Önnur lægð fer yfir Grænland

Nefnt var fyrir nokkrum dögum að vikan færi í að koma tveimur lægðum yfir Grænland og áfram austur. Fyrri lægðin fór til hjá í dag (þriðjudag) en sú síðari fer yfir Grænland aðra nótt. Mikið illviðri af suðri hefur fylgt þessum lægðum við vesturströnd Grænlands. Í Nuuk hefur vindur legið í 20 til 30 m/s í sunnanáttinni á undan lægðunum. Vill til að þar eru menn ýmsu vanir. Þegar síðast fréttist (um kl. 23 að íslenskum tíma) voru þar enn 25 m/s af suðri. Sennilega lægir í nótt.

En talsverð hlýindi berast nú á undan síðari lægðinni til austurs um Grænland og síðan Ísland. Kortið hér að neðan sýnir þykktarspá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir kl. 6 á fimmtudagsmorgni (21. nóvember).

w-blogg201113a 

Jafnþykktarlínur eru svartar og heildregnar en litir sýna hita í 850 hPa. Að hluta til er loftið komið úr suðri - en að hluta til stafa hlýindin af niðurstreymi austan Grænlandsjökuls. Suðvestan og sunnan Íslands er þykktin vel yfir 5400 metrum.

Venjulega liggja litir og jafnþykktarlínur nokkuð samsíða á kortum af þessu tagi en hér bregður talsvert út af yfir Íslandi. Þar liggur kalt loft yfir landinu þótt mjög hlýtt sé ofar. Frostlaust er í um 2900 metra hæð yfir landinu sunnanverðu - en -2 til -4 stiga frost er í 1400 metrum og jafnvel meira neðar. Staðbundnar hitaspár eru mjög erfiðar í stöðu sem þessari.

Ef trúa má líkaninu mun hlýja loftið þó slá sér niður síðar um daginn - og þá austanlands. Mættishiti í 850 hPa fer þá yfir 20 stig (já, plús) - en - æ - þess gætir varla niður undir sjávarmáli. Helst að möguleiki sé á skammvinnum hitatoppi á sunnanverðum Austfjörðum - það er þó móti líkum að einhver sérstök tíðindi verði.

Í efra vinstra horni myndarinnar er mjög kalt loft - algjör kuldaboli. Þykktin ekki nema 4940 metrar. Þetta loft virðist vera nægilega vel blandað til þess að eiga greiða leið yfir jökulinn. Alla vega gerir reiknilíkanið ráð fyrir því - en það gerist norðan við 70. breiddarstig.

Þetta sést vel á síðara kortinu en það sýnir þykktina rúmum sólarhring síðar en það fyrra, um hádegi á föstudag.

w-blogg201113b 

Á fyrra kortinu var hæsta þykktin sem sást 5480 metrar en sú lægsta 4940 metrar. Það hefur ekki breyst á því síðara. Það sem hefur breyst er að hlýja loftið hefur hörfað austur til Noregs og til Skotlands en yfir Íslandi er gríðarlegur þykktarbratti, 180 til 200 metrar. Hitamunur á milli Norður- og Suðurlands er um 18 til 20 stig í 850 hPa.

Þykktarbratti af þessu tagi er óþægilegur - en hefur oft komið við sögu á þessum vettvangi áður. Man einhver eftir því? Taka skal fram að ekki er ætlast til að lesendur muni eitt eða neitt. Við fjöllum bara enn og aftur um málið síðar í von um að tveir til fjórir fari að muna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg031124c
  • w-blogg031124b
  • w-blogg031124a
  • w-blogg311024a
  • w-blogg311024b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.11.): 70
  • Sl. sólarhring: 86
  • Sl. viku: 1495
  • Frá upphafi: 2407618

Annað

  • Innlit í dag: 63
  • Innlit sl. viku: 1323
  • Gestir í dag: 62
  • IP-tölur í dag: 59

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband