík í mánuðinum, og er það rétt neðan meðallags.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 14:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.12.2018 | 02:23
Hlý jól (og köld)
Þegar þetta er skrifað (seint á fimmtudagskvöldi 20.desember) eru reiknimiðstöðvar helst á því að jólin verði með hlýrra móti hér á landi þetta árið. Þó ólíklegt verði að telja að um methlýindi sé að ræða virðist þó sem fremur hlýtt verði alla dagana, aðfangadag og jóladagana báða. Við spyrjum þá hvenær þessir þrír dagar (saman) hafa orðið hlýjastir á landinu. Um það höfum við nokkuð góðar upplýsingar um 70 ár aftur í tímann - og reyndar mun lengra fyrir Reykjavík og Stykkishólm. Að reikna út meðalhita fyrir einstaka daga langt aftur í tímann er þó ekki mjög áreiðanleg iðja. Þó við ráðum vel við mánaðarmeðalhita er vafasamara að reikna út dægurmeðaltöl á grundvelli 1 til 3 athugana. Við gerum það samt - en lítum fremur á það sem leik heldur en alvöru.
Leitum nú að hlýjustu og köldustu jólunum (miðum við alla dagana, 24., 25. og 26.desember). Notum fyrst sjálfvirku stöðvarnar (og aðeins í byggð). Við náum í rúm 20 ár, frá 1996 til 2017 (2 aukastafur er marklaus - en notum hann samt við röðun).
Sjálfvirkar stöðvar | ||||
röð | ár | mhiti | ||
1 | 2006 | 4,62 | ||
2 | 2002 | 4,38 | ||
3 | 2005 | 4,17 | ||
4 | 1997 | 3,76 | ||
5 | 2008 | 3,22 | ||
6 | 2010 | 1,98 | ||
17 | 2004 | -2,44 | ||
18 | 2017 | -2,50 | ||
19 | 2001 | -2,88 | ||
20 | 2012 | -3,00 | ||
21 | 2000 | -3,55 | ||
22 | 2015 | -4,71 |
Hlýjast var um jólin 2006 - meðalhiti 4,6 stig, einnig var mjög hlýtt um jólin 2002 og 2005. Kaldast var um jólin 2015, meðalhiti -4,2 stig. Við sjáum að nokkuð kalt var í fyrra, 2017.
Mannaða athugunarkerfið er farið að gisna mikið - en við lítum á tölur þess líka - nema nú getum við farið allt aftur til 1949.
Mannaðar stöðvar | ||||
röð | ár | |||
1 | 2006 | 4,49 | ||
2 | 2005 | 4,43 | ||
3 | 1958 | 4,26 | ||
4 | 2002 | 3,79 | ||
5 | 1956 | 3,74 | ||
6 | 1997 | 3,60 | ||
64 | 1980 | -5,96 | ||
65 | 1988 | -6,41 | ||
66 | 1968 | -6,90 | ||
67 | 1985 | -7,03 | ||
68 | 1965 | -7,80 | ||
69 | 1995 | -9,86 |
Hér eru jólin 2006 líka efst á blaði og 2005 og 2002 einnig mjög ofarlega. Kannski var ekki svo óskaplega kalt um jólin 2015 þegar allt kemur til alls - því að minnsta kosti sjáum við þau ekki meðal sex köldustu. Langkaldast var 1995, meðalhiti -9,9 stig og býsna kalt 1965 líka, -7,8 stig.
En við leitum enn lengra aftur með hjálp mælinga í Stykkishólmi og Reykjavík. Listaniðurstöður eru í viðhenginu - en upplýsum hér að hlýjustu jólin í Stykkishólmi (af 171) voru 1926, en næsthlýjast var 1851 - og svo 2006. Í Reykjavík (142 ár) voru jólin hlýjust 1933 (í 4.sæti í Stykkishólmi), en næsthlýjust 1897. Þess má geta að jólin 1851 voru líka mjög hlý í Reykjavík (þó við höldum þeim utan listans).
Langkaldast var um jólin í Stykkishólmi og í Reykjavík 1880 - vonandi sjáum við ekkert slíkt í framtíðinni (en aldrei að vita samt). Næstkaldast var á báðum stöðum um jólin 1877. Við eigum eftir að kynnast þessum árum báðum í árayfirliti hungurdiska - vonandi kemur að þeim um síðir.
Að lokum lítum við á mynd (nokkuð ljóta og erfiða - alla vega ekki til fyrirmyndar). Hún sýnir jólahita í Reykjavík (gráir krossar) og í Stykkishólmi (brún þrepalína) - auk 10-ára keðjumeðaltala jólahita á þessum stöðum.
Örvar benda á flest árin sem nefnd hafa verið. Við tökum eftir því að 10-ára keðjurnar fylgjast allvel að - það er að meðaltali oftast ívið hlýrra um jólin í Reykjavík heldur en í Stykkishólmi - en ekki þó alltaf. Það er síðla hausts (í nóvember) sem munur á hita stöðvanna tveggja er minnstur - mestur er hann á vorin.
Reynt er að reikna leitni fyrir Stykkishólm - hún er (fastir liðir eins og venjulega) +0,7 stig á öld - en taka má eftir því að hlýnunar þeirrar sem hefur verið svo áberandi á þessari öld gætir nær ekkert - jú það var hlýtt í nokkur ár upp úr aldamótunum - en síðan 2010 hafa jólin ekkert verið neitt sérlega hlý í langtímasamhengi - (en kannski ekki sérlega köld heldur) það var t.d. oftast hlýrra um jól á árunum milli 1890 og 1900. - Allt er þetta þó tilviljunum háð.
En munið listann í viðhenginu.
21.12.2018 | 00:22
Smásteypa (á hálum ís)
Best er að byrja pistilinn á því að segja sem er: Það sem stendur hér að neðan telst vera della hin mesta - en látum hana flakka samt.
Rímbeygla er gömul samsuða fornra handrita um tímatal og fleira (held að Björn á Skarðsá komi við sögu hennar) - sem var svo prentað ásamt latneskri þýðingu og athugasemdum fyrir margt löngu - útgáfan sem ritstjóri hungurdiska horfir á er frá 1801. Þar er mikill og um margt mjög feitur fróðleikur en líka veðurspá - þar sem sagt er fyrir um veður ársins eftir því hvaða vikudag jóladag ber upp á. Frumtexti sá sem spáin byggir á er örugglega erlendur - en látum það vera. Jóladagur er í ár á þriðjudegi. Svo segir í rímbeyglu [s572 í prentuðu útgáfunni]:
Ef jóladag ber á týrsdag (þriðjudag), þá er vetur mikill og vor regnsamt, og sumar vott, hafandi konum við voða sjálfan, konungafall og Jálla.
Ritstjórinn hefur ekki græna glóru um hvað er átt við með Jálla - en google finnur orðið á ýmsum tungum - látum þýðingarnar liggja á milli hluta (það er hægt að skemmta sér við þær). Veðurhluti textans lýsir reyndar veðrinu á árinu sem er að líða (2018) ekki svo illa - kannski átt sé við jóladagsárið - en ekki það sem á eftir kemur?
Á næsta ári ber jóladag upp á miðvikudag - hvað segir rímbeygla um hann?
Ef jóladag ber á óðinsdag (miðvikudag), þá er vetur harður og sterkur, vor illt, sumar illt; vín litið eða hunang og menn vesler, því að þá er óáran â hvervetna.
Ekki efnilegt - hvort sem átt er við 2019 eða 2020.
Í enskum heimildum má finna ámóta jóladagsvikudagaspeki - svo bragðlíka satt best að segja að varla er tilviljun - reyndar ber spánum þar ekki alveg saman við þær íslensku. Lítum á þriðjudaginn:
If Christmas day on Tuesday be,
That year shall many women die,
And that winter grow great marvels;
Ships shall be in great perils;
That year shall kings and lords be slain,
And many other people near them.
A dry summer that year shall be,
As all that are born therein may see;
They shall be strong and covetous.
If thou steal aught, thou losest thy life,
For thou shalt die through sword or knife;
But if thou fall sick, ´t is certain,
Thou shall turn to life again.
Við sjáum hér að konum er líka ógnað í enska textanum [margar konur deyja] - og sömuleiðis falla konungar [kings and lords be slain]. Kannski er sagt að vetur sé mikill - rétt eins og í íslensku útgáfunni [winter grow great marvels]. Hins vegar er spáð þurrkasumri en ekki votu [a dry summer]. Þurrkasumur á Bretlandi og votviðri á Íslandi fara svosem oft saman. Kannski Björn á Skarðsá hafi vitað það?
Miðvikudagsvísan enska spáir hörðum vetri - en góðu sumri (svo ekki ber saman við þá íslensku).
Nú er spurningin hvar frumtextinn liggur - er hann kannski franskur? Hvergi er minnst á vín og hungang í enska textanum. Nánari könnun á þessu efni er vísað til til þess bærra fræðinga.
Tilvísun á enskar spávísur. Á síðunni er líka vitnað í annað kvæði um sama efni - þar er aðeins fjallað um sunnudaginn - og þar er víns getið.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 00:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.12.2018 | 02:26
Sólstöðuórói
Veturinn sækir oft í sig veðrið á norðurhveli í kringum sólstöðurnar, bylgjur vestanvindabeltisins ná fullum vexti og sparka kalda loftinu á norðurslóðum til og frá. Erfitt er að segja hvernig kuldinn bregst við - vægast sagt.
Hefðbundið norðurhvelskort sýnir stöðu 500 hPa-flatarins og þykktarinnar síðdegis á fimmtudag, 18.desember. Þá verður lægðin sem valdið hefur hvassviðrinu á landinu nú í kvöld (mánudag) farin að grynnast að mun og væg og fremur hlý austanátt ríkjandi í háloftum yfir landinu. Í lægstu lögum streymir kalt loft þó enn til suðurs um Grænlandssund með nokkrum ákafa - en gætir lítt hér á landi - jafnvel þó áttin snúist alveg til norðausturs.
Heildregnu línurnar sýna hæð 500 hPa-flatarins, því þéttari sem þær eru því meiri er vindur í efri hluta veðrahvolfs. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfsins, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Á þessum árstíma telst græni liturinn fremur hlýr hér við land og lítil hætta á miklu frosti þegar hann liggur yfir (nema í algjöru hægviðri í innsveitum).
Svo virðist sem næsta lægð - sú sem á kortinu er ekki fjarri Nýfundnalandi muni fara til austurs langt fyrir sunnan land.
Sem stendur er langt í alvörukulda - við þurfum að leita norður fyrir hlýja brú (sem merkt er með breiðri strikalínu á kortinu) til að finna hringrásina í kringum kuldapollana stóru.
Kanadakuldapollurinn - sá sem við höfum valið að kalla Stóra-Bola er heldur slakur þessa dagana, en bróðir hans Síberíu-Blesi aftur á móti mjög öflugur. Á þessu korti hreyfast þeir ekki mikið - en vestur í Bandaríkjunum er öflug bylgja sem beinir hlýju lofti til norðurs. Þetta er jólaveðrið okkar - hver sem svo smáatriði þess verða.
Sem stendur gera reiknimiðstöðvar ráð fyrir því að þetta hlýja loft sé líklegt til að brjóta brúna niður - og jafnvel stugga verulega við kuldapollunum - en á hvaða hátt það verður er ekki ljóst á þessu stigi. Kannski hverfur brúin alveg? En hvað tekur þá við? Ruddalegur lægðagangur með úrhellisrigningu og útsynningsbyljum til skiptis - eða suðvestanhlýindi með sudda vestanlands en blíðu eystra - eða alvarlegt norðanskot með mikilli frosthörku? Eða geigar vestanhöggið kannski alveg?
Opnar sólstöðuóróinn stöðuna?
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (14.11.): 38
- Sl. sólarhring: 322
- Sl. viku: 2300
- Frá upphafi: 2410289
Annað
- Innlit í dag: 29
- Innlit sl. viku: 2060
- Gestir í dag: 27
- IP-tölur í dag: 27
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010