Hlý jól (og köld)

Þegar þetta er skrifað (seint á fimmtudagskvöldi 20.desember) eru reiknimiðstöðvar helst á því að jólin verði með hlýrra móti hér á landi þetta árið. Þó ólíklegt verði að telja að um methlýindi sé að ræða virðist þó sem fremur hlýtt verði alla dagana, aðfangadag og jóladagana báða. Við spyrjum þá hvenær þessir þrír dagar (saman) hafa orðið hlýjastir á landinu. Um það höfum við nokkuð góðar upplýsingar um 70 ár aftur í tímann - og reyndar mun lengra fyrir Reykjavík og Stykkishólm. Að reikna út meðalhita fyrir einstaka daga langt aftur í tímann er þó ekki mjög áreiðanleg iðja. Þó við ráðum vel við mánaðarmeðalhita er vafasamara að reikna út dægurmeðaltöl á grundvelli 1 til 3 athugana. Við gerum það samt - en lítum fremur á það sem leik heldur en alvöru.

Leitum nú að hlýjustu og köldustu jólunum (miðum við alla dagana, 24., 25. og 26.desember). Notum fyrst sjálfvirku stöðvarnar (og aðeins í byggð). Við náum í rúm 20 ár, frá 1996 til 2017 (2 aukastafur er marklaus - en notum hann samt við röðun). 

 Sjálfvirkar stöðvar  
 röðár mhiti
 12006 4,62
 22002 4,38
 32005 4,17
 41997 3,76
 52008 3,22
 62010 1,98
     
 172004 -2,44
 182017 -2,50
 192001 -2,88
 202012 -3,00
 212000 -3,55
 222015 -4,71

Hlýjast var um jólin 2006 - meðalhiti 4,6 stig, einnig var mjög hlýtt um jólin 2002 og 2005. Kaldast var um jólin 2015, meðalhiti -4,2 stig. Við sjáum að nokkuð kalt var í fyrra, 2017. 

Mannaða athugunarkerfið er farið að gisna mikið - en við lítum á tölur þess líka - nema nú getum við farið allt aftur til 1949. 

 Mannaðar stöðvar  
 röðár  
 12006 4,49
 22005 4,43
 31958 4,26
 42002 3,79
 51956 3,74
 61997 3,60
     
 641980 -5,96
 651988 -6,41
 661968 -6,90
 671985 -7,03
 681965 -7,80
 691995 -9,86

Hér eru jólin 2006 líka efst á blaði og 2005 og 2002 einnig mjög ofarlega. Kannski var ekki svo óskaplega kalt um jólin 2015 þegar allt kemur til alls - því að minnsta kosti sjáum við þau ekki meðal sex köldustu. Langkaldast var 1995, meðalhiti -9,9 stig og býsna kalt 1965 líka, -7,8 stig. 

En við leitum enn lengra aftur með hjálp mælinga í Stykkishólmi og Reykjavík. Listaniðurstöður eru í viðhenginu - en upplýsum hér að hlýjustu jólin í Stykkishólmi (af 171) voru 1926, en næsthlýjast var 1851 - og svo 2006. Í Reykjavík (142 ár) voru jólin hlýjust 1933 (í 4.sæti í Stykkishólmi), en næsthlýjust 1897. Þess má geta að jólin 1851 voru líka mjög hlý í Reykjavík (þó við höldum þeim utan listans). 

Langkaldast var um jólin í Stykkishólmi og í Reykjavík 1880 - vonandi sjáum við ekkert slíkt í framtíðinni (en aldrei að vita samt). Næstkaldast var á báðum stöðum um jólin 1877. Við eigum eftir að kynnast þessum árum báðum í árayfirliti hungurdiska - vonandi kemur að þeim um síðir. 

Að lokum lítum við á mynd (nokkuð ljóta og erfiða - alla vega ekki til fyrirmyndar). Hún sýnir jólahita í Reykjavík (gráir krossar) og í Stykkishólmi (brún þrepalína) - auk 10-ára keðjumeðaltala jólahita á þessum stöðum. 

w-blogg211218

Örvar benda á flest árin sem nefnd hafa verið. Við tökum eftir því að 10-ára keðjurnar fylgjast allvel að - það er að meðaltali oftast ívið hlýrra um jólin í Reykjavík heldur en í Stykkishólmi - en ekki þó alltaf. Það er síðla hausts (í nóvember) sem munur á hita stöðvanna tveggja er minnstur - mestur er hann á vorin. 

Reynt er að reikna leitni fyrir Stykkishólm - hún er (fastir liðir eins og venjulega) +0,7 stig á öld - en taka má eftir því að hlýnunar þeirrar sem hefur verið svo áberandi á þessari öld gætir nær ekkert - jú það var hlýtt í nokkur ár upp úr aldamótunum - en síðan 2010 hafa jólin ekkert verið neitt sérlega hlý í langtímasamhengi - (en kannski ekki sérlega köld heldur) það var t.d. oftast hlýrra um jól á árunum milli 1890 og 1900. - Allt er þetta þó tilviljunum háð. 

En munið listann í viðhenginu.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Júlí 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30 31      

Nýjustu myndir

  • w-blogg220724b
  • w-blogg220724a
  • w-blogg210724
  • Slide2
  • Slide1

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.7.): 17
  • Sl. sólarhring: 436
  • Sl. viku: 2733
  • Frá upphafi: 2378309

Annað

  • Innlit í dag: 14
  • Innlit sl. viku: 2421
  • Gestir í dag: 14
  • IP-tölur í dag: 14

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband