Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2014

Sunnanáttavika?

Austanátt var ríkjandi alla síðustu viku - og lengst af var áttin heldur norðan megin við austur. Nú verður einhver breyting á - austanáttin er samt ekki horfin heldur mun hún ekki ríkja alla daga. Evrópureiknimiðstöðin telur líklegt að áttin verði samt að meðaltali af suðri. Við sjáum þessa hugmynd á kortinu hér að neðan og nær það yfir dagana 16. til 26. nóvember. Kortið sýnir meðalsjávarmálsþrýsting (heildregnar línur), meðalhita í 850 hPa-fletinum (strikalínur) og vik 850 hPa hitans frá meðallaginu 1981 til 2010 (litafletir). 

w-blog171114a

Jafnþrýstilínurnar liggja um landið frá suðri til norðurs og sýna sunnanátt. Höfum það í huga að hér er um meðaltal að ræða - ekki er víst að áttin verði nokkurn tíma eins og hér er sýnt. Það eru þó hitavikin sem vekja mesta athygli, austan við Grænland á hiti að verða að meðaltali nærri tíu stigum ofan meðallags í 850 hPa næstu tíu daga og 4 til 5 stig ofan meðallags hér á landi. Þeir sem sjá vel (kortið batnar við stækkun) ættu að koma auga á ívið minni vik í hafáttinni sunnanlands (2 til 3 stig). Mjög hlýtt hefur verið undanfarna daga - spurning hvort einhverja enn hlýrri daga reki á fjörur okkar næstu tíu dagana?

Kuldinn að vestan vekur auðvitað athygli líka - ekkert nema kalt loft á markaði yfir Norður-Ameríku austanverðri um þessar mundir. Svo má sjá að hiti er nærri meðallagi í austanáttinni yfir Danmörku og Suður-Svíþjóð. Á þeim slóðum er það merki um árstíðaskipti þegar hitavikin í austanáttinni skipta um formerki. 


Af nóvembermetum

Í hlýindunum undanfarna daga hefur hitamet borið á góma. Sérstaklega hefur verið hlýtt um landið sunnan- og suðvestanvert. Hæsti hiti sem frést hefur af í mánuðinum til þessa eru 15,3 stig sem mældust á vegagerðarstöð sem kölluð er Öræfi og 14,5 stig á Skrauthólum á Kjalarnesi - þetta var í gær föstudaginn 14. nóvember. 

Nóvemberhitamet hafa fallið á nokkrum sjálfvirkum veðurstöðvum, m.a. á Reykjavíkurflugvelli og ekki munaði miklu að kvikasilfursmet Reykjavíkur félli (12,6 stig). Það er ekki oft sem hiti mælist yfir 12 stig í Reykjavík í nóvember. 

En þótt þessar tölur séu sannarlega háar - miðað við nóvember - eru þær langt frá landshitameti nóvembermánaðar. Það met var sett á sjálfvirku stöðinni á Dalatanga kl.22 þann 11. árið 1999 og fyrir þá sem vilja helst bara kvikasilfursmælingar er hæsta talan 22,7 stig sem lesin voru af mælinum á Dalatanga kl. 9 að morgni 12. nóvember 1999.

Þessi sami dagur, 11. nóvember 1999 á líka hæsta lágmarkshita nóvembermánaðar, 13,4 stig. 

Hungurdiskar hafa áður fjallað um Dalatangatölurnar og fleiri mjög háar mælingar í þessum sama mánuði 1999. En hiti hér á landi hefur komist yfir 20 stig í fjórum nóvembermánuðum, 1999, 2001, 2011 og 2013. Enn lifir hálfur mánuður af nóvember 2014 - og því ekki útséð um 20 stigin í honum - en til þess dugar austanáttin sennilega ekki.

Þar til metið 1999 var sett voru 19,7 stig frá 10. nóvember 1971 hæsti nóvemberhiti landsins - einnig mæld á Dalatanga. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Vetur hafinn í heiðhvolfinu

Nú er vetur að ganga í garð í heiðhvolfinu. Norðurslóðalægðin mikla er komin í sitt hefðbundna sæti og hiti í 30 hPa-fletinum er kominn niður í -80 stig þar sem lægst er. Þá getur glitskýjatíminn líka hafist hér á landi - þau gera þó helst vart við sig þegar vindur er hvass og vindátt er svipuð í veðrahvolfi og heiðhvolfi - en þannig er það ekki í austanáttinni (í veðrahvolfi) þessa dagana. 

w-blogg141114a

Kortið sýnir hæð og hita í 30 hPa fletinum eins og bandaríska gfs-líkanið segir til um. Jafnhæðarlínur eru heildregnar og eru merktar í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Hæð flatarins í lægðarmiðjunni norður af Síberíu er innan við 22500 metrar. Hiti er sýndur með litum. 

Heiðhvolfshringrásin skiptir sér að jafnaði lítið af veðrahvolfinu - það kemur þó fyrir - eins og hungurdiskar hafa nokkrum sinnum minnst á. 


Hlýindi - ekki samt alveg allsstaðar (eða hvað?)

Austanáttin hefur nú breitt hlýindi yfir landið allt. Þau mættu engri fyrirstöðu í framsókn sinni í 5 km hæð - lögðust bara yfir. Það sjáum við á 500 hPa-kortinu hér að neðan sem sýnir hæð 500 hPa-flatarins, auk hita og vinds. Svona verður þetta kl. 18 á morgun að sögn evrópureiknimiðstöðvarninnar.

w-blogg121114a

Jafnhæðarlínur eru heildregnar, vindur er sýndur með hefðbundnum vindörvum og hiti með lit - kvarðinn batnar við stækkun. Hlýr borði liggur í austanáttinni um kortið þvert.

En neðar, í um 500 metra hæð, þar sem þrýstingur er nálægt 925 hPa, mæta austanhlýindin talsverðri fyrirstöðu - það er erfitt að ryðja kalda loftinu sem liggur meðfram austurströnd Grænlands á burt, það hefur góðan vegg grænlandsfjalla í bakið. Þetta sést vel á síðara kortinu.

w-blogg121114b

Austanáttin hlýja þrengir að - og úr verður mikill vindstrengur milli Vestfjarða og Grænlands. 

Áður en hlýja loftið lagðist yfir Ísland var víða kalt í sveitum - margir grunnstæðir kuldapollar í dölum og lægðum. Það kalda loft er sums staðar tregt til að gefast upp - en hörfar þó - nú eða blandast því hlýrra. Ef við lítum á hitatölurnar á kortinu má sjá að frostlaust er í 500 metra hæð yfir öllu landinu - nema á fjöllum vestast á Vestfjörðum. Og ef við litum enn ofar gætum við séð að frostlítið verður líka á tindum landsins í hlýindunum - vafasamt með jöklana - og sömuleiðis vel varða staði á láglendi og á miðhálendinu - hverjar skyldu froststöðvarnar verða í lok dags á morgun (miðvikudagsins 12. nóvember)?


Hlýindi með austanátt

Austanáttin sem fjallað var um í pistli gærdagsins færir okkur hlýtt loft - sumir segðu mjög hlýtt. Ekki veitir af að gefa mánaðarmeðalhitanum smábúst (eins og það víst heitir nú á dögum). Það sem af er mánuði er meðalhiti á landinu þó yfir hita sömu daga 1961 til 1990 - en lítillega undir meðalhita síðustu tíu ára. 

Við lítum á hefðbundið norðurhvelskort. Þar er margt að sjá að vanda. Í vestri vekja mikil hlýindi yfir Alaska athygli og gríðarleg fyrirstöðuhæð sem þeim fylgir. Sumir segja að hún sé afleiðing af ofurlægðinni sem var þar á ferð fyrir nokkrum dögum, við Aljúteyjar.

w-blogg111114a

Jafnhæðarlínur eru heildregnar. Því þéttari sem þær eru því meiri er vindurinn og má af þeim einnig ráða vindstefnu. Þykktin er sýnd með lit - kvarðinn batnar sé kortið stækkað. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs - því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Mörkin á milli gulra og grænna lita eru við 5460 metra. Þar fyrir ofan má tala um sumarhlýindi í háloftum (sem þó ekki nýtur ætíð við jörð). Svo hlýtt er á kortinu yfir Alaska - menn búast jafnvel við hláku þar í innsveitum. 

En þessi hlýindi ryðja burt köldu lofti sem árstímans vegna „ætti“ þar að vera. Kalda loftið hefur hér hörfað til suðurs alveg suður á landsvæði Bandaríkjanna og þar er mikið kuldakast yfirvofandi víða austan Klettafjalla. Því mun að sögn reiknimiðstöðva fylgja snjókoma. Ef við teljum bláu litina má sjá að sá dekksti er sá fimmti í röðinni, og markar svæði þar sem þykktin er minni en 5040 metrar. Það þykir mjög kalt hér á landi - en er samt ekki eins kalt og sama þykkt veldur þarna á sléttunum vestra því enginn er þar hlýr sjór til að berjast gegn kuldanum. Nú - og svo nefna reiknimiðstöðvar jafnvel enn kaldara loft á svipuðum slóðum í næstu viku - en nóg um það. Fréttir munu væntanlega fyllast af frestun gróðurhúsaáhrifa eins og venjulega þegar kólnar í henni Ameríku. 

Eystra - yfir Evrópu er allt annað uppi á teningnum (nema rétt nyrst í Noregi og Finnlandi). Á kortinu er sérlega hlýtt loft yfir Þýskalandi og hlýr hæðarhryggur teygir sig í átt til Íslands (rauða strikalínan). Við borð liggur að guli liturinn nái til okkar - en þó sennilega ekki alveg. 

Undanfarna daga hefur verið mikil óvissa uppi með þennan hrygg - best er að hann haldist svipaður að styrkleika á svipuðum stað og á kortinu - hörfi hann til austurs lendum við í umhleypingasömum lægðagangi - en nái hann að búa til fyrirstöðuhæð er meiri óvissa uppi. Stöku spá hefur gert ráð fyrir því að fyrirstöðuhæð myndist við Ísland - sem út af fyrir sig er ágætt - en hefur þá áhættu í för með sér að hörfi hún til vesturs fáum við yfir okkur helkulda úr norðri - það hefur verið nefnt en er einmitt í dag ekki talið líklegt (enginn veit um líkurnar á morgun).

En lítum að lokum á kort sem sýnir sjávarmálsþrýsting og mættishita við landið á sama tíma - kl. 18 á miðvikudag 12. nóvember. 

w-blogg111114b

Hér má sjá austanstrekkingsvind. Hæstur er mættishitinn yfir landinu norðvestanverðu og má þar sjá töluna 17,2 stig (kortið batnar við stækkun). Mættishiti sýnir hversu hlýtt loft sem dregið er niður til 1000 hPa þrýstings úr 850 hPa yrði eftir niðurdráttinn. Hann segir til um allra mestu hámarkshitavæntingar - en þær rætast nær aldrei - vegna íblöndunar kaldara lofts sem liggur undir. - En vel má vera að tveggja stafa hitatölur sjáist samt einshvers staðar á landinu á miðvikudag og fimmtudag og þá helst þar sem vindur stendur af háum fjöllum. 

En landshitameta er þó ekki að vænta - hitametið þann 12. nóvember er nefnilega 22,7 stig - sett á Dalatanga 1999. Í Reykjavík er það 11,7 (líka frá 1999) og 14,6 á Akureyri (líka 1999). Þótt ekki sé líklegt að Reykjavíkur- og Akureyrarmetunum verði hnikað eru þau þó bæði lægri en mættishitinn á kortinu. Nei - við skulum ekki einu sinni láta okkur dreyma - vonbrigðin verða þá engin. Við getum þó fylgst með og íþróttalega sinnaðir mega velta vöngum yfir því hver hámarkshitinn verður og hvaða stöð hirðir hann að þessu sinni. En hlýindin standa í nokkra daga.  


Eindregin austanátt

Spáð er mjög eindreginni austanátt næstu viku til tíu daga. Þetta má sjá af tíu daga meðalþrýstikortinu hér að neðan (frá evrópureiknimiðstöðinni).

w-blogg101114a

Jafnþrýstilínur eru heildregnar en þrýstivik (miðað við nóvember 1981 til 2010) eru sýnd með litum. Neikvæð vik eru blá en jákvæð rauðbrún. Mikið lægðasvæði er vestur af Írlandi og hæð yfir Grænlandi. 

Megnið af tímanum er ráð fyrir því gert að fremur hlýtt verði á landinu - jafnvel mjög hlýtt suma dagana (tveggja stafa hitatölur þar sem best lætur). En ekki er mjög langt í kalt loft norður undan og sækir það að suma dagana - en þessi spáruna (frá hádegi sunnudaginn 9. nóvember) gerir ekki ráð fyrir því að það nái til landsins eftir að austanáttin nær sér á strik. 

En hvass verður hann suma dagana, sérstaklega í Grænlandssundi og við suður- og suðausturströndina - jafnvel líka undan Norðurlandi. Úrkomu er spáð vel yfir meðallagi í hafáttinni austanlands en þurru lengst af um landið vestanvert. 

Munum þó að meðalspár dylja margt og geta þar að auki verið vitlausar í heild sinni.


Ofurlægðin við Aljúteyjar (og fleira)

Lægðin mikla við Aljúteyjar komst niður í 924 hPa. Lægsti mældi þrýstingur sem fréttist af var 929,8 hPa á bauju ekki langt frá lægðarmiðju (upplýsingar af bloggi Christopher C. Burt veðurmetabloggara). Lægðin er óvenjudjúp - nærri meti.  

Kortið hér að neðan sýnir lægðina í 6 klst spá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gilti kl. 6 í morgun (laugardag 8. nóvember).

w-blogg091114a

Litirnir sýna hita í 850 hPa-fletinum. Mörkin á milli gulu og grænu litanna er við -2 stig - en -6 stig á milli þeirra grænu og bláu. Fjólublái liturinn byrjar við -25 stig. 

Lægðin grynnist nú ört - en dregur jafnframt upp mikið magn af hlýju lofti á austurvængnum og verður það ríkjandi yfir Alaska næstu daga. Þarlendir telja hitamet jafnvel liggja í loftinu - en það er þó langt í frá víst. Hlýja loftið mun hins vegar stinga í stóru norðurslóðakuldapollana og öll hringrás norðurhvels kemst á ið. Þetta þýðir að framtíðarspár um veður hér á landi verða mjög óvissar - það sjást bæði óvenjuhlýir og óvenjukaldir dagar í framtíðarspánum. En - kannski jafnar þetta sig án tíðinda hjá okkur. 

En kortið að neðan sýnir spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um sjávarmálsþrýsting, úrkomu og hita í 850 hPa sem gildir um hádegi mánudaginn 10. nóvember.

w-blogg091114b

Áttin er hér austlæg á landinu - einhver úrkoma eystra en þurrt vestanlands. Hiti í 850 hPa er á bilinu -5 til -9 yfir landinu. Það þýðir að víðast hvar er frost. Við megum líka taka eftir því að frekar stutt er í mjög kalt loft fyrir norðan land. Þar má sjá -20 stiga jafnhitalínuna norður af Jan Mayen. Vindur er þarna hægur og skilyrði nokkuð góð til hafísmyndunar. 

Lægðin stóra fyrir sunnan land á að bæta við sig nýjum lægðum - þá sem er suður af Nýfundnalandi á kortinu og líka þá sem er við Labrador - það er meira í hana spunnið en sýnist. Framhaldsspár virðast síðan sammála um að um síðir hlýni austanáttin mikið. 


Kalt loft í heimsókn (eða nærri því)

Hlýtt var á landinu í dag (fimmtudaginn 6. nóvember). Það sést vel á kortinu hér að neðan en það sýnir hita og vind í 925 hPa-fletinum auk hæðar hans nú kl. 21 í kvöld. 

w-blogg071114a

Í dag var flöturinn í 400 til 500 metra hæð og var frostlaust yfir nær öllu landinu og ekki nema lítilsháttar frost á Vestfjörðum (sjá litakvarðann - hann batnar sé kortið stækkað). Mikill vindstrengur nær inn á Vestfirði og nær yfir mestallt Grænlandssund. Þar liggur fleygur af köldu lofti til suðvesturs.

Enn kaldara loft sækir að úr norðri og þvingar það hlýja til suðausturs og austurs á morgun (föstudag og laugardag). Það gengur ekki alveg átakalaust fyrir sig og verður víða nokkuð hvasst af norðaustri með aðsókn kalda loftsins.

Eins og sjá má á kortinu að neðan hafa talsverð umskipti orðið á hitanum á laugardagskvöld.

w-blogg071114b

Þá verður komið frost um land allt í 925 hPa - flöturinn hefur að vísu hækkað um 300 metra. Aðalátökin sem voru í Grænlandssundi á fyrra korti eru nú við Austurland. En vindur tekinn að ganga niður vestanlands. Sé lega vindáttar og jafnhitalína gaumgæfð má sjá að kalda loftið sækir enn mjög til suðurs fyrir vestan land (vindur liggur því sem næst þvert á jafnhitalínurnar).

Í vindstrengnum austan við land eru vindur og jafnhitalínur meira samsíða - þar stendur í járnum. Norður af landinu er ástandið mitt á milli. Horn er á milli vinds og jafnhitalína og kalt loft þar enn í framsókn - en evrópureiknimiðstöðin segir okkur samt að vindurinn og jafnhitalínurnar stefni í meiri samstöðu - þá í austanvindi. Sé það rétt hjá reiknimiðstöðinni tekur við staða þar sem kuldinn bíður átekta en leggur ekki í frekari sókn - og hörfar síðan aftur til norðurs án þess að kaldasta loftið nái hingað til lands. Við vitum ekkert hvernig það fer og bíðum átekta. 


Vetur nálgast

Þegar þetta er skrifað (miðvikudagskvöld 5. nóvember) er útlit fyrir tvo hlýja daga framundan á landinu. - Það er svosem ekki verið að spá neinum sérstökum kuldum eftir það - en samt er farið að hringla í hlekkjum vetrarins norðurundan - kuldapollarnir miklu eru að ná sér á strik fyrir alvöru. 

Kortið sýnir spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um 500 hPa hæð og þykkt á mestöllu norðurhveli á föstudag, 7. nóvember, kl. 18.

w-blogg061114a

Ísland er rétt neðan við miðja mynd. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar, því þéttari sem þær eru því meiri er vindurinn í um 5 km hæð. Þykktin er sýnd með litum (kvarðinn batnar sé myndin stækkuð), en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. 

Hægt er að fylgja hesi heimskautarastarinnar meginhluta hringsins og má sjá að bylgjur eru nokkuð háreistar og mestu hryggirnir stinga sér langt norður í höf og pikka þar í stóru kuldapollana þrjá. Kuldapollarnir eru þar með á nokkurri hreyfingu og ekki gott að segja hvert þeir leggja sína leið - en virðast þó ekki ógna okkur að svo komnu máli. 

Þeir sem fylgjast grannt með veðurfréttum vita að lítið heyrist um herfarir kuldapollanna nema þeir ryðjist inn á svæði þar sem þéttni fréttamanna er mikil. Evrópa er sem stendur í allgóðu skjóli flókins hæðarhryggjar - en Norður-Ameríka er meira opin fyrir skotum að norðan. 

Fyrir nokkrum dögum minntust hungurdiskar á ofurlægð sem spáð er yfir Aljúteyjar vestanverðar nú á föstudag/laugardag. Örin á myndinni bendir á háloftabylgjuna sem fylgir henni. Spár eru orðnar nokkuð sammála um að hún fari niður fyrir 930 hPa og að hún eigi enn möguleika á að verða dýpsta lægð allra tíma á N-Kyrrahafi og dýpsta nóvemberlægð norðurhvels. En í reynd er erfitt að slá met og við látum ameríska bloggfélaga um að færa fréttir af endanlegri niðurstöðutölu í þessari keppnislotu. 


Ein í öflugri kantinum (- en ekki orðin að veruleika)

Nú er (rétt einu sinni) illvígur fellibylur á ferð yfir Kyrrahafi vestanverðu. Hann er kallaður Nuri og rauk í dag (mánudaginn 3. nóvember) skyndilega upp í styrkleikaflokk 5 - en í slíkum er mesti 1-mínútu meðalvindur meiri en 80 m/s (og meira að segja íslenskum vindhaukum bregður í brún). Það er eins með vesturkyrrahafsfellibylji sem þá atlantshafsku að þeir ná sé stöku sinnum á strik sem ofurlægðir. Evrópureiknimiðstöðin segir Nuri verða að einni slíkri á föstudaginn (7. nóvember). 

Kortið hér að neðan (batnar lítt eða ekki við stækkun) sýnir spá reiknimiðstöðvarinnar [úr runu frá kl. 12 í dag] og gildir hún á föstudagskvöld kl. 24. Þá á lægðin að vera um 917 hPa í lægðarmiðju - sannarlega óvenjuleg tala. Svo óvenjuleg raunar að gamlir ryðkláfar eins og ritstjórinn eiga erfitt með trú sína og finnst harla ólíklegt að svona lágur þrýstingur náist - þótt við hinar illræmdu Aljúteyjar sé. Kanadíska veðurstofan er heldur hógværari (og líklegri?) í sinni spá - þar er lægstur þrýstingur í sömu lægðarmiðju um 945 hPa. 

w-blogg041114 

Að sögn sérfróðra er lægsti þrýstingur sem mælst hefur í Alaska 926 hPa, við Dutch Harbour á Aljúteyjum og St Paul á austanverðum Aljúteyjum - talsvert langt frá nurilægðinni - hún plagar vestlægustu eyjarnar einna mest. Metið er frá 25. til 26. október 1977. Sagt er að að illviðri verði verst og séu tíðust á þessum slóðum síðla hausts - frekar en um miðjan vetur eins og hér á landi. Stafar þessi munur af hegðan heimskautarastarinnar - ætti e.t.v. að fjalla um það mál á hungurdiskum? 

En fari svo ólíklega að þessi spá rætist gæti hér orðið um dýpstu lægð allra tíma í nóvember að ræða - norðan hitabeltis - það er að segja. Lægsti þrýstingur sem mælst hefur hér á landi í nóvember er talsvert hærri en þetta, 940,7 hPa sem mældust í Vestmannaeyjum 18. nóvember 1883 (og hungurdiskar hafa áður um fjallað). Dýpri lægðir hafa þó verið á ferð hér við land í nóvember. Sagt var að lægðin sem kennd er við Edduslysið á Grundarfirði 16. nóvember 1953 hafi verið 928 hPa í lægðarmiðju - þá skammt fyrir vestan land. Eitthvað hafa menn fyrir sér varðandi þá tölu - hún birtist í fáséðu riti þýsku um illviðri á íslandsmiðum. 

Um styrkleikakvarða fellibylja má t.d. lesa í gömlum fróðleikspistli á vef Veðurstofunnar. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 20
  • Sl. sólarhring: 214
  • Sl. viku: 985
  • Frá upphafi: 2420869

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 864
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband