Bloggfærslur mánaðarins, júní 2015

Heldur hlýlegra útlit?

Spár fyrir næstu 10 daga eru nú öllu hlýlegri en verið hefur - samt eru þær ekki eindregnar - og rétt að fagna einum hlýjum degi í senn. Til dæmis má benda á að þó mörgum sýndist dagurinn í dag (sunnudagur 14. júní) hlýr - var hann það í raun ekki á landinu í heild, landsmeðaltalið -1,4 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. En við sem fengum sólina í fangið þökkum fyrir það sem þó var.

Kortið hér að neðan sýnir meðalhæð 500 hPa-flatarins, meðalþykkt og þykktarvik næstu tíu daga - að mati evrópureiknimiðstöðvarinnar. 

w-blogg150615a

Heildregnu línurnar sýna meðalhæð 500 hPa-flatarins, daufar strikalínur sýna þykktina - en litirnir þykktarvikin. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs og vik hennar frá meðallagi gefa því til kynna hversu mikið hiti víkur frá meðaltalinu (hér 1981 til 2010). 

Gulir og brúnir litir sýna hvar þykktin (hitinn) er yfir meðallagi. Hér við land er hún 40 til 50 metrum ofan þess - það þýðir að loftið yfir okkur á að vera um 2 stigum hlýrra en í meðallagi næstu tíu daga. 

Ekki skilar sá hiti sér í heilu lagi til jarðar - en þetta er samt miklu vænlegra heldur en verið hefur að undanförnu - meðallagið er bara nokkuð gott. 

Spurning hvort einhvers staðar fara að mælast 20 stig? Hæsti hiti ársins til þessa mældist 19,9 stig í Neskaupstað þann 18. apríl - kominn er tími á eitthvað meira. Hæsti hiti til þessa í júní er 18,8 stig sem mældust í Kvískerjum þann 9. 

Eins og venjulega er minnt á að spám er illa treystandi á síðari hluta tímabilsins - auk þess víkja einstakir dagar oftast mjög frá meðallagi þeirra allra. 


Sólskinsmet í Reykjavík?

Í dag mældust 19,4 sólskinsstundir á sjálfvirku stöðinni í Reykjavík - þetta er jafnmikið og mældist 20. júní 2008 - meira en annars hefur mælst á reykvískri veðurstöð. 

Á gamla kúlumælinum urðu sólskinsstundirnar 18,0 í dag - meira en áður hefur mælst 13. júní og nokkurn veginn það mesta sem mælst getur á gamla mælinn á Veðurstofunni - hefur alloft mælst 18,0 - en aðeins einu sinni meira, 18,3 stundir. Það var 17. júní 2004. Sólskinsstundirnar mældust nokkrum sinnum fleiri á einum degi meðan mælt var við Skólavörðustíg (hvað sem veldur). Þar mældust mest 19,3 stundir, þann 18. júní 1924 - hefur sumum veðurnördum þótt sá dagur og nokkrir aðrir í maí og júní það ár grunsamlegir. 

Rétt er að fara yfir mælingar dagsins áður en við staðfestum metið. En kalt var í veðri, hitinn í Reykjavík um -1,4 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára. 

w-modis-150613_1435

Sólríkur dagur á Vesturlandi (og víðar). Á myndinni má einnig sjá einkennilegt örþunnt (bláleitt) skýjaband sem liggur frá vestnorðvestri til austsuðausturs fyrir suðvestan land - það sást þó vel af jörðu niðri og má sjá fleiri myndir á fjasbókarútibúi hungurdiska. 


Hægur sunnudagur?

Svo virðist sem sunnudagur (14.júní) verði hægur - og að jafnvel njóti sólar um mikinn hluta landsins - en henni fylgir gjarnan hafgola á þessum tíma árs. En sólin gengur fyrir - saklaust að greiða fyrir hana með dálítilli golu af hafi. - Því ekki verða nein hlýindi á ferðinni - heldur hið gagnstæða.

Yfirbragð kortsins hér að neðan er óvenjubjart - það sýnir spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um hádegi á sunnudag.

w-blogg130615a

Engin jafnþrýstilína - flestar vindörvar fanasnauðar og úrkomusvæði langt undan. Síðar um daginn tekst líkaninu með erfiðismunum að kreista fram fáeina dropa á víð og dreif um landið - ætli það tákni þá ekki að einhver bólstraský skjóti upp kollinum - til fegurðarauka vonandi. 

En svo er það hafgolan - spá harmonílíkans Veðurstofunnar nær henni oft vel. Kortið sýnir vindátt og vindhraða á suðvesturfjórðungi landsins kl.15 síðdegis.

w-blogg130615b

Kortið verður auðlæsilegra sé það stækkað. Grænir litatónar sýna vindhraðann - hann nær hvergi í blátt (8 m/s). Hafgolan liggur úr norðvestri inn á höfuðborgarsvæðið - en er að vanda vestlægari í Borgarfirði. Nærri Þjórsárósum takast á hafgola úr suðaustri og systir hennar úr vestri - skemmtilegt - sú eystri á að byrja fyrr - gægist fyrir hornið á Eyjafjöllum strax fyrir kl.11. Síðan sameinast þessi kerfi um suðvestanruðning upp Suðurlandsundirlendið enn síðar um daginn.

Við megum líka taka eftir því að á Reykjanesfjallgarðinum eru líka áberandi vindaskil - hvorki gengur þar né rekur á hvorn veginn - kannski myndast hefðbundinn bólstrarani þar yfir? 

Líkanið reiknar einnig út kviku (ókyrrð) - en greinir ekki á milli gerða hennar. Vindur er svo hægur að líklega er það vermikvika sem við sjáum á kortinu hér að neðan. Sólin hitar landið - upp af því rísa bólur - það ræðst af ríkjandi hitafalli með hæð (mættishita) hversu hátt þær komast.

w-blogg130615c

Vindörvarnar sýna vind í 850 hPa-fletinum - í rúmlega 1400 metra hæð. Bláu litirnir sýna kvikuna - hún er reyndar ekki mikil, en við sjáum vel að mikill hluti hálendisins gefur ekki af sér neina - þar liggur enn sýndarsnjór líkansins - öll sólarorka fer í að bræða hann - gengur fyrir vermikvikumyndun. Trúlega er mikill snjór á hinu raunverulega hálendi ennþá. Síðar í sumar mun það vonandi taka til við vermikvikuframleiðslu af fullum krafti. Þeir sem stækka kortið geta séð dálitla kvikurönd liggja eftir Reykjanesinu endilöngu. 

Að lokum lítum við á rakaspá sem gildir kl.15 á sunnudag. Þar má sjá líkanið spá þoku á Húnaflóa og Skagafirði (og víðar).

w-blogg130615e

Fjólubláa svæðin á myndinni sýna hana. Hvernig rætist þetta svo? Það getur hver og einn staðfest fyrir sig á sunnudaginn - alla vega vindátt og vindhraða (svona nokkurn veginn). Fuglar og flygildi geta e.t.v. séð um staðfestingu vermikvikunnar - og rakastigið? Þoka leynir sér varla leggist hún yfir.


Þokast hitinn upp á við eftir helgi?

Spurt er hvort hitinn þokist upp á við eftir helgi. Vonandi gerir hann það - en það er enn sýnd veiði en ekki gefin. Reiknimiðstöðvar gera ráð fyrir að lægðin sem færir okkur hlýrra loft verði djúp miðað við árstíma og að hún standi þar að auki stutt við - þannig að óvíst er með ánægjuna af hærri hita. En - ætti samt að koma sér vel fyrir gróðurinn - og eitthvað af snjó bráðnar úr fjöllum. 

En við lítum á 500 hPa-hæðar- og þykktarkort af norðurhveli. Kortið er úr smiðju evrópureiknimiðstöðvarinnar og gildir síðdegis á laugardag (13.júní).

w-blogg120615a

Ísland er rétt neðan við miðja mynd. Sjá má Kúbu neðarlega til vinstri og Indland er rétt ofan við miðjan hægrijaðar myndarinnar - sést reyndar illa fyrir dökkum hitalitum. Jafnhæðarlínur eru heildregnar - því þéttari sem þær eru því stríðari eru háloftavindar. Litirnir sýna þykktina, hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs - því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. 

Mörkin á milli grænu og gulu litanna er við 5460 metra - sumarið er þar ofan við. Meðalþykkt í júní hér á landi er í kringum 5440 metra - í daufasta græna litnum. Á kortinu er hann aðeins mjó ræma nokkuð sunnan við land - og dekksti og kaldasti græni liturinn liggur yfir landinu. Þar er þykktin á bilinu 5280 til 5340 metrar - harla kalt. En blái liturinn - enn kaldari - er orðinn að smábletti austan við land og fylgir snörpu lægðardragi sem plagar norðmenn illa um helgina.

Öflugasti kuldapollur heimskautaslóða er langt frá okkur - við strönd Síberíu - og ógnar okkur þar af leiðandi ekki sem stendur. Allöflug hitabylgja er að ná undirtökum í Alaska - rétt einu sinni. Var maímánuður ekki sá hlýjasti í sögunni þar? 

Snarpur kuldapollur er við norðvesturströnd Spánar og veldur óstöðugu veðri - þrumuveðrum og slíku - á nokkuð stóru svæði. 

Jafnþykktarlínur eru þéttar fyrir sunnan Ísland - ekki er svo óskaplega langt í hlýja loftið - en lægðin sem á að koma einhverju af því til okkar eftir helgi er rétt varla orðin til yfir austurströnd Kanada. 

Eins og áður sagði virðast reiknimiðstöðvar sammála um að hún fari hratt hjá - en síðan upphefst hefðbundið ósamkomulag. Báðar vilja að vísu umhleypinga áfram - en gerð evrópureiknimiðstöðvarinnar er heldur jákvæðari - og hlýrri - sú bandaríska heldur aftur á móti frekar kuldalegum umhleypingum áfram eins langt og séð verður. 


Óþægilega kalt áfram

Það er ekkert lát að sjá á kuldanum - jú, sólin gerir sitt - og svo eru stöku dagar betri en aðrir. Vestanhryðjan sem gekk yfir landið í gær (8. júní) var með snarpara móti um landið norðanvert - vindhraðamet júnímánaðar féllu á fjölmörgum stöðvum - en mæliraðirnar eru ekki mjög langar og því ekki rétt að gera allt of mikið úr.

En á eftir vestanátt snýst vindur oft til norðurs, hækkar á, eins og sagt var. Til allrar hamingju gerist það ekki með neinum látum að þessu sinni - því loftið sem kemur að norðan er kalt - svo kalt að það nægði í hríð niður í sveitir - væri vindur og úrkomuákefð meiri en raunin virðist ætla að verða. Þannig að vonandi sleppur það - en næturfrost er yfirvofandi víða inn til landsins. 

w-blogg100615a

Kortið sýnir spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um hæð 500 hPa-flatarins og þykktina síðdegis á fimmtudag, 11. júní. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs og gefur einnig góðar vísbendingar um hita í mannheimum. 

Meðalþykkt í júní yfir landinu er um 5440 metrar. Á bláa svæðinu sem snertir norðurströndina er hún hins vegar aðeins 5280 metrar, 160 metrum undir meðallagi - það reiknast sem 8 stig - sem hiti í neðri hluta veðrahvolfs er undir meðallagi. Ekki fáum við það högg af fullum þunga - en 4 til 5 stig undir meðallagi gæti verið nærri sanni. 

Þetta er að vísu kaldasti dagurinn í sjónmáli - það á að hlýna verulega strax eftir helgi - þau hlýindi eiga þó að standa stutt við - en færa okkur þó rigningu og leysingu til fjalla. 

Kortið hér að neðan sýnir stöðuna um hádegi á þriðjudag - að mati evrópureiknimiðstöðvarinnar.

w-blogg100615b

Þetta er miklu hlýrra. Þykktin yfir miðju landi er um 5530 metrar - 90 metrum yfir meðallagi júnímánaðar og hlýja tungan gefur möguleika á fyrsta 20 stiga hita ársins - þá um landið norðan- eða austanvert. En - eins og áður sagði stendur þetta stutt við. Lægðin er á hraðferð - og við sjáum líka í næstu bylgju á eftir. 

Gömul fræði segja von á viðvarandi umhleypingum svo lengi sem vindur gengur um vestur til norðurs á eftir lægðunum. Hins vegar var meiri von um breytingu „gengi hann öfugur upp í“ - eins og sagt var - úr suðri um austur til landnorðurs eða norðurs. Slík hegðan bendir til þess að háloftabylgjurnar fari fyrir sunnan land - heimskautaröstin og umhleypingar hennar fjarlægist. Það er mikið að marka þessa gömlu reynslureglu - sem og margar fleiri. 


Undir háloftaröstinni

Nú gengur allsnörp suðvestanátt yfir landið. Hún fylgir mikilli vindröst í háloftunum - miðað við árstíma. 

w-blogg080615a

Hér má sjá spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um hæð 300 hPa-flatarins og vind í honum seint á mánudagskvöld. Vindur í röstinni miðri (skotvindi hennar) er meiri en 60 m/s. Hes rastarinnar teygir sig í átt til jarðar - þar sem bylgjur yfir fjöllum geta dregið vind niður í átt til jarðar. Því er spáð stormi sums staðar á hálendinu og jafnvel norðan og austan fjalla - einstakar hviður geta sömuleiðis gert sig gildandi. 

Þótt ekki sé hægt að segja að þetta sé beinlínis óvenjulegt að sumarlagi viljum við samt helst ekki sjá kerfi af þessu tagi. Norðanáttin sem gjarnan fylgir í kjölfar þeirra er líka oft afleit - en við virðumst eiga að sleppa sæmilega að þessu sinni - nema hvað kalt verður áfram. 

Einnig má telja happ(?) hvað laufgun trjáa er stutt á veg komin - hvöss suðvestanátt og selta fara aldrei vel með fallegar laufkrónur. 


Suðvestanátt (illkynja?)

Suðvestanáttin var ágeng í vetur - en hefur verið heldur minna áberandi í norðantíðinni í vor. Nú tekur hún sig upp aftur í nokkra daga - með hálfgerðum (eða algerum) leiðindum um landið vestanvert - en skárra verður um landið austanvert. 

Kortið sýnir spá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir seint á sunnudagskvöld (7. júní).

w-blogg060615a

Óvenjuöflug hæð er vestur af Írlandi - en snarpt lægðardrag vestast á Grænlandshafi - á leið norðaustur. Strikalínurnar marka hita í 850 hPa-fletinum og er það 0 stiga línan (frostmark) sem er í flækju yfir landinu. Það getur engan veginn talist hlýtt á þessum árstíma - en þar sem við höfum aðallega verið með -5 stiga systur hennar yfir okkur að undanförnu verðum við að vera sæmilega sátt. 

En mánudagurinn verður leiðinlegur vestanlands - kannski verður hægt að kalla suðvestanáttina þá útsynning, skúradembur jafnvel með einhverju hvítu ívafi á aðfaranótt þriðjudags. Síðan eiga lægðir að koma á kunnuglegu færibandi næstu vikuna - en reiknimiðstöðvar eru svo ósammála um smáatriðin að við sleppum að ræða þau í bili.

Veðurnörd óróast þegar þau sjá töluna 1040 hPa á kortum í júní - hún þýðir að eitthvað er úr skorðum gengið í norðurhvelshringrásinni, kannski er hlýtt loft of norðarlega í hringnum - og sé svo er hætt við að kalt sé of sunnarlega - eða að slíks sé skammt að bíða. 

Hæsti þrýstingur sem mælst hefur í júní á Íslandi er rétt rúm 1040 hPa - það var reyndar í hitabylgjunni frægu sem gaf íslandsmetið 1939 - hlýtt loft svo sannarlega úr skorðum gengið. 

Hér að neðan eru til gamans tvö kort úr endurgreiningasafninu - það frá 1959 úr þeirri japönsku - en það frá 1992 úr interim-greiningu evrópureiknimiðstöðvarinnar. 

w-blogg060615b

Fyrst er kortið frá 1992 - að kvöldi þjóðhátíðardagsins 17. júní. Í fyrstu sýn harla líkt kortinu að ofan. Ámóta hæð vestur af Írlandi og ámóta lægðardrag við Grænland. 

Síðara kortið er frá 1959.

w-blogg060615c

Þetta kort sýnir stöðuna að kvöldi 14. júní 1959. Enn meiri hæð er suður í hafi - lægðardrag er við Grænland - en áttin er samt greinilega vestlægari heldur en nú og 1992. 

Hvað svo? Ef til vill kannast stöku lesandi við þessar dagsetningar - eða öllu heldur það sem fylgdi í kjölfarið. Upp úr stöðunni 1992 gerði eitt harðasta júníhret síðari áratuga - jónsmessuhretið mikla - þegar meira að segja varð hvítt af snjó í efstu byggðum Reykjavíkur. En upp úr stöðunni 1959 kom 17.júníhríðin mikla á Norðurlandi - sem elstu menn muna - eins og væri í gær. 

En gerist eitthvað ámóta nú? Vonandi ekki - evrópureiknimiðstöðin talar um norðanhret í kjölfarið - en að það verði ekki af verstu gerð. Nú í kvöld er líkan bandarísku veðurstofunnar að spá hríð norðanlands um næstu helgi - en allt of snemmt er að taka undir það. 

Fleira óvenjulegt er að sjá á veðurkortum þessa dagana. Sérlega djúp lægð er við norðurskautið um helgina - kortið hér að neðan sýnir miðjuþrýstinginn 973 hPa - ekki einsdæmi - en ekki fjarri því. Lægðin veldur illviðri í Norðuríshafi - skyggir á sól og dregur úr bráðnun íss - einmitt á þeim tíma þegar sólin ræður mestu um bráðnunina - og nú bætir snjó á ísinn. Hvort svo munar um þessa lægð þegar upp er staðið vitum við ekki. 

w-blogg060615d 

Kortið er úr smiðju bandarísku veðurstofunnar og gildir kl. 6 að morgni sunnudags 7. júní. 


Sex vikur af sumri

Kuldakastið sem hófst á sumardaginn fyrsta stendur enn nú þegar sex vikur eru liðnar af sumri. Fyrstu vikurnar þrjár voru þó sýnu kaldari en þær sem á eftir komu. Á sunnudag er búist við því að vindur snúist til vesturs og síðar suðvesturs. Loftþrýstingur verður nokkuð hár - svo reikna mætti við einhverjum hlýindum - en það er eins og svo verði ekki. Þó verður um stund talsvert hlýrra norðaustanlands en að undanförnu.

Við lítum á meðalhita í Stykkishólmi fyrstu sex vikur sumars allt aftur til 1846 - svona til að núllstilla okkur eftir öll hlýindin sem oftast hafa ríkt fyrstu sex vikur sumars það sem af er öldinni.

Hiti í Stykkishólmi - fyrstu sex vikur sumars 1846 til 2015

Meðalhitinn síðustu sex vikur stendur í 3,0 stigum. Daufa brúnleita strikalínan sem liggur þvert yfir myndina sýnir þá stöðu. Ef vel er að gáð má sjá að hitinn hefur ekki farið niður fyrir 4,0 stig í upphafi sumars síðan 1995 og ekki niður í 3 stig síðan 1989 - þá var hann síðast svipaður og nú. Einnig má segja að hann hafi verið svipaður 1982 og 1983, en svo miklu lægri 1979. 

Hér sést vel hversu mikið „áfall“ vorið 1949 var fyrir þá sem ekkert þekktu nema hlýju árin á undan. Á þessari mynd hófst það skeið 1925 - en vorið 1934 var þó nærri því eins kalt og nú, 1949 og 1979 eru í sérflokki - ásamt svo enn eldri árum. Kaldastar voru fyrstu sex vikur sumars árið 1882 - og litlu hlýrri 1906.

Einhver spurði um mun á milli ára. Munurinn á vorinu nú og í fyrra er -3,8 stig, á myndinni hefur hann tvisvar orðið meiri milli ára,1882 og 1979, og einu sinni jafnmikill (1906). Á hinn veginn var munurinn mestur á 1888 og 1889. 

Vorið í vor er í 26. til 27. sæti kaldra vora á tímabilinu öllu. 

Rauði ferillinn á myndinni sýnir 10-ára keðjumeðaltal. 

Til gamans eru tölurnar að baki línuritsins í viðhenginu - já, til gamans aðeins.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Enn af maíkulda (og smávegis um framhaldið)

Landsmeðalhiti í byggð í maí reiknaðist +3,3 stig - um það var fjallað í pistli hungurdiska á dögunum. Þetta er -2,2 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára, en -1,5 undir meðallagi áranna 1961 til 1990. Viki var nokkuð misskipt eftir landsvæðum. Miðað við síðustu tíu ár var kaldast á hálendinu, þar var vikið víða meira en -3 stig, en á Austfjörðum var það víðast um -1,5 stig - eða jafnvel minna. 

Lesendur eru beðnir velvirðingar á frekar þvælnum texta hér að neðan - en staglið þjónar uppeldislegum tilgangi undir slagorðinu: Lærum að lesa úr kortum. 

Fyrst er litið á þykktarvik (hitavik) síðastliðins maímánaðar, það er síðan borið saman við vikin í maí 1979 (sem var kaldasti maímánuður 20. aldar) og að lokum er litið á spá um þykktarvik næstu tíu daga (2. til 12. júní). Skautið bara framhjá staglinu og njótið litfagurra korta úr smiðju Bolla Pálmasonar kortagerðarmeistara Veðurstofunnar og evrópureiknimiðstöðvarinnar. 

Fyrst koma þykktarvik í neðri hluta veðrahvolfs í nýliðnum maí - að mati evrópureiknimiðstöðvarinnar, Hér er við tímabilið 1981 til 2010. Vikin eru sýnd í lit og mælt er í metrum. 

w-blogg030615a

Heildregnar línur sýna meðalhæð 500 hPa flatarins í maí, daufar strikalínur sýna meðalþykkt, en litir þykktarvik. Þykktarvikið er hvergi meira á kortinu en yfir Íslandi. Þar má (sé kortið stækkað) sjá töluna -76,2 (metra), tæp -4 stig á venjulegum hitakvarða. Þetta er reyndar svipað vik og var í raun á hálendinu (aðeins stærra) - en meira en var að meðaltali í byggð.

Meðalþykkt yfir landinu í maí var 526,9 metrar. Ef við notum almenna reynslureglu fyrir hita á láglendi og þykkt fáum við út meðalhitann +2,6 stig. Það er -2,6 stigum undir meðallagi áranna 1981 til 2010. Þykktin vanmetur því hitann. Ástæða er ylur frá sjónum umhverfis landið sem og sólarylur - sem hitar auða jörð.

Hálendið naut sólaryls mun síður en láglendi í maí - var snævi hulið að miklu leyti - jú, sólin hefur brætt snjó baki brotnu - efir því sem möguleiki var á vegna skýja - en geislunarvarminn fór í bræðslu en ekki í að hækka hita yfirborðsins, það kemst ekki upp fyrir frostmark svo lengi sem einhver snjór er óbræddur. Auk þessa nýtur hálendið síður ylsins frá sjónum heldur en láglendi - hann er lengra í burtu. 

Þótt þykktin (hiti í neðri hluta veðrahvolfs) sé mjög góður mælikvarði á hita á landinu er samt sífellt misræmi þegar farið er í smáatriði.

Kortið sýnir frekar flatt hæðarsvið í námunda við landið - en vestanáttin sunnan við land var stríð í mánuðinum, jafnhæðarlínur eru þéttar. Veðurkerfi komu aðallega úr vestri. - En þeir sem eru orðnir vanir að lesa úr svona kortum ættu að sjá að jafnþykktarlínurnar (þær strikuðu) eru nokkuð þéttar norðan við land. Kalt loft liggur til suðurs með austurströnd Grænlands.  

Mestallt kortið er kalt - hlýtt er í Norður-Noregi - sem það var - og suður á Spáni - sem það líka var - en annars er kalt á öllu svæðinu. 

En - hvernig var þá maí 1979 - konungur kaldra maímánaða - einn sá kaldasti frá upphafi mælinga? Við eigum líka til þykktarvikakort reiknimiðstöðvarinnar fyrir hann og lítum næst á það.

w-blogg030615b

Hér er líka kaldast við Ísland - miklu kaldara heldur en var nú. Meðalhiti í byggð nú var 3,35 stig, en 0,14 1979, -3,2 stigum kaldara. Þykktarvikið er -121,7 metrar þar sem mest er, um -6 stig í neðri hluta veðrahvolfs, um 2 stigum kaldara en nú var í maí. 

Í maí 1979 var stöðug norðanátt - í henni er tiltölulega kaldara miðað við þykkt heldur en er í vestanáttinni - auk þess var hafís við land, sjór kaldari og meiri snjór í lágsveitum heldur en nú. Allt heldur óhagstæðara en nú. 

En hvað svo? Almennar spár evrópureiknimiðstöðvarinnar ná 10 daga fram í tímann. Kortið hér fyrir neðan sýnir hæð 500 hPa-flatarins, þykktina og þykktarvik næstu tíu daga, frá 2. júní til þess 12. Við skulum hafa í huga að almennt hlýnar talsvert í júní þannig að fyrsti hluti mánaðarins sýnir bláan lit gagnvart mánuðinum öllum - og blekkir aðeins.

Einnig þarf að hafa í huga að kortið hér að neðan sýnir 10-daga meðaltal en hin fyrri heilan mánuð. - Svo er um spá að ræða - en ekki greiningu.

w-blogg030615c

Við sjáum að kuldinn er ekkert að gefa sig næstu tíu dagana. Talan í neikvæða vikinu miðju er -114,5 metrar. Hiti í neðri hluta veðrahvolfs á að vera -5,5 stigum undir meðalagi vestur af Írlandi - ekki langt þar frá sem veðurskipið Lima var forðum daga. Harla ótrúlegt er að svo verði, í fyrsta lagi vanmetur líkanið oftast sjávarylinn - og í öðru lagi myndi hann - jafnvel þótt líkanið segi rétt til um veðrahvolfsvikið - rífa hita á veðurskipinu (stað þess) upp - þannig að hitavik á skipinu yrði ekki svona mikið. 

Hér á landi er þykktarvikið á kortinu um 80 metrar (-4 stig). Reynslusamband hita og þykktar í júní segir að sólarhringslandsmeðalhiti á láglendi verði rúm 5 stig þessa daga - og hæsta dægurhámark landsins verði lengst af á bilinu 13 til 15 stig - það er auðvitað skelfilegt í júní. 

Ætli við verðum ekki að treysta því að: a) spáin sé vitlaus, b) sólin hiti landið meira en líkanið gerir ráð fyrir, c) að sjórinn skili meiri varma til loftsins heldur en líkanið gerir ráð fyrir, d) meðaltalið feli einhverja góða daga, e) allt þetta og/eða fleira.


Langt norðan hlýinda

Harla kalt var um mestallt land í dag (mánudag 1. júní - sjá fjasbókarfærslu hungurdiska) - höfuðborgarsvæðið slapp þó betur en flest önnur landsvæði. Eina jákvæða breytingin sem sést þessa dagana er að heldur mun draga úr vindi - alla vega í bili. 

En langt er í hlýtt loft - og töluverðrar umskipulagningar á háloftavindum þörf eigi að hlýna að marki hér á landi. Þetta sést nokkuð vel á kortinu hér að neðan. Það er evrópureiknimiðstöðin sem spáir um ástandið í 500 hPa og þykktina síðdegis á miðvikudaginn kemur (3. júní).

w-blogg020615a

Jafnhæðarlínur eru heildregnar - þykkt er sýnd með litum. Við viljum helst vera í gulum eða brúnum litum að sumarlagi - kannski aðeins of snemmt að heimta slíkt snemma í júní - en samt. Langt er í sumarylinn og við sjáum af samlegu þykktar og hæðar að harla lítið er að gerast. 

Sérlega kalt er fyrir sunnan land - þar er löng háloftabylgja á hægri hreyfingu í austurátt - býr til helgarnorðaustanáttina hjá okkur - sé að marka spár. Allmikil hæð er rétt utan við kortið við Norður-Grænland og teygir sig í átt til okkar - en á víst að hörfa aftur - enda litla bót til hennar að sækja.

Við þökkum þó fyrir að sleppa við bláa litinn - svo lengi sem það varir. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg031124c
  • w-blogg031124b
  • w-blogg031124a
  • w-blogg311024a
  • w-blogg311024b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.11.): 116
  • Sl. sólarhring: 119
  • Sl. viku: 1542
  • Frá upphafi: 2407547

Annað

  • Innlit í dag: 94
  • Innlit sl. viku: 1367
  • Gestir í dag: 84
  • IP-tölur í dag: 84

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband