Nær ekki taki

Næsta lægð kemur að landinu seint á sunnudagskvöld (21. apríl) eða á aðfaranótt mánudags. Hún er ein af þeim sem hraðar sér hjá án þess að háloftavindar nái á henni taki. Hér er átt við að þótt lægðin sé gerðarleg á sjávarmálsþrýstikortum sést hringrás hennar lítt eða ekki á háloftakortum. Þetta sést á 300 hPa spákorti evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir klukkan 18 á sunnudagskvöld.

w-blogg210413a

Jafnhæðarlínur eru heildregnar, vindörvar sýna vindhraða og stefnu en litafletirnir sýna vindhraða og má segja að þeir afmarki heimskautaröstina. Ljósgræni liturinn táknar vindhraða á bilinu 40 til 50 m/s. Dekksti blái liturinn í röstinni er 80 til 90 m/s. Röstin liggur á milli hæðar nærri Asóreyjum og mikillar háloftalægðar nærri Thule á Grænlandi. Munurinn á hæsta og lægsta hæðargildi á kortinu er um 1320 metrar (merkingar eru í dekametrum). Það er þessi munur sem knýr vindinn. Merkilegt - því þúsundir kílómetra eru á milli.

Á myndinni er bókstafurinn L settur þar sem lægðin við sjávarmál er undir. Ekki sér mikið til lægðarinnar. Hún er á svo mikilli hraðferð að lægðardragið breiða sem á eftir henni er nær ekki taki á henni. Sunnan við lægðina teygir hes háloftarastarinnar sig niður á við, vindur er um 30 m/s í 850 hPa og í 100 metra hæð yfir sjó er ofsaveður af vestri á bletti. Það rétt sneiðir hjá Íslandi á mánudag.

Austanáttin norðan við lægðarmiðjuna nær sér varla á strik að ráði nema allra syðst á landinu. Háloftalægðardragið breiða og flata fylgir í humátt á eftir og stýrir sennilega veðri hér á landi fram á fimmtudag (sumardaginn fyrsta). Lægðardraginu fylgja nokkrar smálægðir með frekar svölu veðri - kannski éljum sólin skín vonandi eitthvað líka. Að sögn verður lengst af norðaustanátt á Vestfjörðum.

Og þá moli fyrir veðurkortanördin - aðrir geta snúið sér að heilbrigðari viðfangsefnum. Sunnan við röstina á myndinni að ofan eru veðrahvörfin óvenju há og má sjá það á kortinu að neðan. Það sýnir þrýstihæð veðrahvarfanna á sama tíma og kortið að ofan. Kortin sýna sama svæði og batna að mun við stækkun.

w-blogg210413b

Hér má sjá lægðarmiðjuna sem dökkbrúna dæld í veðrahvörfin suðvestan við Ísland. Þetta kort sýnir vel að hún er komin allt of framarlega í bylgjuna (blái flöturinn) til að ná taki á henni en rúllar þess í stað til austurs rétt vestan við bylgjutoppinn - en hann hreyfist til austurs. Bláa svæðið sýnir há veðrahvörf og byrjar blái liturinn við 240 hPa. Ljósbláa svæðið er hæst og má þar sjá tölur í kringum 130 hPa. Þetta er með hærra móti. Veðrahvörfin belgjast upp í um 15 km hæð - en eru venjulega á bilinu 9 til 11 hér um slóðir.

Þessi háu veðrahvörf sjást líka á þriðja kortinu en það sýnir mættishita þeirra.

w-blogg210413c

Brúni mökkurinn sýnir veðrahvörfin háu. Tölurnar sýna mættishita í Kelvinstigum, þær hæstu á milli 370 og 380 K eða um 100°C. Svo hár yrði hitinn við jörð ef takast mætti að ná loftinu niður úr þessari hæð - en það stendur ekki til, hvorki í bráð né lengd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg031124c
  • w-blogg031124b
  • w-blogg031124a
  • w-blogg311024a
  • w-blogg311024b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.11.): 68
  • Sl. sólarhring: 90
  • Sl. viku: 1493
  • Frá upphafi: 2407616

Annað

  • Innlit í dag: 61
  • Innlit sl. viku: 1321
  • Gestir í dag: 60
  • IP-tölur í dag: 57

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband