Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2012
12.7.2012 | 00:50
Staðan í þurrkmálunum
Veðrið heldur áfram að liggja í svipuðu fari. Hægviðri neðra en andar linnulítið af norðri efra. Þessu fylgir þurrkur um mikinn hluta landsins og fyrstu 11 dagana í júlí er hann litlu minni fyrir austan heldur en fyrir vestan. Ekki hafa nema 1,7 mm mælst á Dalatanga það sem af er mánuðinum sem er óvenjulegt og enn óvenjulegri eru 0,8 mm á Stórhöfða í Vestmannaeyjum. Í Reykjavík hafa þó mælst 12 mm, 5,5 mm í Stykkishólmi og 3,6 mm á Akureyri.
Fyrst skulum við bera fyrstu 11 daga júlímánaðar saman við sömu daga annarra ára. Þá kemur í ljós að tíu daga langir kaflar með lítilli úrkomu í júlíbyrjun eru nokkuð algengir - en við skulum samt líta á þetta áður en að merkari hlutum kemur.
Millimetrarnir 12 í Reykjavík þýða að það sem af er júlí er ekkert sérstaklega ofarlega á lista með þurrustu 11 fyrstu dögunum, við erum í 40. sæti af 116 þannig köflum. Þótt ekki hafi mælst nema 5,5 mm í Stykkishólmi það sem af er mánuðinum dugir það ekki nema í 47. sæti af 156. Á Akureyri er þessi kafli í 22. sæti af 85. Staðan í Vestmannaeyjum er merkari því það hefur ekki gerst nema fjórum sinnum áður að fyrstu 11. dagar júlímánaðar hafi verið jafnþurrir og nú - síðast sumarið 1957.
En lítum þvínæst á júní og fyrstu 11 daga júlímánaðar saman.
Í Reykjavík hefur ekki nema fjórum sinnum verið þurrara, síðast reyndar fyrir aðeins fjórum árum, 2008. Þurrastur var þessi sami tími 1971. Skömmu síðar fór að rigna og varð júlí einn sá hinn úrkomusamasti. Allir urðu mjög undrandi þegar uppgjörið kom í júlílok - en svo virðist sem aðallega hafi rignt á nóttunni í miðri viku (eða þannig). Tölur frá árunum 1908 til 1919 vantar í Reykjavík en þá kom að minnsta kosti einn afspyrnuþurr júnímánuður, 1916.
Í Stykkishólmi er 2012 í öðru sæti þurrkalistans, lítillega þurrara var á sama tíma 1991. Þetta er auðvitað mjög glæsilegt og óvenjulegt því árin eru eins og áður sagði 156. Á Akureyri er þessi tími í fimmta sæti eins og í Reykjavík - en af mun færri árum (85). Þurrast var 1950 - en síðan fór að rigna og rigna og rigna - fjórföld meðalúrkoma var þar í ágúst það ár. Vestmannaeyjar lenda nú í sjötta sæti. Þurrkurinn í ár byrjaði þar seinna en á hinum stöðunum.
En hvenær byrjaði þurrkurinn eiginlega í ár? Það er misjafnt eftir landshlutum. Það skipti um veðurlag í aprílbyrjun - en ætli sé samt ekki hóflegt að láta þurrkatímann í Reykjavík hefjast um 20. maí. Lítum á lista:
röð | ár | alls (mm) |
1 | 2008 | 25,2 |
2 | 1891 | 27,0 |
3 | 1890 | 27,6 |
4 | 1907 | 29,3 |
5 | 1924 | 30,5 |
6 | 1931 | 32,2 |
7 | 2012 | 33,6 |
8 | 1980 | 37,2 |
9 | 2007 | 39,5 |
Hér er þetta tímabil (21. maí til 11. júlí) í sjöunda sæti, sami tími árið 2008 var enn þurrari og litlu meiri úrkoma var 2007, en í öðru til fimmta sæti eru nokkuð forn ár - varla muna margir greinilega eftir þurrkinum 1924.
Á Akureyri er þessi tími nú í þriðja sæti - ívíð þurrara var 1990 og 1950. Í Vestmannaeyjum og í Stykkishólmi rigndi nokkuð eftir 20. maí til mánaðamóta þannig að árið í ár er talsvert neðar á lista á þessum stöðvum - keppnin er óskaplega hörð.
Svo er spurningin hvað þetta endist enn - reiknimiðstöðvar spá endrum og sinnum talsverðri úrkomu eftir viku til tíu daga en lítið verður úr. En auðvitað endar þurrkurinn um síðir.
Annars hafa vor og snemmsumur frá og með 2007 flest haft tilhneigingu til þurrka á Vesturlandi. Ef miðað er við tímabilið frá 1. júní til dagsins í dag eru fjögur af síðustu fimm árum á lista yfir 20 þurrustu snemmsumarkaflana. Árið í ár er eins og áður sagði í öðru sæti, 2008 er í 13. sæti, 2010 í 17. sæti og 2009 í því 18. Árið 2011 er skammt undan í 24. sæti.
Við ljúkum þessu með því að líta á einkennilega mynd. Hún er gerð þannig að úrkoma í júní og fyrstu 11 daga júlímánaðar í Stykkishólmi 1857 til 2012 er lögð saman og raðað eftir magni. Hvert ár fær því raðnúmer. Síðan reiknum við fimm ára keðjumeðaltöl raðnúmeranna og eru þau á lóðréttum kvarða myndarinnar.
Hér sést greinilega hvað síðustu fimm ár eru afbrigðileg. Næst því kemst tímabilið 1879 til 1883. Það er engin sérstök ástæða til að búast við framhaldi næstu árin - þá færi ritstjórinn að verða hissa.
Sé sami leikur leikinn fyrir 10 ára keðjumeðaltöl eru síðustu tíu árin ekki alveg búin að ná niður á sama stig og tímabilið 1907 til 1916.
11.7.2012 | 00:29
Hvenær kemur þokan?
Lítið hefur verið um þoku í sumar við strendur landsins. Það stafar fyrst og fremst af hinni eindregnu norðanátt sem séð hefur til þess að loftið yfir sjónum hefur lengst af verið kaldara heldur en hann. Til þess að þoka myndist þarf langoftast hitahvörf sem myndast við það að hlýtt loft streymir yfir kaldan sjó. En hafa ber í huga að þokan á sér ýmsar flækjuhliðar sem falla ekki að þessari einföldustu mynd.
Við höfum áður litið á spár evrópureiknimiðstöðvarinnar um skynvarmaflæði milli yfirborðs (lands eða sjávar) og neðstu loftlaga. Hér er eitt slíkt kort til viðbótar. Það gildir kl. 18 miðvikudaginn 11. júlí.
Á rauðu svæðunum streymir varmi frá sjó (eða landi) í loft, en á þeim grænu kælir sjórinn loftið. Á hvítu svæðunum má vart sjá hvort flæðið hefur betur - það er ekki fjarri jafnvægi.
Vindátt og styrkur eru gefin til kynna með mislöngum örvum og á rauða svæðinu fyrir sunnan land er norðanátt ríkjandi austan til en suðaustanátt vestar. Suðaustanáttin er ekki hlýrri en svo að sjór er hlýrri heldur en hún allt þar til kemur vestur á mitt Grænlandshaf sunnanvert. Þar skiptir snögglega um og loftið er þar hlýrra heldur en sjórinn (grænu og gulu svæðin). Stórt svæði á Grænlandssundi er gult eða grænt - þar ríkir sjávarkuldi og hafís er enn á sveimi (hann sást raunar frábærlega vel á gervihnattamyndum í dag (þriðjudag) og í gær eins og sjá má í nokkra daga á vef Veðurstofunnar).
En nú hitnar sjórinn á hverjum degi í sólskininu þannig að tíminn hefur unnið gegn þokunni. Þokugluggi sumarsins er að meðaltali ekki langur (en mislangur eftir landsvæðum). Þótt skynvarmaflæði sé nú um það bil í jafnvægi tapar sjórinn sífellt varma við uppgufun (sem knúin er af sólskininu með aðstoð þurra vinda). Þoka getur reyndar lokað fyrir það - en fyrst verður hún að myndast. Þetta nefnist dulvarmastreymi.
Mikill munur er á skynvarmaflæði dags og nætur á landi. Sólin hitar landið og landið hitar loftið að deginum, en að næturlagi getur þetta snúist við - og gerir það oft. Yfirborð landsins kólnar þá mun hraðar heldur en loftið - en það fer að vísu eftir aðstæðum öllum hvort það gerist og hversu hratt. Förum ekki nánar út í það að sinni.
En svarið við spurningunni í fyrirsögninni vita hungurdiskar ekki (frekar en venjulega) - en fylgjast spenntir með ástandi og horfum.
10.7.2012 | 00:38
Hlýjustu júlídagarnir
Við lítum nú á hlýjustu júlídaga á landinu frá og með 1949 til og með 2011. Reiknaður er meðalhiti á öllum stöðvum, búinn til listi og litið á nokkur hæstu gildin. Hæstu landsmeðalhámörk og landsmeðallágmörk fá einnig sína lista. Allar tölur eru í °C.
Fyrst kemur meðalhiti sólarhringsins á öllum mönnuðum veðurstöðvum.
röð | ár | mán | dagur | meðalh. |
1 | 2008 | 7 | 30 | 15,73 |
2 | 1980 | 7 | 31 | 15,21 |
3 | 2008 | 7 | 28 | 15,04 |
4 | 2008 | 7 | 29 | 14,87 |
5 | 1955 | 7 | 24 | 14,74 |
6 | 1991 | 7 | 5 | 14,72 |
7 | 1997 | 7 | 19 | 14,46 |
8 | 1991 | 7 | 7 | 14,39 |
9 | 2009 | 7 | 2 | 14,36 |
10 | 1980 | 7 | 30 | 14,22 |
11 | 2009 | 7 | 1 | 14,09 |
12 | 1949 | 7 | 7 | 14,07 |
13 | 2003 | 7 | 18 | 14,04 |
14 | 1991 | 7 | 4 | 14,03 |
15 | 2004 | 7 | 29 | 13,97 |
Veðurnörd kannast við marga þessara daga. Efstur á lista er 30. júlí 2008 en þann dag mældist hærri hiti en nokkru sinni í Reykjavík, 25,7 stig á kvikasilfursmælinum og hiti fór í 29,7 stig á sjálfvirku stöðinni á Þingvöllum. Litlu mátti muna að landshitametið (30,5 stig) félli. - En það gerðist ekki. Tveir aðrir dagar úr sömu hitabylgju eru í þriðja og fjórða sæti.
En í öðru (og 10. sæti) eru einnig eftirminnilegir dagar í lok júlímánaðar 1980. Þá gerðist sá einstaki atburður að aðfaranótt þess 31. fór hiti í Reykjavík ekki niður fyrir 18,2 stig. Þá nótt var ritstjórinn á vakt á Veðurstofunni og var setið úti á svölum milli vinnutarna.
Í fimmta sæti er 24. júlí 1955 - sumarið er enn kallað rigningasumarið mikla á Suður- og Vesturlandi. Þá voru miklir hitar norðanlands og austan og þar er sumrinu enn hrósað jafnmikið og því er hallmælt syðra. Hiti komst í 27,3 stig í Fagradal í Vopnafirði. Um svipað leyti mældist hæsti hiti júlímánaðar í Þórshöfn í Færeyjum, 22,1 stig (birt án ábyrgðar).
Veðurnörd muna ábyggilega eftir fleiri dögum á listanum, t.d. júlídögunum hlýju 1991, en þá fór hiti í 29,2 stig á Kirkjubæjarklaustri - reyndar þann 2. en þá var þokusælt víða um land og hitinn flaut ofan á. Júlí 2009 á einnig tvo daga á listanum, fyrri daginn komst hiti í 26,3 stig á Torfum í Eyjafirði. Og 7. júlí 1949 komst hiti í 28,3 stig á Hallormsstað - glæsilegt.
Listi yfir hæstu meðalhámörk er svipaður:
röð | ár | mán | dagur | m.hámark |
1 | 2008 | 7 | 30 | 20,83 |
2 | 2008 | 7 | 29 | 20,30 |
3 | 1980 | 7 | 31 | 20,04 |
4 | 2008 | 7 | 31 | 19,31 |
5 | 2003 | 7 | 18 | 19,12 |
6 | 1955 | 7 | 24 | 19,03 |
7 | 1991 | 7 | 7 | 18,88 |
8 | 2008 | 7 | 26 | 18,83 |
9 | 1991 | 7 | 6 | 18,68 |
10 | 1955 | 7 | 25 | 18,54 |
Júlílokin 2008 standa sig enn betur með fjórar tölur af tíu og aðrir dagar kunnuglegir af fyrri lista. Dagurinn hlýi í júlí 2003 á 27,1 stig á sjálfvirku stöðinni á Hallormsstað.
Hæstu meðallágmörkin eru næst. Við getum talað um hlýjustu næturnar (nóttin í nótt - aðfaranótt 10. júlí lítur ekki vel út).
röð | ár | mán | dagur | m.lágmark |
1 | 1991 | 7 | 5 | 12,28 |
2 | 1955 | 7 | 25 | 12,11 |
3 | 1980 | 7 | 31 | 12,06 |
4 | 2000 | 7 | 22 | 11,88 |
5 | 1997 | 7 | 20 | 11,70 |
6 | 2009 | 7 | 2 | 11,63 |
7 | 2008 | 7 | 31 | 11,61 |
8 | 2009 | 7 | 3 | 11,46 |
9 | 1997 | 7 | 19 | 11,45 |
10 | 2000 | 7 | 16 | 11,30 |
Hér breytist röðin aðeins, 5. júlí 1991 nær efsta sæti og 25. júlí 1955 öðru. Síðan koma tvær dagsetningar sem ekki eru á fyrri listum, 22. júlí árið 2000 og 20. júlí árið 1997. Neðar á listanum eru tveir aðrir fulltrúar júlímánaða þessara tveggja ára.
Að lokum skulum við líta á lista yfir mestu þykkt sem kemur fram í júlí við Ísland í endurgreiningunni amerísku - þar má e.t.v. finna skæða eldri keppinauta um hlýjustu júlídaga mælingasögunnar.
röð | ár | mán | dagur | þykkt |
1 | 1939 | 7 | 19 | 5652 |
2 | 1952 | 7 | 23 | 5647 |
3 | 2004 | 7 | 25 | 5647 |
4 | 1955 | 7 | 24 | 5641 |
5 | 1977 | 7 | 9 | 5641 |
6 | 1975 | 7 | 4 | 5638 |
7 | 1911 | 7 | 11 | 5634 |
8 | 1945 | 7 | 28 | 5634 |
9 | 1933 | 7 | 17 | 5633 |
10 | 1941 | 7 | 31 | 5628 |
11 | 1928 | 7 | 21 | 5627 |
Þykktin er hér gefin upp í metrum. Fari þykktin upp fyrir 5580 metra fara met að vera líkleg. - En eins og við vitum mælir þykktin meðalhita í neðri hluta veðrahvolfs. Stundum liggur frekar þunnt lag af köldu sjávarlofti undir og spillir fyrir. Met eru þess vegna líklegust þar sem vindur stendur af landi - gegn hafgolunni. Mjög há þykkt fylgir háloftahæðum og vindur er þá oft mjög hægur og sjávarloft flæðir hindrunarlítið inn á landið - algjört happdrætti. En það getur verið gaman að happdrættum þótt maður vinni sjaldan.
Við sjáum að hér eru dagsetningar eftir 1948 ekki áberandi - og þá flestar aðrar en voru á efri listum. En það er fróðlegt að líta á fáeinar tölur. Dagurinn i fyrsta sæti er bara toppurinn á miklu hitabylgjufjalli síðari hluta júlímánaðar 1939 - hiti var 25 stig í Reykjahlíð við Mývatn og 25,5 í Möðrudal. Aðalhlýindin komu á Suður- og Vesturlandi dagana á eftir. Þetta fræga sumar var sérlega hitabylgjuvænt.
Í öðru sæti er (óvænt) 23. júlí 1952. Sumarið það er frekar þekkt fyrir kulda heldur en hita, en hiti komst samt í 25,7 stig í Möðrudal þennan dag. Það er alvöruhiti.
Í þriðja sæti er 25. júlí 2004 - auðvitað í skugga hitabylgjunnar miklu í ágúst það ár.
Í fjórða sæti er einn daganna hlýju 1955 sem voru á öllum listum hér að ofan, en í því fimmta er óvæntari dagur, 9. júlí 1977 - en gaf vel því daginn eftir fór hiti á Hallormsstað í 25,3 stig.
Sumarið 1975 var eitt af þeim endalausu rigningasumrum sem voru í uppáhaldi hjá veðurbyrgjum þess tíma, en þennan dag náði Akureyri glæsilegum 27,6 stigum.
Við ljúkum yfirferðinni með 11. júlí 1911 - en þá gerði eina af ofurhitabylgjum mælingatímans. Hiti fór i 29,9 stig á Akureyri og verst er hversu hámarksmælar landsins voru fáir um þetta leyti. Sunnlendingar misstu hins vegar af deginum í þokusúldarbrælu.
9.7.2012 | 00:19
Hlýtt suðaustanlands í dag (sunnudag)
Í dag (sunnudaginn 8. júlí) fór hiti á Stjórnarsandi við Kirkjubæjarklaustur í 24,8 stig og 24,0 mældust á mönnuðu stöðinni. Þetta er líklega hæsti hiti sumarsins það sem af er. Þykktin yfir þessum slóðum var samkvæmt greiningu evrópureiknimiðstöðvarinnar rúmlega 5520 metrar og er hámark dagsins heldur hærra en líklegast er við þá þykkt, en greiningar eru ekki alltaf alveg réttar.
Í greiningunni var mættishiti í 850 hPa mestur 20,8 stig yfir Suðausturlandi í dag - en hefur í raun verið ívið meiri. Hér að neðan er kort sem sýnir mættishita á allstóru svæði kl. 21 í kvöld (sunnudag). Rétt er að rifja upp að sé loft dregið úr sinni hæð niður að sjávarmáli - án blöndunar hlýnar það verulega. Hiti þess eftir flutning til sjávarmáls (réttara, við 1000 hPa) er kallaður mættishiti.
Rauði liturinn er sýnir mættishitann í nokkrum tónum. Kvarðinn sést betur sé myndin stækkuð, en á svæðunum þar sem hann er dekkstur er mættishitinn hærri en 25 stig. Jafnþrýstilínur (venjulegar) eru svartar og heildregnar og hiti í 850 hPa er gefinn til kynna með strikalínum (ekki gott að sjá þær nema að stækka).
Við sjáum að staðbundið hámark er við Suðausturland þar sem mættishitinn er 20,7 stig. Þetta er með því hæsta sem sést hefur í sumar. Við Vestur-Grænland streymir hins vegar enn hlýrra loft til norðurs. Þar er mættishitinn hæstur 27,4 stig - að því er sýnist einmitt yfir Vestribyggð hinni fornu. Engar fréttir er að hafa frá því svæði. En ætli það hafi ekki verið hlýir dagar á sumrin sem hafa gert svæðið byggilegt.
Góðar fréttir eru hins vegar úr Eystribyggð - þar var víða yfir 20 stiga hiti í dag. Hlýtt loft verður þar einnig yfir á morgun - en skýjað veður og einhver úrkoma mun halda hámarkshitanum meira í skefjum en var í dag. Þó er rétt að fylgjast með því mættishita yfir Nasarsuaq er spáð í 28,8 stig annað kvöld og þykktinni yfir 5600 metra. Hvenær gerist það næst hér á landi?
Það verður alla vega ekki á morgun því kalt loft gusast yfir landið úr norðri - en stendur vonandi mjög stutt við. En við getum litið á mættishitaspána sem gildir kl. 21 annað kvöld (mánudag). Þetta er úrklippa úr korti eins og því að ofan (og bregst ekki eins vel við stækkun).
Hér er mættishitinn yfir Austurlandi kominn niður í 6,8 stig - frost er þá á hæstu fjöllum og kaldranalegt neðar. Mun hlýrra er yfir Vesturlandi, 15,5, stig yfir Reykjavík. Það er spurning hvort sólinni muni takast að koma síðdegishitanum upp fyrir það suðvestanlands, það er hugsanlegt.
En síðan á að taka við nokkurra daga hægviðri - væntanlega með veðurtilbreytingu þó. Síðdegisskúrir eru líklegar inn til landsins suma dagana. Svo erum við loks að nálgast mesta þokutímabil ársins - en hingað til hefur lítið verið um þoku vegna þess að loft það sem borist hefur til landsins hefur lengst af sumars verið kaldara en sjórinn. Það gæti nú breyst.
8.7.2012 | 01:28
Enn rís hryggurinn
Hæðarhryggurinn fyrir vestan land og yfir Grænlandi virðist enn vera að ganga í endurnýjun lífdaga þar sem hann hefur nú gengið aftur síðan í maí (og að vissu leyti frá því í apríl).
Það sló lítillega á hann í gær (föstudag) og í dag (laugardag) og á morgun hneigir hann sig augnablik fyrir köldu lægðardragi sem kemur yfir Grænland. Síðan rís hann aftur upp af endurnýjuðum krafti. Fyrra kortið sýnir þetta í líki 500 hPa hæðar- og þykktarspár evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir kl. 18. á mánudag (9. júlí).
Táknmál kortanna er það sama og venjulega. Jafnhæðarlínur eru svartar og heildregnar en þykktin er sýnd sem litaðir fletir með 60 metra bili. Mörkin á milli grænu og gulu litanna eru við 5460 metra.
Kuldapollurinn rétt austan við land er býsna snarpur en fer hratt hjá til suðurs og endurnýjar leiðindin yfir Bretlandi. Vestan Grænlands er mikil sunnanátt sem rífur mikið af mjög hlýju lofti til norðurs. Við sjáum að það er 5580 metra þykktarlínan sem liggur norður með Grænlandi. Hvort djúpir firðir Grænlands njóta hitans er óvíst - en það gæti verið, verst er hvað veðurstöðvar eru fáar þar um slóðir.
En framhaldið er athyglisvert - ef rétt er spáð (sem aldrei er að vita). Við lítum því á annað kort sem gildir þremur sólarhringum síðar - um hádegi á fimmtudag.
Þarna hefur hæðarhryggurinn alveg lyft sér út úr heimskautaröstinni og myndað gríðarmikla fyrirstöðuhæð yfir Grænlandi sem mun trúlega reika um í nokkra daga þar til röstin grípur hana - eða þá að hún kólnar smám saman upp og flest út. Þetta er gott ástand fyrir íslenska sóldýrkendur - en gallinn er sá að auðvelt er fyrir tiltölulega kalt loft úr norðri að undirstinga hlýindin efra. En hæðabeygja ríkir og henni fylgir sjaldnast úrkoma sem talandi er um. (Jú, það eru víst undantekningar á því - en eiga ekki við hér).
En það er heldur óábyrgt af hungurdiskum að sýna fimm daga spá - oft er lítið á þeim að byggja. En sagan sem reiknimiðstöðin býður upp á um hrygginn sem verður að fyrirstöðu er nokkuð sannfærandi - bandaríska veðurstofan er í stórum dráttum á svipuðu máli.
Allrosalegur kuldapollur (miðað við árstíma) er við Novaya Zemlya, hann var við Norðaustur-Grænland fyrir nokkrum dögum og virðist helst ætla að taka lægðahringinn um norðurskautið. Alltaf rétt að hafa augun á svona nokkru.
7.7.2012 | 01:52
Árstíðasveifla skýjahulunnar
Þetta er einn af þessum tímalausu pistlum - er ekki innlegg í neina umræðu og hefur með fátt annað að gera nema sjálfan sig - og þó. Alla vega ættu æstustu veðurnörd að gleðjast yfir því að sjá gögn sem aldrei hafa verið tekin saman áður.
Við berum sum sé saman árstíðasveiflu skýjahulunnar á okkar tímum og á síðari hluta nítjándu aldar - öldinni sem í huga kynslóðar ritstjórans er sú eina rétta öld sem leið. En nú er það meira að segja komið í rugling.
Áður en kemur að myndinni verður að rifja upp að skýjahula er ekki mæld - heldur metin. Athugunarmaður giskar á hversu stóran hluta himins skýin þekja - með þeim undantekningum að ef eitthvað sést í himininn á ekki að telja alskýjað og ekki skal telja heiðskírt nema þegar ekkert ský sést á himni - hversu lítið sem það er. Síðara skilyrðið er raunar svo kröfuhart að flestir hallast til að brjóta reglurnar - og menn þykjast ekki sjá lítil há- og miðský niður undir sjóndeildarhring. En allt er það spurning um skírlífi og samvisku.
Á nítjándu öld (öldinni sem leið svo rækilega að það má ekki kalla hana það lengur) var skýjahula langoftast metin í tíunduhlutum - í anda metrakerfishreintrúar. Þegar farið var að senda veðurskeyti varð drjúgur sparnaður í því að nota tvo tölustafi þegar einn nægði og farið var að nota áttunduhluta. Reyndar er mun auðveldara að giska á eina tölu af átta heldur eina af tíu - hringurinn hefur aldrei viljað samþykkja tugakerfið - baráttulaust.
En langan tíma tók að breyta. Hér á landi var um hríð athugað í tíunduhlutum á veðurfarsstöðvum en bæði tíundu- og áttunduhlutum á skeytastöðvum - áttunduhlutana fyrir skeytamafíuna en tíunduhlutana fyrir íhaldið. En allt var þetta yfirstaðið á skeytastöðvum frá og með 1949 og annars staðar um svipað leyti.
En þessi tvíháttur skýjahulumats spillir tímaröðum. Við skulum ekki fara út í það hér í smáatriðum en svo virðist sem svæði kvarðans hafi mismikið aðdráttarafl. Níu virðist vera erfiðari tala heldur en sjö - þannig breyting á milli kvarða með einfaldri hlutfallsmargföldun gangi ekki alveg upp þegar gömul tíundahlutameðaltöl eru reiknuð í áttunduhluta. Ekki hefur verið upplýst hvernig þetta er nákvæmlega - en við skulum ekki hafa áhyggjur af því þótt það komi sennilega fram á myndinni hér að neðan.
Hún sýnir meðalskýjahulu hvers mánaðar (í áttunduhlutum) á landinu öllu á þremur mismunandi tímabilum, 1874 til 1919, 1920 til 1960 og 1961 til 2011. Takið eftir því hvað sveiflan er í raun og veru lítil.
Efsta línan (sú græna) er næst nútímanum. Við sjáum að hulan er minnst í maí en hámarkið er í júlí og annað í október. Ekki mikill munur - en samt í takt við óljósa tilfinningu um bjarta maídaga.
Línan í miðjunni nær yfir tímabilið 1920 til 1960. Þá var skýjahula mest í ágúst og einkennilega miklu munar á júní og júlí. Það að rauða línan liggur öll neðar en sú græna gæti falist í því mismunandi mati sem fjallað var um hér að ofan.
Bláa línan nær yfir tímabilið 1874 til 1919 (dönsku veðurstofuna). Breytingin frá tíunduhlutamati yfir í áttunduhlutamat gæti átt sök á því að bláa línan er neðst - og einnig eru stöðvar sem athuguðu skýjahulu mun færri en á síðari tímabilunum. En það er samt árstíðasveiflan sem er athyglisverðust. Þar eru það mars og ágúst sem keppa um lágmarksskýjahulu ársins. Þetta með breytinguna í mars gæti komið heim og saman við fleira svo sem breytingar í úrkomumagni og loftþrýstingi - en ágúst kemur verulega á óvart.
Enn er verið að taka saman upplýsingar um skýjahulu og breytingar á athugunum á henni í gegnum tíðina þannig að þessar niðurstöður má ekki taka sem endanlegar á neinn hátt. Þær er ekki heldur hægt að útleggja sem rök í veðurfarsbreytingaumræðunni.
6.7.2012 | 00:57
Köldustu júlídagarnir
Í tilefni af nærveru kuldapollsins sem minnst var á í pistli í gær skulum við líta á lista yfir köldustu júlídagana. Ekki er það þó svo að einhver sérstakur kuldi liggi í spánum næstu daga - síður en svo. Kuldagusa á þó að fara hjá á mánudag/þriðjudag - en ekki er víst að neitt verði úr því.
En köldustu júlídagarnir eru verulega kaldir. Hér er reiknaður meðalhiti allra veðurstöðva alla daga í júlí frá 1949 til 2011 og leitað að þeim 15 köldustu.
röð | ár | mán | dagur | mhiti |
1 | 1995 | 7 | 6 | 5,02 |
2 | 1963 | 7 | 23 | 5,08 |
3 | 1963 | 7 | 24 | 5,60 |
4 | 1983 | 7 | 17 | 5,65 |
5 | 1965 | 7 | 30 | 5,79 |
6 | 1970 | 7 | 9 | 5,82 |
7 | 1985 | 7 | 12 | 5,84 |
8 | 1968 | 7 | 1 | 5,90 |
9 | 1981 | 7 | 2 | 5,91 |
10 | 1967 | 7 | 28 | 5,92 |
11 | 1963 | 7 | 12 | 5,99 |
12 | 1970 | 7 | 10 | 6,00 |
13 | 1995 | 7 | 17 | 6,13 |
14 | 1970 | 7 | 8 | 6,18 |
15 | 1985 | 7 | 19 | 6,21 |
Ekki eru allir þessir dagar ritstjóranum minnisstæðir - en sumir þó. Af einhverjum ástæðum dagarnir köldu 1963. Lóan flaug í hópum rétt eins og hún væri búin að gefast upp á þessu og bara farin. Sömuleiðis hretið 9. til 10. júlí 1970 - en þá snjóaði á hestamannamóti á Þingvöllum. Hungurdiskar hafa áður hefur verið minnst á óvenjulega loftsýn seint að kvöldi þess 9.
En listinn yfir lægsta meðallágmarkshitann er svipaður:
röð | ár | mán | dagur | mlágm |
1 | 1963 | 7 | 25 | 2,36 |
2 | 1983 | 7 | 19 | 2,92 |
3 | 1983 | 7 | 18 | 3,04 |
4 | 1989 | 7 | 1 | 3,19 |
5 | 1995 | 7 | 7 | 3,31 |
6 | 1968 | 7 | 2 | 3,35 |
7 | 1963 | 7 | 12 | 3,37 |
8 | 1963 | 7 | 23 | 3,46 |
9 | 1985 | 7 | 13 | 3,46 |
10 | 1995 | 7 | 8 | 3,46 |
Í Reykjavík fór hiti niður í 1,4 stig aðfaranótt 25. júlí 1963 og er það lægsti hiti sem þar hefur mælst í júlí frá upphafi mælinga. Næturnar köldu 1983 lifa einnig í minningunni sem hluti af því margnefnda rigningasumri allra rigningasumra.
Dagarnir sem eiga lægsta hámarkshitann eru einnig glæsilegir - eða hitt þó heldur.
röð | ár | mán | dagur | mhám |
1 | 1995 | 7 | 6 | 7,98 |
2 | 1963 | 7 | 23 | 8,23 |
3 | 1970 | 7 | 10 | 8,28 |
4 | 1985 | 7 | 13 | 8,31 |
5 | 1985 | 7 | 19 | 8,51 |
6 | 1963 | 7 | 24 | 8,56 |
7 | 1967 | 7 | 28 | 8,63 |
8 | 1965 | 7 | 31 | 8,65 |
9 | 1973 | 7 | 1 | 8,66 |
10 | 1981 | 7 | 2 | 8,66 |
Hér er helst frábrugðið að tveir júlídagar 1985 skjótast upp í fjórða og fimmta sæti. E.t.v. muna einhverjir eftir fyrra hretinu vegna vandræða og tjóns sem þá varð á útihátíð á Laugarvatni - hríðarveður var á heiðum norðaustanlands. Hinn 21. júlí þetta ár var einnig merkilegur þá var hiti klukkan 15 ekki nema 6,3 stig í Reykjavík og 5,7 á Keflavíkurflugvelli - á sama tíma voru 11,3 stig á Akureyri.
En þessir listar ná því miður ekki nema aftur til 1949 og talsvert vantar upp á að úr því rætist. Þó má líta í rann endurgreiningarinnar margnefndu og leita að lágri þykkt í júlí. Athuga mætti þessa daga sérstaklega í leit að kulda. Fyrst eru þeir dagar sem lægstir eru yfir Suðvesturlandi.
röð | ár | mán | dagur | þykkt |
1 | 1930 | 7 | 7 | 5292 |
2 | 1922 | 7 | 12 | 5307 |
3 | 1896 | 7 | 21 | 5312 |
4 | 1963 | 7 | 24 | 5314 |
5 | 1931 | 7 | 4 | 5324 |
6 | 1910 | 7 | 24 | 5327 |
7 | 1921 | 7 | 28 | 5329 |
Þykktin er hér í metrum. Við sjáum aðeins einn af okkar dögum á listanum, 24. júlí 1963. Þykktin þá var aðeins 5314 metrar, en enn lægri eru þrír eldri dagar, 7. júlí 1930 lægstur - þá var verið að pakka saman eftir Alþingishátíðina.
Hinn listinn er tekinn út úr stærra svæði - norður á 66°N og suður á 64°N.
röð | ár | mán | dagur | þykkt |
1 | 1931 | 7 | 3 | 5243 |
2 | 1983 | 7 | 18 | 5277 |
3 | 1930 | 7 | 7 | 5283 |
4 | 1912 | 7 | 29 | 5288 |
5 | 1896 | 7 | 22 | 5295 |
6 | 1920 | 7 | 23 | 5297 |
7 | 1963 | 7 | 24 | 5303 |
Smávíxl eru í röðinni frá fyrri lista, en þó birtist hinn kunnugi 18. júlí árið 1983 í öðru sæti. Þegar þykktarspákort júlímánaðar í ár og kuldapollar hans eru skoðaðir er ágætt að hafa þessar tölur sem viðmið um það sem óvenjulegast er.
Meðalþykkt yfir Suðvesturlandi í júlí er 5480 metrar. Við lítum á hlýja enda rófsins fljótlega. Einnig má minna á pistla hungurdiska um skylt efni í júlí í fyrra - en enn má lesa þá - sjá lista til vinstri við megintexta bloggsins.
5.7.2012 | 00:23
Litið á þrjá norðurhvelsglugga
Við lítum á þrjá búta úr hefðbundnu norðurhvelsspákorti. Þeir sýna Norður-Ameríku, Evrópu og að lokum norðurslóðir.
Táknmál kortanna er það sama og venjulega. Jafnhæðarlínur eru svartar og heildregnar en þykktin er sýnd sem litaðir fletir með 60 metra bili. Mörkin á milli grænu og gulu litanna eru við 5460 metra. Á sumrin viljum við ekki vera á grænu svæði - en erum það samt oft.
Kortið að ofan sýnir hluta Norður-Ameríku frá Mexíkó í suðri til Alaska í norðvestri. Þykktin er mjög há yfir Bandaríkjunum. Dekksti liturinn sýnir svæði þar sem hún er meiri heldur en 5820 metrar. Svo há þykkt skapar vandræði þar sem hún liggur yfir - nema í suðvesturríkjunum þar sem menn eru vanastir hitunum.
Þykktin er meiri en 5520 metrar yfir öllum Bandaríkjunum nema Alaska en þar er ansi kröftugur kuldapollur. En alaskamenn láta sér fátt um finnast. Júní hve hafa verið óvenjuúrkomusamur á þeim slóðum.
Að sögn fróðra manna vestra mun hitabylgjan að undanförnu hafa verið einhver hin mesta sem vitað er um og 5820 metra þykktin á að ná allt til Atlantshafsstrandar á laugardag. Þá gæti hiti farið í 40 stig í New York (vonandi þó minna). Evrópureiknimiðstöðin gerir hins vegar ráð fyrir því að heldur kólni þarna eftir helgina.
Ástandið er mun skárra í Evrópu. Að vísu er þaulsetinn kuldapollur yfir Frakklandi vestanverðu væntanlega með tilheyrandi þrumuveðrum. Það er eins og Bretland losni ekki við kuldapolla í sumar - þeir skjótast úr norðri framhjá Íslandi og setjast síðan að við strendur Vestur-Evrópu.
Danmörk er á mörkum þess að komast inn fyrir 5640 metra línuna - það er hlýtt - en er ekki til neinna vandræða ef ekki fylgja þrumuveður. Það er 5760 metra jafnþykktarlínan sem liggur austur um við Suður-Spán og Sikiley. Ef hún fer norður fyrir Miðjarðarhaf fylgja oftast stórvandræði með hita. Það má taka eftir því að vandræðin byrja við lægri þykkt í Evrópu heldur en vestra - þar er þjóðfélagið viðbúið hærri hita á sumrin.
Mjög dökkt svæði er yfir Persaflóa. Þar er þykktin yfir 5880 metrum. En þar eru menn vanir því á þessum tíma árs. Sú þykkt veldur hins vegar gríðarlegum vandræðum víðast hvar.
Síðasta kort dagsins sýnir norðurslóðir. Þar er annar og svalari svipur á hlutunum. Lægsta þykkt norðurhvels liggur fyrir stjóra við Danmarkshavn á Norðaustur-Grænlandi, þar er 5220 metra jafnþykktarlínan innst. Það skiptir svosem ekki miklu máli hver þykktin er yfir hafíssvæðinu svo lengi sem hún er hærri en um 5200 því hiti í hafísloftinu er um frostmark hvað sem gengur á nema vindur blási af landi. En í kuldapolli af þessu tagi dugar heldur ekki að vindur blási af landi.
Eins og margoft hefur verið minnst á áður á hungurdiskum er þetta óþægileg staða fyrir okkur þótt út af fyrir sig sé í lagi að pollurinn sé þarna svo lengi sem hann fer ekki að hreyfa sig í átt til okkar.
Spurning stöðunnar í dag er hvort hæðarhryggurinn fyrir vestan okkur haldi þaulsetunni áfram. Það er svipað með hann og breska kuldapollinn - þótt þessi kerfi gefi sig í tvo til þrjá daga er eins og þau rísi sífellt upp aftur eins og ekkert hafi í skorist.
Það er stöðu hæðarhryggjarins að þakka að meðalskýjahula landsins alls hefur ekki verið svo lág í tvo mánuði í röð síðan í febrúar og mars 1947 (þegar Heklugosið hófst). Ekkert eldra mánaðapar er heldur lægra - með fullri vissu. Þótt meðalskýjahula hafi verið reiknuð aftur til 1874 er ekki víst að meðaltölin séu sambærileg fyrstu 50 til 60 árin. Ef við ímyndum okkur að svo sé þurfum við að fara aftur til maí og júní 1891 til að finna sambærilegar tölur á sama árstíma. Þá var talað um þurrt og næðingasamt vor en mikið gæðasumar.
4.7.2012 | 00:57
Söðull þokast burt?
Það er gott fyrir veðuráhugamenn að kannast við söðla á veðurkortum. Söðlar eru hluti af þrýstilandslaginu rétt eins og lægðir og hæðir og eru eins og nafnið bendir til einskonar skörð í fjallgarða hæðanna þar sem dalir út frá lægðum ná nærri því að brjótast í gegn.
Söðullinn sem er yfir okkur í dag er reyndar ekki alveg af hinni fullkomnu gerð - en höfum ekki áhyggjur af því og lítum á veðurkort frá því í dag (þriðjudag 3. júlí).
Kortið er frá evrópureiknimiðstöðinni og er af þeirri tegund sem hefur verið uppi á borði hungurdiska að undanförnu. Jafnþrýstilínur eru svartar og heildregnar - en 3 klst reiknuð úrkoma er sýnd sem litafletir. Úrkomutegund má einnig ráða af litlum skúramerkjum (þríhyrningum) - sem sýna klakkakynsúrkomu. Einnig má sjá hefðbundnar vindörvar - og strikalínur sýna hita í 850 hPa.
Við sjáum greinilega tvær hæðarmiðjur, aðra fyrir suðvestan land en hina fyrir norðaustan. Allmikil lægð er við Bretlandseyjar (hin rétta lægðarmiðja reyndar utan við kortið) en norðvestan og norðan við land er mjög grunnt lægðardrag eða e.t.v. tvær smálægðarmiðjur.
Fjólubláu örvarnar eiga að gefa til kynna hið óráðna vindástand í söðulpunktinum sem hér er merktur með bókstafnum S. Úr hvaða átt kemur loftið yfir mér í dag - var spurt - og fátt um svör.
Söðulpunktar voru hér á árum áður - fyrir tíma góðra tölvuspáa - veðurspámönnum sérlega erfiðir því þar hrúgast oft upp úrkoma - nú eða þá að ský láta ekki sjá sig. Margar efnilegar veðurspár ritstjórans fóru fyrir lítið í söðulpunktum liðinna sumra og hafa varð hauspokann innan seilingar.
En söðulpunktur dagsins er sagður þokast til norðausturs - hvort það rætist er svo annað mál.
Í háloftunum er einnig söðulpunktur - en sá þokast til suðausturs. Þar er lægðasvæðið norðvestan hans mun meira afgerandi heldur en á yfirborðskortinu og við lendum því rétt einu sinni í háloftavestanátt frá Grænlandi. Ætli hún sópi skúrum söðulpunktsins út af landinu? Það er líklegt.
3.7.2012 | 00:33
Óvenjulegur sólskinsstundafjöldi
Eins og fram hefur komið í fréttapistli á vef Veðurstofunnar og sömuleiðis á nimbusarbloggi var nýliðinn júní óvenjusólríkur bæði í Reykjavík og á Akureyri. Þetta er sérlega ánægjulegt að því leyti að helstu keppinautar í sólskinslengd í Reykjavík eru fornir, aðallega 80 til 90 ára gamlir. Á dimmviðratímabilinu fyrir um 20 árum eða svo lagðist sólarleysið svo á sinni veðurnörda að þau trúðu vart gömlum háu tölum. En nútíminn er loksins að gera jafnvel eða betur.
En séu tölur maí- og júnímánaða lagðar saman verður nýliðið ástand enn óvenjulegra. Í ljós kemur að sólskinssumma tveggja mánaða hefur aldrei orðið jafnhá í Reykjavík, 616,9 stundir. Næstir koma saman júní og júlí 1928 með 606,0 stundir. Síðan er smábil niður í 598,0 stundir sem maí og júní 1924 eiga saman. Þessi þrjú mánaðapör eru í nokkrum sérflokki.
Staðan á Akureyri er enn merkilegri því sólskinssumma nýliðinna tveggja mánaða, 545,6 stundir, er miklu hærri heldur en sú næsthæsta, 475,5 stundir, sem júní og júlí ársins 2000 eiga saman.
Þá byrjar græðgin að gera vart við sig. Skyldu þriggja mánaða metin falla líka? Í Reykjavík er það tímabilið apríl til júní 1924 sem situr í efsta sætinu með 822,7 stundir. Til að það falli þurfa sólskinsstundir í júlí í Reykjavík að verða 205,9 eða fleiri. Það gerist um það bil fjórða hvert ár að meðaltali að svo margar sólskinsstundir mælist í Reykjavík í júlí, síðast árið 2010. Líkurnar á þriggja mánaða meti í Reykjavík eru því rétt sæmilegar eða um 25%. Fyrstu tveir dagarnir hafa dregið úr líkum.
Á Akureyri er þriggja mánaða metið 663,4 stundir og það eiga maí, júní og júlí 1939. Það þýðir að þriggja mánaða metið fellur ef sólskinsstundirnar á Akureyri verða fleiri en 117,8 í júlí. Við vitum um sólskinsstundafjölda í júlí á Akureyri í 85 ár. Í fimmtungi þeirra hafa sólskinsstundirnar verið færri heldur en metmarkið. Gróflega má því segja að 80 prósent líkur séu á því að þriggja mánaða metið falli á Akureyri.
Júnímánuður í ár skorar hátt í norðan- og austanáttatíðni, en norðvestanniðurstreymisloft ofan af Grænlandi hefur langtímum saman bælt alla úrkomu - meira að segja norðan heiða. Síðustu tvö árin rúm hefur veðurlag verið mjög stórköflótt - úrkoma ýmist í ökkla eða eyra.
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.12.): 78
- Sl. sólarhring: 227
- Sl. viku: 1043
- Frá upphafi: 2420927
Annað
- Innlit í dag: 71
- Innlit sl. viku: 920
- Gestir í dag: 71
- IP-tölur í dag: 70
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010