Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2013

Hársbreidd frá meti

Þegar hungurdiskapistill gærdagsins var skrifaður var séð fram á óvenjukalda aðfaranótt þriðjudags. Venjulega er kaldast undir morgun á þessum árstíma (og flestum öðrum) en nú um miðnæturbil er frostið á Brúarjökli komið niður í -21,1 stig og dægurmet þess 29. þegar slegið. Væntanlega fellur dægurmet þess 30. líka í nótt. Hafa verður í huga að stöðin á Brúarjökli er ekki gömul og vitað mál að verði hún starfrækt áfram mun hún smám saman leggja undir sig fleiri og fleiri dægurmet.

En byggðarmet þess 29. féll ekki að þessu sinni og ekki víst að það takist að slá byggðarmet þess 30. Það er -19,0 stig, frá Möðrudal 1977.

Lægsti hiti sem mælst hefur í maímánuði á landinu er -17,4 stig, einnig úr Möðrudal 1977, þann 1. Vel má vera að Brúarjökull eða önnur stöð nái að slá það met á aðfaranótt miðvikudags 1. maí. Mánaðamet eru umtalsvert merkari heldur en dægurmetin. Þykktin á að hækka lítillega frá aðfaranótt þriðjudags til aðfaranætur miðvikudags. En við kuldamet af þessu tagi þarf einnig að vera bjart veður. Við bíðum spennt.

Á fimmtudagsmorgun verður þykktin farin að þokast upp - en þó verður enn möguleiki á metum. Alla vega falla dægurmet í hrönnum á veðurstöðvunum.

En lítum á hæðar- og þykktarspá evrópureiknimiðstöðvarinnar klukkan 6 að morgni miðvikudagsins 1. maí.

w-blogg300413a

Ísland ætti að sjást til vinstri við L-ið neðan til á myndinni. Litafletir marka þykktina en jafnhæðarlínur eru heildregnar. Af þeim má sjá að mikið og kalt lægðarsvæði er fyrir austan og norðaustan land en snarpur hæðarhryggur er yfir Grænlandi á leið til suðausturs. Dökkblái liturinn yfir Íslandi og þar norðan við sýnir hvar þykktin er á bilinu 5040 til 5100 metrar. Það eru vetrargildi - ekki neitt með það.

Hæðarhryggurinn færir með sér hlýrra loft. Vestan hans eru þrjú lægðardrög sem spárnar hafa verið í dálitlum vafa með undanfarna daga. Öll drögin stefna í átt til Íslands en óþægilega stutt er á milli þeirra. Í spásyrpunni frá hádegi á þriðja lægðardragið að éta það sem merkt er númer tvö - og þau saman koma þá hér á föstudag, en númer eitt virðist ætla að sleppa yfir Grænland á fimmtudaginn áður en hin tvö gleypa það. Allmyndarleg lægð á að verða til úr drögunum þremur hér við land um næstu helgi - en mikil óvissa er þar í spilunum og vel má vera að þetta gangi öðru vísi fyrir sig heldur en nú er gert ráð fyrir.


Með því kaldasta sem sést

Þegar þetta er skrifað (sunnudagskvöld 28. apríl) er norðanhvassviðri að ganga niður á landinu. Í kjölfar þess fylgir óvenjukalt loft úr norðri. Aðfaranótt þriðjudags er þykktinni spáð niður í 5040 metra á Norðausturlandi. Þetta er mjög stutt frá lágmarksmetum árstímans. Það vill til að vindur er hægur og sólin afskaplega hjálpleg að deginum. Því er líklegt að við verðum hlýrra megin garðs í keppni um kuldamet að þessu sinni. En það kemur víst í ljós.

w-blogg290413a

Spáin á kortinu gildir klukkan 6 að morgni þriðjudagsins 30. apríl og sýnir jafnþykktarlínur heildregnar en litafletir sýna hita í 850 hPa (um 1430 metra hæð í þessu tilviki).

Hlýtt loft er langt undan og evrópureiknimiðstöðin býst við því að þykkti haldist undir 5200 metrum fram á fimmtudag að minnsta kosti. Hlýja loftið sem þá á að nálgast gerir það úr öfugri átt - það er að segja frá Grænlandi. Á þessum árstíma er slíkum sendingum venjulega lítt að treysta. Norðvestanátt í háloftunum er hretavæn - jafnvel þegar hún er hlý.


Kuldapollur plagar spánverja

Játa verður strax í upphafi að ritstjórinn er ekki alveg með suðræna kuldapolla í fingrunum. Hann hefur þó lesið nokkrar ritgerðir um slíka og veit að þeir verða stundum mjög til baga. Oft fylgja þeim illvíg þrumuveður með gríðarlegri staðbundinni úrkomu. Orsök illviðranna er að leita í miklu varma- og rakaflæði frá hlýju yfirborði hafsins upp í kalt loft kuldapollanna.

Kuldapollarnir eru ýmist orðnir til úr mjóum lægðardrögum sem teygja sig suður á bóginn og mynda við það lokaðar lægðir - eða þá að háir hryggir yfir Atlantshafinu falla fram fyrir sig yfir Norður-Evrópu og loka þar inni kalt meginlandsloft sem síðan berst til suðurs.

Kortið að neðan gildir á mánudag klukkan 6 að morgni. Jafnhæðarlínur eru heildregnar en þykktin sýnd með mislitum flötum.

w-blogg280413a

Mörkin á milli grænu og gulu litanna eru við 5460 metra þykkt. Í litla græna blettinum yfir Suður-Spáni er þykktin minni en 5340 metrar. Okkur þætti það gott þessa dagana en munum samt að við 5340 metra þykkt er gjarnan frost í innsveitum hér á landi og úrkoma á fjöllum er snjór.

Á sameiginlegri aðvaranasíðu evrópska veðurstofa (meteoalarm.eu) má sjá að mestallur austurhluti Spánar er undir gulu aðvaranateppi ásamt hluta landsins norðanverðs. Snjókomu er spáð í uppsveitum og illviðri við sjávarsíðuna.

Á austurvæng kuldapollsins er sunnanátt eins og vera ber. Gengur hún til norðurs frá Sahara til Ítalíu þar sem hún veldur þar miklum þrumuveðrum. Skynvarmaflæði er væntanlega ekki mikið á leið þess lofts, en dulvarmaflæðið því meira upp í þurrt og hlýtt eyðimerkurloftið.

Ástandið á að haldast svipað í 2 til 3 daga til viðbótar. Við sitjum í annarri súpu.  


Nýtt kjörtímabil byrjar kuldalega

Nú gengur lægð til austurs fyrir norðan land. Í kjölfar hennar fylgir norðanátt að vanda og enn bætir á snjó til fjalla um landið norðanvert. Vel gæti snjóað í byggðum.

Kaldasta loftið er þó ekki komið til landsins þegar úrkoman verður mest og vindur hvassastur á sunnudag heldur erum við þá á þykktarbilinu óræða í kringum 5220 metra. Á þessum árstíma er sólarhringsmeðalhiti við þá þykkt að jafnaði ofan frostmarks við sjávarmál - en úrkoma er þó oftast snjór. Dægursveifla hitans er mjög lítil sé úrkoma mikil. Á kortinu hér að neðan er það 5220 metra jafnþykktarlínan sem gengur þvert yfir landið. Kortið gildir klukkan 18 á sunnudag.

Kortið sýnir hæð 500 hPa-flatarins og þykktina. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Jafnhæðarlínur eru heildregnar en þykktin er merkt með litum. Mörkin á milli blárra og grænna tóna eru við 5280 metra, skipt er um lit á 60 metra bili.

w-blogg270413a

Bláa örin bendir á Ísland og má sjá hvernig jafnhæðarlínurnar ganga þar þvert á litina. Háloftavindar bera talsvert kaldara loft til landsins. Til allrar hamingju gengur vindur niður að mestu áður en kaldasta loftið fer yfir landið á aðfaranótt þriðjudags. Evrópureiknimiðstöðin spáir þykktinni þá niður í 5060 metra. Það er vetrargildi, í sólskini er frostlaust að deginum í hægviðri en gaddfrost að nóttu. Víða er frost allan sólarhringinn þar sem vind hreyfir eða sólar nýtur illa.

Vonandi að spánni skeiki eitthvað um þykktina - það munar um hverja 10 metra.


Kalt loft sleppur yfir Grænland

Algengast er að Grænlandsjökull stöðvi framrás heimskautalofts úr vestri að mestu. Öll framrás stöðvast þegar kalda loftið er grunnt - nær ekki hæð jökulsins. Nái kuldinn hins vegar mjög hátt í loft er hann sjaldan svo mikill að hann sé meiri heldur en kuldinn niður undir sjávarmáli austan megin.

Loftið sem kemur yfir jökulinn og leitar niður austan hans hlýnar mjög í niðurstreyminu. Ef við reiknum með að jökulhryggurinn sé 2500 metra hár hlýnar loftið sem yfir hann fer um 25 stig niður að sjávarmáli. Sé hiti þess þá hærri heldur en þess lofts sem þar liggur á fleti getur það ekki rutt því burt heldur flýtur yfir. Það er algengast.

Í raunveruleikanum kemur þó fleira við sögu. Mjóir og þunnir straumar geta legið niður skriðjöklana, flókin blöndun getur átt sér stað í ólgu niðurstreymisins, varmaskipti verða við yfirborð og svo framvegis. Við leggjum ekki í að greina það nánar.

En kalda loftið nær stundum yfir og niður og tölvuspár segja það einmitt gerast nú á laugardaginn. Fyrir tíma nákvæmra reikninga þurfti mikla staðbundna reynslu, miklu meiri heldur en þá sem ritstjórinn hefur, til að vita með vissu hvar og hvenær niðurstreymið yrði og hversu öflugt. En nú má sumsé sjá það betur. Kortin hér að neðan eru úr safni evrópureiknimiðstöðvarinnar.

Fyrsta kortið sýnir vindhraða í 100 metra hæð klukkan 18 á laugardaginn (27. apríl) - um svipað leyti og hjartsláttur frambjóðenda okkar fer að aukast en dómurinn ekki fallinn. Hér verður að taka fram að hæðin á aldrei þessu vant ekki við sjávarmál heldur er hún miðuð við yfirborð jarðar eins og það er í líkaninu. Líkanið fylgir landslagi mjög gróflega og sér t.d. ekki nema breiðustu dali Grænlandsfjalla.

w-blogg260413a

Litafletirnir sýna vindhraðann í m/s, örvarnar stefnu. Kvarðinn batnar sé myndin stækkuð. Séu reiknaðar vindhviður á svæði meiri en 25 m/s eru hvítar línur dregnar utan um það og gildi sett í hvítan kassa. Tölur í gulum kössum sýna hviðuhámörk í m/s.

Vindhraði er gríðarmikill á litlu svæði yfir Grænlandsfjöllum - einmitt þar sem loftið fellur niður af jöklinum. Má sjá svæði þar sem hann er yfir 40 m/s. Þetta er ekki aðeins þrýstivindur heldur kemur þyngdaraflið líka við sögu. Myndin virðist gefa til kynna að loft safnist saman af nokkru svæði á jöklinum og falli í stokki niður undir sjávarmál. Síðan sést hvernig straumurinn heldur áfram langt út á haf (þrýstiknúinn) - en breiðir smám saman úr sér og deyfist.

Til beggja handa eru stór svæði með hægari vindi. Við skulum líka taka eftir vindstreng við Scoresbysund. Þar er vindur meiri en 24 m/s á allstóru svæði. Þetta loft er komið að norðan og nær hingað til lands á aðfaranótt sunnudags með miklum leiðindum, vindi, snjókomu og kulda. Grænlandsjökulsloftið nær hins vegar ekki hingað til lands að þessu sinni.

Næsta mynd sýnir hæð 850 hPa-flatarins (frá sjávarmáli) ásamt vindi og hita í honum á sama tíma og kortið að ofan. Hér tákna litafletir hita, vindhraði og átt eru sýnd með venjulegum vindörvum en hafnhæðarlínur eru heildregnar. Sama táknál er líka notað á síðari myndum.

w-blogg260413b

Hér sést kalda strokan vel, talsvert kaldari en loftið umhverfis og nær langt út á sjó. Örin bendir á kaldasta kjarnann.

Næsta mynd sýnir ástandið í 700 hPa en sá flötur er í tæplega 3 km hæð.

w-blogg260413d

Í fljótu bragði virðast kortin líta nærri því eins út (nema að hita- og hæðartölur eru auðviðtað aðrar). Sé litið á smáatriðin kemur í ljós að þar sem kalda tungan var á 850 hPa-kortinu (sjá örina) er hér hlý tunga - kaldara er til beggja hliða. Þetta stafar af því að þegar kuldinn breiðir úr sér í lægri lögum verður til niðurstreymi ofan við og þar sem niðurstreymið er mest er hitinn hærri heldur en til hliðanna (kaldar tungur). Í köldu tungunum í 700 hPa er loft að lyftast vegna ruðningsárhrifa sem verða til þegar kuldinn í neðri lögum breiðir úr sér til hliðanna. Skemmtilegt að þetta skuli sjást svona vel.

En að lokum lítum við upp í 16 kílómetra hæð þar sem þrýstingur er 100 hPa.

w-blogg260413c 

Hér gætir fallbylgjunnar einnig - hún aflagar loftstreymi í öllu veðrahvolfi, sömuleiðis beyglar hún veðrahvörfin og meira að segja neðsta hluta heiðhvolfsins líka. Gaman væri að sjá þversnið vinds og mættishita í frá jörð og upp úr - en slíkt liggur ekki á lager að þessu sinni. Hitakvarðinn batnar við stækkun. Hlýjasti bletturinn við Austur-Grænland sprengir kvarðann. Svona hlýtt er sjaldan í 16 km hæð.


Sumardagurinn fyrsti - sundurlausir fróðleiksmolar

Hér að neðan má finna nokkra sundurlausa fróðleiksmola um veður á sumardaginn fyrsta. Aðallega er miðað við tímabilið 1949 til 2012. Þetta er vægast sagt þurr upptalning en sumum veðurnördum finnst einmitt best að naga þurrkað gagnaroð.

Aðrir hafa helst gaman af þessu með því að fletta samhliða í kortasafni Veðurstofunnar en þar má finna einfölduð hádegiskort sumardagsins fyrsta á sérstökum síðum (fletta þarf milli áratuga).

Meðalvindhraði var minnstur 1955, 2,0 m/s. Langhvassast varð 1992, 15,8 m/s. Næsthvassast var 1960.

Þurrast var 1996 og 1978. Að morgni þessara daga mældist úrkoma á landinu hvergi meiri en 0,5 mm. Úrkomusamast var hins vegar 1979 en þá mældist úrkoma á 98 prósentum veðurstöðva á landinu. Ámóta úrkomusamt var 2009 en þá mældist úrkoma meira en 0,5 mm á 96 prósentum veðurstöðva.

Kaldasti dagurinn í hópnum var 1949 (meðalhiti -7,3 stig). Landsmeðalhitinn var hæstur 1974 (7,7 stig) og litlu lægri 1976 (7,6 stig). Meðalhámark var hæst 1974 (11,1 stig) og litlu lægra (10,8 stig) 2005. Lægst varð meðalhámarkið dagana köldu 1949 (-4,5 stig) og 1967 (-3,1 stig). Landsmeðallágmarkið var lægst sömu ár, 1949 (-9,7 stig) og 1967 (-7,8 stig). Hæst var landsmeðallágmarkið (hlýjasta aðfaranóttin) 1974 (6,0 stig).

Lægsti lágmarkshiti á mannaðri veðurstöð á sumardaginn fyrsta á tímabilinu 1949 til 2013 mældist 1988, -18,2 stig (Barkarstaðir í Miðfirði), en hæsti hámarkshiti þessa góða dags mældist 1976, 19,8 stig (Akureyri). Á sumardaginn fyrsta 1949 fór hiti hvergi á landinu yfir frostmark, hæsta hámark dagsins var -0,2 stig. Þetta er með ólíkindum. Sumardagurinn fyrsti 1951 var litlu skárri því þá var hæsti hámarkshitinn nákvæmlega í frostmarki.

Meðalskýjahulan var minnst 1981 (aðeins 1,8 áttunduhlutar). Það var bjartur dagur - en býsnakaldur. Skýjahulan var mest 1959 (7,9 áttunduhlutar) - mörg önnur ár fylgja skammt á eftir.

Loftþrýstingur var hæstur 1970 (1041,6 hPa) en lægstur 2006 (980,6 hPa).

Algengast er að vindur sé af norðaustri á sumardaginn fyrsta (miðað við 8 vindáttir), á 64 ára tímabilinu hefur sú vindátt ríkt 21 sinni. Norðvestanátt var sjaldgæfust (eins og venjulegt er), ríkti aðeins einu sinni (1968).

Í þarsíðasta pistli var minnst á lægsta morgunhita í Stykkishólmi á sumardaginn fyrsta - við höfum upplýsingar allt aftur til 1846. Þessi kaldasti morgunn var árið 1876 (-11,8 stig). Hlýjasti morgunninn var 1935 (9,8 stig). Næsthlýjast var 1896 (9,1 stig).

Ameríska endurgreiningin segir að þrýstisviðið yfir landinu hafi verið flatast 1958 (vindur hægastur), en langbrattast 1992 (hvassast). Sama dag var hvassast á veðurstöðvunum og hittir endurgreiningin hér vel í. Þrýstivindur var af austsuðaustri, en á veðurstöðvunum var meðalvindátt rétt norðan við austur. Það er núningur sem er meginástæða áttamunarins.

Sé litið á 500 hPa-flötinn segir endurgreiningin hæðarbrattann hafa verið mestan 1960, af vestnorðvestri.


Frjósi saman sumar og vetur?? [Ritstjórnartuð]

Eins og fram kom í pistli gærdagsins er gert ráð fyrir svölum fyrsta sumardegi í ár (2013). Þó hefur spáin um þykktina heldur hækkað frá í gær (var 5100 metrar yfir Vestfjörðum en er nú 5120 metrar) svo munar 20 metrum. Þetta er um eins stigs hækkun. Spáin um hita í 850 hPa hefur líka hækkað ámóta.

Pistillinn í gær negldi líka niður hvenær kaldast hefur orðið á sumardaginn fyrsta. Ekki má þó taka þá neglingu allt of bókstaflega - ritstjórinn hefur ekki legið yfir þessu vikum saman og hugsanlegt að veðurspekingar hafi rekist á eitthvað annað.

Eitt af því sem sífellt er verið að tala um í kringum sumardaginn fyrsta er hvort nú frjósi saman sumar og vetur. Er frost þá tengt góðu sumri. Alloft er gott vit í gömlum veðurspádómum - en þessi verður að teljast fullkomin della eins og nú er til hans vitnað. Einföld athugun sem nær til síðustu 64 ára sýnir að vetur og sumar frusu saman á landinu 56 sinnum af þessum 64. Voru öll þau sumur góð?

Það er sérlega eftirtektarvert að á sumardaginn fyrsta 1974 var lægsta lágmark næturinnar á landinu öllu 3,5 stig. Hvergi fraus í byggðum. Þetta var eins og sumir muna enn eitt hagstæðasta sumar á Suðurlandi um langt árabil - og ekki taldist það sérlega óhagstætt nyrðra. Tveimur árum síðar, 1976, var líka frostlaust um land allt á aðfaranótt sumardagsins fyrsta. Það var óminnilega hagstætt sumar um landið norðan- og austanvert - en mikið rigningasumar syðra.

En getur þetta þá ekki átt við einstaka staði á landinu? Nei, varla, koma þá aldrei hagstæð sumur í hlýjustu byggðum landsins? Nefna má að gaddfrost var í Reykjavík aðfaranótt sumardagsins fyrsta 1983 - á undan versta sumri sem um getur þar um slóðir.

En sem skemmtiatriði? Má ekki hafa gaman af þessu? Jú, auðvitað má það - en þá væri best að fara eftir fornum leikreglum. Í gömlu reglunni er talað um góða málnytu frjósi sumar og vetur saman. Það er að segja að meiri sumarmjólkur sé að vænta úr kúm og ám en annars. Ekkert er sagt um gæði sumars samkvæmt kröfu nútímamanna. Sól og þurrkur eru nú á tímum talin sérlega hagstæð að sumarlagi. Í því veðurlagi er hins vegar oft kyrkingur í gróðri og gras lélegt - heldur til baga fyrir mjólkurframleiðslu. Fyrr á árum höfðu menn ekki heldur hitamæla - heldur átti að leggja út grunnan disk eða trog með vatni. Væri á því þykkt skæni eða það heilfrosið að morgni var talað um að sumar og vetur hefðu frosið saman - annars ekki.

Þeir sem eru smámunasamir segja að ísskánin sé merki um þykkt rjóma á mjólkurtrogum á komandi sumri.

Upplýsingar um málnytu og fitumagn mjólkur liggja ekki fyrir í veðurmælingum þannig að áhugamenn hafa enn rými til varnar fyrir regluna. Ekki er endilega víst að ritstjórinn hafi hana rétt eftir í þessum pistli. Gaman væri ef uppruninn fyndist og sömuleiðis væri skemmtilegt að vita hvernig var til hennar vitnað fyrir 1950 - nú eða þá á 18. eða 19. öld?

Gamlar reynslureglur um veður eru mjög skemmtilegar - jafnvel þær vafasömu. En það er heldur sorglegt þegar þær enda í óætum olíugraut. Þá eru þær ekki lengur til ánægju heldur bara þreytandi suð. Æ.


Sumardagurinn fyrsti - í svalara lagi í ár?

Tölvuspár gera nú ráð fyrir norðanátt og kulda á sumardaginn fyrsta (fimmtudag í þessari viku). En þó gæti orðið sæmilega hlýtt sunnan undir vegg um landið sunnanvert - ef menn geta hörfað inn í stofu þegar svo ber undir. Dægursveifla er stór þar sem sólar nýtur.

Þykktarspá evrópureiknimiðstöðvarinnar er kuldaleg.

w-blogg230413a

Jafnþykktarlínur eru heildregnar og litafletir sýna hita í 850 hPa-fletinum. Það er 5100 metra jafnþykktarlínan sem liggur inn á Vestfirði norðanverða og þar er um 14 stiga frost í 850 hPa. Ekki sérlega glæsilegt.

En þetta var reyndar ekki mikið hlýrra í fyrra (19. apríl 2012). Kortið hér að neðan sýnir það.

w-blogg230413b

Þykktin á þessu korti er í um 5180 metrum yfir Vestfjörðum og frostið í 850 hPa er um -9 stig. Munurinn á þykktinni nú og þá er um 80 metrar en það samsvarar um það bil 4 stigum í meðalhita neðri hluta veðrahvolfs.

Auðvitað er ekki á hreinu að spáin núna standist - enn eru þrír dagar í það og oft tekur styttri tíma fyrir spár að bregðast. En hér er um allgóða vísbendingu að ræða.

En hvað er langt síðan þykktin hefur verið svona rýr á sumardaginn fyrsta? Ef við trúum bandarísku endurgreiningunni hefur þykktin aðeins tvisvar verið minni en 5100 metrar á sumardaginn fyrsta. Það var 20. apríl 1967 (5080 metrar yfir miðju landi) og 21. apríl 1949 (5070 metrar yfir miðju landi). Í eldri gögnum sjást ekki lægri tölur í endurgreiningunni - en við vitum þó að þykktin í henni er vafasöm fyrir 1940 - sérstaklega köldu dagarnir.

Sé litið á morgunhita sumardagsins fyrsta í Stykkishólmi allt aftur til 1846 eru 1967 og 1949 mjög neðarlega, fyrrnefnda árið er í 4. neðsta sæti (hiti -5,4 stig) og 1949 í næstneðsta (-7,1), á milli þeirra er sumardagurinn fyrsti 1951 með -6,0 stig. Langkaldast var hins vegar að morgni sumardagsins fyrsta 1876, -11,8 stig.

Mikil ófærð var víða um land - meira að segja á Suðvesturlandi - í kringum sumarmálin 1949 og 1951. Vonandi sleppum við betur nú.

Á vef Veðurstofunnar er fróðleikspistill um veður á sumardaginn fyrsta (sem mætti reyndar uppfæra). Í dag (mánudag) var eitthvað erfitt að finna svona gamla fróðleikspistla á Veðurstofuvegnum. Hvort það ástand er viðvarandi er ekki vitað.


Nær ekki taki

Næsta lægð kemur að landinu seint á sunnudagskvöld (21. apríl) eða á aðfaranótt mánudags. Hún er ein af þeim sem hraðar sér hjá án þess að háloftavindar nái á henni taki. Hér er átt við að þótt lægðin sé gerðarleg á sjávarmálsþrýstikortum sést hringrás hennar lítt eða ekki á háloftakortum. Þetta sést á 300 hPa spákorti evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir klukkan 18 á sunnudagskvöld.

w-blogg210413a

Jafnhæðarlínur eru heildregnar, vindörvar sýna vindhraða og stefnu en litafletirnir sýna vindhraða og má segja að þeir afmarki heimskautaröstina. Ljósgræni liturinn táknar vindhraða á bilinu 40 til 50 m/s. Dekksti blái liturinn í röstinni er 80 til 90 m/s. Röstin liggur á milli hæðar nærri Asóreyjum og mikillar háloftalægðar nærri Thule á Grænlandi. Munurinn á hæsta og lægsta hæðargildi á kortinu er um 1320 metrar (merkingar eru í dekametrum). Það er þessi munur sem knýr vindinn. Merkilegt - því þúsundir kílómetra eru á milli.

Á myndinni er bókstafurinn L settur þar sem lægðin við sjávarmál er undir. Ekki sér mikið til lægðarinnar. Hún er á svo mikilli hraðferð að lægðardragið breiða sem á eftir henni er nær ekki taki á henni. Sunnan við lægðina teygir hes háloftarastarinnar sig niður á við, vindur er um 30 m/s í 850 hPa og í 100 metra hæð yfir sjó er ofsaveður af vestri á bletti. Það rétt sneiðir hjá Íslandi á mánudag.

Austanáttin norðan við lægðarmiðjuna nær sér varla á strik að ráði nema allra syðst á landinu. Háloftalægðardragið breiða og flata fylgir í humátt á eftir og stýrir sennilega veðri hér á landi fram á fimmtudag (sumardaginn fyrsta). Lægðardraginu fylgja nokkrar smálægðir með frekar svölu veðri - kannski éljum sólin skín vonandi eitthvað líka. Að sögn verður lengst af norðaustanátt á Vestfjörðum.

Og þá moli fyrir veðurkortanördin - aðrir geta snúið sér að heilbrigðari viðfangsefnum. Sunnan við röstina á myndinni að ofan eru veðrahvörfin óvenju há og má sjá það á kortinu að neðan. Það sýnir þrýstihæð veðrahvarfanna á sama tíma og kortið að ofan. Kortin sýna sama svæði og batna að mun við stækkun.

w-blogg210413b

Hér má sjá lægðarmiðjuna sem dökkbrúna dæld í veðrahvörfin suðvestan við Ísland. Þetta kort sýnir vel að hún er komin allt of framarlega í bylgjuna (blái flöturinn) til að ná taki á henni en rúllar þess í stað til austurs rétt vestan við bylgjutoppinn - en hann hreyfist til austurs. Bláa svæðið sýnir há veðrahvörf og byrjar blái liturinn við 240 hPa. Ljósbláa svæðið er hæst og má þar sjá tölur í kringum 130 hPa. Þetta er með hærra móti. Veðrahvörfin belgjast upp í um 15 km hæð - en eru venjulega á bilinu 9 til 11 hér um slóðir.

Þessi háu veðrahvörf sjást líka á þriðja kortinu en það sýnir mættishita þeirra.

w-blogg210413c

Brúni mökkurinn sýnir veðrahvörfin háu. Tölurnar sýna mættishita í Kelvinstigum, þær hæstu á milli 370 og 380 K eða um 100°C. Svo hár yrði hitinn við jörð ef takast mætti að ná loftinu niður úr þessari hæð - en það stendur ekki til, hvorki í bráð né lengd.


Engin sumarstaða

Ekki fór mikið fyrir hlýindunum í sunnanáttinni snöggu sem gekk yfir landið í dag (föstudag 19. apríl). Mest fréttist af 9,2 stigum norður á Siglunesi og rigningin syðra var heldur hráslagaleg. Nú er tekin við afskaplega skammvinn (og lin) suðvestanátt með skúrum og slydduéljum. Allt þetta á að hreinsast burt á undan næstu lægð en hennar fer að gæta á aðfaranótt mánudagsins.

Þessi nýja lægð er hluti af gríðarmiklu háloftalægðardragi sem nær vestur og suður um Bandaríkin öll og sami sveigurinn nær allt til Alaska í vestri. Þetta sést vel á spákorti evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir um hádegi á sunnudag (21. apríl). Jafnhæðarlínur eru heildregnar en litafletir sýna þykktina (kortið batnar stórlega við tvöfalda stækkun). Því þéttari sem jafnhæðarlínurnar eru því hvassari er vindurinn, því minni sem þykktin er því kaldari er neðri hluti veðrahvolfs.

w-blogg200413

Ísland er rétt neðan við miðja mynd en kortið nær allt suður til Kanaríeyja, austur til Indlands og vestur til Mexíkó og Alaska.

Kuldapollurinn mikli sem við höfum til hægðar kallað Stóra-Bola er óþarflega frísklegur miðað við árstíma og bróðir hans Síberíu-blesi sést varla í samanburðinum. Þetta er vonandi aðeins tímabundinn styrkur. Fjólublái liturinn sýnir þykkt undir 4920 metrum í þann veginn að skella á Vestur-Grænlandi - sem á að stöðva framrás hennar.

Vestur af Íslandi er dálítill hæðarhryggur (með góðu veðri) á hraðri leið austur. Vestan hans er mikið hes neðan úr heimskautaröstinni, yfir 50 m/s hvass vindur. Þetta fer allt til austurs fyrir sunnan land en eftir situr lægð við Ísland í nokkra daga (að sögn reiknimiðstöðva).

Við sjáum að kalda loftið nær langt suður um Bandaríkin og ekki er sérlega hlýtt í Evrópu heldur, þykktin rétt slefar í 5460 metra (sem okkur þykir gott) en er varla sérstakt suður á Þýskalandi og hvað þá á Ítalíu, Grikklandi eða Tyrklandi. Í hryggnum suðvestan við Ísland (á kortinu) er hlýrra loft sem mun um síðir komast til Suður-Evrópu og bætir ástandið þar og gefur álfunni vestanverðri falsvonir um vor í nánd.

En hvað með okkur? Meðalhiti í Reykjavík er um 3 stig á þessum árstíma, en 2 á Akureyri. Meðalþykkt er um 5290 metrar - einmitt svipað og spáð er fram eftir vikunni - en síðan á hún að síga. Varnarsigur? Já, ef sólin lætur sjá sig.


Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 11
  • Sl. sólarhring: 183
  • Sl. viku: 2458
  • Frá upphafi: 2434568

Annað

  • Innlit í dag: 9
  • Innlit sl. viku: 2183
  • Gestir í dag: 9
  • IP-tölur í dag: 9

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband