Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2012
22.7.2012 | 01:34
Hver er venjulegur landshámarkshiti á júlídegi?
Á veðurathugunaforsíðu vefs Veðurstofunnar má á hverjum degi sjá hæsta (og lægsta) hita sem mælst hefur á sjálfvirkri stöð þann daginn. Til að njóta þessara upplýsinga að fullu þarf að hafa einhvern kvarða til viðmiðunar. Fyrir nokkrum dögum var landshámarkið 17,6 stig og mældist í Ásbyrgi - er það há eða lág tala í júlí? Myndin hér að neðan ætti að upplýsa um það.
Lárétti kvarðinn sýnir landshámarkshita á stigs bili frá lægsta gildi í júlí og upp í það hæsta. Talið er hversu oft hitinn hefur t.d. verið á bilinu 19,0 til 19,9 stig. Síðan er reiknað hversu hátt hlutfall af heildarfjölda mælidaga fellur á þetta bil - hlutfallið má síðan lesa sem prósentur á lóðrétta kvarðanum til vinstri.
Talningin er gerð bæði fyrir sjálfvirkar (blár ferill) og mannaðar veðurstöðvar (rauður ferill). Sjálfvirkar stöðvar hafa nú mælt hámarkshita landsins í 527 daga. Alls var hitinn í 19 stiga bilinu 71 dag af 527 - það eru 13,5 prósent. Þýði mönnuðu stöðvanna nær til 2156 daga, þar af var landshámarkið 290 sinnum í 19 stiga bilinu - það eru líka 13,5 prósent af heildarfjölda daga.
Á sjálfvirku stöðvunum er algengast að landshámarkið sé 20,0 til 20,9 stig, en 18,0 til 18,9 stig. Mannaði ferillinn (rauður) liggur almennt neðar heldur en sá sjálfvirki - en útgildin eru þau sömu. Eðlilegar skýringar gætu verið að minnsta kosti þrjár en við gerum ekki tilraun hér til að negla niður rétt svar.
Það er flestum sem fylgjast eitthvað með veðri ljóst að allar tölur frá 25 og upp eru óvenjulegar, 3,4 prósent á sjálfvirku stöðvunum, en 2,7 prósent á þeim mönnuðu. Tilfinningin fyrir því hvað telst óvenjulegt í kalda endanum er örugglega minni. Hámarkið sem minnst var á í upphafi pistilsins, 17,6 stig er um þremur stigum lægra á sjálfvirku stöðvunum heldur en algengast er. Það er í um það bil tólf prósent daga sem landshámarkið er á 16 stiga bilinu eða lægra.
Nánari rýning sýnir að ámóta sjaldgæft er að landshámarkshitinn á júlídegi sé undir 15 stigum eins og yfir 25,0 stigum. Nú getum við horft á daglegar tölur Veðurstofunnar með réttan kvarða fyrir augum.
En hvert er þá lægsta landsdægurhámarkið í júlí? Á sjálfvirku stöðvunum er það 12,7 stig sem var hæsti hiti á sjálfvirkri stöð 23. júli 1998. Þetta var á Grundartanga. En - sama dag mældust 16,7 stig á Hjarðalandi í Biskupstungum - engin sjálfvirk stöð þar nærri. Þetta er því ekki eiginlegt met.
En á mönnuðu stöðvunum er lægsta talan líka 12,7 stig, það var hæsti hiti á landinu 2. júlí 1973, mælingin frá Hallormsstað. Engar sjálfvirkar stöðvar voru þá í gangi til að spilla metinu.
21.7.2012 | 01:57
Lægðin djúpa á norðurhvelskorti
Lítum nú enn upp í mitt veðrahvolft og um mestallt norðurhvel. Kortið sýnir ástandið í 500 hPa-fletinum eins og evrópurreiknimiðstöðin spáir því um hádegi á sunnudag, skömmu áður en miðja lægðarinnar djúpu rennur hjá landinu.
Myndin skýrist að mun við smellastækkun. Svörtu línurnar sýna hæð 500 hPa-flatarins í dekametrum (1 dam = 10 metrar), en litafletir marka þykktina. Því meiri sem hún er því hlýrra er loftið í neðri hluta veðrahvolfs. Mörkin milli grænu og gulleitu litanna eru sett við 5460 metra - rétt undir meðalþykkt í júlí hér á landi.
Á kortinu má sjá að víðast hvar fylgjast jafnhæðar- og þykktarlínur að í stórum dráttum, en þó er eftirtektarvert að við lægðina djúpu er misgengi þykktar og hæðar mjög mikið. Hlý tunga að sunnan gengur langt norður í tiltölulega lág 500 hPa hæðargildi. Þar verður loftþrýstingur við sjávarmál mjög lágur.
Eins og fram hefur komið í pistlum hungurdiska undanfarna daga er lægðin óvenju djúp - ekki er þó enn útséð um lágþrýstimet júlímánaðar - gamla metið er ekki fallið fyrr en það er fallið - hvað sem líður spám. En við þurfum ekki að bíða lengi eftir niðurstöðu þessarar mettilraunar, hún liggur fyrir á sunnudagskvöld.
En verður sett met í lágri júlíhæð 500 hPa-flatarins? Eftir því sem næst verður komist er lægsta 500 hPa-hæð í júlí sem mælst hefur yfir háloftastöðinni á Keflavíkurflugvelli 5240 metrar. Gangi spár eftir fer hæðin ekki svo neðarlega yfir Keflavík að þessu sinni. Það þýðir að loftið sem fylgir lágþrýstingnum nú er hlýrra en í mettilvikinu. Enda er á aðfaranótt sunnudags spáð 23 stiga mættishita í 850 hPa yfir Norðurlandi. Hlýjasta loftið verður komið hjá þegar sól verður hæst á lofti á sunnudaginn - en aldrei að vita.
Ef við lítum aftur á kortið sjáum við að enn eru svæsnir kuldapollar á sveimi yfir norðurskautssvæðinu. Halda mætti að þeir ætli sér að sleppa sumarleyfinu að þessu sinni.
Á kortinu vottar ekki fyrir hæðarhryggnum sem hefur ráðið veðri hér á landi lengst af í sumar - en hann gæti risið upp aftur - varla þó næstu fjóra til fimm daga. En þó kemur norðanátt á eftir lægðinni.
Mikil hæð ríkir yfir Bandaríkjunum - í henni miðri er þykktin yfir 5820 metrum. Þar kvarta menn nú undan mestu þurrkum í landinu í heild síðan 1956. En kuldapollur sleikir norðvesturríkin enn á ný. Þykkt um 5400 m þykir heldur hráslagaleg þar um slóðir á miðju sumri - en ekki óþekkt.
Nokkuð snarpt lægðardrag liggur suður um Mið-Evrópu til Miðjarðarhafsins. Ætli það valdi ekki miklum þrumuveðrum á Ítalíu og þar í grennd næstu daga? Spárnar gera líka ráð fyrir mikilli úrkomu í Vestur-Noregi þegar hlýtt loft lægðarinnar miklu skellur á fjallgarðinum úr vestri.
Héðan frá séð er óvissara hvað gerist í Danmörku og þar fyrir sunnan - þar fer mjög hlýtt loft hjá en við látum ágætri vefsíðu dönsku veðurstofunnar það eftir að upplýsa okkur um það.
20.7.2012 | 00:57
Af lægðinni djúpu?
Fram hefur komið í fréttum að óvenju djúp lægð - miðað við árstíma - nálgast nú landið. Það er samt ekki fyrr en á laugardag að áhrifa hennar fer að gæta. Það er því fullsnemmt fyrir hungurdiska að taka hana til umfjöllunar - því ritstjórinn gerir engar spár - en fjallar um þær.
En lægðin virðist ætla að verða ein sú dýpsta sem sést hefur á N-Atlantshafi í júlímánuði. Tölvugreiningar og spár nú á dögum ráða mun betur við snarpar lægðarmiðjur heldur en á árum áður. Þess vegna er erfitt að fullyrða að ekkert ámóta hafi átt sér stað áður. Engar mælingar voru þá á stórum svæðum og engar gervihnattamyndir til aðstoðar við ágiskanir. Endurgreiningarnar hjálpa talsvert til við leit en það er samt þannig að upplausn þeirra er talsvert lakari en nú gerist í líkönum.
Fyrir nokkrum dögum minntust hungurdiskar á lágþrýstimet í júlímánuði á Íslandi. Þar kom fram að aðeins er vitað um þrjú tilvik þegar þrýstingur á landinu mældist lægri en 975 hPa. Fyrirfram er ólíklegt að mælingar gerðar aðeins þrisvar á dag á fáeinum stöðvum hafi í raun mælt þann lægsta þrýsting sem var í viðkomandi lægðarmiðjum. Stappar nærri vissu að þær hafi verið dýpri.
Hungurdiskar hafa greiðan aðgang að hluta þrýstitalna endurgreiningarinnar amerísku en hún nær allt aftur til ársins 1871. Svæðið sem um er að ræða nær frá 60°N til 70°N og 10°V til 30°V og punktarnir eru á 2° bili bæði í lengd og breidd (66 líkanpunktar eru á svæðinu). Auðvelt er að leita að lágum þrýstingi í þessum punktum öllum. Við getum til hægðarauka talað um stóríslandssvæðið.
Leitin hefur farið fram og í ljós kom að greiningin nær íslensku lágþrýstigildunum þremur (1901, 1912 og 1923) ekki alveg - lægðir greiningarinnar eru aðeins of flatar í botninn - eða lágþrýstingurinn of skammlífur til þess að þær komi fram í netinu. Sé leitað á stóríslandssvæðinu öllu finnast aðeins þrjú tilvik önnur þegar þrýstingur var undir 975 hPa að mati greiningarinnar í júlí. Þetta var 1926, 1948 og 1964. Í síðasta tilvikinu var þrýstingurinn lægstur í suðausturhorni svæðisins - sennilega einhver dýpsta lægð sem nálgast hefur Skotland í júlímánuði.
En þrátt fyrir annmarka greiningarinnar má telja ljóst að lægri þrýstingur en 975 hPa er mjög óvenjulegur í júlí. Nú er ekki víst að spárnar í dag (fimmtudag 20. júlí) séu réttar. Lægsti þrýstingur í lægðarmiðju er misjafn eftir líkönum, evrópureiknimiðstöðin fer með miðjuna niður í 964 hPa - rétt utan við stóríslandssvæðið - kl. 18 á laugardag. Sama reikniruna (frá kl. 12 á hádegi á fimmtudag) setur þrýstinginn niður í 970 hPa syðst á landinu á sunnudagskvöld - það væri glæsilegt met.
Í líkani bandarísku veðurstofunnar (reikniruna frá kl. 18, fimmtudag) fer lægðarmiðjan niður í 966 hPa rétt inni á stóríslandssvæðinu kl. 6 á sunnudagsmorgun. Lægstum þrýstingi á Íslandi er spáð 971 hPa á sunnudagskvöld.
Grófa Hirlam-líkanið fer með lægðarmiðjuna niður í 960 hPa á sama stað og tíma og spá reiknimiðstöðvarinnar. Spáin nær ekki enn til sunnudagskvölds.
Lægðinni fylgir skammvinnt hvassviðri og úrkoma langt á undan sjálfri lægðarmiðjunni. Eftir að það gengur yfir gerir trúlega besta veður - úrkoma og ský verða í lofti en hlýtt. Hér fylgjast því ekki að eftirtekt hins almenna veðurnotanda (t.d. ferðafólks) og eftirtekt nörda. Þau síðarnefndu hafa mestan áhuga á því hvort loftþrýstimet verður slegið eða ekki - flestum öðrum er nákvæmlega sama.
Einhvern tíma í fortíðinni - fyrir daga þrýstimælinga varð sjávarflóð í júlí á Suðvesturlandi. Þrátt fyrir ágætt aðgengi ritstjórans að annálum finnur hann ekki hvenær þetta var. Skyldi þar hafa farið dýpsta júlílægðin - eða er skapandi misminni ritstjórans enn á ferð?
19.7.2012 | 00:17
Kaflaskipt ár
Fyrstu þrjá mánuði ársins gekk á með úrkomu og skaki en síðan stytti upp og róaðist. Hvort nú breytir um aftur er enn ekki ljóst - meðan við bíðum frekari frétta af því skulum við líta á tvö línurit sem sýna staðfestu veðurlagsins vel.
Myndin sýnir reiknaða norðanátt á landinu öllu á hverjum degi frá 1. janúar til 30. júní 2012. Hér tákna jákvæð gildi að meðalvindur hafi verið úr norðri en neikvæð sýna hvenær suðlægar áttir voru ríkjandi. Kvarðinn er í m/s. Lárétti kvarðinn markar tímann og er merki sett við 15. hvers mánaðar. Hér virðast skiptin eiga sér stað um 10. apríl. Fyrir þann tíma er talsverður öldugangur í áttinni - hún er þó lengst af suðlæg það eru aðeins örfáir dagar sem ná yfir núllið - í fjórum köstum.
Eftir 10. apríl er áttin hins vegar oftast úr norðri - helsta undantekningin er í hlýindunum í lok maí, um það leyti var sunnanátt í nokkra daga og bjó til hæðarhrygginn mikla sem síðan hefur ráðið veðri hér - og hefur endurnýjað sig nokkrum sinnum.
Umskiptin sjást líka mjög vel á hinni myndinni, en hún sýnir daglegt hlutfall stöðva þar sem úrkoma mælist 0,5 mm eða meir. Tölurnar eru þúsundustuhlutar (prómill). Talan þúsund merkir að úrkoma hafi mælst 0,5 mm eða meir á öllum veðurstöðvum landsins. Það hefur reyndar ekki gerst nema einu sinni á þessari öld (á þorláksmessu 2008).
Á sama hátt þýðir talan núll að úrkoma hafi hvergi mælst 0,5 mm eða meiri. Það hefur gerst að meðaltali um fjórum sinnum á ári á öldinni en það sem af er þessu ári finnast tíu slíkir dagar (en þeim fækkar líklega eitthvað þegar upplýsingar hafa borist frá öllum stöðvum).
Hér sjást kaflarnir tveir sérlega vel. Fram til 10. apríl er úrkoma 0,5 mm eða meiri á nærri tveimur þriðju hlutum stöðva og aðeins sárasjaldan á færri stöðvum en 40 prósentum. Á seinna skeiðinu er meðaltalið hins vegar aðeins um 22 prósent - langt undir meðallagi. Það er skemmtilegt að sjá hvernig úrkomudagarnir komu þá í 5 til 6 gusum með um það bil 10 daga millibili.
En hvað gerist nú? Óvenju djúp lægð stefnir í átt til landsins. Upplagt er að prófa mælistikuna sem hér var fjallað um fyrir nokkrum dögum. Hversu óvenjuleg verður hún? Síðan er spurningin hvort hún nær að róta upp í bylgjumynstrinu þráláta þannig að það falli í annan farveg en verið hefur.
18.7.2012 | 00:37
Júní afhjúpast smám saman (þurrkatal)
Nú (17. júlí) er samantekt veðurupplýsinga júnímánaðar það langt komin að hægt er að líta betur á úrkomuna (þurrkinn) í lengra og víðara samhengi. Mánuðurinn var þurrasti júní í Stykkishólmi frá upphafi mælinga en hér er lítum við á landið í heild. Það skal þó tekið fram að þetta er meira til gamans gert heldur en annað - og til bráðabirgða þar til öll gögn eru komin í hús. Tölur munu þá eitthvað breytast og pistill þessi því úreldast.
Það sem hér fer á eftir verður að teljast heldur þurrt nördafóður og dugir ekki að blanda mjólk út í til mýkingar. Tygging og smjatt duga betur.
Hungurdiskar hafa stöku sinnum vitnað í þurrkavísitölur ritstjórans. Þær eru í aðalatriðum tvær, annars vegar er úrkomutíðni mánaðar mæld - en hins vegar er reynt að slá á hlutfallslegt magn. Við köllum þá fyrrnefndu einfaldlega tíðnivísitöluna (t-vísitölu) en þá síðari magnvísitöluna (m-vísitölu).
T-vísitalan er þannig fengin að lagður er saman heildarfjöldi þeirra daga þar sem úrkoma á veðurstöð mælist 0,5 mm eða meiri. Síðan er deilt í þann fjölda með heildarfjölda allra athugunardaga í mánuðinum. T-vísitalan nær aftur til ársins 1926.
M-vísitalan er heldur flóknari í reikningi en hér nægir að vita að mánuðurinn fær tölu sem sýnir meðalúrkomumagn mánaðar sem hlutfall af meðalúrkomu ársins 1971 til 2000. M-vísitalan hefur verið reiknuð aftur til 1870 - en þó er varla mikið vit í henni fyrstu 50 árin eða svo.
Báðar vísitölurnar eru mjög lágar í nýliðnum júní - með því lægsta sem þekkist. Ekki er vitað um lægri t-vísitölu í nokkrum júnímánuði, en munur á júní nú og júní 1991 og 1971 er þó ekki marktækur. Sé júní nú borinn saman við alla mánuði reynast aðeins tveir mánuðir hafa lægri t-vísitölu, maí 1931 og sami mánuður 1932. Litlu munar á júní nú og fáeinum mánuðum öðrum.
Sé litið á m-vísitöluna eru þrír júnímánuðir þurrari heldur en nú, 1991, 1916 og 1909. Varlegt er þó að treysta eldri mælingunum í þessu tilviki.
Veður var mjög staðviðrasamt í júní - litlar og hægfara hreyfingar voru á þrýstikerfum. Þetta kemur vel fram í vísitölu sem sýnir meðalbreytingu þrýstings frá degi til dags. Því hærri sem vísitalan er því meiri gangur hefur verið í þrýstikerfaumferðinni við landið. Reiknað hefur verið allt aftur til 1823 - og eru mælingarnar áreiðanlegar að minnsta kosti aftur til 1840.
Breytileikavísitalan hefur ekki verið jafnlág eða lægri í júní síðan 1912 - í hundrað ár og eru ekki nema fjórir júnímánuðir á 19. öld með lægri vísitölu, í lækkandi röð: 1837, 1860, 1839 og 1824. Vísitalan hefur ekki verið jafnlág eða lægri í nokkrum mánuði síðan í júlí 1939 (sólarmánuðinn mikla). Á allri tuttugustu öld var vísitalan aðeins þrisvar sinnum lægri í nokkrum mánuði heldur en nú, í þeim tveim tilvikum sem þegar hafa verið nefnd - og einnig (lægst) í ágúst 1910. Milli 1840 og 1900 gerðist þetta aðeins þrísvar, í júní 1860 eins og áður var nefnt en síðan einnig í júlí 1888 og 1862. Slatti af mánuðum er lægri fyrir 1840 - á óöruggara skeiði mælinganna (nema að veðurfar hafi þá í raun og veru verið öðruvísi heldur en nú).
Það sem af er hefur júlímánuður verið óvenju þurr um mestallt land og maí var einnig þurr sums staðar á landinu.
Nú eiga þrjú minniháttar lægðardrög (köld) að fara suðaustur yfir landið næstu tvo daga þar með verður loft óstöðugra og líkur aukast á skúrum - einkum síðdegis - en líka á öðrum tímum. Síðan á óvenju djúp lægð að fara til austurs skammt fyrir sunnan land - eitthvað rignir með henni. Hvað svo gerist í framhaldinu er allsendis óvíst.
17.7.2012 | 00:54
Af tíðarfari á hundadögum
Hundadagar nefnist tímabil á miðju sumri, hér á landi talið frá og með 13. júlí til 23. ágúst. Þetta er að meðaltali hlýjasti tími ársins. Sömuleiðis er úrkomulágmark vorsins liðið hjá og þar með aukast almennar líkur á rigningatíð.
Þegar sunnanvert landið var hvað mest plagað af rigningasumrum, einkum á tímabilinu frá 1969 og fram yfir 1990 litu íbúar þess landshluta með nokkrum kvíða til hundadaga. Sagt var að ef rigndi fyrstu þrjá dagana myndi rigna þá alla. Út af fyrir sig var nokkuð til í þessu því oft rigndi allt sumarið og alveg eins þessa þrjá daga eins og aðra. En sé farið í smáatriði kemur í ljós að spágildi 13. til 15. júlí gagnvart afgangi sumarsins er ekkert.
Óhætt mun að segja að hundadagar hafi nú hin síðari ár oftast farið vel með sunnlendinga þótt stundum hafi þeir orðið blautir í afturendann - en hlýindi hafa verið ríkjandi.
Við skulum nú líta á tvö línurit okkur til gagns og gamans.
Það fyrra sýnir meðalhita í Reykjavík og á Akureyri hundadagana 1949 til 2011. Vinstri kvarði sýnir meðalhitann, blái ferillinn á við Reykjavík, en sá rauði sýnir meðalhita á Akureyri. Græni ferillinn neðst sýnir mismun meðalhitans á stöðunum tveimur. Það þarf að rýna rólega í myndina til að átta sig fyllilega á henni (vonandi gera einhverjir það).
Við sjáum að á Akureyri eru meiri sveiflur frá ári til árs heldur en í Reykjavík. Vel sést hins vegar hversu óvenjulega hlýir hundadagarnir hafa verið í Reykjavík frá og með 2003. Öll árin eru annað hvort ámóta hlý eða hlýrri heldur en allt þar á undan - nema 1950 sem er hér með í keppninni um hlýjustu hundadagana. Getur þetta haldið áfram endalaust?
Nokkur hundadagaskeið skera sig úr hvað varðar mikinn mun á meðalhita í Reykjavík og á Akureyri (græna línan, hægri kvarði myndarinnar). Það eru hundadagarnir 1958 sem eru áberandi hlýrri syðra heldur en fyrir norðan. Það munar 2,6 stigum. Ámóta mikill í hina áttina er munurinn á hundadögum 1955 og 1984, 1983 og 1976 fylgja skammt á eftir. Þetta voru allt fræg rigningasumur sunnanlands.
Á þessu tímabili voru hundadagarnir 2010 hlýjastir í Reykjavík, en 1955 á Akureyri. Kaldast var á hundadögum í Reykjavík 1983 og 1958 á Akureyri. Í Reykjavík munar 4,6 stigum á þeim köldustu og hlýjustu, en 4,8 stigum á Akureyri.
En hvað með lengra tímabil? Þá er þægilegt að grípa til morgunhitaraðarinnar löngu úr Stykkishólmi sem oft hefur komið við sögu á hungurdiskum. Lítum á hana líka.
Við sjáum að hlýindin síðustu árin eiga eins og venjulega allgóðan keppinaut í árum á þriðja og fjórða áratug tuttugustu aldar. Þá byrjuðu hlýir hundadagar strax 1925. Hlýjastir á þessari mynd eru hundadagarnir 2010 og síðan kemur 1872 - ekki er gott að segja hvort við eigum að trúa því - en hvers vegna ekki? Kaldastir eru hundadagar 1882, 1921 og 1963 fylgja ekki langt á eftir.
En hverjir eru svo votustu og þurrustu hundadagarnir? Í Reykjavík (mælingar 1885 til 1907 og 1920 til 2011) finnum við 1984 - með 185,5 mm sem þá votustu - og 1888 sem þá þurrustu (með aðeins 9,8 mm).
Á Akureyri (mælingar frá og með 1928) var blautast 1950 (108,8 mm) en þurrast 1995 (13,1 mm). Í Stykkishólmi (mælingar frá og með 1857, en 1919 vantar) var votast 1976 (145,6 mm) og síðan 1955, en þurrast var 1881 (3,5 mm).
Hvernig verða hundadagarnir nú? Fyrstu þrír dagarnir (13. til 15.) voru afskaplega hlýir og þurrir. Skyldi það ástand halda áfram? Tölvuspár eru eitthvað að þusa um annað og segjast eiga á lager eina dýpstu lægð júlímánaðar í fararbroddi breytinga. Er eitthvað að marka þann skarkala?
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 01:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.7.2012 | 00:59
Gott skyggni í Grænlandssundi
Í dag (sunnudaginn 15. júlí) sást Grænlandssund milli Vestfjarða og Grænlands óvenju vel úr gervihnetti frá NASA. Því var skyggni til hafíssins með besta móti. Við skulum líta á modis-mynd sem tekin var um kl. 14:30 í dag. Hún er fengin af modis-síðu Veðurstofunnar - en athugið að þar standa myndir ekki við nema í nokkra daga. Besta eintak myndanirnar er fáanlegt á heimasíðu modis-tunglanna Aqua og Terra.
Ísland er að mestu hulið skýjum en þó má auðveldlega sjá nyrsta hluta Vestfjarða og fleira ef vel er að gáð. Mjög vel sést til snæviþakinnar Grænlandsstrandar. Ísinn í Grænlandssundi er mjög gisinn en liggur eins og oftast í óralöngum spöngum sem hlykkjast á marga vegu. Langur spangakuðlungur teygir sig langt til austurs norður af Húnaflóa.
Ritstjórinn veit auðvitað ekkert um hvítabirni eða lifnaðarhætti þeirra - og lætur öðrum um að velta sér upp úr slíku - gjörið svo vel.
Grænlandssund er oft alveg (eða nær) íslaust á haustin og ekki hefur það haft áhrif á ísbjarnakomur til landsins.
En lítum á stækkun út úr myndinni og sýnir hún ístotuna norður af Húnaflóa.
15.7.2012 | 01:37
Lægðir eru grynnstar í júlí
Á Íslandi er stormatíðni minnst í júlímánuði. Mjög djúpar lægðir eru sjaldséðar og mikill þrýstibratti frekar fátíður - alla vega fátíðari heldur en í öðrum mánuðum. Meðalloftþrýstingur er hins vegar hærri í maí heldur en júlí. Það bendir til þess að hár þrýstingur sé líka frekar fátíður á þessum árstíma.
Við skoðun á tölvuspám er mjög hagkvæmt að hafa tilfinningu fyrir því hvað er óvenjulegt - er djúp lægð sem kemur fram í margra daga spám trúverðug - er hún óvenjuleg? Er rétt að gefa henni sérstakt auga? Við þurfum einhvern kvarða til að miða við og ljóst er að hann er allt annar í júlí heldur en í janúar. Við reynum því að svara því hvenær júlílægð telst óvenjudjúp og hvenær er háþrýstisvæði orðið óvenjuöflugt á þeim tíma árs.
Til að gera það horfum við á línurit sem sýnir lægsta og hæsta þrýsting sem mælst hefur hér á landi í júlí frá 1872 til 2011. Taka verður fram að listinn að baki línuritinu hefur nýlega verið tekinn saman og hefur ekki enn verið farið í sauma á hugsanlegum villum í fyrri hluta hans (fyrir 1925) - þær eru örugglega einhverjar.
Lóðrétti kvarðinn sýnir þrýsting í hPa en sá lárétti vísar á árin. Bláu súlurnar ná til háþrýstings en þær gráu sýna lágþrýstinginn. Við sjáum enga leitni sem hönd er á festandi en þó að lágþrýstingurinn virðist stökkva meira til frá ári til árs á fyrri hluta tímabilsins. Þrjú lægstu tilvikin eru, 1901, 1912 og 1923. Þann 18. júlí 1901 mældist lægsti þrýstingur sem vitað er um á Íslandi, 974,1 hPa (í Stykkishólmi) í hinum tilvikunum tveimur var hann ómarktækt hærri.
Á fyrri hluta tímabilsins er slæðingur af tilvikum þar sem lægsti þrýstingurinn fer ekki niður fyrir 1000 hPa allan mánuðinn. Það gerðist líka í fyrra (2011) og þá í fyrsta skipti síðan 1965.
Við sjáum greinilega að áratugur eða meir getur einnig liðið á milli þess sem þrýstingur fer niður fyrir 980 hPa í júlí, en það gerist þó það oft að það telst varla afbrigðilegt. Ganga má út frá því sem vísu að ólíklegt sé að Ísland veiði allar dýpstu lægðirnar. Júlílægð á Atlantshafi sem er um 980 hPa djúp telst því ekki mjög óvenjuleg.
Aftur á móti er mjög sjaldgæft hér á landi að þrýstingurinn fari niður fyrir 975 hPa - svo djúp lægð er óvenjuleg á Atlantshafi í júlí og þá auðvitað allt þar fyrir neðan. Enn dýpri júlílægðir eru þó hugsanlegar - og koma í framtíðinni. Vonandi kunna menn að meta þær eftir lestur þessa pistils.
Af háþrýstihluta myndarinnar (þeim bláa) má sjá að hæsti þrýstingur júlímánaðar er oftast á bilinu 1020 til 1025 hPa en sjaldgæft er að hann nái 1030 - hefur ekki orðið svo hár hér á landi síðan 1996. Komst reyndar mjög nærri því fyrir viku því þá var 1031 hPa hæð rétt fyrir suðvestan land.
Allt ofan við 1032 hPa er mjög óvenjulegt. Hæsta gildið á myndinni (1037 hPa í júlí 1912) er nær örugglega rangt því talsverðu munar á því og næsthæsta gildi mánaðarins. Við trúum því þess vegna ekki. Háþrýstimet júlímánaðar telst því vera 1034,3 hPa og var það sett í Stykkishólmi 3. júlí 1917. Grunur leikur reyndar á að loftvogin í Stykkishólmi hafi sýnt lítillega of hátt á þessum tíma - en varla munar þó nema einhverjum brotum úr hPa. Stykkishólmur á líka næsthæsta gildið, það er frá 4. júlí 1978.
Nú höfum við sett stiku á loftþrýsting í júlímánuði. Útspönn þrýstingsins reynist vera 60,2 hPa - sú minnsta í nokkrum mánuði ársins.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 01:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.7.2012 | 01:51
Heldur öfugsnúið
Í dag fór þykkt við strönd Grænlands norðvestur af Vestfjörðum yfir 5600 metra og hiti í 850 hPa í 12 til 13 stiga hita. Þetta er heldur öfugsnúið en er svo sem í stíl við það sem verið hefur að undanförnu. En við skulum líta á þykktarkort evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gilti kl. 18 í dag (föstudaginn 13. júlí).
Jafnþykktarlínur eru hér svartar og heildregnar en litafletir sýna hita í 850 hPa fletinum (kvarði og tölur skýrast mjög sé kortið stækkað með smellum). Þykktin er mælikvarði á meðalhita í neðri hluta veðrahvolft, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið.
Því miður fáum við ekki þennan háa hita til landsins því hann liggur við stjóra ef svo má segja við Grænland og helst við í niðurstreymi austan við hábungu jökulsins. Ef ástandið varir mun þykktin yfir Íslandi þó hækka eitthvað þegar á helgina líður. En fyrst þurfa frekar köld lægðardrög að fara suðvestur yfir landið úr norðaustri. Furðumikill vindur er nú af norðnorðaustri hátt yfir landinu þannig að lægðardrögin ber hratt hjá.
Staðan á kortinu er reyndar langt frá öllum metum. Metþykktin við Grænlandsstjórann mun vera hátt í 5700 metrar, meiri heldur en nokkru sinni er vitað um hér á landi.
Grænlandsstrendur sjálfar njóta hitans lítt - þar kælir hafís og sjór neðstu nokkur hundruð metra lofthjúpsins. En við vitum ekki hvað gerist langt inni í dularfullum fjörðum landsins mikla. Ritstjórinn man ekki (misminnir ekki einu sinni) hver hæsti hiti er sem mælst hefur á stöðinni í Scoresbysundi en (mis-)minnið heldur því fram að í Ammasalik hafi mælst um 25 stiga hiti í norðvestanniðurstreymi þegar vindi hefur tekist að draga hlýja loftið niður. Þrettán stigin í 850 hPa í dag jafngilda um 27 stiga hita við jörð (mættishitinn er 27 stig).
En hiti fór í 13 stig í Scoresbysundi í dag - harla gott þar í sveit.
13.7.2012 | 01:24
Aðkenning af lægðardragi
Í kvöld (fimmtudaginn 12. júlí) sló um stund blikubakka upp á norðurloftið frá Reykjavík séð. Þar mátti sá gíl (venjulegt nafn á björtum bletti á undan sól) auk þess sem sólarlagið varð rauðara heldur en ella hefði orðið.
Svo veðurlaust er nú á landi hér að mjög rækilega þarf að rýna í veðurkort til að koma auga á það sem blikubakkanum veldur. Flatneskja ríkir á venjubundnum veðurkortum - þó má með góðum gleraugum sjá að háþrýstisvæði yfir landinu sem þokast vestur. Kortið í dag var þannig að lokuð þrýstilína var inni í miðju hæðarinnar - hitalægð dagsins.
Uppi í 500 hPa-fletinum sést ívið betur hvað er á seyði og hér er spákort frá evrópureiknimiðstöðinni sem gildir kl. 6 að morgni föstudagsins 13.
Táknmál kortsins er það sama og venjulega, jafnhæðarlínur eru svartar og heildregnar en jafnþykktarlínur eru rauðar og strikaðar. Svo má sjá fáein bleiklituð svæði sem merkja hvar iðan er mest á kortinu - hún er hvergi mikil.
Hér er þó greinilega norðanátt yfir landinu, hlý hæð yfir Grænlandi og veik lægð austur undan. Þykktin yfir austurströnd Grænlands er meiri en 5580 metrar. Að sögn dönsku veðurstofunnar fór hiti yfir frostmark á hábungu Grænlands - þar er afarsjaldan hláka enda á jökli meira en 3000 metra yfir sjávarmál.
Miklar leysingar eru á Vestur-Grænlandi og vandræðaástand í Syðri-Straumfirði þar sem Straumfjarðará (Kangerlussuaq) braut brúna milli byggðahverfa auk þess að rjúfa vatnsleiðslu. Grænlenska útvarpið talaði um neyðarástand í byggðinni því nokkrar vikur tæki að brúa ána að nýju. Þetta er mesta flóð sem vitað er um á þessum slóðum og eru hitar að undanförnu taldir valda leysingunni.
En aftur til Íslands. Svarta örin á kortinu bendir á lægðardrag - eiginlega bara aðkenningu af lægðardragi. Það nægir samt til þess að búa til blikubakka kvöldsins og á kortinu má sjá að hlýtt loft er í framrás í 5,5 km hæð - rauðu örvarnar eiga að sýna það þar sem norðanáttin ber 5520 metra og 5460 metra jafnþykktarlínurnar til suðurs.
Það er enn sem fyrr að hlýja loftið kemur nú helst úr norðri - og auðvitað nokkuð skaddað eftir norðurferðina - miðað við hlýindi sem koma beint úr suðri á þessum árstíma.
En þessi aðkenning gerir víst lítið - en lengra í norðaustri er annað lægðardrag með heldur dekkri iðuhnút sem boðar heldur ákveðnari lægðarbeygju sem fara á yfir landið aðfaranótt laugardags og á laugardaginn. Kortið hér að neðan sýnir skúrabakka sem reiknimiðstöðin hefur búið til og á að vera yfir landinu á laugardagsmorgunn kl. 9. Einhver blikusambreiskja boðar ábyggilega komu hans annað kvöld (föstudag).
Síðan á þriðja aðkenningin að ganga hjá á sunnudag - að sögn mun helst rigna norðaustanlands - en um það vita hungurdiskar ekkert nema af afspurn.
Allt eru þetta aumingjaleg kerfi í austurjaðri hæðarhryggjarins þaulsetna og teldust ekki til tíðinda nema í veðurleysum. En þegar almenn stórkvarðaþrýstikerfi eru aum má líka fylgjast af athygli með því veðri sem landið sjálft býður upp á - hversu vel skyldu skýin ná sér á strik síðdegis á morgun?
Í dag tókst að búa til flata netjuskýjabreiðu yfir Suðvesturlandi þar sem bólstrar rákust upp undir hitahvörfin. Þeir sem fylgdust vel með sáu síðdegis að á stöku stað löfðu úrkomubönd (virga-stafir) niður úr skýjabotnunum - en þau gufuðu upp löngu áður en þau náðu til jarðar. Skýin voru aðallega úr vatnsdropum - en hæstu hlutum þeirra tókst að ná í frost - og þar með fór úrkomumyndun af stað.
Hversu hátt verða hitahvörfin á morgun - hversu köld verða þau - skyldi nægur raki berast að neðan til að ský myndist yfirleitt?
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 01:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.12.): 20
- Sl. sólarhring: 214
- Sl. viku: 985
- Frá upphafi: 2420869
Annað
- Innlit í dag: 15
- Innlit sl. viku: 864
- Gestir í dag: 15
- IP-tölur í dag: 15
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010