Bloggfærslur mánaðarins, maí 2012
11.5.2012 | 01:13
Krossmessukast?
Það hefði mátt sleppa spurningarmerkinu í fyrirsögninni ef við erum að hugsa til veðurspár næstu daga. Einhver norðangusa kemur á sunnudag og mánudag með frosti og leiðindum víða á landinu. Hins vegar er afl hennar og eðli ekki enn ljóst og því er fullsnemmt fyrir hungurdiska að fara að smjatta á hinum mismunandi spám og hvernig þær kunni að bregðast. En við skulum af uppeldislegum ástæðum líta á 500 hPa hæðar- og þykktarspá frá evrópureiknimiðstöðinni og gildir hún um hádegi á sunnudag. Nokkrum örvum hefur verið bætt á kortið til áhersluauka.
Textinn hér að neðan er nokkuð tyrfinn og einkum ætlaður veðurnördum og þeim sem haldnir eru kortalosta.
Fyrst skulum við hafa yfir kortaþuluna sístögluðu. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru svartar og heildregnar, merktar í dekametrum (1 dekametri = 10 metrar), en jafnþykktarlínur eru rauðar og strikaðar. Þær eru einnig merktar í dekametrum. Í báðum tilvikum eru 6 dekametrar (60 metrar) milli lína. Hvasst er í 500 hPa þar sem jafnhæðarlínurnar eru þéttar. Vindhraði yfir vestanverðu landinu er um 12 m/s í 5280 metrum, en aðeins 5 til 8 m/s yfir Austurlandi.
Fyrir nokkrum dögum var líka fjallað um kort af þessu tagi (hungurdiskar 2. maí). Þar var staðan sú að jafnhæðar- og jafnþykktarlínur féllu saman og þá þannig að brattinn á sviðunum var til sömu handar. Hér er mjög ólíkt ástand. Gríðarlegt misgengi er á milli sviðanna tveggja. Þykktarbratti yfir landinu er meiri heldur en hæðarbratti. Hægt er að reikna vindhraða í þykktarsviðinu - því brattara sem þykktarsviðið er því meiri er þessi vindur - sem á íslensku má kalla þykktarvinden á erlendum málum nefnist hann thermal wind (bein þýðing væri varmavindur - en það heiti væri villandi).
Þar sem þykktarbratti er mikill en enginn hæðarbratti á móti verður til mikill vindur í lægri hluta veðrahvolfs, í stefnu andstæða þykktarvindinum. Lesendur mega ekki hafa áhyggjur af því að átta sig ekki á þessu. Margar endurtekningar þarf til.
Örvarnar á kortinu sýna (vonandi) glögglega að saman stefna kalt loft sem ryðst suður frá Norðaustur-Grænlandi og hlýtt sem streymir til norðurs fyrir austan og norðaustan land. Við getum nærri því séð hvernig þykktarsviðið herpist saman. Vindhraði og hiti ráðast síðan af smáatriðum í árekstrinum - hvenær og hvar hann á sér stað - fari hlýja loftið t.d. að mestu framhjá lendir landið inni í kuldanum en þar sem þá væri aðeins gisið þykktarsvið yfir - yrði vindur lítill. Komi hlýja loftið að með meiri ákefð og fyrr en hér er sýnt verður þykktarsviðið enn þéttara og vindur meiri.
Það er hins vegar tilgangslítið að rekja atburðarás sem enn er þrjá daga í framtíðinni í smáatriðum. Besta matið fellst í spám Veðurstofunnar á hverjum tíma en ekki í steypurausi ritstjóra hungurdiska.
En spurningarmerkið í fyrirsögninni tekur líka til nafns á hreti sem gerir á þessum tíma í maí. Varla er það alþekkt?
10.5.2012 | 00:59
Hret liggja í loftinu
Fer ekki að hlýna? Heldur kuldinn áfram? Þetta eru helstu spurningar sem ritstjórinn heyrir á förnum vegi þessa dagana. Jú, sumir bæta við: - En annars hefur veðrið samt verið harla gott. Útreikningar sýna þó að fyrstu 9 daga maímánaðar hefur hiti á landinu er býsna nærri meðallagi - og að varla hefur verið hægt að tala um hret í venjulegum skilningi þess orðs.
Sé gerður listi um raunveruleg hret í maímánuði er lítið hægt að gera nema fórna höndum - svo mörg eru þau illskeytt og langvinn. Varla er hægt að taka eitt úr og segja að það sé það versta.
Í maí í fyrra (2011) gerði slæmt hret eftir þann 20. og sömuleiðis í maí 2006. Þegar þetta er skrifað (seint á miðvikudagskvöldi 9. maí) virðist varla komist hjá hreti á sunnudag og næstu daga á eftir. En það er samt fullsnemmt að fara að gera grein fyrir því - spár eru þrátt fyrir allt ekki alveg sammála - kannski sleppum við furðuvel?
En við getum borið niður í fortíðinni og litið á veðurkort frá því 5. maí 1923 en þá gerði einmitt norðankast ekki ósvipað því og nú liggur í loftinu. Við þökkum bandarísku veðurstofunni og fleirum fyrir kortið. Það virðist ekki vera fjarri lagi. Þrýstingur fór niður í 981 hPa í Reykjavík - svipað og hér er sýnt í lægðarmiðju.
Athuga þarf einingarnar. Kortið sýnir hæð 1000 hPa-flatarins. Jafnhæðarlínur hans eru (næstum alveg) jafngildar þrýstingi við sjávarmál nema hvað setja á 40 metra í stað 5 hPa bils á milli lína. Hæðarlínur undir núll metrum eru strikaðar á kortinu. Mínus 40 metrar er sama og 995 hPa og -120 er sama og 985 hPa.
Lægðin dýpkaði mjög mikið þegar saman gengu kuldapollur sem fór til suðausturs yfir Suður-Grænland og tunga af hlýju lofti úr suðvestri. - Frábært fóður.
Mikið norðanáhlaup gerði hér á landi - þegar kortið gildir hafði það náð fullum styrk á Vestfjörðum og suður um Vesturland. Hretið kom sjófarendum að óvörum fyrir vestan - engar voru tölvuspárnar og strönduðu tvö skip við Hornvík, og tveir bátar að auki brotnuðu þar. Einn maður fórst, öðrum var bjargað. Þetta þótti mjög vel sloppið. Seglskip rak upp á Haganesvík í Fljótum. Margir bátar lentu í hrakningum.
Tveimur dögum síðar (að morgni þess 7.) var alhvítt í Reykjavík og snjódýpt 10 cm. Daginn áður segir í frétt í Morgunblaðinu:
Stórviðri af norðri gerði hjer í fyrri nótt með allmikilli snjókomu, svo fjöll voru snjóhvít niður í sjó. Mun fannkoma hafa orðið nokkur víðast á landinu. Úr Arnessýslu var simað, að þar hefði komið skóvarpssnjór. Í Húnavatnssýslu var sögð allmikil stórhríð í gærmorgun, en í Eyjafirði var sagt gott veður. Kemur kuldakast sjer illa á þessum tímum. Eru menn hræddir um að fje hafi fent í Húnavatnssýslu. Höfðu 4 menn farið frá einum bæ að smala fje,sem búið var að sleppa, og fundu mjög fátt.
Við lítum e.t.v. betur á málið síðar.
9.5.2012 | 00:15
Smáél að kvöldi 8. maí
Smáél gerði á höfuðborgarsvæðinu í kvöld (8. maí). Svo virtist helst á gervihnattamyndum að rakt loft hafi komið úr norðri - en vel má vera að það hafi í raun komið úr austri - meðfram suðurströndinni. Vindur var mjög hægur í þeirri hæð sem skýin sem mynduðu úrkomuna voru. Þrátt fyrir aumingjadóminn í éljunum voru þau síðdegisfyrirbrigði - rétt eins og síðdegisskúrir á sumrin.
Þótt kalt sé í veðri sér sólin samt um að reka stóra dægursveiflu í Reykjavík. En við skulum - í lærdómsskyni líta á línurit sem sýnir hita og raka í Reykjavík undanfarna fjóra daga.
Hér má sjá hita (blár ferill - vinstri lóðréttur kvarði), daggarmark (rauður ferill) og rakastig (grænn ferill - hægri lóðrétti kvarðinn) á sömu mynd á 10-mínútna fresti dagana 5. til 8. maí (fram til kl. 22 síðastnefnda daginn). Svörtu lóðréttu strikin sýna miðnætti (kl. 24) milli daganna.
Þarna eru tvær frostnætur, sú fyrri aðfaranótt 6. og sú síðari aðfaranótt 8. Hitinn sveiflast frá um það bil -2 stigum og upp í +7, samtals níu stig. Rakastigið (grænt) sveiflast einnig mikið. Það fer niður fyrir 30 prósent þegar það er lægst að deginum, en upp í 60 til 70 prósent frostnæturnar tvær. Miðnóttina fór það hins vegar upp í 90 prósent.
Sveiflur í rakastigi segja lítið til um sveiflur í rakamagni. Ef við hitum upp loft án þess að bæta við raka fellur rakastigið, ef við kælum það hækkar rakastigið. Við sjáum þetta sérlega vel þessa daga - þegar blái ferillinn leitar upp - leitar sá græni niður - og öfugt.
Daggarmarkið segir hins vegar til um það hversu mikið af vatnsgufu er í loftinu. Það hækkar ekki nema að raka sé bætt í það - eða þá að rakara loft komi í stað þurrara, t.d. með hafgolu. Heildarspönn daggarmarksins (munur á hæsta og lægsta gildi) er mjög stór þessa dagana, um 12 stig. En sveiflurnar fylgja sólinni ekki jafn vel og rakastigið gerir.
Fyrsta morguninn á myndinni (5.maí) hrapar daggarmarkið niður úr núll stigum og niður í -12. Tvennt getur skýrt þetta. Annað hvort hefur nýtt loft af landi hreinsað út það sem var yfir bænum um nóttina eða þá að hitahvörf hafa rofnað og þurrt loft ofan þeirra blandast niður í það raka. Ekki er gott að segja hvort er. En mjög skarpt lágmark er í daggarmarkinu klukkan 10 mínútur yfir 10 um morguninn.
Eftir að daggarmarkið hækkar eftir niðursveifluna snöggu breytist það lítið þar til síðdegis daginn eftir. Við reynum ekkert að skýra þær litlu sveiflur sem eru á þeim tíma. En takið sérstaklega eftir því að aðfaranótt þess 6. er mikið hámark í rakastiginu - eingöngu vegna kólnunar.
Undir kvöld þann 6. (sunnudagskvöld) fer daggarmarkið að hækka. Þá koma ský til sögunnar og raki fer að þéttast og dropar (eða snjóflyksur) detta niður úr skýjunum og í átt til jarðar. Þar gufa droparnir aftur upp og bæta í rakamagnið. Rakastigið getur nú stigið enn hærra heldur en fyrri nóttina og fer hér upp í 90 prósent þegar hæst er. Mun hærra heldur en við sama hita nóttina áður.
Sjöundi og áttundi maí eru að nokkru endurtekning á þeim fimmta og sjötta. Daggarmarkið fellur fyrst talsvert (við blöndun?) en breytist nánast ekkert eftir það fyrr en élið kom nú í kvöld (þriðjudag 8. maí). Þá hækkaði daggarmarkið snögglega þegar snjóflyksurnar gufuðu upp.
Hér höfum við ekkert fjallað um dægursveiflu vindhraðans - en hún er mjög áberandi þessa dagana.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 01:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
8.5.2012 | 01:29
Tíu stiga frost í maí?
Þegar þetta er skrifað (mánudagskvöldið 7. maí) er kalt á landinu. Bjart er yfir suðvestanlands og varmatap mikið. Jafnvel er líklegt að frost fari niður fyrir -10 stig einhvers staðar í byggðum landsins. Á hálendinu komst frostið niður í -13,7 stig við Setur síðastliðna nótt. En hversu oft má búast við -10 stiga frosti eða meira í byggðum landsins í maí? Til að komast að því lítum við fyrst á mynd.
Lárétti ásinn á myndinni sýnir ártöl en sá lóðrétti er hitakvarði. Súlurnar sýna lægsta hita í byggð í maí á landinu frá 1874 að telja, fram til 2011. Fyrstu átta árin voru engar stöðvar í innsveitum þannig að við sleppum að telja þau ár með hér að neðan - en þau sjást samt á línuritinu. Grímsey á lægsta hita landsins sjö fyrstu maímánuðina, lægst -12,0 stig í maí 1876. Sá mánuður er reyndar þekktastur fyrir vatnavexti og skriðuföll í leysingum.
Eftir 1880 ímyndum við okkur að stöðvadreifingin hafi verið þannig að ámóta líklegt sé að hún næli í lágmörk á svipaðan hátt og nú á dögum. (Það er þó alls ekki víst). Breið lína er dregin í gegnum punktasafnið. Hún heldur sig lengst af á bilinu -7 til -9 stig, tekur mikla dýfu á árunum í kringum 1980 en hækkar síðan aftur. Engar mjög lágar tölur er að finna á síðustu árum, en fáeinar eru þó undir -10 stigum.
Tíu stiga frost hefur ekki komið í byggð í maí frá 2005, þá mældust -10,2 stig á Haugi í Miðfirði, -11 stiga frost hefur ekki komið síðan 1998, þá mældust í -11,2 stig í Reykjahlíð við Mývatn. Metið er úr Möðrudal 1977, -17,0 stig og hefur áður komið við sögu á hungurdiskum.
Á þessu tímabili öllu (1874 til 2012) hefur aldrei komið alveg frostlaus maímánuður. Þó munaði litlu í maí 1939, þá var lægsti hitinn -1,7 stig í Reykjahlíð.
Ef við sleppum fyrstu 7 maímánuðunum standa 131 eftir, frost hefur náð -10 stigum í 39 þeirra. það eru 30%. Við teljum því að um það bil þriðjungslíkur séu á -10 stiga frosti í byggð í maí hér á landi. Það eru hins vegar 91% líkur á að frost fari í -5 stig eða meira. Að frostið fari í -15 stig í byggð gerist aðeins einu sinni á hverjum 20 árum að meðaltali.
Hálendisstöðvar (ekki með á myndinni) eiga lægsta hita maímánaðar á hverju ári síðan 1990, jafnkalt var þó í Reykjahlíð og í Sandbúðum í maí 1998. Gagnheiði og Brúarjökull eru frekastar í flokki. Frá og með 1991 hefur það aðeins gerst 5 sinnum að hiti á hálendinu hafi ekki farið niður fyrir -10 stig.
7.5.2012 | 00:34
Köldustu dagar í maí
Frá því í ágúst á síðasta ári hafa hungurdiskar mánaðarlega birt pistla með yfirskriftinni köldustu dagar. Er nú komið að maí. Rifja verður upp að hér er einungis litið til síðustu 63 ára, frá og með maí 1949 og til og með 2011. Líklegt er að finna megi enn kaldari daga sé leitað lengra aftur. Einnig er rétt að minna lesendur á pistil sem birtist hér 13. maí í fyrra undir yfirskriftinni: Hvað getur orðið kalt í maí? Þar er fjallað um dægurlágmarksmet maímánaðar - fleiri pistlar í maí í fyrra fjalla einnig um kulda og kalda tíð.
En hverjir eru köldustu maídagarnir? Hér að neðan er tillaga.
röð | ár | mán | dagur | meðalh. |
1 | 1982 | 5 | 1 | -5,32 |
2 | 1982 | 5 | 3 | -5,16 |
3 | 1979 | 5 | 1 | -4,81 |
4 | 1968 | 5 | 3 | -4,28 |
5 | 1979 | 5 | 2 | -4,21 |
6 | 1982 | 5 | 2 | -4,09 |
7 | 1976 | 5 | 4 | -3,86 |
8 | 1968 | 5 | 4 | -3,84 |
9 | 1982 | 5 | 4 | -3,50 |
10 | 1979 | 5 | 3 | -3,48 |
11 | 1979 | 5 | 4 | -3,10 |
12 | 1967 | 5 | 1 | -3,07 |
13 | 1997 | 5 | 5 | -2,94 |
14 | 1979 | 5 | 5 | -2,83 |
15 | 1982 | 5 | 5 | -2,81 |
Reiknaður er meðalhiti í byggð alla maídaga 1949 til 2011 og búinn til listi. Alls eru 1953 dagar á listanum og sjá má þá tuttugu köldustu hér að ofan. Kuldakast í byrjun maí 1982 á fimm daga á listanum þar með þá tvo köldustu. Þriðja maí 1982 var hiti kl. 15 í Reykjavík -3,5 stig og -4,9 stig kl. 18. Ekki glæsilegt. Fyrstu fimm dagar maímánaðar 1979 eru einnig á listanum. Sá mánuður telst sá kaldasti á landinu í heild frá 1866 en e.t.v. var lítillega kaldara í maí það ár.
Síðan er listi yfir daga með lægsta meðallágmarkshitann. Köldustu maínæturnar.
röð | ár | mán | dagur | m.lágm. |
1 | 1982 | 5 | 5 | -7,59 |
2 | 1968 | 5 | 4 | -7,43 |
3 | 1967 | 5 | 1 | -7,13 |
4 | 1982 | 5 | 1 | -6,95 |
5 | 1979 | 5 | 1 | -6,87 |
6 | 1982 | 5 | 2 | -6,76 |
7 | 1968 | 5 | 1 | -6,64 |
8 | 1979 | 5 | 19 | -6,55 |
9 | 1976 | 5 | 5 | -6,52 |
10 | 1982 | 5 | 3 | -6,43 |
Hér lendir 5. maí 1982 efst á listanum (var í því 15. á meðalhitalistanum). Þessa nótt var -7,7 stiga frost í Reykjavík, -15,0 á Staðarhóli í Aðaldal og -16,0 í Möðrudal. Athygli vekur að á listanum skýst 19. maí 1979 upp í 8 sæti. Óvænt að dagur eftir miðjan mánuð skuli komast svo ofarlega - því ört hlýnar að meðaltali eftir því sem á mánuðinn líður.
Að lokum eru þeir dagar sem eiga lægsta meðalhámarkshitann. Dagar þar sem maísólin er falin bakvið ský um mestallt land í hvassri norðanátt. Ekki er einu sinni hlýtt um hádaginn sunnan undir vegg í Kópavogi (og er þá fokið í flest skjól).
röð | ár | mán | dagur | m.hámark |
1 | 1982 | 5 | 1 | -3,36 |
2 | 1979 | 5 | 1 | -2,60 |
3 | 1982 | 5 | 3 | -2,42 |
4 | 1982 | 5 | 2 | -2,21 |
5 | 1979 | 5 | 2 | -1,84 |
6 | 1982 | 5 | 4 | -0,98 |
7 | 1949 | 5 | 5 | -0,91 |
8 | 1949 | 5 | 6 | -0,89 |
9 | 1979 | 5 | 3 | -0,81 |
10 | 1976 | 5 | 4 | -0,42 |
Fyrsti maí 1982 og 1979 eru í efstu sætunum og fleiri dagar úr sömu syrpu fylgja á eftir. Þá birtast 5. og 6. maí 1949 á listanum. Þá var getið um vatns- og rafmagnsskort á Ísafirði vegna snjóa. Vorið 1949 var eftirminnilegt fyrir kulda og snjó, tíð batnaði ekki að ráði fyrr en eftir miðjan júní þegar gerði meiriháttar hitabylgju - í flokki þeirra mestu.
Langyngsti dagurinn á listunum hér að ofan er 5. maí 1997 og er það til merkis um hlýindi á síðari árum. Þó er það svo að slatti af leiðinlegum kuldaköstum hefur komið á nýrri öld - þau hafa þó ekki keppt um listasæti. Mörg þeirra hafa verið seint á ferð í mánuðinum t.d. það sérlega leiðinlega kast sem gerði í fyrra (2011).
6.5.2012 | 01:38
Ofarlega á hlýindalistanum
Þrátt fyrir kulda þessa dagana er árið það sem af er mjög ofarlega á hlýindalistanum. Í metingnum er þægilegt að líta á skrá um hita kl.9 að morgni í Stykkishólmi allt frá 1846. Sé meðalhiti reiknaður frá áramótum til fjórða maí fæst þessi topplisti (hiti í °C):
röð | ár | meðalhiti | |
1 | á1929 | 3,62 | |
2 | á1964 | 2,98 | |
3 | á2003 | 2,06 | |
4 | á2012 | 1,93 | |
5 | á1926 | 1,75 | |
6 | á1880 | 1,71 | |
7 | á1847 | 1,69 | |
8 | á1974 | 1,67 | |
9 | á1972 | 1,49 | |
10 | á2010 | 1,41 |
Árið okkar, 2012, er þarna í fjórða sæti og talsvert bil er enn niður í það fimmta. En haldist núverandi kuldi lengi sígur auðvitað í. Marktæk fylgni er á milli hita fjögurra fyrstu mánaða árs og meðalhita þess í heild.
Við lítum á mynd þessu til stuðnings.
Lárétti ásinn er meðalhiti fyrstu fjögurra mánaða ársins í Stykkishólmi en lóðrétti ásinn sýnir ársmeðalhitann. Ef vel er að gáð má sjá að ártöl standa við alla punktana, allt frá 1846 til 2011. Stækka má myndina til að sjá þetta heldur betur. Fylgnistuðullinn er 0,84 en það segir að meðalhitinn í janúar til apríl skýrir (eða þannig) að um 70% af breytileikanum. Það er vel af sér vikið af þriðjungi ársins.
Þetta mikla vægi fjögurra mánaða skýrist einkum af tvennu. Annars vegar er breytileiki hitans mun meiri á vetrum en að sumri, mjög kaldur (eða hlýr) vetrarmánuður fær þar með mun meira vægi heldur en kaldur mánuður að sumri. Hins vegar er algengast að hlýir mánuðir komi á hlýjum tímabilum en ekki alveg stakir - og sama með þá köldu.
Þau ár sem eru neðan við rauðu línuna hafa slakað á eftir hlýja byrjun, en þau sem eru ofan við hafa gefið í. Við sjáum að árin 1929 og 1964 sem efst eru á listanum að ofan hafa að vissu leyti valdið vonbrigðum eftir sérlega góða byrjun. Árin 2003 og 2010 gáfu hins vegar í og urðu enn hlýrri heldur en búast hefði mátt við. Sama má segja um fáein ár önnur sem liggja efst í skýinu, t.d. 1939 og 1941.
Bláa lóðrétta línan sýnir nokkurn veginn hvar 2012 er, hvar lendir punktur þess? Það er ólíklegt að það fari upp eða niður úr endum línunnar bláu - en við höfum ekki græna glóru um hvort það lendir ofan eða neðan rauðu línunnar.
5.5.2012 | 01:39
Enn á norðan
Við höfum nú lent inn í norðanáttarsyrpu sem ekki sést hvernig endar. Fyrstu dagana fer kaldasta loftið til suðurs austan við land en ekki yfir það - við vonum að það verði áfram þannig. En lítum til norðurs - svæðisins sem nánast aldrei er sýnt á sjónvarpsveðurkortum þrátt fyrir að norðanátt sé ríkjandi í háloftunum um 40% tímans hér á landi og helming þess tíma nánast beint úr norðri.
En kvörtum ekki meir og lítum þess í stað á spákort frá evrópureiknimiðstöðinni. Það gildir um hádegi á sunnudag (6. maí). Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru svartar og heildregnar en þykktin er mörkuð með litaflötum. Eins og venjulega er mælt í dekametrum (dekametri = 10 metrar). Græn litarbrigði þykktarinnar eru þau algengustu yfir Íslandi á þessum tíma árs (milli 5280 og 5460 metrar), en sumarið byrjar í sandgula litnum (5460 til 5520 metrar).
Bláu litirnir sýna þykkt undir 5280 metrum og verða dekkri niður á við, hvert bil er 60 metrar. Við sjáum að blái bletturinn rétt austan við landið hringar sig um þykkt sem er minni en 5160 metrar. Það er allt of kalt fyrir þennan árstíma. Jafnframt tökum við eftir því að hæðarlínur og þykktarborðar liggja nokkurn veginn samsíða yfir landinu með nær sama bili. Þetta þýðir að norðanáttin undir er hæg.
Mikil hæð er við Suður-Grænland - hún hreyfist ekki mikið næstu daga, þokast e.t.v. suðvestur á bóginn. Það tekur að minnsta kosti nokkra daga að losna úr stöðunni. En við verðum þó að fylgjast með dökkbláa blettinum norður af kanadísku heimskautaeyjunum. Þar er síðasta vígi vetrarkuldans - skæður kuldapollur sem við viljum alls ekki fá nærri okkur.
Þegar kuldapollar eins og þessi eru teknir til skoðunar er litið á lögun þeirra. Þessi er ekki alveg hringlaga - áberandi meiri bratti er sunnan í honum heldur en þeim hluta sem næst liggur norðurpólnum. Það þýðir að hann er trúlega á hreyfingu, stefnan er oftast samsíða þeim vindum nálægt honum sem hvassastir eru. Sú stefna er merkt á kortið með hvítri ör. Ef hann breytir ekki um lögun fer hann í meinlausa hringi um íshafið.
Við getum verið róleg meðan svo er - en ef hann aflagast getur hann dottið í sundur - það er eins og hann verpi eggi - og eggið taki á rás. Við lítum snöggt á spá evrópureiknimiðstöðvarinnar fyrir þriðjudag, miðvikudag og fimmtudag - við sjáum varpið greinilega.
Ísland er neðarlega á myndunum. Á þriðjudag er pollurinn orðinn langur og mjór og síðan slitnar hann í sundur og sendir afkvæmi til suðurs í átt til landsins. Að vanda skal tekið fram að hungurdiskar spá engu um varpið - alls ekki er víst að reyndin verði með þessum hætti. En dæmið er stílhreint og fallegt og ætti að festast veðurnördum í minni um ókomin ár - langt fram yfir líftíma hungurdiska.
4.5.2012 | 01:11
Apríl kaldari heldur en mars
Eins og veðurnörd muna hittist þannig á í fyrra (2011) að júní varð kaldari heldur en apríl á fáeinum stöðvum á Norðausturlandi. Ekki er vitað til þess að það hafi gerst áður, hitinn gekk tvo mánuði aftur á bak gegn árstíðasveiflunni. Það er hins vegar mun algengara að gengið sé einn mánuð til baka, t.d. þegar apríl er kaldari heldur en mars. Auðvitað má líka segja að mars hafi hoppað fram um einn mánuð. Það var frekar þannig í ár, mars var óvenju hlýr, en apríl mun nær meðallagi - reyndar yfir því um mestallt land.
Þegar litið er á tiltækileg gögn kemur í ljós að þessi hegðun mars og aprílmánaðar er furðualgeng. Í ljós kemur að það er þriðja hvert ár að meðaltali sem meðalhiti á einhverri veðurstöð á landinu er lægri í apríl heldur en í undangengnum marsmánuði. Oftast munar þó sáralitlu og stöðvarnar eru fáar. En samt er það um það bil tíunda hvert ár sem apríl er áberandi kaldari heldur en mars - þegar allar eða nærri allar stöðvar landsins bera vitni.
Í ár voru þó ekki nema 44 prósent sjálfvirku stöðvanna kaldari í apríl heldur en í mars. Fyrir tveimur árum voru það hins vegar 77 prósent. Við þurfum að fara aftur til 1991 til að finna ár þar sem allar stöðvarnar voru kaldari í apríl heldur en í mars. Næst áður gerðist þetta 1977, reyndar á öllum stöðvum nema tveimur.
Af einhverjum ókunnum ástæðum voru kaldir aprílmánuðir sérlega algengir fyrir um það bil 50 til 60 árum. Á 17 árum, 1948 til 1964 gerðist það sjö sinnum að apríl var kaldari heldur en mars. Veðurnörd (jú, þau voru til á þessum tíma) hafa þá annað hvort orðið fyrir vonbrigðum með vorið hvað eftir annað - nú, eða smjattað á þessu skemmtilega óeðli tíðarinnar.
Það er sennilega apríl 1953 sem sýndi mesta óeðlið - varð reyndar kaldasti mánuður ársins 1953 - eins og hungurdiskar hafa fjallað um áður. Þá kólnaði um 5,1 stig frá mars og yfir í apríl á Teigarhorni - mun það vera met - nema ef við teljum með það sem gerðist á Akureyri frá mars og yfir í apríl 1808. Þá er sagt að kólnað hafi um 5,7 stig milli mánaðanna. Í Árferði á Íslandi í þúsund ár eftir Þorvald Thoroddsen má lesa eftirfarandi klausu (úr pistli um árið 1808):
Vetur var nyrðra harður fram á góu og voru sumir farnir að skera pening sinn; með góu kom bati, sem stóð fram á einmánuð, en um miðju þess mánaðar kom hret mikið, þegar hafísinn rak að landi, og fannir stórar, þá urðu margir fjárskaðar.
Einmánuður er síðastur vetrarmánaða í gamla íslenska tímatalinu, síðustu dagar mars og apríl fram að sumardeginum fyrsta.
3.5.2012 | 01:23
Smámunir um loftþrýsting í maí
Stundum er róandi að horfa á langtímaraðir þar sem ekkert virðist hafa breyst. Þannig er með meðalloftþrýsting í maí. Hann sveiflast að vísu fram og aftur á nokkuð breiðu bili - en sveiflurnar líta svipað út nú á tímum og fyrir tæpum 200 árum.
Lárétti ásinn sýnir tímann - frá 1821 til 2011, en sá lóðrétti er meðalloftþrýstingur í maí í hPa. Í pistli á hungurdiskum um þetta leyti í fyrra var minnst á hæstu og lægstu tölurnar á þessu línuriti (hæst 1840 en lægst 1875). Hrakviðri fylgja gjarnan mjög lágum loftþrýstingi í maí - yfirleitt er kuldinn af vestrænum uppruna, en mun betri tíð háum þrýstingi, eins og t.d. 1935 - einum hlýjasta maí allra tíma.
Árstíðasveifla loftþrýstings hér á landi er þannig að hann er að meðaltali hæstur í maí en lægstur í desember og janúar eins og sjá má á stöplaritinu hér að neðan.
Að baki árstíðasveiflu þrýstings felst flókið samspil efri og neðri laga lofthjúpsins. Rétt er að bíða með frekari skýringar - eða sleppa þeim alveg.
2.5.2012 | 00:26
Samsíða og jafnmargar
Þrátt fyrir áhugaverðan titil er hér um erfiðan nördapistil að ræða. Flestir munu líta undan þegar upplýst er átt er við samsíða og jafnmargar jafnhæðar- og jafnþykktarlínur. Sjá má gott dæmi á tveimur spákortum hér að neðan. Það fyrra sýnir spá sem gildir um hádegi á morgun, miðvikudaginn 2. maí. Kortin eru frá evrópureiknimiðstöðinni.
Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru svartar og heildregnar, merktar í dekametrum (1 dekametri = 10 metrar), en jafnþykktarlínur eru rauðar og strikaðar. Þær eru einnig merktar í dekametrum. Í báðum tilvikum eru 6 dekametrar (60 metrar) milli lína. Mjög hvasst er í 500 hPa yfir landinu, það sést af því hversu þéttar jafnhæðarlínurnar eru. Vindhraðinn er um 40 metrar á sekúndu.
Lítið fréttist af þessum vind niður við jörð - nema þar sem sést til fagurra vindskafinna netjuskýja eða blikuhnoðra (maríutásu). Hugsanlegt er að vindinum geti slegið niður á stöku stað ef miklar fjallabylgjur ná sér á strik - en aðallega sitjum við samt í hægum vindi. Það má sjá af því að jafnþykktarlínur falla að mestu saman við jafnhæðarlínur, þykktarbrattinn er mjög svipaður og hæðarbrattinn. Að auki (alveg bráðnauðsynlegt skilyrði) eru lágu tölurnar sömu megin fyrir bæði sviðin.
Þrýstisviðið við jörð kemur í ljós ef þykktin er dregin frá hæðinni. Útkoman úr þeim frádrætti sýnir svo til sömu tölu báðu megin við landið, um 18 dekametra (180 metra) það er ekki fjarri því að samsvara 1022 hPa sjávarmálsþrýstingi. Þeir sem eru mjög smámunasamir geta þó fundið grunna lægð nærri Vesturlandi ef þeir rýna í kortið.
Bleiki slóðinn fyrir norðan og vestan land sýnir iðu í 500 hPa. Hér er hún greinilega tengd beygjunni kröppu í hæðarsviðinu. Sömuleiðis má sjá hvernig vindurinn er að bera hana til austurs (vindur liggur undir horni á iðuslóðann) yfir landið. Handan beygjunnar er norðanátt. Við lítum á hana á næstu mynd, sams konar korti en með gildistíma sólarhring síðar (fimmtudagur kl. 12).
Hér er norðvestanstrengur kominn á fullt yfir landinu. En - (hjúkk) svo vill til að enn eru jafnhæðar- og jafnþykktarlínur nær samsíða og jafnmargar. Það þýðir að norðvestanáttin hvassa (um 30 m/s) nær sér ekki niður. En - það er samt breyting, við sjáum að á fyrra kortinu (miðvikudag) var þykktin yfir Norðausturland 5340 metrar, en er hér um 5220 metrar. Þetta er kólnun um 120 metra - allt að því fimm til sex stig miðað við meðalhita sólarhringsins. Suðvestanlands er þykktarfallið mun minna.
Fleiri lægðardrög bíða auðvitað í norðvestanáttinni - þegar þetta er skrifað (seint á þriðjudagskvöldi) sýnist það kaldasta að fara hjá á aðfaranótt sunnudags. En óvarlegt er að taka spár svo langt fram í tímann alvarlega hvað smá veðurkerfi varðar.
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 48
- Sl. sólarhring: 144
- Sl. viku: 1969
- Frá upphafi: 2412633
Annað
- Innlit í dag: 48
- Innlit sl. viku: 1722
- Gestir í dag: 47
- IP-tölur í dag: 46
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010