Mikið háþrýstisvæði ræður ríkjum

Nú er mikið og hlýtt háþrýstisvæði fyrir austan land. Það mun ráða veðri hér á landi næstu daga.

w-blogg191118a

Kortið sýnir stöðuna í 500 hPa eins og evrópureiknimiðstöðin telur hana verða um hádegi á morgun, þriðjudaginn 20.nóvember. Hæðin er um 5778 metrar í miðju og þykktin (litafletirnir) slær í 5520 metra (örsmár gulbrúnn litur við Norðausturland). Að sumarlagi væru líkur á 20 stiga hita undir þessari þykkt, en nú er sól mjög lágt á lofti og geislunarbúskapur mjög neikvæður - enginn von hitamet nema í töluverðum vindi af fjöllum. Þar sem birtir til og lygnir fellur hiti fljótt niður fyrir frostmark. En mjög hlýtt er yfir og ekki þarf mikinn vind til að koma hitanum yfir 10 stigin - eins og reyndar er spáð að gerist allvíða fyrir norðan á morgun - rétt eins og undanfarna daga. 

Hæðir sem þessar eru ekki beinlínis óalgengar í nóvember, en koma þó ekki við á hverju ári og stundum líða mörg ár á milli heimsókna. 

Á miðvikudaginn verður vindur orðinn enn hægari og smám saman verður lengra upp í hlýja loftið - og erfiðara að koma kalda loftinu burt taki það að safnast fyrir. Hugsanlegt er að við sjáum einkennilegar hitasveiflur víða á miðvikudaginn og næstu daga þar sem munur á hita í mannhæð og í 100 metra hæð verður sums staðar á bilinu 4 til 10 stig. 

Ástæða er til að benda á kuldapollinn við Bretland - hann er á vesturleið. Þó okkur þyki þykktin í honum miðum ekkert sérstaklega lág er þetta samt nægilega kalt til þess að snjókoma og ýmis vetrarvandræði geti hlotist af - á slóðum þar sem menn eru e.t.v. ekki alveg viðbúnir enda eru gular viðvaranir í gildi víða. 

Ekki er gert ráð fyrir því að hæðin fái neina nýja innspýtingu af hlýju lofti næstu daga. Hún kólnar þannig smám saman upp - líka í efri lögum. „Frjáls“ kólnun í háloftum er þó hæg, 1 til 2 stig á dag. Auk þess dregur úr niðurstreymi - sem hefur haldið hita í neðri hluta veðrahvolfs uppi undanfarna daga.

w-blogg191118b

Á sunnudaginn kemur, þann 25.nóvember telur reiknimiðstöðin líklegt að staðan verði orðin svona. Rétt að hafa í huga að ólíklegt er að hún verði þessi - en við trúum samt í bili. Hér má sjá að hæðin hefur gefið mjög eftir - er orðin að brú eða hrygg frá Noregi í austri vestur um Ísland og Grænland til Labrador. Þykktin við Ísland er í kringum 5340 metrar - hefur lækkað um 120 metra - neðri hluti veðrahvolfs hefur kólnað um 6 stig eða svo - rúmlega 1 stig á dag - en meira á slóðum hlýja blettsins við Norðausturland - þar gætir ákafs niðurstreymis væntanlega ekki lengur. 

Þetta þýðir að talsvert frost gæti orðið inn til landsins þegar nær dregur helginni - þó þykktin sé reyndar nægilega mikil til þess að búa til þíðu um leið og vind hreyfir. Hiti í neðanverðu veðrahvolfi um 3 stigum hlýrra en að meðallagi á þessum árstíma. 

Svo verður spennandi að sjá hvar og hvernig brúin brotnar - það skiptir miklu máli fyrir framhaldið. Gerist það fyrir austan land fáum við allmikinn norðankulda yfir okkur, en gerist það vestur af gerir aftur sunnanátt með hlýindum. Svo gæti hún líka mjakast norður og austanáttin færst í aukana hér á landi. Kannski ekki með neinum sérstökum hlýindum, en ekki miklum kulda heldur. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragna Birgisdóttir

Takk fyrir þennan skemmtilega fróðleik Trausti. Unun að fylgjast með.

Ragna Birgisdóttir, 19.11.2018 kl. 19:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg160424b
  • w-blogg160424a
  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 45
  • Sl. sólarhring: 109
  • Sl. viku: 1536
  • Frá upphafi: 2348781

Annað

  • Innlit í dag: 42
  • Innlit sl. viku: 1340
  • Gestir í dag: 39
  • IP-tölur í dag: 38

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband