Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2013

Óvenjuleg hlýindi - fjúka hjá

Óvenju hlýtt hefur verið víða um land í dag (þriðjudag 26. nóvember) og í gær. Sérlega hlýtt hefur verið á Austfjörðum og komst hiti í 20,2 stig á Dalatanga. Sjaldgæft er að hiti nái 20 stigum í nóvember og aðeins er vitað til þess að það hafi gerst í tveimur fyrri nóvembermánuðum, 1999 og 2011. Í nóvember 1999 fór hiti raunar í 20 stig tvisvar með nokkurra daga millibili.

Hámarkshitamet mánaðarins var sett í fyrri hrinunni 1999, 23,2 stig mældust þá á sjálfvirku stöðinni á Dalatanga og 22,7 á mönnuðu stöðinni á sama stað.

Hitinn í dag er sá hæsti sem mælst hefur svo seint á árinu og var dægurmet dagsins slegið svo um munaði, fyrra metið var sett á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði 1994 og var 14,5 stig. Met dagsins var sum sé 5,7 stigum hærra.

Mikil hrúga af dægurmetum stöðva féll eins og vera ber, flest á sjálfvirkum stöðvum sem ekki hafa athugað lengi, en dægurmet féllu reyndar á mönnuðu stöðinni á Akureyri þar sem nokkuð öruggur dægurhámarkalisti nær aftur til 1938 (13,9 stig) - og á mönnuðu stöðinni á Dalatanga en þar er dægurmetalistinn 64 ár (65 með nýju færslunni).

Tafla sem sýnir ný met fyrir nóvember allan á veðurstöðvunum er hins vegar heldur rýr. Hitahrinurnar 1999 og 2011 eiga enn flestöll mánaðametin. Þeim var ekki haggað í dag.

Hvasst var á landinu í dag og á hvassviðrið sinn þátt í hinum háa hita. Það er óvenjulegt að hiti á veðurstöð nái mættishita í 850 hPa. Yfirleitt blandast hlýindin í háloftunum við kalt loft neðar þannig að munur sé á þessu tvennu - jafnvel fljóti hlýja loftið alveg yfir. Evrópureiknimiðstöðin sagði mættishitann við Austurland hafa komist í rúm 20 stig. Þykktin var meiri en 5540 metrar - það er eins og á góðum sumardegi.

En þetta er væntanlega það hlýjasta í bili, við vonum auðvitað það besta en ekki er víst að 20 stigunum verði náð aftur fyrr en í maí næsta vor - eða enn síðar. Veðrið hefur samt lag á að koma okkur sífellt á óvart. Umhleypingarnir eiga samt að halda áfram en með venjubundnari hita. Svo er alltaf eitthvað kuldakast lengra framundan ef trúa má spánum. Við vonum að slíkt rætist ekki.

Vegna flókinna átaka á alþingi hungurdiska um framtíðarritstjórnarstefnu miðilsins verður minna um pistla á næstunni en verið hefur að jafnaði undanfarin ár. Leitað er pólitískra lausna.


Umhleypingar áfram

Ekki er að sjá að lát sé á lægðagangi úr vestri og suðvestri. Útilokað er að henda reiður á því öllu með margra daga fyrirvara. Ætli laugardagurinn (23. nóvember) lendi samt ekki á milli lægða - eins og það heitir. En alla vega stefnir frekar hlýtt loft í átt til landsins. Það sést á norðurhvelskortinu hér að neðan sem gildir um hádegi á sunnudag, 24. nóvember.

w-blogg231113a 

Örin bendir á Ísland. Jafnhæðarlínur eru heildregnar Því þéttari sem þær eru því meiri er vindur í háloftunum. Þykktin er sýnd í lit, hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Mörkin á milli grænu og bláu litanna er við 5280 metra. Á þessum árstíma er grænn litur til merkis um hita í ríflegu meðalagi. Reyndar telst ljósasti græni liturinn hlýr og mjög hlýtt loft fylgir gula litnum enda er þykktin þar í dæmigerðri sumarstöðu, meiri en 5460 metrar.

Þéttar jafnhæðarlínur sýna heimskautaröstina - sem ritstjórinn kennir líka við norðurslóðir. Má mikið vera ef það er ekki viðkunnanlegra nafn - jú, ætli það ekki. Norðan rastarinnar er ríki vetrarins þar er mikill fjöldi smálægða - sem geta runnið saman í afgerandi kuldapolla. Fjólublái liturinn sýnir hvar þykktin er minni en 4920 metrar. Liturinn hefur ekki enn náð vetrarútbreiðslu og enn er aðeins lítið svæði þar sem saman fara mjög lág þykkt - og mjög lágur 500 hPa-flötur. - Um það er flestum víst sama nema fáeinum veðurnördum - sem fylgjast spennt með þróuninni.

Rétt er að benda á mikinn kulda sem á kortinu flengist suður um norðaustanverð Bandaríkin. Ná þó varla mikið sunnar en hér er sýnt. Afskorin lægð plagar íbúa við Miðjarðarhaf og á að þokast austur og sækja í sig veðrið. Snjóar þá í fjöll og efri byggðir á Balkanskaga og jafnvel víðar.


Hægur niðri - á fullu uppi

Spákort hirlam-líkansins um sjávarmálsþrýsting, hita í 850 hPa og úrkomu sýnir hægan vind á föstudag (22. nóvember).

w-blogg221113a 

Langt er á milli jafnþrýstilína við Ísland. Lægðin sem er nýfarin yfir Grænland er komin langleiðina til Svalbarða og er býsna djúp, 962 hPa í miðju. Hæðin fyrir sunnan land er 1028 hPa. Munurinn á milli þrýstikerfanna er því 66 hPa - en hans gætir ekki á Íslandi einmitt þegar kortið gildir. Við gætum þakkað skjóli af Grænlandi fyrir greiðann í þetta sinn.

En á kortinu eru einnig jafnhitalínur í 850 hPa. Þær eru strikaðar á fimm stiga bili. Frostmarkslínan er höfð fjólublá á þessu korti, en sé hiti yfir frostmarki eru línurnar hafðar rauðar, en bláar sé hiti undir því. Á kortum sem sýna hita í 850 hPa er -5 stiga línan oft aðgreind frá hinum með lit eða öðrum hætti. Hún er oft notuð til að giska á hvort úrkoma hér á landi fellur sem snjór eða regn á láglendi. Ágæt þumalfingursregla fyrir þá sem reyna að túlka veðurkort á eigin spýtur.

Á kortinu liggur -5 stiga línan um landið sunnanvert, en -15 stig snerta norðausturhornið. Þetta er töluverður hitamunur - eða hitabratti eins og ritstjórinn kýs af sérvisku sinni að kalla það sem flestir kalla hitastigul. Það er til samræmis við þrýstibratta, hæðarbratta og þykktarbratta. Hitastigul notar hann hins vegar frekar þegar fjallað er hitamun lóðrétt í lofti, sjó eða jörð. Algengt er líka að nota hitafallanda - sérstaklega þegar farið er upp á við í lofthjúpnum.

En hvað um það, meir en 10 stigum munar á hita á landinu í stefnuna norður/suður. Það sést ekki af þessu korti einu og sér að hitabrattinn er hér að eyða áhrifum mikils vestanvindstrengs í háloftunum. Nú kemur að einu ef og síðan öðru: Ef hitabratti þessi næði upp í gegnum veðrahvolfið og ef enginn vindur væri í háloftunum myndi hann búa til hið versta veður - austnorðaustan storm eða rok á landinu. En - það er hægviðri.

Nú vitum við (með því að skoða fleiri kort) að hitabrattinn nær upp í gegnum veðrahvolfið - en þar er mikill vestanstrengur - austnorðaustanveðrið sem hitabrattinn er að reyna að búa til gengur upp á móti vestanstrengnum - úr verður hægviðri. Nú hafa flestir týnt þræði - og verður að hafa það. En við lítum á kort sem sýnir vestanstrenginn í 300 hPa (nærri veðrahvörfum).

w-blogg221113b

Jafnhæðarlínur eru heildregnar og merktar í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Hæðin fyrir sunnan land sýnir 9290 metra (rúma 9 km). Vindur er sýndur með hefðbundnum vindörvum og lit - þar sem hann er mestur. Blái liturinn úti af Vestfjörðum táknar vind á bilinu 50 til 60 m/s. Hitabratti í neðri hluta veðrahvolfs sér til að hans gætir ekki við jörð. En hvaða bratti býr þá til vindstrenginn? Það er bratti veðrahvarfanna sjálfra og hitafar sem þeim bratta fylgir.

