Bloggfærslur mánaðarins, október 2016
19.10.2016 | 11:38
Hversu oft frýs að jafnaði fyrir veturnætur?
Fyrirsögnin var alla vega upphaflega spurningin. Þetta er svaranleg spurning - en leti og (ímyndað) tímaleysi veldur því að ritstjórinn ætlar ekki að svara henni eins og hún er fram borin (hefur lært þá hegðan af stjórnmálamönnum). Valkostir í stöðunni voru aðallega tveir. Annars vegar að leggja vinnu í að svara nákvæmlega - en þá fyrir aðeins sárafáar veðurstöðvar - en hins vegar ónákvæmlega (dálítið slump) fyrir fjölmargar eða allar.
Síðari kosturinn varð fyrir valinu - reyndist ekki tímafrekur - og útkoman vonandi upplýsandi. Í stað þess að miða strangt við veturnætur var ákveðið að miða við 1. nóvember. Taldar voru frostnætur á tiltækum veðurstöðvum nær allan þann tíma sem daglegur lágmarkshiti fyrirfinnst í gagnagrunni Veðurstofunnar frá 1. ágúst ár hvert.
Útkoman er í töflu í viðhenginu þar sem nörd og aðrir áhugasamir lesendur geta rúllað í gegnum listann.
Taflan sýnir hversu marga daga (nætur) frost mælist að jafnaði á tímabilinu 1. ágúst til 31. október á veðurstöðvum landsins. Athugið að taflan er EKKI normuð - mismunandi ár liggja að baki - mishlý. Einnig eru nokkrir draugar í töflunni - sérstaklega dálkinum sem sýnir fæsta daga - fáeinar stöðvar byrja athuganir í október og eru þau ár EKKI numin á brott. Stöðvar sem athugað hafa stutt eru ólíklegri til að hafa séð afbrigðileg ár, köld eða hlý.
Lítum hér á toppinn á töflunni - til skýringar.
stöð | frostd.fj | flestir | fæstir | árafj | nafn | |
6975 | 45,9 | 65 | 32 | 20 | Sandbúðir | |
2636 | 44,9 | 63 | 32 | 20 | Þverfjall | |
4275 | 43,7 | 63 | 31 | 20 | Gagnheiði | |
3054 | 43,1 | 62 | 29 | 16 | Sáta | |
892 | 40 | 55 | 24 | 39 | Hveravellir | |
5825 | 39,1 | 60 | 27 | 10 | Brúaröræfi | |
6776 | 37,7 | 58 | 26 | 12 | Hágöngur | |
6748 | 37,6 | 55 | 23 | 19 | Setur | |
4830 | 37,5 | 55 | 21 | 12 | Möðrudalur | |
6935 | 36,6 | 60 | 12 | 14 | Hveravellir |
Stöðvarnúmer er í fremsta dálki - mönnuðu stöðvarnar eiga lægra númer en þúsund, vegagerðarstöðvar hærri en 30 þúsund. - Næsti dálkur sýnir frostdagafjöldann - frostnóttafjölda kjósi menn heldur að nota það orð. Heildardagafjöldi tímabilsins alls er 92.
Þriðji dálkurinn sýnir hversu margir dagarnir hafa orðið flestir sama árið - og sá fjórði sýnir lægstu töluna. Varasamt er að raða eftir þessum dálkum - stöðvar sem aðeins hafa athugað í fá ár eru líkleg til að hafa ekki gengið fram á þau afbrigðilegu. Að auki þekkja margar stöðvar ekkert annað tíðarfar en hlýindi þessarar aldar - sem skila eitthvað öðrum tölum en kuldaskeiðið. - Að vísu hefur október (sem mestu ræður í töflunni) ekkert verið sérlega hlýr - frekar líkur kuldaskeiðsoktóbermánuðum. Sú tilviljun (?) eykur samanburðargildi töflunnar.
Síðasti talnadálkurinn telur árin - hér þarf að hafa í huga að fáeinar stöðvar byrja athuganir í október - þau ár hafa ekki verið hreinsuð út úr töflunni og hafa áhrif á nokkrar lágmarkstölur hennar - hafið það í huga.
Þetta eru allt hálendis- og fjallastöðvar - utan ein í byggð, Möðrudalur á Efra-Fjalli. Í Sandbúðum frýs aðra hverja nótt á tímabilinu, rösklega þriðju hverja í Möðrudal. Mannaða stöðin á Hveravöllum (892) gefur meðaltalið 40,0 daga, en sú sjálfvirka 36,6 daga. Kannski er hér um að ræða dæmigerðan mun á hlýskeiði og kuldaskeiði - sjálfvirka stöðin sá ekkert af kuldaskeiðinu - en sú mannaða lítið af hlýindunum (ekki heldur fyrri hlýindum - fyrir 1965).
Við lítum líka á neðsta hluta töflunnar.
stöð | frostd.fj | flestir | fæstir | árafj | nafn | |
670 | 4,6 | 8 | 1 | 13 | Núpur | |
6017 | 4,5 | 11 | 1 | 12 | Stórhöfði | |
815 | 4,1 | 18 | 1 | 64 | Stórhöfði | |
36132 | 4,1 | 12 | 1 | 19 | Steinar | |
35666 | 3,5 | 11 | 1 | 15 | Hvalnes | |
5777 | 3,4 | 9 | 1 | 18 | Papey | |
1453 | 3,2 | 7 | 1 | 20 | Garðskagaviti | |
5988 | 3,2 | 7 | 1 | 16 | Vattarnes | |
35880 | 2,8 | 5 | 2 | 7 | Streiti | |
5993 | 2,6 | 5 | 1 | 20 | Seley | |
6012 | 1,5 | 2 | 1 | 7 | Surtsey |
Surtsey er á botninum - hefur að vísu aðeins athugað í 7 ár (það er lágmarksfjöldi ára í töflunni), frostnætur fáar. Síðan koma stöðvar við Austfirði: Seley, Streiti og Vattarnes, Garðskagaviti skýst inn á milli, en þar fyrir ofan eru Papey og Hvalnes. Sjálfvirka stöðin á Stórhöfða er með meðaltalið 4,5 daga, en sú mannaða 4,1 dag - munum að mannaða stöðin á hér miklu fleiri ár (64) heldur en sú sjálfvirka (12). Stöðin Núpur er á Berufjarðarströnd - skammt frá Streiti.
En taflan öll (321 stöð) er í viðhenginu. Þar sést ýmislegt athyglisvert ef vel er að gáð og mætti margt um þau smáatriði og röðun segja.
Í lok mánaðar verður auðvelt að athuga hvernig hin góða tíð að undanförnu kemur út í samanburði. Enn hefur frost ekki mælst á fjölda stöðva - og þar sem það hefur mælst eru frostnætur færri en oftast áður, í Sandbúðum er talan nú t.d. 23 og þótt 13 dagar gætu enn bæst við til mánaðamóta og talan þá komist upp í 36 er ólíklegt að hún geri það. Lágmarksfjöldinn í Sandbúðum hingað til er 32 - eftir athuganir í 20 ár - það met er klárlega í hættu.
18.10.2016 | 20:11
Frostlausir októbermánuðir
Frostlausir októbermánuðir eru ekki algengir hér á landi - óþekktir reyndar á flestum veðurstöðvum. Enginn október hefur verið frostlaus á öllum veðurstöðvum í byggð. Líkur á slíku eru reyndar minni á síðari árum heldur en áður var vegna fjölgunar veðurstöðva.
Þegar þetta er skrifað (18. október) er talið ólíklegt að núverandi októbermánuður nái að bætast í hóp þeirra frostlausu á mörgum stöðvum - þrátt fyrir mjög góðan gang fram að þessu og áfram næstu daga. - En hlýindin eru sæmilegt tilefni til að rifja upp frostleysur.
Í viðhenginu er listi sem sýnir á hvaða stöðvum og í hvaða októbermánuðum hefur verið frostlaust. Þar má sjá að október í fyrra (2015) var frostlaus á 10 stöðvum. Einnig var víða frostlaust í október 2010. Október 1975 og 1976 voru einnig óvenjulegir hvað þetta varðar.
Síðast var frostlaust allan október í Reykjavík 1939, en október 1915 var frostlaus á Vífilsstöðum (þar var lágmarkshiti mældur) og líkur eru á að einnig hafi verið frostlaust niðri í bænum (þar mældist aldrei frost í mánuðinum). Lágmarksmælingar voru einnig gerðar á 9. áratug 19. aldar og þá var október 1882 frostlaus í Reykjavík (þá voru hins vegar tvær frostnætur í september).
Á hinum endanum - þess má geta að árið 1981 voru frostmætur í Reykjavík í október 25 - og 26 voru þær í október 1835.
18.10.2016 | 17:22
Seint haust
Veturinn lætur enn á sér standa (18. október) og ritstjóri hungurdiska situr uppi með ýmsar spurningar í því sambandi. Erfitt er að svara þeim sumum - en það má eitthvað reyna.
Það eru aðeins tveir dagar síðan fyrsta frost haustsins mældist á Akureyri. Lágmarksmælingar hafa verið gerðar þar síðan 1938 og var frostlausa skeiðið nú með allra lengsta móti, 158 dagar, og vantaði aðeins 1 dag upp á að jafna metið, sem er frá 1972. Árið 1939 var lengdin 157 dagar.
Enn hefur ekki mælst frost í haust í Reykjavík og hefur ekki mælst síðan 30. apríl. Frostlaust hefur því verið í 171 dag samfellt. Langt er þó í metið frá 1939, en þá var frostlaust í Reykjavík í samfellt 201 dag, frysti ekki fyrr en 10. nóvember. Það lengdarmet verður varla slegið nú - því frostlaust yrði að vera allt til 17. nóvember (sem er nánast útilokað). Samfelldar lágmarksmælingar í Reykjavík ná aftur til 1920 - fyrir þann tíma eru þær gloppóttar. Þó var hámark og lágmark mælt 1830 og var frostlaust í 188 daga samfellt.
Fáein ár önnur eru enn rétt fyrir ofan okkur í frostleysulengd - og vel möguleiki á að ná þeim sumum. Tölurnar eru þessar: 1974 (172 dagar), 1959 (174), 2014 (175), 1846 (175) og 2010 (177). Ekki var lesið af lágmarksmæli í Reykjavík 1915 - en ekkert frost var þá á athugunartíma í 204 daga. Það er afskaplega ólíklegt að lágmarksmælir hefði aldrei sýnt frost í apríl og maí það ár - en vel mögulegt að frostlaust hafi verið í bæði september og október.
Nú í haust hafa fjölmargar veðurstöðvar verið alveg frostlausar til þessa - og frost hafa verið fátíðari en oftast er á þeim stöðvum þar sem frost hefur mælst.
Í haust hafa frostnætur verið langflestar á Dyngjujökli, 75 frá 1. ágúst - enda stöðin hátt á jökli. Næstoftast hefur verið frost í Sandbúðum, 23 sinnum á sama tíma - það mun nærri meti í fátækt. Mesta frost sem mælst hefur til þessa í haust í Sandbúðum er -3,3 stig og hefur aldrei verið svo lítið á sama tíma árs. - Þetta sama á við um fjölda stöðva -
Lægsta lágmark haustsins til þessa í Reykjavík er +1,2 stig (mælt 30. september), við þurfum að fara allt aftur til 1959 til að finna hærri (lágmarks-) tölu en nú +1,5 stig - sem þá mældust reyndar 6. september.
Í sérstökum pistli verður rifjað upp hversu oft októbermánuður allur hefur verið alveg frostlaus á íslenskum veðurstöðvum.
17.10.2016 | 01:30
Hlýindin í október
Eins og fram hefur komið í fréttum var fyrri hluti októbermánaðar með þeim hlýjustu sem vitað er um hér á landi - þó ekki alveg sá hlýjasti.
Ritstjóri hungurdiska reiknar daglega (jæja, svo til daglega) út meðalhita mánaðarins til þessa á flestum veðurstöðvum landsins - og ber saman við fyrri ár á fáeinum þeirra. Þetta má með smánostri setja upp á línurit eins og hér að neðan - það á við Reykjavík.
Lárétti kvarðinn sýnir daga októbermánaðar, sá lóðrétti hita. Tölurnar að baki línunum eru þannig reiknaðar að við þann 1. er settur meðalhiti þess dags, næsta dag, þann 2. kemur meðalhiti fyrstu tveggja daganna og svo koll af kolli þar til allir dagar mánaðarins eru komnir - lokameðalhiti mánaðarins er þá lengst til hægri á línuritinu.
Nokkur mánuðir eru valdir úr - bláa línan (sú neðsta) sýnir meðaltal áranna 1961 til 2010. Hinar línurnar sýna hita í nokkrum hlýjum mánuðum. Okkar október, 2016, er svartmerktur, byrjaði nærri meðaltalinu, rauk upp og er nú, þegar 16 dagar eru liðnir af mánuðinum, í þriðjahlýjasta sæti - á myndinni neðan við sama tíma 1959 (bleikt) og 2010 (grænt).
Við sjáum að 2010 hefur ekki haft úthald í meira - tók á strik niður á við frá og með þeim 18. - Það voru nokkur vonbrigði. Október 1959 lét líka heldur undan síga - en bróðir þeirra 1915 var býsnaúthaldsgóður til enda. Fleiri mánuðir eru þarna nærri - ónefndir hér, helst ástæða til að nefna 1946 - en hann endaði jafnhlýr og 1959.
Október á enn eftir að ná 8 stiga meðalhita í Reykjavík - takist það væru það töluverð tíðindi - og sjö stiga október hefur ekki komið í bænum síðan 1965.
Þeir sem lesið hafa hungurdiskapistil sem birtist fyrir rúmri viku (9. október) muna ef til vill að hæsti meðalhiti októbermánaðar hér á landi er 9,2 stig (ekki þó endanlega viðurkennd tala) - sú hæsta viðurkennda er 8,6 stig.
Nú eru báðar stöðvar Vegagerðarinnar við Siglufjarðarveg ofan 10 stiga meðalhita það sem af er mánuði og stöðin við Stafá að auki. Meðalhiti á Seyðisfirði og á Flateyri er líka rétt við 10 stigin.
En enn eru 15 dagar til mánaðamóta og tölur fljótar að breytast.
15.10.2016 | 00:04
Veturinn - hvar er hann?
Veturinn er svosem mættur á völlinn, en virðist samt ætla að forðast okkur um sinn (séu spár réttar).
Háloftaspá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir síðdegis á sunnudag (16. október) sýnir stöðuna vel. Enn er mikill hæðarhryggur fyrir austan land og beinir hann til okkar suðlægum áttum. Á kortinu er Ísland þó ekki í gula sumarlitnum eins og oftlega undanfarna daga - en svo virðist sem hann nái jafnvel til okkar enn og aftur þegar háloftavindröstin sem nú æðir um Norður-Ameríku þvera grípur í leifar fellibylsins Nikkólínu.
Nikkólína er óvenju stór um sig af fellibyljaleifum að vera - alveg á við litla bylgju í vestanvindabeltinu. Ekki er nú víst að hringrás hennar komist alla leið hingað - en hins vegar er gefið í skyn að hlýindin geri það - og þá með viðeigandi úrkomugusu.
En veturinn hefur lagst nokkuð rækilega yfir norðanverða Asíu - meginkuldapollur þeirrar heimsálfu, sá sem við höfum óformlega kallað Síberíu-Blesa, er orðinn að efnilegum fola. Kanadíski kuldapollurinn okkar, Stóri-Boli er enn öflugri þessa dagana - og ygglir sig að venju vestan Grænlands og blæs kulda úr nösum.
Við sjáum að hlýindin í Alaska virðast vera að gefa sig - tími til kominn segja heimamenn - órólegir yfir afbrigðileika haustsins þar um slóðir.
En austan Grænlands virðist litið lát á hlýindum.
Þetta kort sýnir meðalhæð 500 hPa-flatarins næstu tíu daga (heildregnar línur) - að mati evrópureiknimiðstöðvarinnar, meðalþykktina (daufar strikalínur) og þykktarvik sem sýnd eru með litum. Þeir sem stækka kortið munu sjá að vikið austan Grænlands er nærri því 190 metrar - hiti í neðri hluta veðrahvolfs hátt í 10 stig ofan meðallags októbermánaðar. Við Ísland er vikið um 70 til 100 metrar, þriggja til fimm stiga jákvætt hitavik.
Kalt er aftur á móti vestan Grænlands, þar má sjá svæði þar sem neikvætt vik er meira en -100 metrar - um fimm stig. Frekar svalt fer yfir sunnanverðum Bretlandseyjum - en ekki þó kaldara en oft gengur og gerist þar um slóðir.
Jú, veturinn er þarna í alvörunni - hann gæti rétt eins ráðist á okkur með litlum fyrirvara rétt eins og hann virðist vera gera í Alaska - en sýnist samt ætla að láta það vera enn um stund. Við skulum bara þakka fyrir það, eigum hlýjan október alla vega inni - þeir hafa verið sárasjaldgæfir síðustu áratugina.
13.10.2016 | 22:21
Fárviðrið 29. janúar 1966
Þessi pistill er í flokknum fárviðri á veðurstöðinni í Reykjavík og er nú farið rétt rúm 50 ár aftur í tímann og janúarveðrið mikla 1966 rifjað upp.
Janúar 1966 var óvenjulegur, alveg tvískiptur að veðurlagi. Fyrri hlutinn var lengst af hlýr - jafnvel óvenjuhlýr, en sá síðari aftur á móti sérlega nítjándualdarlegur í kulda og illsku sem náði hámarki í miklu norðaustanveðri sem stóð í marga daga í lok mánaðar.
Í Reykjavík er veðrið gjarnan kennt við bílaumboðið Heklu - en þak af húsi þess fauk af í heilu lagi ofan í portið sunnan þess. Myndin sýnir baksíðu Vísis mánudaginn 31. janúar 1966 (af timarit.is). Trúlega muna allmargir enn eftir þessu. Ritstjóri hungurdiska var unglingur í Borgarnesi og man vel eftir veðrinu, en það var þó ekki sérlega slæmt þar - norðaustanveður af þessari gerð valda þar sjaldan tjóni - kemur þó fyrir.
Á Akureyri fauk hins vegar mestallt þak af prentsmiðju Odds Björnssonar - og olli tjóni. Þetta er þó ekki aðalfoktjónsáttin á Akureyri - og ekki varð ofboðslega hvasst á veðurstöðinni þar - sem þá var í Smáragötu. Greinilega eitthvað sjaldgæft á ferð - en þó var enn um þetta veður talað á Akureyri þegar ritstjórinn hóf dvöl sína þar skömmu síðar - en það tal þurrkaðist nokkuð út eftir svonefnt Linduveður 1969.
Eins og áður sagði stóð veðrið í marga daga. Það má glögglega sjá af línuritinu sem sýnir þrýstispönn yfir landið síðustu viku janúarmánaðar 1966. Ef við þekkum vindáttina má slá á vindhraða. Illviðrið þann 26. kemur fram sem óttalegur dvergur miðað við það stóra sem byrjar að gæta undir kvöld þann 27., jókst jafnt og þétt allan þann 28 og náði hámarki að morgni þess 29. - síðan dró hægt úr, en var ekki orðið gott fyrr en undir kvöld þann 31. (Eftir það hvessti hins vegar aftur - en það er önnur saga). Segja má að veðrið hafi staðið í nærri því fjóra sólarhringa.
Fyrsta kortið sýnir stöðuna um hádegi þann 27. Þá voru allmiklir vindstrengir bæði fyrir norðan og sunnan land - ákveðin og ört vaxandi norðaustanátt á landinu. Gríðarkalt er við Norðaustur-Grænland, meir en -30 stiga frost í 850 hPa-fletinum. Kortið er úr safni japönsku endurgreiningarinnar jra-55.
Hér má sjá háloftakort síðdegis þennan sama dag. Hér verður að benda sérstaklega á að nokkuð ákveðin suðvestanátt er í háloftunum norðan Íslands - yfir þeirri hvössu norðaustanátt sem þar er við sjávarmál. - Þetta köllum við öfugsniða (heitir reverse shear á alþjóðatungu). Öfugsniðalægðir eru í sérstöku uppáhaldi hjá ritstjóra hungurdiska - og nokkrar slíkar mynduðust á svæðinu dagana áður og komu ungum veðurspírum á óvart. - Ein þessara lægða náði að snúa upp á sig að mestu og var þegar hér er komið sögu fyrir sunnan land - mjög sterkur vindstrengur norðan við lægðina - en nær engin vestanátt sunnan við.
Háloftakortið sýnir svo einnig mjög hlýtt loft sem leitar til norðausturs vestur af Bretlandseyjum. Þar er venjulegri lægð sem dýpkaði og nálgaðist svo landið.
Á þessum árum birti Morgunblaðið veðurkort reglulega - mjög uppfræðandi fyrir þá sem reglulega fylgdust með. Birting þeirra hætti upp úr því að veðurfregnir tóku að birtast í sjónvarpi 1967. Hér er kort sem kom í sunnudagsblaðinu 30. janúar og sýndi stöðuna snemma að morgni laugardags þess 29. Knútur Knudsen teiknaði kortið.
Við getum séð af línuritinu að um þetta leyti var þrýstibratti nærri hámarki. Lægðin er rétt um 960 hPa í miðju, en hæðin yfir Grænlandi meiri en 1040 hPa - meir en 80 hPa á milli og þar af meir en 30 í kippu yfir Íslandi.
Japanska endurgreiningin er nokkuð sammála - nema hvað hin eilífu veikindi flestra tölvulíkana varðandi hæðina yfir Grænlandi koma vel fram. Hér er hún sett í 1066 hPa - ætli rétt gildi eigi ekki að vera tæplega 1050 hPa. Þetta er reyndar einkum snyrtifræðilegt (kosmetískt) atriði - það er ekkert sjávarmál yfir Grænlandsjökli og það loft sem þessum mikla þrýstingi er að valda er ekki til - og líkönin vita það. En þetta er samt truflandi fyrir augað.
Hörkufrost var í upphafi veðursins, víða meir en 10 stig - en linaðist nokkuð er á leið.
Eðli veðursins kemur alveg sérlega vel fram á háloftakortinu sem gildir á sama tíma og sjávarmálskortið að ofan, um hádegi laugardaginn 29. janúar. Sáralítill vindur er í 5 km hæð og þá af suðsuðaustri, yfir norðaustanfárviðrinu. Við sjáum að yfir landinu er hins vegar gríðarlegur þykktarbratti sem býr fárviðrið til. Hlýtt loft úr suðri þrengir að kalda loftinu - en Grænland heldur á móti - stífla myndast og kalda loftið leitar út í gegnum þrengslin.
Stífluveðrin eru langt í frá öll eins þótt vindhámark (lágröst) neðarlega í veðrahvolfi einkenni þau. Þessi ætt á drjúgan hluta af slæmum norðaustanillviðrum hér á landi. - Þykktarbrattann mikla eiga þau sameiginlegan. - Þetta dæmi er sérlega fallegt og stílhreint.
Myndin sýnir hluta af vindriti frá Reykjavíkurflugvelli 29. janúar. Þar má sjá skrifað að vindmælir hafi bilað um stund - gæti hafa leitt út vegna seltu (?). Veðrið varð verst um klukkan 10 um morguninn og komst 10-mínútna meðalvindhraði þá upp í 36,6 m/s - og náði aftur fárviðrisstyrk í kringum kl.12. Vindátt var af norðnorðaustri. Frostið var í kringum -6 stig um sama leyti og vindurinn var mestur, en eftir klukkan 15 fór að hlýna og frostlaust var orðið um kvöldið - vindur varð þá örlítið austlægari.
Daginn eftir var frostlaust í Reykjavík - en vindur rauk upp öðru hverju - eins og alengt er í Esjuskjólinu.
Á þrýstiritinu frá Reykjavík má sjá töluverðan óróleika um það leyti sem veðrið var verst - en samt má taka eftir því að hér vottar lítið fyrir þeim stórgerðu bylgjum sem sáust svo vel á þrýstiritinu sem fylgdi pistlinum um fárviðrið 29. apríl 1972. Ritstjórinn ímyndar sér að það stafi af ólíku eðli þessara veðra - þar kom háloftavindröst við sögu - en ekki hér.
Þetta veður er einkennilega líkt öðru veðri sem gerði nánast sömu daga 85 árum áður, 1881 og er kennt við póstflutningaskipið Phönix sem þá fórst við Skógarnes á Snæfellsnesi. Frostharka var þó meiri það sinnið.
En lítum á helsta tjón í þessu eftirminnilega veðri:
Fárviðrið olli gríðarlegum skemmdum í flestum landshlutum og er eitt versta norðaustanveður sem vitað er um. Þök og þakplötur fuku víða og rúður brotnuðu. Nokkrir menn slösuðust. Gríðarlegt tjón varð á rafmagns- og símalínum vegna ofsaveðurs og ísingar og selta olli miklum rafmagnstruflunum. Óvenjuleg var ísing og slit á raflínum vegna særoks á Suðurnesjum. Mjög víða var rafmagns- og símasambandslaust dögum saman. Fólk varð sums staðar að grafa sig út úr húsum vegna snjóþyngsla.
Miklar skemmdir urðu í Reykjavík, þak Hekluhússins við Suðurlandsbraut fauk af í heilu lagi, miklar þakskemmdir urðu á Héðinshúsinu. Skúr fauk við Árbæjarsafn. Tvær flugvélar fuku á Reykjavíkurflugvelli, járnplötur fuku af fjölmörgum húsum í bænum, togari slitnaði upp á sundunum.
Tuttugu járnplötur tók af húsi á Akranesi. Allt járn fauk af íbúðarhúsi á Eystra-Miðfelli á Hvalfjarðarströnd, þak fauk af fjárhúsi á Svarfhóli í Svínadal. Kerra fauk ofan á ökumann dráttarvélar við Sandlæk í Gnúpverjahreppi, maðurinn slasaðist illa.
Miklar skemmdir urðu í Staðarsveit, nýtt fjárhús fauk í Lýsudal, hlöðuþök fuku á Görðum, í Hoftúni og Kirkjuhóli, þak af viðbyggingu í Böðvarsholti og margar plötur fuku af Búðahóteli. Þak tók af íbúðarhúsi í Vatnsholti. Vörubifreið fauk við Garðaholt þar í sveit og fór margar veltur. Mikið tjón varð einnig í Breiðuvík, þök á íbúðar- og útihúsum á Syðri-Tungu stórskemmdust, þak tók af íbúðarhúsinu, vélageymslu og bílskúr á Knörr, geymsluskúr fauk á Malareyri og vöruflutningabifreið fauk við Miðhús.
Hluti af fjósþaki fauk í Fremri-Hundadal í Miðdölum og á Hvolsvöllum fauk þak af hlöðu. Mikið tjón varð í Saurbæ í Dölum, rúður brotnuðu í kaupfélagshúsinu á Skriðulandi og vörur fuku út í buskann, þakjárn tók þar af vöruskemmu, hlaða brotnaði í Stóra-Holti. Tveir vinnuskúrar rafmagnsveitunnar fuku í Ármúla og brakið lenti á íbúðarhúsinu, planki fór framhjá húsfreyju í eldhúsi og stakkst þar í vegg. Mikið fauk af þaki prestsetursins á Hvoli, þar fauk einnig bifreið og gjöreyðilagðist, þök tók af tveimur íbúðarhúsum í Hvítadal, allt járn fór af nýbyggðu fjósi í Litla-Múla og mikið af nýrri hlöðu, fjósi og fjárhúsum í Máskeldu. Mikið tjón varð þar einnig í Bessatungu járn fauk af íbúð, hlöðu og fjárhúsum og jeppi fauk niður fyrir tún.
Mikið tjón varð í Reykhólasveit, fjós og smíðastofa fuku á Laugalandi, þak af fjárhúsi á Svarfhóli og Gillastöðum, braggi fauk á Hafrafelli og þak af íbúðarhúsi á Hábæ. Þak fór af verslunarhúsi kaupfélagsins í Króksfjarðarnesi.
Gömul kirkja í Saurbæ á Rauðasandi fauk, hlaða fauk í Gröf þar í sveit og maður slasaðist, sömuleiðis fauk hlaða í Kirkjuhvammi, á Móbergi gereyðilögðust fjós og hlaða, fjölmargar rúður brotnuðu þar í íbúðarhúsi, veggfóður rifnaði af veggjum og loft rifnuðu. Víðar fuku hús og húshlutar. Mikið tjón varð á Patreksfirði og fuku þar skúrar og þök í heilu lagi auk þess sem járnplötur fuku af mörgum húsum á sjó út og rúður brotnuðu og hrökklaðist fólk úr tveimur húsum, mannlausan togara rak út á fjörðinn og breskur togari strandaði í innsiglingunni. Þak fauk af fjárhúsi og hlöðu á Fossi á Barðaströnd, þar fauk jeppi af vegi, bílstjórinn slasaðist, járn tók af þökum íbúðarhúss og útihúsum á Litlu-Hlíð og miklar skemmdir urðu í Hrísnesi. Bryggja skemmdist á Bíldudal og járn fauk af fiskverkunarhúsi og niðursuðuverksmiðju.
Bensínsöluskúr fauk á Hrafnseyri við Arnarfjörð, mikill hluti íbúðarhúsþaks á Brekku á Ingjaldssandi fauk, þar í sveit fauk hluti hlöðuþaks á Hrauni. Útihús á Tröð í Bjarnadal í Önundarfirði urðu illa úti. Hluti hlöðuþaks fauk í Bæjum á Snæfjallaströnd. Miklar fokskemmdir urðu í Nauteyrarhreppi, þak tók af íbúðarhúsi á Vonarlandi, þak af hlöðu í Ármúla og 100 ára gamalt bænahús á Melgraseyri fauk. Þak fauk af íbúðarhúsi á Borg í Skötufirði og mikið af þaki skólahúss í Reykjanesi.
Þak tók af íbúðarhúsi á Djúpavík, hlöðuhluti fauk í Naustavík og vélageymsla í Norðurfirði, fjós og hlaða fuku í Munaðarnesi og geymsluhjallur í Ingólfsfirði. Nokkrar járnplötur fuku af húsum á Hvammstanga. Á Skagaströnd fuku mörg hundruð járnplötur af húsum, rúður brotnuðu og þök tók af með sperrum og öllu. Bátur sökk í höfninni og mikið tjón varð á Síldarverksmiðjunni og allt þakið af Lifrarbræðslunni. Snjór safnaðist þar í fjölmörg íbúðarhús um brotnar rúður.
Mikið tjón varð á bænum Stapa í Lýtingsstaðahreppi, þar tók vegg úr fjárhúsi, gluggar og hurðir brotnuðu í fjósi, 11 kindur drápust og ein kýr, fjögurra tonna bíll fauk og sömuleiðis jeppi. Þak fauk af fjárhúshlöðu á Úlfsstöðum í Akrahreppi og skemmdir urðu á peningshúsum í Sólheimagerði.
Þök tóku ýmist af íbúðarhúsum eða gripahúsum í Stórholti, Hvammi, Berglandi, Stóru-Reykjum og Skeiðfossi. í Fljótum. Þar í sveit urðu einnig miklu fleiri skemmdir af völdum óveðursins. Hey tóku á tveim til þrem bæjum. Á Siglufirði varð fjöldi húsa fyrir skakkaföllum, bæði íbúðarhús og opinberar byggingar. Hús Síldarverksmiðjunnar skaddaðist mikið og stálþil í höfninni gliðnaði.
Á Akureyri fauk mestallt þak prentsmiðju Odds Björnssonar með sperrum og öllu og olli talsverðu tjóni í nágrenninu, sömuleiðis fauk af þaki Gagnfræðaskólahússins, geysileg ófærð var í bænum. Fjórir enskir togarar leituðu hafnar á Akureyri, nokkuð laskaðir. Á Grenivík fauk þak af íbúðarhúsi og hjuggu járnplötur raflínu í sundur, í Höfðahverfi tók járn og viði af gamalli hlöðu og járn af fjárhúsþaki, skaddaði það síma- og raflínur, verkfærageymsla fauk í Fagrabæ.
Minniháttar fokskemmdir urðu á Breiðdalsvík. Mjög miklar símabilanir urðu á Norðaustur- og Austurlandi og þorpin á Norðausturlandi urðu sambandslaus um hríð. Enskur togari var hætt kominn við Vestfirði og missti út mann.
Snjóflóð féll á býlið Reykjarhól í Austur-Fljótum og tók íbúðarhúsið af grunni og braut niður fjárhús. Tvær kindur drápust, en skaði varð ekki á fólki.
Skemmtileg (og óvenjuleg) grein birtist um veðrið í Vísi 26. febrúar - þar hefur verið talað við veðurfræðing um veðrið - en ekki kemur fram hver það er. Greinin er í viðhenginu (var nappað af timarit.is).
Tólf ár voru liðin frá síðasta fárviðri á undan í Reykjavík - um það verður fjallað í næsta pistli í röðinni.
12.10.2016 | 00:30
Flóðaveðrið 15. til 20. október 1965
Víða á landinu er október úrkomusamasti mánuður ársins að meðaltali. Skemmtireikningar ritstjóra hungurdiska sýna 15. október sem úrkomuþrungnasta dag ársins á landinu að meðaltali (1949 til 2015) og 2. október í 2.sæti.
Listi yfir flóð og skriðuföll í október er bæði langur og bólginn og nær til allra landshluta og margra gerða veðurs - af norðri, austri, suðri og suðvestri. Fer mjög eftir áttum og eðli veðranna hvort stórir landshlutar eða minni verða fyrir.
Hér verður ekki gerð nein tilraun til greiningar - aðeins rifjað upp eitt mjög mikið sunnanúrkomuveður frá því í október 1965. Ástæðan er einfaldlega sú að veðurlag þá minnir nokkuð á veðurlag þessa dagana - meira að segja mátti (með góðum vilja) tengja mestu úrkomugusuna við leifar fellibyls - sá hafði borið nafnið Elena.
Október 1965 var mjög hlýr mánuður - eindregnar sunnanáttir ríktu mestallan mánuðinn. Mikið háþrýstisvæði var fyrir austan land - og lægðir gengu til norðurs fyrir vestan. Ekki hefur jafnhlýr eða hlýrri október komið síðan og er mánuðurinn í 6. sæti hlýrra októbermánaða - á landsvísu - og einnig mjög ofarlega á úrkomulistum.
Lítum á kort japönsku endurgreiningarinnar frá því kl. 18 þriðjudaginn 19. október 1965. Þá hafði úrkoman reyndar staðið í nokkra daga og veðurstaðan verið nokkuð svipuð.
Mikil hæð yfir Norðursjó - gríðarleg sunnanátt yfir Íslandi - lægðabylgjur gengu svo ört yfir þessa daga að erfitt er að segja hver þeirra tengdist Elenu best.
Háloftakortið gildir morguninn eftir, kl.6 miðvikudag 20. október 1965. Sérlega hlýtt er yfir landinu - alveg við methlýindi ef trúa má greiningunni. Hiti komst í 18,9 stig á Garði í Kelduhverfi þann 19. - októberhitamet þar - einnig var sett októberhitamet á Raufarhöfn.
Ekki varð mikið tjón af völdum vinds - þótt ritstjóranum sé særokið í Borgarnesi þessa daga einkar minnisstætt - en því meira af völdum vatnavaxta - enda stóð kastið í um það bil 5 daga. Þó er getið um eftirfarandi tjón af völdum vinds:
Þann 18. eða 19. fuku járnplötur af húsum við Skjóltröð og Neðstutröð í Kópavogi, þar slitnaði upp bátur við höfnina. Vélbátur frá Siglufirði fórst út af Grindavík, mannbjörg varð naumlega. Þann 20. fauk þak af hænsnahúsi í Hnífsdal og drápust margar endur. Tvær bátskektur skemmdust einnig í Hnífsdal.
En vatnavaxtatjónið varð meira. Lítum á:
Miklar vegarskemmdir urðu í stórrigningum dagana 18. til 20. Ár flæddu yfir bakka sína og spilltu vegum, fjöldi skriða féll á vegi. Brúin á Jökulsá á Sólheimasandi brotnaði niður á kafla og varð ófær, Brúin á Múlakvísl skemmdist og V-Skaftafellssýsla einangraðist. Klifandi í Mýrdal og Skógaá undir Eyjafjöllum skemmdu einnig vegi. Eitt fet vantaðu upp á að vatn færi yfir Markarfljótsbrúna eða varnargarða við hana. Vatn rauf vegi við brýr við Njálsbúð og Álfhólahjáleigu í Landeyjum, sömuleiðis fór vegur í Fljótshlíð í sundur.
Hvítá í Borgarfirði gerði stórspjöll á vegum. Miklar skemmdir urðu við Reykjadalsá á Svínadal í Dölum. Skriða teppti veginn um Bröttubrekku. Hörðudalsá rauf Skógarstrandarveg á tveimur stöðum. Skriður féllu við Hvítanes í Hvalfirði og í Óshlíð og Eyrarhlíð við Ísafjörð. Vegir skemmdust í Hrútafirði og Hjaltadalsá braust yfir bakka sína og flæddi yfir nýræktarlönd á Hólum.
Þann 20. féll mikil skriða á bæinn Arnþórsholt í Lundareykjadal, skriðan braust inn á gólf í íbúðarhúsinu, eyðilagði fjárhúsin og dráttarvél.
Úrkoma sló októbermet allvíða - eða var mjög nærri því, m.a. mældist sólarhringsúrkoma á Hveravöllum 109,4 mm, það næstmesta allt mælitímabilið þar.
Listi yfir heildarúrkomu þessa daga og sólarhringshámark er í viðhenginu. Þar skal sérstaklega bent á að úrkomumagn á stöðvunum við Eyjafjallajökul og Mýrdalsjökul er ekkert ofboðslegt miðað við það sem stundum gerist þar um slóðir - en samt verða þar þessir gríðarlegu vatnavextir. Þetta gæti bent til þess að úrkomumagnið hafi verið miklu meira uppi í fjöllunum - auk þess sem jökulís hefur bráðnað. Spurning hvað reiknilíkön nútímans hefðu gert við veðrið þessa daga.
11.10.2016 | 02:33
Rakt loft
Nú streymir mjög rakt loft langt úr suðri til landsins. Myndin hér að neðan er þversnið úr harmonie-líkaninu og gildir kl.13 síðdegis á morgun, þriðjudag 11. október. Rétt er að vara við textanum hér að neðan - hann er snúinn og fullur af tungubrjótum. Lesendur beðnir um að taka honum af hógværð og jafnlyndi - einfaldast kannski að sleppa því að lesa hann.
Ekki alveg auðveld aflestrar þessi þversnið - en lóðrétti ásinn sýnir þrýstihæð, frá 1000 hPa neðst og upp í 250 hPa efst, frá sjávarmáli og upp í um 10 kílómetra hæð. Legu lárétta ássins má sjá á smákortinu í efra hægra horni. Það sýnir Ísland, þrýsting við sjávarmál og einnig má sjá línu sem liggur til norðurs yfir Vesturlandi - þversniðið liggur eftir þeirri línu - breiddarstig eru merkt á lárétta ás myndarinnar.
Ljósgráu blettirnir sýna fjöll sem línan liggur um - Snæfellsnes alveg neðst á miðri mynd - og síðan Vestfjarðafjöllin lengra til hægri.
Litir sýna rakastig. Það er fremur óvenjulegt að dökkblár litur þekur nærri því allan myndflötinn - rakastig er þar meira en 90 prósent. Heldregnar svartar línur tákna jafngildismættishita og mælir hann í Kelvinstigum. Þar sem jafngildismættishitinn lækkar upp á við er loft annað hvort óstöðugt eða skilyrt óstöðugt - það verður óstöðugt sé hreyft við því.
Óstöðuga (eða skilyrt óstöðuga) lagið er ekki mjög þykkt í þessu þversniði - nær aðeins upp í um 800 hPa (um 2 km hæð). Ofan við þá hæð vex jafngildismættishitinn ákveðið með hæð. Yfir Snæfellsnesi norðanverðu er mjótt grátt svæði sem liggur þar upp og niður - þar sjáum við niðurstreymi norðan fjalla á nesinu - það léttir á rakamettun loftsins í sunnanáttinni sem ríkir á allri myndinni (en ekki er sýnd).
Ef vel er að gáð má einnig sjá rauðar strikalínur - þetta eru jafnrakalínur - ekki jafnrakastigslínur og mæla raka í grömmum vatnsgufu á hvert kíló lofts. Að jafnaði er talað um eðlisraka með þessari einingu (ekki endilega gott orð - en við látum hefðina trampa hér á okkur - jafneðlisrakalína og jafn-jafngildismættishitalína eru ekki beinlínis þjál orð).
En hvað er myndin svo að segja okkur? Jú, mjög rakt loft liggur við Vesturland - væri vindur mjög hægur myndi það e.t.v. samt ekki endilega skila mikilli úrkomu - það er fremur stöðugt - en úrkomumætti þess er mjög mikið. Þvingi vindur það til að lyftast yfir fjöll - og líkanið segir að það muni gerast fellur mikil úrkoma úr því. - En annars staðar verði hún e.t.v. ekki endilega mikil.
En munum að líkön eru líkön - ekki raunveruleikinn sjálfur.
Fyrir þá sem vilja fletta upp hugtökum á netinu eða í bókum eru alþjóðaheitin equilvalent potential temperature = jafngildismættishiti og specific humidity = eðlisraki.
9.10.2016 | 22:27
Fárviðrið 29. apríl 1972
Enn er fjallað um Reykjavíkurfárviðri. Þau þrjú sem komið hafa við sögu til þessa eru öll sérlega minnisstæð og ollu öll gríðarlegu tjóni bæði á höfuðborgarsvæðinu sem og víða um land. Það sem nú birtist á borðinu er að eðli og uppruna gjörólíkt hinum - og sjálfsagt eru þeir fáir sem muna. Stóð það fremur stutta stund laugardagsmorguninn 29. apríl 1972.
Hér má sjá úrklippu úr Vísi þennan sama dag (af timarit.is).
Stóru veðrin 1973, 1981 og 1991 áttu öll svipaðan aðdraganda - voru öll sömu ættar - og hvoru um sig fylgdu þrjár gerðir veðra - lágrastarlandsynningur, hárastarlandsynningur (eða úr hásuðri) og vestlægari stunga (lágröst) í kröppum lægðasveip.
Fárviðrið það sem nú er fjallað um var hins vegar af norðri. Norðan- og austanveður eiga líka ólíkan uppruna. Algengust eru þau sem tengd eru því sem kallað hefur verið Grænlandsstífla. Það eru lágrastarveður - vindur er hægur í háloftunum. En norðlæg hárastarveður eru líka til. Norðanrastirnar eru þó oftast ekki eins öflugar og þær suðlægu og vestlægu - og heldur sjaldgæfari. Stundum byrjar norðankast í beinum tengslum við háröst - en endar síðan með lágröst.
Hér má sjá veðurkort frá hádegi 27. apríl 1972, tveimur dögum áður en veðrið skall á. Í fljótu bragði sýnist það nokkuð sakleysislegt - enda sumardagurinn fyrsti liðinn hjá. Mikið háþrýstisvæði er í námunda við Asóreyjar og annað yfir Grænlandi (sem endurgreiningin ýkir heldur) - en lægðarenna er á milli.
Æstustu veðurnörd vita þó að þetta telst nokkuð varasöm staða. Slatti af mjög slæmum (mannskaða-)veðrum fyrri ára og alda eru í skylduliðinu. Gallinn var hins vegar sá að ekki var nokkur leið að sjá hvað úr yrði fyrir tíma tölvureikninga - ekkert að gera nema fylgjast grannt með loftþrýstihreyfingum.
Hættan sést betur á háloftakortum - þetta kort gildir síðdegis fimmtudaginn 27. apríl, - um einum og hálfum sólarhring fyrir illviðrishámarkið. Mjög hlýtt loft streymir til austnorðausturs inn á Norður-Atlantshaf í veg fyrir kalt loft sem kemur úr norðri fyrir vestan Ísland. - Hér er spurning um hversu vel heppnað stefnumótið verður.
Og það tókst svo sannarlega vel. Hér er veðrið nokkurn veginn í hámarki undir morgunn laugardaginn 29. apríl. Lægðin sem á fyrra korti var aðeins 1014 hPa í miðju er hér komin niður í 969 hPa, dýpkaði um 45 hPa á rúmum einum og hálfum sólarhring. Þetta er óvenjulegt svo seint í apríl. Mikill norðan- og norðaustanstrengur er yfir Íslandi. Þrýstimunur yfir landið fór yfir 23 hPa þegar mest var.
Eitthvað má ráða í eðli veðursins með því að rýna í háloftakortið á sama tíma.
Við sjáum að töluverð norðanvindröst (þéttar jafnhæðarlínur) liggur yfir landinu vestanverðu - ásamt einskonar poka af köldu lofti (þykktin er sýnd í lit). Samspil þykktar- og hæðarflata segir mikið um eðli ofviðra en við látum það eiga sig að vera að smjatta á þeim fræðum hér - þó er freistandi að skjóta inn einu orði/hugtaki sem ekki hefur sést á hungurdiskum áður - þykktaröst og mega lesendur velta vöngum yfir merkingu þess.
Þrátt fyrir þéttar þrýstilínur yfir landinu hlýtur hinn mikli vindur í Reykjavík að hafa komið nokkuð á óvart. Fárviðri er alla vega ekki daglegt brauð - og síðan þetta var hefur vindur ekki mælst svona mikill í norðanátt á hinni opinberu veðurstöð í Reykjavík - í meir en 44 ár.
Framan af nóttu var vindur lengst af um 15 m/s, datt um stund niður fyrir 10 m/s milli kl. 2 og 3. Eftir kl. 4 rauk hann upp fyrir 25 m/s og eftir kl.6 upp í um 30 m/s. Rétt eftir kl.8 fór hann svo um stund í 32,9 m/s - formleg hviðumæling var ekki gerð, en vísir á skífu sást fara yfir 40 m/s. - Líklegt er að mesta hviða hafi verið enn meiri en það.
Norðanáttin í Reykjavík er skrýtin skepna - samanburður á flugvelli og Veðurstofutúni sýnir að síðarnefndi staðurinn sleppur oft við þær slæmu norðanáttir sem plaga flugvöllinn, miðbæinn og þau hverfi sem vestar liggja. Vindstyrkur sveiflast mjög - sérstaklega á þessu svæði - rétt eins og við sjáum á vindritinu hér að ofan. Norðanfossinn af Esjunni nær mjög oft að Geldinganesi og nágrenni - en ekki svo oft niður í Ártúnsholt og sjaldan í Selás og Breiðholt.
Í norðanáttum hegðar loftþrýstingur í Reykjavík sér oft mjög einkennilega - sérstaklega ef vindurinn á uppruna sinn í hærri röstum. Háloftaathuganir í Keflavík sýna að í þessu tilviki var vindhraði í hámarki í 400 hPa eða ofar (líklega við veðrahvörf - en þá athugun vantar - minni vindur var svo í heiðhvolfi). Í 400 hPa var hann 39,5 m/s á hádegi þann 29. - en var þá farinn að ganga niður í neðstu lögum - líka í Reykjavík.
Á þrýstiritinu hér að ofan má sjá stórar sveiflur ganga yfir - þetta er reyndar mest um það leyti sem vindur tók dýfuna niður fyrir 10 m/s og svo upp aftur. Einhverjar bylgjur eru að fara yfir - stórar bylgjur þar sem lóðrétt hreyfing lofts er mjög mikil. Orðið þyngdarbylgja er oft notað - en ritstjóri hungurdiska vill frekar nota flotbylgja - er það einkum vegna þess að fyrra orðið er einnig notað um fyrirbrigði allt annars eðlis (bylgjur í þyngdarsviðinu sjálfu).
Það er sum sé skoðun ritstjórans að þetta ákveðna norðanveður sé drifið af háloftavindröstinni. - Norðanfárviðri sem fjallað er um í næsta pistli er það hins vegar ekki - það er stífluveður - þykktarröst stýrði því.
En tjón varð nokkuð í þessu veðri þótt skammvinnt væri.
Mest var það á höfuðborgarsvæðinu, m.a. flettist þakklæðning af stórum hluta Tónabíós, loka varð Miklubraut um stund sökum járnplötufoks. Rúður brotnuðu viða, reykháfur hrundi og bárujárnsgirðing fauk. Litlar trillur sukku, önnur í Reykjavíkurhöfn en hin á Fossvogi. Mótauppsláttur fauk í Vestmannaeyjum, bíll fauk af vegi hjá Kiðafelli í Kjós og fleiri bílar lentu í vandræðum í Hvalfirði. Boltar brotnuðu í spennivirki á Geithálsi svo rafmagnslaust varð um tíma í Reykjavík. Rúður fuku úr gróðurhúsum í Mosfellssveit. Uppsláttur fyrir stórri hlöðu og jarðýtuvagn fauk undir Eyjafjöllum. Mikið af grásleppunetum eyðilagðist á Bakkafirði í brimi.
Mjög lúmskt allt saman.
9.10.2016 | 01:18
Hlýjustu októbermánuðirnir
Eins og alloft hefur verið fjallað um á hungurdiskum áður er október sá af mánuðum ársins sem minnst hefur vitað af núverandi hlýskeiði á Íslandi - alveg á skjön við flesta aðra. Við skulum rifja upp mynd sem áður birtist í pistli sem dagsettur er 9. febrúar 2016.
Hér má sjá 30-ára keðjumeðaltöl hita í janúar (blár ferill) og október (rauður ferill) í Stykkishólmi. Lóðrétti ferillinn til vinstri er fyrir janúarhitann - en hægri kvarðinn fyrir október - það munar 5,5 stigum á meðalhita mánaðanna.
Janúarhitinn er kominn langt fram úr hitanum á 20.aldarhlýskeiðinu - en október er ekkert hlýrri en hann var fyrir hundrað árum - sýndi þó mjög góðan sprett sem náði hámarki á árunum 1836 til 1965. Hvernig á þessu stendur veit víst enginn - hægt er að giska en hvort eitthvað vitlegt kemur út úr því er annað mál.
En lítum nú á lista sem sýnir hæstu októbermeðalhitatölurnar - fyrst lítum við á sjálfvirku stöðvarnar. Þær sýna vel samkeppnisstöðuna síðustu 15-20 árin eða svo.
röð | stöð | ár | mán | mhiti | nafn | |
1 | 36132 | 2001 | 10 | 9,17 | Steinar | |
2 | 6012 | 2010 | 10 | 8,10 | Surtsey | |
3 | 36127 | 2010 | 10 | 8,08 | Hvammur | |
4 | 36132 | 2007 | 10 | 7,91 | Steinar | |
5 | 1453 | 2010 | 10 | 7,84 | Garðskagaviti | |
5 | 36132 | 2000 | 10 | 7,84 | Steinar | |
7 | 35305 | 2001 | 10 | 7,77 | Öræfi | |
8 | 6015 | 2010 | 10 | 7,66 | Vestmannaeyjabær | |
9 | 36132 | 2010 | 10 | 7,58 | Steinar | |
10 | 36132 | 2006 | 10 | 7,54 | Steinar |
Hér er vegagerðarstöðin á Steinum undir Eyjafjöllum á toppnum með 9,2 stig (annar aukastafur er okkur til skemmtunar), langt fyrir ofan annað sætið, 8,1 stig í Surtsey í október 2010. Fyrstu ár athugana á Steinum eru reyndar grunsamlega hlý - miðað við aðrar stöðvar þannig að vel má vera að 9,2 stigin séu aðeins of há. - En þar til málið hefur verið athugað nánar skulum við láta kyrrt liggja. Við sjáum þó að október 2010 kemur vel út.
Á samskonar topp-tíu lista mannaðra stöðva vekur hins vegar athygli að þar er ekkert ár eftir 1959.
röð | stöð | ár | mán | mhiti | nafn | |
1 | 985 | 1946 | 10 | 8,61 | Reykjanesviti | |
2 | 103 | 1959 | 10 | 8,57 | Andakílsárvirkjun | |
3 | 615 | 1908 | 10 | 8,47 | Seyðisfjörður | |
4 | 816 | 1915 | 10 | 8,42 | Vestmannaeyjabær | |
5 | 220 | 1959 | 10 | 8,35 | Lambavatn | |
6 | 983 | 1946 | 10 | 8,31 | Grindavík | |
7 | 801 | 1959 | 10 | 8,26 | Loftsalir | |
8 | 477 | 1946 | 10 | 8,15 | Húsavík | |
9 | 816 | 1908 | 10 | 8,12 | Vestmannaeyjabær | |
10 | 171 | 1946 | 10 | 8,09 | Hellissandur |
Hlýjastur allra er október 1946 á Reykjanesvita - þótt athuganir hafi ekki verið í besta lagi þar um slóðir þetta ár var greinilega mjög hlýtt - þessi sami mánuður í Grindavík er í 6. sæti á listanum, aðeins 0,3 stigum neðar, og síðan er þetta líka metmánuður á Húsavík og á Hellissandi. Talan úr Andakílsárvirkjun 1959 ætti að vera sæmilega áreiðanleg, Seyðisfjörður 1908 hins vegar í tæpara lagi hvað áreiðanleika snertir. Við teljum hins vegar Vestmannaeyjabæ í lagi bæði 1915 og 1908.
Í viðhenginu er svo listi sem sýnir hvaða mánuður er hlýjastur októbermánaða á öllum veðurstöðvum - athugið þó að sumar hafa aðeins athugað í örfá ár. Á landinu í heild telst október 1915 hlýjastur allra októbermánaða - en þónokkur óvissa fellst í þeim reikningum.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 01:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.12.): 20
- Sl. sólarhring: 214
- Sl. viku: 985
- Frá upphafi: 2420869
Annað
- Innlit í dag: 15
- Innlit sl. viku: 864
- Gestir í dag: 15
- IP-tölur í dag: 15
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010