Fallvindar?

Við lítum nú á vindaspá sem gildir að morgni mánudags 11.desember. Nei, það er ekkert sérstakt um að vera, en fróðleik má hafa af spákortum.

w-blogg091217a

Hér má sjá vindaspá harmonie-líkansins sem gildir kl. 6 að morgni mánudags. Örvar sýna vindstefnu (og styrk), en litir styrkinn. Það er hvergi hvasst, en þó er kaldi eða meira á bláleitu svæðunum. Vindi er nokkuð misskipt, hann liggur í strengjum. Nokkrar tölur hafa verið settar á kortið.

Það er mjög væg þrýstiknúin norðaustanátt ríkjandi yfir landinu. Þrýstilínur eru fáar (ekki sýndar hér). 

1. Hér má sjá hvernig vindur stendur niður af Hofsjökli bæði til norðvesturs og suðvesturs - stefnir greinilega út frá hábungu hans. 

2. Vindlæna liggur niður allt Þjórsársvæðið - frá Hofsjökli og til sjávar. Missterk að vísu, mjög líklegt er að hér sjáum við kalt hálendisloft streyma niður á láglendið, þyngdaraflið eykur hraða þess. 

3. Þegar komið er út á sjó bætir í vind - það er vegna þess að núningur minnkar, loftið missir „fótanna“ og skríður betur áfram. 

4. Strengur er á Faxaflóa - hann var áður fyrr kenndur við veðurstöðina í Síðumúla, í þessu tilviki er hann reyndar ámóta sterkur við hálendisbrúnina uppsveitum Borgarfjarðar (fellur þar framaf) og úti á flóanum, en núningur og blöndun hægir á honum á leiðinni. - Svo nær hann sér aftur á strik yfir sjónum. 

5. Við sjáum dálítinn streng yfir Skarðsheiði og Hafnarfjalli - þar myndast dálítil flotbylgja - þó hin almenna norðaustanátt sé ekki mikil nægir hún til að búa hana til. 

Stikalína hefur verið sett um þvera mynd - liggur frá Faxaflóa í vestri austur um Esjuna og sker loks hálendisbrúnarvindstrengina. Síðari myndin sýnir lóðrétt vind- og mættishitaþversnið eftir þessari línu, frá jörð og upp í um 700 hPa (3 km hæð).

w-blogg091217b

Sjá má breiddarstig á lárétta ásnum. Litir sýna vindhraða, hann er mestur um 16 m/s í Hreppastrengnum - í um 100 til 200 m hæð yfir jörð. Ef við drögum hina almennu norðaustanátt (um 3 til 5 m/s) frá vindsviðinu kemur í ljós að „aukavindstyrkur“ í strengnum er um 10 m/s - trúlega er mest honum orðinn til við fallið niður brekkuna. 

Lega jafnmættishitalínanna er líka fróðleg. Varmaútgeislun lækkar mættishita, þunnt lag af lofti með lágan mættishita myndast því stöðugt yfir landinu í björtu veðri - þessarar lækkunar gætir sérstaklega þar sem loftið snertir enn kaldara yfirborð. Þetta kalda loft rennur sífellt niður í móti í átt til sævar - og myndar vindstrengi eins og þann sem við hér sjáum. Þar sem loftið fellur fram af brúnum vill það blandast við hlýrra loft ofan við - þar er vindur líka hægari og vindur jafnast því líka. 

Lengst til vinstri á myndinni erum við yfir sjó (vestur af Faxaflóa) - þar er jafnmættishitalínulaust alveg upp í kílómetershæð - loftið er fullblandað vegna upphitunar sjávar. Yfir Biskupstungum eru línurnar 4 talsins á sama hæðarbili. - Þær eru ábyggilega enn fleiri, þá liggjandi rétt yfir yfirborði. Líkanið segir að á þeim slóðum verði frost í 100 metra hæð yfir jörð um -7 stig, en um -14 stig á veðurstöðvum. Lítinn vind þarf til að jafna þann mun. 

Kæmist loftið þar sem vindurinn er mestur á myndinni hér að ofan niður í 1000 hPa yrði hiti þess +1 stig (mættishitinn er 274K). 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

 • w-blogg250524b
 • w-blogg250524a
 • Slide10
 • Slide9
 • Slide11

Heimsóknir

Flettingar

 • Í dag (27.5.): 5
 • Sl. sólarhring: 320
 • Sl. viku: 1845
 • Frá upphafi: 2357238

Annað

 • Innlit í dag: 5
 • Innlit sl. viku: 1724
 • Gestir í dag: 5
 • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband