Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2018
29.11.2018 | 20:51
Alþjóðahaustið
Veðurstofan telur október og nóvember til haustmánaða og að vetur byrji með desember. Alþjóðaveðurfræðistofnunin skilgreinir árstíðirnar fjórar jafnlangar og telur september með haustinu ásamt október og nóvember. Við lítum nú á meðalhita alþjóðahaustsins en látum uppgjör hins íslenska bíða mánaðamótanna.
Myndin sýnir meðalhita í byggðum landsins allt aftur til 1874 (landsmeðaltöl fyrir þann tíma eru mun óvissari - en samt sett inn aftur til 1823 okkur til skemmtunar - með daufari lit þó). Við sjáum að haustið 2018 er ekki fjarri meðallagi hausta þessarar aldar, en nokkuð hlýtt sé litið til langs tíma. Síðustu fjögur haust, 2014 til 2017 voru þó öll hlýrri en það sem nú er að líða, 2016 hlýjast þeirra.
Um miðja síðustu öld komu mörg hlý haust, hlýjast þeirra var 1941, en einnig var afburðahlýtt 1958 og 1945. Mikil umskipti urðu haustið 1962 eftir hlýindi áður og næstu 30 ár bar varla við að hlýtt haust gerði vart við sig - nema 1976. Næsta hlýja haust á eftir því kom ekki fyrr en 1993. Sérlega kalt var alþjóðahaustin 1979 til 1983 - fimm í röð, kaldast 1981. Þá hafði jafnkalt haust ekki komið síðan 1923 og ekki kaldara síðan hið illræmda 1917.
Þegar til langs tíma er litið virðist hausthitinn heldur á uppleið - ekki hratt þó og enn bíðum við eftir hlýrri haustum en þeim hlýjustu fyrr á árum. Reiknuð leitni er +0.9 stig á öld.
Við endurtökum að lokum það sem sagt var í upphafi: Við erum hér að reikna út meðalhita mánaðanna september til nóvember, en september er venjulega talinn með sumrinu hér á landi.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 20:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.11.2018 | 22:21
Af árinu 1825
Veðurfar var ekki alslæmt á árinu 1825, Giskað er á að meðalhiti í Reykjavík hafi verið 3,0 stig, en 2,2 í Stykkishólmi. Fyrstu tveir mánuðir ársins voru kaldir, mars sæmilega hlýr, en apríl aftur á móti sérlega kaldur og maí kaldur líka. Ágúst nóvember og desember voru einnig kaldir, en aftur á móti hlýtt í september og október. Ekki var mælt víða. Jón Þorsteinsson landlæknir mældi í Nesi við Seltjörn og séra Pétur á Víðivöllum framan af ári. Ber þessum mælingum vel saman fram undir vor, en síður næstu mánuði þar á eftir. Má vera að það stafi af því að mælingar Péturs voru gerðar mjög snemma morguns. Vorið var þurrt, stillt og næturfrost mjög tíð nyrðra - hinn víði Skagafjörður dæmigerður staður fyrir kalda morgna við slík skilyrði - þó mjög hlýtt geti verið þar að deginum.
Myndin sýnir daglegan morgunhita í Nesi. Við sjáum að allgóða hláku gerði snemma árs - hennar er getið í öðrum heimildum. Mesta frost ársins mældist 2.febrúar, -20,5 stig. Það er mikið á Seltjarnarnesi. Allgóður hlákukafli var í mars, en afarkalt í apríl eins og sjá má og sömuleiðis gerði allsnarpt kuldakast snemma í júní. Fjölmargir góðir dagar komu síðan í júní og júlí, en ágúst var almennt kaldur eins og sjá má - þó hann hafi skilað hæsta hita árins í Nesi.
Myndin sýnir morgunþrýsting í Nesi 1825. Árstíðasveiflan er hefðbundin að því leyti að þrýstingur er viðloðandi hæstur um vorið - en öfgar eru ekki mjög miklar - nema óvenjulegur háþrýstingur - miðað við árstíma - var nokkra daga eftir miðjan júlí. Í annálatextum er talað um að mikla hita hafi gert um sumarið - e.t.v. hefur það verið um þetta leyti og fyrr - en engar mælingar höfum við sem geta sagt okkur hversu miklir þeir voru - nema eina tölu sem Espólin nefnir (sjá hér að neðan) og gæti verið af mæli Péturs á Víðivöllum.
Við látum nú heimildir lýsa tíð og veðri og byrjum á ársyfirliti annáls 19. aldar. Annállinn segir að vanda frá mörgum mannsköðum - en þar sem þau verða ekki sett á ákveðna daga eða vikur látum við þeirra flestra ekki getið hér:
Árið byrjaði með harðviðrum og frosti; hlýnaði um þrettánda og kom leysing mikil, herti aftur með þorra; var hann umhleypingasamur með snjókyngjum, jarðbönnum og áhlaupsbyljum fram undir sumarmál, einkum norðan- og austanlands. Vorið var stormasamt og kalt, stundum með fjúkgangi og greri seint. Sumarið var allgott, voru þó kuldaköst öðruhverju, en afarheitt á milli; varð heyafli nærri meðallagi, því nýting var víða hagkvæm. Haust frá Mikaelsmessu var votsamt fram yfir veturnætur, úr því harðnaði með skörpum frostum, stormum og hríðum til jólaföstu. Eftir það var allgóð tíð til ársloka. Hafís lá fyrir Norðurlandi um vorið.
Við reynum að skipta heimildunum niður á árstíðir og byrjum á vetri:
Brandsstaðaannáll segir frá:
Fannlög lágu nú fjarskaleg, en 5.janúar kom hláka, rigning og vatnsgangur langt framúrskarandi og stórflóð í vatnsföll þann 10.-11. jan. Stórskemmdir urðu víða á engi fyrir jakaruðning og hestar fórust í Víðidalsá og Hvítá í Borgarfirði. Hlákan varði 8 daga og urðu heiðar auðar. Eftir það útsynningar og éljagangur með hægu frosti. Með febrúar fannakafli til 13., að tók upp aftur, síðan mjög óstöðugt, en frostalítið. Um miðgóu fóru vermenn suður, þangað til bannaði ófærð og höstugt veður. Í góulok besti bati og vorgæði á eftir, utan snjóíkast 8.-17. apríl.
Espólín segir af vetri:
CXLIII. Kap. Var kuldasamt og snjóamikið og jarðbönn öndverðan vetur og gjörði áhlaupabylji mikla eftir þrettánda, en jörð kom upp og urðu skriðuföll og flóð mikil. Voru umhleypingar miklir á þorra og byljir og var þungur allur vetur öndverður austnorður um, urðu menn nokkrir úti í Þingeyjar þingi, en 8 í Húnavatns þingi og fjárskaðar miklir. Fiskur var mikill fyrir syðra og eystra, en litlar gæftir, var og mikill fiskur fyrir Jökli; á góu voru hlákur og veður hörð, og gjörðu skaða sumstaðar, svo var og öndverðan einmánuð; ... Kályrkja hafði verið allmikil í Dalasýslu sumarið fyrir (s 151).
Á kyndilmessu [2.febrúar] urðu úti 8 manns í Húnavatnssýslu, flest nálægt Blöndu. [neðanmáls: Frá þeim atburðum er greinilegast sagt í Húnvetningasögu Gísla Konráðssonar]. (s93)
Klausturpóstur 1825 (viii,1, bls.20).
... frá því seint í september til þrettánda jóla aldrei linnt mikilli kulda veðráttu, frostum og í mörgum sveitum miklum snjóa þunga og jarðbönnum, án þess nokkurn tíma fyrr hlánaði.
Klausturpósturinn 1825 (VIII, 3, bls. 51)
Vetrarfari til þrettánda lýsti Klausturpósts bls. 20. Hlákan þá varð mjög stórkostleg með ofsaveðrum og óveðráttu; leysti samt snjó, svo kom upp jörð um hálfann mánuð, en olli mikilla skriðufalla og ofsa flóða, sem sumstaðar drekktu löndum og 6 hestum til dauðs í Norðurá í Mýrasýslu og skekktu Sauðlauksdalskirkju á Barðaströnd. Snjóflóð tók af baðstofukarm í Reynishverfi í Mýrdal eystra með 1 manni í, sem fórst. [... um slys ótengd veðri] Þorrinn leið út með ofsa umhleypingum, áfreðum og jarðbönnum, snjóa kyngjum og áhlaupa byljum. Í útsveitum Múla- og Austur sýslum þungur vetur frá hausti, sjaldan gaf á sjó til febrúar loka, en hlánaði þá með góu. Fiskur var samt nógur og góður fyrir austan og sunnan með kominn í Garð innfyrir Suðurnesja skaga. Nógur líka kringum Snæfells Jökul, hvaðan vissari fregnir fækka nú marsvína fenginum til 5 eða 600 og stytta Bjarneyjar hvalinn til 27 álna. Hey reynast víða mjög þrota létt og mjólkur treg, sem eykur á vetrar harðindin. Átta menn urðu úti í Húnavatns sýslu um kyndilmessu.
Klausturpósturinn 1825 (VIII, 12, bls. 204)
Á bls.51 minntist ég á vetrarfar og árgang til öndverðs marsmánaðar, en úr því til vordaga linnti ekki ofsa umhleypingum með stormi og köföldum af öllum áttum. Þó vetur hér yrði frostvægur, þótti hann engu að síður einhver hin þyngri, því sjaldan gaf flestum ástöðuveður, sjaldan skipum ræði á sjó án hrakninga og lífsháska manna. Vegna sérlegra ógæfta varð því arðsvonin af snemma að landi gengnum vænum fiski sunnanlands, einkum í Faxafirði, í uppskerunni rýr, en almennt tjón margra á þau svo útdragandi, dýra og fjöldanum óholla neta útbúnaði, olli margra útörmun; því sumir er allt höfðu til láns fengið týndu þar við meir en aleigu virði; fæstir komust skaðlítið af, einstökum fáum vegnaði betur. Austanmeð og í Vestmannaeyjum fiskaðist betur og undir Jökli.
28-2 1825 (Jón Þorsteinsson athugasemd í veðurskýrslu): Den 18de Januarii mærkedes hæftigt Jordskjælv. [Vart varð við öflugan jarðskjálfta þann 18. janúar)
Saurbæ Eyjafirði 5-2 1825 [Einar Thorlacius] (s13)
Sumarið [1824] var hið allra blíðasta þangað til einum mánuði fyrir vetur, úr því einlæg frost og lognkyrrur til þess um þrettánda, þá tók upp allan þann snjó, sem féll á jólaföstunni. Nú hafa aftur í viku gengið skörp norðan kaföld. Um þrettándann heyrðust í vetur í Norður-sýslu iðulegir landskjálftar, og meintu menn þann ókyrrleika í Mývatns gömlu eldfjöllum.
Jón á Möðrufelli talar ekki illa um veturinn, segir að janúar megi telja góðan, þann 15. segir hann að komið hafi allra besti bati og að öríst sé orðið. Bylji gerði um mánaðamótin og þann 5. febrúar var kominn mikill snjór, febrúar segir hann nokkuð stopulan að veðráttu, en vel í meðallagi. Mars telur hann makalaust dágóðan, apríl í kaldara lagi, um tíma hafi tíð verið hörð og frostasöm, en segir mánuðinn útliðinn hafa verið yfir höfuð nokkuð góðan. Betur hafi sum sé ræst úr en útlit var fyrir um tíma.
Vor og sumar:
Brandstaðaannáll:
Eftir 8. maí gróður og votviðri, en eftir hvítasunnu [22.maí] sífelld norðanátt, oft kalsi og næturfrost. Lestir fóru í júnílok. Gáfust þá enn þurrviðri. 17.-18. júlí rigndi mjög. Ei varð meir en meðal grasvöxtur. Sláttur byrjaði um mitt sumar. Var rekjusamt og ógnarleg rigning nóttina 31. júlí. Féll þá stór skriða í Guðrúnarstaðahlíð [í Vatnsdal] úr fjallsbrún ofan í á. Var hún engri skepnu fær viku á eftir. Skemmdust þá mjög hálfþurrar töður. Síðan vætur og þerrileysi til 9. ágúst. Tún urðu hirt 15.-19. Geisaði um sláttinn landfarsótt, er tálmaði mjög hirðing á heyi. ...
Espólín:
CXLVI. Kap. Hafísar voru fyrir norðan og vorið afar kalt og þurrt eftir hvítasunnu, en aflaleysi fyrir sunnan sakir ógæfta. Umhverfis Jökul var fiskur mikill, og þaðan sóktur úr öllum áttum, og jafnvel sunnan af Akranesi, er ei hafði heyrst áður, og fékkst fyrir hvað eina fyrst og neyttu þess margir og höfðu mikið lið af, þeir er nærri voru; en svo var mikil aðsóknin, að mjög var uppgengið er menn komu þangað úr Skagafirði og Eyjafirði, og var þá fulldýrt orðið. (s 153). Grasvöxtur varð í meðallagi, en eftir kuldana gjörði um vorið hita mikinn nær hálfum mánuði, svo 22 tröppur voru í skugga (Réaumur) [27°C] , og þó þar sem norðan svali náði til, en meir en þriðjungi heitara í sól við logn, kólnaði þó brátt aftur, en jafnan voru hitar öðruhverju allt sumarið. (s 153). Leit þunglega út, er menn voru flestir sjúkir meðan heyskapurinn var mestur, en þó varð hann sæmilegur, því nýtingin var hin besta, og góðviðrasamt lengi um haustið (s 154).
Klausturpóstur:
Vorið varð gott og snemmgróið; Sumarið heitt og spakt gaf allgóðan grasvöxt, en harðir og kaldir norðan-stormar í hálfan mánuð sem féllu á í júlímánaðar lok, ofaná þann hita, kveiktu mikla og þunga kvef-landsfarsótt, sem um allan ágúst geisaði yfir mestallt land: lagðist yfrið þungt á aldrað fólk, líka á unga og leiddi marga í gröfina einungis í Húnavatnssýslu tjást 40 manneskjur af þessum kvilla burtdánar eða hélt þeim lengi rúmföstum um besta bjargræðis tíma. Þetta og langsöm rigning í mánuð, spillti mjög heyafla og fengi fólks, þar sem taða lá víða hrakin á tínum í ágústmánaðar lok og vellir voru eigi fullslegnir, svo til fellirs horfir einkum um Suðurland, reynast nú og hey mjög svo dáðlítil til mjólkur. Vestra og nyrðra og eins um Austurland varð vætuminna og af-farabetri góður heyskapur.
16. ágúst 1825 (Hallgrímur Jónsson á Sveinsstöðum - Andvari 98/1973): (bls.176)
Nýting heyja er þar til einhver hin bágbornasta hér um sveitir, svo lítur út fyrir, að lífið verði þeim erfitt, er af tóra og sóttin ei burtu tekur.
Bjarni Thorarensen segir frá óheppilegri verkan norðankastsins í ágústbyrjun 1825 og kenningum sínum um það í bréfi sem hann ritar í águst árið eftir (1826):
Gufunesi 19-8 1826 (Bjarni Thorarensen):
... en víst er það að hann [fjármissir] á Suðurlandi, hvað sem hvör segir hefir verið af hálfeitruðum heyjum, því á þeim jörðum sem fé var lítið sem ekkert hey gefið, lifði sauðfé þó horjarðir væru, en þar drapst það helst sem því var mest hey gefið. Svoleiðis misstu helst heybændur sauðfé í Borgarfirði sjálfur ég hefi misst 80 fjár, en í 120 sem ég átti gengu hátt á þriðja hundrað hestar af heyi - ... Ég verð annars að bera undir þig mína hypothese um þennan viðburð, og hún er, að snemma í ágúst í fyrra kom norðanveður mikið með þoku og með því sama kom sótt á menn sem þú allareiðu í fyrra hefir frétt um ég þóttist finna í vetur að hey sem aflað var undan þessu norðankasti var allt (s168) annað en það sem seinna fékkst nú hygg ég að eldur hafi verið uppi í óbyggðunum í útnorðri á Íslandi, og vindurinn þaðan fært líka óveru í lofti með sér sem íslenski eldurinn árið 1783. Að eldur hefur áður sést í þeim norðurpörtum heims er víst. (s169)
Jón á Möðrufelli segir maí hafa verið stilltan vel og hagstæðan, en þurran í meira lagi og náttfrosta getur hann einnig. Júní hafi oftast verið kaldur, sérlega hafi tíð verið bág fyrstu 10 dagana, síðan var skárra. Júlí var allgóður, en óþurrkar í enda hans. Ágúst segir hann stopulan að veðráttu.
Brandsstaðaannáll segir af hausti:
Haustið gott. (s91) Á Mikaelsmessu [29.september] stórrigning og hret 3 daga og aftur 12.-13. okt. Flóði mjög yfir jörð, en þítt og gott veður lengst. Með nóvember frostasamt, 6. snjólag, seinna blotar, er hertu á jörð til hálsa. Í desember stillt austanátt, hláka fyrir jólin og autt neðra, eftir það frost mikið. Jarðlag var lengst að notum til nýjárs. (s92)
Klausturpósturinn:
Haustið frá Mikjálsmessu til veturnátta var frostalaust en stormasamt. Úr því varð veðuráttin mjög umhleypingasöm, með regnhríðum og sterkum frostum á víxl og norðan stormum sem enn á viðvarir. Fiskur hefir hér í Faxafirði verið nægur fyrir, en ógæftir hafa hindrað fólk frá afla hans.
Einar Thorlacius í Saurbæ í Eyjafirði segir frá sárköldu voru, hlýju og góðu sumri en kennir eins og fleiri hitum um kvefpestina:
Saurbæ Eyjafirði 5-2 1826 [Einar Thorlacius] (s14) Sumarið var hér hjá oss uppá veðráttufar, úr því það sárkalda vor var liðið, hlýtt og gott, þó nokkuð votviðrasamt úr því halla tók, en sá sterki sumarhiti olli megnum sjúkdómi ... Haustið var einnig mikið gott, og vetur frá jólaföstu allt til þorra með lognkyrrum og blíðviðrum, áður og síðan nokkuð höstugt.
Jón á Möðrufelli segir september vel í meðallagi og október mikið góðan sérstaklega framan af, nóvember hafi verið í meðallagi, en desember stilltur.
Úr tíðavísum Jóns Hjaltalín:
Ár í fyrra fjarri kyrru lagi
kvaddi mó og karfabeð
kulda, snjó og frosti með
Knúts með degi kynja tregi skýja
féll hér niður foldu á
frekar skriður runnu þá.
Margar jarðir misstu svarðargæði,
leir og sandur rann um reit
rýrði landa hagabeit
Seiglu veitur segja letur væri,
byggðir hrepptu býsna snjó
batnaði eftir páska þó.
Vorsins tíðin valla blíð að kalla,
þægð með dula þjórs um haf,
þurrk og kulda nógan gaf.
...
Nýting heyja hér má segja slæma
en í meðalmáta fram mun téð að vexti samt.
Haustið sendi hretin kénd er náðu
éljum kasta á jarðarslóð
jólafastan varð þó góð
Í ritinu Skriðuföll og snjóflóð (2.bindi, 2.útg. s130) er haft eftir sóknarlýsingu Kolfreyjustaðarsóknar að þetta ár hafi síðustu hús eyðikots, Aragerðis, eyðst í mikilli skriðu. Svo segir: ... þá tók kotið gersamlega með húsum, túni og engjum af geysimiklu skriðufalli úr framanverðum Hoffellsdal. Skriðan var 60 til 200 faðma breið og féll suður yfir Dalsá. Skemmdi hún einnig stórlega Kirkjubólsland. Þetta er talið orsakast af stöðutjörn, er í stórrigningu hleypti fram melhól, sem stóð í dalsmynninu.
Þorvaldur Thoroddsen hefur eftir Ó.Þ. að hinn 5.janúar hafi sést töluverður ís úr Ólafsfirði, 6.mars hafi frést um ís úr Fljótum og 18.maí var ekki hægt að komast af Siglunesi fyrir hafís.
Í dagbók Ólafs Eyjólfssonar á Uppsölum í Öngulstaðahreppi [íbr36 8vo]segir af miklum hafís á Eyjafirði þann 16. apríl.
Lýkur hér að sinni samantekt hungurdiska um veður og tíðarfar ársins 1825. Ritstjórinn þakkar Sigurði Þór Guðjónssyni fyrir innslátt Brandstaðaannáls og Hjördísi Guðmundsdóttur fyrir innslátt árbóka Espólins. Finna má lítilsháttar talnaupplýsingar í viðhenginu.
Vísindi og fræði | Breytt 29.11.2018 kl. 02:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.11.2018 | 01:28
Brúin brotnar
Framan af vikunni var mikil hæð yfir landinu - og síðan hæðarhryggur - brú á milli hæða fyrir austan og vestan land. Brúnni hefur fylgt hægur vindur og þó tekið sé að kólna inn til landsins hefur í heildina verið nokkuð hlýtt - og hiti í neðri hluta veðrahvolfs vel yfir meðallagi. Dagurinn í dag (laugardagur 24.nóvember) varð hægasti dagur ársins - meðalvindhraði í byggðum landsins ekki nema 1,9 m/s - og miðvikudagur og fimmtudagur eru í 3. og 4.hægasta sæti.
En nú virðist eiga að verða breyting á - að vísu ekki fyrr en á þriðjudag (27.nóvember) og miðvikudag. Lítum á 500 hPa hæðar- og þykktarkort sem gildir á þriðjudagsmorgunn.
Brúin er merkt með brúnni strikalínu. Mjög snarpur kuldapollur er úti af norðausturhorni Grænlands. Hann byltir sér þar og á að sækja heldur á með tilstyrk lægðardrags sem er yfir Íshafinu - norðan við kanadísku eyjarnar og rétt utan við kortið. Nokkuð sterk vestanátt er í háloftum fyrir sunnan kuldapollinn - en við jörð er áttin þar norðaustlæg (víðast hvar). Þeir sem þrek hafa til að telja jafnþykktarlínur (litaskil) og jafnhæðarlínur á þeim slóðum munu sjá að jafnþykktarlínurnar eru þéttari en hæðarlínurnar - það nægir til að snúa áttinni.
Annar kuldapollur (mun hlýrri þó) er fyrir sunnan land. Hlýtt loft úr suðri á að ganga til norðurs fyrir austan hann fyrir miðja viku (það sést aðeins í það alveg neðst á kortinu) - þar með dýpka lægðir á þeim slóðum. Niðurstaðan verður sú að þykktarbratti yfir Íslandi vex um síðir og það hvessir af norðaustri.
Hér má sjá vindhraða (litir) og vindátt í 100 metra hæð á sama tíma og fyrra kort sýndi - þriðjudag kl.06. Við sjáum norðaustanstrenginn milli Vestfjarða og Grænlands - þar sækir norðankuldinn að, og fyrir sunnan land er austanstrengur lægðarinnar. Sá síðarnefndi snýst smám saman til norðausturs og nálgast.
Varla verður undan komist undan báðum þessum strengjum. Það er hins vegar spurning hvor þeirra nær undirtökunum. Verst er reyni þeir báðir af afli á sama tíma. Þegar þetta er skrifað (seint á laugardagskvöldi) er evrópureiknimiðstöðin á því að eins konar málamiðlun eigi sér stað - sæst verði á skiptan hlut til beggja - jafnvel að norðanstrengurinn verði látinn um þetta. Fari svo verður veðrið ekki mjög slæmt - en það kostar kalda daga. Það er sjálfsagt skárri kostur heldur en fantabrögð og átök með lítillega hærri hita.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 02:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.11.2018 | 00:12
Skýjabönd
Í dag (fimmtudag 22.nóvember) voru mjó skýjabönd áberandi á himni yfir höfuðborgarsvæðinu - og reyndar víðar um land. Við getum að vild kallað þetta klósiga eða blikubönd. Margar myndir hafs sést af skýjunum á samfélagsmiðlum. Við lítum á eina til viðbótar - tekna ofanfrá auk þess sem velt verður vöngum yfir stöðunni í háloftunum (ekki þó á mjög heiðskíran hátt).
Þetta er hitamynd sem tekin er laust fyrir klukkan 17 í dag. Ljósustu svæðin eru köldust, háský nærri hvít. Ör bendir á eitt skýjabandanna - það er mjög mjótt - en gerðarlegri bönd eru yfir Suður- og Austurlandi. Við tökum eftir því að böndin liggja í stefnuna suðvestur til norðausturs. Kaldi sjórinn milli Vestfjarða og Grænlands sést einnig vel - með straumsveipum. Eitthvað af ís mun komið inn á það svæði.
Við lítum þvínæst á stöðuna í háloftunum og veljum 500 hPa-flötinn. Vel má vera að skýin hafi verið hærra á lofti en hann.
Hæðarhryggur er yfir landinu. Hæðarmiðja rétt vestan við land - og önnur meiri utan við hægri jaðar kortsins, en vægt lægðardrag á milli hæðanna. Strikalínan sýnir það. Það liggur í svipaða stefnu og skýjaböndin. Fyrir sunnan land er kuldapollur sem kom langt austan úr löndum og Atlantshafið er nú að verma. Mjög krappt lægðardrag er við Norðaustur-Grænland, tengt kuldapolli sem fór yfir jökulinn. Lægðarmiðjan er rétt utan kortsins.
Loftið vestan og norðan lægðardragsins er komið yfir Grænland - skraufþurrt og veltist óskipulega fram hátt í lofti - eins konar iðukast frá kuldapollinum krappa norður af. Það er eftirtektarvert að vindur blæs þvert á jafnhæðarlínur á blettum norðan lægðardragsins (t.d. inni í hringnum sem settur er á kortið). Þetta ber við þegar hlutirnir eru ekki í jafnvægi - oft víkur nokkuð frá - en hér óvenjugreinilega - eitthvað er að sullast um.
Skýjaböndin eru á einhvern hátt tengd þessum mótum norðvestanlofts og þess sem kemur úr suðri - en óráðlegt að smjatta mikið á því.
Á síðustu myndinni má sjá umfang Grænlandsloftsins.
Við skulum ekki velta okkur upp úr þessari mynd - hún er alltof flókin til þess - en lífræn er hún og sýnir mjög skýrt einhver veðurkerfi sem annars eru nánast ósýnileg. Hæðin við Vestfirði er þó sú sama og á fyrra korti (þetta gildir 3 klst síðar), kuldapollurinn krappi stýrir rauða flekknum. Örmjótt band mikillar lægðaiðu - hægrihandarsnúnings (kemur fram þar sem vindur snýst á áttinni) liggur úr honum og suðvestur um Ísland - á svipuðum slóðum og strikalínan á fyrra korti. Skýjaböndin eru sunnan við þetta band. Grái bletturinn sýnir hins vegar mikinn hæðarsnúning - vinstrihandarsnúning - reyndar meiri en vindkerfið gefur tilefni til. Kannski er verið að greiða fyrir dýra úttekt kuldapollsins á lægðaiðu?
Þetta eru harla dularfull veðurkerfi - en þau bjuggu alla vega til þessi fallegu skýjabönd í dag.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 02:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.11.2018 | 22:30
Af árinu 1811
Erfitt ár 1811 - árið áður lét vorið bíða eftir sér og það gerðist aftur, en að þessu sinni varð biðin nærri því þrem vikum lengri. Janúar þótti ekki sem verstur en febrúar afleitur. Heldur létti á um tíma í mars og má segja að sú hláka ásamt góðri viku rúmri kringum sumarmál hafi bjargað því sem bjargað varð. Sæmileg tíð var um haustið, en desember þungur.
Danski strandmælingaflokkurinn gerði veðurathuganir á Akureyri allt árið, mældi hita og loftþrýsting þrisvar á dag. Sveinn Pálsson læknir í Vík í Mýrdal gerði líka hitamælingar og ritaði veðurlýsingar. Mælingarnar hans eru þó nokkuð stopular. Umboðsmaður enskra í Reykjavík Mr. Fell mældi hita- og loftþrýsting og lýsti veðri stuttlega fyrstu mánuði ársins - fram í miðjan maí. Möguleiki er á því að hann hafi haldið mælingunum eitthvað áfram og gögn um þær liggi einhvers staðar í breskum skjalasöfnum. Þó mælingar hans séu gisnari og óljósari heldur en mælingarnar á Akureyri eru þær samt mjög mikilvægar - allar mæliraðir styðja hinar.
Myndin ber saman mælingar frá Akureyri (að kvöldi - grár ferill), úr Vík (grænn ferill - kvöld) og Reykjavík (rauður ferill - athugunartími óþekktur) fyrstu fimm mánuði ársins 1811. Þó lengst af sé áberandi kaldara á Akureyri heldur en syðra má samt sjá sömu hlýju kaflana og sömu kuldaköstin.
Við sjáum vel hversu mikið kólnaði með þorra - í síðari hluta janúar. Lengst af var mjög kalt í febrúar, meðalhiti þess mánaðar á Akureyri reiknast -10,7 stig. Marshlákurnar koma fram, en kuldakastið snemma í apríl er vægast sagt hrikalegt, frostið á Akureyri fór í -27,4 stig á miðvikudag fyrir páska (10. apríl) og hefur vart orðið mikið meira á þeim árstíma. Mesta frost í apríl síðari tíma er -18,2 stig og mældist þann 1. árið 1968.
Næsta mynd sýnir allar Akureyrarmælingarnar allt árið. Frostið mældist mest þann 16.febrúar -29,0 stig. Í kuldakastinu um mánaðamótin apríl/maí mældist mesta frostið -13,8 stig að kvöldi þess 2.maí. Mikil frost gerði líka í Vík í Mýrdal í þessu kasti, mest -5,5 stig að kvöldi 28.apríl. Mesta frost á síðari árum á Akureyri á þessum tíma árs mældist -10,4 stig þann 1.maí árið 1968. Þann 5.maí skánaði veður að mun um stund, hiti komst í 11,3 stig þann 6. og svo í 12 stig þann 17. Eftir það harðnaði aftur á dalnum og var yfirgengilegur kuldi í júníbyrjun. Þann 5.júní fór frostið í -6,5 stig. Það mesta í júní á síðari tímum er -3,0 stig þann 5. júní 1943. Mælingar Sveins í Vík voru heldur stopular, en hann getur þó -3°R (-4°C) að kvöldi 6.júní. Þann dag og daginn áður gekk þar á með éljum, en þess ekki getið hvort snjó festi.
Talsverðar sveiflur voru í hita fram eftir júní, m.a. þann 17. (fæðingardag Jóns Sigurðssonar forseta), en þá komst hiti um miðjan dag í 14,8 stig. Það var loks eftir þann 20. að það hlýnaði svo um munaði og hiti fór í meir en 20 stig.
Eftir miðjan júlí kólnaði aftur og í lok ágúst gerði fádæma rigningar nyrðra og eystra með stórkostlegum skriðuföllum. Á sama tíma skiptust á þurrir dagar og einhver úrkoma í Vík í Mýrdal. Næturfrosts er getið í Vík þann 30. og 31. ágúst. Um haustið hélst hiti sæmilegur fram yfir miðjan nóvember.
Loftþrýstingurinn varð aldrei mjög lágur, lægstur þann 22. september, 963 hPa. Um þá lægð vitum við lítið annað. Hæstur varð þrýstingurinn þann 26.apríl, 1043 hPa. Hlýtt var áður - kalt á eftir. Líklega hefur sígild fyrirstöðuhæð farið vestur um til Grænlands og setið síðan þar fyrir vestan og veitt til okkar kulda.
Ljóst er að mjög mikill hafís var við landið norðan- og austanvert. Útbreiðsla hans er þó nokkuð óljós nema hvað Sveinn Pálsson getur þess þann 30. apríl að þá hafi komið ís að austan til Víkur í Mýrdal.
Í Árferði á Íslandi í þúsund ár (s.385] segir Þorvaldur Thoroddsen, þeir Frisak og Scheel sem hann nefnir voru aðalmenn mælingaflokksins sem athugaði veður á Akureyri:
Kom hafís nyrðra með þorra, en rak frá á einmánuði. [Norðanfari, 1.júlí 1864] Torfi á Klúkum segir hafþök á Eyjafirði frá því á þorra þangað til i maí og veðrátta hafi batnað 8 vikur af sumri. H. Frisak var við mælingar á Skaga 9. maí til 10. júní; lá hafís þá þar fyrir landi og fylgdu honum þokur, snjóhret og kuldar. Scheel mældi þá strendur frá Eyjafirði vestur til Fljóta, frá því 24. júní til 25. ágúst, og segir hann, að hafís hafi verið að flækjast fyrir landi fram í miðjan ágúst.
Mr.Fell umboðsmaður breta sem þraukaði í Reykjavík segir um hafísinn (í lauslegri þýðingu á texta á síðu 481 í ferðabók MacKenzie:
Grænlandsísinn kom sér fyrir við norðanvert landið einhvern tíma í febrúar og jókst daglega að magni þar til hann lokaði af nærri því tvo þriðju hluta eyjarinnar. Í júní var hafið ekki sýnilegt frá hæstu fjöllum, svo algjörlega var landið haldið þessum hræðilega ís. Fjöldi hvítabjarna hefur sést.
Lítum á ritaðar heimildir og lýsingar.
Annáll 19.aldar:
Vetur var góður frá nýári til þorra, eftir það harðnaði til páska, síðan var hláka og góðvirði til sumars [sumardagsins fyrsta] um 11 daga. Var einkum eystra kalt og illviðrasamt, svo aldrei létti næðingum og hríðum til þess átta vikur af sumri. Miklir óþerrar voru syðra og lágu töður á túnum fram á haust og voru hey víða kolbrunnin. Eldiviður ónýttist mjög svo að menn urðu í mestu nauð. Var brennt steinkolum í Reykjavík og því sem eftir var af þófaramylnunni. Óþerrar voru og vestra, en allgóð nýting nyrðra. Íshroði kom fyrir norðan land með þorra, rak um hvítasunnu en fór aftur eftir messur. Haust var gott nyrðra og fram á vetur. Síðan gjörði hinar mestu hríðar og jarðbönn nyrðra og vestra, en fyrir sunnan Hvítá var allgott.
Annállinn nefnir að vanda fjölda slysa og óhappa bæði á sjó og landi. Við nefnum hér aðeins þau sem tengdar eru ákveðnum dagsetningum:
13. janúar rak skip fyrir austan í Meðallandi, illa til reika; fundust á því menn dauðir ... Skipið var eirslegið allt að neðan og fengu menn þar góð kaup. 15.febrúar urðu fjórir menn úti í Hróarstungu. 29. mars drukknuðu sjö menn á Hvalfirði, formaður Egill Egilsson bóndi á Þorgautsstöðum, en hásetar flestir efnilegir bændur úr Hvítársíðu.
Þann 26.ágúst varð þjóðsagnakennt slys er skip fórst í ofsaveðri við Bjarnargnúp með 11 manns. Skipið var á leið frá Aðalvík til Skutulsfjarðar. Sama dag fórust fjórir menn úr Eyrarsveit.
Brandsstaðaannáll:
Milli nýárs og þrettánda góð hláka; eftir það allgott. Fyrir þorrann lagði að með landnorðanhríðum (s61) og hörkum. Hélst þó jörð til síðustu viku þorra. Var nú alkominn ís mikill. Sífellt var fjúkasamt og góa því verri. Seint á henni brutust vermenn suður, því þá var hjarn um tíma. Ei kom á góu fjúklaus dagur. Með einmánuði kom snöp nokkra stund. Aftur með apríl sterk frost og köföld; vatnsskortur víða. Með páskum 14. apríl batnaði. Hafði skorpa þessi haldist 12 vikur. Jarðlag og veður var þennan vetur lakara til lágsveita, móti því er þrengdi mest að dalamönnum í fyrra.
Með sumri hófst aftur landnyrðingur með stormi, og gerði mikil vorharðindi til fráfærna, utan viku eftir krossmessu var þítt og gott, svo sauðnál kom. Eftir uppstigningardag kuldar og hret um hálfa þriðju viku. Varð lambadauði mikill í megringsplássi. Þó komst vænt fé af, þar landgott var, án vorgjafar. Gengu víða mikil hey upp eftir sumarmál.
Í júnílok fært frá; 5.júlí rekin lömb, og voru þau allvíða fá og á stöku búi engin. 9.júlí byrjuðu lestarferðir og var mikið hagleysi á fjöllum. Eftir Jónsmessu var gróðrarveður, en svo langvinnir kuldar ollu því, að mjög seint spruttu tún. Sláttur byrjaði 29.júlí. Varð rekjusamt viku tíma og síðan besta nýting. 3., 4. og 5. sláttarviku rigningar, óþurrkar og gott grasviðri, er gaf góðan grasvöxt. Nýting var mörgum bág og þungur heyskapur á votengi á stuttum sláttartíma. Að lokum náðist allt hey um seinni göngur.
Haustið stillt og snjóalítið, þokusamt og oftar þítt, þar til 19. nóv. Sunnudaginn 26. nóv. kom dæmalaus lognfönn og litlu síðar bloti, er skeljaði fönnina, svo fé kom á fulla gjöf. Moka mátti fyrir fé og hross brutu niður. Á jólum voru öll hross á gjöf komin utan rétt með sjóarfjörunni. Með desember hríðar miklar, svo stillt veður lengst til nýárs. (s62) ... Ísatíð og óár hér í kring Skaga. (s63)
Árbækur Espólíns:
XL. Kap. Vetur sá var góður til þorra ... Á þeim vetri var mjög þröngt syðra við sjóinn, svo menn lifðu þar á einum saman fiskinum þurrum, og viða var þröngt í landi, því mannmargt var orðið, en björg lítil eða engin, nema sú er innlend var, og fiskilaust nyrðra.(s48). Eftir það kom íshroði fyrir norðan land með þorranum, og gjörði vetur þungan og snjóasaman hvar sem til spurðist, linaði nokkuð eftir miðja góu, svo fært varð byggða á milli, en síðan gjörði miklar hörkur með einmánuði. (s.48).
XLI. Kap. Hinn 15. febrúar var illt veður, varð svo mikill bylur á Austurlandi að fjórir menn urðu úti í Múlasýslu, og margt fé týndist, og jafnan var hinn efri hluti vetrarins harður: voru skinn étin víða, og varð hvervetna fellir á lömbum og öðrum fénaði. Hvalur tók skip í Garði suður, týndust 5 menn, en 2 náðust. (s.48-49).
XLIV. Kap. Þá var bæði norðan og sunnanlands, og þó enn meira eystra, vor svo kalt og illt, að aldrei létti kuldum og hríðum til þess er 8 vikur voru af sumri; var það þá furðulegt, er menn héldust við, bjargarlausir og heylausir víða, féll sumstaðar sauðfé, en alstaðar eða víðast mikið af unglömbum, og urðu peningar gagnslitlir hvervetna; var þá svo mikil þröng er hvorki var mjólk til né matur annar, sem óvíða er á voru þá lengi hefir hart gengið og ei að fá hið minnsta í kaupstöðum, en skuldir kallaðrar sem óðast, veiðiskapur enginn því ís lá fyrir öllu landi og ófært að koma hrossum neitt til bjargar, að það ætluðu menn, að aldrei mundi í jafnmiklu harðæri á hinum fyrri tíðum mannfall hafa svo lengi undan dregist. (s.51).
XLVI. Kap. Þar sem vætur gengu allt sumarið eftir svo illt vor, og mest fyrir sunnan, og allt var svo dýrt, sem ei áður hafði verið og sumt ófáanlegt. (s.53). Miklir óþerrar voru fyrir sunnan um sumarið og illur heyskapur; fengu ei þeir menn er þar voru í austursveitunum vanir að hafa 20 nauta, meira en fyrir 5 eða 6 og lágu töður á völlum allt sumarið, voru 200 hestar af Innra-Hólms túni, en 160 færr en vant var af Leirár túni. Hey voru mjög víða kolbrunnin, eldiviður ónýttist þar og nálega allur svo að menn voru í hinni mestu nauð; var brennt steinkolum í Reykjavík, og því er eftir var af þófaramyllunni. (s.53).
Við skautum í gegnum illlæsilegar veðurdagbækur Jóns Jónssonar á Möðrufelli í Eyjafirði - vonandi ekki margt ranglesið.
Janúar yfir höfuð allgóður fyrri part, en frost og hríð með þorra. Febrúar harður, en með með góunni hafa gengið blotar. Svo virðist sem rignt hafi í lognsnjó og allt hlaupið í gadd, guð vægi segir Jón. Mars að sönnu allur heldur harður, þó kom góð jörð upp í hlákum. Þann 9. segir Jón að nýliðin vika hafi verið still, en jarðleysi sé af snjó og áfreða. Þann 16. segir hann að vikan hafi verið stirð fyrri partinn, en góð þann síðari og gert hafi góða hláku svo fullnóg jörð sé upp komin. Síðari hlutinn var óstöðugur að veðráttu. Í apríl voru kuldar, mesta jarðleysi framan af, en með páskum [14.apríl] hafi gert góðan bata og allt orðið snjólaust, en mikill hafís kominn. Maí var allur mjög harður, þungt áfelli með snjó um tíma. Júní með áframhaldandi harðindum allt að sólstöðum, en þá skipti að sönnu um.
Júlí telur Jón sæmilegan. Vikuna 25. til 31. ágúst nefnir hann skriðufallaviku, í sjö daga uppstyttulaust stórregn svo allt fór á flot. Fjöllin hrundu fram með skelfilegustu jarðföllum. Guðrúnarstaðir (þar í sveit) hafi eyðst öðru sinni af skriðuföllum á 14 árum. Fleiri jarðir í sveitinni nefnir hann sem urðu fyrir stórtjóni. Hann getur þess að snjóað hafi í fjöll þann 28. og 29. Um september segir Jón að hann hafi ei verið kaldur, en nokkuð votsamur í bland. Október mildur að veðráttu, aldrei að segja frost og aldrei að segja gránað. Nóvember einnig allsæmilegur, en þann 24. og 25. hafi gert dæmalausa snjódyngju í logni og síðasta vika mánaðarins hafi verið hörð. Desember var ákaflega harður að sögn Jóns. Um árið í heild segir hann: Þetta útliðna ár má kallast fullkomið harðindaár.
Mr. Fell, umboðamaður breta í Reykjavík lýsir veðri nokkuð auk mælinganna sem áður er getið. Við drepum tilviljanakennt niður í skýrslu hans sem prentuð er í ferðabók MacKenzie (og þýðum lauslega):
6.janúar: Austnorðaustan, góður dagur, smáskúrir sem frusu í ís - ekki óvenjulegt.
9.janúar: Suðaustan. Þungt hvassvirðri allan daginn með regnskúrum, fárviðri fyrir morgun
13.janúar: Norðan. Góður dagur, öll jörð sem gler.
18.janúar: Norðaustan. Góður dagur og næturfrost, hagl, snjór og þrumuveður um nóttina, ekki óalgeng að vetrarlagi.
27.janúar: Norðan. Ógurlegt hvassviðri allan sólahringinn
29.janúar: Norðan, enn hvass. Sjórinn frosinn út að eyjum - hestheldur.
10.febrúar: Vestsuðvestan. Sérlega góður dagur.
12. febrúar: Norðnorðaustan. Eitt mesta hvassviðri vetrarins allan daginn, landið allt þakið saltvatnssnjó utan af sjó.
19.febrúar: Austnorðaustan. Ægilegt hvassviðri með regnskúrum og éljum, undir kvöld varð það hræðilegt, fólk gat ekki fótað sig og allt fór á flot.
22.febrúar: Norðaustan. Stífur blástur en bjartviðri, um kvöldið voru björt norðurljós.
11. mars: Suðsuðvestan. Einhver hræðilegasti dagurinn til þessa, ógurlegt hvassviðri með snjókomu allan daginn.
13.mars: Suðaustan. Rigning allan daginn, sem ásamt bráðnandi snjó olli flóði um alla jörð. Frost um kvöldið og snjór.
20.mars: Austnorðaustan: Hræðilegur snjó- og vindstormur nánast allan daginn, svo þéttur að varla sá 20 yarda.
5.apríl: Norðvestan. Sérlega mikið hvassviðri allan daginn með særegni, hiti 8°F (-13°C).
25.apríl: Norðan. Gott, heiðríkt veður, næturfrost, fyrsti dagur sumars að íslensku tímatali.
29.apríl: Norðan, gott veður og mikið frost, hvasst um nóttina.
Ritstjóri hungurdiska hefur ekki séð mörg bréf sem lýsa veðri 1811, en þó nefnir Bjarni Thorarensen það í tveimur. Það fyrra er ritað í september:
Reykjavík 10-9 1811 (Bjarni Thorarensen): Foraaret har her været yderst slet og Sommeren ikke bedre; til Vinteren ere derfor Udsigterne maadelige. (s3)
Í lauslegri þýðingu segir: Vorið hefur verið sérlega slæmt og sumarið ekki betra. Útlitið fyrir veturinn þess vegna svona og svona. [Maadelig er ekki auðvelt að þýða - en skemmtilegt orð engu að síður].
Í bréfi sem ritað er nærri ári síðar nefnir Bjarni einnig sumarið 1811:
Reykjavík 25-8 1812 (Bjarni Thorarensen): Höeavlen i forrige Sommer mislykkedes ganske formedelst det uophörlige Regnveir, hvilked havde den Virkning at Landmanden i fugtige og moradsige Egne maatte nedslagte 3/4 Dele af deres Creature!
Í lauslegri þýðingu: Heyskapur á næstliðnu sumri (1811) misheppnaðist sökum látlausra rigninga. Þetta leiddi af sér að bændur í raka- og foraðssveitum urðu að slátra 3/4 hluta bústofns síns!
Frú Gyða Thorlacius á Eskifirði nefnir árið lauslega:
(Úr Fru Th.s Erindringer fra Iisland) Vinteren 1811 var meget streng. Den grönlandske Iis" laae hele Foraaret ved de iislandske Kyster og i Fjordene. Fisieriet kunde altsaa ikke drives, og mange fattige Folk lede Mangel.(s72)
Í lauslegri þýðingu: Veturinn 1811 var mjög harður. Grænlandsísinn lá allt vorið við strendur Íslands og í fjörðunum. Því var ekki hægt að stunda sjó og margir fátæklingar liðu skort.
Myndin sýnir vikusamantekt þá sem Jón Jónsson gerði 31.ágúst 1811.
Sigurjón Páll Ísaksson var svo vinsamlegur að senda hungurdiskum uppskrift sína og leyfa birtingu hennar hér. Kann ritstjórinn honum bestu þakkir fyrir:
Þessi vika má kallast skriðufallavika. Hefur verið hana mest alla skelfilegasta úrkoma með norðaustan steypiregni. Í 7 dægur samfleytt gekk uppstyttulaust stórregn, svo allt fór á flot, bæði slegna og rakaða hey úti. Heyin fordjörfuðust í tóftunum, n(efni)l(ega) töðurnar, því annað hey var ekki innkomið, sem víða stóðu óþaktar. Fjöllin hrundu fram með skelfilegustu jarðföllum. Guðrúnarstaðir sem fyrir 14 árum fóru í skriðu, urðu nú aftur að nýju eyðilagðir með öllu, hvar hræðilegustu stórskriður féllu margar og aldeilis ofan í á, og eyddu mestpart landinu. Fyrir utan Björk í Sölvadal, milli Finnastaða og Bjarkar dundu áfergilegast skriður. Eins fyrir utan og sunnan Kerhól, og utan Ánastaði.Á Draflastaði hljóp skriða, sem tók mikið af velli, samt 1 fjárhús, og sama er fram eftir öllum firðinum, hjá Arnastöðum, á Hólagrundum, milli Jökuls og Halldórsstaða, Hleinargarðsfjall og -engi, allur Varmhagi. Allt er þetta umrótað af ógnarlegustu jarðfallaskriðum fyrir utan víða annarstaðar smærri jarðföll. Hér og undir fjöllum féll ekki mikið. Þó hefur engin manneskja hér um pláss líf misst né heldur af skepnum ákaft farist það menn vita.
Í bók Ólafs Jónssonar um skriðuföll og snjóflóð er nokkuð fjallað um skriðuföllin (s.123 til 126 í 2.bindi, 2.útgáfu verksins). Þar er talað um að skriðuföllin fram í Eyjafirði hafi orðið 11.september, en það er varla rétt miðað við lýsingar Jóns á Möðrufelli. Veðurathuganir á Akureyri styðja einnig að mestu skriðurnar hafi orðið í ágúst, þar var rigning á öllum athugunartímum í 8 daga samfellt, frá og með 23. til og með 30. ágúst - einnig var þar talin þoka - ekki tæknilega skilgreind á okkar tíma vísu en samt takmarkað skyggni. Hvasst var suma dagana og áttin norðaustlæg þá alla. Þann 11.september var hins vegar þurrt, en hvasst var af norðri um morguninn. Rigning var hins vegar dagana 12. til 14.september. Gríðarmikil skriðuföll urðu einnig í Svarfaðardal - sex eða sjö býli skemmdust af skriðum. Segir nánar af þeim í bók Ólafs - hugsanlegt er að þær hafi orðið í september. Þar segir einnig af skriðum eystra og vitnað í óprentaðan annál Gísla Gíslasonar frá Snotrunesi í Borgarfirði eystra (IB 654 8vo). Við skulum lesa þá lýsingu - sem mun eiga við Austurland (að sögn Ólafs Jónssonar):
Í ágústmánuði þetta ár, sumarið 1811, gerði miklar stórhríðar, svo undrum sætti. Gekk þá allt úr góðu lagi. Jörðin umhverfðist öll með hlaupum og skriðuföllum. Mátti segja að hvar sem brattlendi var, að þar væri þriðjungur af jörðinni burtu hlaupinn. Muna engir menn sodan ósköp, og eigi finnst það heldur neinstaðar í annálum að hríðar hafi gert svo mikið umrót. Öll vötn uxu fram úr öllu hófi, svo öngvir menn, sem þá lifðu, höfðu nokkurntíma séð þau til líka við það. Sums staðar tók af bæi, sums staðar tún og engjar, sums staðar skemmdust það mjög, sums staðar urðu gripir undir sodan, og allt gekk upp úr góðu lagi.
Ólafur segir svo: Skaði er að annálsritarinn segir eigi nokkru gerr frá því, sem til hefur borið, en sjá má að skriðuhlaupin hafa orðið upp úr snjó og hríðum. Varlegt er að trúa því að um snjó hafi verið að ræða - því orðið hríð var einnig notað um mjög mikla rigningu, stórregn eða vatnshríð. Ekki er óhugsandi að snjór í fjöllum hafi valdið krapastíflum ofarlega í giljum og stuðlað að því að framhlaup hafi orðið öflugri en ella bæði eystra og nyrðra - en það er ágiskun.
Annáll 19.aldar segir að snjóflóð hafi hlaupið á Laufáskirkju og skemmt hana mikið. Ólafur Jónsson segir að aðrar heimildir segi þetta hafa gerst 1812.
Í bókinni Skriðuföll og snjóflóð [2.útg. 3.bindi, s.68] er greint nokkuð ítarlega frá hlaupi (krapa, snjó eða aur) sem féll á Másstaðakirkju í Vatnsdal, en þar var annexía frá Undirfelli. Þetta á að hafa gerst annan dag páska þá er fólk var nýgengið frá embættisgjörð. Kirkjan skemmdist svo að ekki varð við gert. Telur Ólafur Jónsson að hlaupið hafi úr svonefndri Másstaðagjá sem er gljúfur þar í fjallinu - veðurathuganir segja hláku þennan dag.
Brot úr tíðavísum Þórarins í Múla:
Árið nýtt var brögnum blítt á brún uppruna,
sýndist þýtt að óskum una,
eiga hlýtt við náttúruna
Stóð ei lengi gæfu gengi garpa vorra,
grimmt harðfengi þótti þorra,
þjóði mengið hríðar dorra.
...
Elstu menn ei muna þenna mánuð strengri,
hríðar sennu lotalengri
lífs- og enn né -bjargar þrengri.
...
Skaphörð þótti skata dróttum skerjan góa
dag og nótt með driftum snjóa
dáð og þrótti vön að sóa.
Einmánuður ófögnuði yfir hellt
storma suður ei þó elti
ísum hruðu landa belti
Veturinn harði barlóm barð býsna stríðan,
að páskum varði; sýndist síðan
setja að garði veðurblíðan
Páska-hláka fé og fáka fögur saddi,
lands um rákir laust af gaddi,
lunda snáka foldar gladdi.
Ellefu daga auðnu hagur að oss hylltist
með sumar- fagri -sólu spilltist,
sárum baga landið fylltist.
Björg nam linna úti og inni eftir vonum,
héldust stinn með hölda sonum
harðindin að sólstöðonum.
...
Ýtt var nautum út til þraut á auða hnjóta
fjúk um brautir þó nam þjóta,
þaktar lautir holta-móta.
...
Gráföl tún og grundir búning grænum skreyttust,
dags því brúna dögg um fleyttust,
dáðir fúnu sáði veittust.
...
Með hundadögum hófust slög af hafrigningum,
landið mjög svo langt í kringum
leiddi drög af skúra hringum.
Á nótt og degi vals um vegi vatns ógrynni
spillti heyjum úti og inni,
upp svo dregin, loks þó brynni
Vatna þungi vætu drunga við nam krakka
elfur sprungu yfir bakka
aur og klungri hlóðu í stakka
Fjalla hrundu fast á grundu feikna skriður,
hauðrið undir hristist viður,
hamra drundu beltis kviður.
...
Sagt er hingað, súld rigninga sama grandið
hafi þvingað happa standið
hartnær kringum ísalandið.
Haust eitt besta frekt nam fresta frosti og snjónum
vatnshríð mest enn varð að tjónum
vetur lést og blíður sjónum.
...
Mánuð fyrstan brúnir bistar bærði ei vetur
síðan hristi belginn betur
byggð um lysti hríðar tetur.
...
Jóla tíðir hreggs og hríða hryðjum fylltu,
skip allvíða braut og byltu,
bylji gríðar varla stilltu.
Þeir sem vilja geta rifjað upp gamlan pistil hungurdiska þar sem fjallað er um vorið 1811 í tilefni af tveggja alda afmæli fæðingar Jóns Sigurðssonar forseta.
Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um veður og tíðarfar ársins 1811. Þakka Sigurði Þór Guðjónssyni fyrir innslátt Brandstaðaannáls og Hjördísi Guðmundsdóttur fyrir innslátt texta árbóka Espólíns. Smávegis af tölulegum upplýsingum er í viðhenginu.
Vísindi og fræði | Breytt 25.11.2018 kl. 13:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.11.2018 | 01:17
Tuttugu nóvemberdagar
Mesta furða - 20 dagar liðnir af nóvember. Meðalhitinn í Reykjavík kominn í 5,1 stig, +3,5 stigum ofan meðallags 1961-1990 og +1,9 ofan meðallags sömu daga síðustu tíu ára og eru dagarnir í þriðjahlýjasta sæti á öldinni (af 18). Hlýjastir voru þeir 2011, meðalhiti 6,7 stig, en kaldastir í fyrra, 2017, +0,8 stig. Sé litið til lengri tíma er hitinn í 7. hlýjasta sæti af 143, á langa listanum eru sömu dagar 1945 hlýjastir, meðalhiti 8,0 stig (ótrúlegt en satt), kaldastir voru þeir hins vegar 1880, meðalhiti -2,9 stig.
Á Akureyri er meðalhiti dagana 20 +3,6 stig, +3,6 stigum ofan meðallags 1961-1990, en +2,1 ofan meðallags síðustu tíu ára.
Hiti er ofan meðallags síðustu tíu ára um land allt, mest á Möðruvöllum í Hörgárdal þar sem vikið er +2,5 stig, en minnst á Vattarnesi, +0,7 stig.
Úrkoman í Reykjavík hefur mælst 105,6 mm það sem af er mánuði og hefur ekki mælst meiri sömu daga á þessari öld, en er í 12 sæti á langa úrkomulistanum sem nær til 122 ára. Þar eru sömu dagar árið 1958 á toppnum með 156,7 mm - vantar mikið upp á að ná í þá tölu.
Á Akureyri hefur úrkoma það sem af er mánuði mælst 65,9 mm - vel yfir meðallagi. Mest hefur úrkoman á mönnuðu stöðvunum mælst á Hánefsstöðum í Seyðisfirði 306,3 mm og hefur náð 300 mm á sjálfvirku stöðinni í Neskaupstað, en er 235 mm á mönnuðu stöðinni þar í bæ.
Sólskinstundir hafa mælst 25,2 það sem af er mánuði í Reykjavík, og er það um 5 stundum undir meðallagi.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 01:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.11.2018 | 17:12
Mikið háþrýstisvæði ræður ríkjum
Nú er mikið og hlýtt háþrýstisvæði fyrir austan land. Það mun ráða veðri hér á landi næstu daga.
Kortið sýnir stöðuna í 500 hPa eins og evrópureiknimiðstöðin telur hana verða um hádegi á morgun, þriðjudaginn 20.nóvember. Hæðin er um 5778 metrar í miðju og þykktin (litafletirnir) slær í 5520 metra (örsmár gulbrúnn litur við Norðausturland). Að sumarlagi væru líkur á 20 stiga hita undir þessari þykkt, en nú er sól mjög lágt á lofti og geislunarbúskapur mjög neikvæður - enginn von hitamet nema í töluverðum vindi af fjöllum. Þar sem birtir til og lygnir fellur hiti fljótt niður fyrir frostmark. En mjög hlýtt er yfir og ekki þarf mikinn vind til að koma hitanum yfir 10 stigin - eins og reyndar er spáð að gerist allvíða fyrir norðan á morgun - rétt eins og undanfarna daga.
Hæðir sem þessar eru ekki beinlínis óalgengar í nóvember, en koma þó ekki við á hverju ári og stundum líða mörg ár á milli heimsókna.
Á miðvikudaginn verður vindur orðinn enn hægari og smám saman verður lengra upp í hlýja loftið - og erfiðara að koma kalda loftinu burt taki það að safnast fyrir. Hugsanlegt er að við sjáum einkennilegar hitasveiflur víða á miðvikudaginn og næstu daga þar sem munur á hita í mannhæð og í 100 metra hæð verður sums staðar á bilinu 4 til 10 stig.
Ástæða er til að benda á kuldapollinn við Bretland - hann er á vesturleið. Þó okkur þyki þykktin í honum miðum ekkert sérstaklega lág er þetta samt nægilega kalt til þess að snjókoma og ýmis vetrarvandræði geti hlotist af - á slóðum þar sem menn eru e.t.v. ekki alveg viðbúnir enda eru gular viðvaranir í gildi víða.
Ekki er gert ráð fyrir því að hæðin fái neina nýja innspýtingu af hlýju lofti næstu daga. Hún kólnar þannig smám saman upp - líka í efri lögum. Frjáls kólnun í háloftum er þó hæg, 1 til 2 stig á dag. Auk þess dregur úr niðurstreymi - sem hefur haldið hita í neðri hluta veðrahvolfs uppi undanfarna daga.
Á sunnudaginn kemur, þann 25.nóvember telur reiknimiðstöðin líklegt að staðan verði orðin svona. Rétt að hafa í huga að ólíklegt er að hún verði þessi - en við trúum samt í bili. Hér má sjá að hæðin hefur gefið mjög eftir - er orðin að brú eða hrygg frá Noregi í austri vestur um Ísland og Grænland til Labrador. Þykktin við Ísland er í kringum 5340 metrar - hefur lækkað um 120 metra - neðri hluti veðrahvolfs hefur kólnað um 6 stig eða svo - rúmlega 1 stig á dag - en meira á slóðum hlýja blettsins við Norðausturland - þar gætir ákafs niðurstreymis væntanlega ekki lengur.
Þetta þýðir að talsvert frost gæti orðið inn til landsins þegar nær dregur helginni - þó þykktin sé reyndar nægilega mikil til þess að búa til þíðu um leið og vind hreyfir. Hiti í neðanverðu veðrahvolfi um 3 stigum hlýrra en að meðallagi á þessum árstíma.
Svo verður spennandi að sjá hvar og hvernig brúin brotnar - það skiptir miklu máli fyrir framhaldið. Gerist það fyrir austan land fáum við allmikinn norðankulda yfir okkur, en gerist það vestur af gerir aftur sunnanátt með hlýindum. Svo gæti hún líka mjakast norður og austanáttin færst í aukana hér á landi. Kannski ekki með neinum sérstökum hlýindum, en ekki miklum kulda heldur.
18.11.2018 | 14:54
Óvenjulegt úrkomumagn í Reykjavík
Úrkoma hefur verið óvenjumikil í Reykjavík (og víðar) síðustu tvo daga - eins og spáð hafði verið. Samtals komu 83,2 mm í hefðbundna mælinn á Veðurstofutúni. Sýnist ritstjóra hungurdiska að það sé met fyrir tveggja daga úrkomusummu í Reykjavík - árið um kring, enda rúmlega 10 prósent meðalársúrkomu - og fleytir árinu ofar á lista þeirra úrkomumestu. Ákefðin var til þess að gera jöfn - og ákefðarmet (mælist í mm á klukkustund) var ekki slegið.
Skiptingin á sólarhringa var nokkuð jöfn. Í hefðbundnum úrkomumælingum er ætíð skipt milli sólarhringa kl.9 að morgni. Er þá skráð úrkoma næstliðins sólarhrings. Þegar fram líða stundir og sjálfvirkar mælingar taka við er eðlilegra að miða við réttan sólarhring - sjálfvirku mælinum er alveg sama um hvenær dagsins þeir eru að mæla.
Að morgni þess 17. höfðu fallið 35,5 mm í mannaða úrkomumælinn á Veðurstofutúni frá því kl.9 morguninn áður og daginn eftir, þann 18., var sólarhringsúrkoman 47,7 mm. Tveir sjálfvirkir mælar eru á Veðurstofutúni, sá þeirra sem mældi meira skilaði 37,0 mm og 44,8 mm þessa tvo sólarhringa, samtals 81,8 mm. Hámarksúrkoma í réttum sólarhring var hins vegar 49,3 mm.
Fyrra nóvemberúrkomumet Reykjavíkur var 46,8 mm sett þann 28. árið 1902, og þann 30. nóvember 1905 mældist úrkoman 45,8 mm. Í þau skipti var úrkoma dagana fyrir og eftir hins vegar talsvert minni en nú.
Sólarhringsúrkoma hefur tíu sinnum mælst meiri í Reykjavík heldur en nú, mest 56,7 mm þann 5.mars 1931. Fáeinar þessara eldri mælinga eru óstaðfestar - en við veltum okkur ekkert upp úr því - engin er úr nóvembermánuði.
Við lítum líka á ákefðina.
Hér má sjá hversu mikil úrkoma féll á hverri klukkustund . Við skulum fyrst taka eftir því hversu snyrtilega atburðurinn fellur á tvo hefðbundna mælisólarhringa - en skiptist hins vegar á þrjá ef við færum að miða við rétta - ekki víst að tveggjadagametið hefði fallið væru réttu sólarhringarnir notaðir. - Ágætt dæmi um það hvernig mælihættir hafa áhrif á met.
Ákefðin er lengst af í kringum 2 mm/klst. Við sjáum að úrkoman var mun minni um stund að morgni laugardags heldur en annars - skiptir atburðinum í tvennt og að ákefðin var langmest í kringum miðnætti aðfaranætur sunnudags 18.nóvember.
Úrkoma var víða mikil. Á Hólmsheiði rétt ofan Reykjavíkur mældust t.d. 140,4 mm á sama tíma og 83,2 mældust á Veðurstofutúni.
En eftir situr nokkuð góð tilfinning gagnvart spám reiknimiðstöðva og harmonie-líkansins sem náðu þessum aftakaatburði vel.
Þeir sem nenna geta rifjað upp gamlan hungurdiskapistil: Mikil rigning - hversu mikil er hún?
Ekki fór mikið fyrir vindhraðametum í veðrinu um helgina - jú, vindhraði hefur ekki mælst meiri í nóvembermánuði við Kolgrafarfjarðarbrú, í Búlandshöfða og Ólafsvík. Dagarnir náðu hins vegar ekki inn á stormdagalista ritstjóra hungurdiska - þó laugardagurinn 17. væri sá fimmtihvassasti á árinu á landsvísu. Sýnir kannski hversu rólegt þetta ár hefur verið svona yfirleitt.
En hitinn var óvenjuhár - líklega var laugardagurinn þriðjihlýjasti nóvemberdagur á landsvísu - aðeins tveir dagar í nóvember 1999 hlýrri en nú - en rétt að hafa í huga að við þekkjum daglegan landsmeðalhita ekki nema aftur til ársins 1949.
Vísindi og fræði | Breytt 19.11.2018 kl. 02:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.11.2018 | 16:19
Óvissar úrkomuspár
Það er óvenjulegt að sjá jafnmikilli úrkomu spáð í Reykjavík og nú er gert. Tölur upp í meir en 50 mm á sólarhring hafa sést - sömuleiðis sjást spár um meir en 6 mm klukkustundarúrkomu. Fremur óvenjulegt hvort tveggja, sólarhringsúrkomumet nóvembermánaðar í Reykjavík er 46,8 mm, sett 1902 (óstaðfest gildi), en á síðari áratugum er mest vitað um 35,2 mm á sólarhring. Það var 1993. Klukkustundarákefðarmet nóvembermánaðar er 4,8 mm í Reykjavík. Rétt er þó að taka fram að mjög mikil óvissa er í spánum - meiri en stundum áður.
Útgildavísar evrópureiknimiðstöðvarinnar auðvelda mjög mat því hversu óvenjulegir veðuratburðir sem koma fram í spám eru. Vísarnir byggja á reynslu - vita hversu algengt það veður er sem verið er að spá. Það er hins vegar með þessa vísa eins og annað, rétt er að trúa þeim ekki í blindni og greinilegt að talsverða reynslu þarf til að meta þær upplýsingar sem þeir vísa á.
Orðið útgildavísir er þýðing á því erlenda extreme forecast index, EFI, en halavísir reynir að íslenska shift of tail, SOT. - Þýðingar þessar hafa ekki öðlast hefðarrétt (né annan) og aðrar (og vonandi betri) munu e.t.v. sýna sig síðar.
Hér verða vísarnir ekki skýrðir frekar, en þess þó getið að veðurfræðingum er sagt að hafa varann á ef útgildavísirinn fer yfir 0,9 - og sömuleiðis ef halavísirinn (nafnið vísar til hala tölfræðidreifingar) nálgast 2,0 - hér er hann hins vegar vel yfir 2 á allstóru svæði yfir Suðvesturlandi - og fer hæst í 3,2 - það er óvenjulegt, gildið 0,0 mun algengt.
En í hverju fellst óvissan? Einn þátturinn er sá að líkan evrpópureiknimiðstöðvarinnar er ekki með full tök á landslagi. Ítrustu landslagsbundnu úrkomuhámörk koma illa fram - sömuleiðis svonefndir úrkomuskuggar - svæði í 10 til 20 km fjarlægð frá fjöllum sem vindur blæs frá.
Kortið sýnir úrkomu laugardagsins - eins og reiknimiðstöðin vill hafa hana. Reykjavík er inni á svæði þar sem hún er meiri en 40 mm, en minni en 80. Við sjáum greinileg áhrif fjalla og vindáttar í lögun lituðu svæðanna. Hæsta talan er á Mýrdalsjökli 122 mm - það er ekki sérlega óvenjuleg sólarhringsúrkoma þar.
En lítum líka á spá harmonie-líkansins frá því kl. 12 á hádegi (föstudag).
Harmonie-líkanið sér landslagið mun betur. Hér sjáum við uppsafnaða úrkomu frá hádegi á föstudag til laugardagskvöld (36 klst). Tökum við allt bókstaflega má sjá að úrkoma á Veðurstofunni verður um 50 mm - en ekki á einum sólarhring heldur einum og hálfum. Mikið jú, en varla met (kannski nær sólarhringurinn þó tölunni frá 1993 - alveg hugsanlegt).
En þetta er bara ein spáruna - tölurnar hafa sveiflast mjög til og frá frá einni runu til annarrar. Svo virðist sem lítilsháttar munur í vindhraða og vindstefnu og smáatriði í rakaaðstreymi úr suðri hafi miklar afleiðingar - sérstaklega þegar kemur fram undir kvöld á laugardag.
En það er þó bót í máli að enginn klaki eða snjór er á jörð - og vatn ætti að ganga niður og renna greiðlega fram víðast hvar. Úrkoma þessi er greinilega tengd fjöllum þannig að lækir úr þeim vaxa sjálfsagt víða úr hófi og aur gæti komist í þá.
Hitavísir reiknimiðstöðvarinnar er líka í hæstu hæðum. Rigningin hér syðra veldur þó því að ólíklegt er að hitamet verði slegin þar sem úrkoman er hvað mest. Hæsti hiti sem mælst hefur í Reykjavík í nóvember er 13,2 stig - á sjálfvirku stöðinni þann 19. árið 1999, 12,6 stig sama dag á mönnuðu stöðinni. Dægurhámarksmetin í Reykjavík þessa dagana eru mörg á bilinu 11 til 12 stig.
En hungurdiskar láta Veðurstofuna alveg um spár - og hvetur lesendur til að fylgjast með spám og viðvörunum hennar.
16.11.2018 | 01:14
Hálfur nóvember
Þá er hálfur nóvember liðinn (rétt einu sinni). Meðalhiti hans í Reykjavík er 4,1 stig, +2,1 stigi ofan meðallags 1961-1990, og +0,7 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára og í 9.sæti (af 18 á öldinni). Á öldinni var fyrri hluti nóvember hlýjastur 2011, meðalhiti þá var 6,7 stig, en kaldastur var hann 2010, meðalhiti -0,5 stig. Á langa listanum er hiti fyrstu 15 daga mánaðarins í 28. sæti (af 143). Hlýjast var 1945, meðalhiti 8,2 stig, en kaldast 1969, meðalhiti -2,6 stig.
Á Akureyri er meðalhiti það sem af er mánaðar 2,5 stig, 2,1 stigi ofan meðallags 1961-1990, en +0,8 stig ofan meðallags síðustu tíu ára.
Hiti er ofan meðallags síðustu tíu ára á flestum veðurstöðvum landsins, þó ekki alveg öllum. Jákvæða vikið er mest á Hólmavík, +1,4 stig, en mest er vik neikvætt við Búrfell og í Þykkvabæ, -1,0 stig.
Úrkoma í Reykjavík hefur mælst aðeins 14,5 mm - rúmur þriðjungur meðalúrkomu - en 65,4 mm á Akureyri, hátt í þreföld meðalúrkoma.
Í Reykjavík hafa sólskinsstundirnar mælst 25,2 það sem af er mánuði - og er það í meðallagi.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 01:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.1.): 11
- Sl. sólarhring: 183
- Sl. viku: 2458
- Frá upphafi: 2434568
Annað
- Innlit í dag: 9
- Innlit sl. viku: 2183
- Gestir í dag: 9
- IP-tölur í dag: 9
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010