Fyrir 100 árum

Desember 1917 er merkilegur í veðurfarssögunni og á met sem enn standa. Mesta frost sem vitað er um á landinu í desember er -34,5 stig og mældist í Möðrudal þann 9. dag mánaðarins. Sömuleiðis mældist þá mesta frost sem við vitum um á Akureyri, -22,0 stig. Það gerðist þann 16. Sama dag mældist hæsti sjávarmálsþrýstingur sem vitað er um hér á landi í desember, 1054,2 hPa - í Stykkishólmi. Það er næstmesti þrýstingur sem við þekkjum frá upphafi samfelldra þrýstimælinga hér á landi 1821. 

Mánuðurinn í heild var kaldur, meðalhiti í byggð reiknast -4,3 stig og hefur aðeins einu sinni verið lægri í desember síðan þá, það var 1973. Á fyrri tíð vitum við um enn kaldari desembermánuði, kaldast var 1880. Þá reiknast meðalhiti í byggð -8,3 stig. Áður en kuldinn 1973 gekk yfir var hin almenna tilfinning sú að mjög kaldur desember boðaði viðvarandi kulda áfram. - Svo varð þó ekki það í skipti.

Svipuð var tilfinningin haustið 1981, það var mjög kalt, keppti við 1917 og 1880. Því hlaut veturinn 1982 að verða kaldur. - Svo varð þó ekki (okkur þætti hann kannski svalur miðað við hlýindi síðustu ára - en kaldur þótti hann ekki). Ritstjóri hungurdiska féll þá loks alveg frá trúnni á svonefndar „hliðstæðuspár“ og hefur ekki tekið hana aftur. Finnst hliðstæðutrú bara fráleitari og fráleitari - jú, það er ekki hægt að treysta því að hliðstæður eigi sér ekki stað - en það er bara ekkert á þeim byggjandi. Veðrið er frjálst.

En þó desember 1917 væri almennt kaldur var hann það ekki allur. Textahnotskurn hungurdiska segir um mánuðinn: „Óhagstæð tíð nema um jólaleytið. Mjög kalt.“ Í Reykjavík voru jólin rauð sem kallað er og landshámarkshiti komst í tvígang í meir en 10 stig á síðari hluta mánaðarins. Ekki var þó mikið um tjón í fréttum að undanskildu miklu snjóflóði sem féll þann 17. við Stóruvelli í Bárðardal. Það olli miklu tjóni, m.a. á fjárhúsum. Svo fórst bátur útaf Kollafirði (Húnaflóa) - en ekki er vitað hvort það slys tengdist veðri.  

Við skulum líta á almennt hitafar í mánuðinum. 

w-blogg161217d

Hér er sýndur daglegur meðalhiti þriggja veðurstöðva, Ísafjarðar, Seyðisfjarðar og Vestmannaeyjakaupstaðar (bláar súlur). Taka má eftir því að þetta eru ekkert sérstaklega kaldar stöðvar, en samt fór meðalhiti þeirra þann 16. niður í -12,7 stig. Það var sama dag sem hiti fór niður í -22,0 stig á Akureyri. Daginn eftir hlýnaði skyndilega, ekki ótrúlegt að hitasveifla sú hafi sett snjóflóðið sem áður er getið af stað. 

Áður hafði orðið mjög kalt þann 9. - þegar metið var sett í Möðrudal. Þetta eru allt stórar sveiflur. En svo hlýnaði á jólum og var hlýtt milli jóla og nýjárs.

Rauði ferillinn á myndinni sýnir meðalloftþrýsting viðkomandi daga. Miklar sveiflur í honum líka, en almennt er hann samt hár. Við tökum eftir því að háþrýstimetinu þann 16. fylgdi mikill kuldi - og háþrýstingur og kuldi fylgjast heldur að - en jólaháþrýstingurinn er þó hlýr - enda vestlæg átt. 

Endurgreiningar hafa reynt að ná tökum á tíðarfarinu - en gengur misvel. Meðalþrýstikort endurgreiningar evrópureiknimiðstöðvarinnar er þó sennilega ekki fjarri lagi.

w-blogg151217-1917pmet-a

Allsherjarflatneskja er við Ísland - eins og vill verða í norðvestanátt frá Grænlandi. Þrýstivikin eru sýnd í lit - jákvæð um nær allt kortið. Viðmiðunartímabil er hér öll öldin, frá 1901 til 2000. Séu tölurnar á Íslandi bornar saman við raunveruleikann kemur í ljós að reiknimiðstöðin er líklega lítillega of há - við höfum út af fyrir sig ekki aðrar áhyggjur af því en þær að taka eftir mismuninum. Við viljum ekki venja okkur á að trúa reiknilíkönum betur en raunveruleikanum (en á því er veruleg hætta - nálgast hættuna af freistingum andskotans á trúarsviðinu - og ámóta aðlaðandi og þægileg - þar til skuldir eru innheimtar á efsta degi). 

En mynstrið er ábyggilega nærri lagi - og rétt að taka sérstaklega eftir allri aukavestanáttinni norðan Íslands - meðfram allri austurströnd Grænlands norður að Framsundi (Nástrandadyrum - eins og Bjarni Thorarensen nefndi það - án þess að þekkja). Nú hafði hafísmagn í norðurhöfum verið óvenjumikið vorið 1917 - það mesta um langt skeið og jafnvel virðist sem að Austurgrænlandsísinn og Barentsísinn hafi náð saman sunnan Svalbarða - nokkuð sem aldrei hefur einu sinni legið við síðan. Sá ís hefur að vísu mikið bráðnað um sumarið (1917), en aukavestanátt desembermánaðar hefur dreift vel úr leifum og nýmyndun haustsins. Þá frjósa allar vakir á svæðinu - og ekki verður aftur snúið nema með gríðarlegu vindofbeldi. Breiðir ísinn þá hratt úr sér til austurs og eykst mjög að umfangi. 

Enda kom mikil fylla til Íslands eftir áramót - sem stríðir vindar febrúarmánaðar sáu þó um að brjóta, þjappa og koma suðvestur um Grænlandssund og í hlýja sjóinn suðaustan við land - undravert reyndar. Er það einkennilegt að ísinn mikli árin 1917 til 1918 og bráð hans skyldi ekki treinast næstu árin - en nýir tímar tóku við. Sýnir enn að „erfitt mun um slíkt að spá“.

Svo er það þrýstimetið 16.desember, 1054,2 hPa. Eins og áður sagði er þetta næsthæsti sjávarmálsþrýstingur sem vitað er um hér á landi og sá hæsti í desember. Eitthvað má þó stinga í metið - eins og flest önnur. Ýmislegt bendir til þess að loftvogin í Stykkishólmi hafi verið ívið of há þessi árin (ekki hefur þó tekist að sanna það svo óyggjandi sé). En í raun skiptir sú hugsanlega villa ekki máli fyrr en tekist verður á um metið þegar þrýstingurinn í desember nálgast næst þessa tölu. - Varla er um að ræða meiri villu en um 0,7 hPa. 

Í þau fáu skipti sem þrýstingur fer yfir 1050 hPa hér á landi er algengast að um sé að ræða stór, mikil og hægfara háþrýstisvæði. Svo var ekki í þessu tilviki heldur kom snarpur og mjór háloftahæðarhryggur inn á landið úr vestri og kuldi í neðri lögum úr norðri, atvikin tvö hittu vel saman og bjuggu skyndilega til 1050 hPa. Talan 1050 hPa sást þó aðeins á tveimur stöðvum, í Stykkishólmi og í Grímsey - en athuganir á þessum tíma voru aðeins gerðar þrisvar á dag - og engin að næturlagi. Þrýstiriti var í Stykkishólmi, mjög rangt stilltur og fór armurinn langt út fyrir blaðið - lítið gagn í því í þessu tilviki.

En lítum á veðurkort - eins og bandaríska endurgreiningin sér það, gildistími á hádegi þann 16. desember.

w-blogg151217-1917pmet-b

Kortið sýnir hæð 1000 hPa-flatarins í dekametrum (1 dam = 10 metrar), talan 360 jafngildir 1045 hPa, 320 er 1040 hPa o.s.frv. Endurgreiningin nær þessu ekki alveg - en sýnir okkur þó aðalatriði málsins, hæðarhrygginn. Háloftahryggurinn hreyfðist hratt til suðausturs, en kalda loftið neðan við hann dreifði úr sér og þrýstingur féll fljótt aftur. Sunnanáttin yfir Grænlandi sótti strax að. 

w-blogg151217-1917pmet

Hér sjáum við þrýstibreytingarnar á landinu dagana 13. til 19. desember 1917. Upplýsingar eru frá sjö stöðvum, þar af þremur sem sendu veðurskeyti til útlanda, en engin stöðvanna athugaði oftar en þrisvar yfir daginn. Tvær stöðvar voru í Vestmannaeyjum. Blástrikaða línan sýnir þrýstinginn í Stykkishólmi og þar með metið að morgni þess 16. Við sjáum líka annan punkt ofan við 1050 hPa, það er Grímsey eins og áður sagði, en síðdegis sama dag. Aðrar stöðvar fóru ekki alveg jafnhátt. 

Taflan hér að neðan sýnir lágmarkshita desembermánaðar 1917 á þeim stöðvum sem við höfum upplýsingar um. 

stöðármánlágm nafn
1191712# Reykjavík
15191712-22,0 Vífilsstaðir
178191712-19,5 Stykkishólmur
254191712-16,7 Ísafjörður
306191712-20,7 Bær í Hrútafirði
404191712-16,4 Grímsey
419191712-22,3 Möðruvellir
422191712-22,0 Akureyri
490191712-34,5 Möðrudalur
495191712-30,0 Grímsstaðir
507191712-15,2 Þórshöfn
564191712-22,5 Nefbjarnarstaðir
615191712-15,8 Seyðisfjörður
675191712-16,2 Teigarhorn
680191712-12,7 Papey
745191712-17,4 Fagurhólsmýri
815191712-13,6 Stórhöfði
816191712-13,5 Vestmannaeyjabær
906191712-17,8 Stórinúpur

Athuganir úr Reykjavík vantar. Þar var reyndar skeytastöð, en skýrslublað desembermánaðar hefur glatast. Þar komu upp deilur um hitamælingar - illar raddir sögðu að mælirinn við Landsímahúsið sýndi ekki nærri því nógu mikið frost. 

Við getum litið á tvær stuttar fréttir í Vísi, þá fyrri 3. desember:

Vísir 3. desember
Frostið. Mjög misjöfnum sögum fer af því, hve mikið frostið sé hér í bænum nú á degi hverjum. T.d. var frostið i fyrrinótt 18 gr. á einn mælir, sem mjög ábyggilegur er talinn, og 13 um hádegið, en á landsimamælirinn var það 10,6, í gærmorgun. Yfirleitt segja menn að frostið sé altaf talið minna en það er í veðurskeytunum. En það er þá ekki aðeins hér i Beykjavík, heldur um alt land.

Og þann 17. desember:

Frost mun hafa orðið meira hér í fyrrinótt en sögur hafa farið af nú í mörg ár. Á Vífilsstöðum varð frostið mest 22 stig, en 19 hér í bænum. Á Kleppi var rúmlega 20 stiga frost, Samkvæmt veðurskeytunum var frostíð aðeins 12,6 stig hér í gærmorgun.

Eitthvað kunnuglegur þrastónn í þessu - þó hundrað ára sé. En eins og sjá má fór frostið í raun og veru í -22,0 stig á Vífilsstöðum (ritstjórinn á reyndar eftir að horfa á töluna í skýrslunni sjálfri). 

Við ljúkum þessari umfjöllun um desember 1917 með enn einni frétt úr Vísi - þann 30. desember - eftir nokkurra daga hláku:

Frá Vestmannaeyjum. Síðustu dagana hafa verið svo mikil blíðviðri í Eyjunum, að ekki aðeins hefir tekið upp nær allan snjó, heldur hefir jörð grænkað þar viða.

Svo kom janúar 1918. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Frostið ægiega? En það sagði mér gömul kona að ung hefði hún farið frá heimili sínu á Barðaströnd yfir að Flatey,minnir hún segði með sleða eða kerru,sem hesti var beitt fyrir. 

Helga Kristjánsdóttir, 17.12.2017 kl. 03:32

2 identicon

það er slæmt að trausti sé hættur að trúa á hliðstæðuspá en trúi ég á hana en menn eiga ekki að miða við ártal heldur möndulhalla hjarðar sem er að mig minnir svipaður nú og var á 17.öld miðað við það sem ég hef lesið nokkuð svipað veður þá og nú eins virðist vera svipað fjör í eldföllum vorum ekki mjög skemmtileg öld þegar upp var staðið.  við skulum vona að trausti hafi rétt fyrir sér að ekki séu til hliðstæðutímabil. hvorki veðurlega séð eða jarðfræðilega séð sérílagi ekki jarðfræðilega 

kristinn geir steindórsson briem (IP-tala skráð) 19.12.2017 kl. 06:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 155
  • Sl. sólarhring: 333
  • Sl. viku: 1471
  • Frá upphafi: 2349940

Annað

  • Innlit í dag: 132
  • Innlit sl. viku: 1335
  • Gestir í dag: 131
  • IP-tölur í dag: 126

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband