Bloggfærslur mánaðarins, október 2018
16.10.2018 | 01:50
Október hálfnaður
Hálfur október nær liðinn. Meðalhiti í Reykjavík fyrstu 15 dagana er 4,3 stig, -0,7 stigum neðan meðallags sömu daga 1961-1990, en -1,9 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhitinn er í 16. sæti (af 18) á öldinni. Hlýjastir voru þeir 2010, meðalhiti 9,5 stig, en kaldastir 2005, meðalhiti 3,8 stig. Á langa listanum er hitinn í 101.sæti (af 143). Hlýjast varð 1959, meðalhiti fyrstu 15 októberdaganna var þá 10,2 stig, en kaldastir voru þeir 1981, meðalhiti aðeins -0,7 stig.
Á Akureyri er meðalhiti fyrstu 15 daga mánaðarins 3,5 stig og er það í meðallagi sömu daga árin 1961-1990, en -1,8 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára.
Hiti er neðan meðallags síðustu tíu ára á öllum veðurstöðvum landsins. Minnst er neikvæða vikið í Seley, -0,8 stig, en mest á Laufbala -2,8 stig.
Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 49,1 mm og er það í ríflegu meðallagi. Sama úrkomumagn hefur mælst á Akureyri, en það er langt ofan meðallags þar á bæ.
Sólskinsstundir hafa mælst 52,5 í Reykjavík og er það í rétt rúmu meðallagi.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 01:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.10.2018 | 14:50
Vík í Mýrdal 1910
Í tilefni aldarafmælis síðasta (viðurkennda) Kötlugoss lítum við á mynd sem tekin er í Vík í Mýrdal 1910, átta árum fyrir gosið. Þetta er gamalt póstkort, gefið út af Gísla og Frímann - merkt 2463 en ljósmyndara er því miður ekki getið.
Hér er ekki langt til sjávar - ströndin gekk mjög fram eftir gosið, en síðan hefur smám saman eyðst af henni aftur. Ritstjóri hungurdiska er ekki alveg nægilega kunnugur á þessum slóðum til að sjá hvernig staðan 1910 var samanborið við það sem nú er - t.d. hvort sjó ber nú í Hjörleifshöfða frá þessum stað séð. Einhverjir lesendur kunna að geta upplýst hvernig þau mál standa.
Í pistli sem birtist á hungurdiskum 12.október 2010 var fjallað lítillega um tjón af völdum sjávargangs og sandfoks í Vík. Þar kom fram að talsvert var um sjávarflóð síðustu áratugina fyrir gosið 1918, stærst urðu flóðin á þriðja í jólum 1914 og í 21.janúar 1916. Flæddi þá upp í verslunarhús og skemmur þær sem sjá má á miðri myndinni. Flóðið 1914 var meira en hitt - enda veður verra.
Eftir gosið var ekki mikið um sjávarflóð í Vík en upp úr miðri öldinni virðist sem tíðni þeirra hafi farið að aukast aftur. Sömuleiðis urðu þá aukin vandræði af sandfoki.
Hér er hlekkur á gamla pistilinn - en sjálfsagt vantar eitthvað í hann.
Viðbót 14.október:
Þórir N. Kjartansson í Vík var svo vinsamlegur að senda ritstjóra hungurdiska mynd sem tekin er um það bil frá sama stað og myndin hér að ofan - en fyrir þremur árum og er hér með þakkað fyrir þá vinsemd og birtingarleyfi.
Ör sem Þórir hefur sett inn á myndina bendir á húsið Halldórsbúð sem einnig er á fyrri myndinni. Má glögglega sjá hversu miklu utar ströndin liggur nú heldur en 1910 - Kötlutangi nær langt suður fyrir Hjörleifshöfða - og enginn sjór í sjónlínu á milli Víkur og Höfðans. Þórir bendir síðan á að mikil uppbygging hefur átt sér stað til austurs í Vík allra síðustu árin - eftir að þessi mynd er tekin.
Vísindi og fræði | Breytt 14.10.2018 kl. 16:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
13.10.2018 | 01:31
Enn af vetrarspá
Fyrir mánuði síðan litum við á vetrarspá evrópureiknimiðstöðvarinnar um hæðarvik 500 hPa-flatarins í desember til febrúar. Dreifing vikanna segir eitthvað um meðalstyrk og stefnu háloftavinda í þessum mánuðum. Nú er komin ný spá fyrir sömu mánuði.
Við sjáum sem fyrr hluta norðurhvels jarðar. Litafletirnir sýna vikin - gulir og brúnir litir eru svæði þar sem búist er við jákvæðum hæðarvikum, en á þeim bláu eru vikin neikvæð. Spáin er í raun mjög svipuð og var fyrir mánuði síðan - vikin heldur eindregnari þó. Spáð er öllu flatari hringrás heldur en að meðaltali - vestanáttin við Ísland og fyrir sunnan það öllu slakari en algengast er. Háþrýstisvæði líka algengari norðurundan en vant er - og lægðabrautir fremur suðlægar - inn yfir Suður-Evrópu fremur en yfir Ísland og Noregshaf. Helsta breytingin í legu vikanna frá fyrri spá er að austanáttin er heldur suðlægari en var fyrir mánuði.
En jafnvel þó spáin rætist er rétt að hafa í huga að hún tekur til þriggja mánaða og sá tími felur ótalmargt. Kuldapollarnir stóru - þeir sem við höfum hér til gamans nefnt Stóra-Bola og Síberíu-blesa verða væntanlega á sínum slóðum eins og venjulega, en rætist þessi spá eru samt meiri líkur en minni á að þeir fái að takast meir en venjulega á við fyrirstöður alls konar og hrekist oftar í suðlægari stöðu en algengast er.
Munum enn að árstíðaspár af þessu tagi eru algjör tilraunastarfsemi og lítt martækar, en merkilegt verður að telja rætist þessi - sérstaklega vegna þess að hér er veðjað á allt annað veðurlag en ríkt hefur að undanförnu. Háþrýstisvæðið í námunda við Skandinavíu heldur að vísu sínu í þessari spá (og heldur betur en fyrir mánuði), en vestan Grænlands er spárástand gjörólíkt því sem verið hefur ríkjandi lengst af frá því í vor. Spurningin er þá hvenær skiptir? Verðum við vör við það þegar að því kemur - eða læðist það bara að? Fjölviknaspá reiknimiðstöðvarinnar sem kom í hús í gærkveldi er eitthvað að tala um fjórðu eða fimmtu viku héðan í frá - það er að segja fyrrihluta nóvembermánaðar.
11.10.2018 | 23:47
Ekki oft
Það er ekki oft sem jafndjúpar eða dýpri lægðir en sú sem nú er suðvestan Írlands sjást á Norður-Atlantshafi í október.
Þetta er sjávarmálskort evrópureiknimiðstöðvarinnar frá því kl.18 í dag, fimmtudag 11.október. Lægðin er sögð 937 hPa í miðju. Hún hreyfist í norðnorðaustur og á að fara fyrir austan Ísland á aðfaranótt laugardags. Til allar hamingju verður þá úr henni mesti vindurinn. Lægðin sem olli rigningunni og hlýindunum hér á landi í dag er líka óvenjudjúp, um 947 hPa í miðju - ekki svo algeng tala heldur.
Lægsti þrýstingur sem vitað er um hér á landi í október er 938,4 hPa, en hann mældist á Stórhöfða í Vestmannaeyjum 19.október 1963.
Kortið sýnir tillögu japönsku endurgreiningarinnar um sjávarmálsþrýsting, úrkomu og hita í 850 hPa þann dag, kl.18. Í endurgreiningunni er miðjuþrýstingur lægðarinnar 935 hPa - lítillega lægri en í lægð dagsins í dag. Mjög sennileg ágiskun.
Þrautseigir lesendur hungurdiska muna e.t.v. eftir því að fyrir löngu var hér fjallað um lágþrýsting í október 1963. Lægðin á kortinu hér að ofan olli sjávarflóði og tjóni allt frá Grindavík í vestri og austur í Mýrdal. Hvassara (og meira foktjón) varð hins vegar í veðri nokkrum dögum síðar - sú lægð var talin 942 hPa í miðju og má á vef Veðurstofunnar sjá mynd af Íslandskorti sem sýnir meir en 100 hnúta meðalvind á Stórhöfða í Vestmannaeyjum. Gömul veðurnörd minnast þessara veðra beggja eins og gerst hefði í gær. Í sama mánuði hafði fellibylurinn Flóra valdið gríðarlegu tjóni við Karíbahaf - banaði meðal annars á áttunda þúsund manns. Leifarnar náðu að lokum til Íslands þann 14.október - lítilsháttar fokstjón varð - en samt minnisstæð staða.
Vísindi og fræði | Breytt 12.10.2018 kl. 02:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.10.2018 | 02:03
Fyrstu tíu dagar októbermánaðar
Fyrstu tíu dagar októbermánaðar hafa verið heldur kaldir. Meðalhiti þeirra í Reykjavík er 3,4 stig, -1,7 stigum neðan meðallags sömu daga á árunum 1961-1990, en -2,7 neðan meðallagi síðustu tíu ára og það 17. hlýjasta á öldinni (af 18). Dagarnir tíu voru kaldari árið 2009. Á 143-ára listanum er hitinn í 120. sæti. Hlýjastir voru þessir sömu dagar 1959, meðalhiti 11,0 stig, en kaldastir voru þeir 1981, +0,1 stig.
Á Akureyri er meðalhiti fyrstu tíu daga október 2,6 stig, -0,9 stigum neðan meðallags 1961-1990, en -2,7 stig neðan meðallags síðustu tíu ára.
Hiti er undir meðallagi síðustu tíu ára um land allt, minnst er vikið í Seley, -1,4 stig, en mest við Setur, -4,0 stig.
Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 40,2 mm, vel umfram meðallag, og 43,2 mm á Akureyri, það er um tvöföld meðalúrkoma.
Sólskinsstundir hafa mælst 40,2 og er það í ríflegu meðallagi. [Það er skemmtileg tilviljun að úrkomusumman er tölulega sú sama].
Mikið af dægurlágmarksmetum féll á dögunum, þar á meðal í Reykjavík.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 13:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.10.2018 | 01:45
Enn af sömu lægð (í þriðja sinn)
Fyrir hálfum mánuði og aftur fyrir viku litum við á kort sem sýndu hitabeltisstorm suðvestur af Asóreyjum. Hann er búinn að hringsóla á svæðinu allan þennan tíma undir nafninu Leslie. Styrkurinn hefur verið mjög misjafn - en stormstyrkur samt - og á að fara aftur upp í fellibylsafl á fimmtudaginn.
Örin sýnir færsluna undanfarna viku. Sem stendur er lægðinni spáð til Kanaríeyja (eða eitthvað í þá áttina - engin nákvæmni þar) en sumar spárunur gefa til kynna að hann taki annan hring - veikist fyrst í austustu stöðu, en fari svo aftur vestur og styrkist.
Á kortinu má sjá tvær aðrar öflugar lægðir. Önnur þeirra á að valda allhvassri austanátt hér á landi á fimmtudaginn. Henni fylgir mjó sneið af hlýindum. Það er kannski ólíklegt að hitinn nái 20 stigum þar sem mest verður á landinu, en 14 til 17 stig nokkuð líkleg. Meðal annars gæti orðið vel hlýtt í Reykjavík. En því miður þá standa þessi hlýindi víst ekki lengi - lægðin krappa suðvestur af Írlandi verður í foráttuvexti - líklegt talið að þrýstingur í lægðarmiðju fari niður fyrir 940 hPa síðdegis á fimmtudag. Hún á síðan að snúa vindi meir til norðlægari átta hér á landi þegar hún nálgast - og fara til norðurs fyrir austan land um helgina. Ekki er þó útséð um þessa þróun alla.
Fellibylurinn Michael ógnar nú ströndum Mexíkóflóa og á að ganga á land í Norður-Flórída á morgun (miðvikudag). Leifar hans eru rétt utan við þetta kort (sem gildir eins og áður sagði á fimmtudaginn). Michael á síðan að fara út yfir Atlantshaf - en sem stendur er talið að hann hitti frekar illa í bylgjur vestanvindabeltisins og nái sér ekki alvarlega á strik þar. En þar á þó sama við og um hinar lægðirnar að spár eru ekkert allt of öruggar þegar kemur marga daga fram í tímann.
Viðbót 14.október:
Lægðin Leslie endaði á því að valda allmiklu hvassviðri og tjóni í Portúgal að kvöldi 13.október og nóttina á eftir. Einhver áhrif urðu líka á Spáni. Fullyrðingar um að Leslie sé á einhvern hátt einstakur í sögunni fara lítillega í fínu taugarnar á ritstjóra hungurdiska. Rétt er hugsanlegt að svo sé - en jafnlíklegt er að ámóta hafi gerst alloft áður. Nú á dögum er fylgst miklu betur með kerfum eins og þessum heldur en áður var. Stormviðri eru þrátt fyrir allt nokkuð algeng í Portúgal og erfitt að fullyrða án verulegrar athugunar að ekkert þeirra hafi á umliðnum áratugum og öld tengst ámóta kerfi og Leslie. - Alla vega hefur komið í ljós að krappara kerfi fór um Madeira haustið 1842 - hvort það var leifar hitabeltisstorms veit ritstjórinn ekki. - En við skulum spara okkur orð eins og einstakt þar til mál hafa verið athuguð betur. Þangað til verðum við líka að varast þá fljótfærni að tengja leiðir Leslie hnattrænum umhverfisbreytingum af mannavöldum. - Við vitum t.d. að það er alls ekki óalgengt að leifar fellibylja berist alla leið til Íslands.
Vísindi og fræði | Breytt 14.10.2018 kl. 16:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.10.2018 | 17:04
Vetrarkoma í Stykkishólmi 1846 til 2017
Þetta er framhald á pistli sem birtist hér á hungurdiskum fyrir viku. Hann fjallaði um vetrarkomu á landinu á árunum 1949 til 2017. Þar má sjá skilgreininguna sem notuð var. Henni er hér beitt á hita í Stykkishólmi, en við höfum daglegar upplýsingar um hann allt aftur til 1846. - Haustið 1919 vantar þó. Megingalli fyrri pistils var sá að í hann vantaði að mestu upplýsingar um ástandið á hlýskeiðinu mikla á 20.öld. Hér er bætt úr því.
Við skulum taka fram að meðalhiti í Stykkishólmi er lítillega hærri heldur en landsmeðaltalið þannig að til að gæta fulls samræmis við fyrri reikninga hefðum við ef til vill átt að miða við +0,5 stig en ekki 0,0 við ákvörðunina - en við erum að leika okkur en ekki að básúna einhvern sannleika.
Lárétti ásinn sýnir ár, en sá lóðrétti er dagatal. Vetur sem byrjar snemma liggur lágt í línuritinu, en sá sem seint byrjar fær langa súlu. Það hefur nokkrum sinnum gerst í Stykkishólmi að vetrarbyrjun (eins og hún er skilgreind hér) dregst fram yfir áramót. Síðast gerðist slíkt 2016 og upphaf vetrarins er inni í janúar - eða jafnvel febrúar eins og átti sér stað 1956 - þá auðvitað febrúar 1957.
Rauði ferillinn markar 10-árakeðjur - þar má sjá greinilega tímabilaskiptingu, þó vissulega sé mjög mikill breytileiki frá ári til árs allan tímann. Kuldaskeiðið eftir 1960 kemur mjög vel fram - vetur hófst þá yfirleitt meir en hálfum mánuði fyrr á haustin en bæði fyrir og eftir - ekkert ósvipað og var á 19.öld. Það vekur reyndar athygli að á þessari mynd lýkur kuldanum meir en áratug áður en ársmeðalhitameðaltöl sýna, eða strax haustið 1984.
Meðaldagsetning vetrarkomu fyrir tímabilið í heild er 4.desember, en hefur á þessari öld verið 15.desember. Reikna má leitni fyrir allt tímabilið og hefur vetrarkomu seinkað um 12 daga á öld að jafnaði á þessum 170 árum rúmum.
9.10.2018 | 01:18
Hitasveiflur á þessari öld
Það sem hér fer á eftir er að miklu leyti endurtekið efni - þó uppfært. Við lítum á 12-mánaða keðjumeðaltöl hita í Reykjavík frá 1996 þar til nú í septemberlok og berum saman við landsmeðalhita.
Mikil hlýindi hafa verið ríkjandi hér á landi allt frá árinu 1996 - árið 1995 er utan og neðan myndar (meðalhiti aðeins 3,8 stig í Reykjavík). Mestu hlýindin hófust þó ekki fyrr en á árinu 2002 - en síðan kólnaði nokkuð aftur - 12-mánaða keðjur fóru þá rétt niður fyrir 5,0 stig. Síðan hlýnaði strax aftur - nokkuð kólnaði um stund 2013 og aftur 2015, en árið 2016 og fyrri hluti 2017 varð hiti nærri því eins hár og 2003. Síðan hefur kólnað nokkuð aftur - þó ekki enn eins mikið og 2015.
Tólf-mánaðameðaltalið stendur nú í 4,8 stigum og lækkar trúlega niður í 4,5 stig þegar október verður kominn í hús. Stafar það af því að október í ár verður líklega nokkuð kaldari en sami mánuður í fyrra - en hann var hlýr. Nóvember og desember 2017 voru hins vegar ekki í sama hlýindaflokki þannig að auðveldara verður fyrir sömu mánuði í ár að keppa við þá. En um það vitum við auðvitað ekki neitt.
Ef við förum í leitnileik sjáum við að það hefur hlýnað um 0,6 stig á síðustu 20 árum, eða 3 stig á öld - haldi svo áfram. Oft hefur verið fjallað um þau mál hér á hungurdiskum og ætíð minnt á að leitni segir ekkert um framtíðina - hún er frjáls að sínu.
Þó hlýindin hafi gengið yfir allt landið (leitni landshitans er nánast hin sama) er samt fróðlegt að líta á hvernig Reykjavík hefur staðið sig miðað við landsmeðaltal.
Lóðrétti kvarðinn sýnir mismun hita í Reykjavík og byggðameðaltals ritstjóra hungurdiska. Að jafnaði er um 1 stigi hlýrra í Reykjavík en landsmeðaltalið. Reyndar er talsverð árstíðasveifla í þeim mun. Mestu munar í apríl, en minnstu í desember, janúar og september. Af myndinni sjáum við að síðasta ár hefur verið kalt í Reykjavík miðað við landið í heild, munurinn ekki nema 0,6 stig og hefur ekki verið jafnlítill síðan árið 2000. Það var 2012 og 1998 sem Reykjavík var hvað hlýjust miðað við landið í heild.
Ýmsum kann að finnast síðustu 12 mánuðir hafa verið svalir, en sannleikurinn er sá að 4,8 stig er bærileg tala sé litið til langs tíma. Myndin hér að neðan sýnir þetta að einhverju leyti.
Hér má sjá þau 12-mánaða tímabil þegar hiti hefur verið hærri en síðustu 12 mánuði - allt sem kaldara er er skorið burt. Við sáum á fyrri mynd að hiti hefur oftast (þó ekki alltaf) verið hærri en nú á þessari öld - og kemur það líka vel fram á þessari. Á tímabilinu 1965 til 2000 kom rétt aðeins fyrir að 12-mánaða hiti yrði meiri en 4,8 stig - þá var talað um hlýindi. Það var algengara á árunum 1925 til 1965 - en samt aldrei samfellt í líkingu við það sem við höfum lifað á þessari öld - aðeins stakir toppar skera sig úr. Og fyrir 1925 var það aðeins árið 1880 sem rétt reis upp úr kuldanum (og fáein ár önnur fyrr á 19.öld).
6.10.2018 | 01:24
Hrunveðrið
Það var ekki aðeins bankakerfið sem fór á höfuðið í októberbyrjun árið 2008 heldur má segja að veðrið hafi gert það líka. Rétt tæp þrjú ár höfðu liðið frá því að kaldur mánuður hafði sýnt sig og tveir mánuðir ársins 2008 fram að því, maí og september voru sérlega hlýir. Auk þess gerði sérlega eftirminnilega hitabylgju um mánaðamótin júlí/ágúst - þegar hæsti hiti sem vitað er um mældist í Reykjavík, 25,7 stig á mönnuðu stöðinni, en 26,4 á þeirri sjálfvirku. Hiti á Þingvöllum mældist 29,7 stig, sá hæsti sem nokkru sinni hefur mælst á sjálfvirkri stöð á landinu.
September var þó óvenjublautur sunnanlands, úrkoma í Reykjavík nærri tvöfalt meðaltal. Minnistætt er úrhelli og hvassviðri þann 16. til 17. september þegar lægð, sem tengd var leifum fellibylsins Ike, fór hjá landinu. Um þetta veður má lesa í pistli á vef Veðurstofunnar.
En síðustu daga september kólnaði að mun þegar vindur snerist til norðurs. Þann 2. kom grunn, en vaxandi lægð með norðvestanvindstreng í háloftum vestan yfir Grænland og fór til austurs rétt við suðvesturströndina. Loftið var nægilega kalt til þess að áköf úrkoman féll sem snjór víða um landið sunnanvert. Morguninn eftir mældist snjódýpt í Reykjavík 9 cm. Það var sem náttúran tæki þátt í kuldanum sem var að slá sér inn í hjörtu flestra landsmanna. Voru stöku menn vissir um að litla-ísöld hefði snúið snarlega aftur úr felum - og Hörmangarafélagið jafnvel líka.
Á kortinu má sjá lægðina litlu sem snjókomunni olli, einhverri þeirri mestu sem mælst hefur í höfuðborginni svo snemma hausts. Reyndar liðu ekki nema 5 ár þar til enn meiri snjór féll í borginni snemma í október.
Íslandskortið kl.21 fimmtudaginn 2.október sýnir snjókomu sem náði frá Snæfellsnesi í vestri austur í Mýrdal. Skyggni í Reykjavík var ekki nema 800 metrar - en vindur var hægur. Tölurnar sem standa ofarlega til hægri við hverja stöð sýna hita, -0,8 stig í Reykjavík. Við sjáum að á Grímsstöðum á Fjöllum var frostið -9,8 stig. Þessir dagar voru sannarlega kaldir, fjöldi dægurlágmarksmeta féll þar á meðal þrjú landsdægurlágmarksmet fyrir landið allt, og líka þrjú í byggðum. Þau standa enn. Mest mældist frostið þessa daga á Brúarjökli, -18,4 stig þann 2., og -17,4 stig mældust í Svartárkoti þann 3. - næstmesta frost í byggð svo snemma hausts. Frost fór í -8,6 stig á Akureyri - líka næstmesta frost svo snemma hausts þar á bæ.
Þetta má segja okkur að kuldi getur gert illa vart við sig þó hlýindi séu almennt ríkjandi.
En það hlýnaði fljótt aftur og mánudaginn þann 6., þann sem flestir tengja við fræga ræðu forsætisráðherra og neyðarlögin, var fremur hlýr landsynningur ríkjandi á landinu eins og kortið hér að neðan sýnir.
En kuldatíðin hafði ekki yfirgefið landið. Um og uppúr þeim 20. gengu sérlega djúpar lægðir hjá landinu með kulda, stormum og sjógangi. Hæð 500 hPa flatarins yfir Keflavík fór í sína næstlægstu októberstöðu og 400 hPa-flöturinn í þá lægstu. Loftþrýstingur fór niður í 945,9 hPa á Gjögurflugvelli, það er sá fimmtilægsti í október frá upphafi mælinga á landinu.
5.10.2018 | 20:13
Sjávarhitavik um þessar mundir
Ritstjóri hungurdiska varð vægilega undrandi þegar hann leit á kort evrópureiknimiðstöðvarinnar sem sýnir vik sjávarhita á Norður-Atlantshafi frá meðallagi þessa dagana. Allnokkuð hefur dregið úr neikvæðum vikum fyrir sunnan land, en jákvæðu vikin fyrir norðan hafa hafa einnig gefið eftir.
Köldu vikin (græni liturinn) fyrir sunnan land hafa nær allsstaðar minnkað niður fyrir -1 stig og jákvæðu vikin í norðurhöfum eru einnig daufari en var fyrr í sumar. Aftur á móti eru mikil hlýindi í Golfstraumnum þar sem hann fer þvert yfir Atlantshaf og virðist hafa lagst yfir kaldan sjó austur af Nýfundnalandi (hvað sem það svo endist).
Hafið er nú komið inn í líkan reiknimiðstöðvarinnar og spá um yfirborðshita næstu tíu daga bendir til þess að neikvæðu vikin færist aftur heldur í aukana, þannig að ástandið sem við sjáum hér er kannski bara tímabundið en ekki hluti af lengri þróun.
En fróðlegt verður að fylgjast með ástandinu í vetur.
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (15.4.): 38
- Sl. sólarhring: 87
- Sl. viku: 1271
- Frá upphafi: 2460767
Annað
- Innlit í dag: 30
- Innlit sl. viku: 1116
- Gestir í dag: 30
- IP-tölur í dag: 30
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Apríl 2025
- Mars 2025
- Febrúar 2025
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010