Enn rís hryggurinn

Hæðarhryggurinn fyrir vestan land og yfir Grænlandi virðist enn vera að ganga í endurnýjun lífdaga þar sem hann hefur nú gengið aftur síðan í maí (og að vissu leyti frá því í apríl).

Það sló lítillega á hann í gær (föstudag) og í dag (laugardag) og á morgun hneigir hann sig augnablik fyrir köldu lægðardragi sem kemur yfir Grænland. Síðan rís hann aftur upp af endurnýjuðum krafti. Fyrra kortið sýnir þetta í líki 500 hPa hæðar- og þykktarspár evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir kl. 18. á mánudag (9. júlí).

w-blogg080712a

Táknmál kortanna er það sama og venjulega. Jafnhæðarlínur eru svartar og heildregnar en þykktin er sýnd sem litaðir fletir með 60 metra bili. Mörkin á milli grænu og gulu litanna eru við 5460 metra.

Kuldapollurinn rétt austan við land er býsna snarpur en fer hratt hjá til suðurs og endurnýjar leiðindin yfir Bretlandi. Vestan Grænlands er mikil sunnanátt sem rífur mikið af mjög hlýju lofti til norðurs. Við sjáum að það er 5580 metra þykktarlínan sem liggur norður með Grænlandi. Hvort djúpir firðir Grænlands njóta hitans er óvíst - en það gæti verið, verst er hvað veðurstöðvar eru fáar þar um slóðir.

En framhaldið er athyglisvert - ef rétt er spáð (sem aldrei er að vita). Við lítum því á annað kort sem gildir þremur sólarhringum síðar - um hádegi á fimmtudag.

w-blogg080712b

Þarna hefur hæðarhryggurinn alveg lyft sér út úr heimskautaröstinni og myndað gríðarmikla fyrirstöðuhæð yfir Grænlandi sem mun trúlega reika um í nokkra daga þar til röstin grípur hana - eða þá að hún kólnar smám saman upp og flest út. Þetta er gott ástand fyrir íslenska sóldýrkendur - en gallinn er sá að auðvelt er fyrir tiltölulega kalt loft úr norðri að undirstinga hlýindin efra. En hæðabeygja ríkir og henni fylgir sjaldnast úrkoma sem talandi er um. (Jú, það eru víst undantekningar á því - en eiga ekki við hér).

En það er heldur óábyrgt af hungurdiskum að sýna fimm daga spá - oft er lítið á þeim að byggja. En sagan sem reiknimiðstöðin býður upp á um hrygginn sem verður að fyrirstöðu er nokkuð sannfærandi - bandaríska veðurstofan er í stórum dráttum á svipuðu máli.

Allrosalegur kuldapollur (miðað við árstíma) er við Novaya Zemlya, hann var við Norðaustur-Grænland fyrir nokkrum dögum og virðist helst ætla að taka lægðahringinn um norðurskautið. Alltaf rétt að hafa augun á svona nokkru. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg040524c
  • w-blogg040524b
  • w-blogg040524a
  • w-blogg020524b
  • w-blogg020524a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.5.): 240
  • Sl. sólarhring: 323
  • Sl. viku: 1326
  • Frá upphafi: 2352285

Annað

  • Innlit í dag: 210
  • Innlit sl. viku: 1196
  • Gestir í dag: 202
  • IP-tölur í dag: 201

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband