Bloggfærslur mánaðarins, október 2018
4.10.2018 | 22:26
Af árinu 1824
Tíðarfar var óvenjulegt á árinu 1824. Það byrjaði að vísu nokkuð eðlilega, með hefðbundnum vetrarumhleypingum, en þegar leið á mars róaðist veður. Fyrstu þrír mánuðir ársins voru kaldir. Síðan tóku hlýindi við og apríl, maí, júní og júlí virðast hafa verið óvenjuhlýir. Heldur kólnaði í ágúst og síðan tóku við óvenjuþrálátir kuldar. Í nóvember og desember fádæma þrálátir. Flestum heimildarmönnum ber þó saman um að tíðarfar hafi verið mjög stillt lengst af og það var ekki fyrr en kom vel fram á vetur að hann fór að dengja niður snjó á Norðurlandi. Brandstaðaannáll segir orðrétt: Var tíð einstakleg í því að ei kom þíða eða bloti um þrjá mánuði fyrir nýár.
Jón Þorsteinsson landlæknir í Nesi við Seltjörn mældi hita og loftþrýsting á hverjum degi. Líklega hefur séra Pétur á Víðivöllum mælt hita flesta daga, en svo illa vill til að ekkert hefur varðveist af mælingum hans 1824. Ekki hefur frést af öðrum mælingum þetta ár. Mælingar Jóns eru nokkuð ónákvæmar (löguðust mikið síðar) en hafa samt verið notaðar til að giska á mánaða meðalhita í Reykjavík og í Stykkishólmi. Ef tölunum er trúað eins og þær koma fyrir er júní 1824 sá hlýjasti sem vitað er um - en við skulum samt ekki staðfesta það.
Við gætum hins vegar viðurkennt október og nóvember þá köldustu frá upphafi og desember ef til vill sem þann næstkaldasta. Orð Brandstaðaannáls sem vitnað var í hér að ofan benda heldur til þess að rétt sé.
Í fyrri hluta mars gerði harðan frostakafla - en síðan er nánast frostlaust til sumars og þaðan fram á haust - síðan stöðugt frost. Þetta er óvenjuleg hegðan veðurlags hér á landi.
Meðalþrýstingur var methár í bæði júní og júlí og óvenjuhár í ágúst og október líka. Í byrjun febrúar kom sérlega djúp lægð að landinu og fór þrýstingur í Reykjavík niður í 924 hPa. Þetta var lengi viðurkennt lágþrýstimet við Norður-Atlantshaf. Við gerum ekki ráð fyrir nákvæmni í aukastaf - við vitum t.d. ekki nákvæmlega um hæð loftvogarinnar yfir sjávarmáli, né eiginleiðréttingu hennar. Jón las heldur ekki með fullri nákvæmni af voginni - fór að gera það síðar. En tækið var löngu síðar borið saman við loftvog sem Gaimard-leiðangurinn kom með hingað til lands og bar þeim saman.
Ekki fréttist af ís við Norðurland, en þess er getið í blaðinu Íslending (áratugum síðar) 31.júlí 1862 að nokkur ís hafi verið við Austurland 1824 og hafi selur verið sleginn á honum við Loðmundarfjörð og Borgarfjörð eystra.
Brandstaðaannáll:
Vestan og sunnanátt með köföld og blota, með jarðleysi til 16. janúar, að hláku gerði. Kom jörð upp í sveitum, en hross brutu þá ei lengur á heiðum. Eftir það landnyrðingar, köföld og frostmikið. Með febrúar hríðar af öllum áttum og stundum grimmar hörkur. Fyrstu góudaga gott veður og blotar á eftir, svo snöp kom upp. Ei bjó að henni lengi. 6 mars ofsamikil austanhríð. Í góulok brutust menn suður á gaddi, svo sá þá ei til jarðar á heiðum, en stundum var snöp í sveitum. Með apríl kom bati, hæg og stöðug hláka, svo vatnsgangur varð ei mikill, síðan gæðavor.
Á krossmessu búin vallarvinna og grasafjallsferðir ákomnar, er lukkuðust vel. Ekki gerði hret né kuldakast, svo margurt fé varð að góðum notum. 28.júlí lögðust lestir suður og gaf þeim vel. Sláttur byrjaði 15.júlí. Varð nú grasvöxtur góður, rekjur og þurrkar, er oft skiptist um; æskileg heyskapartíð, svo vel fylltust tómar tóftir. Líka hefði mátt vera við heyskap til veturnátta, því ei snjóaði í byggð, en frost og stillt veður lengst. Í október sama staðviðri og snjóleysa. Í nóvember stundum frostmikið. Með desember snjóasamt og fyrir jólin lagði á stórfenni. Var nú einstakleg tíð í því, að ei kom þiða eða bloti um 3 mánuði fyrir nýár. Með jólum kom fé á gjöf. Aflalítið syðra og ónýting vegna votviðra. Fáheyrt var að skip kom í Höfða um fardaga (því íslaust var orðið). (s90)
Bjarni Thorarensen ritar í Gufunesi 3.mars:
... mér er nú nýlega að austan skrifað, að menn í Árnessýslu efra parti séu farnir að lóga peningi frá heyjum því sumarið var graslaust að kalla, en veturinn hinn ónotalegasti, svo máltækið ætlar að sannast að sjaldnast fyrnast græn hey í garði. (s160)
Klausturpósturinn 1824 (VII, 5, bls. 81
Hjá oss varð veturinn víðarst yfrið þungur; frostalítill að sönnu, en snjóa og ofveðrasamur; og svalg upp heybjörg manna, svo til stórfellis horfði, hefði ekki milt vor úr því bætt. Nokkrir fjárhirðarar urðu úti með fé nyrðra í áhlaupa byljum á jólaföstu eða skammjólu. Fáeinir drukknuðu í sjó eða vötnum. Fiskiafli í haust [1823] að mestu enginn í Faxa-bugt og sáraumur þar til vertíðarloka, en í Vestmannaeyjum og austan með besta fyrirtak og af besta fiski eins vestra.
Jón á Möðrufelli talar vel um vetrarlok og vor. Góð hláka var í síðustu viku febrúar og jörð kom upp. Fyrstu viku marsmánaðar telur hann þó harða, þá næstu allsæmilega. Síðan fylgdi mikið góð, stillt og þíðviðrasöm vika og eins var síðasta vika mars mikið stillt.
Apríl var góður framan af, en snjódyngju mikla gerði þó fyrir miðjan mánuð en tók fljótt upp. Síðan góður bati. Maí segir hann aðallega hlýindalausan og þurran lengi vel en undir lokin var gróður í betra lagi.
Klausturpósturinn 1824 (VII, 10, bls. 164)
Sumarið, þegar útrunnið, reyndist hér á landi hlýtt, frjósamt og indælt, gaf og ríkulegan heyjafeng flestum, nema [af] votlendi gjörðu hann þá út hallaði, endasleppan af haust-rigningum. Almenn heilbrigði hefir því fylgt og mannheill, nema hvað hákarla-veiða skip frá Kvígindisdal í Sauðlauksdalssókn vestra fórst seint í áugústó þ.á. í hákarlalegum, af suðaustan stormi. Meinast formaðurinn, Árni Þóroddsson, hafa hikað við á tíma að skera af sér 14 fengna hákalla, til hvers annað skip vissi, er af komst. Í Faxafirði varð sumarfiskafli sárlítill. ... Þann sjötta maí 1824 bjargaði kaupmaður Safs, við innsiglingu hingað, átta mönnum norðlenskum af hákarlaskipi frá Keflavík, sem rekið var að stormi vestur í haf. Sá níundi fórst, er hann sleppti toginu, þegar upp ætlaði á danska skipið. Sexæringur, sem úr sama stað [] var þar úti í hákarlalegu, náði landi í Hjörtsey á Mýrum.
Magnús Stephensen ritar úr Viðey þann 28.júlí:
Árgæska söm viðhelst, grasvöxtur góður og nýting hans hingað til, heitt milt og spakt veður, síðan voraði fiskafli besti. ... Heilbrigði blómstrar í landinu, svo ekki verður átt- og níræðum kellingum nuddað burt af þessum hnetti ...
Barni Thorarensen ritar í Gufunesi þann 9.september:
Grasvöxtur hefir verið í lakara meðallagi á útjörð, betri á túnum. Þerrar stuttir á túnaslætti og því víða hitnað í heyjum, ef þau hafa ekki brunnið en mjög votviðrasamt síðan hundadagar enduðust. Í Flóa og Ölvesi er sagt allt á floti svo þar lítur ei vel út ef veður- (s163) áttunni ei bregður. (s164)
Og enn ritar Bjarni þann 26.september:
Veirliget har nu i den senere Tid bestandig været fugtigt og det seer derfor saare ilde ud med Höibiergningen paa hele Sönderlandet i det mindste har jeg for min Deel over 4 Koesfodere Höe ude som jeg mistvivler om at faae bierget. Derimod har Höeavlen paa Islands hele Nordkant lykkedes fortrinling vel. (s39)
Í lauslegri þýðingu: Veðrið hefur að undanförnu verið rakt og illa lítur því út með heyöflun á öllu Suðurlandi, hjá mér eru meir en 4 kýrfóður enn úti og ég efa að bjargist. Hins vegar hefur heyskapur gengið mjög vel norðanlands.
Jón á Möðrufelli í Eyjafirði hrósar mestöllu sumri. Fyrstu dagar júní býsna stormasamir en sæmilega hlýir, síðan góð og hlý tíð. Júní segir hann ágætan, grasvaxtartíð í bestu lagi og farið að slá í lokin. Júlí var líka góður og hagstæður. Um vikuna fyrir þann 10. segir hann m.a. að tíð hafi verið allsæmileg, en síðari hlutinn þó svalur. Viku síðar er góð tíð og besti þurrkur í hey. Vikan fyrir 24. var góð og heyskaparholl og vikan þar á eftir mikið hlý og hagstæð heyskap, hér og þar er búið að hirða tún. Ágúst segir hann líkan júlí, mikið hagstæður heyskap svo víða sé orðið vel heyjað.
Klausturpósturinn 1825 (VIII, 1, bls. 20)
Árgangur. Síðan ég í haust á bls. 164 f.á. Klausturpósts minntist á árferði hjá oss, hefir frá því seint í september til þrettánda jóla aldrei linnt mikilli kulda veðráttu, frostum og í mörgum sveitum miklum snjóa þunga og jarðbönnum, án þess nokkurn tíma fyrr hlánaði. Ógæftir og fiski fæð í Faxafirði orsökuðu almenna bjargar þröng víða með sjó og í ýmsum sveitum; þó varð á Suðurnesjum og í Garði syðra haust, og vetrar-afli til ársloka góður og í kringum Snæfellsjökul, hvar og 12 til 1300 marsvína voru í október rekin á land við Harðakamp. Tvítugan hvalkálf er mælt að borið hafi upp á Staðastaðarreka, en óviss flugufregn bætir við, að einhver stærsti reyðarfiskur, hér um 100 álna langur, sé upprekinn á Bjarneyjum, sannindi um þenna eru þó efasöm enn.
Einar Thorlacius ritar úr Saurbæ í Eyjafirði þann 5.febrúar 1825:
Sumarið var hið allra blíðasta þangað til einum mánuði fyrir vetur, úr því einlæg frost og lognkyrrur til þess um þrettánda [1825], þá tók upp allan þann snjó, sem féll á jólaföstunni.
Jón á Möðrufelli talar vel um veðráttuna í september og lengi hausts, nema hvað nokkuð frostasamt hafi verið og þráviðri nefnir hann hvað eftir annað. Nóvember telur hann í meðallagi, en hríðasamt var nokkuð í bland og jarðskarpt. Þann 18.desember segir hann að tíð sé ei óstillt, en þráviðrasöm í meira lagi. Jarðleysi segir hann orðið mikið í desember og að þann 6. hafi 3 menn orðið úti. Síðasta vika ársins var mikið frostasöm.
Annáll 19.aldar rekur fjölda banaslysa, bæði á sjó og landi, en dagsetninga og veðurs lítt eða ekki getið. Þó er sagt að 7.maí hafi skip frá Hraunum í Fljótum farist með 8 mönnum og á jóladag varð maður úti frá Múlakoti við Þorskafjörð. Eftir langa upptalningu drukknana og fleira er í lokin sagt: Auk þess er talið að 11 yrðu úti, tveir hröpuðu til dauðs, einn féll í sjóðandi pott, einn dæi af bruna af sjóðandi mjólk, og einn merðist til dauða.
Að lokum lítum við á fáeinar tíðavísur um árið 1824 úr bálki Jóns Hjaltalín. Ritstjórinn verður að játa á sig þá fáfræði að hafa aldrei heyrt bragarháttinn nefndan áður (þó hrynjandin sé kunnugleg), mun vera skáhent úrkast. Jón er ekki jafnánægður með tíðina eins og flestir aðrir þeir sem vitna - veturinn [1823-1824] var trúlega umhleypingasamur og leiður hjá honum [og september úrkomusamur]. Þegar hér var komið sögu var Jón prestur á Breiðabólstað á Skógarströnd - en hafði komið nokkuð víða við á embættisferlinum. - Heimsósómatónninn í lokin á úrvalinu hér að neðan á enn við (þó ekki tengist hann veðri beint).
Jón Hjaltalín 1824
Vetur liðinn valla friðinn veitti láði
mörg var hríðin, hörku tíðin hölda þjáði.
Harðir snjóar huldu móa, hagar brustu
blotar tíðir, byggð og hlíðir, byljir lustu
Norðurlandið nauða standið næmast hitti
æfi manna illviðranna aflið stytti.
Menn þar úti urðu lúta, eyddust bjargir,
veit eg eigi vel að segja víst hvað margir
...
Aprílis fór meins á mis, en majus stundum rosum hreyfði
hjörð þó leifði haga á grundum
Greri jörðin, grænan svörðinn grösin klæddu
geislar fríðir fróns um hlíðir fannir bræddu.
...
Nýting góða nyrðra þjóðar notin bætti,
hérna vestra heyskap flestra haustið vætti
Féllu snjóar, frusu móar fyrir vetur,
norðan andi þrek umþandi þoska-setur
Frostin hörðu festu jörð í fjötrum kulda,
sund og firði samföst byrgði svella hulda.
Fjúkin sína fannlög víða fróni sendu,
með óróa mokstur snjóa mönnum kenndu.
...
Græðgin bölvuð, ær og ölvuð, aldrei fyllist,
ofdýrt selur, sýgur, stelur, sífellt villist.
Heimska er mesta hug að festa heims við gæði
vort er fjörið, völd og kjör á veikum þræði
Lífið eyðist lánið sneyðist, listin þrotnar,
heilsan kveður, hel aðveður, holdið rotnar.
Lýkur hér að sinni að segja frá tíð og veðri árið 1824. Ritstjóri hungurdiska þakkar Sigurði Þór Guðjónssyni fyrir innslátt texta Brandstaðaannáls.
3.10.2018 | 23:25
Hvenær hefst vetur?
Einfalda svarið við spurningunni í fyrirsögninni er að hann hefjist með fyrsta vetrardegi íslenska tímatalsins forna. Ekki er fjarri því að íslensku misserin skipti árinu í tvennt hvað varðar meðalhita. En tökum við þetta svar alveg bókstaflega erum við jafnframt annað hvort að halda því fram að árstíðirnar séu aðeins tvær, - eða þá að vor, sumar og haust verði samtals að gera sér að góðu að skipta með sér þeim sex mánuðum sem eftir eru þegar veturinn hefur fengið sinn hlut. Í slíkri skiptingu fellst ákveðið raunsæi gagnvart íslensku veðurlagi - rétt er það, en tilfinningin er samt sú að oftast nær sé veturinn ekki fullskollinn á seint í október.
Fyrir nokkrum árum fjallaði ritstjóri hungurdiska alltítarlega um haust- og vorkomu. Þeir pistlar eru reyndar allt of langir til að hægt sé að hafa af þeim einhver hagnýt not - enda ekki ætlast til þess. Ritstjórinn hefur hins vegar einlægan áhuga á árstíðasveiflunni og öllum breytingum á veðri sem fylgja henni.
Ekki stendur til að gera einhverja úttekt á vetrarkomu í stíl við vor- og haustpistlana sem minnst var á að ofan, en samt er e.t.v. forvitnilegt að gera eitthvað.
Hér á eftir verður vetrarkoma hvers árs sett við þann dag þegar eitthvað sem ritstjórinn nefnir vetrarsummu landsins nær 30 punktum. Punktarnir eru reiknaðir þannig að fyrst eru fundnir þeir dagar þegar landsmeðalhiti í byggð er neðan frostmarks. Tölur hvers hausts eru nú lagðar saman frá degi til dags og vetur sagður byrjar þegar talan nær 30.
Þetta er auðvelt að gera aftur til 1961, við getum líka reynt við tímann frá 1949 til 1960, en því miður er dálítið brot í gögnunum 1960 og hugsanlegt (þó ekki víst) að fyrra tímabilið sé ekki alveg reikningslega sambærilegt við það síðara. Sömuleiðis er líka brot á þessari öld (sem rannsaka þarf betur). Við reynum e.t.v. síðar að komast fyrir þessi brot. Þar til það hefur verið gert skulum við taka niðurstöðunum með nokkurri varúð.
Lárétti ásinn sýnir árin (tímabilið fyrir 1961 er sérmerkt), en sá lárétti eru dagsetningar sem vísa til vetrarbyrjunar eins og hún er skilgreind hér að ofan. Fyrsta vetrarbyrjun á tímabilinu er 25.október 1981. Sumir muna vel kuldana það haust. Það hefur þrisvar gerst að vetrarbyrjun hefur dregist fram yfir áramót, lengst 1956 (sé að marka það), en líka haustið 2002 og 2016 - þeim árum lauk án vetrarkomu.
Meðaltal alls tímabilsins er 30.nóvember. Vetur, byrjar samkvæmt skilgreiningu Veðurstofunnar þann 1.desember. Falla meðaltal og skilgreining vel saman. Sleppum við tímabilinu 1949 til 1960 verður meðaltalið 27.nóvember.
Við tökum strax eftir því að vetrakomu hefur seinkað mjög á síðustu áratugum. Sé leitni reiknuð sést að seinkunin frá 1961 hefur safnast upp í 25 daga, frá 15.nóvember til 10.desember. Þetta er kannski fullótrúlegt til að geta verið satt - en engu að síður bætist hér enn í vísbendingar um hlýnandi veðurfar.
Við munum síðar reyna að ná tökum á lengra tímabili - sem einnig nær til tuttugustualdarhlýskeiðsins.
Vísindi og fræði | Breytt 4.10.2018 kl. 03:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.10.2018 | 20:19
Enn af sömu lægð
Fyrir sex dögum var hér fjallað um þrautseiga, en djúpa lægð sem var þá á sveimi vestsuðvestur af Asóreyjum. Hún hefur fyrir allnokkru fengið nafnið Leslie - hitabeltisstormur. Við skulum enn gefa henni gaum.
Kortið sýnir sjávarmálsþrýsting á fimmtudaginn kemur - eins og evrópureiknimiðstöðin reiknar. Litir sýna hita í 850 hPa-fletinum. Síðan á fimmtudaginn var hefur lægðin hreyfst til vestsuðvesturs - en er ámóta djúp og hún var á kortinu sem við sýndum fyrir nærri viku. Á kortinu má líka sjá allmikla lægð við Ísland á hraðri leið til norðausturs - fer að hafa áhrif hér síðdegis á miðvikudag og veldur eins konar norðanskoti á fimmtudaginn.
Það er ekki beinlínis hægt að halda því fram að lægðin við Ísland sé afkvæmi Leslie - en þó er það þannig að henni nýttist vel hlýtt loft sem streymir til norðurs austan hitabeltisstormsins og greip það með til fóðurauka á leið sinni til Íslands. Stöku spár hafa verið að gera ráð fyrir því að Leslie tækist að brjótast á milli háþrýstisvæða norðan við - en þær eru þó flestar á því að það takist ekki. En aftur á móti er rétt að halda áfram að fylgjast með inngjöfum hitabeltislofts að sunnan inn í meginstreng vestanvindabeltisins, slíkar inngjafir eru varasamar - bæði hvað varðar vind og úrkomu á okkar slóðum.
Langtímaspár (sem við tökum þó ekki allt of alvarlega) gera ráð fyrir því að Leslie endist að minnsta kosti viku til viðbótar og lægðin muni undir helgi snúa af vestsuðvesturstefnu sinni yfir til austnorðausturs aftur. Kannski við getum enn birt fréttir af henni í næstu viku?
1.10.2018 | 14:57
Háloftastaðan í september
Meðan við bíðum eftir lokatölum septembermánaðar frá Veðurstofunni lítum við á stöðuna í 500 hPa-fletinum í nýliðnum september og berum saman við meðaltal. Kortið gerði Bolli Pálmason eftir gögnum evrópureiknimiðstöðainnar og við þökkum honum fyrir það.
Heildregnu línurnar sýna meðalhæð 500 hPa-flatarins, en litir sýna vik frá meðallagi áranna 1981 til 2010. Vikin eru neikvæð á stóru svæði - mest austan við Ísland. Jákvæð vik eru aftur á móti ríkjandi um Atlantshaf þvert frá austurhéruðum Kanada austur til Frakklands og Evrópu. Þetta þýðir að vestanáttin yfir Atlantshaf hefur verið talsvert öflugri en venjulega.
Við sjáum líka að hér á landi var vestanáttin í veikara lagi og aukanorðaustananátt viðloðandi, 500 hPa-flöturinn er í lægra lagi við landi, meðalhæð hans yfir landinu var 539 dekametrar, um 6 dam undir meðallagi. Meðalhæð hans var reyndar enn lægri í september 2016, en þá voru suðlægar áttir ríkjandi - eins og sumir muna.
1.10.2018 | 00:30
Af árinu 1810
Ekki segir mikið af tíðarfari ársins 1810 í almennum samantektum. Tíðarvísur þó, Espólin eitthvað og Brandstaðaannáll er að komast á flug. Ekki er getið um hafís. Rétt að hafa í huga að siglingar voru með minnsta móti norðanlands og austan vegna styrjaldarinnar í Evrópu. Englendingar gerðu sig þó gildandi.
Veðurdagbækur Jóns á Möðrufelli eru illlæsilegar eins og venjulega, en þar er þó töluvert magn upplýsinga. Svipað er að segja um veðurbækur Sveins Pálssonar sem aðallega eru haldnar í Vík í Mýrdal þó hinar einföldustu veðurlýsingar séu auðlesnar flestar - eru samantektir hans það ekki. Danski strandmælingaflokkurinn stundaði mælingar á Akureyri allt árið og gerði þrjár mælingar á dag - gríðarmikilvægar upplýsingar um veðurlag ársins. Breskir ferðamenn segja nokkuð um veðurlag - og stóðu meira að segja fyrir mælingum í Reykjavík veturinn 1810 til 1811.
Hér má sjá hæsta og lægsta hita hvers dags ársins 1810 á Akureyri. Auk þess eru settar inn stopular kvöldmælingar Sveins Pálssonar í Vík í Mýrdal (grænn ferill).
Febrúar og mars voru kaldir - meðalhiti á Akureyri -10,4 stig í febrúar og þann 22.mars mældist mesta frost sem nokkru sinni hefur frést af þar á bæ, -35,9 stig. Við höfum þó í huga að líklega var mælirinn óvarinn og óvíst að frostið hefði mælst svo mikið með nútímaumbúnaði. Ekki var nærri því eins kalt í janúar.
Vorið fór sæmilega af stað sé að marka hitamælingarnar - en aftur á móti er það merkilegt að það er nánast eins og það hætti við - það kólnaði frekar þegar kom fram í maí. Meðalhiti var 1,9 stig á Akureyri bæði í apríl og maí. Í lok maí hlýnaði verulega og var júní í heild bærilega hlýr, meðalhiti á Akureyri var 11,1 stig. Leiðindahríðarkast gerði þó í kringum hvítasunnu [11.júní] og þá bæði snjóaði og fraus í Eyjafirði - en gætti minna syðra.
Við sjáum vel á línuritinu að kaldara var í júlí - þá gengu miklar þokur á Akureyri eftir því sem athuganir segja. Ágúst var kaldur, meðalhiti ekki nema 7,0 stig og 4,9 stig í september. Síðan var október nokkuð hlýr - meðalhiti sá sami og í september. Nóvember var fremur kaldur, en desember mjög kaldur, meðalhiti ekki nema -7,6 stig. Mælingar í Reykjavík sýna einnig óvenjukaldan desember þar um slóðir.
Mikil hitasveifla varð á Akureyri um jólin, úr -23 stiga frosti þann 27.desember og upp í +10 stiga hita þann 30.
Meðalhiti ársins reiknast ekki nema 0,8 stig á Akureyri. Þó þetta sé mjög lág tala er hún þó ekki miklu lægri en ársmeðalhitinn 1979, en hann var 1,5 stig á Akureyri. Næstu tvö ár, 1811 og 1812 voru nokkru kaldari. Sé reynt að giska á hita í Stykkishólmi fæst úr talan 1,6 stig og 2,8 stig í Reykjavík (nánast sama og 1979).
Myndin sýnir sjávarmálsþrýsting á Akureyri árið 1810. Veturinn er sveiflukenndur að vanda, athyglisvert þó að við sjáum hér e.t.v. hægfara bylgjur vestanvindabeltins, þrjú myndarleg þrýstihámörk með nokkurra vikna millibili, en lágþrýstingi þess á milli. Vorþrýstingur er nokkuð hár að vanda og óvenjudjúp lægð hefur komið að landinu um miðjan ágúst.
Svo segir um árið í Annál 19. aldar:
Vetur frá nýári var góður um eystri hluta Norðlendingafjórðungs, þyngri um Skagafjörð, erfiður í Húnaþingi og því framar er sunnar kom, og svo þar austur um. Gjörði peningsfelli í Árnes- og Rangárvallasýslum og um Austurland. Vorið mátti kallast gott, var þó vætusamt. Grasvöxtur í betra meðallagi. Nýttust töður vel en úthey miður. Haustið rigningasamt, þó gott nyrðra til jólaföstu. Síðan hart til jóla en góð hláka undir árslokin.
Annállinn getur um fjölda mannskæðra slysa, bæði drukknanir og þess að menn urðu úti. Engar dagsetningar er þar þó að finna nema hvað þess er getið að 6. nóvember hafi veður tekið Laugarbrekkukirkju [í Breiðuvík á Snæfellsnesi] og hún fokið víðs vegar. Einnig segir (án dagsetningar) að fiskiskútan Sveimarinn er Bjarni riddari (Sívertsen) hafði látið byggja hafi fokið. Hugsanlegt er ótrúlegt að það hafi verið í sama veðri (bátafoks er getið í frásögn hér að neðan þann dag) - en norðanátt er þó sjaldan átakasöm í Hafnarfirði þar sem Bjarni bjó.
Brandstaðaannáll:
Jarðleysi hélst með smáblotum, þó snöp í blotum nokkur fram á þorra, þá bjargarbann, en veður frostalítið og óstöðugt, þar til 10 daga síðast af þorra sterk frost. Þá lögðu flestir vermenn suður. Í mars stillt, allgott veður og mildaðist gaddur á hálsum, svo braut á hrísi og tók í af blota. Á góuþrælinn [19.mars] rak niður stórfönn. Varð bjargalaust yfir allt þá viku. Sunnudaginn 1. í einmánuði [25.mars] kom bati, sem lengi var að vinna á svellgaddinum. Í lágsveitum gegnu hross sum af og með sjó var lengst snöp og góð fjara, lítið fraus. Til dalanna, var lengst snöp og góð fjara, því lítið fraus. Eftir sumarpáska vorbati [páskadagur var þann 22.apríl], þurr og meðfram köld veðurátt, heiðarleysing og háflóð í ám um fardaga [mánaðamót maí-júní]; eftir það allgott.
Fráfærnahret mikið 25.júní, svo fé króknaði sumstaðar; um lestatíma, lestir fóru fyrst suður 27.júní, stillt norðanátt; hret 13.júlí. Náðu fyrst lestir heim eftir það. Á miðsumri byrjaði sláttur. Gengu þá þokur, 28.júlí þerrir og eftir það nýting góð um tvær vikur, síðan rigningar og óþerrir til höfuðdags. Varð þungur heyskapur á votengi, en skemmdalaust á harðlendi. Aftur annan september rigning og stórfönn 4.-5. og vatnsgangur mikill þann 9; rigningar og göngur og hret, svo ei náðist hey fyrr en um Mikaelsmessu [29.september], skemmt og víða étið af skepnum, þá snjóar voru. Frá jafndægrum fram yfir allraheilagramessu [1.nóvember] sunnanátt og þíður lengst, síðan still frostveður, utan kafald 6. og 11. nóvember; stundum þítt og alltaf snjólítið til ársloka. (s60)
Espólín:
XXXVI. Kap. Sá vetur var bestu norðast, en þungur þegar dró í Skagafjörð, og enn meir í Húnavatnsþingi, og því verri sem sunnar kom, og svo þar austur með, gjörði peningafelli í Árness þingi og Rangár þingi, og austur svo langt sem spurðist, einnig í Gullbringu og Kjósar sýslum, og nokkuð svo um Borgarfjörð, en þó voru menn þar allvel staddir af hvalkomunum, og svo lausir við flestar skuldir. Annarstaðar var þungt; þrengdi að langvinnt hallæri undanfarið, fiskleysi og matvöruleysi nyrðra og víðar, grasatekja var og mjög stopul orðin, nema Húnvetningar höfðu safnað þeim meðan Enskir voru syðra, og selt þeim dýrt og ábatast af mikið; þótti undur, hve menn héldust við víðast, og að heldur fjölgaði fólk en fækkaði; olli því miklu betri hagsýni manna en fyrr hafði verið, um ásetningar og annað, en í hinum góðu sveitum, um Árness og Rangár þing, treystu menn meira útigangi. Fiskafli var góður fyrir Jökli, og svo syðra, og hélst jafnan þegar róið varð. (s 44).
XXXIX. Kap. Mjög var þá vætusamt og hretamikið haustið frá höfuðdegi, og nýttust illa úthey, og mjög var regnasamt syðra. (s 47). Vetur öndverður var góður. (s 47).
Geir Vídalín ritar úr Reykjavík þann 14.ágúst:
Veturinn sem leið var hér við harðari kost, og útigangspeningur illa undir hann búinn eftir graslítið sumar og votsamt haust, líkar voru heybjargir víðast litlar. ... Vorið varð íhlaupasamt til hvítasunnu, síðan æskilegasta veðurátt og sjaldgæfir hitar, grasvöxtur sumstaðar í besta, en allstaðar í betra meðallagi og ágæta góð nýting á töðum manna, sem nú eru allvíðast komnar í garða. (s94)
Frú Gytha (á Eskifirði) er heldur stuttorð um veðurlag 1810: Den milde Sommer 1810 gik hen over Gythaborg ... . Milt sumar eystra - að sögn.
Englendingar voru hér á ferð sem oftar. Þar var fremstur í flokki Sir George Steuart MacKenzie og gaf árið eftir út ferðarollu sína [Travels in the Island of Iceland]. Þar má finna (nær) daglegar veðurathuganir sem gerðar voru á ferðalaginu frá því í maí þar til leiðangurinn fór af landi brott um miðjan ágúst. Förunautur MacKenzie Henry Holland hélt einnig dagbók og var hún gefin út af Almenna bókafélaginu 1960 [Dagbók í Íslandsferð], hin skemmtilegasta lesning - [með næsta athyglisverðum lýsingum á tónlistar- og skemmtanalífi í Reykjavík]. Það er athyglisvert að hitamælir og loftvog sem þeir höfðu með í för voru skilin eftir í höndum á breskum sendifulltrúa, Mr. Fell, sem hélt veðurathugunum áfram og í útgáfunni má finna athuganir hans allt fram til 14.maí 1811. Ekki er vitað hvort enn varð framhald á.
Við skulum nú líta á fáein atriði sem minnst er á í veðurskýrslu MacKenzie og Fell.
Það er frost í Reykjavík að morgni 14, 16, 17. og 18.maí, þann 19. snjóaði síðdegis og þann 21. sömuleiðis á leiðinni til Hafnarfjarðar - síðastnefnda daginn virðist þó hafa verið um útsynningshryðjur að ræða því hiti var vel ofan frostmarks - en festi á fjöllum.
Sveinn Pálsson kom til Reykjavíkur að kvöldi þess 19. (dvaldi í bænum fram yfir hvítasunnu og hitti reyndar leiðangursmenn) og er sammála um snjókomuna - getur meira að segja skafrennings að morgni 22.
Hvítasunnuhretsins virðist ekki hafa gætt að marki í Reykjavík - þá lýsa þeir félagar athöfn í Dómkirkjunni.
Þann 27.ágúst segir Mr. Fell að þar sem frosts væri að vænta hefði fólk farið að taka upp kartöflur - enda gerði næturfrost þann 29. Þann 1. september segir Fell að fólk segi sumarið eitt hið allrabesta (so a fine summer was never known), en harðinda sé að vænta á komandi vetri. Fjöll voru snæviþakin þann 5.september.
MacKenzie segir í athugasemdum í bók sinni (1811) að veðurskýrsla Fell sýni ömurlega mynd (dismal) af íslenskum vetri, mynd sem veki samúðartifinningar með því fólki sem við hann verði að búa. Satt er að veðrið var ömurlegt lengst af - kannski við segjum meira frá því í umfjöllun um árið 1811.
Fell segir frá því að þann 24.október hafi fundist jarðskjálfti í Reykjavík. Hann segir nokkuð frá illviðrinu þann 5. til 7. nóvember:
Þann 5.: Norðanátt. Mjög hvasst allan daginn, með éljum og hagli. Um kvöldið gerði gríðarlegt hvassviðri. Myrkur kl.2 síðdegis. Þann 6.: N-átt. Hræðilegt og ógurlegt hvassviðri allan sólarhringinn. Bátar á ströndinni fuku í loft upp og mölbrotnuðu. Hitamælirinn í hlýjasta herbergi hússins, þar sem glatt logaði í ofni komst aðeins í 30°F (-1°C). Mikið myrkur, og allt landið margar mílur hér umhverfis var hulið saltvatni sem vindur reif af sjó sem regn. Eyðilagði það litla sem eftir var af gróðri. Þann 7.: N. Hvass með frosti á jörð. Undir kvöld bætti í vind; og árla morguninn eftir var fárviðri. Þann 9. hafði veðrið gengið niður. Snæfellsjökull sást og norðurljósin voru fögur.
Þann 8. desember fór frostið í 2°F (-16,7°C) og segir Fell að vatn hafi frosið undir ofni hans.
Þann 22. desember segir:
Suðvestanátt. Hvassviðri allan daginn og blés það snjó í skafla upp á húsþök. Um nóttina gengu linnulitlar eldingar (snæljós) í nokkrar klukkustundir. Mjög fagurt veður var hins vegar um jólin. Hlákan milli jóla og nýárs var snörp. Allt á floti (the whole place inundated) segir þann 30. Þá var landsynningsstormur.
Jón á Möðrufelli talar ekki illa um árið í heild, segir það yfirhöfuð teljast meðalár, en minnist sérstaklega á áfellið í september. Um einstaka mánuði segir hann m.a.: Janúar má vel teljast í meðallagi, febrúar æði frostharður í bland, en aldrei stórhríðar, mars mestallur gæðagóður og apríl allur dágóður. Um veturinn í Eyjafirði og Norðursýslu (svo hétu Þingeyjarsýslur á þeim tíma) segir hann að alltaf hafi verið nóg jörð og aldrei stórhríðar. Júní var yfir höfuð sæmilegur, júlí stilltur og hægur en andkaldur, ágúst yfir höfuð góður, september hins vegar áfella- og óþurrkasamur, október dágóður. Nóvember og desember góðir.
Við ljúkum þessari stuttu samantekt um tíðarfarið 1810 með brotum af tíðavísum séra Þórarins í Múla og broti frá Jóni Hjaltalín. Þórarinn bjó í Suður-Þingeyjarsýslu. Lýsingar hans benda til þess að ekki hafi verið sérlega snjóþungt þar um slóðir - en frost hafi farið illa með auða eða snjólitla jörð og hún jafnvel sprungið. Vor- og snemmsumarþurrkar með miklu sólskini fóru síðan illa með jörð ef trúa má vísunum.
Úr tíðavísum Þórarins í Múla:
Árið síðast af sem leið
einkum norður-byggða
Íslands lýður enga neyð,
ellegar stríðan skaða beið.
Víðar sýndist veðrafar
vægt að snjóaföllum;
en hörkur píndu harðfengar,
holdi týndu skepnurnar.
Vetrarríki vestanlands
var og syðra þyngra
hesta slíkur felldi fans
fjár og líka búandans.
Regns af þíðum reis ólag
rosa vestan-stormar,
af snjóhríðum ofsa-slag
oft á tíðum sama dag.
Af því löngum stirða storð
steyptu svella hjúpi;
ótíð ströng á annað borð
útigöngu-penings morð.
Í norðurhorni voru var
vægra þessar tíðir:
en himinbornu hörkurnar
haðri fornu skaðvænar.
Útmánaða yfir skeið
ákaft jafnast vörðu;
vorinu' að svo loksins leið,
langan skaða þar af beið.
Jörð ófólgin jökli drakk
jafnan kulda skerfi
hafíss-kólgu hulin stakk
hörku bólgin sundur sprakk.
Gróðurleysið hams og hold
hesta´ og fjársins rýrði
dugði´ ei geysi dáðlaus mold
dýr að reisa blóm úr fold.
Hríða skvaldurs þreytti þrátt
þraut yfir hvítasunnu
vorið kalda veður-hátt
við nam halda norðanátt.
Grænlands ísa þó ei þök
þjáðu norðlendinga
af sem rísa óhöpp stök
eða vísust banatök.
Veðurátt þó vægði til
vantaði dögg heilnæma;
gróður þrátt um þetta bil
þróaðist smátt við sólar yl.
Nætur frostin eymdu, en
ofur heitt um daga
hauðrið þorsti sókti senn
sem landkosti fyrti menn.
Varmi sunnu veitti spjöll
vaxtar-ríkis blóma
mýrar, brunnar fen um fjöll
fast að grunni þornuð öll.
...
Veðra hryðjum varðist átt
vinda léku hjólin
heyja iðjum hefti þrátt
hiti´ að miðjum túna slátt.
Síðan vætur settust að
sem ei komu´ að spjöllum
gróðrar bætur þóttu það
þægra´ að sæta heyverknað.
...
Heyja önnum höllun bjó
hafið norður kalda
veðra mönnum værð af dró
vætu hrönn með ágústó.
...
Vinda rimma vóx á ný
vinnu brögðum hnekkti;
fjúk og dimma fylgdi því,
frostin grimmu´ í sepembrí.
Vetrar kulda veður hörð
veldi´ og hjarði skóku,
fast um buldu fjalla skörð
fölið huldi tíðum jörð.
...
Mikaelis messu frá
mund að allheilagri
féll dável um fold og lá
farsælt telja haustið má.
...
Foldu jólafastan djörf
faldaði hvítum dúki
norður bóla nærði þörf
næstu sólar yfir hvörf
Allt hvað fokið áður var
um og fyrir jólin
árs við lokin burtu bar
bylja rokum þeyvindar
Allmjög hvessti, yggjar mey
útsynningar hristu
báta hlestu, hús og hey
hast af vestri´ í lokinn þey.
...
Ærslum hrannar þrotnir þrótt
þrengdir hels í dróma
fimmtygir manna fórust skjótt
fækkar þannig kaska drótt.
Jón Hjaltalín:
Norðan stormur næmur þó
nóvember hinn 6ta bjó
vestra baga lands um laut
Laugarbrekku kirkju braut.
Hirðslur skemmdi hríðin stór
húsið allt í loftið fór
skaða veðrið skelfdi þjóð
skrúða kistill eftir stóð.
Lýkur hér yfirferð hungurdiska um árið 1810 (að sinni). Ritstjórinn þakkar Sigurði Þór Guðjónssyni fyrir innslátt texta Brandstaðaannáls og Hjördísi Guðmundsdóttur fyrir innslátt texta úr árbókum Espólíns.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 14:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.1.): 34
- Sl. sólarhring: 1133
- Sl. viku: 2705
- Frá upphafi: 2426562
Annað
- Innlit í dag: 32
- Innlit sl. viku: 2409
- Gestir í dag: 32
- IP-tölur í dag: 32
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010