Hæðin fyrir sunnan land hefur tvær ámóta lægðir á hvora hönd. Þessi uppstilling er oft kölluð ómegafyrirstaða. Tölvuspárnar draga þó í efa að um raunverulega fyrirstöðu sé að ræða - heldur bara eitthvað sem virðist vera það. Alla vega á fyrirstaðan ekki að halda.


Smávegis um lágmarkshitameting á árinu 2013

Nú er í lagi að fara að fylgjast með metingi um köldustu daga ársins. Það kom ritstjóranum satt best að segja á óvart að mánudagurinn 18. nóvember reyndist eiga lægsta lágmark ársins á 41 sjálfvirkri veðurstöð af 175 í pottinum. Þá var meðalhiti í byggðum -5,81 stig (svo reiknað sé með keppnisaukastöfum), en -7,20 ef hálendið er talið með.

Aðalkeppinauturinn, 5. mars, á lægsta árshita á 33 stöðvum - en byggðarmeðalhitinn var þó nokkuð lægri en nú á dögunum, -7,78 stig. Fimmti mars er þannig enn kaldasti dagur ársins. Þá fór hiti ekki upp fyrir frostmark á neinni stöð. Lægsta landsdagshámark (úff) í nóvember, hingað til, er 4,5 stig - mánudagurinn (18.) á það.

Janúar og febrúar í ár voru fádæma hlýir og árslágmarksveiði þeirra rýr, engin stöð í janúar og aðeins tvær í febrúar. Mars hangir enn á 75 stöðvarárslágmörkum en nóvember er þegar kominn upp í 61 stöð - og þriðjungur mánaðarins eftir. Mikið kuldakast í apríl nældi í 35 lágmörk og maí meira að segja tvö.

Algengt er að kaldasti dagur ársins sé í desember - við bíðum frekari tíðinda.

Allt með fyrirvara um mögulegar villur.


Önnur lægð fer yfir Grænland

Nefnt var fyrir nokkrum dögum að vikan færi í að koma tveimur lægðum yfir Grænland og áfram austur. Fyrri lægðin fór til hjá í dag (þriðjudag) en sú síðari fer yfir Grænland aðra nótt. Mikið illviðri af suðri hefur fylgt þessum lægðum við vesturströnd Grænlands. Í Nuuk hefur vindur legið í 20 til 30 m/s í sunnanáttinni á undan lægðunum. Vill til að þar eru menn ýmsu vanir. Þegar síðast fréttist (um kl. 23 að íslenskum tíma) voru þar enn 25 m/s af suðri. Sennilega lægir í nótt.

En talsverð hlýindi berast nú á undan síðari lægðinni til austurs um Grænland og síðan Ísland. Kortið hér að neðan sýnir þykktarspá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir kl. 6 á fimmtudagsmorgni (21. nóvember).

w-blogg201113a 

Jafnþykktarlínur eru svartar og heildregnar en litir sýna hita í 850 hPa. Að hluta til er loftið komið úr suðri - en að hluta til stafa hlýindin af niðurstreymi austan Grænlandsjökuls. Suðvestan og sunnan Íslands er þykktin vel yfir 5400 metrum.

Venjulega liggja litir og jafnþykktarlínur nokkuð samsíða á kortum af þessu tagi en hér bregður talsvert út af yfir Íslandi. Þar liggur kalt loft yfir landinu þótt mjög hlýtt sé ofar. Frostlaust er í um 2900 metra hæð yfir landinu sunnanverðu - en -2 til -4 stiga frost er í 1400 metrum og jafnvel meira neðar. Staðbundnar hitaspár eru mjög erfiðar í stöðu sem þessari.

Ef trúa má líkaninu mun hlýja loftið þó slá sér niður síðar um daginn - og þá austanlands. Mættishiti í 850 hPa fer þá yfir 20 stig (já, plús) - en - æ - þess gætir varla niður undir sjávarmáli. Helst að möguleiki sé á skammvinnum hitatoppi á sunnanverðum Austfjörðum - það er þó móti líkum að einhver sérstök tíðindi verði.

Í efra vinstra horni myndarinnar er mjög kalt loft - algjör kuldaboli. Þykktin ekki nema 4940 metrar. Þetta loft virðist vera nægilega vel blandað til þess að eiga greiða leið yfir jökulinn. Alla vega gerir reiknilíkanið ráð fyrir því - en það gerist norðan við 70. breiddarstig.

Þetta sést vel á síðara kortinu en það sýnir þykktina rúmum sólarhring síðar en það fyrra, um hádegi á föstudag.

w-blogg201113b 

Á fyrra kortinu var hæsta þykktin sem sást 5480 metrar en sú lægsta 4940 metrar. Það hefur ekki breyst á því síðara. Það sem hefur breyst er að hlýja loftið hefur hörfað austur til Noregs og til Skotlands en yfir Íslandi er gríðarlegur þykktarbratti, 180 til 200 metrar. Hitamunur á milli Norður- og Suðurlands er um 18 til 20 stig í 850 hPa.

Þykktarbratti af þessu tagi er óþægilegur - en hefur oft komið við sögu á þessum vettvangi áður. Man einhver eftir því? Taka skal fram að ekki er ætlast til að lesendur muni eitt eða neitt. Við fjöllum bara enn og aftur um málið síðar í von um að tveir til fjórir fari að muna.


Norðvestanstrengurinn

Nú liggur mikill norðvestanstrengur í háloftunum yfir landið. Lægð sem er (seint á mánudagskvöldi 18.11.) að myndast við strönd Grænlands norður af Vestfjörðum hreyfist mjög hratt til suðausturs og dýpkar. Hún fer hjá landinu á morgun. Hlýtt loft er að ná yfirhöndinni í háloftunum en þegar lægðin fer hjá fleygast sneið af köldu norðlægu lofti undir það hlýja. Svo sækir hlýja loftið aftur að.

En lítum á kort sem gildir um hádegi á morgun. Það sýnir hæð 925 hPa-flatarins (í dekametrum) auk hita og vinds í fletinum. Jafnhæðarlínur eru heildregnar, hiti sýndur í lit og vindur með hefðbundnum vindörvum.

w-blogg191113a 

Hér er lægðin norður af Melrakkasléttu og verður úr sögunni hjá okkur á miðvikudaginn. Við sjáum kaldan streng frá Grænlandsströnd stefna á Vestfirði - en annar kemur á móts við hann úr norðaustri. Sá er heldur kaldari og stuggar sjaldséðri norðvestanáttinni frá. Þessi staða var (og er) oft hættuleg minni skipum á miðunum.  

Við sjáum að í þessum fleti er kalda loftið í framsókn á landinu öllu (vindurinn ber blálituðu fletina til suðausturs). Á móti kemur hlýtt loft sem er á leið til austurs sunnar á kortinu. Þetta loft á að ná til landsins á miðvikudag, en gæti tekið tíma fyrir það að hreinsa kalda loftið frá þar sem hlýtt loft er léttara en kalt.

En norðvestanstrengurinn er býsna stífur skammt undan Vesturlandi. Þegar vindur snýst úr vestri í norðvestur og norður á Suðausturlandi getur hann rifið verulega í vegna bylgjugangs sem myndast þar yfir fjallgörðum. Bylgjurnar eru reyndar mjög háreistar þótt ekki séu þær jafnskæðar og yfir Austur-Grænlandi. Þar sést bylgjugangurinn alveg upp í 23 km hæð (og sjálfsagt ofar) þar sem vindurinn liggur þvert á ströndina. Þar uppi er kalt í bylgjutoppum og rétt hugsanlegt er að við sjáum fyrstu glitský haustsins - ef neðri ský byrgja ekki sýn.


Norðvestan- og vestanumhleypingar

Vikan virðist ætla að fara í að koma tveimur lægðum austur yfir Grænland. Í sjálfu sér fer veðrakerfið létt með það - en hvernig sýndarveruleika tölvuspánna gengur að herma það - áður en lofthjúpurinn sjálfur leggur niður spilin er annað mál.

En ætli við trúum samt ekki spánum varðandi fyrri lægðina - þá sem á að fara hjá Íslandi á þriðjudaginn. En lítum áður á þykktarkort morgundagsins (mánudags 17. nóvember).

w-blogg181113a 

Jafnþykktarlínur eru heildregnar en hiti í 850 hPa er sýndur með litum. Það er 5040 metra jafnþykktarlínan sem umlykur landið norðaustanvert sem þýðir að loftið er meir en 10 stigum kaldara en að meðallagi í nóvember. Frostið er meira en -16 stig í 850 hPa-fletinum - en trúlega meira við jörð.

En háloftakuldinn fer fljótt hjá. Við sjáum aðeins í hlýja loftið við Suður-Grænland. Að vísu er guli bletturinn sem við sjáum hálfgert plat, þetta loft hefur hlýnað í niðurstreymi austan jökuls í mikilli norðvestanátt. Blettir sem þessir slitna ekki alltaf frá uppruna sínum. Hlýrra loft er rétt sunnan við kortið og kemur inn á það síðdegis á mánudag.

Næsta kort sýnir mun stærra svæði. Hér eru jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins heildregnar en þykktin er sýnd í lit.

w-blogg181113b

Rauða örin bendir á Ísland. Við sjáum að jafnhæðarlínurnar eru gríðarþéttar við landið vestanvert. Þetta er lægðardrag sem nýkomið er yfir Grænland og er á hraðri leið til suðausturs. Lægð er við sjávarmál norðan við land. Kortið gildir á hádegi á þriðjudag. (19.11.) Mörkin á milli grænu og bláu litanna er við 5280 metra. Landið er nær allt í bláa litnum - en þetta er þó mun meiri þykkt heldur en var á mánudagskortinu. En sé farið í saumana á smáatriðum kemur í ljós að kalda loftið er hér aftur komið í framsókn. Svo er næsta lægðardrag í undirbúningi vestan Grænlands.

Þetta kort er fengið úr hálfrargráðugögnum evrópureiknimiðstöðvarinnar. Sú landfræðilega upplausn er heppileg til að sýna aðalatriði máls. En líkanið er nákvæmara - reiknar á áttundahluta úr landfræðigráðu. Á næsta korti má sjá norðvestanstrenginn í þeirri upplausn - í sömu hæð, 500 hPa.

w-blogg181113c

Ísland er á miðri mynd. Hér sýna litafletir hita í 500 hPa og vindur og vindhraði er sýndur með hefðbundnum vindörvum. Vel sést hversu mikill strengurinn er, 60 til 65 m/s þar sem mest er (tvö flögg og þrjú strik). Sömuleiðis sést vel hversu óskaplega þéttar jafnhitalínurnar eru - enda eins gott því hita (eða þykktarbratti) fer langt með að vega upp á móti jafnhæðarlínunum og vindur er mun minni við jörð.

Við sjáum samt að smábylgjur eru á jafnhæðarlínunum. Það eru fjöll Íslands og Grænlands sem trufla vindinn - rétt að gefa fjallabylgjum og tilheyrandi vindum auga - sérstaklega á svæðinu frá Eyjafjöllum austur á Firði síðdegis á þriðjudag og á þriðjudagskvöld.

Svo er annað - fallvindar við Austur-Grænland. Við skulum líta á eitt kort til viðbótar. Það sýnir vind líkansins í 100 metra hæð og gildir kl. 9 á þriðjudagsmorgni - þremur klukkustundum á undan kortunum hér að ofan. Ástæðan fyrir tímavalinu sést á kortinu.

w-blogg181113d 

Milli Vestfjarða og Grænlands er svæði þar sem vindur er meiri en 24 m/s - og þar blæs vindur úr norðvestri - þvert á Grænlandssund. Vindhraði af þessu tagi er auðvitað hvergi algengari heldur en á þessum slóðum en það er áttin sem er óvenjuleg. Strengurinn virðist eiga uppruna sinn á mjóu svæði við Grænlandsströnd.

Við austanverða jökulbrúnina er langt svæði þar sem vindur er mikill. Þessi mikli vindur nær hins vegar hvergi niður að sjávarmáli nema á mjög afmörkuðu svæði. Hungurdiskar hafa fjallað áður um fallvinda á Austur-Grænlandi og verður það ekki endurtekið hér. Líkanið segir þennan ákveðna streng ekki ná til Vestfjarða og við trúum því í bili. - Hann er mun veigaminni á hádegiskortinu og þess vegna var þetta valið.

En að lokum hvetjum við þá sem eiga eitthvað undir veðri og vindum að fylgjast vel með spám Veðurstofunnar næstu daga. Það er möguleiki á hvössum vindum, frostrigningu eða annarri óáran á stöku stað á landinu. En hungurdiskar spá engu.


Fárviðri í Norður-Noregi

Þegar þetta er skrifað (laugardagskvöldið 16. nóvember) er mjög snörp lægð að ganga inn yfir Norður-Noreg. Norska veðurstofan (met.no) segir frá fárviðri á strönd í Norðlandsfylkis. Myndin hér að neðan sýnir lægðina eins og hún var í hirlam-líkaninu kl.21 í kvöld.

w-blogg171113 

 Í spánni er lægðin 969 hPa djúp og fer á miklum hraða til austurs. Suður af henni er þétt þrýstilínuknippi - en það er ekki mjög fyrirferðarmikið og versta veðrið stendur því ekki lengi yfir á hverjum stað. Lægðin fór fyrir suðaustan Ísland síðastliðna nótt en hafði þá ekki náð sér á strik þótt talsvert snjóaði sums staðar á Suðaustur- og Austurlandi.

Lægðin fyrir norðan Ísland er hluti af háloftalægðardragi sem fer til suðausturs yfir landið á sunnudag. Þá gengur vindur hér á landi til norðurs og kólnar talsvert. Við sjáum að ekki er langt í -15 og -20 stiga jafnhitalínurnar í 850 hPa - við viljum sjá sem minnst af slíku.

Þykktin á um stund að fara niður fyrir 5040 metra á mánudaginn. Það dugir í frost um land allt og alvöru vetrarkulda. Hins vegar eru spár eitthvað óvissar um hitatölurnar. Hlýtt loft í háloftunum kemur tiltölulega hratt úr vestri og leggst yfir kuldann. Vonandi að það ástand beri ekki með sér frostrigningarleiðindi.


Óvenjulegu þurrktímabili að ljúka?

Þegar þetta er skrifað (seint á föstudagskvöldi, 8. nóvember) hefur engin úrkoma mælst í Reykjavík það sem af er mánuðinum - og síðustu 30 daga hafa aðeins mælst 7,2 mm. Þetta er óvenjulegt á þessum árstíma - einmitt þegar svokallaðar haustrigningar eiga að standa sem hæst.

Ef trúa má mælingum voru fyrstu níu dagar nóvember 1899 alveg þurrir í Reykjavík og fimm síðustu dagar október reyndar líka. En þann 10. til 12. nóvember mældist úrkoman meiri en 40 mm - þá var sá þurrkur búinn.

Sömu 30 dagar voru ámóta þurrir 1925 og nú, gott ef ekki var verið að sýna eina vinsælustu revíu allra tíma, Haustrigningar í þurrkinum. - En svo komu meir en 50 mm á þremur dögum.

Spurning hvað úrkoman verður mikil í Reykjavík í leiðindalægðinni sem spáð er á sunnudaginn - og þeim sem fylgja í kjölfarið. Evrópureiknimiðstöðin segir frá um 40 mm á þremur dögum. Ekki ósvipað og varð í lok þurrkkaflanna 1925 og 1899.

Aðdáun ritstjórans á svonefndum svipspám (analógíuspám) er þó takmörkuð - og hefur heldur hrakað með árunum fremur en hitt. Enda er hann búinn að brenna sig á þeim.


Útgáfuhiksti

Hungurdiskar verða haldnir útgáfuhiksta næstu viku til tíu daga (verða þó sennilega ekki í algjöru stoppi). Því valda áhugaverð fundahöld sem ritstjórinn er flæktur í. Nú eru pistlarnir líka orðnir það margir að allir lesendur eiga fjölmarga ólesna á lager.

Fyrir nákvæmlega ári (7. nóvember 2012) mátti t.d. lesa um stöðvakerfi:

http://trj.blog.is/blog/trj/entry/1266911/

og sama dag 2010:

http://trj.blog.is/blog/trj/entry/1113840/

Pistillinn 7. nóvember 2011 var meira bundinn veðurspá dagsins - og því úr sér genginn:

http://trj.blog.is/blog/trj/entry/1203200/ 

Svo má halda áfram að lesa pistla í kringum þessar dagsetningar - eða hvað?

 


Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 15
  • Sl. sólarhring: 273
  • Sl. viku: 2394
  • Frá upphafi: 2434836

Annað

  • Innlit í dag: 11
  • Innlit sl. viku: 2121
  • Gestir í dag: 10
  • IP-tölur í dag: 10

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband