Fárviðrið 3. febrúar 1991

Veðrið 3. febrúar 1991 er eitt hið versta sem yfir landið hefur gengið - á síðari áratugum alla vega - og efnislegt tjón meira en fyrr og síðar í einu veðri. Vindhraði á veðurstöðinni í Reykjavík hefur ekki náð fárviðrisstyrk síðan. 

Aðdragandinn var sígildur - mjög djúp og víðáttumikil lægð kom að Suður-Grænlandi. Hún dældi gríðarköldu lofti til suðausturs um Atlantshaf til móts við bylgju af hlýju lofti sem bar að úr suðri - afburðavel hitti í þetta stefnumót. Yfir Skandinavíu var mikil hæð - að þessu sinni sérlega öflug og kuldapollur yfir suðvestanverðri Evrópu hélt líka á móti þannig að Ísland lá í skotlínunni. 

Slide1

Hér má sjá greiningu evrópureiknimiðstöðvarinnar á hádegi 2. febrúar, daginn áður en veðrið skall á. Grænlandslægðin er að vinna sitt verk - og allrasyðst á kortinu er ný lægð komin inn á brautina. 

Slide2

Þetta kort sýnir stöðuna á miðnætti að kvöldi 2. febrúar. Hér má vel sjá ógnina frá kuldapollinum í vestri. Dekksti fjólublái liturinn sýnir hvar þykktin er minni en 4800 metrar - ekki svosem alveg óvenjulegt á þessum slóðum - en staðan samt harla ískyggileg. Mikill strengur (þéttar jafnhæðarlínur) liggur langt sunnan úr hafi beint norður yfir Ísland. 

Slide3

Þessi gervihnattamynd er frá því síðdegis þann 2. febrúar [móttökustöðin í Dundee]. Hér er illt í efni og sjá má öll helstu einkenni snardýpkandi lægða - bylgjuhaus, þurra rifu og éljagang á undan kerfinu. - En auk þess má hér sjá hinn helhvíta blett kuldapollsins - draugalegan að vanda - það þykir ískyggilegt þegar allt rennur svona saman í hvíta móðu - í óstöðugu lofti. Trúlega vanmetur reiknimiðstöðin kuldann á þessum slóðum. Einnig má sjá einkennilegar, en allgrófgerðar bylgjur í haus lægðarinnar - um þær hefur verið ritað í fræðigreinum eftir að svipað sást á mynd daginn áður en mjög frægt illviðri gekk yfir Bretlandseyjar 15. til 16. október 1987.

En tölvuspám gekk ekkert með þetta veður. Jafnvel nær hin annars ágæta interim-endurgreining evrópureiknimiðstöðvarinnar nær því ekki nógu vel. - Vonandi að núverandi líkan geri það - sem við vitum ekki.

En lítum samt á greininguna frá hádegi þann 3. 

Slide4

Í fljótu bragði virðist allt í lagi. Lægðin nokkurn veginn á réttum stað og ofsafengin að sjá - en þrýstingur í lægðarmiðju er hér 962 hPa. Mælingar sýndu hins vegar rétt rúmlega 940 hPa. Það munar 20 hPa! Langt í frá nógu gott. - En líkanið gaf síðan í og var síðdegis búið að ná um það bil réttri dýpt.

Slide5

Hér eru 949 hPa í miðju - sennilega ekki fjarri lagi - lægðin farin að grynnast. 

Slide6

Myndin er fengin úr safni móttökustöðvarinnar í Dundee á Skotlandi og er merkt kl. 13:55. Lægðarmiðjan er rétt úti af Vestfjörðum og „stingröst“ hennar þekur allt Vesturland. 

Á lista hungurdiska um illviðri á landsvísu trónir þetta veður á toppnum. Það er líka á toppnum þegar litið er á „landsþrýstispönn“ [mismun hæsta og lægsta þrýstinga á landinu á sama tíma]. Metvindhraði mældist á Stórhöfða í Vestmannaeyjum (meiri vindur hefur þó mælst á landinu síðar). Þrýstibreytingar voru líka með fádæmum miklar (ekki alveg þó met). - Mælikvarðar þessir eru þó ekki alveg hreinir sé litið til margra áratuga - vegna breytinga á stöðvakerfinu og breytinga á mælitækjum og mæliháttum. Höfum það alltaf í huga þegar horft er á metaskrár. 

Fyrir utan það að kerfið var óvenjuöflugt er má nefna að að stór hluti landsins varð bæði fyrir sunnanfárviðri (háloftaröst) sem og útsynningsstungu (lágröst), jafnvel náði landsynningslágröst sér á strik líka í upphafi veðursins. Alkunna er að á hverjum stað eru það gjarnan ein eða tvær tegundir veðra sem láta að sér kveða - þannig að lægðakerfi sem senda á okkur bæði landsynning og útsynning eru líkleg til mikillar útbreiðslu. - Illviðrið mikla sem gerði í febrúar 1980 og fjallað var um í pistli hungurdiska nýlega var aðallega útsynningsstunga og útbreiðsla þess mun minni en þess sem hér er fjallað um - þrátt fyrir gríðarlega veðurhörku á þeim stöðum sem fyrir því urðu.   

En lítum á vindritið frá Reykjavík.

Slide7

Þetta er teljari sem ritar hærri og hærri tölur á blað - en fellur í byrjunarstöðu eftir 10-mínútur. Blaðið og teljari hafa verið kvörðuð þannig að meðalvindhraði hverra tíu mínútna mælist - hér í hnútum. - Vegna þess að kvarðinn nær ekki „nema“ upp í 66 hnúta sprengja verstu veður kvarðann. Eftir að það hafði gerst svo um munaði tíu árum áður (1981) var einskonar skiptir settur í mælinn þannig að hægt var að setja hann í 5-mínútna talningu í miklum vindhraða - eins og sjá má var skipt um gír um kl.13:30 þennan dag. - Til að fá út 10-mínútna gildið þarf að leggja saman 5-mínútna talningarnar. 

Sá sem gerði það fékk út tölu sem varð að 32,9 m/s. Mesta hviða sem mældist á hviðumælinn við Veðurstofuna var 41,2 m/s. - Á flugvellinum fréttist hins vegar af meðalvindhraðanum 40,7 m/s - en sá mælir var í 17 metra hæð (að sögn). 

Á ritinu má sjá að landsynningurinn um morguninn hefur mest farið í um 60 hnúta (29,1 m/s) - síðan hefur aðeins dúrað - en rétt um kl. 13 skall stingröstin yfir úr suðsuðvestri. Fárviðrið stóð ekki mjög lengi - en stormur (meir en 20 m/s) var viðloðandi til kl. 17 eða svo. 

farvidrid0302-1991-a

Myndin sýnir annars vegar loftþrýsting á Keflavíkurflugvelli á 3-stunda fresti dagana 1. til 4. febrúar 1991 (blár ferill - vinstri kvarði), en hins vegar landsþrýstispönn sömu daga (rauður ferill - hægri kvarði). Þrýstispönnin er skilgreind sem mismunur hæsta og lægsta þrýstings á landinu á hverjum tíma. 

Fárviðrislægðin kemur vel fram - þrýstingurinn fór niður í 944,7 hPa á hádegi þann 3. og reis síðan um 30,7 hPa á þremur klukkustundum. Reyndar reis hann um 21 hPa á einni stund milli kl. 12 og 13. Þessar tölur eru með því allra hæsta sem sést hafa í lægðum á norðurslóðum. 

Spönnin sýnir vel landsynningsveðrið sem gerði aðfaranótt þess 2. - samfara undanfaralægðinni miklu. Hún fór þá mest upp í 27,7 hPa - það er býsnamikið - en verður samt hálf dvergvaxið miðað við töluna 49,8 hPa kl. 15 þann 3. sem er hæsta tala af þessu tagi sem vitað er um með vissu hér á landi.

farvidrid0302-1991-b

Græni ferillinn (hægri kvarði) sýnir þrýstispönnina aftur - en bláu og rauðu ferlarnir vindhraða á Stórhöfða í Vestmannaeyjum 1. til 4. febrúar. Blái ferillinn sýnir mesta 10-mínútna meðalvindhraða á 3 klst fresti, en sá rauði mestu vindhviðu. Í fyrra veðrinu ,þann 2., slær bláa ferlinum upp í fárviðrisstyrk, en kl.15 síðdegis þann 3. náði meðalvindurinn 56,6 m/s og hviða 61,8 m/s - en hviðan sprengdi raunar kvarða vindritans þannig að vel má vera að hún hafi verið enn meiri. 

Í veðuratburðaskrá ritstjóra hungurdiska á ekkert veður lengri tjónafærslu - hún fylgir hér á eftir - þótt fáir endist til að lesa. 

Raflínur slitnuðu víða. Miklar gróðurskemmdir urðu og malbik flettist af vegum. Rafmagnslaust varð um land allt.

Langbylgjumastur á Vatnsenda fauk og fjórir byggingarkranar fóru á hliðina í Reykjavík og grennd. Gríðarlegt tjón varð um allt höfuðborgarsvæðið og er tjónið metið á meir ein 1 milljarð króna á þávirði. Trjágróður fór víða illa og er talið að um 500 gömul tré hafi eyðilagst í görðum Reykjavíkurborgar (einkagarðar ekki taldir með). Nokkrir tugir manna leituðu aðstoðar á slysavarðstofunni og fjórir voru lagðir inn á sjúkrahús. Mikið tjón varð á Reykjavíkurflugvelli, þak fauk af afgreiðslubyggingu, ljósabúnaður skemmdist, nokkrar flugvélar losnuðu og skemmdust og klæðning losnaði á húsi.

Miklar skemmdir urðu á Landspítalanum, þar fauk mikil álklæðning af fæðingardeildarhúsinu og mikið af steinflísum fauk af gömlu aðalbyggingunni. Þakklæðning fauk einnig af Kleppsspítala. Mest eignatjón varð í Fellahverfi. Rúður brotnuðu í verslun í Austurveri og innréttingar brotnuðu. Þak losnaði á sundlaug Vesturbæjar. Í Kópavogi var ástandið verst í suðurhlíðunum og í Engihjalla, þar ultu þrír bílar í stæði og þak losnaði af skemmu. Bátar skemmdust við flotbryggju í Vesturbænum og í Fossvogi. Nokkrir byggingakranar fuku um koll. Þök fóru af nokkrum gömlum húsum í Bessastaðahreppi. Heyhlaða splundraðist í Þormóðsdal í Mosfellsbæ. Allt járn tók af einu íbúðarhúsi á Seltjarnarnesi og hluti af þaki á nýbyggðu verkstæðishúsi fauk. Skemmdir urðu á búnaði á skíðasvæðinu í Bláfjöllum.

Þriðji hluti af þaki bæjarskemmu í Keflavík fauk, járn fauk af sparisjóðshúsinu og af fjölmörgum íbúðarhúsum, Hálft þakið af lagmetisgerðinni í Grindavík fauk og járn af nokkrum húsum í þorpinu, allstórt fjárhús splundraðist í Ísólfsskála og fjárhús fuku einnig á bænum Hrauni, eitt íbúðarhús í Sandgerði var talið nær ónýtt og þar fauk af mörgum húsum. Trilla sökk í Njarðvík. Mikið tjón varð á húsum á Keflavíkurflugvelli og flugskýli sködduðust. Þak fór af einu húsi í Garðinum og eitthvað af skúrarusli fauk. Þak fauk af bílskúr í Vogum og plötur af nokkrum húsum öðrum. Trilla fauk á Neðri-Brunnastöðum á Vatnsleysuströnd og þak tók af heyhlöðu og hlið á húsinu skemmdist, á Efri-Brunnastöðum fauk þak af útihúsi og hlið úr fárhúsi á Ásláksstöðum, tjón varð á fleiri bæjum í hreppnum.

Tjón varð á að minnsta kosti 80 stöðum í Vestmannaeyjum, þar fauk íbúðarhús til á grunni, þakhlutar fuku af fiskvinnsluhúsum og netagerðarverkstæðum, kona fauk og beinbrotnaði. Flugskýli eyðilagðist. Lundaveiðiskýli löskuðust illa eða eyðilögðust, húsið í Álfsey talið ónýtt, sömuleiðis hús í S(n)æfelli og húsið í Bjarnarey fauk með öllu, hús í Dalfjalli skemmdist minna. Þök á 20 íbúðarhúsum skemmdust á Hellu, rúður brotnuðu, hesthús og sumarbústaðir skemmdust. Íbúðarhúsið í Holtsmúla í Holtum skemmdist mikið og þak tók af fjósi, þök fuku af fjósum í Næfurholti og Stúfsholti. Vinnuskúrar skemmdust á Hvolsvelli og járn fauk af fáeinum húsum, trésmíðaverkstæði skaddaðist. Í Dufþaksholti og Götu fuku hlöður.

Sumarbústaðir fuku í Fljótshlíð, í Smáratúni fauk þak af fjósi, tvö hesthús í Hellishólum, fjárhús á Efri-Þverá og á Kirkjulæk, í Ormskoti fauk helmingur af íbúðarhúsþaki og hluti af hlöðu á Lambalæk hvarf út í buskann. Miklar skemmdir urðu í Djúpárhreppi, vélaskemma og hlaða fuku á Háurim og þar hrundi fjós, á Háfi 2 gekk gafl í íbúðarhúsi inn. Á Snjallsteinshöfða á Landi fauk fjárhús, fjárhús fuku einnig á Árbakka og í Neðra-Seli. Fjárhús fuku á bænum Vindási á Rangárvöllum. Talsvert tjón varð af foki í Álftaveri og Landbroti, en aðallega fauk af gömlum útihúsum. Eignatjón var talið á þriðja hverjum bæ undir Eyjafjöllum, mest varð það á Rauðafellsbæjum og Skálafellsbæjum, járnplötur losnuðu og rúður brotnuðu, í Selkoti bognaði inn veggur í nýju stálgrindarhúsi.

Nýreist íbúðarhús á Leifsstöðum í Austur-Landeyjum fauk og gjöreyðilagðist, hlaða splundraðist á Syðri-Hömrum í Ásahreppi, gafl fauk úr verkstæðishúsi í Brautarholti á Skeiðum, þak fór í heilu lagi af fjárhúsi í Miklaholti í Biskupstungum, annað fjárhús þar eyðilagðist, fjárhús eyðilagðist á Heiði og annað á Vatnsleysu. Fjárhús á Syðra-Seli í Hrunamannahreppi splundraðist og fauk, einnig fauk af fleiri húsum á bænum, fjárhús fuku einnig á Hrafnkelsstöðum og Hrafnsstöðum, á Fossi fauk járn af hlöðu og fjósi og voru húsin illa farin, hús skemmdust á mörgum bæjum þar um slóðir. Fjárhúsgafl féll á Sólheimum í Hreppum og drap 14 kindur. Stór hlaða féll niður í Kjarnholti. Gróðurhús skemmdust mikið á Flúðum og í Laugarási, Syðri-Reykjum, Haukadal og Friðheimum, Nokkur hjólhýsi fuku á Flúðum og þak fauk þar af gömlu íbúðarhúsi.

Tjón varð á 72 stöðum á Selfossi (m.v. þ.4.), en víðast ekki stórfellt, rúður brotnuðu, járn fauk, tré rifnuðu upp og uppsláttur fór út í veður og vind. Mikið tjón varð á sveitabæjum í Flóanum, á Vorsabæjarhjáleigu fauk fjárhús og járn tók af fleiri húsum, fjárhús fauk á Hamri, ærhús og hlaða fuku í Seljatungu þar skemmdist íbúðarhúsið einnig, hlöðuveggur hrundi á Neistastöðum. Fjárhús á Miðengi í Grímsnesi fauk og járn af fjárhúsum í Vorsabæ og Hvoli í Ölfusi. Í Hveragerði fauk þak af íbúðarhúsi og blikksmiðju og plötur losnuðu á íbúðarhúsum. Miklar skemmdir urðu í tívolíinu, skemmdir urðu á þaki Eden og fjöldi gróðurhúsa skaddaðist illa. Talið var að annað hvert íbúðarhús á Eyrarbakka hafi skaddast eitthvað, en þök tók í heilu lagi af tveimur íbúðarhúsum og skemmdu önnur hús, fjós og bílskúr fuku þar út í buskann. Hesthús, hlaða og bílskúr fuku á Stokkseyri og járn tók af húsum. Þak fauk af byggingum Meitilsins í Þorlákshöfn, hluti af þaki íbúðarhúss og rúður brotnuðu í nokkrum húsum. Talið var að eitthvað tjón hafi orðið á öllum bæjum í Gaulverjabæjar- og Villingaholtshreppum.

Hluti af þaki fiskvinnsluhúss á Akranesi fauk lenti á ljósastaur og skemmdi bensínstöð lítillega. Þak fór einnig af trésmiðjuhúsi. Þakjárn fauk af allmörgum húsum í Borgarnesi, rúður brotnuðu og garðhýsi eyðilögðust. Járn fauk að mestu af þaki brauðgerðar KB og braut rúður í hótelinu, 12 bílar skemmdust. Bíll fauk út af vegi við Hafnarfjall. Skemmdir urðu á íbúðarhúsi á bænum Höfn vegna grjótflugs.

Þak fauk að mestu af íbúðarhúsi í Síðumúla í Hvítársíðu. Miklar skemmdir urðu á gróðurhúsum í Stafholtstungum og í Reykholtsdal í Borgarfirði, þúsundir af rúðum brotnuðu og stórkostlegt tjón varð á plöntum. Þak fauk af hlöðu á Ásgarði í Reykholtsdal og hlöðuþak fauk á Brekku í Borgarhreppi. Þakplötur fuku á Hofstöðum í Álftaneshreppi og þak losnaði á íbúðarhúsi á Gröf í Borgarhreppi. Á Hálsum í Skorradal fauk gafl úr fjárhúshlöðu og járnplötur, vegklæðning fauk af vegi á Hvanneyri, skemmdi húsklæðningu og braut rúður í íbúðarhúsi. Gafl fauk af hlöðu í Múlakoti í Lundarreykjadal, geymslubraggi fauk í Gilstreymi, járn tók af fjárhúsum í Tungufelli og þak af geymsluhúsi á Hvítárvöllum. Fjárhúshlaða fauk á Kvígsstöðum og allt járn fór af ónotuðu íbúðarhúsi, þakplötur fuku af hesthúshlöðu á Heggstöðum, á Krossi í Lundarreykjadal eyðilögðust hlaða og fjárhús. Veggur sprakk og skekktist í nautastöðinni á Hvanneyri, þak af fjárhúsum og hlöðu fauk á Miðfossum, víðar fuku plötur og rúður brotnuðu þar í sveitum.

Í Hallkelsstaðahlíð í Hnappadal fauk járn að mestu af íbúðarhúsinu og stór braggi eyðilagðist. Plötur fuku af gömlum húsum á Grund og á Syðri-Rauðamel, járn tók af hluta þaks íbúðarhússins í Söðulsholti og nokkurt járn fauk af útihúsum á Ytri-Rauðamel, Akurholti, Hrútsholti og Rauðkollsstöðum. Þak fauk af hlöðu í Skógarnesi, nýtt sumarhús gjöreyðilagðist á Svarfhóli, minna tjón varð á 13 öðrum bæjum. Þak tók að hluta af hlöðu á Fossi í Staðarsveit og járn fauk af íbúðarhúsinu, járn fauk einnig af gömlum húsum á Görðum, þak fór af hluta gamallar hlöðu á Bláfeldi og járnplötur fuku á nokkrum öðrum bæjum í sveitinni. Tjón varð á höfninni á Hellnum, skúr fauk í heilu lagi á Arnarstapa, vélageymsla og dráttarvél fuku á eyðibýli í Breiðuvík, minni skemmdir urðu á öðrum bæjum.

Trilla sökk í höfninni á Rifi, stór skemma hraðfrystihússins í Ólafsvík lagðist saman og járn tók af nokkrum húsum, m.a. frystihúsinu öllu. Nokkrir bílar skemmdust. Hálft þak fauk af skrifstofubyggingu í Grundarfirði, bátar fuku þar á hliðina og gróðurhús skemmdust. Á Kverná fuku fjárhúsin, hálft þak af hlöðu og bogaskemma að mestu. Á Skallabúðum skemmdist íbúðarhúsið illa, fjárhús og gróðurhús fuku. Þak fauk af húsi slippstöðvarinnar Skipavíkur í Stykkishólmi, hluti golfskála fauk þar, geymsluskúr sprakk á Kársstöðum í Álftafirði og skemmdi brakið fjóra bíla og jafnaði gamla íbúðarhúsið við jörðu. Klæðning skemmdist á íbúðarhúsum í sveitinni. Þak fauk af hlöðu á Giljalandi í Haukadal og sjö bílar sem stóðu á hlaðinu skemmdust, einn þeirra valt um 30 metra. Skemmdir urðu á nokkrum húsum í Búðardal. Miklar skemmdir urðu á íbúðarhúsi á Svínhóli í Miðdölum. Nokkuð plötufok varð á öðrum bæjum í Dölum, m.a. á Gunnarsstöðum í Hörðudal og Bugðustöðum. Fjárhús og hlaða fuku á Mýrartungu í Austur-Barðastrandarsýslu, fjós fauk á Borg í Reykhólasveit og plötur fuku víðar á þeim slóðum.

Tvö fjárhús fuku á Haga á Barðaströnd og fleiri hús skemmdust, rúður og dyr Hagakirkju brotnuðu og þar fauk einnig bifreið eina 300 metra. Fiskhjallar hrundu á Patreksfirði. Þak fauk af 400 fermetra verslunarhúsnæði á Tálknafirði, þar fauk einnig þak á laxeldistöð og hesthús tók upp í heilu lagi, fimm bílar skemmdust og maður slasaðist. Á Ósi í Arnarfirði fauk lítið útihús á haf út og járn tók af íbúðarhúsinu, í Neðra-Bæ fauk þriðjungur af hlöðuþaki, þakplötur fuku og stórar hurðir brotnuðu á Fremri-Hvestu, gömul hlaða fauk á Lokinhömrum og þar og á Hrafnabjörgum fauk járn af húsum, vélarhús fauk út í buskann í Hringsdal og í Otradal fauk hús á bílskúr. Rúður brotnuðu í vélahúsi Mjólkárvirkjunar. Þak fauk af hlöðu og bíll 70 metra á Ketilseyri við Dýrafjörð.

Talið var að fjórða hvert hús á Flateyri hafi orðið fyrir tjóni, þak fauk þar í heilu lagi af beinamjölsverksmiðju og járn af fiskverkunarhúsum, sumarbústaður á Innri-Veðraá í Önundarfirði fauk á haf út, veðrið braut útihurð í Flateyrarkirkju, þakplötur fuku af húsi sparisjóðsins og fjölmörgum íbúðarhúsum, rúður brotnuðu í mörgum húsum, kyrrstæður bíll fauk 40-50 metra og klæðning flettist af Flateyrarvegi. Gafl gekk inn í útihúsi á Botni í Súgandafirði og járn tók af húsum. Þak flettist af einbýlishúsi á Suðureyri og skemmdi annað hús, gafl skekktist einnig í íbúðarhúsi. Plötur fuku einnig í Staðardal. Vegurinn fyrir Spilli spilltist mjög af sjógangi. Í Fagrahvammi í Dagverðardal við Skutulsfjörð fuku þök af nokkrum útihúsum og þar í grennd lagðist bogaskemma saman og jeppi fauk út af vegi, bílstjórinn slasaðist.

Bílasalan Elding á Ísafirði fauk og gjöreyðilagðist, þakplötur fuku víða af húsum á Ísafirði og rúður brotnuðu. Þak fauk af hlöðu á Hrauni í Hnífsdal og skemmdir urðu þar á spennistöð. Bíll fauk af Hnífsdalsvegi, ökumaður slapp með skrámur. Fiskhjallar skemmdust í Bolungarvík. Þak fauk með sperrum og öllu af fjárhúshlöðu á Rauðamýri í Djúpi, á Hallsstöðum lagðist vélageymsluhús saman og fauk síðan. Járnplötur fuku á fleiri bæjum. Hafnargarðurinn á Hólmavík skaddaðist þak fauk af tveimur ótilgreindum hlöðum og einu fjárhúsi þar í grenndinni. Kirkja lyftist af grunni og skekktist í Árnesi á Ströndum.

Braggi fauk við Hrútatungu í Staðarhreppi. Fjárhús fauk á Þorgrímsstöðum á Vatnsnesi, vélageymsla fauk í heilu lagi á Gröf í Víðidal og í Enniskoti brotnuðu allar rúður á móti suðri, gafl fór úr fjárhúsum á Ægissíðu í Vesturhópi. Flugskýli skaddaðist á Laugabakka í Miðfirði og þriðjung tók af fjárhúsþaki á Mýrum í Ytri-Torfustaðahreppi. Þak tók af hlöðu og hesthúsi á Þingeyrum, hluti af fjósþaki fauk á Hnausum. Helmingur af íbúðarhúsþaki á Blöndubakka í Engihlíðarhreppi fauk og þak á fjárhúsum og hlöðu losnaði á Breiðavaði. Rúður brotnuðu í Húnavallaskóla. Flugskýli á Blönduósflugvelli lagðist saman og eyðilögðust þrjár flugvélar, þakplötur fuku af barnaskólahúsinu og slökkvistöðinni og húsið Votmúli skemmdist mikið. Mikið af rúðum brotnaði í húsum, olíuafgreiðsla Esso varð illa úti, bílar skemmdust, skjólveggir og skúrar fuku. Grjótflug braut margar rúður á Skagaströnd og fjóshlaða fauk á bænum Felli þar í grennd.

Þakefni tók í heilu lagi af einbýlishúsi á Sauðárkróki, þakplötur fuku af íbúðarblokk og af húsi mjólkursamlagsins, bílar skemmdust af áfoki. Þakplötur fuku af húsum í Hegranesi og á fáeinum bæjum innan við Sauðárkrók. Gömul fjárhús og hlaða fuku á Hrauni í Sléttuhlíð, þak fauk af hlöðu á Bræðraá og gamlar byggingar á Tjörnum og í Glæsibæ sködduðust. Bátur eyðilagðist í höfninni á Hofsósi og þar fuku þakplötur af húsi heilsugæslunnar. Á Sandfelli í Unadal skemmdust öll hús mikið og eitt er gjörónýtt, á Óslandi í Sléttuhlíð hurfu fjárhús og hlaða, en fé sakaði ekki. Hluti fjárhúsa fauk á Undhóli. Nýtt trégrindarhús fauk með öllu á Narfastöðum í Viðvíkursveit í Skagafirði. Fjós og fjóshlaða skemmdust mikið á Bústöðum í Austurdal í Skagafirði, plötur losnuðu á Miklabæjarkirkju, rúður brotnuðu í húsum í Varmahlíð. Útihús fuku í heilu lagi á Réttarholti í Blönduhlíð og plötur fuku af húsum á Minni-Ökrum.

Skíðalyfta í Hlíðarfjalli við Akureyri lagðist niður á kafla og allar rúður brotnuðu í sunnanverðu skíðahótelinu. Þakplötur fuku af nokkrum húsum á Akureyri, sjór flæddi í kjallara á Oddeyri og um tveir tugir bifreiða skemmdust af grjótflugi við Akureyrarflugvöll. Skemmdir urðu á allmörgum húsum á Ólafsfirði, skemmdir urðu á útihúsum í Kálfsárkoti og trilla laskaðist, skúrar fuku, mannvirki á íþróttavellinum og á skíðasvæðinu löskuðust. Minniháttar tjón varð á Dalvík, plötur fuku þó af skólahúsi og bílar sködduðust, nokkrir fiskhjallar hrundu. Snarpur vindsveipur gekk yfir bæinn Kot í Svarfaðardal, þakplötur, heyvagn, bílar og hænur fuku um bæjarhlaðið, braggi splundraðist, fólksbíll tókst á loft og fauk 60 metra, jeppi fór byltu og endaði uppi á túni ásamt gömlum heyvagni og þakplötur fuku af íbúðarhúsinu, minniháttar foktjón varð á Grenivík. Fimm gróðurhús skemmdust á Brúnalaug í Eyjafjarðarsveit. Þakplötur losnuðu á nokkrum húsum á Húsavík. Skúr björgunarsveitar fauk í Ljósavatnsskarði og fáeinar plötur fuku af Stórutjarnarskóla. Lítil vélageymsla fauk í Bakkafirði.

Yfirlit úr fréttum frá Rannsóknastofu byggingariðnaðarins (Alþýðublaðið 21.11. 1991).
Fárviðrið mikla 3. febrúar síðastliðinn olli tjóni á 4.550 eignum ýmiskonar svo vitað sé. Áætlað hefur verið að tjónið hafi numið um einum milljarði króna, og er þá útvarpsmastrið á Vatnsendahæð ekki meðtalið. Þrír fjórðu hlutar þessa tjóns urðu á húsum eða hlutum tengdum þeim, segir í fréttum frá RB, sem annaðist rannsókn á skemmdum af völdum veðursins. Tegund og umfang tjóns var mismunandi eftir fasteignum. í 347 tilvikum gjöreyðilagðist hús, þar af eitt íbúðarhús. Þakjárn losnaði í 940 tilvikum, þak fauk eða losnaði í 226 tilvikum til viðbótar. Í rúmlega 60 tilfellum brotnaði eða bognaði veggur undan álagi vindsins. Átta sumarbústaðir eyðilögðust með öllu, en tjón varð á um 100 til viðbótar. Þá fóru garðhús og gróðurstöðvar illa í fárviðrinu. Einkum varð tjón á eldra húsnæði, enda þótt næg dæmi væru um skemmdir á nýbyggingum.

Í greinum [1995], [1999] í tímaritinu Tellus fjölluðu þeir Jón Egill Kristjánsson, Sigurður Þorsteinsson og Guðmundur Freyr Úlfarsson um ástæður þess að lægðin varð svo öflug - og reyndu að jafnframt að greina hvers vegna tölvuspám þess tíma gekk illa að ráða við hana. Rétt er að hafa í huga að greinarnar eru mjög tæknilegar. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sem betur fer stóðst vindmælirinn á Stórhöfða í þetta sinn. Vindritinn skráði þó aðeins 120 hnúta. 8.jan. 1950 var vindmælirinn bilaður í eftirminnilegu A fárviðri og 7.des. s.l. hætti nýi  mælirinn að mæla þegar veðrið var í hámarki og nálgaðist 50 m/s meðalvind.

Óskar J.Sigurðsson (IP-tala skráð) 26.9.2016 kl. 10:37

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Bestu þakkir fyrir þessa staðfestingu Óskar. Manstu hverning ástand vindmælis var í veðrinu mikla 23. október 1963?

Trausti Jónsson, 26.9.2016 kl. 13:36

3 identicon

Vissulega. Það var þá þegar Veðurstofan skildi ekki veðurskeytið kl 18. Þá var vindhraðinn 103 hnútar og þar sem aðeins var pláss fyrir tvo tölustafi fyrir vind var dregið 100 frá vindhraða og 50 bætt við áttina (23 + 50 = 73)   Vindmælirinn var í góðu lagi en frumstæður og þurfti að hlusta eftir hljóðmerki og taka tímann en í miklum vindi voru þau mjög þétt og þá þurfti einbeitingu til að fá sæmilega rétta útkomu. Engin hlustun = engin mæling.

30.jan.1957 kl 23:30 brast á með miklum ofsa og hagli, 100 hnútar og hávaðinn slíkur að varla heyrðist í heyrnartólinu. Það rifjaðist upp eftir veðrið í des. s.l. þegar sagt var að vindmælirinn hefði ekki heyrt í sjálfum sér. Það heyrist mikið  þegar vindur er milli 40 og 60 m/s

Oskar J. Sigurðsson (IP-tala skráð) 26.9.2016 kl. 23:42

4 identicon

Vissulega. Það var þá þegar Veðurstofan skildi ekki veðurskeytið kl 18. Þá var vindhraðinn 103 hnútar og þar sem aðeins var pláss fyrir tvo tölustafi fyrir vind var dregið 100 frá vindhraða og 50 bætt við áttina (23 + 50 = 73) Vinndmælirinn var í góðu lagi en frumstæður og þurfti að hlusta eftir hljóðmerki og taka tímann en í miklum vindi voru þau mjög þétt og þurfti þá einbeitingu til að fá sæmilega rétta útkomu. Engin hlustun engin mæling.

Óskar J. Sigurðsson (IP-tala skráð) 27.9.2016 kl. 19:56

5 Smámynd: Trausti Jónsson

Þakka þér fyrir Óskar. Hljóðmerkjamælarnir hafa verið erfiðir í miklum vindi. Fyrsti vindmælirinn í Reykjavík (tekinn í notkun um 1930) var byggður á ámóta hugmynd, - nema hvað síriti var tengdur við og kom þar strik í stað smellsins í heyrnartækinu. Því þettari sem strikin voru svo á blaðinu því meiri var vindhraðinn. Megnið af þessum fyrstu vindmæliblöðum mun hafa lent í einhverju slysi um miðjan fimmta áratuginn og nú eru ekki til blöð nema frá árunum 1931, 1932 og einhverja hluta áranna 1937 og 1941 minnir mig. Enginn veit hins vegar lengur hversu langt var milli bila við hvern vindhraða - ef meira væri til af blöðum færi maður væntanlega í að reyna að finna út úr því (með samanburði við skeytin). - Veðursyrpan síðari hluta janúarmánaðar 1957 var merkileg - ég get ekki sagt að ég muni eftir henni á eigin skinni - nema rétt snjóþyngslin sem á eftir fylgdu. - En 103-hnúta skeytið frá 1963 komst þó á veðurkort: 

http://www.vedur.is/media/vedur/myndasafn/frodleikur/TrJo_kort-23okt1963.pdf

Trausti Jónsson, 27.9.2016 kl. 20:26

6 Smámynd: Trausti Jónsson

Lítilega er fjallað um veðrið 23. október 1963 og metvindhraðann á Stórhöfða í gömlum pistli hungurdiska (eftir miðjan pistil):

http://trj.blog.is/blog/trj/entry/1195380/

Trausti Jónsson, 27.9.2016 kl. 20:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg160424b
  • w-blogg160424a
  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 5
  • Sl. sólarhring: 111
  • Sl. viku: 1496
  • Frá upphafi: 2348741

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 1302
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband