Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2018
30.1.2018 | 21:59
Stutt á milli lægða
Umhleypingar virðast nú eiga að gerast stórgerðari en verið hefur um hríð - hvort fer vel með eða ekki er hins vegar óráðin gáta. Við lítum á þrjú kort sem sýna hlýindaaðsóknarhámörk (langt og gott orð sem verður trauðla notað oftar) næstu þriggja lægða. Ætli fyrsta lægðin sé ekki nokkurn veginn gefin - á að koma hingað til lands á fimmtudagskvöld, aðkoma þeirrar næstu er óljósari - en hún kemur einhvern veginn. Sú þriðja er hins vegar handan þess sem nú er raunverulegt - jú, það kemur einhver lægð en hvort það verður þessi eða önnur er ómögulegt að segja að svo stöddu.
Sjávarmálsjafnþrýstilínur eru heildregnar á þessu korti sem gildir seint á fimmtudagskvöld, 1. febrúar. Jafnþykktarlínur (mjög daufar) eru strikaðar, vindörvar má sömuleiðis sjá, þær eiga við 700 hPa-flötinn í um 3 km hæð, en litir sýna þykktarbreytingu síðustu 12 klukkustundir. Á gulum svæðum hefur hlýnað (þykktin aukist) en á þeim bláu hefur kólnað (þykktin minnkað). Litakvarðinn skýrist sé kortið stækkað. Lægðinni fylgir mikil sunnanstroka og skammvinn hlýindi. - Stutt er aftur í kuldann úr vestri - hann berst áfram nokkurn veginn eins og vindörvarnar sýna.
Rétt sést í næstu lægð, en um hádegi á sunnudag verður hlýja loftið frá henni með tökin yfir landinu.
Tveir og hálfur sólarhringur er á milli kortanna tveggja - nýja lægðin hefur hér tekið öll völd og búið að hreinsa allt kalda loftið á baki fyrri lægðar frá. Útskot úr Stóra-Bola er á leið til norðausturs suður í hafi. Á fjólubláa svæðinu hefur þykktin fallið um meir en 360 metra - 18 stig á 12 klukkustundum. Gríðarleg snerpa kuldans. Eins og áður sagði er enn ekki ljóst hversu slæmt veður gerir hér á landi - en ekki er útlitið sérlega efnilegt. Helsta vonin er sú að tíðin bregði ekki út af vana sínum að undanförnu - minna verði úr en efni standa til.
En þetta tekur fljótt af líka - þó allan sunnudaginn og mánudaginn væntanlega með illfærð milli landshluta. Reiknimiðstöðin segir svo þarþarnæstu lægð vera komna með sína hlýju aðsókn á þriðjudagskvöld (eftir viku hér í frá).
Trúlegt er að þessi lægð verði eitthvað öðruvísi en hér er sýnt, en illúðleg er hún. Vonandi fæðist hún ekki - og geri hún það er best að hún renni hjá sem lengst fyrir suðaustan land. Ekki er rétt að velta frekar vöngum yfir stöðunni - hún skýrist væntanlega síðar.
29.1.2018 | 20:54
Stóri-Boli setur upp ísaldarhattinn
Það skal tekið fram í upphafi að ísaldarhatturinn er orðaleppur úr safni ritstjóra hungurdiska en hvorki eitthvað fræðilega viðurkennt né eitthvað sérlega válegt. Orðið hefur hann sum sé notað áður í pistli. Það var fyrir fimm árum þegar svipað gerðist og nú - og gerist reyndar í fleiri árum en ekki. Nú er fyrirsögnin notuð sem lögð var til hliðar þá - lesendur hungurdiska orðnir vanari ritstjórafroðunni.
Kortið sýnir spá bandarísku veðurstofunnar um hæð 500 hPa-flatarins og þykktina síðdegis á miðvikudag 31. janúar og nær aðeins yfir norðurslóðir, Ísland er neðst fyrir miðju, norðurskautið nærri miðju myndar. Jafnhæðarlínur eru heildregnar, en þykkt er sýnd með litum. Því minni sem hún er því kaldara er loftið, dökkfjólublátt kaldast.
Ritstjóri hungurdiska kennir þykkt sem er minni en 4740 metrar við ísöldina og er hún heldur algengari yfir Síberíu heldur en Kanada. Kuldapollurinn Síberíu-Blesi er oft heldur kaldari en sá sem við köllum Stóra-Bola og heldur að jafnaði til yfir Norður-Kanada. Síberíu-Blesi hefur stærra meginland til umráða.
Á dekksta fjólubláa svæðinu eru þykktin einmitt minni en 4740 metrar. Við megum taka eftir því að tveir dekkstu litirnir eru nokkurn veginn sammiðja háloftahringrásinni - kuldinn fyllir upp í hana og hennar gætir því lítt við jörð. Fyrir tíma háloftaathugana sáust kuldar af þessu tagi því illa - eða það þurfti alla vega sérstaka athygli til að sjá þá.
Svo lengi sem allt helst í skorðum, kuldinn hreyfist ekki mikið, gerist ekki margt - nema að gríðarkalt er og verður þarna vestan við Baffineyju. En kuldapollar fá sjaldan að vera alveg í friði - það er sífellt verið að sparka í þá. Við vitum enn lítið um hvort eða hvernig nagað verður í Stóra-Bola að þessu sinni. - Kannski hann angri okkur ekkert - en rétt er að fylgjast með.
Athyglisverður er líka hæðarhryggurinn mikli sem stingur sér inn á kortið vestan Alaska (efst). Hann hefur undanfarna daga valdið töluverðum truflunum á stóru svæði og gríðarlegum hlýindum í háloftum yfir austasta hluta Síberíu - hvort þau hlýindi hafa eitthvað getað skilað sér niður í mannheima höfum við ekki frétt. En ekki mun létt að feykja síberíska dalakuldanum burt með jafn auðveldum hætti og gerist hér norðanlands í sunnanþeynum.
29.1.2018 | 20:17
Áratugurinn 1911 til 1920 - 5
Nú bregðum við upp tveimur hitatöflum - án þess að nefna hitatölur beint. Þær byggja á lista yfir mánaðameðalhita í byggðum landsins í nærri 200 ár. Meðalhita hvers mánaðar hefur verið raðað eftir hita, hlýjastur hvers mánaðar fær töluna 1, en sá kaldasti 196. Við látum okkur í léttu rúmi liggja þótt hitatölur landsins frá því fyrir 1880 séu talsvert óvissar - hér er um skemmtiatriði að ræða.
Fyrri taflan sýnir áratuginn 1911 til 1920 (og einu ári betur). Árin lesum við úr dálkunum, en mánuði úr línum. Þannig má sjá að hitinn í janúar 1911 er í 94. sæti janúarlistans - og svo framvegis. Dökkrauðu reitirnir sýna mánuði sem ná inn á topp-10. Þeir eru tveir á þessum árum, október 1915 í öðru sæti hlýrra októbermánaða, og október 1920 í því fimmta.
Dökkbláu reitirnir merkja þá mánuði sem ná inn á topp-10 fyrir kulda sakir (187. sæti og neðar). Þeir eru sjö, þar af tveir í 196. sæti, janúar og september 1918. Aðrir sérlegir kuldamánuðir eru ágúst 1912, maí 1914, apríl og október 1917 og mars 1919.
Daufbláir eru þeir mánuðir sem lenda í lægsta þriðjungi þess sem eftir er (þegar búið er að taka 10 hlýjustu og köldustu burt) - og eru hér kallaðir kaldir, daufbleikir eru þeir sem á sama hátt lenda í efsta þriðjungi afgangsins og eru hér kallaðir hlýir. Kaldir mánuðir teljast hér 50 - auk þeirra 7 köldustu, 25 eru hlýir og 48 í meðallagi. Sjá má að kaldir mánuðir fara oft tveir eða fleiri saman - sama má segja um þá hlýju.
Til samanburðar lítum við líka á síðustu 11 ár, 2007 til 2017.
Heldur rauðari svipur - enda eru afburðahlýir mánuðir 21 á 11 árum, þó aðeins einn í fyrsta sæti (október 2016). Enginn er afburðakaldur, lægstir eru júní 2011 í 173. sæti júnímánaða, desember 2011 í 165. sæti desembermánaða og júlí 2015 í 169. sæti júlímánaða. Á tímabilinu 1911 til 1921 voru 13 mánuðir neðar en í 173 sæti.
Alls falla 11 mánuðir í kalda flokkinn á árunum 2007 til 2017 en 38 eru í meðallagi. Vegna þess að köldu mánuðirnir eru svo fáir eru þeir oftast einfarar. Undantekning er þó tímabilið maí til júlí 2015 - þá komu þrír kaldir mánuðir í röð. Það vekur athygli að enginn janúar, febrúar eða mars hefur talist kaldur á þessu tímabili, og ekki heldur ágúst.
28.1.2018 | 13:41
Satt best að segja
Satt best að segja kemur meinleysi veðursins þessa dagana nánast á óvart. Ef ekki væri hálkan skelfilega (og full ástæða er til að kvarta undan henni) minnir veðurlag í kringum landið nánast á vorstöðu.
Þetta spákort gildir síðdegis á morgun, mánudaginn 29. janúar. Það er ekki víða sem blæs að ráði á svæðinu. Nokkuð hvasst er við Norðursjó og afspyrnuhvasst á litlum bletti við strönd Labrador. - Hitatölur (litaðar strikalínur) eru þó í samræmi við árstímann - mikið frost yfir Kanada alla vega.
Spár gera ráð fyrir ámóta meinleysi hér á landi áfram alla vikuna - þó kalla verði umhleypinga því hann snýr sér nokkrum sinnum á áttinni þegar lægðir og úrkomusvæði ganga hjá.
En meinleysi á vetrum er oft hverfult - vetur konungur herjar af fullum þunga víða annars staðar á norðurhveli og aldrei að vita hvenær herjir hans snúa sér að okkur.
Eins og minnst hefur verið á áður hér á hungurdiskum er hætt við að hálka verði viðvarandi alltaf þegar bleytir að minnsta kosti þar til hádegissólin nær sér upp fyrir 15 gráðurnar og fer að bræða jarðklakann. Langvinn hláka í lofti gæti gert sama gagn - en er bæði mun aflminni og ólíklegri.
28.1.2018 | 13:40
Áratugurinn 1911 til 1920 - 4
Hér kemur erfiðasti pistillinn í þessum flokki og krefst nokkurrar athygli lesenda - ekki fyrir alla, sum sé.
Engar háloftaathuganir eru til frá þessum tíma og því verður að ráða í háloftaástandið með óbeinum hætti. Það hefur m.a. verið gert með því að safna saman sem flestum loftþrýsti- og sjávarhitamælingum frá þessum tíma og með þeim er síðan giskað á stöðu veðrakerfa - þar með stöðuna í háloftunum með aðstoð veðurlíkana. Mesta furða er hvað þeim málum hefur miðað - en jafnframt er um hættuspil að ræða. Þeirrar tilhneigingar hefur jafnvel orðið vart að vilja telja líkönin jafngóð og mælingarnar. -
Sé hins vegar fari vel í saumana á þeim kemur oft í ljós að stórar villur er þar að finna frá degi til dags, jafnvel hreina dellu. Ritstjóri hungurdiska er þó töluvert bjartsýnn á að framfarir verði í líkansmíðinni eftir því sem unnt er að ná inn fleiri raunverulegum athugunum og auka upplausn líkananna. - En eins og áður sagði er nánast undravert hvað þó hefur tekist vel um suma hluti.
Ritstjórinn hefur haft aðgang að tveimur endurgreinitilraunum, annarri frá bandarísku veðurstofunni en hin er úr ranni evrópureiknimiðstöðvarinnar. Finnst honum sú bandaríska betri frá degi til dags, en sú evrópska hins vegar síst verri þegar litið er til meðaltala heilla mánaða eða lengri tíma. Að þessu sinni erum við ekki einu sinni að líta á staka mánuði heldur aðeins 12-mánaða löng tímabil.
Fyrst skulum við líta á samanburð sem virðist líkönunum nokkuð hagstæður - alla vega hvað varðar heildarsvip. Hér má sjá líkönin giska á styrk sunnan- og norðanátta á svæðinu kringum Ísland á árunum 1911 til 1921 - 12-mánaðakeðjur eru sýndar. Rauði ferillinn sýnir niðurstöður evrópureiknimiðstöðvarinnar, en sá græni er bandarískur. Styrkurinn er lesinn af kvarðanum til hægri á myndinni. Hann er reyndar á hvolfi - því við höfum ákveðið að ferlarnir leiti upp aukist norðanáttir (en tölurnar vísa á sunnanátt - einingin skiptir ekki máli - en þeir sem vilja geta deilt með 4 og þá er komið nærri m/s). Við sjáum að rauðir og grænir ferlar fylgjast nokkuð vel að.
Blái ferillinn er hins vegar byggður á raunverulegum athugunum frá íslenskum veðurstöðvum. Kvarðinn til vinstri sýnir hversu oft (í prósentum) vindur blés úr norðlægum áttum (nv, n eða na) á sama tíma.
Hér er mesta furða hvað líkönunum tekst vel til að segja frá norðanáttavendingum á þessu tímabili. Hlutur norðanátta vex mjög á árunum 1915 og 1916 - dettur aðeins niður veturinn 1916 til 1917 en fer síðan í mikið hámark afgang ársins 1917, 1918 eru norðanáttir almennt ívið minni - en mjög miklar 1919. Síðan taka sunnanáttir við með breytingunni miklu 1920.
Kannski á þessi vindáttaárangur við háloftin líka?
Á næstu mynd rifjum við upp hita í Reykjavík og loftþrýsting á landinu þessi ár. Loftþrýstingurinn hefur hér reyndar verið settur fram sem hæð 1000 hPa-flatarins.
Græni ferillinn sýnir hitann (hann höfum við séð í fyrri pistlum). Græna línan sem liggur þvert yfir myndina sýnir meðalhita síðustu 10 ára í Reykjavík, (5,5 stig). Hann er miklu hærri heldur en hiti áratugarins sem við erum að fjalla um.
Blái ferillinn sýnir hæð 1000 hPa-flatarins. Hann er því hærri sem loftþrýstingur er hærri. Bláa strikið sýnir meðalhæð flatarins síðustu 10 árin - við sjáum að hann er ekki fjarri því sem var á þeim árum sem hér eru til umfjöllunar.
En líkönin giska á hæð 1000 hPa-flatarins - lítum á þá ágiskun.
Hér er græni ferillinn sá mældi (rétti). Sá blái sýnir bandarísku greininguna. Hún er lengst af ívið of há, en fylgir samt breytingum frá ári til árs allvel. Það er helst 1914 sem munurinn er nokkur. Líkur benda til þess að bandaríska greiningin noti meira af þrýstiathugunum frá Íslandi en sú evrópska (sem aðeins notar eina stöð - og fáeinar skipaathuganir að auki).
Rauði ferillinn er evrópska greiningin. Hún sýnir lengst af of háan þrýsting hér á landi. Vonandi verða fleiri athuganir komnar inn í næstu umferðir.
Á sama hátt giska greiningarnar á hæð 500 hPa-flatarins og þar með þykktina. Eins og dyggir lesendur hungurdiska vita mælir þykktin hita í neðri hluta veðrahvolfs og að gott samband er á milli hennar og hita við jörð - (þó talsvert geti út af brugðið einstaka daga).
Við notum nú það samband síðustu áratugi til að láta þykkt í líkönunum giska á hita í Reykjavík. Útkomuna má sjá á næstu mynd.
Græni ferillinn sýnir Reykjavíkurhitann, sá rauði ágiskun evrópureiknimiðstöðvarinnar, en sá blái þá bandarísku. Frá og með 1915 er mjög gott samband á milli þess hita sem þykkt evrópureiknimiðstöðvarinnar sýnir og þess raunverulega. Eitthvað er úr lagi gengið í vestankuldunum 1914 (ekkert óeðlilegt við það endilega). Hitinn í bandarísku greiningunni er hins vegar talsvert of hár nær allan tímann.
Nú sitjum við uppi með það að bandaríska greiningin giskaði betur á sjávarmálsþrýstinginn en sú evrópska - en samt er þykktin líklega vitlausari. Það þýðir að 500 hPa-flöturinn ameríski hlýtur að vera kerfisbundið of hár. En nú sýnist sem evrópska greiningin giski rétt á þykktina þrátt fyrir að sjávarmálsþrýstingur hennar sé of hár. Það hlýtur að tákna að 500 hPa-hæðin sé líka of há í evrópsku greiningunni - en kannski ívið minna en í þeirri bandarísku.
Þetta er í nokkuð góðu lagi - sé það vitað og viðurkennt.
En við þurfum ekkert að reikna þykktina út til að vita að það var kalt - við höfum hitamælingar. Aftur á móti viljum við e.t.v. reyna að komast að því hvers vegna var kalt. Því getum við ekki svarað til fullnustu - en veltum samt vöngum. Þykktarreikningarnir eru fyrst og fremst notaðir til að láta reyna á trúverðugleika líkananna - og kannski segja þeir okkur líka hvort mikilvægur þáttur eins á hæð 500 hPa-flatarins (eða veðrahvarfanna) er á réttu róli eða ekki í líkönunum. - Nákvæmlega sama á við um líkön sem reyna að herma þekkt tímabil - eða framtíðina.
Oft hefur á hungurdiskum verið fjallað um hitasveiflur. Komið hefur fram að allstór hluti sveilfnanna frá ári til árs er skýranlegur með breytilegum vindáttum - oftast þá tilviljanakenndum, en dýpra er á skýringum á sveiflum milli áratuga og alda. Hér að neðan má sjá tilraun til að reikna hita áranna 1911 til 1921 eftir því hvernig vindáttum hefur verið háttað - og hver hæð 500 hPa-flatarins hefur verið. Samband þessara þátta og hitafars áranna frá 1950 var kannað og því sama sambandi svo varpað yfir á fortíðina (eins og hún er í líkönunum) - án nokkurra hliðrana.
Sambandið segir okkur að því stríðari sem sunnanáttin er því hlýrra sé á landinu, það kólnar hins vegar lítillega vaxi vestanáttin - og það er kalt sé 500 hPa-flöturinn lágur. Hiti sá sem endurgreiningarnar giska á með þessu móti er sýndur með rauðu og bláu, en réttur hiti með grænu. Þó lögun ferlanna allra sé óneitanlega svipuð er samt giskað á talsvert hærri hita heldur en hann er í raun og veru. Það verður þó að segja eins og er að vindáttir og breytingar í hæð 500 hPa-flatarins frá ári til árs skýra allstóran hluta sveiflnanna.
Við höfðum komist að því að 500 hPa-flöturinn er líklega heldur of hár í líkönunum. Villan er þó trúlega ekki meiri en 2 dekametrar og hækkar hitann sem því nemur - í allra mesta lagi um 1,0 stig, en líklega ekki nema um 0,4 til 0,5 stig. Eftir að hafa mögulega leiðrétt fyrir því sitjum við samt uppi með of háan hita - en það gerðum við líka á hafísárunum svonefndu og á þessari öld hefur dæmið snúist við - ágiskun með sama hætti skilar nú langoftast of háum hita en ekki lágum. - Líklegasta ástæða þessa breytileika er að hiti vindáttanna (ef hægt er að tala um eitthvað svoleiðis) sveiflast á áratugakvarða - en reikningar af þessu tagi gera ráð fyrir því að slíkt gerist ekki.
Sennilega er óhætt að halda því fram að norðanáttir hafi að jafnaði verið kaldar á árunum 1911 til 1920 - talsvert kaldari en nú. Það var miklu meiri hafís í norðurhöfum heldur en nú á dögum - og á vetrum og vorin hafði sjór því minni möguleika en nú á að hita norðanáttina. Líklegt er að minna hafi munað á öðrum vindáttum. Þetta þýðir að stríðar norðanáttir voru líklegar á þessum árum til að toga hitann meira niður en þær geta nú, 100 árum síðar.
Mikill viðsnúningur varð 1920 - þá dettur norðanáttin niður en kuldinn heldur áfram ívið lengur - sennilega vestankuldi. Misræmi á milli hita og líkana á fyrri hluta áratugarins er ekki auðskýrt í fljótu bragði - má vera að það megi þó skýra sé kafað ofan í einstaka mánuði. Það gerum við ekki hér.
En hvað myndi gerast nú á dögum í miklu norðanáttaári - með lágum 500 hPa-fleti og mikilli vestanátt? Slíkt fáum við á okkur fyrr eða síðar - þrátt fyrir að umtalsverð hnattræn hlýnun hafi átt sér stað. Komi fimm til sjö slík ár í röð (reyndar er mjög ólíklegt að þau verði öll af óhagstæðustu gerð) mun þá ekki rísa upp mikil vantrú á hið hnattræna? Jú, ábyggilega - nema hlýnunin verði orðin svo mikil áður að enginn geti efast lengur. Jafnframt mun rísa upp sú skoðun að þessi ótíð öll sé hinum hnattrænu breytingum að kenna. Þrasið sem af þessu gæti stafað er nærri því fyrirkvíðanlegra heldur en bæði ótíðin og breytingarnar.
Ritstjórinn á fleiri pistla um áratuginn 1911 til 1920 óskrifaða (úrkoma, sólskin, illviðri og e.t.v. fleira) - við sjáum til hvort hugur og hönd ná að kreista þá út áður en þeir fáu sem hafa lesið þennan og þá fyrri hafa gleymt þeim fullkomlega.
26.1.2018 | 23:19
Smáhugleiðing um veðurlag í þarnæstu viku
Fjölmiðlar nútímans eru alltaf fullir af fréttum um það sem væntanlega mun gerast í næstu viku eða næsta mánuði og taka þær meiri og meiri tíma frá fréttum af atburðum sem þegar hafa gerst. Ritstjóri hungurdiska getur svosem skilið þessa spááráttu - en reynslan segir honum þó að varlegt sé að treysta fréttum úr framtíðinni.
Það á auðvitað líka við um veðurspár - veðurreiknimiðstöðvar hafa þó náð meiri árangri í að segja fyrir um framtíðina en flestar aðrar. Mörk hins vitræna eru þó ekki langt úti í framtíð og mörkin á milli reikninga og að því kemur að óvissan verður jafnmikil og sú sem glímt er við þegar spil eru dregin úr hatti eða teningum kastað.
Samanburður á spám og raunveruleika bendir þó til þess að skárra sé að taka mark á reikningum heldur en spilum nokkrar vikur fram í tímann - jafnvel lengri tíma ef sátt er við loðið orðalag. Eftir að þeim ójósu tímamörkum er náð er vafalítið að vel orðaðar véfréttir verða bestar - þær sem eru best orðaðar staðfestast í misminni spáþega og verða þar með réttar.
En fjölviknaspár evrópureiknimiðstöðvarinnar eru með þeim ósköpum gerðar að eigi menn einhverra langtímahagsmuna að gæta borgar sig að taka mark á þeim - þrátt fyrir að þær bregðist oftar en ekki. Í fljótu bragði kann það að hljóma ólíkindalega - en veltið samt vöngum yfir þessu.
Fjölviknaspár reiknimiðstöðvarinnar eru settar fram á tiltölulega skýran hátt - en eru hins vegar í reynd afskaplega loðnar - rétt eins og véfréttir fortíðar - og í reynd treystir reiknimiðstöðin dálítið á misminnið líka því með því að senda frá sér hverja spána á fætur annarri ruglast allt venjulegt fólk í ríminu og man aldrei hvað er hvað.
En lítum til gamans á spá um veðurlag í þarnæstu viku. Hér er spáð um hæð 500 hPa flatarins og þykktina. Til hægðarauka birtir reiknimiðstöðin líka þykktarvik - sem segja okkur hversu mikið hiti í neðri hluta veðrahvolfs víkur frá meðallagi árstímans.
Nokkuð skýr spá. Kuldapollurinn Stóri-Boli í miklum ham - þó hann liggi í sínu heimabæli. Sendir hann jökulkalt heimskautaloft út yfir Atlantshaf - og í átt til okkar. Veðrahvolfshiti hér á landi 2 til 3 stig undir meðallagi (mest suðvestanlands - minna eystra). Kannski þýðir þetta élja- eða snjóatíð um landið sunnan- og vestanvert? Eða eru almennari umhleypingar undirliggjandi með mjög köldum dögum á stangli og svo hláku og stormi þess á milli.
Við vitum líka að meiri líkur en minni eru á að þessi spá sé röng - en hún gæti verið rétt og hollast að trúa því þar til annað kemur upp - því við getum varla giskað betur.
Vísindi og fræði | Breytt 28.1.2018 kl. 13:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.1.2018 | 23:19
Áratugurinn 1911 til 1920 - 3
Þegar ritstjóri hungurdiska fór að grúska í veðri og leggja sig eftir umræðum um það fyrir meir en hálfri öld var enn fjöldi manna á góðum aldri sem mundi áratuginn 1911 til 1920 vel. Fjórir meiriháttar veðuratburðir áratugarins komu ítrekað við sögu þeirra.
1. Rigningasumarið mikla 1913
2. Lambadauða- og kuldavorið 1914
3. Frostaveturinn mikli 1918
4. Snjóaveturinn mikli 1920
Hefði ritstjórinn komist í kynni við fólk að norðan og austan hefði snjóflóðatíðin 1919 örugglega bæst við - en um hana hefur hann aðeins fræðst af bókum og veðurgögnum.
Nú er komið að loftþrýstisveiflum áranna 1911 til 1920. Til að kynnast þeim lítum við á nokkuð hlaðna mynd. Þeir sem vilja rýna betur í hana geta sótt mun skýrara eintak í viðhengi pistilsins (pdf-skrá).
Almennt má segja að fyrstu 25 ár 20. aldar hafi fremur einkennst af lágum loftþrýtingi við Ísland heldur en háum. En hluti þeirra ára sem hér er fjallað um eru þó mikilvæg undantekning.
Hér má sjá þrýstibreytingar á árunum 1911 til 1921. Sýndur er landsmeðalþrýstingur hvers mánaðar (súlur) - meðalárstíðasveifla tímabilsins 2008 til 2017 er notuð til viðmiðunar (rauðbrún lína). Hér á landi sveiflast þrýstingur mjög eftir ársíma - er hæstur vor og snemmsumars, en lægstur í desember og janúar.
Stöku sinnum bregður út af þessum reglulega andardrætti. Um slík þrýstiandvörp hafa hungurdiskar reyndar fjallað nokkrum sinnum áður og tengjast þau truflunum á bylgjugangi vestanvindabeltisins. Venjulega eru háloftavindar mjög breiddarbundnir sem kallað er - fylgna breiddarbaugum í stórum dráttum, en eiga það til að taka stórar sveigjur til norðurs og suðurs. Þá er talað um að hringrásin leggist með lengdarbaugum - verði lengdarbundin, norðan- og sunnanáttir verða tíðari en vant er.
Þessar sveiflur í bylgumynstrinu eru nokkuð til umræðu þessi árin og gjarnan spyrtar saman við hnattræna hlýnun af mannavöldum. Ekki skal ritstjóri hungurdiks aftaka þann möguleika að svo sé - hefur reyndar lýst þeirri skoðun sinni að líkur á slíkri truflun vegna hlýnandi veðurlags á norðurslóðum séu mestar að sumarlagi. Ástæðu ákveðinnar varfærni hans á þessu sviði er að finna í fortíðinni - í eldri umræðu.
Fyrir 40 árum eða svo var líka talað um þessa sömu óreglu í bylgjugangi og lengdarbundna hringrás. Hún var þá tengd kólnandi veðurfari - þannig veðurlag átti að hafa verið ríkjandi á hinni svokölluðu litluísöld - (en það vonda nafn hefur valdið meira rugli en flest annað í veðurlagsumræðunni - sem er annað mál) - og var þá tengt kuldatíð.
Veðurfar í heiminum tók áberandi hlýindastökk á árunum upp úr 1980 og síðan áfram. Í Evrópu og víðar voru vetrarhlýindi með eindæmum í kringum 1990 - (þá sátum við hins vegar enn í kulda). Hringrásin varð um það leyti mjög breiddarbundin - því var haldið fram að breytingin úr lengdarbundna skeiðinu 1960 til 1980 yfir í það breiddarbundna eftir það hlyti að tengjast hlýnandi veðurfari og hnattrænum veðurfarsbreytingum af mannavöldum. Og þá gekk yfir gríðarmikið NAO-fár - lágþrýstingur við Ísland hlaut að fylgja hlýnandi veðurfari - ekki efnilegt fyrir okkur héldu menn.
Haustið 1995 vöknuðu menn svo við vondan draum - hið lengdarbundna sneri aftur rétt eins og ekkert hefði í skorist - en það hélt samt áfram að hlýna. Gamlir menn (eins og ritstjóri hungurdiska) verða dálítið hvumsa þegar þeir hugsa um þessar tískusveiflur - að kenna alla skammtímaviðburði veðurfarsbreytingum - jú, atburðir sem taka ár eða jafnvel heila áratugi eru líka skammtímabreytingar í veðurfarssögunni.
En það er hins vegar óumdeilt að staðbundin aftök - hlý eða köld - tengjast oft (en ekki þó alveg alltaf) tiktúrum lengdarbundnu hringrásarinnar. Þannig var það líka fyrir 100 árum - og verður áfram um alla framtíð. Breiddarbundna hringrásin á líka sínar óvæntu aftakainnkomur - en það er önnur saga.
En víkjum aftur að myndinni. Við sjáum að þrýstisveiflurnar eru nokkuð reglulegar fyrstu fjögur árin. Þrýstingurinn að vísu mjög lágur 1914 (rétt eins og í ótíðinni upp úr 1980). Sumarið í Evrópur í minnum haft - ekki aðeins vegna upphafs heimsstyrjaldarinnar. Árið 1915 verða umskipti og miklar truflanir koma í árstíðasveifluna. Þrýstingur féll eiginlega ekki neitt allt haustið 1915 (október það ár var líka sérlega hlýr - og hefur ekki orðið hlýrri síðan sums staðar á landinu). Október 1915 varð hlýjasti mánuður ársins í Grímsey - öðru sinni á mælitímanum (hitt skiptið var 1882).
Áramótin 1915 til 1916 virtist allt vera að falla í venjulegan farveg - djúpar lægðir komust til landsins - og ollu athyglisverðum illviðrum. - En frá og með mars 1916 hrökk þrýstingurinn rækilega upp aftur. - Við borð lá síðan að veturinn 1916 til 1917 væri laus við djúpar lægðir (ekki alveg að vísu - en eins og sjá má vantar raunverulegan lágþrýstimánuð í línuritið þennan einkennilega vetur.
Haustið 1917 virtist þrýstingur vera að falla til vetrarlágmarks á venjubundinn hátt, en hætti við í miðju kafi og desember 1917 og janúar 1918 voru háþrýstimánuðir - þvert ofan í það sem venja er á þeim árstíma.
Febrúar 1918 náði hins vegar máli sem lágþrýstimánuður - sá fyrsti í tvö ár. Enginn raunverulegur lágþrýstimánður kom svo næsta vetur, 1918 til 1919 - og þrýstingur féll heldur ekki á eðlilegan hátt haustið 1919. - Eftir það urðu hins vegar gríðarleg umskipti, veturinn 1919 til 1920 var lágþrýstingur ríkjandi mestallan veturinn - og þessu óvenjulega háþrýstiskeiði loksins lokið.
En það má telja víst að hnattræn hlýindi - eða hlýindi á norðurslóðum komu ekkert við sögu í þessari miklu truflun (síður en svo) - eins og við örugglega fengjum að heyra ef eitthvað ámóta gerðist nú.
Næsti pistill verður erfiðari - þar reynum við að athuga hvort svonefndar endurgreiningar geta sagt okkur eitthvað - og þá hvað (er reyndar margt að varast).
26.1.2018 | 01:28
Gæti verið óhagstæðari
Þó varla sé hægt að segja að tíðin sé með besta móti hefur hún heldur ekki verið sérlega slæm. Skafrenningur og ófærð hefur að mestu haldið sig við heiðarvegi en leiðinda hálkutíð hefur verið í byggðum og frost víða hlaupið í jörð í meira mæli en nú um nokkurra ára skeið. En samt hefur í meginatriðum farið vel með veður - frekar ræst úr en farið á versta veg þegar útlit hefur verið tvísýnt.
Tímabilið frá jólum og fram til þorraloka er að jafnaði það illviðrasamasta hér á landi. Eftir það - fram til sumardagsins fyrsta fer vetri að halla. Þó sá tími sé í stöku ári sá erfiðasti og versti er hann það að jafnaði ekki.
Nokkur blæbrigðamunur er á meginhringrás veðrakerfa á okkar slóðum í fyrstu þremur mánuðum ársins. Í janúar er heimskautaröstin í sinni suðlægustu stöðu - kalt loft á þá greiðastan aðgang að landinu. Í febrúar nær kuldapollurinn mikli yfir Kanada hins vegar gjarnan sínum mesta styrk - snýr hann háloftaáttum meira til suðvesturs og útsynningurinn er þá hvað ágengastur hér á landi - sömuleiðis vaxa líkur á myndun fyrirstöðuhæða. Í mars er veturinn farinn að gefa sig bæði í Bandaríkjunum og suður í Evrópu - en lítið sem ekkert á norðurslóðum. Háloftavindar verða aftur vestlægari eftir útsynningstíðina í febrúar og líkur á langvinnum norðanáhlaupum aukast hér á landi (páskahretatímabilið).
En allt er þetta að meðaltali - einstök ár eru oftast hvert með sínum hætti.
Þrátt fyrir umhleypinga að undanförnu hafa illviðri varla náð vetrarmáli svo nokkru nemi hingað til. Svo virðist ætla að verða áfram um hríð að minnsta kosti. Fjölmargar lægðir eru á hraðferð við landið um þessar mundir, en einhvern veginn virðist sem að þær verstu fari flestar hjá og hrjái aðra.
Hér er þó langt í frá verið að halda því fram að ekkert sé að veðri - það er leiðinlegt að þurfa að varast hálku í hverju skrefi og að þurfa að sæta lagi við ferðalög á milli landshluta eða hætta á háska á heiðum ella. Best væri auðvitað að hægt væri að fara hvert sem er hvenær sem er.
En lítum á spákort sem gildir síðdegis á laugardag, 27. janúar.
Hér eru fáar þrýstilínur við landið - vindur því trúlega hægur. Illskeytt lægð er hins vegar vestur af Noregi á hraðri ferð austur - án þess að koma sem heitir við sögu hér á landi. Í veðurlagi þar sem allt fer á versta veg hefði hún annað hvort komið yfir okkur - nú eða þá skilið eftir sig vestanhvassviðri með fannkomuslóða.
Við sjáum að vísu slíkan slóða eða linda liggja vestur úr lægðinni yfir í hina grynnri á Grænlandshafi - töluverð snjókoma gæti leynst í honum - þó spár segi nú annað. Þeir sem eru vanir kortalestri sjá líka að smálægð leynist suðvestan við land (þar hefur teikniforritið sleppt L-i). Í vondum vetri myndi sú lægð dýpka og koma inn á landið suðvestanvert á aðfaranótt sunnudags með mikilli snjókomu og jafnvel vindi líka. - En nú hefur veðurreynd verið með öðrum hætti - að jafnaði eins lítið orðið úr og framast er mögulegt.
En veturinn gæti enn skipt skapi, hann er langt í frá búinn - dæmi eru í fortíðinni um slík skyndiskipti - að alltaf geri illt úr allri tvísýnu. Munið einnig að ritstjóri hungurdiska gerir engar veðurspár. Það gerir Veðurstofan hins vegar. Þeir sem eitthvað eiga undir veðri eiga ætíð að fylgjast með spám hennar - alveg sama hvað malað er á svonefndum samfélagsmiðlum.
24.1.2018 | 23:29
Áratugurinn 1911 til 1920 - 2
Við tökum eitt skref til viðbótar inn í áratuginn 1911 til 1920 og lítum í kringum okkur. Sumir sjá ekkert nema leiðindi - en aðrir einhverja fróðleiksmola. Sjávarhitinn verður fyrir í þetta sinn.
Hér má sjá 12-mánaðakeðjumeðaltöl sjávarhita í Grímsey (blátt) og í Vestmannaeyjum (rautt). Bláa strikið sem liggur þvert yfir myndina sýnir sjávarhita við Grímsey á árunum 2007 til 2016 og sú rauða meðalsjávarhita sama tímabils í Vestmannaeyjum.
Sveiflurnar eru miklu stærri (og fleiri) í Grímsey heldur en í Vestmannaeyjum, en á báðum stöðum var sjór mun kaldari en hefur verið síðustu tíu árin. Í Grímsey er farið að gæta einhverrar hlýnunar frá og með síðari hluta árs 1920. Á næstu árum á eftir kom líka býsna stórt þrep í Vestmannaeyjum - ekki alveg skyndilega, það dreifðist á 2 til 3 ár, en eftir það voru köldustu árin hlýrri en þau hlýjustu höfðu verið áður en umskiptin áttu sér stað. Veðurfarsbreytingarnar miklu um og upp úr 1920 urðu því ekki aðeins fyrir norðan landið heldur voru þær líka stórar í sjónum fyrir sunnan land.
Tveir ferlar eru á þessari mynd. Sá blái sýnir mismun á (loft)hita í Reykjavík og landsmeðalhita (sami ferill og sýndur var í síðasta pistli) - lesist af vinstri kvarða á myndinni. Rauði ferillinn er hins vegar mismunur sjávarhita í Vestmannaeyjum og í Grímsey - lesist af hægri kvarða.
Bláa lárétta strikið þvert yfir myndina sýnir meðalmun reykjavíkur- og landsmeðalhita árin 2007 til 2016 (1,1 stig). Hér má sjá að þó miklar sveiflur séu þarna frá ári til árs er meðalmunurinn á þessum árum samt á svipuðu róli og nú - engar grundvallarbreytingar hafa orðið. Það er hlýrra í Reykjavík en á landsvísu - ástæður þess voru, og eru, fyrir hendi - og verða trúlega áfram um alla framtíð. Afbrigði geta þó átt sér stað í einstökum mánuðum, jafnvel árum - en varla heilu áratugina. Eins og bent var á í síðasta pistli er röskun hvað mest þegar ís er við Norður- og Austurland. Sé hann mikill dregst landshitinn meira niður á við heldur en reykjavíkurhitinn. Við sjáum þetta vel á ferlinum.
Rauða lárétta strikið sýnir hins vegar meðalmun sjávarhita í Vestmannaeyjum og í Grímsey árin 2007 til 2016. Eðlilegt er að hann sé nokkur - það væri óvænt færi hitinn að vera hærri fyrir norðan heldur en við suðurströndina. Á árunum 2007 til 2016 var meðalmunurinn 3,1 stig (hægri kvarði). En við sjáum þrjú mjög greinileg hámörk, 1911, 1915 og 1917-18. Hafís var við land öll þessi ár. Þá fellur sjávarhiti í Grímsey mjög - mun meira en í Vestmannaeyjum. Mestur varð munurinn 4,6 stig á 12-mánaða tímabili.
Við eigum til sjávarhitamælingar í Grímsey og Vestmannaeyjum allt aftur á síðustu áratugi 19. aldar. Á þeim tíma má heita regla að sjávarhitamunur stöðvanna vex mjög komi hafís að Grímsey, en þó eru ár um miðjan 9. áratug 19. aldar sem skera sig nokkuð úr. Þá virðist kaldsjórinn í raun og veru hafa náð alveg vestur (og út) til Vestmannaeyja - enda komst hafís þá allt vestur að Eyrarbakka.
Síðasta mynd dagsins sýnir okkur landsmeðalhitann (blár ferill) og sjávarhita í Grímsey (rauður ferill). Bláa strikið sýnir landsmeðalhita 2007 til 2016 og sá rauði sjávarmeðalhita í Grímsey á sama tíma. Lofthitinn er langt neðan meðallags nútímans og sjávarhitinn líka neðan þess lengst af - en ekki jafnmikið - nema þegar ísáhrifin eru hvað mest.
Nær allan tímann er sjávarhitinn við Grímsey hærri heldur en landsmeðalhitinn - sjórinn heldur hitanum á landinu uppi frekar en hitt - nema e.t.v. á stöku stað við ströndina að vor- og sumarlagi - meira að segja á tímabilum þegar sjávarhiti er lágur. Það er ekki fyrr en hafís er orðinn mjög mikill að hann fer beinlínis að draga úr aðgengi sjávar að lofti og þá getur kólnað verulega. Landið tengist þá heimskautasvæðunum með beinum hætti - en vel að merkja aðeins þó ef vindur stendur nær stöðugt af norðri. Geri hann það ekki gætir sjávarylsins alltaf.
Við tökum eftir því með samanburði loft- og sjávarhitaferlanna hér að ofan að meira suð er í lofthitaferlunum - smábrot á ýmsa vegu frá mánuði til mánaðar í 12-mánaðakeðjunum. Þetta suð er minna í sjávarhitaferlunum - þeir eru útjafnaðri. Sjórinn sleppur við einstök kuldaköst - og svo getur hann auðvitað ekki kólnað niður fyrir frostmark sjávar. Hann sleppur líka við stakar hitabylgjur sem geta haft mikil áhrif á meðalhita mánaða uppi á landi.
Þegar við horfum á síðustu myndina gæti okkur fundist að lofthitabreytingar séu aðeins á undan hitabreytingum í sjó. Hér skulum við ekki reyna að greina það - en kannski er það svo í raun og veru. Sjórinn ætti t.d. að muna langvinnustu kuldaköstin betur heldur en loftið.
24.1.2018 | 01:28
Áratugurinn 1911 til 1920 - 1
Við skulum nú í nokkrum pistlum líta aftur til áratugarins 1911 til 1920. Alla vega er hér pistill sem segir lítillega af hitafari - sjáum svo til hversu lengi þrek ritstjórans endist í frekari framleiðslu (á næstunni eða síðar).
Myndin er nokkuð hlaðin (eins og vill stundum verða hér á þessum vettvangi), en er þó í grunninn mjög einföld.
Á lárétta ásnum má sjá árin frá 1911 til 1921. Farið er yfir á 1921 til að komast upp úr meginkuldanum. Blái ferillinn sýnir 12-mánaðakeðjur hita í Reykjavík, en sá rauði landsmeðalhitann. Það er kvarðinn til vinstri sem á við þessa tvo ferla. Græni ferillinn sýnir hins vegar mismun reykjavíkurhitans og landsmeðaltalsins.
Ofarlega á myndinni eru tvö strik þvert um hana. Það svarta sýnir meðalhita í Reykjavík á árunum 1961 til 1990, en það rauða meðalhita síðustu tíu ára (2008 til 2017).
Við skulum fyrst fylgja bláa ferlinum (reykjavíkurhitanum). Hann var allan þennan tíma langt neðan við hita síðustu tíu ára (og munar miklu) og lengst af neðan meðaltalsins 1961 til 1990. Fyrstu þrjú árin (eða svo) var hitinn nærri þessu meðaltali, datt svo niður fyrir það árið 1914. Náði sér svo aftur nokkuð 1915 og 1916, en féll hroðalega þegar kuldarnir hófust, 1917. Algjört lágmark náðist þó ekki í Reykjavík fyrr en 1919. Lægsta 12-mánaða hitameðaltalið lenti á tímabilinu mars 1919 til febrúar 1920, meðalhiti þess í Reykjavík var 2,7 stig - sérstaklega athyglisvert að það lágmark er alveg án aðstoðar hins fræga janúar 1918.
Í grófum dráttum fylgjast rauði og blái ferillinn að - en við tökum samt eftir því að lágmark þess rauða er á 12-mánaða skeiðinu mars 1917 til febrúar 1918, á landsvísu töluvert kaldara en það sem kaldast var í Reykjavík.
Þá lítum við á kvarðann til hægri. Allar tölur hans eru jákvæðar, það er alltaf hlýrra í Reykjavík en á landsvísu (þegar 12-mánuðir eru teknir saman). Minnstur er munurinn undir lok síðasta kuldaskotsins 1919 til 1920, en mestur 1917 og 1918 (þar er settur grænn hringur um hæstu gildin).
Þessi hegðan er eðlileg í ljósi þess sem var að gerast. Munur á reykjavíkur- og landshita er minnstur í vestankuldum - sjávarloft úr vestri og suðvestri leikur þá um landið sunnan- og vestanvert. Kalt á vetrum vegna framrásar Kanadakulda, en að sumarlagi vegna rigningar og sólarleysis. Kuldinn 1917 og 1918 var norðankuldi - með hafísauka. Á hafísárunum 1965 til 1971 var einnig mikill munur á hita í Reykjavík og á landinu almennt. Reykjavík er vel varin fyrir hafískulda.
Við sjáum að munur á lands- og reykjavíkurhita er einnig nokkuð mikill árið 1915 (annar grænn hringur). Sumarið 1915 var hafíssumar og afspyrnukalt norðanlands, en mun skárra syðra.
Vestankuldar voru aftur á móti nokkuð áberandi 1914 og sumarið 1913 var eitt af rigningasumrunum miklu á Suðvesturlandi - frægt að endemum - þar til sumarið 1955 tók yfir hlutverk þess í hugum manna.
Við höfum hér fyrir framan okkur tíðarfar sem að mörgu leyti minnir á kuldaskeiðið sem hófst 1965 og endaði í kringum aldamótin. - Nema hvað hafís var enn meiri í norðurhöfum 1917 til 1918 heldur en síðar varð (ekki þó meiri hér við land).
Í næsta pistli (hvenær sem hann nú verður skrifaður) er ætlunin að líta á loftþrýstinginn - og enn síðar reynum við e.t.v. að athuga hvernig sveiflurnar koma fram sem afleiðing af sveiflum hans og vindáttum á þessum árum. Hverjar eru líkur á að svona nokkuð endurtaki sig?
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.1.): 11
- Sl. sólarhring: 183
- Sl. viku: 2458
- Frá upphafi: 2434568
Annað
- Innlit í dag: 9
- Innlit sl. viku: 2183
- Gestir í dag: 9
- IP-tölur í dag: 9
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010