Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2013
6.11.2013 | 01:08
Hundrað ára keðjumeðaltöl (eingöngu til gamans gert)
Um daginn litum við á stöðu 120 og 360-mánaða meðalhita, það er að segja 10 og 30 ára keðjumeðaltöl. Nú skulum við til gamans draga hundrað ára meðalhitann upp úr keðjusúpunni og líta síðan á lista yfir hlýjustu árabil á einstökum keðjuleggjum.
Fyrst hundrað ára meðaltalið. Í þetta sinn veljum við byggðalandsmeðalhitann. Hann er teygður aftur til ársins 1823. Hann má telja sæmilega öruggann aftur til 1930 en fyrir þann tíma hlykkjast hann í óöruggari farvegi. Það stendur vonandi til bóta síðar. Trúa má því að efnislega breyti óvissan litlu í því sem hér fer á eftir. Sama leik má auðvitað leika með röðum einstakra veðurstöðva.
Við gefum ferlinum rými og látum tímaásinn ná allt aftur til þess tíma að röðin byrjar og sömuleiðis nokkra áratugi fram í tímann. Hitinn er á lóðrétta ásnum.
Ferillinn leitar stöðugt upp á við síðustu 90 árin og hefur frá upphafi hækkað um 0,96 stig. Skyldi það vera hin hnattræna hlýnun? Ritstjórinn reiknaði til samanburðar út hversu mikið hinn frægi miðenglandshiti hefði breyst að sama máli. Í ljós kom að hækkunin þar á sama tímabili er 0,46 stig. Er það hnattræn hlýnun? Nær sá illræmdi norðurslóðaauki til okkar og margfaldar hnattræna hlýnun hér með tveimur? Eða er Atlantshafið að slá á hlýnun á Englandi? Hversu lengi heldur 100-ára keðjan áfram að hækka? Í sístöðuveðráttu ætti hún að taka sveig til flatari vegar eftir um það bil tíu ár.
En hver eru hlýjustu ár hverrar keðju hér á landi. Taflan að neðan á að segja frá því.
keðjulengd | frá | toppar | ||
1 | 2003 | 2003 | ||
2 | 2003 | 2004 | ||
3 | 2002 | 2004 | ||
4 | 2003 | 2006 | ||
5 | 2002 | 2006 | ||
6 | 2002 | 2007 | ||
7 | 2003 | 2009 | ||
8 | 2003 | 2010 | ||
9 | 2002 | 2010 | ||
10 | 2003 | 2012 | ||
11 | 2002 | 2012 | ||
12 | 2001 | 2012 | ||
13 | 2000 | 2012 | ||
14 | 1999 | 2012 | ||
15 | 1998 | 2012 | ||
20 | 1993 | 2012 | ||
25 | 1926 | 1950 | ||
30 | 1932 | 1961 | ||
40 | 1926 | 1965 | ||
50 | 1925 | 1974 | ||
60 | 1922 | 1981 | ||
70 | 1943 | 2012 | ||
80 | 1933 | 2012 | ||
90 | 1923 | 2012 | ||
100 | 1913 | 2012 |
Topparnir eru á þessari öld allt upp í keðjulengdina 25 ár. Keðjulengdirnar 10 til 20 ár áttu allar sitt hæsta gildi í fyrra. Flestar þessar lengdir ná enn hærri tölu þegar árið í ár (2013) verður gert upp nema 10-ára meðaltalið það dettur aðeins og spurning hvernig fer með 11 árin. Þar er óvíst hvort 2013 verður kaldara eða hlýrra heldur en 2002 (2002 dettur úr en 2013 kemur í staðinn).
Tuttuguárakeðjan átti í mikilli baráttu við árin 1928 til 1947 en rétt marði það 2012. Sé litið á einstakar veðurstöðvar er ábyggilega ýmist hvort hefur betur nýi eða gamli tíminn.
En hæsta 25-ára meðaltalið eiga árin 1926 til 1950, 30, 40 og 50 ár eru líka í fortíðinni. Sem stendur (2012) liggur 40-ára keðjan lengst neðan við hlýjustu árin - það munar 0,23 stigum. Við þurfum að bíða eitthvað eftir því að það hámark falli.
Síðan tekur 2012 aftur við og ræður 70, 80, 90 og 100 árum. Efni þessarar pistlaraðar er ekki uppurið og því má vera að fleiri fréttir berist síðar.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 01:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.11.2013 | 01:34
Frost yfir -20 stig - í fyrsta sinn í haust
Aðfaranótt þess 4. (mánudags) fór frostið í fyrsta sinn í haust í -20 stig á landinu þegar hitinn skaust niður í -21,5 stig á Brúarjökli. Það telst svo sem ekki til sérstakra tíðinda því landsdægurmet sama dags er -27,2 stig (Mývatn 1996). Við yfirgáfum -20 stigin í maíbyrjun í vor með maímetinu hræðilega. Það sem kom ritstjóranum meira á óvart er að þetta skyldi vera kaldasta nótt það sem af er ári á tveimur stöðvum á norðaustur- og austurhálendinu, bæði við Upptyppinga sem og á Eyjabökkum. Kaldari heldur en næturnar köldu í mars og apríl.
Landsmeðalhiti (í byggð) var ekki nema -1,5 stig nú á sunnudaginn en var þó hærri heldur en var í kastinu 1. maí (-2,6 stig). Mánudagurinn fjórði nóvember varð lítillega hlýrri (-0,9 stig) heldur en sá þriðji.
3.11.2013 | 01:31
Rakasnið
Hér verður (eins og oft áður) malað um einhverja smámuni í stöðu dagsins sem litlu sem engu skipta. Textinn er frekar þykkur og sjaldséð hugtök ríða húsum. - Aðvörun lokið.
Hér er fyrst spá harmonie-líkansins um sjávarmálsþrýsting, vind og úrkomu kl. 21 á sunnudagskvöld 3. nóvember. Jafnþrýstilínur eru heildregnar, hefðbundnar vindörvar sýna vindstefnu og vindhraða og úrkoma sýnd í litum. Eina úrkoman á kortinu eru nokkrar grænar klessur þræddar upp á línu sem liggur skammt út af landinu suðvestanverðu. Þetta er dálítill úrkomubakki sem líkanið hefur kreist út úr sýndarlofthjúpi sínum. Ekki er þetta mikið og alls ekki víst að raunheimar sýni það sama kl. 21 - en áhugasamir gætu gefið bakkanum gaum.
Næst er þversnið úr líkaninu. Það liggur eftir 23. lengdarbaug til norðurs rétt vestan við land. Legu sniðsins má sjá á litla Íslandskortinu í efra hægra horni (myndin batnar heldur við stækkun).
Hér hefur verið fjallað um þversnið af þessu tagi áður. Förum samt yfir táknmálið. Lárétti ásinn sýnir breiddarstig - norður eftir 23°V. Fjöllin á Snæfellsnesi sjást sem grár toppur við miðjan ásinn og Vestfjarðafjöllin eru önnur grá klessa lengra til hægri. Hornstrandir þar hægra megin. Lóðrétti ásinn sýnir þrýsting, hann minnkar auðvitað upp á við. Efst er merkt við 250 hPa - sá flötur er í um það bil 10 km hæð.
Litafletirnir sýna vind. Á öllum grænum svæðum er vindur lítill, minni en 10 m/s. Bláu svæðin sýna meiri vind. Hefðbundnar vindörvar sýna vindstefnuna en sérstaklega þarf að gæta að því að enginn lóðréttur vindur er sýndur. Ör sem liggur eins og suðaustanátt á hefðbundnu veðurkorti er líka suðaustanátt í þversniðinu.
Heildregnu línurnar sýna mættishita. Það er sá hiti sem loftið hefði ef það væri dregið niður til 1000 hPa þrýstings (ekki fjarri sjávarmáli). Mættishiti vex alltaf upp á við - í besta falli breytist hann ekki með hæð. [Þetta er nærri því satt - stöku sinnum má sjá hið gagnstæða alveg neðst á svona myndum, þar er mikið uppstreymi]. Þar sem hann breytist ört með hæð (línurnar eru þéttar) er loft stöðugt - jafnvel er um hitahvörf að ræða.
Veðrahvörfin sjást ekki á þessari mynd - þar eru jafnmættishitalínur gríðarlega þéttar. Þau sjást hins vegar mjög oft á sniðum eins og þessu - en ekki í dag. Örin sem merkt er með bókstafnum a bendir á svæði þar sem mættishitalínurnar eru þéttari en annars staðar. Þar eru líklega svokölluð kvikuhitahvörf. Þar undir eru fáar línur - loftið er mjög vel blandað.
Sniðið gengur í gegnum úrkomubakkann á fyrri myndinni. Satt best að segja þarf maður að vita af honum til að geta séð hann. Örin sem merkt er með bókstafnum b sýnir hvar þetta er. Þar liggur ljósblátt svæði þar sem vindhraði er aðeins meiri en í kring frá jörð og upp í um 600 hPa (um 4 km hæð).
Lítum nú á annað snið á sama stað - en nú er rakinn aðalatriði myndarinnar.
Ásarnir sýna það sama og áður - og sömu fjöll sjást á myndinni. Litafletir sýna rakastig, bláir litir tákna rakt loft en gulleitir þurrt. Heildregnu línurnar sýna svokallaðan jafngildismættishita (æ). Skilgreiningin er sú sama og á mættishita að því leyti að við flytjum loftið niður í 1000 hPa en til viðbótar leysum við dulvarma loftsins úr læðingi og hitum það með því. Jafngildismættishitinn er því allaf hærri heldur en mættishitinn fyrir sama loft.
Að jafnaði hækkar jafngildismættishitinn með hæð eins og þurri bróðirinn, en getur þó lækkað. Dæmi um það sést á þessari mynd. Örin sem merkt er með bókstafnum b sýnir svæði (rör) þar sem jafngildismættishitinn er á bilinu 292 til 294 Kelvinstig (um 20°C) nánast frá jörð og upp í 600 hPa. Þar er rakastig líka mun hærra heldur en umhverfis (á bilinu niður í um 800 hPa.
Þeir sem treysta sér til að rýna í myndina (hún batnar við stækkun) sjá að sitt hvoru megin við rörið er jafngildismættishitinn lægri heldur en bæði ofan og neðan við. Hvað hefur gerst?
Líklega það að rakt loft hefur komið að sunnan (frá vinstri) og skotist undir þurrara loft. Eitthvað (við sjáum ekki hvað það er) hefur orðið til þess að lyfta raka loftinu lítilsháttar. Við það þéttist rakinn, dulvarmi þess losnar og hitinn hækkar. Þetta er þó ekki meira en svo að þess sér mjög lítil merki á efri myndinni. Það sést þó - einmitt þar sem rörið er á neðri myndinni hafa jafnmættishitalínurnar gliðnað lítilsháttar (meira bil er þar á milli línanna heldur en til hvorrar handar). Ritstjórinn verður þó að játa að hann hefði alls ekki tekið eftir þessu nema eftir því að hafa séð rakasniðið.
Þar sem rakt loft með hærri jafngildismættishita liggur undir lofti þar sem hann er lægri býr yfir veltimætti sem kallað er. Það getur legið í friði í bæli sínu - en sé stuggað við því þannig að lóðrétt streymi fari af stað og dulvarminn losnað raskast jafnvægið og loftið getur farið að veltast um og blandast. Það getur haft víðtækar afleiðingar.
En hér er þetta bara smáatriði sem þó gæti valdið hálku suðvestanlands á sunnudagskvöld eða aðfaranótt mánudags.
2.11.2013 | 01:15
Þurr október í Reykjavík
Eins og fram hefur komið á fréttasíðu Veðurstofunnar var október sá þurrasti í Reykjavík síðan samfelldar úrkomumælingar hófust þar árið 1920. Í eldri syrpu (1884 til 1907) leynist einn ámóta þurr, 1892 - þá mældist mánaðarúrkoman 17,9 mm en 18,9 mm nú. Í eyðunni var mælt á Vífilsstöðum í október 1911 til 1917 og sömuleiðis 1919 - en enginn mánuður þar var svona rýr.
Í eyðunum sem út af standa var enginn sérlega þurr október. Sennilega eru keppinautar um lágmarksoktóber ekki fleiri frá 1884. Reyndar var úrkoma í Reykjavík (og í Nesi við Seltjörn) líka mæld á árunum 1829 til 1854. Þar er einn ofurþurr október, 1843. Jón Þorsteinsson mældi þá aðeins tveggja mm úrkomu. Óráð er þó að gefa út heilbrigðisvottorð á þá tölu að óathuguðu máli því Jón mældi ekki á hverjum degi - nokkrir rigningardagar voru gjarnan teknir saman. Við þennan hátt týnist óhjákvæmilega eitthvað (í uppgufun) auk þess sem slíkar tveggja til fjögurra daga syrpur geta legið yfir mánaðamót. Annars eru mælingar Jóns mjög trúverðugar.
En það mældust þó nærri 19 mm nú - það er langt í frá því að vera ekki neitt og dagar með eins mm úrkomu eða meiri voru sex. Koma þá upp í huga gamlar (og stöðugar) vangaveltur ritstjórans um árstíðasveiflur. Lítum á myndina.
Lárétti ásinn sýnir mánuði ársins en sá lóðrétti millimetra. Súlurnar segja til um lágmarksúrkomu hvers mánaðar í Reykjavík. Bæði tímabilin eru undir, 1884 til 1907 og frá og með 1920. Það sker í augu að síðustu fjórir mánuðir ársins eru mun tryggari í sínum háttum heldur en hinir.
Einhverju lítilsháttar munar um að september og nóvember eru deginum styttri heldur en október og desember - en langt í frá að skýra muninn. Hinn stutti febrúar lætur sig ekki muna um að vera ofan við janúar og mars. Júlímánuður sýnist hér sýnu úrkomutryggari heldur en maí, júní og ágúst. Trúlega er það tilviljun - okkar bíður alþurr júlí [Jón á tvo með 3 mm]. En júlílágmarkið er ekki hátt, aðeins 11,5 mm, frá 2009 - alls ekki úr löngu liðinni fortíð.
Hér stóð til að sýna aðra mynd. Á henni er hlutfall lágmarksins af meðalúrkomu mánaðarins sýnt. Sannleikurinn er sá að munur á myndunum tveimur er lítill - sú síðari þá tilgangslítil. En þeir sem vilja sjá hana geta litið á viðhengið. Jú, júlí fer upp fyrir nóvember. [Nafnið á skránni er best].
Um síðir munu afburðaþurrir haustmánuðir sýna sig og hafa örugglega komið í fortíðinni. Jón Þorsteinsson á alþurran september (ótrúlegt?) og 5 mm nóvember. En desember heldur alveg [hvað með desember 1872 og 1878? - þá var ekki mælt í Reykjavík].
1.11.2013 | 01:22
Þurrasti október suðvestanlands?
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (6.11.): 69
- Sl. sólarhring: 87
- Sl. viku: 1494
- Frá upphafi: 2407617
Annað
- Innlit í dag: 62
- Innlit sl. viku: 1322
- Gestir í dag: 61
- IP-tölur í dag: 58
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010