Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2014

Snyrtileg vindröst

Við látum yfirlýsingar um styrk og stað illviðris eiga sig - og þó. Sunnudagslægðin er kannski ekkert sérlega stór um sig eða afbrigðilega djúp - en afskaplega kröpp er hún og fer hratt yfir. En látum Veðurstofuna alveg um það.

Lægðin gefur hins vegar tilefni til að sýna mynd af mjög snyrtilegri vindröst sem alltaf fylgir veðrum af þessari gerð. Það eru rastir sem þessar sem valda hvað mestu tjóni í evrópskum fárviðrum og hafa fengið töluverða athygli fræðimanna. Við eigum okkar skerf af þessum veðrum - en þau eru samt ekki nema hluti íslenska illviðrasafnsins.

Erlendir félagar okkar í fræðunum nota oftast orðin „sting jet“ yfir fyrirbrigðið. Íslenska orðið „stingröst“ kemur til greina - en ritstjórinn er ekki búinn að smjatta á því orði nægilega lengi til að sættast við það - en hans álit skiptir engu máli - það verður eitthvað orð ofan á um síðir. 

En lítum á mynd af röstinni sem fylgir lægð dagsins. Hún sýnir þversnið úr harmonie-líkaninu eftir línu sem liggur norður 23. breiddarstig - rétt vestan við Reykjanes, norður yfir Snæfellsnes og Vestfirði. Sniðið nær frá jörð og upp í 250 hPa hæð (um 10 km). 

w-blogg301114a

Við sjáum Snæfellsnes og Vestfirði sem gráa hryggi sem stingast upp í myndina. Jafnmættishitalínur eru heildregnar og merktar í Kelvistigum (munum að mættishiti hækkar (nær) alltaf upp á við. Hefðbundnar vindörvar sýna vindhraða og vindstefnu. Austanátt er norður af Vestfjörðum en annars er áttin víðast vestlæg. 

Litir sýna vindhraða - grænu svæðin sýna hægan vind (minni en 10 m/s) en aðrir litir meira. Hámarksvindur er í um 850 hPa-hæð (hér í rúmlega 1000 metrum frá jörð) yfir Faxaflóa. Þar er vindur meiri en 40 m/s af vestsuðvestri. 

Vindur minnkar til allra átta frá hámarkinu - upp og niður, suður og norður - en röstin er á lengdina inn og út úr blaðinu. Þetta er megineinkenni snyrtilegrar „stingrastar“ - þverskurður af pulsu - hámark neðarlega í veðrahvolfi - minni vindur ofan við - og svo annað vindhámark miklu ofar (ofan við þetta snið). 

En nær svona röst til jarðar? Það er nú það. Meðan hún streymir yfir sjó - er núningur við sjávaryfirborð líklega það eina sem dregur úr henni. Hætt er við því að hún nái að mestu niður að sjó - má giska á 70 prósent af styrk í rastarmiðju (28 til 30 m/s). Skelfilegt sjólag getur fylgt - sé straumlag mislægt við vind. Yfir sléttu landi er núningur meiri - vindur verður sums staðar ekki svo mikill - minni en 50 prósent af styrk í rastarmiðju - enn minni inni í skógi en samt er ekki á það að treysta. Háar byggingar geta valdið usla með því að draga vindorku niður undir jörð. 

Þar sem röstin gengur yfir fjöll er fjandinn laus (afsakið orðbragðið). Fjöllin trufla flæðið og búa til miklar bylgjur sem geta brotnað og dregið fullan styrk rastarinnar (eða jafnvel meira) alveg niður til jarðar.

Þversniðið hér að ofan úreldist með hverri nýrri spá - það er því alls ekki nothæft sem spá um veður kl. 21 á sunnudagskvöld. Hér er einungis verið að sýna dæmi um snyrtilega vindröst sem gjarnan fylgir kröppum lægðum á norðurslóðum. Veðurspár eru gerðar af Veðurstofunni eða öðrum til þess bærum aðilum (eins og segir á nútímalegu stofnanamáli) - en ekki á hungurdiskum. 


Er þetta sunnudagslægðin?

Lægðin sem á að valda illviðri á sunnudag er nú rétt að fæðast. Við lítum á gervihnattarmynd sem sýnir fæðinguna. Taka verður fram að endanleg braut lægðarinnar er óráðin og því aldeilis óvíst hvort landið lendir í illviðrinu eða ekki. 

w-blogg281114a

Myndin er af vef kanadísku veðurstofunnar (Environment Canada). Landaskipan ætti að vera skýr. Kúba sést í suðurjaðri myndarinnar og hún nær norður á Davíðssund milli Labrador og Grænlands. 

Þetta er hitamynd og er hún lituð þannig að köldustu skýin (háský) eru gulbrún - miðský eru grá og hvít. Hluti af heimskautaröstinni liggur allt sunnan frá Karabískahafinu norður til Grænlands. Suðurendinn er sveigður í lægðarbeygju - en nyrst er komin hæðarbeygja á hana. Uppstreymisbönd (háský) fylgja gjarnan röstinni.

Vestan við röstina bendir ör á það sem hér er kallað riðalauf (hrá þýðing á ensku heiti fyrirbrigðisins - baroclinic leaf). Þetta er reyndar óvenju falleg fæðing á laufi - ef við rýnum betur í myndina sjáum við að því fylgir eins konar rót - byrjar í hægt breikkandi miðskýjaflóka sem að lokum myndar laufið. Hér má einnig sjá að laufið er kaldast á norðurbrúninni - þar eru skýin hæst - trúlega í háskýjahæð. 

Nú er það svo að það er ekki endilega þetta lauf sem verður að aðalskýjakerfi lægðarinnar. Við sjáum t.d. að til hliðar við stóru rótina er önnur minni - hún gæti hugsanlega tekið búið til annað lauf - stærra heldur en það sem við sjáum. Nú - sömuleiðis gætu rótarskotin orðið fleiri - verða það ábyggilega.  

Þegar laufið (þetta eða annað nýrra) vex mun það mynda stóran haus á lægðakerfið - það er ekki alveg víst að sá haus verði að aðalillviðrinu - við vitum það ekki enn - og þess vegna eins gott að vera ekki að flækja málið frekar. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Lagt upp fyrir illviðri?

Við höfum hingað til í haust sloppið að mestu við skröltið í kanadíska heimskautakuldapollinum - þeim sem hefur oft verið kallaður „Stóri-boli“ hér á hungurdiskum. Í síðustu viku var hann mjög að plaga ameríkumenn vestur við vötnin miklu - og heldur því að einhverju leyti áfram. 

En nú virðist hann vera að leggja upp fyrir sígilda lægðaárás á Atlantshafinu - og jafnvel alveg til Íslands. Ekki er það þó svo að kuldans gæti hér að ráði. 

Við lítum á spá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir kl. 18 síðdegis á föstudag (28. nóvember).

w-blogg271114a

Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar, því þéttari sem þær eru því meiri er vindurinn sem blæs samsíða þeim. Litir sýna þykktina. Hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs - því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Mörkin á milli gulu og grænu litanna er við 5460 metra - segja má að sumarhiti sé í gulu litunum. Mörkin á milli grænu og bláu litanna er við 5280 metra (9 stigum kaldara en 5460 metrar) - rétt ofan við meðallag þessa árstíma á Íslandi.

Við sjáum að mjög hlýtt er við Ísland miðað við árstíma - 5400 metra liturinn sleikir suðurströnd landsins, 6 til 7 stigum ofan við meðalhita. Það er alveg í stíl við það sem verið hefur að undanförnu. 

En það er ekkert mjög langt í heldur kaldara loft - það nálgast heldur á laugardag - en aftur hlýnar verulega á sunnudag - í bili. 

En við Nýfundnaland er mikil háloftavindröst, jafnhæðarlínurnar eru þéttar og þar að auki eru þykktarlitirnir í þéttum vöndli. Meðan jafnþykktar- og jafnhæðarlínur standast á - liggja samsíða - jafnþétt gætir átakanna í háloftunum lítt við jörð. En um leið og misgengi verður á milli hæðar og þykktar er illt í efni. 

Ef farið er í smáatriði kortsins má sjá tvær bylgjur í þykktarsviðinu - þar sem hlýtt loft gengur inn í átt að lægri fleti. Þær eru merktar með tölustöfunum 1 og 2. 

Bylgjan sem merkt er „1“ er sú sem í dag (miðvikudag) er að valda samgönguleiðindum í norðausturríkjum Bandaríkjanna - og hún virðist ætla að fara fram úr sér - lægðin nær sér ekki frekar á strik.

Aftur á móti á bylgjan sem merkt er „2“ að dýpka verulega þegar hún kemur norðaustur fyrir Nýfundnaland. Hún á síðan að fara til norðurs fyrir vestan land á sunnudag. Varla þarf að taka fram að spár eru ekki sammála um smáatriðin - en ljóst er þó að mjög hvassir vindar fylgja lægðarmiðjunni hvar sem hana annars ber niður. 

Rétt er fyrir áhugasama og þá sem eitthvað eiga undir að fylgjast vel með spám Veðurstofunnar næstu daga. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Næsta lægð (ýtir undir óbreytt ástand)

Einhvern veginn hefði maður haldið að næsta lægð stefndi beint í átt til landsins ofan í útsynninginn í dag (þriðjudag 25. nóvember). - Reyndar var þetta heldur aumur útsynningur - en sýndi þó mjög fallega klakka og stöku él - og að sögn fáeinar þrumur líka. 

Við rétt lítum á spákort evrópureiknimiðstöðvarinnar fyrir N-Atlantshaf kl. 18 á morgun (miðvikudag 26. nóvember).

w-blogg261114a

Landið er í mjög hægum suðlægum vindi. Þarna má sjá lægðina sem minnst var á í upphafi Hún gerir sig líklega - finnst manni - til að fara til austurs ekki langt fyrir sunnan land - nema hvað - hún á að taka strikið beint suðaustur til Spánar. 

Um leið og það gerist beinir hún hingað hlýju lofti úr suðaustri - sem er svosem ekki amalegt. Þar með aukast enn líkur á að núlíðandi nóvember verði sá hlýjasti um langt skeið - ekki methlýr kannski en ekki langt þar fyrir neðan. 

Í augnablikinu er meðalhiti 5,7 stig í Reykjavík, var 6,0 sömu daga 1956 - sá mánuður hrapaði niður í 5,0 á síðasta sprettinum. En fyrsta sætið er varla innan seilingar - sömu dagar í nóvember 1945 eiga meðalhitann 7,1 stig - en hann endaði stigi neðar. 

Hitauppgjör alls ársins fer nú að verða spennandi svo um munar - við eigum nefnilega töluverða möguleika á hlýjasta ári frá upphafi mælinga. En - desember er eftir - við munum vel vonbrigðin 2011 þegar fyrsti kaldi vetrarmánuðurinn í 9 ár reið yfir - fyrirvaralaust. Héldu þá sumir að hlýskeiðinu væri lokið - en síðan eru liðin 3 ár og við erum enn ekki búin að yfirgefa það - nema síður sé. 


Fáein orð um snjóleysi

Spurt var hversu algengt snjóleysi sé í nóvember - og í framhaldi af því hvort snjóleysið á landinu að undanförnu sé óvenjulegt. Þar sem athuganir á snjó skila sér aldrei alveg allar jafnóðum (því miður) er erfitt að negla niður svar varðandi snjóleysið nú. Í morgun (mánudaginn 24. nóvember) var flekkótt jörð á aðeins einni veðurstöð landsins - annars var alautt.

Svo virðist sem hvergi hafi orðið alhvítt í byggð síðustu 12 daga (með áðurnefndum fyrirvara). Skrá um daglegar snjóhuluathuganir er talin nokkuð áreiðanleg aftur til ársins 1967 og auðvelt er að leita í henni að upplýsingum um snjóhulu - og þá sérstaklega hversu marga daga við finnum í röð þegar hvergi er alhvítt á landinu. Flekkótt jörð látin liggja milli hluta.

Þegar fyrirspurn er rennt í gegnum töfluna kemur í ljós að frá og með nóvember til og með apríl eru langar syrpur daga þar sem hvergi er alhvítt beinlínis sárasjaldséðar.

Í nóvember áranna 1967 til 2013 finnast ekki nema fimm vikulangar syrpur eða lengri. Sú lengsta var 11 daga löng og endaði 12. nóvember 1980. Syrpan í ár er orðin lengri. - En nú verðum við aðeins að gæta okkar. Nóvembersyrpur geta nefnilega náð inn í desember og ef við flettum því upp finnst ein slík - hún endaði 4. desember 2002 og var 14 daga löng. Sjónarmun lengri en núverandi syrpa er þegar þetta er skrifað. Þrjár aðrar syrpur, vika eða lengri eru í desember.

Í janúar er ein mjög löng syrpa, 13 dagar. Hún endaði 13. janúar 1972, byrjaði sum sé á gamlársdag 1971. Næstlengstu janúarsyrpurnar (3 að tölu) eru aðeins þriggja daga langar og lengsta febrúarsyrpan er ekki nema 5 daga löng (endaði 28. febrúar 2006). Mars á eina sjödagasyrpu (endaði þann 3. 1972) og sú lengsta í apríl er 11 dagar, endaði þann 26. árið 2003. 

Við höfum sumsé verið að upplifa óvenjulegt snjóleysi síðustu tvær vikurnar. 

Það gerist hins vegar endrum og sinnum að aldrei er alhvítt í Reykjavík í nóvember eða á 6 til 7 ára fresti að jafnaði. Á Akureyri var nóvember síðast snjólaus 1987, en nóvember í ár er alls ekki inni í þeirri keppni því alhvítt var á þar í nokkra daga fyrr í mánuðinum. 

Ólíklegt er, en ekki alveg útlokað ennþá, að nóvember í ár verði sá snjólausasti á landinu í heild - keppnin er mjög óvægin, snjóhula var t.d. ekki nema 8 prósent í byggð í nóvember 1960 og 10 prósent 1933. 

Mest var snjóhulan í nóvember 1969, 75 prósent, og 74 prósent 1930. 


Áframhaldandi sunnanátt (- en með vestrænu ívafi)

Sunnanáttin sem hefur yljað okkur svo um munar síðastliðna viku heldur áfram - en ekki jafnhlý sem fyrr. Til þessa hefur hún lengst af átt austlægan þátt - loftið hefur ýmist komið langt sunnan úr höfum eða frá Evrópuströndum vestanverðum. Nú virðist aðeins skipta um uppruna. Sunnanáttin heldur áfram - en inn á milli verður hún með vestrænu ívafi. Loftið á þá kaldan uppruna í Kanada - en hefur farið langa leið yfir hlýjan sjó áður en hingað er komið.

Þetta þýðir að næsta vika verður varla jafnhlý og sú síðasta. Kortið að neðan sýnir spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um meðalþrýsting næstu tíu daga - fram til 3. desember.

w-blogg241114a

Heildregnu gráu línurnar sýna meðalþrýsting við sjávarmál, gráar strikalínur meðalhita í 850 hPa og litirnir hitavik í þeim sama fleti. Þau eru oft svipuð við jörð. Það er -4 stiga jafnhitalínan sem gengur þvert yfir landið frá suðri til norðurs.

Það er ein af gömlum þumalfingursreglum að skilin á milli snjókomu og rigningar liggi ekki fjarri -5 stiga jafnhitalínunni í 850 hPa. Ýmis vik eru þau frá þeirri góðu reglu - en við sjáum samt að varla fer hjá því að eitthvað hvítt komi við sögu þessa næstu viku - varla þó lengi hverju sinni. 

En ef trúa má spánni verður hiti um landið norðanvert 2 til 3 stigum hærri en að meðaltali 1981 til 2010 - og rétt yfir meðallaginu sunnanlands. Kalda loftið að vestan á langan slóða um þvert hafið frá Kanada allt suður um Asóreyjar og til Portúgal.

Munum þó ætíð að kort sem þetta fela margt - og ekki er það allt smátt. Lægðirnar sem fara hér hjá verða víst býsna stórar sumar enda er þrýstingurinn í meðallægðarmiðjunni á kortinu um 20 hPa undir meðallagi árstímans. 


Kuldaskil á mánudag (24. nóvember)

Reiknimiðstöðvar gera nú ráð fyrir því að nokkuð snörp kuldaskil gangi austur yfir landið á mánudaginn (24. nóvember). Evrópureiknimiðstöðin segir að það kólni um 9 stig samfara skilunum. Kalda loftið er komið frá Kanada.

Þetta sést vel á kortinu hér að neðan.

w-blogg231114a

Kortið gildir á hádegi á mánudag (24. nóvember). Jafnþrýstilínur (við sjávarmál) eru heildregnar, vindur 700 hPa sýndur með hefðbundnum vindörvum. Daufar strikalínur sýna þykktina (fjarlægðina milli 500 og 1000 hPa þrýstiflatanna) og litirnir þykktarbreytingu næstliðnar 6 klukkustundir. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs - því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. 

Bláu litirnir sýna svæði þar sem þykktin hefur lækkað síðustu klukkustundirnar, þeir bláu byrja við 3 dam (30 metra) lækkun. Hverjir 20 metrar í þykkt eru ekki fjarri 1 stigs hitabreytingu. Í bláa svæðinu sem er yfir landinu vestanverðu má sjá töluna -17 dam = 170 metra eða hitafall upp á 8,5 stig á 6 klst. 

Það er nokkuð afgerandi. Ef við reynum að ráða í þykktartölurnar sjálfar má með góðum vilja sjá að 5280 metra línan liggur inni í bláa svæðinu. Það er nálægt meðallagi árstímans. 

Sé mikil úrkoma samfara skilunum má búast við því að eitthvað hvítt sjáist - hvort og hvar snjó festir látum við Veðurstofuna eða aðra til þess bæra aðila ráða í - hungurdiskar gera ekki spár. 

En 5280 metra þykkt er ekki mikill kuldi - svo kemur næsta lægð með hlýrra lofti - við sjáum hlýtt aðsópsvæði hennar í gula blettinum suður í hafi. Hlýindin halda því áfram - en.

Og það er dálítið mikilvægt en - því við þurfum aftur að fara að huga að hálkunni og megum ekki láta hana koma okkur í opna skjöldu. 


Sérlega hlýtt ár á Íslandi (eða bara hlýtt)?

Nú er árið ekki búið - og ársmeðalhitinn þar með ekki þekktur. Spár um þær tæpu 6 vikur sem eftir lifa af því eru ekki sérlega áreiðanlegar - en samt virðast þrálátir kuldar varla í augsýn - (gætu auðvitað dottið yfir fyrirvaralaust). 

En nú skulum við fara að giska. Til þess notum við dálítið aðferð sem verður að fylgja úr hlaði með einkennilegri aðvörun: Ekki er hér fylgt reglum um jafnvægi mánaða. Jæja - hungurdiskar hafa fjallað um það innvígðramál áður - látum það bara ekki trufla leikinn.

En við reiknum út meðalhita ársins til og með 21. nóvember árin frá 1949 til 2013 og berum hann saman við endanlegan ársmeðalhita sömu ára.

Meðalhiti ársins til þessa dags er nú 6,67 stig í Reykjavík og hefur aðeins einu sinni verið hærri á viðmiðunartímabilinu - það var 2003 þegar hann var 6,80 stig - ekki munar nú miklu. 

Myndin sýnir dreifirit þar sem ársmeðalhitinn (til 21. nóvember) er lagður á móti lækkun hita viðkomandi árs fram til áramóta (sá hiti er rétt reiknaður).

w-blogg221114a

Við sjáum að hiti hefur alltaf lækkað á tímabilinu frá 22. nóvember til áramóta - en mismikið. Lárétti ásinn sýnir hitalækkunina, hún var mest 1973, en minnst 2002 - þetta eru kaldasti og hlýjasti desembermánuðir tímabilsins. Við sjáum - með góðum vilja - að lækkunin sýnist ívið meiri í hlýjustu árunum heldur en þeim köldustu - sú tilhneiging er þó varla marktæk.

Árið 2014 á engan punkt á myndinni - (lækkun til áramóta er óþekkt) - en staða þess er merkt sérstaklega með rauðri strikalínu. 

Nú getum við búið til nokkrar ágiskaðar tölur fyrir árið: Meðallækkun á öllu tímabilinu er -0,58 stig. Meðallækkun gefur því ársmeðalhitann 6,09 stig - sjónarmun hlýrra en hlýjasta ár sem við þekkjum til þessa (2003) ef hitinn lækkar hins vegar jafnmikið og hann gerði árið 2003 (-0,74) yrði lokatalan 5,93 stig. Ef lækkunin yrði sú sama og 1973 (-1,07) færi hitinn niður í 5,60 stig - en ef hún yrði jafnlítil og 2002 (-0,08) yrði meðalhitinn 6,59 stig. Slík tala myndi sæta verulegum tíðindum - harla ólíklegt. 

Á Akureyri stendur árið í ár enn betur. Þar er meðalhitinn til þessa 6,03 stig, meðallækkun á Akureyri er -0,63 og myndi keyra hitann niður í 5,40 stig. Það dugir ekki alveg til að skáka út árinu 1933 en með sín 5,56 stig virðist það vera nánast utan seilingar. Ef hins vegar við fáum hlýjan desember og lækkunin yrði sú sama og 2002 (-0,19) endaði árið 2014 á Akureyri í 5,84 stigum. Já, - varla verður það nú svo. 

Samskonar mynd fyrir Akureyri er í viðhenginu.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Kuldapollur - eða kuldapollurinn eða ?

Í fréttum af kuldum vestanhafs hefur hugtakið „polar vortex“, langoftast með ákveðnum greini vaðið uppi. Þeir sem eitthvað hafa fylgst með umræðum á bakvið fréttirnar hafa sjálfsagt orðið varir við ákveðinn pirring sérfræðinga vegna notkunar á hugtakinu. Sá pirringur er ekki alveg ástæðulaus - mörgum finnst fréttamenn séu að stela orðunum til að nota yfir annað heldur en hefðbundið er. 

Ónákvæmni og ágreining mætti reyndar losna við að mestu ef ákveðna greininum væri sleppt og óákveðinn notaður í staðinn í daglegum fréttaflutningi. Hér á landið eigum við í aðeins öðrum vandræðum - rétt íslenskt orð um „the polar vortex“ (með ákveðnum greini) hefur ekki enn fundist - við eigum hins vegar ágætt orð um „a polar vortex“. Þetta er nú eitthvað dularfullt? En lítum aðeins á málið.

Um margra áratuga skeið hafa háloftalægðirnar stóru sem ná yfir stóra hluta norðurhvels verið kallaðar „the polar vortex“. Það gerir þýðingu á íslensku erfiðari að þær eru eiginlega tvær. Önnur situr í heiðhvolfinu - en hin við veðrahvörfin og efri hluta veðrahvolfs. Eðli lægðanna er svosem svipað. Sú í heiðhvolfinu er sjáanleg og skýr flesta daga vetrarhelming ársins - en hverfur algjörlega á sumrin. Stundum hleypur óþekkt í hana um miðjan vetur og hún skiptist í tvennt. Við viljum geta talað um heiðhvolfslægðina án þess að vera sífellt að rugla henni saman við það sem neðar er. 

Dæmi um heiðhvolfslægðina í góðum gír sést á kortinu hér að neðan - frá því í janúar á þessu ári (2014).

w-blogg211114a

Þá vitum við það. 

Veðrahvarfalægðin er meðaltalsfyrirbrigði - lega hennar og lögun skiptir höfuðmáli fyrir veðurfar frá ári til árs - en veður frá degi til dags víkur mikið frá meðaltalinu. Lítum á meðalhæð 500 hPa-flatarins og þykktarinnar í janúar 1981 til 2010.

w-blogg211114b

Sé flett upp í skilgreiningu á „the polar vortex“ í orða- og hugtakasafni bandaríska veðurfræðifélagsins fáum við lýsingu á þessu korti [tengillinn á að vísa á staðinn]. 

Lægðarmiðjurnar eru tvær í janúar á meðalkortunum - önnur yfir kanadísku heimskautaeyjunum, en hin yfir Austur-Síberíu. Takið eftir því að meðalhæð flatarins í miðri lægðinni er um 5000 metrar. Áraskipti eru á styrk og staðsetningu - rétt eins og á öðrum meðalfyrirbrigðum t.d. svonefndri Íslandslægð.[Íslandslægðin sést reyndar vel á þessu korti - og ástæðan fyrir því að hún er þar sem hún er - um það höfum við fjallað nokkrum sinnum áður á hungurdiskum]. 

En þetta er bara meðaltal - frá degi til dags eru fjölmargar lægðarmiðjur á ferð á norðurslóðum. Við eigum einfalt orð yfir þær: Kuldapollar - nú heimskautakuldapollar vilji menn það frekar. Það gætu ameríkumenn alveg nefnt „a polar vortex“ - með óákveðnum greini - og nafnavandamálið þar með úr sögunni.

Bandaríkjamenn fá stundum kuldapolla yfir sig úr norðri - alveg óspillta af upphitun sjávar - til þess þarf þó ákveðin hringrásarskilyrði - sem við skulum bíða með að velta vöngum yfir.

En lítum á spákort sem gildir síðdegis á laugardag 23. nóvember.

w-blogg211114b2

Rauði strikalínuhringurinn er sá sami og á meðalkortinu hér að ofan. Við skulum taka eftir því að lægsta hæð 500 hPa-flatarins er hér talsvert minni en á meðalkortinu. Á meðalkortinu var enginn fjólublár litur - en bláa svæðið er þar talsvert stærra heldur en nú - enda gildir það kort í janúar - en enn er bara nóvember. 

Næsta kort er alveg eins - nema að búið er að setja hringi utan um helstu kuldapollana.

w-blogg211114c

Hér er enginn kuldapollur yfir Bandaríkjunum - sá sem er milli Labrador og Grænlands er að hlýna. Sá sem rétt norðan við Hudsonflóa er öflugri - en er ekki á leiðinni neitt - í bili. Við sitjum í sunnanhlýviðri.

Nú er mjög þægilegt fyrir okkur - á íslensku að tala um Hudsonflóakuldapollinn - og sjálfsagt fyrir ameríska að tala um „a polar vortex“ við Hudsonflóa - „the polar vortex“ nær nefnilega yfir allt svæðið - lauslega innan þykksrauðstrikaða hringsins - og kuldapollurinn yfir Síberíu er mun öflugri heldur en sá við Hudsonflóa. 

En mæðist ekki mjög yfir þessu. Kuldapollar verða við líði á bloggi hungurdiska svo lengi sem það lifir. 


Stefnir í hlýjan nóvember?

Það er við hæfi að setja þungt spurningamerki í fyrirsögnina - því í dag er bara sá 18. (þriðjudagur). Margs konar veður er framundan allt til mánaðamóta. Lengstu spár eru þó farnar að teygja sig nánast alla leið - og sýna alla vega ekki mikla kulda. En þeir gætu samt laumast að okkur.

En sem stendur er meðalhiti mánaðarins það sem af er um 5 stig í Reykjavík (sjá lítið x á línuritinu að neðan). Nóvember er ekki oft hlýrri en það. Það er ólíklegt að þau fimm stig haldist út mánuðinn en góð von er um 3 til 4 stig. Meðalhiti nóvember síðustu tíu árin er um 2,2 stig.

Fyrir rúmum mánuði var þess getið hér á hungurdiskum að október væri sá mánuður ársins sem minnst vissi af almennri hlýnun síðustu áratuga. Nóvember fylgist betur með. 

w-blogg181114

Kuldaskeið síðari hluta 20. aldar var sérlega eindregið í nóvember - það var jafnvel kaldara heldur en síðustu áratugir 19. aldarinnar. Mjög hlýtt var í nóvember á árunum 1950 til 1960 og hefur 10-ára meðalhitinn ekki náð sömu hæðum síðar. Hæst varð 10-ára meðalatal áranna 1952 til 1961. Ritstjórinn man vel þegar tölurnar fyrir nóvember 1963 birtust í fréttum - reyndist hann vers sá kaldasti í meir en 30 ár. Þetta var þegar Surtseyjargosið hófst og Kennedy myrtur. 

Síðan voru kaldir nóvembermánuðir regla frekar en undantekning í meir en 20 ár. Eldri veðurnörd muna þó hlýindin í nóvember 1968. Kaldastur varð nóvember 1996 - líka óvenjulegur að því leyti að kuldanum þeim fylgdi góðviðri lengst af - að slepptu slæmu sjávarflóðaveðri um miðjan mánuð.


Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 12
  • Sl. sólarhring: 184
  • Sl. viku: 2459
  • Frá upphafi: 2434569

Annað

  • Innlit í dag: 10
  • Innlit sl. viku: 2184
  • Gestir í dag: 10
  • IP-tölur í dag: 10

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband