Bloggfærslur mánaðarins, maí 2012

Hlýjasta og kaldasta stöð landsins

Það gerist stöku sinnum að veðurstöð nær því að vera bæði með lægsta lágmarkshita og hæsta hámarkshita allra veðurstöðva í byggð á sama sólarhring. Það gerðist á Þingvöllum í dag, sunnudag. Frostið fór niður í -7,6 stig bæði milli kl. 3 og 4 og aftur milli kl. 4 og 5 síðastliðna nótt (aðfaranótt sunnudagsins 20. maí). Síðan hlýnaði rækilega og hiti fór í 15,3 stig milli kl. 16 og 17. Munur dags og nætur var því 22,9 stig og þegar þetta er skrifað (rétt eftir miðnætti) er hitinn á Þingvöllum aftur fallinn niður í -0,8 stiga frost.

Daggarmark er nú -4,1 stig á Þingvöllum en fyrir sólarhring (um miðnætti) var það -7,1 og við hámarkið síðdegis var daggarmarkið -6,9 stig. Ef engin loftskipti verða á staðnum breytist daggarmarkið ekki nema raki þéttist eða gufi upp. Rakaþétting skilar varma til loftsins og getur tafið hitafall verulega eða jafnvel stöðvað það alveg.

Krafan um að engin loftskipti eigi sér stað er auðvitað óraunhæf en sé daggarmark langt undir frostmarki seint að kvöldi og veður bjart og stillt er óhætt að spá næturfrosti. Sé daggarmarkið ofan frostmarks við svipaðar aðstæður er næturfrost ekki jafnvíst en náttfall líklegt.

Þegar hlýjast var á Þingvöllum í dag (sunnudag) fór rakastigið þar niður undir 20% en var uppi í tæpum 90% síðastliðna nótt. Gaddfrost á nóttu en skrælþurrkur að deginum eru varla kjöraðstæður fyrir gróður - það er kannski rétt að vökva túlípanana?


Af afbrigðilegum maímánuðum - fyrri hluti

Við lítum á fastan lið, þá mánuði þar sem höfuðvindáttir hafa verið hvað þrálátastar. Byrjað var á þessari yfirferð í júní í fyrra þannig að maí er eini mánuðurinn sem er eftir. Í þessum pistli er litið á norðan- og sunnanáttir. Notaðir eru sömu fimm flokkunarhættir og áður.

1. Mismunur á loftþrýstingi austanlands og vestan. Þessi röð nær sem stendur aftur til 1873. Gengið er út frá því að sé þrýstingur hærri vestanlands heldur en eystra séu norðlægar áttir ríkjandi. Líklegt er að því meiri sem munurinn er, því þrálátari hafi norðanáttin verið.

Þessi háttur segir norðanáttina hafi verið þrálátasta í maí 1923. Þá gerði mikið hret að sumu leyti líkt krossmessuhretinu á dögunum nema að þá snjóaði víðar um land heldur en nú. Þrátt fyrir norðanáttina var maí 1923 ekki nálægt neinum kuldametum. Í næstu sætum í norðanátt eru 1883 og 1884. Þessir mánuðir hlutu báðir ill eftirmæli fyrir snjó- og kulda um landið norðanvert. Þar á eftir koma 1949, 1958 og 1979. Margir minnast þeirra enn, sérstaklega maí 1979.

Sunnanáttin var hins vegar mest í maí 1918 - það kemur heldur á óvart. Góð og hlý tíð mun hafa verið mestallan mánuðinn, m.a. komst hiti í 22,9 stig á Möðruvöllum þann 24. - það er gott maíhámark. Maí 1978 og 1988 koma næst á eftir í sunnanáttartöflunni. Talsverð illviðri gerði í maí 1978, e.t.v. muna einhverjir eftir að þá fauk rúta með 34 farþegum út af vegi nærri Akranesi og undir lok mánaðarins gerði mikið særok í Mýrdal þannig að stórsá á trjágróðri.

2. Styrkur norðanáttarinnar eins og hann kemur fram þegar reiknuð er meðalstefna og styrkur allra vindathugana á öllum (mönnuðum) veðurstöðvum. Þessi röð nær aðeins aftur til 1949.

Hér tekur maí 1979 efsta norðanáttarsætið, ekki er það óvænt. Maí í fyrra, 2011 er í öðru sætinu, og maí 1949 í því þriðja. Sunnanáttin var mest í maí 1978 og þarnæst í maí 1991, en þá var mjög hlýtt. Báðir þessir mánuðir voru mjög úrkomusamir.

3. Gerðar hafa verið vindáttartalningar fyrir þær veðurstöðvar sem lengst hafa athugað samfellt og vindathugunum skipt á 8 höfuðvindáttir og prósentur reiknaðar. Síðan er tíðni norðvestan, norðan, og norðaustanáttar lögð saman. Þá fæst heildartala norðlægra átta. Þessi röð nær aftur til 1874. Ósamfellur eru í röðinni en við þykjumst ekki sjá þær.

Maí 1979 vinnur þennan hluta norðanáttakeppninnar. Síðan koma 1958, 1883 og 2011, allir nefndir áður. Sunnanáttin var mest 1978 og 1991.

4. Fjórði mælikvarðinn er fenginn úr endurgreiningunni amerísku og nær hann aftur til 1871. Fyrstu 20 til 30 árin verðum við þó að taka niðurstöðum greiningarinnar með varúð.

Norðanáttin var mest í maí 1979 og 1923 er í öðru sæti. Síðan kemur 1923. Sunnanáttin var mest 1895. Þá var talin góð en úrkomusöm tíð. Maí 1947 skýst hér upp í annað sætið á undan 1978.

5. Fimmti kvarðinn er einnig úr endurgreiningunni nema hvað hér er reiknað í 500 hPa-fletinum. Hér er maí 1923 með mestu norðanáttina, síðan koma ár sem ekki hefur verið minnst á áður, 1891 og 2010. Maí 1979 er í fimmta sæti. Sunnanáttin var mest í 500 hPa í maí 1978 og síðan 1947. Maí 1947 er líka minnst fyrir jarðskjálftana sem þá urðu í Hveragerði með skemmdum á húsum og breytingum á hverasvæði.

Við lítum á vestan- og austanáttirnar fljótlega.


Sumarið mjakast nær

Enn er norðurhvelshringurinn viðfangsefni hungurdiska og að þessu sinni er litið á 500 hPa hæðar- og þykktarspá evrópureiknimiðstöðvarinnar. Hún gildir um hádegi á sunnudaginn 20. maí.

w-blogg190512

Hægt er að stækka myndina til að smáatriðin (t.d. tölurnar) sjáist betur. Ör bendir á Ísland og norðurskautið er þar beint fyrir ofan. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru svartar og heildregnar en þykktin er mörkuð með litaflötum. Eins og venjulega er mælt í dekametrum (dekametri = 10 metrar). Græn litarbrigði þykktarinnar eru þau algengustu yfir Íslandi á þessum tíma árs (milli 5280 og 5460 metrar), en sumarið byrjar í sandgula litnum (5460 til 5520 metrar).

Sá litur á nú að koma nær okkur heldur en um nokkra hríð, en sá blái snertir enn norðausturströndina og ef vel er að gáð má þar sjá lokaðan hring um litla háloftalægð (kuldapoll). Því miður á hann ekki að fara neitt - en hann hlýnar smám saman og blái litur hans hverfur. Öflugur kuldapollur er við Grænland norðvestanvert og breytist ekki mikið.

Mikil háloftalægð er beint suður af Grænlandi. Henni fylgja ákveðnar vonir fyrir okkur - fari hún hægt til suðausturs eins og reiknimiðstöðin spáir í dag getur hún e.t.v. dælt til okkar talsvert hlýrra lofti og jafnvel komið þykktinni upp fyrir 5500 metra. Við þá þykkt er 20 stiga hitinn ekki langt undan þar sem sólar nýtur. En það er enn fullsnemmt að fagna slíku - við gerum það þegar og ef að því kemur.

Þessar vikurnar fer heildarflatarmál bláu litanna á kortinu minnkandi en á meðan sullast það fram og til baka á norðurslóðum og gerir skyndiárásir á svæðin þar næst sunnan við - eins og við höfum fengið að reyna upp á síðkastið. Ísland er þannig í sveit sett að það er aldrei öruggt fyrir strandhöggum kuldans - jafnvel ekki í júlí.

Á þessu korti er kaldasta loftið (dekksti blái liturinn) með þykkt á bilinu 5100 til 5160 metrar - það er sama og við fengum yfir okkur fyrr í þessari viku og enn sést austan við land þegar þetta er skrifað (seint á föstudagskvöldi 18. maí). Sjórinn í Austuríslandsstraumnum er harla kaldur og gagnast ekki mikið við að auka þykktina, hitar loftið eins og 60 kerta pera á hvern fermetra - segir reiknimiðstöðin. Það munar samt um það á nokkrum dögum.

Hlýjasta svæði kortsins er yfir Arabíuskaga. Þar er þykktin meiri en 5880 metrar. Hlýindin teygja sig nú langt norður Rússland en kuldapollar ganga austur um Miðjarðarhaf. Þar valda þeir væntanlega þrumuveðrum og skúradembum. Hitabylgjur liggja í loftinu á Bretlandseyjum og í Bandaríkjunum, jafnvel í Suður-Noregi en þær eru þó ámóta óvissar og hlýindi hér á landi.


Heiðasti maídagurinn

Þá er komið að heiðasta maídeginum í pistlaröðinni um heiðustu daga hvers mánaðar. Þrátt fyrir að nokkrir mjög bjartir dagar hafi komið í núlíðandi maí komast þeir ekki nærri toppsætinu. Það fellur í hlut 13. maí 1969. Ekki getum við sýnt gervihnattamynd sem tekin er þá. Myndasafnið í Dundee í Skotlandi sem hefur verið okkur mjög gagnlegt í heiðustudagaleitinni nær ekki nema aftur í nóvember 1978. En - næsti dagur á listanum er líka gamall (20. maí 1975) - og enn neðar og enn neðar þurfum við að leita. Við þurfum sum sé að fara niður í 8. sæti til að finna dag sem myndasafnið nær til. Það vermir 16. maí 2002. En 8. sætið er of neðarlega til að komast að hér.

Þess í stað gerum við eins og í janúar þegar svipuð staða kom upp, lítum á 500 hPa hæðarkort úr endurgreiningarsafni bandarísku veðurstofunnar. Við veljum hádegiskortið 13. maí 1969. Ekki er ritstjóranum nokkur leið að muna eftir honum. Mánuðurinn í heild var hins vegar mjög minnisstæður vegna hafíss sem lá við Norðurland og olli kulda og leiðindum þrátt fyrir meinlaust og hægt veðurlag.

w-blogg180512a

Hér sjáum við að Ísland er í mjóum hæðarhrygg á milli lægðar suður undan og lægðardrags fyrir norðaustan land sem virðast ekki hafa komið sér saman um hvort ætti að sjá landinu fyrir venjubundnum skýjum.

Skýjaðasti maídagurinn - margir eru nær jafnir í efsta sæti en jafnastur er 13. maí 1979. Maí 1979 er frægur fyrir að vera næstkaldastur maímánaða frá því að mælingar hófust hér á landi, aðeins lítillega „hlýrri“ en sá kaldasti, maí 1866. Á því augnabliki héldu menn að veðurlag 19. aldar hefði snúið aftur og öll hlýindi væru endanlega fyrir bí.

Einnig var leitað að versta og besta maískyggninu (ekki er þó mikið að marka þann lista). En reikningar segja að sá 27. árið 2005 sé með besta skyggnið, aðeins fyrir sjö árum. Verst reiknast skyggnið þann 27. maí 1965. Mikill hafís var þá við Norðurland, svipað og 1969.


Lágmörk og hámörk talin

Googleþýðarinn góðkunni gefur upp dulspekilegur fyrir alþjóðaorðið esoteric. Sú þýðing á varla við hér en samt er það þannig að veðurnördin eiga sín innfræðisem öðrum eru mjög hulin. Hin ágæta ensk-íslenska orðabók Geirs Zoega frá 1911 þýðir orðið sem heimullegur, það er nær lagi. Pistill dagsins er svoleiðis - úr heimullegum veðurnördaheimi. Aðrir hafi biðlund.

Síðastliðin nótt (aðfaranótt miðvikudagsins 16. maí) var mjög köld á landinu. Þótt dægurmet landsins þann 16. virðist í fljótu bragði ekki hafa fallið eru tölurnar óvenju lágar miðað við miðjan maí. Kuldinn skilar sér vel í talningum á dægurmetum einstakra stöðva, en til er skrá um þau fyrir sjálfvirku stöðvarnar - frá 1994 og einnig fyrir mannaðar stöðvar. Gallinn er sá að mönnuðu stöðvunum fer nú fækkandi.

Margar sjálfvirku stöðvanna hafa aðeins athugað í örfá ár en þó eru nærri 100 sem eiga nú 10 ára samfelldan rekstur eða lengri tíma. Við teljum nú dægurmet á öllum þessum stöðvum, bæði lágmarks- og hámarksmet sem sett hafa verið á árunum 2011 og 2012.

Dagurinn í dag (miðvikudagur 16. maí) er kominn með að minnsta kosti 43 ný lágmarkshitamet á sjálfvirkum stöðvum sem athugað hafa í að minnsta kosti 10 ár. Er það mikið? Já, það er býsna mikið. Hretið í maí í fyrra (2011) átti mest 16 dægurmet, það var bæði þann 17. og 31. Ahugasamir geta séð alla töfluna í viðhenginu hér að neðan. 

Þar má sjá að kuldarnir í fyrravor (2011) náðu hámarki þann 7. júní - þá voru sett 45 dægurlágmarksmet. Júnímánuður allur átti samtals 262 slík met, en nú er maí nú þegar kominn upp í 320 - rétt rúmlega hálfnaður. Í viðhenginu má sjá að kuldakastið í byrjun desember var það skæðasta síðastu 16 mánuðina. Metaflestur varð sá 9. með 69 dægurmet. Desember allur gaf alls 438 lágmarksmet - að þessu tali. Spurning er hvort maí í ár nær að toppa það. Ef 40 til 50 met verða sett í nú nótt (og þar með trúlega dægurmet fyrir allt landið) verður mánuðurinn kominn upp í um 370 og ekki þarf mjög marga slíka daga í viðbót til að ná desembertölunni.

Nú svo má einnig í viðhenginu finna sambærilegan lista yfir dægurhámarksmetin. Þar má t.d. sjá að 6. og 7. febrúar á þessu ári náðu samtals 143 hitametum. Hinn kaldi desember átti aðeins tvö. Júní í fyrra átti aðeins 18 og nú er maí heldur rislágur með aðeins 21 hámarkshitamet. Það bætir nær örugglega í það til loka mánaðarins.

Esotería, innfræði, svo sannarlega.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hlýjustu maídagarnir

Frá því í ágúst í fyrra hefur þurr upptalning á hlýjustu dögum hvers mánaðar frá 1949 til okkar dags verið fastur liður á hungurdiskum. Nú er komið að maímánuði. Ekki er útlit fyrir að hitamet verði slegin næstu daga þannig að pistillinn er ekki úreltur um leið og hann birtist. Hafa ber í huga að ekkert er vitað um afgang mánaðarins. Kannski hann lumi á einhverju óvæntu.

En við lítum þá daga sem sýnt hafa hæstan meðalhita sólarhringsins yfir landið allt, hæsta meðalhámarkið og hæsta meðallágmarkið. Allar hitatölur eru í °C.

röðármándagurmeðalh.
1199252711,48
2199252611,42
3199753111,36
4195652611,29
5199152811,28
6198551911,25
7200453011,11
8198752010,97
9198752110,81
10196252610,78
11198051810,73
12200452910,73
13200852710,72
14200852510,64
15197752310,52

Tveir góðir dagar í maí 1992 trjóna á toppnum. Norðausturhorn landsins stóð sig best í þessari hitabylgju með hin ótrúlegu 25,6 stig á Vopnafirði innanborðs síðdegis þann 26., Íslandsmet maímánaðar. Hiti komst í 25,0 stig á Raufarhöfn sama dag. Á hitabylgjulista hungurdiska (kannski birtist eitthvað af honum síðar) er þessi hitabylgja reyndar „aðeins“ í öðru sæti maímánaðar (frá og með 1949), 20. til 22. maí 1987 eru sjónarmun ofar þegar miðað er við landið allt. Þeir dagar eru hér að ofan í 8. og 9. sæti.

Hér er 31. maí 1997 í þriðja sæti hæsta landsmeðalhita. Þá mældist hiti 22,6 stig á Raufarhöfn. „Gamall“ dagur, 26. maí 1956 er í fjórða sæti. Þennan dag og næstu daga gerði eitt versta veður sem vitað er um í maí hér á landi með gríðarlegu sjóroki sem spillti gróðri langt inn í land og sást sjávarselta vestan af Grænlandshafi á rúðum austur í Bárðardal. Mikið sandfok var inn til landsins norðaustanlands, þök fuku af húsum og trillur sukku í höfnum.

Í tíunda sæti er 26. árið 1962. Hann var eftirminnilegur á Laugarvatni en þá féll skriða úr fjallinu og náði niður í byggðina, tjón varð þó aðallega á gróðri. Skyldi sárið vera horfið nú, 50 árum síðar?

Listinn um hæsta meðalhámarkshita á landinu er svipaður:

röðármándagurm.hámark
1199252615,76
2198752215,58
3198752115,55
4199152815,25
5195652615,16
6198752615,14
7195552715,10
8198551915,08
9196051314,91
10196051414,87

Hér koma þó dagar sem ekki eru á fyrri lista, t.d. 13. og 14. maí 1960 en þá gerði mikla hitabylgju um landið vestanvert (aldrei þessu vant) og komst hiti þá m.a. í 20,6 stig í Reykjavík og hefur ekki mælst meiri síðan í maí. Met sem enn standa voru þá sett á mörgum stöðvum. Sjónarmun hærri tala (20,7 stig) er til í Reykjavík í maí, frá þeim 19. 1905. Athuga þyrfti þá tölu betur, en vafalausara er að 20,2 stig mældust þar 26. maí 1901.

Að lokum lítum við á hæstu landsmeðallágmörkin - hlýjustu maínætur landsins.

röðármándagurm.lágmark
119925279,09
219915288,69
32001568,33
420045308,26
520085278,11
619625268,06
719925288,06
819595248,03
919805187,97
1020045317,95

Hér bregður svo við að fleiri dagar frá þessari öld eru með heldur en á fyrri listum (var aðeins einn á topptíu meðalhitans en enginn á topptíu meðalhámarksins). Gott að hugsa til hlýrra nátta einmitt þegar þetta er skrifað að kvöldi 15. maí 2012, frostið komið niður í -11 stig í Sandbúðum og hæsti hiti klukkustundarinnar á landinu ekki nema rúm 2 stig á Garðskagavita og Gufuskálum.


Hreinsað frá

Nú virðist mesti vindurinn úr krossmessukastinu, en enn eru eftir að minnsta kosti tveir eða þrír mjög kaldir dagar. Sólin fer þó að hjálpa til sunnan undir vegg þegar og þar sem hennar nýtur við. Við lítum á þykktarspá evrópureiknimiðstöðvarinnar fyrir morgundaginn (þriðjudaginn 15. maí).

w-blogg150512

Eins og venjulega á þessu kunnuglega korti eru jafnþykktarlínur heildregnar og svartar (í dekametrum, 1 dam = 10 metrar) en litafletir sýna hita í 850 hPa - en sá flötur er í um 1500 metra hæð yfir Vesturlandi þegar kortið gildir.

Innsta jafnþykktarlínan sýnir 5100 metra. Þetta er með því allra minnsta sem sést yfir landinu á þessum tíma árs - dæmi eru þó um lítillega minni þykkt. Spurning hvernig fer með landsdægurlágmörkin næstu daga. Metið þann 15. er -11,7 stig sett á Brúarjökli 2007. Lægsta tala í byggð þennan dag er  -10,8 stig úr Möðrudal 1977. Metið þann 17. er á svipuðu róli og líka innan seilingar nú. Þann 16. maí 1955 var hins vegar -16,6 stiga frost á Barkarstöðum í Miðfirði. Reyndar er það grunsamlega lág tala - en henni hefur verið sleppt í gegnum eftirlit á sínum tíma og verður ekki breytt hér. Mikið krossmessuhret gerði í maí 1955 og stöku stöð á metlágmark þá daga. Þessi lága þykkt núna gæti hugsanlega gefið -15 stig einhvers staðar á hálendinu - en vonandi ekki.

En við bíðum nýrra talna. Á kortinu má einnig sjá annan kuldapoll sem lúrir við norðurjaðar þess. Hann fer suður - en kjarni kuldans á að fara nokkuð fyrir austan land á fimmtudag og aðfaranótt föstudags.

Eftir það hreinsar vonandi frá - að minnsta kosti í bili - og hærri tölur ættu að fara að sjást á þykktarkortunum.


Góður árangur reiknimiðstöðvarinnar og Veðurstofunnar

Hretið sem gengið hefur yfir landið í dag sást vel á tölvuspám. Á sunnudag fyrir viku var evrópureiknimiðstöðin búin að stinga upp á norðaustanstrekkingi að vísu ekki mjög slæmum eða köldum. Hretið birtist hins vegar nær fullskapað í reikningum sem gerðir voru á aðfaranótt þriðjudags 8. maí - fyrir fimm dögum. Við skulum líta á spákort frá því í reikningum síðdegis á þriðjudag sem gildir kl. 18  i dag - sunnudag eða 126 klst fram á við. Til samanburðar höfum við spá sem reiknuð var nú síðdegis og gildir á sama tíma. Líta má á seinni spána sem nokkurn veginn rétta.

w-blogg140512

Þriðjudagsspáin er til vinstri á myndinni - en spáin frá í dag er til hægri. Í báðum tilvikum er mjög hvasst yfir landinu - þrýstilínur eru þéttar. Þær eru sjónarmun þéttari yfir landinu í þriðjudagsspánni heldur en síðar varð raunin (30 hPa munur yfir landið á vinstri mynd - en 26 hPa á þeirri til hægri). Í þriðjudagsspánni er þrýstimunur yfir landinu vestanverðu mun meiri heldur en raunin varð, 9 hPa munur á Reykjavík og Bolungarvík í stað 17 hPa. Miklu munar því á spáðum þrýstivindi. Hefði spáin frá þriðjudeginum ræst hefði hann verið um 40 m/s á Faxaflóa en reyndist aðeins 20 til 25 m/s. Fyrri talan er harla ógnvænleg og gott að hún gekk ekki eftir.

Rauði krossinn á kortinu til hægri er settur þar sem lægðarmiðjunni var spáð á þriðjudaginn. Það munar rúmri lengd Íslands á staðsetningunni, sennilega um 600 km. Á þriðjudagsspánni er lægðin líka öðru vísi í laginu. Litlu munar á miðjuþrýstingi (975 á móti 972 hPa). Áttin er norðlægari í dag heldur en spáin á þriðjudaginn gerði ráð fyrir. Sé farið frekar í saumana á spánum fór lægðin hraðar yfir í raun heldur en spáð var á þriðjudaginn. Hún endar nú líf sitt langt norðaustur í hafi, en á þriðjudaginn gerði spáin ráð fyrir að hún bæri beinin yfir Bretlandseyjum.

Þó nokkru munar á úrkomumagni í spánum. Litlu dökkbláu blettirnir yfir Austurlandi í þriðjudagsspánni sýna meir en 15 mm úrkomu á 6 klst og 10 mm/6 klst (ljósblátt) nær yfir stórt svæði. Enginn blár litur sést yfir Íslandi í spánni á kortinu til hægri. Dökkgræni liturinn segir til um 5 mm til 10 mm/6 klst. En lítill blár blettur er reyndar á spákorti sem gildir á miðnætti (ekki sýnt hér).

Á kortunum eru einnig bláar strikalínur sem sýna hita í 850 hPa-fletinum. Ef við rýnum í þær má (með mjög góðum vilja) sjá að kaldara er nú yfir landinu heldur en spáð var á þriðjudaginn. Mínus 15 stiga línan snertir nú Vestfirði, en í þriðjudagsspánni er það mínus 10 stiga línan.

Þegar á allt er litið má segja að krossmessuhretinu 2012 hafi verið spáð með 5 daga fyrirvara.


Lægðin afhjúpar sig

Lægðakerfið sem valda mun norðanhreti á sunnudag og áfram er samsett. Fyrst gekk kuldapollur úr vestri inn á Grænlandshaf og myndaði lægð sem olli suðlægri átt lengst af laugardegi. Síðan kom kerfi með mjög hlýju lofti frá svæðinu austan Nýfundnalands. Með aðstoð tölvugreininga hefur mátt sjá að þar fór hálffalin lægð sem dýpkar nú óðfluga suður af landinu.

Þótt hún sé ekki af fullum vetrarstyrk dýpkar hún um 30 hPa frá því klukkan 18 síðdegis á laugardag til sama tíma sunnudags, úr 1005 hPa niður í 975 hPa og telst það mikið. Þaulvanir kortarýnar hafa sjálfsagt séð lægðina fyrr í dag (laugardag) en það er fyrst í kvöld sem hún er farin að sýna sig að hætti ört dýpkandi lægðar.

Við lítum á óskýra hitamynd (hún batnar lítið sem ekkert við meiri stækkun) frá því á miðnætti á laugardagskvöld.

w-blogg130512

Kalda lægðin er vestur af landinu hún hreyfist til suðausturs og eyðist, lægðin suður í hafi étur hana með húð og hári. Við sjáum þrjú einkenni dýpkandi lægða: Hlýja færibandið (rauð ör - sem er óþarflega klaufalega dregin á myndina - nörd eru beðin velvirðingar á því), kalda hausinn (bláleit strikalína) og þurru rifuna (gulleit ör). Ekki er gott að sjá af myndinni einni og sér af hvaða uppruna hausinn er að þessu sinni.

Nyrst á myndinni er stór blá ör. Þar er heimskautaloftið í framrás. Að vissu leyti kemur það lægðinni lítið við (fram til þessa) en veldur því að vindhraði í norðanáttinni að baki lægðarinnar verður mun meiri en ella væri. Síðdegis á sunnudag setur það einnig kraft í dýpkunina.

Við lítum einnig á vindaspá evrópureiknimiðastöðvarinnar sem gildir á sama tíma og gervihnattamyndin, á miðnætti laugardagskvöldið 12. maí. Spáin á við 100 metra hæð yfir jörð þar sem vindur er heldur hvassari en niður við sjó.

w-blogg130512b

Mjög hægur vindur er hér um land allt. Annars eiga lesendur að taka sérstaklega eftir því að varla er hægt að greina lægðarhringrás umhverfis lægðina suður af Vestmanneyjum - því hún er um það bil að afhjúpast. Dýpkunin mikla til morguns bætir auðvitað úr norðanáttarskortinum. Sjá má að norðaustanáttin á Grænlandssundi er býsna ógnandi. Þar er vindhraði yfir 24 m/s á stóru svæði.  

Þegar lægðin vestur af landinu skríður suðaustur og hverfur sígur vindstrengurinn suður á landið en jafnframt dregur eitthvað úr honum og hann verður norðlægari. Annar norðanstrengur myndast síðan vestan við lægðina djúpu og strengirnir sameinast austan við land síðdegis.

Þetta er allt frekar ruglingslegt og hefði verið hið versta mál á árum áður. Líf fjölmargra sjómanna hefði verið í voða og fjárskaðar yfirvofandi. Nú gerist vonandi ekki neitt - þótt kuldi verði ýmsum til ama næstu daga.


Kaldir dagar framundan

Síðasti pistill hungurdiska fjallaði um 500 hPa hæðar- og þykktarkort frá evrópureiknimiðstöðinni með gildistíma um hádegi sunnudaginn 13. maí. Pistill dagsins er um nákvæmlega sama efni en spáin er sólarhring yngri - gerð um hádegi föstudaginn 11 og nær yfir stærra svæði auk þess að vera í öðrum litum.

w-blogg120512

Jafnhæðarlínur eru svartar, því miður vantar talnagildi. Dökki hringurinn í kringum lægðarmiðjuna við Suðausturland sýnir 5280 metra og síðan eru línur á 60 metra bili. Við sjáum að sunnan við lægðarmiðjuna og vestur í sveig til Suður-Grænlands eru jafnhæðarlínur mjög þéttar - þar er mikill vindur, yfir 60 m/s þar sem mest er í 5 km hæð og meir en 70 m/s ofar.

Litirnir sýna þykktina. Skipt er um lit á hverjum 60 metrum. Því meiri sem þykktin er því hlýrra er í neðri hluta veðrahvolfs. Litaskilin milli grænu og bláu litanna sýna 5280 metra. Gróflega má segja að það sé miðja vegu milli vetrar og sumartalna - algengt á vorin. Guli liturinn byrjar við 5460 metra og þar býr sumarið. Dekksti blái liturinn sýnir þykkt sem er minni heldur en 5100 metrar - vetrargildi á Íslandi.

Norðanáttin sem er í 500 hPa-fletinum í kalda loftinu ber kuldann til suðurs (eins og sýnt var í pistlinum í gær). Það er ekki oft sem þykkt fer niður í eða niður undir 5100 metra hér á landi í maí. Í kuldakastinu í byrjun maí 1982 fór hún niður í 5060 metra yfir Suðvesturlandi - það er það lægsta sem vitað er um. Í spám dagsins nefnir reiknimiðstöðin 5140 metra yfir Suðvesturlandi aðfaranótt þriðjudags.

Séu spárnar réttar eru kaldir dagar framundan, jafnvel er hugsanlegt að frost verði allan sólarhringinn norðanlands í tvo, þrjá daga eftir að kuldinn skellur á.

En hret eru algeng í maí. Ritstjórinn reynir að telja hversu algeng og er kominn upp í um 60 á 140 árum. En ekki eru öll kurl komin til grafar. Það flækir talningar að á árum árum voru atvinnuvegir og þjóðfélagið allt mun næmari fyrir veðri heldur en á síðari árum. Mikil fækkun maíhreta á síðustu áratugum miðað við það sem áður var er því sennilega ekki raunveruleg. En ef eitthvað verður úr þessu krossmessuhreti verður það þó fjórða hretið á sjö árum (2006, 2007 og 2011). Engin fækkun þar.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a
  • w-blogg141124ii

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 34
  • Sl. sólarhring: 152
  • Sl. viku: 1955
  • Frá upphafi: 2412619

Annað

  • Innlit í dag: 34
  • Innlit sl. viku: 1708
  • Gestir í dag: 33
  • IP-tölur í dag: 32

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband