Tíundi maí

Hér er færsla af fjasbókarsíðu hungurdiska látin leka yfir á blogghliðina - hún varð svo löng. Lesendur mega gjarnan afsaka símskeytastílinn.

Sunnudagurinn (10. maí) var líka kaldur - en landsmeðalhiti í byggð (lhb) þó ofan frostmarks eins og í gær, reiknaðist +0,36 stig, -4,4 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Jafnkaldir almanaksbræður finnast ekki í tíð sjálfvirka kerfisins, en fáeinir nokkuð kaldari í eldri gögnum, kaldastur 10. maí 1975, lhb -2,59 stig.

Landsdægurlágmarksmet féll í dag þegar hitinn á Brúarjökli fór niður í -18,1 stig. Þetta var óvenju vel að verki staðið því þetta er miklu kaldara en gamla metið, -13,8 stig, sem sett var á Hveravöllum 1992. Þetta er þriðja landsdægurlágmarksmetið sem fellur í mánuðinum.

Lágmarksdægurmetin á sjálfvirku stöðvunum urðu 97 og er það mjög mikið. Lágmarksdægurmet féllu líka á sex mönnuðum stöðvum. Sólarhringslágmarkshiti var neðan frostmarks á 100 stöðvum í byggð, af 108, og frost var allan sólarhringinn á 9 þeirra. Leitarforritið segir að ný maílágmarksmet hafi verið sett á þremur stöðvum sem hafa athugað frá því fyrir aldamót, Neskaupstað, Fagradal og í Ögri. Neskaupstaðarmetið nær þó aðeins til sjálfvirku stöðvanna þar, kaldara var á mönnuðu stöðinni í maí 1975.

Staðan er nú sú á 67 ára listunum að maí hefur aðeins tvisvar byrjað kaldari í Reykjavík, á Akureyri og á Dalatanga. Í Reykjavík eru það 1982 og 1979 sem eru kaldari. Lengra í fortíðinni má finna meiri kulda en nú 1943 og á nokkrum árum á 19. öld í Reykjavík - kaldast var þó 1979. Á langa Stykkishólmslistanum er staðan þannig að 18 maímánuðir hafa byrjað kaldari síðustu 170 árin, kaldasta maíbyrjunin var þar 1979.

Hlýjast það sem af er mánuði er í Surtsey, meðalhitinn 3,0 stig, en kaldast í Sandbúðum á Sprengisandsleið þar sem frostið hefur verið -8,0 stig að meðaltali - mikill vetur enn á Sprengisandi. Hiti er neðan meðallags á öllu landinu, neikvæða vikið er minnst (hlýjast að tiltölu) á Skagatá og á Gjögri, -3,2 stig, en mest er vikið í Veiðivatnahrauni, -7,9 stig.

Meðalvindhraði í byggð reiknaðist 4,9 m/s - það telst viðunandi, en óþægilegur næðingur var samt víða. Snjódýptarmet fyrir maí var sett á Reykjum í Hrútafirði, snjódýpt mældist 9 cm.

Sólskinsstundirnar í Reykjavík mældust 7,1 í dag, nægir ekki alveg til að ná 1. sæti á sólskinslistanum, 0,4 stundum munar á núverandi mánuði og maí 1958. Sáralítið sólskin hefur mælst við Mývatn í mánuðinum, aðeins 17,7 stundir.

Þurrkur fer að teljast óvenjulegur - en ekki samt komið alveg að því. Úrkoma hefur verið lítil um mestallt land nema allra austast - en algjör þurrkur - [úrkoma minni en 0,1 mm] hefur verið á 14 stöðvum það sem af er mánuði (ef trúa má fréttum). Úrkoman hefur mælst 2,9 mm í Reykjavík til þessa í mánuðinum - en var t.d. engin fyrstu tíu daga maímánaðar 1958.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Við verðum orðin píreygð af rofabarðs-veðrablásturs-þurrkum Kára, þegar loksins kemur að smá gróðrar-skúrum og rykbindingum, kannski í kringum mánaðarmótin Júní/Júlí? Spyr sú sem ekki veit fyrir víst?

Sólin er máttugasta aðalmóðir jarðar, og móðir lífveranna allra mikilvægu á jörðinni, og ekkert verðum við án þessara tveggja lífsmæðra:

Sólarinnar og Móður Jarðar.

M.b.kv

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 11.5.2015 kl. 21:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg200324b
  • w-blogg200324a
  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 1
  • Sl. sólarhring: 58
  • Sl. viku: 399
  • Frá upphafi: 2343312

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 361
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband