Bloggfærslur mánaðarins, júní 2015

Af hæsta hita ársins til þessa (á sjálfvirkum veðurstöðvum)

Nú er árið um það bil hálfnað. Hæsti hiti sem enn hefur mælst á árinu er 22,0 stig, mældist á Húsafelli þann 26. júní. Þetta þykir í lakara lagi í enda júnímánaðar - en hefur þó þrisvar verið lakara það sem af er þessari öld - og oftast nær mælist hæsti hiti ársins síðar á árinu. 

Í viðhengi má sjá lista yfir hæsta hita ársins (til þessa) á öllum sjálfvirkum stöðvum. Þar má m.a. sjá að hitinn hefur ekki enn komist í tíu stig á 3 almennum stöðvum (Laufbala, Brúarjökli og Innri-Sauðá) og einni stöð Vegagerðarinnar (Steingrímsfjarðarheiði). Lægsta talan er á síðastnefndu stöðinni, þar hefur hiti enn ekki komist upp fyrir 9 stig. Ástæðan er væntanlega hinn mikli snjór sem liggur enn á hásléttu Vestfjarða. 

Langflest hámörkin í töflunni eru frá því síðustu daga. - En þegar dagsetningar eru skoðaðar nánar kemur í ljós að á Dalatanga, Vattarnesi og í Seley eru hæstu tölurnar frá því í febrúar. Áttundi þess mánaðar er enn hlýjasti dagur ársins á þessum stöðvum. 

Á 14 stöðvum til viðbótar er hlýjasti dagur ársins í apríl (og 7 stöðvum Vegagerðarinnar er hlýjasti dagur ársins í apríl) - þetta er varla nógu gott. 

En - það hefur komið fyrir að hæsti hiti ársins á veðurstöð hafi orðið um miðjan vetur. Um það var fjallað í gömlum pistli hungurdiska - kannski mætti fara að endurnýja hann?

En leikfangalistinn er í viðhenginu - neðst má finna hæsta hita á grænlenskum veðurstöðvum það sem af er ári (þeirra sem berast til Veðurstofunnar - þær eru fleiri). 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Austanátt áfram

Ákveðin austanátt var á landinu í dag (sunnudag 28.júní) og óvenju hlýtt í Borgarfirði. Kortið sýnir stöðuna kl.18 að mati evrópureiknimiðstöðvarinnar.

w-blogg290615aa

Hæðin fyrir norðan land hefur heldur gefið eftir frá því sem var fyrir helgi - en stendur samt á móti atlögum úr suðri. Það er hins vegar lægðin krappa langt suður í hafi sem er aðalatriði kortsins. Hún hreyfist í norðaustur og síðar norður og tekur öll völd á stóru svæði. Hún grípur með sér mjög hlýtt loft við suðurjaðar kortsins og rekur það til norðurs og norðausturs. Við sjáum reyndar minnst af því - því miður. 

Það er +5 stiga jafnhitalínan í 850 hPa sem er við landið vestanvert - mjög viðunandi - en ef vel er rýnt í kortið má líka sjá frostmarkslínuna (0°C) við Suðausturland - þar sem loft streymir upp hálendið - annars er sú lína nokkuð fyrir norðaustan land.

Seinna kortið gildir á þriðjudag kl.18.

w-blogg290615a

Við sjáum vel hversu hlýtt loft streymir til norðurs yfir Bretlandi - þar eru 15 stig í 850 hPa komin yfir Ermarsund og sólarhring síðar er spáð meir en 20 stiga hita í 850 hPa langt norður eftir Englandi. Við eigum reyndar eftir að sjá þetta gerast - en staðan er mjög spennandi. Hver hitinn verður svo á veðurstöðvum Bretlands er óvíst - það fer eftir því hversu mikið rignir.

Þegar hér er komið sögu er nýja lægðin ekki farin að hafa bein áhrif á okkur - kalda loftið úr norðri hefur meira að segja fengið að nálgast - frostmarkið í 850 er við norðurströndina - en það hörfar aftur undan austanáttinni. Hlýja loftið virðist hins vegar eiga að fara alveg framhjá okkur. Töluvert gæti rignt um landið suðaustan- og austanvert með þessari lægð. 

Næsti möguleiki á verulegum hlýindum er síðan með næstu lægð á eftir þessari - þá síðdegis á föstudag (3. júlí) og síðar. 


Það sem gerist langt í burtu kann að skipta okkur máli (?)

Nú er um það bil að myndast mikill hæðarhryggur í háloftunum yfir Bandaríkjunum vestanverðum og hefur myndun hans áhrif allt austur til Evrópu næstu dagana. 

Við lítum fyrst á stöðuna eins og hún var á hádegi í dag (fimmtudag 25. júní) í greiningu evrópureiknimiðstöðvarinnar.

w-blogg260615a

Við sjáum hér mestallt norðurhvel, Ísland er rétt neðan við miðja mynd - skammt sunnan við mikla og hlýja hæð yfir Grænlandi. Hæðin hefur séð okkur fyrir aðgerðalitlu veðri undanfarna daga - en lægð er suður undan. Eins og venjulega eru jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins heildregnar - því þéttari sem þær eru því meiri er vindur í fletinum. Hann blæs samsíða línunum með lægri flöt á vinstri hönd (rétt eins og á venjulegum sjávarmálsþrýstikortum). Þykktin er sýnd í lit - því meiri sem hún er því hlýrra er í neðri hluta veðrahvolfs.

Ör bendir á vestanverð Bandaríkin - vindur þar norðan við blæs úr vestri - í aðalatriðum samsíða breiddarbaugum allt austur á austanvert Atlantshaf - bylgjurnar eru ekki stórar. 

En miklar breytingar hafa orðið á þessu mynstri á sunnudagskvöld - séu spár réttar.

w-blogg260615b

Hér sjáum við að mikill hryggur hefur skotið upp kryppu við Klettafjöll og loft hefur hlýnað umtalsvert yfir Bandaríkjunum norðvestanverðum. Þykktin (litafletirnir) er meiri en 5880 metrar þar sem mest er. Kannski ekki alveg óvenjulegt yfir Arisóna og Nevada, en norðar er um óvenjulegan atburð að ræða. Bloggarar telja mögulegt að hitamet verði slegin - en við erum ekki beinlínis að fjalla um það heldur það sem hefur gerst austan við hrygginn frá fyrra korti.

Þar sem vestanáttin var að mestu breiddarbundin (samsíða breiddarbaugum) eru nú komin tvö myndarleg lægðardrög - með miklum lengdarbundnum vindi (norðan og sunnanátt) - grænar örvar benda á lægðardrögin.

Það austara nær suður að Asóreyjum. Þessi suðlæga staða dragsins veldur því að það nær í loft af óvenjusuðlægum uppruna (og norðlægum). Þarna myndast öflug lægð - miðað við árstíma. 

Þeir sem fylgjast með erlendri umfjöllun um veður og veðurspár (fréttir, blogg og tíst) hafa efalaust séð vangaveltur um hugsanlega hitabylgju í Evrópu í næstu viku. Í dag eru spárnar fyrir Bretlandseyjar ótrúlegar - í bókstaflegri merkingu - en sennilegri fyrir Frakkland og Niðurlönd. Miklum hita er líka spáð í sunnanverðri Skandinavíu seint í næstu viku (í óljósri framtíð). 

En skiptir þetta máli fyrir okkur? Varla - en þetta er þó svo mikil röskun á háloftavindi hér sunnan og austan við að breytingar gætu einnig orðið hér umhverfis - í besta falli fengjum við þá loksins almennilega hlýtt loft til okkar - en í því versta að stuggað yrði við slæmum kuldapollum í norðurhöfum - með tilheyrandi sirkusatriðum.


Hlýtt loft í einn dag?

Þó hiti í neðri hluta veðrahvolfs yfir landinu hafi hangið í meðallagi síðustu dagana hafa flestir landshlutar ekki notið hans. Undantekningar finnast þó - helst á Vesturlandi og uppi í sveitum sunnanlands. Næstu tvo daga hlýnar talsvert í háloftunum - en enn er óvissa með árangurinn niðri við jörð.

Við lítum fyrst á kort sem sýnir þykkt og hita í 850 hPa um hádegi í dag (greining evrópureiknimiðstöðvarinnar). 

w-blogg250615a

Heildregnu línurnar sýna þykktina - yfir landinu var hún á bilinu 5420 til 5480 metrar - lægst á Austfjörðum, en hæst á Vestfjörðum. Þetta er ekki langt frá meðallagi árstímans. Litirnir sýna hita í 850 hPa - mjög kalt er vestan við Færeyjar og teygir kuldinn sig til vesturs fyrir sunnan land. 

Til föstudags hlýnar talsvert - þótt litlar breytingar sé að sjá á veðurkerfum - lægðin fyrir sunnan land nálgast heldur. 

w-blogg250615b

Kortið gildir kl. 18 síðdegis á föstudag. Hér er þykktin við Norðurland komin upp í 5560 metra - hefur vaxið um 90 metra, meir en 4 stig á hitakvarðanum. - Sömuleiðis hefur hlýnað talavert í 850 hPa - á þeim stað sem örin bendir á hefur hiti hækkað úr 2 stigum upp í 8 - hlýnað hefur um 6 stig. 

En - það þarf að hreyfa vind - og sólin verður að skína til að þetta verði að hlýindum hér neðra. Síðan á að fara að kólna aftur - ekki snögglega þó og einhver von er um góða daga áfram einhvers staðar. En skyldi þetta verða mesta þykkt sumarsins? Vonandi ekki. 


Á fimmtudaginn

Á fimmtudaginn kemur (25. júní) verður djúp lægð suður af landinu - en við verðum enn á valdi hæðar fyrir norðan land. Kort evrópureiknimiðstöðvarinnar sýnir sjávarmálsþrýsting, úrkomu og hita í 850 hPa um hádegi.

w-blogg241215a

Lægðin er öflug miðað við árstíma - er á hringferð þegar hér er komið sögu og fer að sögn ekki mikið lengra. Það sem vekur athygli á kortinu er að kalt loft situr rétt sunnan við Ísland. Þar má sjá 0 stiga jafnhitalínu 850 hPa-flatarins - en talsvert hlýrra er fyrir norðan land og sömuleiðis suður í lægðinni. Mjög hlýtt er undan Vestur-Grænlandi. Þar er hiti meiri en 10 stig í 850 hPa.

Svo virðist sem lægðin eigi að stugga eitthvað við kalda loftinu - í vesturátt - og þar með gæti eitthvað hlýnað hér á landi - jafnvel svo að hiti kæmist upp fyrir 20 stig á fleiri stöðum en bara einum eða tveimur á föstudaginn og um helgina. Bestar eru líkurnar á Vestur- og Norðurlandi (þó varla í Reykjavík). 

Hæsti hiti ársins til þessa á mönnuðu stöðinni á Veðurstofutúni er aðeins 14,3 stig - það mætti nú aðeins bæta í það. Flettingar í gagnagrunni Veðurstofunnar sýna að ástandið hefur ekki verið jafnslæmt síðan 1994 þegar hæsta hámark ársins var komið í 14,2 stig á sama tíma. En eldri dæmi eru um enn slakari árangur, t.d. 1956 þegar hæsti hiti ársins var aðeins 12,7 stig á sama tíma. 


Hægfara

Hæð er nú yfir Grænlandi og hafinu fyrir norðan Ísland og breytingar hægar. Kortið hér að neðan gildir síðdegis á miðvikudag (24. júní) og sýnir hæð 500 hPa-flatarins og þykkt. 

w-blogg230615a

Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs - því meiri sem hún er því hærri er hitinn. Mörkin á milli gulu og grænu litanna er við 5460 metra - en það er nærri meðallagi í síðari hluta júnímánaðar. Nú er veðrahvolfið hlýrra fyrir norðan land heldur en fyrir sunnan það. Þetta er viðsnúningur á því sem venjulegt er. 

Til gamans taldi ritstjórinn hversu algengt þetta hefur verið hér við land frá upphafi háloftaathugana 1949. Taflan hér að neðan sýnir að ástand sem þetta er mun algengara að sumarlagi heldur en að vetri.

mán fjöldidg á ári
jan 170,25
feb  170,25
mar 190,28
apr 250,37
maí 711,06
jún 1211,81
júl 1241,85
ágú 841,25
sep 220,33
okt 330,49
nóv 240,36
des 170,25
    
samt 5748,57

Það er reyndar þannig að þegar þetta gerist er það gjarnan tvo til þrjá daga í röð - tíðni atburða er því í raun heldur lægri en hér er sýnt. En taflan sýnir okkur samt vel að langalgengast er að loft sé hlýrra sunnan við land í öllum mánuðum - 28 daga af 30 í júní en það er aðeins fjórða hvert ár að svona dagur skjóti upp kollinum í janúar. Tíðni þessara „öfugsnúnu“ daga er sjö sinnum meiri í júlí en í janúar.

En aftur að kortinu að ofan. Mjög kalt er við Vestur-Noreg og öruggt að markir kvarta þar og kveina á miðvikudaginn. Hlýtt gæti hins vegar orðið í innfjörðum Grænlands og á stöku stað hér á landi þar sem sjávarloftið smeygir sér undir það hlýja. Yfir Baffinslandi er leiðinda kuldapollur sem á að þvælast um á norðurslóðum næstu daga - vonandi í öruggri fjarlægð frá okkur. 


Baráttan við sjávarþokuna (og fleira)

Á hægum dögum að sumarlagi - þegar hlýtt loft situr yfir landinu er hita og veðri oft engu að síður mjög misskipt. Sums staðar skín sólin glatt - og hafgola lætur lítt á sér bera. Þar er þá gjarnan 17 til 20 stiga hiti eða meir og allir ánægðir (nema örfáir - ja, ekki meira um það). Annars staðar er hafgola - en sólskin og hiti á bilinu 9 til 15 stig, kannski ekki úrvalsgott - en hentar mjög til starfa utandyra og jafnvel hægt að sitja úti í skjólsælum görðum sér til ánægju - grillveður hið besta.

Svo eru þeir staðir þar sem sjávarþokan ræðst til atlögu við landið. Í henni er allt annað og síðra veður - hiti 3 til 8 stig - kalt og rakt og flestum til ama (örfáir að vísu sem, ja, ekki meira um það). Sjávarþokan nær þó sjaldnast langt inn í land - lyftir sé fyrst sem samfelld lágskýjahula - en trosnar svo upp inni í sveitum - nema að þrýstivindur fylgi henni eftir - en þá er komið annað veðurlag heldur en er hér til umfjöllunar. 

Þannig var þetta í dag, sólstöðudaginn 2015, sunnudag 21. júní - og verður væntanlega á morgun líka (hitauppgjör dagsins má finna í fjasbókardeild hungurdiska).

Harmonie-líkan Veðurstofunnar reynir að taka á málinu. - Það er langt í frá auðvelt, þokan er mjög erfið viðfangs sem og skýjahula í hægviðri - en samt er reynt. Við lítum á nokkur kort.

Fyrst rakaspá sem gildir kl. 16 síðdegis á mánudag, 22. júní.

w-blogg220615a

Litakvarðinn sýnir rakastig í prósentum. Á fjólubláu svæðunum er það 100 prósent - þar gæti verið þoka. Sjá má þoku úti fyrir Austurlandi (þó ekki inni á fjörðum) og einnig er þokubakki á Faxaflóa. Klukkustundirnar næstar á undan var sá að koma norður með Reykjanesi og breiddist síðan til norðurs og austurs á Flóanaum. - En leysist nokkuð upp yfir landi. Klukkan 16 er enn þurrt og bjart uppi í Borgarfirði og víðast hver í uppsveitum á Suðurlandi. Björtu er einnig spáð viða við Breiðafjörð, á Vestfjörðum og sums staðar inn til landsins fyrir norðan og austan. 

Lítum þvínæst á hitaspá á sama tíma.

w-blogg220615b

Kortið  batnar sé það stækkað. Hér er hlýtt í uppsveitum á Suðurlandi og í Borgarfirði, rétt eins og í dag (sunnudag), 17 til 18 stiga hiti. En þokan á Faxaflóa er heldur kuldaleg - þar er innan við 6 stiga hiti ef trúa má líkaninu og innan við 5 stig á Húnaflóa og fyrir austan - hrollvekjandi. 

Líkanið reynir einnig við vindinn - við skulum líta á vindaspá fyrir landið suðvestanvert á sama tíma, kl.16 (mánudag 22. júní).

w-blogg220615c

Örvarnar sýna vindstefnu - en litir vindhraða. Athugið að tölur kvarðans hafa hliðrast um eitt bil til hægri. Hafgolan er á fullu á höfuðborgarsvæðinu - reyndar alveg frá því um kl.11 um morguninn og er að ganga upp Borgarfjörð og Suðurlandsundirlendið - hlýnar væntanlega á leið sinni til uppsveita. 

Í Borgarfirði á hafgolan að mæta norðaustanáttinni rétt ofan við Stafholtsey kl.16 - en baráttan er nokkuð hörð. Hún á ekki að vera komin upp að Húsafelli fyrr en kl.20. Á Suðurlandi er hafgolan komin upp í Tungur kl.16. Þar ofan við og á hálendisbrún í Hreppunum vill líkanið að loftið fari að lyftast - nái því að brjótast upp úr hitahvörfum sem liggja lágt yfir landinu. Takist það myndast skúragarðar á þeim slóðum.

Líkanið reynir líka að segja til um skúrirnar. Eins og vill verða í stöðu sem þessari myndast annað hvort nær engin skúraský - eða þá háreist og öflug. Satt best að segja er líkanið nokkuð öfgafullt í skoðunum sínum í dag. Það má sjá á kortinu hér að neðan.

w-blogg220615d

Kortið segir hversu mikil úrkoma hefur fallið í sýndarheimum milli kl.15 og 16. Við sjáum skúragarðinn nærri hálendisbrúninni - mjög snarpan - þarna er blettur með 13,9 mm á klukkustund - og á korti sem gildir kl.14 má sjá töluna 23,1 mm á svipuðum slóðum. Báðar þessar tölur gefa til kynna líkur á skýfalli. 

Ritstjórinn hefur þó innbyggða tregðu til að trúa svona háum tölum - en skúramyndunin stendur svo glöggt að ekki er víst að einn einasti dropi falli - í ökkla eða eyra er sagt. 

Þoka og dembur? Hiti eða kuldi? Kortin eru öll úr sýndarheimi - raunveruleikinn er oft með öðrum hætti. 


Fyrirstöðuhæð fyrir norðan land?

Tíu daga spá evrópureiknimiðstöðvarinnar býr til fyrirstöðuhæð fyrir norðan land síðasta þriðjung júnímánaðar. Þetta eru viðbrigði frá því sem verið hefur. Hæðin er að vísu ekkert sérstakleg öflug - en gefur alla vega von um meinlaust veður - og ekki kalt.

w-blogg210615a

Heildregnu línurnar sýna meðalhæð 500 hPa-flatarins en litirnir vik frá meðallagi áranna 1981 til 2010. Mjög hlýtt er jafnframt nærri hæðinni - þykktarvikin - (ekki sýnd hér) sem mæla hita í neðri hluta veðrahvolfs gefa til kynna að hiti verði meir en 5 stig yfir meðallagi þar sem mest er þessa tíu daga. 

Háloftahiti yfir köldum hafsvæðum er þó sýnd veiði enn ekki gefin fyrir okkur sem liggjum flöt nærri sjávarmáli - en við gætum samt átt von á að hiti verði ofan meðallags og að hitastaða júnímánaðar lagist eitthvað frá því sem verið hefur (ekki veitir af - sjá fjasbókardeild hungurdiska). 

Svo er ekkert víst að spáin sé rétt.


Meinleysislegt veðurlag

Nú er loksins komið eitthvað sem kalla má hásumarsveðurlag - hiti mætti auðvitað vera hærri - en þrýstikerfi eru meinleysisleg. Lægð fer hjá á morgun (föstudag) og á laugardaginn en síðan er helst gert ráð fyrir að háþrýstisvæði nái undirtökunum í nokkra daga að minnsta kosti.

Laugardagslægðina má sjá á kortinu hér að neðan.

w-blogg190615a

Lægðarmiðjan er nokkuð langt fyrir sunnan land og hreyfist til austurs en lægðardrag er yfir landinu og líkanið er með einhverja rigningu - eða skúrir í því. Ef vel er að gáð má sjá 5 stiga jafnhitalínu 850 hPa-flatarins yfir landinu (rauð strikalína). Það telst vel sæmilegt - hiti inn til landsins gæti verið um 2 stigum ofan meðallags - og þar sem sólin skín verða flestir ánægðir með hitann. 

Eftir að lægðin er úr sögunni breiðir hæðin úr Grænlandi úr sér og þá gæti birta eitthvað í lofti - alla vega við sjávarsíðuna. Kortið að neðan sýnir stöðuna síðdegis á þriðjudag (að mati evrópureiknimiðstöðvarinnar). Þá er kominn 23. júní.

w-blogg190615b

Þrýstilínur eru fáar við landið - ein hringar sig reyndar um það - ætli það sé ekki „hitalægðin“ - þrýstingur fellur lítillega yfir hádaginn yfir landi. Kannski verða sólfarsvindar ríkjandi þennan dag. Taka má eftir kuldapolli fyrir norðaustan land - blá ör bendir á hann. Þar er frost í 850 hPa meira en -5 stig - óþarflega kalt. Vonandi fer þetta kalda loft framhjá landinu á leið sinni um Noregshaf - en of snemmt er um það að spá. 

Útlit er því fyrir að sumarið haldi áfram - en ekki með neinum sérstökum glæsibrag. 


Það hlýjasta stendur stutt við - en samt

Nú hefur hlýnað á landinu, meðalhiti í dag (mánudaginn 15. júní) var ofan meðallags síðustu tíu ára í fyrsta skipti í mánuðinum. Morgundagurinn (þriðjudagur 16. júní) gæti gert betur, sérstaklega á Norður- og Austurlandi. Þetta er fyrsti dagurinn mjög lengi með raunhæfum möguleika á yfir 20 stiga hita einhvers staðar á landinu.

Kortin hér að neðan sýna það vel.

w-blogg160615a

Hér má sjá spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um þykkt (heildregnar línur) og hita í 850 hPa-fletinum kl. 18 síðdegis á þriðjudag. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs og gefur góðar vísbendingar um hita í mannheimum. Hámarkið er hér yfir Norðausturlandi, innsta jafnþykktarlínan er 5520 metrar - tölfræði segir okkur að hæsti hiti landsins sé þá gjarnan rétt rúm 20 stig. Enn lægri þykkt getur gefið svo háan hita - en yfirleitt er þá bæði þurrt og einhver vindur af fjöllum. 

Hin almenna hámarkshitavísbendingin sem við höfum er mættishitinn í 850 hPa-fletinum. Hann segir okkur beint hvað loft í þeim fleti (á morgun í um 1300 metra hæð) yrði hlýtt komið niður í 1000 hPa - (ekki fjarri sjávarmáli á morgun).

w-blogg160615b

Spáin gildir kl.15 á morgun (þriðjudag). Þeir sem stækka kortið sjá töluna 21,5 stig yfir Norðausturlandi. Líkur á að hiti niðri við sjávarmál sé jafn mættishitanum í 850 hPa eru oftast ekki sérstaklega miklar - það fer í þessu tilviki mest eftir því hvort sólin nær að skína - hún er hátt á lofti. Sæmilegir möguleikar - sæmilegir. 

Síðan kólnar aftur - þykktin á að falla um 40 til 100 metra næstu daga - og hitinn lækkar þá til samræmist við það - en verður samt vonandi ekki fjarri meðalhita síðustu tíu ára - þar til að nýr skammtur af hlýju lofti sækir að - við vitum enn ekki hvenær það verður. 


Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg010125i
  • w-blogg010125
  • w-blogg271224a
  • w-blogg271224aa
  • w-blogg261224ia

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.1.): 1040
  • Sl. sólarhring: 1118
  • Sl. viku: 3430
  • Frá upphafi: 2426462

Annað

  • Innlit í dag: 927
  • Innlit sl. viku: 3083
  • Gestir í dag: 899
  • IP-tölur í dag: 832

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband