Það sem gerist langt í burtu kann að skipta okkur máli (?)

Nú er um það bil að myndast mikill hæðarhryggur í háloftunum yfir Bandaríkjunum vestanverðum og hefur myndun hans áhrif allt austur til Evrópu næstu dagana. 

Við lítum fyrst á stöðuna eins og hún var á hádegi í dag (fimmtudag 25. júní) í greiningu evrópureiknimiðstöðvarinnar.

w-blogg260615a

Við sjáum hér mestallt norðurhvel, Ísland er rétt neðan við miðja mynd - skammt sunnan við mikla og hlýja hæð yfir Grænlandi. Hæðin hefur séð okkur fyrir aðgerðalitlu veðri undanfarna daga - en lægð er suður undan. Eins og venjulega eru jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins heildregnar - því þéttari sem þær eru því meiri er vindur í fletinum. Hann blæs samsíða línunum með lægri flöt á vinstri hönd (rétt eins og á venjulegum sjávarmálsþrýstikortum). Þykktin er sýnd í lit - því meiri sem hún er því hlýrra er í neðri hluta veðrahvolfs.

Ör bendir á vestanverð Bandaríkin - vindur þar norðan við blæs úr vestri - í aðalatriðum samsíða breiddarbaugum allt austur á austanvert Atlantshaf - bylgjurnar eru ekki stórar. 

En miklar breytingar hafa orðið á þessu mynstri á sunnudagskvöld - séu spár réttar.

w-blogg260615b

Hér sjáum við að mikill hryggur hefur skotið upp kryppu við Klettafjöll og loft hefur hlýnað umtalsvert yfir Bandaríkjunum norðvestanverðum. Þykktin (litafletirnir) er meiri en 5880 metrar þar sem mest er. Kannski ekki alveg óvenjulegt yfir Arisóna og Nevada, en norðar er um óvenjulegan atburð að ræða. Bloggarar telja mögulegt að hitamet verði slegin - en við erum ekki beinlínis að fjalla um það heldur það sem hefur gerst austan við hrygginn frá fyrra korti.

Þar sem vestanáttin var að mestu breiddarbundin (samsíða breiddarbaugum) eru nú komin tvö myndarleg lægðardrög - með miklum lengdarbundnum vindi (norðan og sunnanátt) - grænar örvar benda á lægðardrögin.

Það austara nær suður að Asóreyjum. Þessi suðlæga staða dragsins veldur því að það nær í loft af óvenjusuðlægum uppruna (og norðlægum). Þarna myndast öflug lægð - miðað við árstíma. 

Þeir sem fylgjast með erlendri umfjöllun um veður og veðurspár (fréttir, blogg og tíst) hafa efalaust séð vangaveltur um hugsanlega hitabylgju í Evrópu í næstu viku. Í dag eru spárnar fyrir Bretlandseyjar ótrúlegar - í bókstaflegri merkingu - en sennilegri fyrir Frakkland og Niðurlönd. Miklum hita er líka spáð í sunnanverðri Skandinavíu seint í næstu viku (í óljósri framtíð). 

En skiptir þetta máli fyrir okkur? Varla - en þetta er þó svo mikil röskun á háloftavindi hér sunnan og austan við að breytingar gætu einnig orðið hér umhverfis - í besta falli fengjum við þá loksins almennilega hlýtt loft til okkar - en í því versta að stuggað yrði við slæmum kuldapollum í norðurhöfum - með tilheyrandi sirkusatriðum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a
  • w-blogg110424b
  • w-blogg110424b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.4.): 200
  • Sl. sólarhring: 240
  • Sl. viku: 1979
  • Frá upphafi: 2347713

Annað

  • Innlit í dag: 173
  • Innlit sl. viku: 1705
  • Gestir í dag: 168
  • IP-tölur í dag: 162

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband