Enn af sömu lægð (í þriðja sinn)

Fyrir hálfum mánuði og aftur fyrir viku litum við á kort sem sýndu hitabeltisstorm suðvestur af Asóreyjum. Hann er búinn að hringsóla á svæðinu allan þennan tíma undir nafninu Leslie. Styrkurinn hefur verið mjög misjafn - en stormstyrkur samt - og á að fara aftur upp í fellibylsafl á fimmtudaginn. 

w-blogg101018a

Örin sýnir færsluna undanfarna viku. Sem stendur er lægðinni spáð til Kanaríeyja (eða eitthvað í þá áttina - engin nákvæmni þar) en sumar spárunur gefa til kynna að hann taki annan hring - veikist fyrst í austustu stöðu, en fari svo aftur vestur og styrkist. 

Á kortinu má sjá tvær aðrar öflugar lægðir. Önnur þeirra á að valda allhvassri austanátt hér á landi á fimmtudaginn. Henni fylgir mjó sneið af hlýindum. Það er kannski ólíklegt að hitinn nái 20 stigum þar sem mest verður á landinu, en 14 til 17 stig nokkuð líkleg. Meðal annars gæti orðið vel hlýtt í Reykjavík. En því miður þá standa þessi hlýindi víst ekki lengi - lægðin krappa suðvestur af Írlandi verður í foráttuvexti - líklegt talið að þrýstingur í lægðarmiðju fari niður fyrir 940 hPa síðdegis á fimmtudag. Hún á síðan að snúa vindi meir til norðlægari átta hér á landi þegar hún nálgast - og fara til norðurs fyrir austan land um helgina. Ekki er þó útséð um þessa þróun alla.

Fellibylurinn Michael ógnar nú ströndum Mexíkóflóa og á að ganga á land í Norður-Flórída á morgun (miðvikudag). Leifar hans eru rétt utan við þetta kort (sem gildir eins og áður sagði á fimmtudaginn). Michael á síðan að fara út yfir Atlantshaf - en sem stendur er talið að hann hitti frekar illa í bylgjur vestanvindabeltisins og nái sér ekki alvarlega á strik þar. En þar á þó sama við og um hinar lægðirnar að spár eru ekkert allt of öruggar þegar kemur marga daga fram í tímann. 

Viðbót 14.október:

Lægðin Leslie endaði á því að valda allmiklu hvassviðri og tjóni í Portúgal að kvöldi 13.október og nóttina á eftir. Einhver áhrif urðu líka á Spáni. Fullyrðingar um að Leslie sé á einhvern hátt einstakur í sögunni fara lítillega í fínu taugarnar á ritstjóra hungurdiska. Rétt er hugsanlegt að svo sé - en jafnlíklegt er að ámóta hafi gerst alloft áður. Nú á dögum er fylgst miklu betur með kerfum eins og þessum heldur en áður var. Stormviðri eru þrátt fyrir allt nokkuð algeng í Portúgal og erfitt að fullyrða án verulegrar athugunar að ekkert þeirra hafi á umliðnum áratugum og öld tengst ámóta kerfi og Leslie. - Alla vega hefur komið í ljós að krappara kerfi fór um Madeira haustið 1842 - hvort það var leifar hitabeltisstorms veit ritstjórinn ekki. - En við skulum spara okkur orð eins og „einstakt“ þar til mál hafa verið athuguð betur. Þangað til verðum við líka að varast þá fljótfærni að tengja leiðir Leslie hnattrænum umhverfisbreytingum af mannavöldum. - Við vitum t.d. að það er alls ekki óalgengt að leifar fellibylja berist alla leið til Íslands. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg200324b
  • w-blogg200324a
  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 1
  • Sl. sólarhring: 58
  • Sl. viku: 399
  • Frá upphafi: 2343312

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 361
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband