Þrjár vikur af sumri

Nú eru liðnar þrjár vikur af sumri - eftir íslenska tímatalinu. Þær hafa verið sérlega kaldar og reyndar líka allar þurrar sunnanlands, en fyrstu sumarvikuna snjóaði talsvert víða um landið norðanvert og sérstaklega mikið allra austast á landinu.

Því er ekki að neita að kuldinn hefur verið óvenjulegur, m.a. hafa þrjú landsdægurlágmarksmet fallið. Það þarf að leita nokkra áratugi aftur í tímann til að finna viðlíka upphaf á sumri - á Akureyri og í Reykjavík er þetta þriðja kaldasta sumarbyrjun síðustu 67 ára og í Stykkishólmi hefur sumarbyrjun aðeins 14 sinnum verið kaldari en nú frá upphafi mælinga þar. 

Við skulum þó hafa í huga að kuldakastið nú „hittir vel í“ vikurnar þrjár - það byrjaði á sumardaginn fyrsta - ekki er víst að önnur þriggja vikna kuldaköst á viðmiðunartímabilum hafi gert það. En - þetta kuldakast á sér auðvitað framtíðarvon og verði næsta vika líka köld er aldrei að vita nema að sumarbyrjun 2015 skori enn betur en hingað til. 

En lítum á töflubrot sem sýna stöðu á keppnislistunum:

Fyrst er Reykjavík.

röðármeðalh.°C
119491,00
219791,08
320151,36
419822,16
519672,26
619682,39
719892,81
819752,91
919832,91
1019813,03

Hér eru það fyrstu þrjár vikur sumars 1949 og 1979 sem eru kaldari. 

Á Akureyri er staðan svipuð.

röðármeðalh.°C
11968-1,55
21979-0,93
32015-0,46
419490,05
519690,33
619810,77
719890,85
819830,88
919671,16
1019951,78

Vorið 1979 er á sínum stað, en kaldasta sumarbyrjunin er 1968 sem er í 6. sæti í Reykjavík.

Í Stykkishólmi getum við reiknað meðaltal fyrstu 3 vikna sumars allt aftur til 1846, í 170 ár. Meðalhitinn nú er +0,46 stig - og eins og nefnt var að ofan eru 14 kaldari tilvik á tímabilinu - kaldast 1882 þegar meðalhitinn var -3,52 stig og 1906 þegar hann var -1,41 stig. Bæði þessi ár gerði hrikaleg og langvinn norðanveður í upphafi sumars, - slíkt og þvílíkt höfum við sloppið við - alla vega enn sem komið er. 

Eins og nefnt var að ofan hefur úrkoma verið óvenjulítil sunnanlands og vestan. Fyrstu þrjár vikur sumars hefur hún aðeins mælst 2,6 mm í Reykjavík. Ekki er vitað um jafnlitla úrkomu í Reykjavík á sama tímabili frá upphafi mælinga 1884 (að vísu vantar mælingar frá árunum 1907 til 1919). Næstminnst var úrkoman fyrstu þrjár vikur sumars vorið 1924, 4,0 mm. Fyrir norðan var fyrsta vikan úrkomusöm - en síðari tvær þurrar þannig að ekki er enn um nein met að ræða þar um slóðir. 

Eins og fram hefur komið á fjasbókarsíðu hungurdiska (og á fleiri frjálsum fjölmiðlum) hafa sólskinsstundir verið sérlega margar í Reykjavík að undanförnu og hafa ekki verið fleiri fyrstu þrjár vikur sumars frá upphafi mælinga. Þriggja vikna summan er 237,4 stundir, næstflestar voru sólskinsstundirnar í sumarbyrjun 1958, 233,7 - síðan er talsvert bil niður í þriðja sætið, 212,3 stundir, vorið 1924. 

Þetta er flest harla óvenjulegt - en óráðin spurning hvað svo gerist.

Í pistli gærdagsins var minnst á hitabylgju í sýndarheimum gfs-líkansins á fimmtudag í næstu viku. Það fór eins og búast mátti við að sýningin stóð stutt - en í dag reis upp heldur líklegri sýn - í henni er hitabylgja næstkomandi fimmtudags njörvuð við suðausturströnd Grænlands - og evrópureiknimiðstöðin tekur undir. Þessi hiti - ef af verður nær ekki til Íslands.

En - málinu er ekki alveg lokið. Á hádegi í dag uppfærði evrópureiknimiðstöðin líkan sitt - og telur uppfærsluna auðvitað til bóta, sem hún vonandi er. En í tilefni dagsins býður reiknimiðstöðin til sinnar einkasýndarhitabylgju á laugardag í næstu viku - með uppfærðu líkani. Satt best að segja er þessi spá ekki mjög traustvekjandi en samt trúlegri en sýn þeirra amerísku í gær að því leyti að hitanum er ekki spáð alveg til Íslands. Við skulum sjá spána á mynd - fagra hugsýn eða falsvon.

w-ecm0125_millikort_t850_gh1000-500_2015051312_240

Já, ekki amalegt - nema hvað að þegar ámóta stöður koma upp í raunheimum fylgja allt of oft slæm norðanköst í kjölfarið - nú eða einhver annar ósómi. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ánægður með nýyrðið „sósómi“!

Þorvaldur S (IP-tala skráð) 14.5.2015 kl. 20:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Júlí 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30 31      

Nýjustu myndir

  • w-blogg220724b
  • w-blogg220724a
  • w-blogg210724
  • Slide2
  • Slide1

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.7.): 17
  • Sl. sólarhring: 438
  • Sl. viku: 2733
  • Frá upphafi: 2378309

Annað

  • Innlit í dag: 14
  • Innlit sl. viku: 2421
  • Gestir í dag: 14
  • IP-tölur í dag: 14

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband