Árstíðasveifla snjóhulunnar

Árstíðasveiflan er ritstjóra hungurdiska hugstæð - það er margt í náttúru og mannheimum sem sveiflast með sólu - á einhvern hátt. Eitt af því er snjóhula - hún fylgir árstíðasveiflu hita að miklu leyti. 

Hér lítum við á meðalsnjóhulu hvers almanaksdags áranna 1965 til 2017. Reikningarnir eru ekki alveg skotheldir - ýmislegt kusk er í gögnunum og þó töluverð vinna hafi farið í að hreinsa þau er henni seint lokið. - En aðalatriðin ættu samt að vera sæmilega áreiðanleg. Snjóhula er metin á fjölmörgum veðurstöðvum kl.9 að morgni - þá er einnig slegið á snjóhulu í 500 til 700 metra hæð í fjöllum í nágrenni stöðvarinnar - séu þau einhver. Hægt er að reikna meðalsnjóhulu landsins á ýmsa vegu - og dálítill munur er á tölum eftir aðferðum - höfum það í huga. En lögun árstíðasveiflunnar verður þó svipuð eða hin sama. Á fyrri mynd dagsins sjáum við meðalsnjóhulu hvers almanaksdags - myndin nær yfir 18 mánuði til þess að bæði sumar og vetur komi fram í heilu lagi.

w-blogg241218a

Neðri ferillinn á myndinni sýnir meðalsnjóhulu í byggð. Alautt má heita á sumrin - að sjálfsögðu - en meðalsnjóhula á vetrum er lengst af á bilinu 60 til 68 prósent. - Það er nokkuð merkilegt að frá því um 20.desember til marsloka er meðaltalið nokkuð stöðugt. Frá og með marslokum fara sól og varmi að hafa betur en nýsnævið. Það er 19.janúar sem er snjóasamasti dagur ársins - en fer örugglega eftir því hvaða tímabil er undir. 

Meðalsnjóhula ársins í byggð er um 30 prósent. Á myndinni fer ferillinn niður fyrir meðaltal 2.maí á vorin, en upp fyrir það aftur 3.nóvember. 

Efri ferillinn sýnir meðalsnjóhulu á fjöllum (500 til 700 metra hæð). Í fljótu bragði virðist lögun hans svipuð - nema hvað hann liggur hærra - meðaltalið er um 55 prósent. Snjóhula vetrarins - frá því rétt fyrir jól til marsloka er svipuð allan tímann, en snjór endist í fjöllum fram eftir sumri og er lágmarki ekki náð fyrr en 24.ágúst. Þá fer aftur að snjóa í fjöll. 

Á vorin fer fjallaferillinn niður fyrir meðaltalið 16.maí, en upp fyrir það aftur 25.október. 

Þó ferlarnir sýnist í fljótu bragði svipaðir er samt nokkur munur á þeim. Hann sést vel á næstu mynd.

w-blogg241218b

Rauða línan sem liggur þvert yfir myndina sýnir meðalmun snjóhulu á fjöllum og í byggð (25%). Veturinn frá því um miðjan desember til marsloka er allur nærri því meðaltali. Munurinn vex mjög ört í apríl (þegar snjó tekur ört upp í byggð - en meiri tíma tekur að vinna á fyrningum á fjöllum. Það er 11.maí sem munurinn nær hámarki. Hann fer síðan niður fyrir ársmeðaltalið 17.júní og nær lágmarki 24.ágúst - þegar bæði byggðir og hálendi eru snjólaus. 

Frá 24.ágúst fer snjóa að gæta á fjöllum og meira en í byggð. Það er 3.október sem meðalmun er náð, en mestur er munurinn 7.nóvember. Úr því vinnur snjór í byggð á. 

Hungurdiskar hafa áður fjallað um snjóhulu - í pistli þann 19.janúar 2016 var t.d. litið á samband meðalhita og snjóhulu. Þar kom fram að hlýnun um 1 stig myndi stytta „snjótímabilið“ um þrjár vikur. Sú framsetning gagna sem hér er notuð gæti bent til svipaðar styttingar - en nokkra vinnu þarf að leggja í hana til að tölur varði nefnanlegar.  

Ritstjóri hungurdiska óskar landsmönnum öllum gleðilegra jóla. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg200324b
  • w-blogg200324a
  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 24
  • Sl. sólarhring: 60
  • Sl. viku: 515
  • Frá upphafi: 2343277

Annað

  • Innlit í dag: 21
  • Innlit sl. viku: 467
  • Gestir í dag: 20
  • IP-tölur í dag: 19

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband