Söðull þokast burt?

Það er gott fyrir veðuráhugamenn að kannast við söðla á veðurkortum. Söðlar eru hluti af þrýstilandslaginu rétt eins og lægðir og hæðir og eru eins og nafnið bendir til einskonar skörð í fjallgarða hæðanna þar sem dalir út frá lægðum ná nærri því að brjótast í gegn.

Söðullinn sem er yfir okkur í dag er reyndar ekki alveg af hinni fullkomnu gerð - en höfum ekki áhyggjur af því og lítum á veðurkort frá því í dag (þriðjudag 3. júlí).

w-blogg040712a

Kortið er frá evrópureiknimiðstöðinni og er af þeirri tegund sem hefur verið uppi á borði hungurdiska að undanförnu. Jafnþrýstilínur eru svartar og heildregnar - en 3 klst reiknuð úrkoma er sýnd sem litafletir. Úrkomutegund má einnig ráða af litlum skúramerkjum (þríhyrningum) - sem sýna klakkakynsúrkomu. Einnig má sjá hefðbundnar vindörvar - og strikalínur sýna hita í 850 hPa.

Við sjáum greinilega tvær hæðarmiðjur, aðra fyrir suðvestan land en hina fyrir norðaustan. Allmikil lægð er við Bretlandseyjar (hin rétta lægðarmiðja reyndar utan við kortið) en norðvestan og norðan við land er mjög grunnt lægðardrag eða e.t.v. tvær smálægðarmiðjur.

Fjólubláu örvarnar eiga að gefa til kynna hið óráðna vindástand í söðulpunktinum sem hér er merktur með bókstafnum S. Úr hvaða átt kemur loftið yfir mér í dag - var spurt - og fátt um svör.

Söðulpunktar voru hér á árum áður - fyrir tíma góðra tölvuspáa - veðurspámönnum sérlega erfiðir því þar hrúgast oft upp úrkoma - nú eða þá að ský láta ekki sjá sig. Margar efnilegar veðurspár ritstjórans fóru fyrir lítið í söðulpunktum liðinna sumra og hafa varð hauspokann innan seilingar.

En söðulpunktur dagsins er sagður þokast til norðausturs - hvort það rætist er svo annað mál.

Í háloftunum er einnig söðulpunktur - en sá þokast til suðausturs. Þar er lægðasvæðið norðvestan hans mun meira afgerandi heldur en á yfirborðskortinu og við lendum því rétt einu sinni í háloftavestanátt frá Grænlandi. Ætli hún sópi skúrum söðulpunktsins út af landinu? Það er líklegt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg040524c
  • w-blogg040524b
  • w-blogg040524a
  • w-blogg020524b
  • w-blogg020524a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.5.): 261
  • Sl. sólarhring: 336
  • Sl. viku: 1347
  • Frá upphafi: 2352306

Annað

  • Innlit í dag: 226
  • Innlit sl. viku: 1212
  • Gestir í dag: 215
  • IP-tölur í dag: 215

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband