Suðvestanátt (illkynja?)

Suðvestanáttin var ágeng í vetur - en hefur verið heldur minna áberandi í norðantíðinni í vor. Nú tekur hún sig upp aftur í nokkra daga - með hálfgerðum (eða algerum) leiðindum um landið vestanvert - en skárra verður um landið austanvert. 

Kortið sýnir spá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir seint á sunnudagskvöld (7. júní).

w-blogg060615a

Óvenjuöflug hæð er vestur af Írlandi - en snarpt lægðardrag vestast á Grænlandshafi - á leið norðaustur. Strikalínurnar marka hita í 850 hPa-fletinum og er það 0 stiga línan (frostmark) sem er í flækju yfir landinu. Það getur engan veginn talist hlýtt á þessum árstíma - en þar sem við höfum aðallega verið með -5 stiga systur hennar yfir okkur að undanförnu verðum við að vera sæmilega sátt. 

En mánudagurinn verður leiðinlegur vestanlands - kannski verður hægt að kalla suðvestanáttina þá útsynning, skúradembur jafnvel með einhverju hvítu ívafi á aðfaranótt þriðjudags. Síðan eiga lægðir að koma á kunnuglegu færibandi næstu vikuna - en reiknimiðstöðvar eru svo ósammála um smáatriðin að við sleppum að ræða þau í bili.

Veðurnörd óróast þegar þau sjá töluna 1040 hPa á kortum í júní - hún þýðir að eitthvað er úr skorðum gengið í norðurhvelshringrásinni, kannski er hlýtt loft of norðarlega í hringnum - og sé svo er hætt við að kalt sé of sunnarlega - eða að slíks sé skammt að bíða. 

Hæsti þrýstingur sem mælst hefur í júní á Íslandi er rétt rúm 1040 hPa - það var reyndar í hitabylgjunni frægu sem gaf íslandsmetið 1939 - hlýtt loft svo sannarlega úr skorðum gengið. 

Hér að neðan eru til gamans tvö kort úr endurgreiningasafninu - það frá 1959 úr þeirri japönsku - en það frá 1992 úr interim-greiningu evrópureiknimiðstöðvarinnar. 

w-blogg060615b

Fyrst er kortið frá 1992 - að kvöldi þjóðhátíðardagsins 17. júní. Í fyrstu sýn harla líkt kortinu að ofan. Ámóta hæð vestur af Írlandi og ámóta lægðardrag við Grænland. 

Síðara kortið er frá 1959.

w-blogg060615c

Þetta kort sýnir stöðuna að kvöldi 14. júní 1959. Enn meiri hæð er suður í hafi - lægðardrag er við Grænland - en áttin er samt greinilega vestlægari heldur en nú og 1992. 

Hvað svo? Ef til vill kannast stöku lesandi við þessar dagsetningar - eða öllu heldur það sem fylgdi í kjölfarið. Upp úr stöðunni 1992 gerði eitt harðasta júníhret síðari áratuga - jónsmessuhretið mikla - þegar meira að segja varð hvítt af snjó í efstu byggðum Reykjavíkur. En upp úr stöðunni 1959 kom 17.júníhríðin mikla á Norðurlandi - sem elstu menn muna - eins og væri í gær. 

En gerist eitthvað ámóta nú? Vonandi ekki - evrópureiknimiðstöðin talar um norðanhret í kjölfarið - en að það verði ekki af verstu gerð. Nú í kvöld er líkan bandarísku veðurstofunnar að spá hríð norðanlands um næstu helgi - en allt of snemmt er að taka undir það. 

Fleira óvenjulegt er að sjá á veðurkortum þessa dagana. Sérlega djúp lægð er við norðurskautið um helgina - kortið hér að neðan sýnir miðjuþrýstinginn 973 hPa - ekki einsdæmi - en ekki fjarri því. Lægðin veldur illviðri í Norðuríshafi - skyggir á sól og dregur úr bráðnun íss - einmitt á þeim tíma þegar sólin ræður mestu um bráðnunina - og nú bætir snjó á ísinn. Hvort svo munar um þessa lægð þegar upp er staðið vitum við ekki. 

w-blogg060615d 

Kortið er úr smiðju bandarísku veðurstofunnar og gildir kl. 6 að morgni sunnudags 7. júní. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 12
  • Sl. sólarhring: 364
  • Sl. viku: 1837
  • Frá upphafi: 2350573

Annað

  • Innlit í dag: 12
  • Innlit sl. viku: 1640
  • Gestir í dag: 12
  • IP-tölur í dag: 12

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband