Bloggfærslur mánaðarins, desember 2017

Fyrir 100 árum

Desember 1917 er merkilegur í veðurfarssögunni og á met sem enn standa. Mesta frost sem vitað er um á landinu í desember er -34,5 stig og mældist í Möðrudal þann 9. dag mánaðarins. Sömuleiðis mældist þá mesta frost sem við vitum um á Akureyri, -22,0 stig. Það gerðist þann 16. Sama dag mældist hæsti sjávarmálsþrýstingur sem vitað er um hér á landi í desember, 1054,2 hPa - í Stykkishólmi. Það er næstmesti þrýstingur sem við þekkjum frá upphafi samfelldra þrýstimælinga hér á landi 1821. 

Mánuðurinn í heild var kaldur, meðalhiti í byggð reiknast -4,3 stig og hefur aðeins einu sinni verið lægri í desember síðan þá, það var 1973. Á fyrri tíð vitum við um enn kaldari desembermánuði, kaldast var 1880. Þá reiknast meðalhiti í byggð -8,3 stig. Áður en kuldinn 1973 gekk yfir var hin almenna tilfinning sú að mjög kaldur desember boðaði viðvarandi kulda áfram. - Svo varð þó ekki það í skipti.

Svipuð var tilfinningin haustið 1981, það var mjög kalt, keppti við 1917 og 1880. Því hlaut veturinn 1982 að verða kaldur. - Svo varð þó ekki (okkur þætti hann kannski svalur miðað við hlýindi síðustu ára - en kaldur þótti hann ekki). Ritstjóri hungurdiska féll þá loks alveg frá trúnni á svonefndar „hliðstæðuspár“ og hefur ekki tekið hana aftur. Finnst hliðstæðutrú bara fráleitari og fráleitari - jú, það er ekki hægt að treysta því að hliðstæður eigi sér ekki stað - en það er bara ekkert á þeim byggjandi. Veðrið er frjálst.

En þó desember 1917 væri almennt kaldur var hann það ekki allur. Textahnotskurn hungurdiska segir um mánuðinn: „Óhagstæð tíð nema um jólaleytið. Mjög kalt.“ Í Reykjavík voru jólin rauð sem kallað er og landshámarkshiti komst í tvígang í meir en 10 stig á síðari hluta mánaðarins. Ekki var þó mikið um tjón í fréttum að undanskildu miklu snjóflóði sem féll þann 17. við Stóruvelli í Bárðardal. Það olli miklu tjóni, m.a. á fjárhúsum. Svo fórst bátur útaf Kollafirði (Húnaflóa) - en ekki er vitað hvort það slys tengdist veðri.  

Við skulum líta á almennt hitafar í mánuðinum. 

w-blogg161217d

Hér er sýndur daglegur meðalhiti þriggja veðurstöðva, Ísafjarðar, Seyðisfjarðar og Vestmannaeyjakaupstaðar (bláar súlur). Taka má eftir því að þetta eru ekkert sérstaklega kaldar stöðvar, en samt fór meðalhiti þeirra þann 16. niður í -12,7 stig. Það var sama dag sem hiti fór niður í -22,0 stig á Akureyri. Daginn eftir hlýnaði skyndilega, ekki ótrúlegt að hitasveifla sú hafi sett snjóflóðið sem áður er getið af stað. 

Áður hafði orðið mjög kalt þann 9. - þegar metið var sett í Möðrudal. Þetta eru allt stórar sveiflur. En svo hlýnaði á jólum og var hlýtt milli jóla og nýjárs.

Rauði ferillinn á myndinni sýnir meðalloftþrýsting viðkomandi daga. Miklar sveiflur í honum líka, en almennt er hann samt hár. Við tökum eftir því að háþrýstimetinu þann 16. fylgdi mikill kuldi - og háþrýstingur og kuldi fylgjast heldur að - en jólaháþrýstingurinn er þó hlýr - enda vestlæg átt. 

Endurgreiningar hafa reynt að ná tökum á tíðarfarinu - en gengur misvel. Meðalþrýstikort endurgreiningar evrópureiknimiðstöðvarinnar er þó sennilega ekki fjarri lagi.

w-blogg151217-1917pmet-a

Allsherjarflatneskja er við Ísland - eins og vill verða í norðvestanátt frá Grænlandi. Þrýstivikin eru sýnd í lit - jákvæð um nær allt kortið. Viðmiðunartímabil er hér öll öldin, frá 1901 til 2000. Séu tölurnar á Íslandi bornar saman við raunveruleikann kemur í ljós að reiknimiðstöðin er líklega lítillega of há - við höfum út af fyrir sig ekki aðrar áhyggjur af því en þær að taka eftir mismuninum. Við viljum ekki venja okkur á að trúa reiknilíkönum betur en raunveruleikanum (en á því er veruleg hætta - nálgast hættuna af freistingum andskotans á trúarsviðinu - og ámóta aðlaðandi og þægileg - þar til skuldir eru innheimtar á efsta degi). 

En mynstrið er ábyggilega nærri lagi - og rétt að taka sérstaklega eftir allri aukavestanáttinni norðan Íslands - meðfram allri austurströnd Grænlands norður að Framsundi (Nástrandadyrum - eins og Bjarni Thorarensen nefndi það - án þess að þekkja). Nú hafði hafísmagn í norðurhöfum verið óvenjumikið vorið 1917 - það mesta um langt skeið og jafnvel virðist sem að Austurgrænlandsísinn og Barentsísinn hafi náð saman sunnan Svalbarða - nokkuð sem aldrei hefur einu sinni legið við síðan. Sá ís hefur að vísu mikið bráðnað um sumarið (1917), en aukavestanátt desembermánaðar hefur dreift vel úr leifum og nýmyndun haustsins. Þá frjósa allar vakir á svæðinu - og ekki verður aftur snúið nema með gríðarlegu vindofbeldi. Breiðir ísinn þá hratt úr sér til austurs og eykst mjög að umfangi. 

Enda kom mikil fylla til Íslands eftir áramót - sem stríðir vindar febrúarmánaðar sáu þó um að brjóta, þjappa og koma suðvestur um Grænlandssund og í hlýja sjóinn suðaustan við land - undravert reyndar. Er það einkennilegt að ísinn mikli árin 1917 til 1918 og bráð hans skyldi ekki treinast næstu árin - en nýir tímar tóku við. Sýnir enn að „erfitt mun um slíkt að spá“.

Svo er það þrýstimetið 16.desember, 1054,2 hPa. Eins og áður sagði er þetta næsthæsti sjávarmálsþrýstingur sem vitað er um hér á landi og sá hæsti í desember. Eitthvað má þó stinga í metið - eins og flest önnur. Ýmislegt bendir til þess að loftvogin í Stykkishólmi hafi verið ívið of há þessi árin (ekki hefur þó tekist að sanna það svo óyggjandi sé). En í raun skiptir sú hugsanlega villa ekki máli fyrr en tekist verður á um metið þegar þrýstingurinn í desember nálgast næst þessa tölu. - Varla er um að ræða meiri villu en um 0,7 hPa. 

Í þau fáu skipti sem þrýstingur fer yfir 1050 hPa hér á landi er algengast að um sé að ræða stór, mikil og hægfara háþrýstisvæði. Svo var ekki í þessu tilviki heldur kom snarpur og mjór háloftahæðarhryggur inn á landið úr vestri og kuldi í neðri lögum úr norðri, atvikin tvö hittu vel saman og bjuggu skyndilega til 1050 hPa. Talan 1050 hPa sást þó aðeins á tveimur stöðvum, í Stykkishólmi og í Grímsey - en athuganir á þessum tíma voru aðeins gerðar þrisvar á dag - og engin að næturlagi. Þrýstiriti var í Stykkishólmi, mjög rangt stilltur og fór armurinn langt út fyrir blaðið - lítið gagn í því í þessu tilviki.

En lítum á veðurkort - eins og bandaríska endurgreiningin sér það, gildistími á hádegi þann 16. desember.

w-blogg151217-1917pmet-b

Kortið sýnir hæð 1000 hPa-flatarins í dekametrum (1 dam = 10 metrar), talan 360 jafngildir 1045 hPa, 320 er 1040 hPa o.s.frv. Endurgreiningin nær þessu ekki alveg - en sýnir okkur þó aðalatriði málsins, hæðarhrygginn. Háloftahryggurinn hreyfðist hratt til suðausturs, en kalda loftið neðan við hann dreifði úr sér og þrýstingur féll fljótt aftur. Sunnanáttin yfir Grænlandi sótti strax að. 

w-blogg151217-1917pmet

Hér sjáum við þrýstibreytingarnar á landinu dagana 13. til 19. desember 1917. Upplýsingar eru frá sjö stöðvum, þar af þremur sem sendu veðurskeyti til útlanda, en engin stöðvanna athugaði oftar en þrisvar yfir daginn. Tvær stöðvar voru í Vestmannaeyjum. Blástrikaða línan sýnir þrýstinginn í Stykkishólmi og þar með metið að morgni þess 16. Við sjáum líka annan punkt ofan við 1050 hPa, það er Grímsey eins og áður sagði, en síðdegis sama dag. Aðrar stöðvar fóru ekki alveg jafnhátt. 

Taflan hér að neðan sýnir lágmarkshita desembermánaðar 1917 á þeim stöðvum sem við höfum upplýsingar um. 

stöðármánlágm nafn
1191712# Reykjavík
15191712-22,0 Vífilsstaðir
178191712-19,5 Stykkishólmur
254191712-16,7 Ísafjörður
306191712-20,7 Bær í Hrútafirði
404191712-16,4 Grímsey
419191712-22,3 Möðruvellir
422191712-22,0 Akureyri
490191712-34,5 Möðrudalur
495191712-30,0 Grímsstaðir
507191712-15,2 Þórshöfn
564191712-22,5 Nefbjarnarstaðir
615191712-15,8 Seyðisfjörður
675191712-16,2 Teigarhorn
680191712-12,7 Papey
745191712-17,4 Fagurhólsmýri
815191712-13,6 Stórhöfði
816191712-13,5 Vestmannaeyjabær
906191712-17,8 Stórinúpur

Athuganir úr Reykjavík vantar. Þar var reyndar skeytastöð, en skýrslublað desembermánaðar hefur glatast. Þar komu upp deilur um hitamælingar - illar raddir sögðu að mælirinn við Landsímahúsið sýndi ekki nærri því nógu mikið frost. 

Við getum litið á tvær stuttar fréttir í Vísi, þá fyrri 3. desember:

Vísir 3. desember
Frostið. Mjög misjöfnum sögum fer af því, hve mikið frostið sé hér í bænum nú á degi hverjum. T.d. var frostið i fyrrinótt 18 gr. á einn mælir, sem mjög ábyggilegur er talinn, og 13 um hádegið, en á landsimamælirinn var það 10,6, í gærmorgun. Yfirleitt segja menn að frostið sé altaf talið minna en það er í veðurskeytunum. En það er þá ekki aðeins hér i Beykjavík, heldur um alt land.

Og þann 17. desember:

Frost mun hafa orðið meira hér í fyrrinótt en sögur hafa farið af nú í mörg ár. Á Vífilsstöðum varð frostið mest 22 stig, en 19 hér í bænum. Á Kleppi var rúmlega 20 stiga frost, Samkvæmt veðurskeytunum var frostíð aðeins 12,6 stig hér í gærmorgun.

Eitthvað kunnuglegur þrastónn í þessu - þó hundrað ára sé. En eins og sjá má fór frostið í raun og veru í -22,0 stig á Vífilsstöðum (ritstjórinn á reyndar eftir að horfa á töluna í skýrslunni sjálfri). 

Við ljúkum þessari umfjöllun um desember 1917 með enn einni frétt úr Vísi - þann 30. desember - eftir nokkurra daga hláku:

Frá Vestmannaeyjum. Síðustu dagana hafa verið svo mikil blíðviðri í Eyjunum, að ekki aðeins hefir tekið upp nær allan snjó, heldur hefir jörð grænkað þar viða.

Svo kom janúar 1918. 


Eindregin spá (en hvort eitthvað er svo að marka hana?)

Þriggja vikna spár evrópureiknimiðstöðvarinnar eru oftast harla óljósar (enda eins gott). Stundum ber þó við að fastar er kveðið að og þannig er það í dag. 

w-blogg111217a

Hér má sjá spá um meðalsjávarmálsþrýsting og vik hans frá meðallagi vikuna 25. til 31. desember. Þrýstingur langt undir meðallagi um Bretlandseyjar - kuldastroka frá Kanada út á Atlantshaf en Ísland í mjög ákveðinni (en til þess að gera mildri) norðanátt með snjókyngi nyrðra en þurrviðri syðra. 

Það telst mild norðanátt sem nær hitanum varla niður fyrir meðaltal desembermánaðar. 

En ýmislegt á eftir að gerast í veðrinu fyrir jól - 


Fyrsti þriðjungur desembermánaðar

Meðalhiti fyrstu tíu daga desembermánaðar var -0,6 stig í Reykjavík, -1,3 stigum undir meðallagi sömu daga áranna 1961 til 1990 og -0,8 undir meðallagi síðustu tíu ára. Á öldinni er hitinn í 12.hlýjasta sæti (af 17). Langkaldastir voru þessir dagar 2011, meðalhiti þeirra var þá -4,8 stig.

Á langa listanum er reykjavíkurhitinn í 96. sæti af 142. Dagarnir tíu voru hlýjastir í fyrra, +7,1 stig, en kaldastir 1887, -7,2 stig. Dagurinn í dag skilaði mesta frosti ársins til þessa á Veðurstofutúni, -8,4 stigum (reyndar -8,8 á kvikasilfursmælinum í gamla skýlinu). 

Á Akureyri er meðalhiti fyrstu 10 daga desembermánaðar -1,2 stig, +0,4 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára, en -0,8 undir meðallagi 1961 til 1990. 

Vikum er mjög misskipt á landið, hiti er enn ofan meðallags síðustu tíu ára um landið norðaustanvert, mest +1,5 stigum yfir því í Möðrudal, en kaldast hefur verið um landið suðvestan- og vestanvert. Mesta neikvæða vikið er á Húsafelli, -2,2 stig.

Þurrt hefur verið í veðri, þurrast að tiltölu á Suðausturlandi, en í Reykjavík hefur úrkoman mælst 17,1 mm, um 60 prósent meðallags. 

Þess má að lokum geta að óvenjuhlýtt er nú víða á Grænlandi, hiti komst í 10 stig í Narsarsuaq og meir en 7 stig í Syðri-Straumfirði.


Fallvindar?

Við lítum nú á vindaspá sem gildir að morgni mánudags 11.desember. Nei, það er ekkert sérstakt um að vera, en fróðleik má hafa af spákortum.

w-blogg091217a

Hér má sjá vindaspá harmonie-líkansins sem gildir kl. 6 að morgni mánudags. Örvar sýna vindstefnu (og styrk), en litir styrkinn. Það er hvergi hvasst, en þó er kaldi eða meira á bláleitu svæðunum. Vindi er nokkuð misskipt, hann liggur í strengjum. Nokkrar tölur hafa verið settar á kortið.

Það er mjög væg þrýstiknúin norðaustanátt ríkjandi yfir landinu. Þrýstilínur eru fáar (ekki sýndar hér). 

1. Hér má sjá hvernig vindur stendur niður af Hofsjökli bæði til norðvesturs og suðvesturs - stefnir greinilega út frá hábungu hans. 

2. Vindlæna liggur niður allt Þjórsársvæðið - frá Hofsjökli og til sjávar. Missterk að vísu, mjög líklegt er að hér sjáum við kalt hálendisloft streyma niður á láglendið, þyngdaraflið eykur hraða þess. 

3. Þegar komið er út á sjó bætir í vind - það er vegna þess að núningur minnkar, loftið missir „fótanna“ og skríður betur áfram. 

4. Strengur er á Faxaflóa - hann var áður fyrr kenndur við veðurstöðina í Síðumúla, í þessu tilviki er hann reyndar ámóta sterkur við hálendisbrúnina uppsveitum Borgarfjarðar (fellur þar framaf) og úti á flóanum, en núningur og blöndun hægir á honum á leiðinni. - Svo nær hann sér aftur á strik yfir sjónum. 

5. Við sjáum dálítinn streng yfir Skarðsheiði og Hafnarfjalli - þar myndast dálítil flotbylgja - þó hin almenna norðaustanátt sé ekki mikil nægir hún til að búa hana til. 

Stikalína hefur verið sett um þvera mynd - liggur frá Faxaflóa í vestri austur um Esjuna og sker loks hálendisbrúnarvindstrengina. Síðari myndin sýnir lóðrétt vind- og mættishitaþversnið eftir þessari línu, frá jörð og upp í um 700 hPa (3 km hæð).

w-blogg091217b

Sjá má breiddarstig á lárétta ásnum. Litir sýna vindhraða, hann er mestur um 16 m/s í Hreppastrengnum - í um 100 til 200 m hæð yfir jörð. Ef við drögum hina almennu norðaustanátt (um 3 til 5 m/s) frá vindsviðinu kemur í ljós að „aukavindstyrkur“ í strengnum er um 10 m/s - trúlega er mest honum orðinn til við fallið niður brekkuna. 

Lega jafnmættishitalínanna er líka fróðleg. Varmaútgeislun lækkar mættishita, þunnt lag af lofti með lágan mættishita myndast því stöðugt yfir landinu í björtu veðri - þessarar lækkunar gætir sérstaklega þar sem loftið snertir enn kaldara yfirborð. Þetta kalda loft rennur sífellt niður í móti í átt til sævar - og myndar vindstrengi eins og þann sem við hér sjáum. Þar sem loftið fellur fram af brúnum vill það blandast við hlýrra loft ofan við - þar er vindur líka hægari og vindur jafnast því líka. 

Lengst til vinstri á myndinni erum við yfir sjó (vestur af Faxaflóa) - þar er jafnmættishitalínulaust alveg upp í kílómetershæð - loftið er fullblandað vegna upphitunar sjávar. Yfir Biskupstungum eru línurnar 4 talsins á sama hæðarbili. - Þær eru ábyggilega enn fleiri, þá liggjandi rétt yfir yfirborði. Líkanið segir að á þeim slóðum verði frost í 100 metra hæð yfir jörð um -7 stig, en um -14 stig á veðurstöðvum. Lítinn vind þarf til að jafna þann mun. 

Kæmist loftið þar sem vindurinn er mestur á myndinni hér að ofan niður í 1000 hPa yrði hiti þess +1 stig (mættishitinn er 274K). 


Af lágmarkshita ársins í Reykjavík

Í morgun (8. desember) fór hiti niður í -8,2 stig á Veðurstofutúní í Reykjavík. Það er mesta frost ársins á þeim stað til þessa. Nú eru þrjár vikur (rúmar) eftir af árinu og vel mögulegt að meira frost mælist á þeim tíma - en ef ekki sitjum við uppi með eitt hæsta árslágmark allra tíma í höfuðborginni. 

Lítum á mynd.

w-blogg081217

Hún sýnir tímabil allra lágmarksmælinga í Reykjavík. Eyður eru í lágmarksmælingum - þar höfum við að vísu upplýsingar um hita (ekki þó öll ár frá 1854 til 1865) en við verðum að ná í lægstu tölur ársins með því að fara yfir mælingar á athugunartímum. Lægstu lágmörk eru oftast eitthvað lægri en þær ná að sýna (þó ekki alveg alltaf). 

Engar lágmarksmælingar voru t.d. á tímabilinu 1907 til 1919, en þá mældist mesta frost sem vitað er um í Reykjavík, -24,5 stig (1918) - sú tala var lesin af venjulegum mæli. Lægsta lágmark gæti hafa verið eitthvað lægra (þó varla teljandi). 

Frost fór í meir en -20 stig veturinn 1880 til 1881 og sömuleiðis 1892, en aldrei eftir 1918. Litlu munaði þó 1971 þegar lágmarkið mældist -19,7 stig. 

Við sjáum á myndinni að lítið hefur verið um frosthörkur hin síðari ár í Reykjavík og frost sjaldan orðið meira en -12 stig. Það gerðist hins vegar í miklum meirihluta ára á kalda skeiðinu.

Eins og áður sagði er mesta frost ársins 2017 til þessa aðeins -8,2 stig. Mesta frost ársins 2012 var aðeins -7,9 stig og -8,2 árið 1926. Í langtímasamhengi er mjög óvenjulegt að ekki mælist -10 stiga frost að minnsta kosti einu sinni yfir árið í Reykjavík. 

Árið 2017 hefur því verið sérlega fátækt af frosthörkum í höfuðborginni. Ritstjóra hungurdiska hlýtur því að undra mjög allt tal um sérlega kulda að undanförnu. Jú, auðvitað gætu þeir átt eftir að sýna sig - en hafa alla vega ekki gert það til þessa. 

Á landsvísu hefur frost ekki enn komist í -25 stig á árinu - hvorki í byggð né á fjöllum. Dagurinn í gær (7. desember) var kaldur, meðalhiti í byggð -5,1 stig, en kemst samt varla á blað í neinum keppnistöflum, nema þeim sem miða aðeins við innbyrðis samanburð hlýju áranna - þriðjikaldasti 7. desember á öldinni. Þennan dag 1967 var meðalhiti í byggð -10,9 stig. Dagurinn í dag (8. desember) verður hugsanlega kaldari en gærdagurinn, en uppgjör liggur ekki fyrir þegar þetta er skrifað. 

Að ósk að austan er hér líka ámóta línurit fyrir Dalatanga (lágmarksmælingar byrjuðu þar 1949). Lágmarksmælingar féllu niður fyrstu mánuði ársins 1957 - en ekki varð mjög kalt þá, árslágmarkið trúlega á bilinu -7 til -8 stig. 

w-blogg081217b

Hér má sjá hafísárin miklu 1968 og 1969 skera sig úr - og sömuleiðis síðustu ár sem eru óvenjuleg í langtímasamhengi. 


Hlýtt og kalt tímabil

Ritstjóri hungurdiska fylgist oftast nær með hitafari á landinu frá degi til dags og ber saman við meðaltöl fyrri tíma. Venjulegustu samanburðartímabilin sem hann notar eru annars vegar gamla viðmiðunartímabilið 1961 til 1990 en hins vegar meðaltal síðustu tíu ára (hver sem þau annars eru á hverjum tíma). Eins og öll veðurnörd vita er eldra tímabilið talsvert kaldara en það nýja, það munar 1,15 stigum á ársmeðalhita þessara tveggja tímabila í Reykjavík. 

Í daglegum samanburði (eða þegar mánuðir eða hlutar þeirra eru bornir saman) er því langalgengast að nútíminn sé mun hlýrri miðað við eldra tímabilið heldur en það yngra. 

Annað er uppi á teningnum einmitt þessa dagana. Hiti fyrstu 7 daga desembermánaðar nú er 0,4 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990, en 1,5 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára. Þetta þýðir að fyrsta vika desember hefur síðustu tíu ár verið 1,1 stigi kaldari en hún var á köldu árunum 1961 til 1990. 

Eðlilegt er í framhaldinu að spyrja hversu margir almanaksdagar séu þannig vaxnir að þeir hafi verið að jafnaði kaldari síðustu tíu árin en var á kalda skeiðinu. Auðvelt er að svara því. Í Reykjavík eru þeir 48. Einn í janúar, 7 í febrúar, 7 í mars, 4 í apríl, 8 í maí, - enginn í júní til september, 11 í október, 3 í nóvember og 7 í desember. 

Lengsta samfellda röð slíkra daga er frá 29. nóvember til 7. desember - 9 dagar. Við sjáum á þessu hlutfalli daga [48:317] hvað hlýindi síðustu tíu ára eru afgerandi. 

En - nú spyrja sumir væntanlega hvernig er með samanburð við hlýja tímabilið 1931 til 1960 - hvernig stendur það sig í ámóta keppni við síðustu tíu ár?

Jú, við fáum út hlutfallið [111:254] - ekki alveg eins hagstætt hlýindum síðustu tíu ára, en samt afgerandi. 

Því miður vantar dálítið af dægurmeðaltölum í Reykjavík fyrir 1920, en tuttugu ára tímabilið 1881 til 1900 er þó nokkurn veginn heilt. „Hlutfallið“ milli nútímans og þeirra köldu ára er [12:351] - tólf almanaksdagar voru að meðaltali hlýrri í Reykjavík en meðaltal sömu daga síðustu tíu ára, þar á meðal 18. til 21. október og 23. til 25. desember. 

Hvaða almanaksdagar koma við sögu er væntanlega algjörlega tilviljanakennt - en hlutfallstölurnar segja hins vegar nokkra sögu. - En á næsta ári verður eitt ár dottið út úr því sem nú eru síðustu tíu ár - og annað komið í staðinn. - Svo styttist í nýtt 30-ára samanburðartímabil, 1991 til 2020. Hvernig skyldu árin 2021 til 2030 koma út í samanburði við það?


Þaulsetinn hæðarhryggur

Háloftahæðarhryggurinn sem verið hefur viðloðandi Grænland og hafið þar suður af virðist ætla að verða þaulsetinn. Hann víkur sér að vísu aðeins undan þegar lægðir sækja að, en rís jafnharðan upp aftur rétt eins og ekkert hafi í skorist. 

w-blogg061217a

Norðurhvelskortið sýnir stöðuna síðdegis á föstudag (8. desember). Jafnhæðarlínur eru heildregnar, en þykktin sýnd í lit. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs og því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. 

Ísland er rétt neðan miðrar myndar undir norðvestanstreng í háloftum. Kuldastrengur (blátt svæði) liggur til suðurs fyrir austan land, allt suður á meginland Evrópu. Hlýrra loft nálgast úr vestri.

Allmikið lægðasvæði er vestur yfir Kanada, tengt kuldapollinum Stóra-Bola sem þar liggur á fleti og er smám saman að ná sér á strik. Lægðardrag er austan við Labrador og sækir það að hæðarhryggnum. Svo virðist samt að hann muni aðeins „opna dyr“ og hleypa lægðaganginum til austurs fyrir sunnan land - og loka síðan aftur. Fari svo herðir aðeins á austanáttinni meðan lægðin fer hjá, en svo tekur norðanloftið við aftur.

Langtímaspár gera svo ráð fyrir því að eins fari fyrir næstu tveimur vestanbylgjum - séu þær réttar verður ekki mikið um stórtíðindi hér á næstunni - og er það vel. En spár eru bara spár - hver raunveruleikinn verður vitum við ekki.

Það er athyglisvert að því er líka spáð að hæðin yfir norðurskautinu nái aftur 1050 hPa við sjávarmál eftir helgi - eins og hún gerði á dögunum. 

Mikil hæðarhryggur er líka yfir vesturströnd Norður-Ameríku - býr þar til þurrka og skógarelda, en beinir jafnframt köldu lofti til suðurs yfir austanverð Bandaríkin. Þar nefna menn Stóra-Bola, „The polar vortex“ - varla alveg rétt að hafa það með ákveðnum greini því þeir eru oftast fleiri kuldapollarnir. Að vísu má vel nota þetta heiti um þá miklu lægð sem ríkir í háloftunum á öllu norðurhveli, sumar jafnt sem vetur. Síður um litla hluta hennar.

Bandarískir fjölmiðlar (stórir og smáir) æsast mjög upp þegar Stóri-Boli gerir sig líklegan til að ráðast þangað suður - enda fylgja honum alltaf kuldar og oftlega mikil hríðarveður líka. Ástæða er til að æsa sig yfir slíku. Ritstjóra hungurdiska finnst hins vegar alltaf skrítið hversu margir virðast fagna slíkum ótíðindum. Svipað heyrist stundum hér varðandi eldgos og aðra óáran - illskiljanlegt. 

„Polar vortex“ er líka notað um heiðhvolfslægðina miklu - sem er aðeins vetrarfyrirbrigði og strangt tekið óheppilegt að þessu öllu slái saman. Ritstjóri hungurdiska kýs því fremur að tala um Stóra-Bola og ættingja hans - en er að vísu opinn fyrir meira lýsandi nöfnum dúkki þau upp. Vel má vera að eitthvað slíkt falli af himnum ofan einhvern daginn. 


Öfugsniði

Stundum tekur upp á því að snjóa í norðaustanátt á Suðurlandi. Spár eru ekki alveg sammála um hvort það gerist nú - eða þá hversu mikið, en rétt er að líta á málið. 

Fyrst er ein af hinum erfiðu sniðmyndum sem stundum er brugðið upp hér á hungurdiskum.

w-blogg041217a

Lárétti ásinn sýnir breiddarstig - eftir línu sem liggur þvert yfir Ísland eins og smámyndin í efra horni til hægri sýnir. Lóðrétti ásinn sýnir hæð yfir sjávarmáli (í þrýstieiningum). Hálendi landsins rís upp fyrir miðjum lárétta ásnum sem grá klessa. Suður er til vinstri, en norður til hægri. Jafnmættishitalínur eru heildregnar, vindörvar hefðbundnar og vindhraði er sýndur með litum. 

Neðst á myndinni er austan- og norðaustanátt ríkjandi, hvöss undan Suðurlandi. Ofar er vindur mjög hægur (grænn litur) en þar ofan við vex vindur af suðvestri þar til komið er í kjarna heimskautarastarinnar í um 9 km hæð (300 hPa). 

Þessi breyting vindhraða og stefnu með hæð heitir „reverse shear“ á erlendum málum - sem ritstjórinn kýs að kalla „öfugsniða“ á íslensku. 

Við skulum taka eftir því að mjög mikill halli er á jafnmættishitalínunum. Þær sem liggja um græna beltið á myndinni eru mörgum kílómetrum lægri fyrir sunnan land (til vinstri) heldur en fyrir norðan. Kuldinn í neðri lögum „eyðir“ suðvestanáttinni og býr til norðaustanátt í stað hennar. 

Í þessari stöðu dregur mjög úr áhrifum landslags á úrkomumyndun, þá getur snjóað (eða rignt) á Suðurlandi í norðaustanátt. Suðvestanáttin í háloftunum sér um það. 

w-blogg041217b

Hér má sjá tillögu evrópureiknimiðstöðvarinnar um sjávarmálsþrýsting og úrkomu á sama tíma og sniðið hér að ofan sýndi. Norðaustanátt er ríkjandi á landinu, en samt er aðalúrkomusvæðið yfir Suðurlandi. 

w-blogg041217c

Háloftakortið (500 hPa) sýnir allt aðra mynd. Mjög skarpt lægðardrag er við Vesturland og mikill suðvestanstrengur austan þess. Mjög mikill hitabratti er á myndinni, hiti yfir Mýrdalnum er um -28 stig, en -38 stig yfir Vestfjörðum. Til allrar hamingju fór lægðardragið á mis við hlýja loftið þegar það fór framhjá Íslandi (annars hefðum við fengið meiriháttar illviðri) - en spár benda nú til þess að það nái í skottið á því við Skotland. Þar er því spáð að lægð dýpki gríðarlega á miðvikudagskvöld. Þá verður lægðardragið komið vel framhjá Íslandi - og venjuleg norðanátt tekin við. 

Þegar þetta er skrifað (að kvöldi mánudags) er enn mjög óljóst hvort það nær að snjóa sunnanlands og hversu mikið það verður.

Iga-harmonie-líkanið stingur upp á þessari stöðu kl.6 á miðvikudagsmorgni.

w-blogg041217d

Hér er úrkoman öllu minni en hjá evrópureiknimiðstöðinni, en samt nær hún til Reykjavíkur. Líkanið spáir nú um 20 cm austur í Árnessýslu og enn meiru á stöku stað. En það hreinsar frá um leið og vindur snýst úr suðvestri í norður í háloftunum. Þá kólnar líka rækilega.

Lægðardrög sem þessi - með öfugsniða - eru mishraðfara. Fari þau hægt hjá getur snjóað mjög mikið og sumir frægustu sunnlenskir byljir eru þessarar ættar, t.d. mannskaðabylurinn frægi í febrúar 1940 sem ritstjóri hungurdiska hefur velt nokkuð fyrir sér - en ekki getað komið frá sér texta um. Kannski honum takist einhvern tíma að hreinsa þann snjó frá vitum sér. 


Hafískoma í desember 2001

Í fornum hungurdiskapistli (25. nóvember 2010) var fjallað um ískomur við Ísland og þá sérstaklega svonefndan „vesturís“. Þegar slaknar á norðaustanáttinni í Grænlandssundi dreifir ísinn þar úr sér og getur borist inn í hlýrri sjó nær Íslandi og jafnvel upp að ströndum landsins. Þetta getur gerst jafnvel þótt sáralítill ís sé í sundinu standi áttleysa eða suðvestanátt nægilega lengi - og á hvaða tíma árs sem er. Undanfarin ár hefur staðan hins vegar verið óvenjuleg að því leyti að Grænlandssund hefur stundum orðið alveg íslaust um tíma á hausti. - Við slík skilyrði kemur að sjálfsögðu enginn ís þótt norðaustanáttin bregðist. 

Ekki var mikill ís í sundinu haustið 2001 en eftir þrálátar suðvestanáttir í desember barst ís samt að Vestfjörðum og í lok mánaðarins og í byrjun janúar truflaði hann siglingar við Hornstrandir. 

Ástæðu þessarar ískomu í íslitlu ári má sjá á kortinu hér að neðan.

w-blogg041217a

Það sýnir sjávarmálsþrýsting desembermánaðar 2001 og vik hans frá meðallagi áranna 1981 til 2010. Vikasviðið sýnir að suðvestanáttir hafa verið mun tíðari en að meðallagi í Grænlandssundi - eðlilegt rennsli íss utan miðlínu milli Íslands og Grænlands hefur truflast og ís lent austan straumaskila og hann svo borist upp að Hornströndum. 


Fer vonandi vel með

Kortið hér að neðan sýnir spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um sjávarmálsþrýsting, úrkomu og hita í 850 hPa fletinum síðdegis á mánudag (4.desember). 

w-blogg021217a

Lægð er á austurleið fyrir norðan land og veður er kólnandi. Sé kortið skoðað nánar má sjá að þrýstingur er furðuhár, þrýstingur í lægðarmiðju er ofan við 1000 hPa. Gæti rétt svo sem verið um mitt sumar. Hæðirnar tvær,sú vestan Bretónaskaga og hin, yfir Labrador, eru ekki svo sterkar heldur - aðeins öflugri þó en venjulegt er að sumri. Hvergi virðist vera stormur, nema e.t.v. í fallvindi við Austur-Grænland.

En hitatölurnar (í 850 hPa) eru að vísu mun lægri en væri að sumarlagi og sýna okkur ótvírætt að kortið sýnir vetrarstöðu - en ekki hásumar. 

Þó vel virðist ætla að fara er staðan í grunninn mjög eitruð - mjög hlýtt loft (rauð ör) streymir úr langt úr suðri til móts við kulda úr norðri og vestri (blá ör) - uppskrift að skyndidýpkun. - En séu reikningar réttir mun stefnumótið mistakast, herjir norðan- og sunnanlofts fara á mis og orrusta blásin af. - Nema hvað gríðarlegri úrkomu er spáð í Vestur-Noregi þegar hlýja loftið skellur þar á á þriðjudag.

Hér á landi á kuldi hins vegar að ná undirtökum aftur - ekki til langframa þó.

Landsdægurhitamet var slegið í gær (1. desember) þegar hiti fór í 16,6 stig í Kvískerjum í Öræfum, það gamla var 15,5 stig, sett á Seyðisfirði 1998. Ritstjóra hungurdiska telst til að þetta sé 17. landsdægurhámarksmetið sem sett er á árinu (á þó eftir að staðfesta þá tölu). Þetta er langt umfram væntingar. Aðeins eitt landsdægurlágmarksmet hefur verið sett - mun minna en vænta mætti í stöðugu veðurfari. 

Það eru líka tíðindi að nóvember er kaldastur mánaða það sem af er ári víðast hvar á landinu (ekki alls staðar þó). Spurning hvort desember nær að slá hann út. Nóvember hefur stöku sinnum orðið kaldasti mánuður ársins, við höfum farið í gegnum það áður hér á hungurdiskum - ritstjóra minnir að verði nóvember kaldastur mánaða í ár verði það í tíunda sinn sem það gerist á landsvísu síðustu 200 árin - við gætum rifjað það upp síðar. Kuldinn nú var missnarpur - snarpastur að tiltölu á Suðurlandi. Sýnist sem þetta sé kaldasti mánuður yfirleitt í Árnesi frá desember 2011 að telja, ámóta kalt var þó þar í desember 2014. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg200324b
  • w-blogg200324a
  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 52
  • Sl. sólarhring: 53
  • Sl. viku: 543
  • Frá upphafi: 2343305

Annað

  • Innlit í dag: 48
  • Innlit sl. viku: 494
  • Gestir í dag: 41
  • IP-tölur í dag: 37

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband