Veturinn klórar í bakkann

Veturinn á norðurslóðum klórar nú aðeins í bakkann en vonandi fer hann samt ekki að halda upp á 50 ára afmæli páskahretsins mikla 1963 á þriðjudaginn (9. apríl). Dálítill ættarsvipur er samt með stöðunni nú og þá - en nei. Við lítum samt á norðurhvelskort evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir um hádegi á sunnudag (7. apríl).

w-blogg060413a

Ísland er fyrir miðju rétt neðan við miðja mynd. Jafnhæðarlínur eru heildregnar. Þar sem þær eru þéttar er hvasst í 500 hPa. Þykktin er sýnd með litaflötum, fjólublái bletturinn er yfir Svalbarða - þar er þykktin minni en 4920 metrar.

Ísland er í norðvestanátt, hæðarhryggur er vestan við land og við í heldur kaldara lofti heldur en verið hefur, það er græni liturinn sem hefur verið að sleikja okkur síðustu dagana. Langt er suður í sumarið - á sumrin viljum við helst að þykktin sé meiri en 5460 metrar (sandguli liturinn). Hún er það hins vegar ekki alltaf hvorki á þeim tíma né öðrum. Við verðum samt að gera einhverjar kröfur.

Það sem við viljum ekki er að kuldapollurinn stóri fari að senda okkur lægðardrög úr norðvestri og norðri - 1963 má segja að hann hafi komið til okkar í heilu lagi. Með hjálp þó, kringlóttir kuldapollar hreyfast yfirleitt ekki langt nema að þeir séu aflagaðir af tilfallandi lægðardrögum - eða hæðarhryggjum.

Örin á kortinu bendir á mjög smáa háloftalægð sem liggur í buktinni norðantil í Baffinsflóa. Hún er (ef trúa má spánum) einmitt að myndast núna (seint á föstudagskvöldi). Það gerist þannig að lægðardrag í jaðri kuldapollsins mikla teygist með mjög kalt loft í farteskinu vestur á Norður-Grænland, þar missir kalda loftið fótanna og bókstaflega dettur fram af jöklinum.

Á þeirri eyðiströnd ganga jöklar í sjó fram og lítið er um veðurstöðvar - hvort þar gerir fárviðri hefur ritstjórinn ekki græna glóru um. Niðurstaðan er sú að loftið tekur veðrahvörfin með sér niður í fallinu - spáin segir alveg niður að sjávarmáli. Hér verður að vísu um sýndarveðrahvörf að ræða - hin einu og sönnu hrökkva til baka. Þetta er eins og veðrahvörfin slitni í sundur og verði tvöföld.

En við lítum á hið skemmtilega veðrahvarfakort evrópureiknimiðstöðvarinnar. Ísland er við Í-ið á myndinni og Baffinsland við B-ið. Litakvarði og tölur til aðstoðar sýna hversu hár þrýstingur er við veðrahvörfin. Á okkar slóðum eru þau á þessum árstíma yfirleitt á bilinu 300 til 200 hPa. Hér þarf að athuga að því lægri sem talan er því hærri eru veðrahvörfin - þrýstingur fellur með hæð.

w-blogg060413b

Þetta kort gildir á morgun - laugardag 6. mars kl. 12, sólarhring á undan norðurhvelskortinu að ofan. Í lægðinni (hvítur blettur) miðri stendur talan 1004 (hPa). Svona lága tölu hefur ritstjórinn ekki séð á þessum kortum áður. Veðrahvörfin geta farið niður fyrir 900 hPa í dýpstu lægðum á vetrum - þegar þær eru í óðavexti. Hér er þó ekki um slíkt að ræða heldur er um fjallaáhrif að ræða - Grænlandsjökull sýnir afl sitt. Lægðin er ekki nema 1004 hPa djúp. Ekki er víst að líkanið hafi þetta alveg rétt eftir - líkön eiga oft bágt í námunda við fjöll.

Þessi einkennilega lægð grynnist síðan næstu daga og veðrahvörfin jafna sig að nokkru. Háloftalægðin litla verður gripin af næsta lægðardragi úr norðvestri og á það kerfi að fara suðaustur um jökulinn í átt til okkar. Mun þá kalt loft (ekki það sama og í fyrri umferð) detta aftur niður af jöklinum en núna okkar megin. Dragast þá veðrahvörfin enn niður - reiknimiðstöðin segir niður í 800 hPa um hádegi á þriðjudag. Hér greinir spár og reiknimiðstöðvar á um framhaldið - kannski gerir kuldakast þrátt fyrir allt - á afmælisdaginn sjálfan.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ógeð!

Sigurður Þór Guðjónsson, 6.4.2013 kl. 12:32

2 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Það er hrikalegur kuldi í kortum næstu viku: http://www.vedur.is/vedur/spar/thattaspar/#teg=hiti

Ágúst H Bjarnason, 6.4.2013 kl. 16:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 84
  • Sl. viku: 1376
  • Frá upphafi: 2350960

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 1193
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband