Bloggfærslur mánaðarins, maí 2012
31.5.2012 | 01:25
Heiðríkur dagur
Í dag (miðvikudaginn 30. maí) var um miðjan dag nær heiðríkt á landinu. Smábreiða af góðviðrisbólstrum var yfir landinu suðvestanverðu en að öðru leyti mátti heita heiðskírt.
En undir kvöld kom mið- og háskýjabreiða úr norðri inn á landið og þakti stóran hluta þess um tíma eins og sést á myndinni hér að neðan. Hún á að þola lítilsháttar stækkun. Þetta er hitamynd frá noaa og tekin um hálftíuleytið. Hæstu ský eru hvít, þau eru köldust.
Ef vel er að gáð ætti allt vestanvert landið að sjást á myndinni. Við sjáum líka mjó og heiðhvít fjallabylgjuský yfir Norðausturlandi og fleiri lægri bylgjur eru á svipuðum slóðum. Yfir liggur mið- eða háskýjabreiða sem hreyfist hratt suður.
Skýjakerfið er í vesturjaðri háloftabylgju sem er á hraðri suðurleið austan við land og er 30-40 m/s vindstrengur úr norðri samfara bylgjunni í efri hluta veðrahvolfs. Að þessu sinni fer kuldakastið að norðan rétt hjá en angrar okkur vonandi ekki. Talsverð leiðindi verða hins vegar af því í sunnanverðri Skandinavíu á morgun og næstu daga.
Samfara lægðardraginu dettur þykktin austanlands niður um 100 metra (u.þ.b. 5°C) en hækkar fljótt aftur. Þetta er fyrsta lægðardragið af nokkrum sem munu næstu vikuna naga austurjaðar hæðarinnar hlýju sem fært hefur okkur góðviðrið. Verður talsvert spennandi að fylgjast með smjattinu.
30.5.2012 | 00:36
Hlýtt á Grænlandi
Hæðin góða sem fært hefur okkur hlýindi undanfarna daga setur ekki aðeins hitamet í Borgarfirði heldur líka á Grænlandi.
Í dag mældist hiti í Narsarsuaq 24,8 stig og er að sögn dönsku veðurstofunnar nýtt maímet á þeim slóðum. Mjög hlýtt virðist hafa verið um mestalla Eystribyggð. En víðar varð hlýtt á Vestur-Grænlandi. m.a. í Syðri-Straumfirði þar sem hiti fór hiti upp í 21,4 stig. Grænlenska útvarpið (knr.gl) getur um hitana í frétt. Rétt er að taka fram að danska veðurstofan notar gjarnan ekki eldri athuganir en frá 1958 þegar fjallað er um met á Grænlandi, ómögulegt er að segja hvort það á við að þessu sinni.
Oft er hlýtt í grænlenskum innfjörðum en sjaldnar úti á ströndinni. Tölvuspár eiga örugglega erfitt með að spá rétt fyrir um hita á svæðinu milli jökuls og strandar þar sem landslag er að auki stórskorið mjög. En við lítum til gamans á eina slíka spá. Hún er frá evrópureiknimiðstöðinni og gildir kl. 18 á morgun (miðvikudaginn 30. maí).
Þetta kort sýnir lofthita eins og hans er að vænta í 2 metra hæð frá yfirborði í líkaninu. Stækka má kortið talsvert með músarsmellum og ætti kvarðinn þá að sjást betur. Örvarnar sýna vindátt og vindhraða.
Á kortinu er rauður lindi meðfram mestallri Grænlandsströnd, dekkstur vestan við jökul. Þar má yfir Vestribyggð (í fjörðum inn af Nuuk) sjá töluna 19,9 stig. Líkanið segir meir en 10 stiga hita í innfjörðum Scoresbysunds. Á Grænlandi gilda sömu lögmál og hér, mikil þykkt gefur tóninn en síðan fer það eftir vindum og skýjafari hvernig gengur að hreinsa burt kalt sjávarloftið.
Á Íslandi er talan 17,0 sett yfir Borgarfjörð á kortinu. Á samskonar korti sem sýndi hita kl. 18 í dag (þriðjudag) var talan 16,2 sú hæsta yfir Íslandi, en hiti var þá 17,7 stig á Húsafelli í Borgarfirði, en hiti í Borgarfirði komst hæst í dag í 21,6 stig í Stafholtsey.
En þótt kort af þessu tagi sýni mjög vel mun á hlýjum dögum og köldum verður að taka nákvæmninni mjög af varúð. Vatnajökull er t.d. bæði lægri og stærri í líkaninu heldur en hann er í raun og veru. Því má búast við því að hitaspár í námunda við hann séu mjög aflagaðar.
Taka má eftir dálitlum frostbletti (-1,2°C) ekki langt undan Vestfjörðum. Þarna er ábyggilega hafís í líkaninu og ekki ótrúlegt að hann sé þar í raun og veru. Þótt hiti yfir sjó fylgi sjávarhitanum í stórum dráttum er hann ekki nákvæmlega sá sami. Þar sem kalt loft berst hratt yfir hlýjan sjó getur munað miklu.
29.5.2012 | 00:37
Hæðin þraukar
Háþrýstisvæðið mikla og hlýja sem nú (mánudag 28. maí) er í námunda við landið virðist eiga að þrauka áfram - út vikuna eða jafnvel lengur. Spurningin er hins vegar hversu lengi það verður okkur til gagns.
Hlýjasti kjarni hæðarinnar færist vestur á bóginn og kólnar heldur. Í dag var þykktin í námunda við landið í kringum 5550 metrar en það er óvenjumikið í maí. Fram á miðvikudag fellur þykktin um 60 til 80 metra, meira austanlands. Hverjir 20 metrar jafngilda gróflega 2 stigum þannig að 3 til 5 stiga kaldara loft verður yfir landinu á miðvikudaginn heldur en var í dag (mánudag)
Þetta er þó ekki alveg svona slæmt og það hljómar því sannleikurinn er sá að við höfum ekki fengið að njóta hitans fyrir ofan okkur að fullu. Kólnunin verður meiri ofan við okkur heldur en hér í neðra. Auk þess er dægursveifla mjög stór þar sem sólar nýtur, hæglega 12 til 15 stig. Þannig að falli þykktin ekki mikið neðar en 5460 metra getur hiti enn farið í 20 stig eða svo þar sem vel stendur á - sólskin og rétt vindátt. En sjávarloftið er og verður svalt - alveg sama hvað þykktartölur segja.
En við skulum líta á 500 hPa hæðar- og þykktarspá sem gildir á miðvikudaginn 30. maí. Spáin er frá evrópureiknimiðstöðinni.
Ísland er rétt neðan við miðju kortsins, Grænland til vinstri og Skandinavía til hægri. Jafnhæðarlínur eru svartar og heildregnar en litafletir sýna þykktina. Hvoru tveggja er í dekametrum. Mörkin á milli grænu og gulu litanna liggur við 5460 metra, en við 5280 metra skiptir yfir í bláa liti. Í kuldapollinum sem er yfir Barentshafi er smáblettur sem sýnir lægri þykkt heldur en 5160 metra. Hana viljum við alls ekki - og helst engan bláan lit.
Í dag (mánudag) var hæðin sem þarna er yfir Grænlandi sunnan við land og Ísland vel inni í dökkgulum lit. Eftir því sem jafnhæðarlínur eru þéttari því hvassara er. Talsverður vindstrengur af norðnorðvestri er milli Jan Mayen og Grænlands. Þar er lægðardrag sem þýtur til suðurs og fer hér hjá á fimmtudaginn, vonandi án teljandi kólnunar (en samt). Á föstudaginn mun það valda leiðinda kuldakasti og snjókomu á heiðum og fjöllum Suður-Noregs og talsvert kólnar líka í Danmörku.
Þegar lægðardragið er komið framhjá Íslandi getur hæðin aftur þokast nær og gerir það í þeim spám sem nú eru nýjastar. Fari svo kemur ný hlý stroka niðurstreymis af Grænlandi yfir okkur undir næstu helgi og bætir í þykktina.
Annars er það algengast í stöðum sem þessari að hæðin hörfar smám saman vestar eftir því sem fleiri köld lægðardrög strjúkast við austurhlið hennar. En hún virðist ætla að þrauka fram yfir það næsta.
28.5.2012 | 01:27
Ekki nokkur leið - því miður
Þessa dagana nær hiti sér vel á strik síðdegis þar sem sólar nýtur. Það er varla hægt að fara fram á meira á þessum árstíma. Raunsæið fyrir öllu. Það er þó hálfsvekkjandi að horfa á allt hlýja loftið fyrir ofan, bæði í háloftaathugunum sem og í tölvugreiningum og spám. Á hádegi í dag, á hvítasunnu, var hiti í 3 km hæð yfir landinu +4 stig, hærri hiti en finnst í fljótu bragði í þessari hæð í maí í háloftametalistum hungurdiska. Ef hægt væri að ná þessu lofti niður til jarðar óblönduðu fengjum við að sjá 35 stiga hita. Það gerist auðvitað aldrei, fjallabylgjur geta þó blandað lofti úr þessari hæð niður í það sem neðar er. Blandan verður þó auðvitað talsvert kaldari - rétt eins og þegar köldu vatni er bætt í heitt.
Það sem hér fer á eftir er nokkuð tyrfið og ritstjórinn móðgast ekkert þótt menn standi nú upp og gangi út. Vonandi líta þeir þó aftur við síðar.
Loft í 3 kílómetra hæð er alveg utan seilingar, heldur raunhæfara er að beina vonum sínum að 850 hPa-fletinum en hann var í dag í 1530 metra hæð yfir landinu. Í þeirri hæð var hiti yfir Keflavík í dag +3 stig - aðeins lægri heldur en uppi í 3 kílómetrum og langt frá maímeti en það er um +11 stig. En nú á að hlýna um nokkur stig í 850 hPa þar til hámarki í bili verður náð aðfaranótt þriðjudags. Þegar þetta er skrifað (seint á sunnudagskvöldi) á hámarkið að verða +10 stig. Væri það loft dregið niður í 1000 hPa yrði hiti þess þar +24 stig, við segjum að mættishiti þess sé +24 stig.
En því miður er ekki hægt að ná þessu lofti niður né blanda það kaldara lofti fyrir neðan nema með ofbeldi. Það er ekki fyrir hendi í hægum vindir. Þar sem vindur stendur af hafi í skýjuðu veðri eða þoku fréttist nákvæmlega ekki neitt af hlýindunum. Þar sem sólin skín fréttist óbeint af þeim. Það gerist þannig að loftið sem hlýnar við snertingu við hlýtt sólbakað yfirborð jarðar getur ekki risið nema takmarkaða hæð frá jörðu því það rekst uppundir hlýja loftið ofan við. Þetta þýðir að sólin er fljótari að hita kalda lagið heldur en hún væri ef langt væri í hlýtt loft ofan við. Rúmmálið sem hita þarf er einfaldlega minna.
Þar sem friður er fyrir sjávarlofti getur hiti þess vegna farið býsna hátt síðdegis við þessi skilyrði. Tuttugu stig verða þá innan seilingar. Þar sem vindur stendur af fjöllum - eru líkur á því að eitthvað af háloftahlýindunum geti blandast niður.
En við lítum á kort frá evrópureiknimiðstöðinni. Það gildir mánudaginn 28. maí kl. 18 og kann við fyrstu sýn að virðast nokkuð flókið. Stækka má kortið talsvert með því að smella á það nokkrum sinnum.
Við sjáum Ísland á miðju korti og Grænland til vinstri. Jafnþrýstilínur eru svartar og heildregnar. Tvískipt háþrýstisvæði er fyrir suðaustan og suðvestan land, en minniháttar lægð eða lægðardrag við Grænland.
Ef vel er að gáð má einnig sjá svartar strikalínur en þær marka hita í 850 hPa-fletinum á 5 siga bili. Tíu stiga jafnhitalínan er vestur af Vestfjörðum. Við ættum að geta ímyndað okkur að loftið hafi hlýnað svona í niðurstreymi austan Grænlands.
Litafletir sýna mættishitann - þann hita sem loftið hefði væri það dregið niður í 1000 hPa þrýsting. Á dekksta svæðinu (við gulbrúnu örina) er hann meiri en 25 stig. Örin bendir á tölu við Reykjanes, 22,9 stig. Við skulum vona að við fáum að sjá mikið af dökkrauðum litum yfir landinu í sumar.
27.5.2012 | 01:43
Tæknilega ekki met?
Gríðarleg úrkoma var sums staðar vestast á landinu síðasta sólahring rúman. Í morgun kl. 9 mældist sólarhringsúrkoman á Lambavatni á Rauðasandi 134,2 mm (óstaðfest). Úrkoma hefur verið mæld á Lambavatni síðan 1938. [Síðar kom í ljós að talan átti að vera 34,2mm en ekki 134,2 - enda miklu trúlegra]. Landsmet maímánaðar situr á Kvískerjum í Öræfum, 147.0 mm, mældist þann 16. 1973.
En - nú hefur í allt kvöld (laugardaginn 26. maí) staðið á vef Veðurstofunnar að mest úrkoma á núlíðandi sólarhring hafi mælst í Grundarfirði, 147,7 mm. Ekki er enn farið að jafna sjálfvirkum úrkomumælingum til meta á mönnuðum stöðvum. Við metaáhugamenn getum skriðið í það skjól og einfaldlega sagt að þetta sé nýtt mánaðarmet á sjálfvirkri úrkomustöð - án þess að fórna því mannaða. Gamla metið (nýlegt þó) var sett í Grunarfirði 11. maí 2009. Þá mældust þar 136,0 mm.
En - (enn meira en) hvernig hefði málið farið ef mönnuð stöð væri í Grundarfirði? Við vitum svo sem ekki hversu mikið hefði komið í þann mæli. Ímyndum okkur samt að það hafi verið jafnmikið - en met hefði farið forgörðum vegna skiptingar úrkomunnar á sólarhringa. Á sólarhringsúrkomukorti sem birtist daglega á vef Veðurstofunnar er miðað við hefðbundinn úrkomusólarhring frá því kl. 9 næstliðins morguns þar til kl. 9 á mælidegi. Í morgun (laugardag) sást talan frá Lambavatni, en var 75,4 mm í Grundarfirði á sama tíma.
Við skulum nú líta á mynd sem sýnir úrkomuákefð í Grundarfirði undanfarna daga, mælt er í mm/klst.
Lóðrétti ásinn sýnir ákefðina (mm/klst) en sá lárétti klukkustundafjölda frá miðnætti aðfaranótt þess 24. Dálítil rigningargusa kom sitt hvoru megin miðnættis milli 24. og 25. en síðan var þurrt að mestu þar til seint að kvöldi föstudagsins 25. Þá fór að rigna svo um munaði og rigndi baki brotnu þar til kl. 19 á laugardagskvöld.
Listinn á forsíðu vefs Veðurstofunnar skiptir úrkomunni eftir réttum sólarhringum, fyrsta tala sem tekin er með er sú sem mæld er kl. 1. Summan frá því þá þar til stytti upp er 147,7 mm. Rauða punktalínan sem rís upp í miðjum úrkomukaflanum sýnir hvenær mönnuð mæling hefði átt sér stað. Við sjáum að hún skiptir kaflanum nokkuð snyrtilega í tvennt, 67,3 mm fyrir kl. 9 og síðan 80,4 mm. Ef þurrt verður í Grundarfirði í nótt verður sú tala á korti Veðurstofunnar í fyrramálið. Metið teldist ekki gilt - tæknilega.
Úrkoman hefði getað hitt enn betur í sólarhringinn því frá mælingu kl. 20 á föstudegi til kl. 19 á laugardegi féllu alls 154,7 mm.
Grundarfjörður er óvenjulegur úrkomustaður. Í þessu tilviki er það eins gott því svipað úrkomumagn myndi valda algjöru öngþveiti í Reykjavík og jafnvel stórtjóni. Hámarksákefðin á myndinni, 16,5 mm er með því mesta sem gerist hér á landi en hefur þó tvisvar verið ívið meiri í Grundarfirði.
Það vekur furðu að öll þessi úrkoma á Snæfellsnesi norðanverðu og á Vestfjörðum skuli ekki hafa valdið einhverjum skriðuföllum. [Nú í þessum skrifuðum orðum fréttist af skriðuföllum nærri Ísafirði - það hlaut að vera].
Dagurinn í dag (laugardagur 26. maí) var mjög hlýr um landið austanvert og komst hiti vel yfir 20 stig á allmörgum stöðvum. Enn hlýrra loft verður yfir landinu á mánudag/þriðjudag en því miður er gert ráð fyrir hægum vindi þannig að óvíst er hvort 20 stiga múrinn verður líka rofinn þá. Við fylgjumst með.
Vísindi og fræði | Breytt 28.5.2012 kl. 17:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.5.2012 | 01:31
Af afbrigðilegum maímánuðum - síðari hluti, austan- og vestanáttir
Nú kemur að síðari hluta umfjöllunar um þrálátar höfuðvindáttir í maí. Þar með er lokið yfirferð um alla mánuði ársins. Viðfangsefnið nú er austan- og vestanþráhyggja. Notaðir eru sömu fimm flokkunarhættir og áður.
1. Mismunur á loftþrýstingi norðanlands og sunnan. Þessi röð nær sem stendur aftur til 1878. Gengið er út frá því að sé þrýstingur hærri norðalnlands heldur en syðra séu austlægar áttir ríkjandi. Líklegt er að því meiri sem munurinn er, því þrálátari hafi austanáttin verið.
Meginhluta ársins er austanátt ríkjandi hér á landi, raunar með dálitlum norðanþætti. Í þeim 134 maímánuðum sem hér liggja undir eru aðeins 15 þegar þrýstingur er hærri sunnanlands heldur en fyrir norðan.
En austanáttin var mest í maí 1967. Það var heldur daufur mánuður á Akureyri þar sem ritstjórinn dvaldist um það leyti. Á leiðinni suður undir lok mánaðar var farið um forblauta moldarbólgna vegi og víða var blautur snjókrapi á báða vegu allt suður fyrir Holtavörðuheiði. Vorið var heldur ekki langt komið í Borgarfirði, en syðra var alla vega sólríkt í þessum maí. Áhugasamir ættu að líta á pistil nimbusar um sólríka maímánuði til að fræðast um það.
Næstir í austanáttarröðinni eru þrír mánuðir nánast jafnir, 1904, 1979 og 2011. Við ættum að muna maí í fyrra - þennan með Grímsvatnagosinu, 1979 er sífellt að koma við sögu í metalistum, kaldastur maímánaða - en maí 1904 man enginn nema e.t.v. bókartitilinn: Það voraði vel 1904 (eftir Gunnar M. Magnúss). En voraði vel 1904? Textahnotskurn hungurdiska segir um maí: Nokkuð kalt fram yfir miðjan mánuð, en síðan betri tíð. Hiti í meðallagi. En fjárskaðar urðu eystra í hríðarbyl um miðjan mánuð. Annars var tíð tiltölulega góð 1904 að viðmiði þess tíma.
Vestanátt var mest í maí 1991. Þá var talin hagstæð tíð en mjög úrkomusöm, sérstaklega vestanlands. Næstmest var vestanáttin 1896 og síðan er gæðamánuðurinn 1935 í þriðja sæti. Hann telst hlýjasti maí sem vitað er um á landinu. Maí 1896 fékk góða dóma en mjög úrkomusamt var á Vesturlandi rétt eins og 1991.
2. Styrkur austanáttarinnar eins og hann kemur fram þegar reiknuð er meðalstefna og styrkur allra vindathugana á öllum (mönnuðum) veðurstöðvum. Þessi röð nær aðeins aftur til 1949.
Hér koma áður ónefndir mánuðir við sögu í toppsætum austanáttarinnar, 1982, 1972 og 1976, ólíkir mánuðir. Maí 1982 talinn mjög óhagstæður og kaldur, en maí 1972 góður og hlýr. Kuldakastið mikla í byrjun maí 1982 hefur nokkrum sinnum borið á góma áður hér á hungurdiskum.
Vestanáttin að þessu tali var mest 1991 rétt eins og að ofan, en maí 1956 kemur í öðru sæti með sitt fræga vestanillviðri og saltroki.
3. Gerðar hafa verið vindáttartalningar fyrir þær veðurstöðvar sem lengst hafa athugað samfellt og vindathugunum skipt á 8 höfuðvindáttir og prósentur reiknaðar. Síðan er tíðni norðaustan, austan og suðaustanáttar lögð saman. Þá fæst heildartala austlægra átta. Þessi röð nær aftur til 1874. Ósamfellur eru í röðinni en við þykjumst ekki sjá þær.
Hér er maí 1982 aftur mestur austanmánaða en 1933 og 1965 koma næstir, ólíkir innbyrðis. Í maí 1933 var talin einmunatíð en það orð er notað yfir sérlega hagstætt veðurlag, í maí 1965 var hægviðrasamt og tíð var hagstæð suðvestanlands, en fyrir norðan og austan var mikill hafís og honum fylgdi kuldi við strendur og jafnvel inn til landsins um Norðurland vestanvert.
Vestanáttin var mest í maí 1991 og síðan í maí 1935. Betra samkomulag virðist um vestanáttina heldur en þær austlægu í þessu yfirliti.
4. Fjórði mælikvarðinn er fenginn úr endurgreiningunni amerísku og nær hann aftur til 1871. Fyrstu 20 til 30 árin verðum við þó að taka niðurstöðum greiningarinnar með varúð.
Og enn eru nýir austanáttamánuðir nefndir til sögunnar, maí 1925 og 1931 efstir, en síðan kemur maí 2011 sem nefndur hefur verið áður. Maí 1991 er enn mestur vestanáttarmaímánaða - hann hefur greinilega verið mjög eindreginn, síðan kemur maí 1896 en hann var einnig nefndur hér að ofan.
5. Fimmti kvarðinn er einnig úr endurgreiningunni nema hvað hér er reiknað í 500 hPa-fletinum. Hér er maí 1889 mestur austanáttarmánaða og 1925 í öðru sæti. Vestanáttin var hins vegar mest 1991 og síðan 1896 - rétt eins og áður.
25.5.2012 | 00:09
Almennur og sértækur hiti
Það verður að taka fram að hvorki almennur- né sértækur hiti eru föst hugtök í veðurfræði. Þau eru sett hér fram til hægðarauka. Með almennum hita er samkvæmt orðanna hljóðan átt við hita sem nær til stórra samfelldra svæða - alla vega fjölmargra veðurstöðva. Sértækur hiti er hins vegar sá sem stingur sér niður á stöku stað og sker sig úr því sem almennt er á öðrum stöðvum svæðis.
Þegar rætt er um þykkt í veðursamhengi er nær alltaf átt við fjarlægðina á milli 500 hPa og 1000 hPa flatanna. Því meiri sem hún er því hlýrra er loftið á þessu bili. Neðri flöturinn (1000 hPa) er aldrei mjög fjarri sjávarmáli og sá efri sveiflast yfirleitt á milli 5 og 6 kílómetra hæðar yfir jörð. Þykktin er á kortum oftast tilfærð í dekametrum - en einnig má margfalda þær tölur með tíu og fá þá út gildi í metrum.
Líkur á almennum hlýindum vaxa með aukinni þykkt. Gallinn er hins vegar sá að allra mest verður þykktin (á okkar slóðum) í miklum háþrýstisvæðum en þar er vindur langoftast hægur. Kaldur sjór eða kalt land (jafnvel snævi hulið) sjá þá til þess að neðsta lag lofthjúpsins helst kalt jafnvel þótt mjög hlýtt sé ofan við. Þetta er afskaplega algengt hér á landi - en samt er það þannig að mikil hlýindi í háloftunum (mikil þykkt) auka líkur á hlýindum við yfirborð.
Í jaðri háþrýstisvæðanna (oftast vestan við þau) er meiri vindur. Þar er sunnanátt og yfir háveturinn er þykktarhámarkið gjarnan í austurjaðri vindstrengjarins en síðan fellur þykktin ört vestur á bóginn. Þar sem vindurinn á leið yfir fjöll myndast bylgjur (lóðrétt hreyfing). Bylgjurnar geta brotnað og þá blandast hlýja loftið ofan við niður í kalda loftið neðst og hiti hækkar. Ef svo vill til að sól er hátt á lofti nýtist varmi frá henni til að hækka hitann enn meir. Einstöku sinnum geta vindstrengir að ofan náð lítt brotnir niður eftir fjallshlíðum og hiti þá hækkað mjög mikið [en það er flóknara mál]. Við þessi skilyrði er hiti áveðurs fjalla tiltölulega lágur, nærri sjávarhita blási vindur af hafi.
Samandregið: Aukin þykkt hækkar almennan hita - aukinn vindur hækkar sértækan hita. En - mjög hárri þykkt fylgir oftast hægur vindur sem dregur úr líkum á bæði almennum og sértækum hita. Ofurhá þykkt, heppilegur vindur og sólskin getur gefið ofurháan sértækan hita. En því meiri sem þykktin er því ólíklegra er að vindur hjálpi til við metin.
Mesta þykkt sem búast má við hér á landi í maímánuði er um 5600 metrar. Í endurgreiningunni bandarísku er hæsta gildið við landið 5599 metrar. Það var á 64°N og 18°V 22. apríl 1987 kl.18. Þá var þykkt yfir Keflavík heldur lægri. Á hitabylgjulista hungurdiska sem nær til tímabilsins 1949 til 2011 eru dagarnir 20. til 22. maí 1987 einmitt í efsta sæti. Hiti fór í meir en 20 stig á nærri fjórðungi veðurstöðva þann 21. Metþykkt gaf methitabylgju.
Næstmest var þykktin í endurgreiningunni 5582 metrar. Það var kl. 24 þann 29. maí 1915 á 66°N og 22°V - úti af Vestfjörðum. Sennilega stroka úr niðurstreymi við Grænland - enda var vindur af norðvestri í háloftum. Ekki fréttist af sérlega háum hita á landinu - en engar mælingar voru í Kvískerjum. Kuldakast kom strax í kjölfarið.
Hlýjasti maídagurinn hér á landi (sjá pistil 16. maí) er sá 27. árið 1992. Hiti mældist þá 25,6 stig á Vopnafirði. Hver skyldi þykktin hafa verið? Hún var mest kl. 18 á 64°N og 18°V, 5520 metrar. Þennan dag var almennt mjög hlýtt á landinu (þó ekki alveg jafnvíða og 1987) en Vopnafjörður (og fleiri staðir eystra) hafa notið einhverra sérkjara. Hver þessi sérkjör nákvæmlega voru veit ritstjórinn ekki. Þetta segir hins vegar að einhvers staðar í framtíðinni bíður dagur með sól, vind og háa þykkt - og 30 stiga hita í maí.
En ástæða þessara skrifa er sú að allhárri þykkt er spáð yfir landinu næstu daga, fyrst á laugardag (5540 metrar) og síðan á mánudag (5560 metrar). Við látum mánudaginn alveg eiga sig - spár eiga eftir að riðlast fram og til baka þangað til. Við lítum á hann síðar - ef eitthvað markvert gerist - annars ekki. En horfum smástund á laugardagsþykktarkortið.
Kortið gildir kl. 18 á laugardag 26. maí. Lægðardragið sem fjallað var um í pistli í gærer hér um 6 klst fyrr á ferðinni heldur en þar var gert ráð fyrir. Jafnþykktarlínur eru heildregnar en litafletir sýna hita í 850 hPa.
Mikill þykktarbratti er á kortinu og mun kaldara (16 metrum) er á Vestfjörðum heldur en á Austfjörðum þar sem þykktinni er spáð 5540 metrum. Næsta lína þar fyrir ofan er langt úti á sjó. Þótt þar verði hlýtt verður þar enginn 20 stiga hiti - gott ef hann nær 10.
Fari þykktin i raun upp í 5540 metra, verði vindátt rétt og skíni sól gæti hitinn á Austfjörðum eða á Héraði farið býsna hátt - en hiti í 850 hPa er aðeins 8 stig. Hæsti hiti sem mælst hefur í 850 hPa yfir Keflavíkurflugvelli er 11,2 - talsvert hærri.
Vert að gefa þessu gaum.
24.5.2012 | 00:23
Ráða illa við hvítasunnulægðardragið
Undanfarna daga hefur mikið hringl verið í tölvuspám varðandi lægðardrag sem á að fara hjá landinu á laugardag (26. maí) og aðfaranótt sunnudags (hvítasunnudags). Við skulum nú líta á þrjú dæmi frá því í dag um spá fyrir miðnætti á laugardagskvöld. Það fyrsta kom frá evrópureiknimiðstöðinni snemma í morgun (miðvikudag), það næsta sýnir spá miðstöðvarinnar sem barst nú í kvöld og það þriðja reikninga bandaríska gfs-líkansins sem kom enn síðar í kvöld.
Þetta eru allt 500 hPa-hæðar og þykktarspár að venjubundnum hætti, jafnhæðarlínur svartar eða gráar heildregnar, þykktin er sýnd með rauðum strikalínum - því meiri sem hún er því hlýrra er loftið og iðan birtist sem misbleikir borðar og hnútar.
Þetta er útlitið eins og það var borið á borð á miðvikudagsmorgni. Aðalhnútur lægðardragsins er við Scoresbysund og góð þykkt yfir Vestfjörðum og öllu landinu. Það er 5520 metra jafnþykktarlínan sem liggur yfir landið norðvestanvert. Ekki er langt í 5580 metra línuna suðaustan við land. Ef hún kæmist til landsins væri það trúlega metþykkt í maí.
En hálfum sólarhring síðar hafði skipt um lag.
Kortið á að taka til sama tíma og það fyrsta. Nú er aðalhnútur lægðardragsins rétt undan Vestfjörðum og jafnþykktarlína sem liggur á svipuðum slóðum og 5520 metra línan á fyrra korti sýnir ekki nema 5400 metra, munar hér 120 metrum (um 6°C). Metlínan (5580 m) er samt á svipuðum slóðum norður af Færeyjum. Þykktin yfir sunnanverðum Austfjörðum er ekki nema 30 metrum lægri heldur en á hinu kortinu. Við tökum auðvitað eftir því að ámóta breitt bil er á milli jafnþyktarlínanna og jafnhæðarlínanna innbyrðis. Það þýðir að háloftavindurinn nær illa niður nema helst við brött fjöll.
Nú er það svo að á fyrra kortinu voru háloftavindar yfir landinu frekar hægir, það þýðir að erfiðara er að koma hlýindum niður til jarðar en þegar þeir eru hvassir eins og á síðara kortinu. Almenn hlýindi á Norður- á Austurlandi á fyrra kortinu víkja fyrir sérframreiddum hita við fjöll á því síðara. (Jæja).
En lítum á eitt kort til viðbótar. Það er úr ranni bandarísku veðurstofunnar og reiknað var frá því kl. 18 á miðvikudag fram til sama tíma og fyrri kortin.
Við sjáum að þessi spá er býsna lík síðari spá reiknimiðstöðvarinnar. Lægðardragið er ámóta skarpt og þykktarsviðið er líka svipað, 5340 metra jafnþykktarlínan snertir Vestfirði.
Það er allt of snemmt að segja til um gildi þessara spáa. Útkoman gæti orðið eitthvað meðaltal þeirra - eða e.t.v. fáum við að sjá nýjar lausnir næstu daga. Vel þess virði að fylgjast með. Einar Sveinbjörnsson ræður í hitatölur á bloggi sínu í kvöld - best að kíkja á það.
23.5.2012 | 00:43
Hámarkshiti maímánaða
Þó nokkrar líkur virðast á að hiti nái 20 stigum einhvers staðar á landinu næstu daga. Það er þó ekki alveg víst. Í tveggja ára gömlum pistli á vef Veðurstofunnar var fjallað um 20 stiga mörkin og hvenær þeim er yfirleitt náð á vorin. Áhugasamir mættu gjarnan rifja hann upp.
Þar kemur fram að síðustu 15 árin hefur dagsetning fyrsta 20 stiga dags ársins á mönnuðum stöðvum verið 29. maí. Nú fer mönnuðum stöðvum mjög fækkandi þannig að samanburður við fyrri ár verður æ erfiðari. Hins vegar er hiti mældur fjölmörgum sjálfvirkum stöðvum, þær eru miklu fleiri heldur en þær mönnuðu voru. Í veðurstofuvefpistlinum var bent á að síðustu 15 árin hefur 20 stiga hita verið fyrst náð að meðaltali 23. maí á sjálfvirku stöðvunum, 6 dögum fyrr heldur en á þeim mönnuðu.
Í ár erum við hins vegar í þeirri stöðu að 20 stigunum er löngu náð - það gerðist 30. mars á Kvískerjum í Öræfum, nærri tveimur mánuðum fyrr en að meðaltali síðustu árin. Síðan hefur hiti aldrei farið í 20 stig. Er sennilega rétt að huga að endurnýjun pistilsins því hann er orðinn úreltur.
Við lítum hins vegar til gamans á mynd sem sýnir hæsta hita á landinu í öllum maímánuðum frá 1874 til 2011.
Lóðrétti ásinn sýnir selsíusstig en sá lárétti markar árin. Við sjáum að talsverð leitni reiknast á tímabilinu öllu, 2,4°C á öld. Ekki tökum við mikið mark á því - aðallega vegna breytinga á stöðvakerfinu. Fyrstu árin var t.d. engin stöð inni í landi þar sem hæsta hita í maí er oftast að vænta. Við sjáum líka að útjöfnunarferill (blár) gefur til kynna að meðalstaðan sé nú svipuð og hún var 1930 til 1960. Höfuðmáli skiptir hvaða tímabil er undir þegar leitni er reiknuð.
Lítið er af mjög háum tölum síðustu árin og hefur hiti ekki komist yfir 23 stig í maí síðan árið 2000. Tími til kominn að það gerist.
Í viðhenginu má sjá listann sem notaður var við gerð myndarinnar. Þar má sjá dagsetningar og um hvaða stöðvar er að ræða. Trúlega er eitthvað af villum í listanum - en við skulum ekki taka allt of hart á slíku að þessu sinni. Það er gaman að sjá landfræðilega dreifingu hámarkanna, Akureyri átti t.d. hæsta maíhitann 5 ár í röð, 1976 til 1980 - en aldrei síðan. Skyldi það vera grunsamlegt? Möðruvellir átti samfellt hæstu töluna á árunum 1916 til 1921 - það eru þó ekkert sérlega há gildi - aðeins eitt yfir 20 stigum og hin arfaslöku 13,3 stig í maí 1921 í hópnum.
En þessi maímánuður hefur ekki enn náð 18 stigum - vonandi rætist úr því.
22.5.2012 | 01:19
Það stendur til bóta (þótt hægt gangi)
Þegar þetta er skrifað (mánudagskvöldið 21. maí) er mjög kalt við austurströndina, hiti rétt um 1 stig í Neskaupstað. Á Suðvestur- og Vesturlandi var hins vegar besti dagur vorsins til þessa. Hiti fór í 17,7 stig á Þingvöllum og víðar yfir 17 stig.
En næstu daga jafnast gæðin heldur og það hlýnar vonandi fyrir austan. Við lítum á 500 hPa-spákort evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir kl. 18 á þriðjudag (22. maí).
Hér eru jafnhæðarlínur gráar og heildregnar, jafnþykktarlínur eru rauðar og strikaðar og iða er sýnd sem misdökkir bleikir flekkir og borðar. Hæð og þykkt eru mæld í dekametrum á kortinu (1 dam = 10 metrar). Rauðu örvarnar gefa til kynna að hlýtt loft sæki fram. Það er 5460 metra jafnþykktarlínan sem er skammt suðaustan við landið á leið norður.
En smálægðin fyrir sunnan land er líka á leið norður og kemur í veg fyrir að enn hlýrra loft berist til landsins. Vindur stendur enn af hafi á Austfjörðum þegar kortið gildir og hlýindin fá ekki að njóta sín eystra fyrr en hann snýst meira til suðvesturs í kjölfar smálægðarinnar, vonandi á miðvikudag. Norðurland liggur betur við strax á þriðjudag.
En síðan er mikil óvissa í spám.
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.1.): 12
- Sl. sólarhring: 183
- Sl. viku: 2459
- Frá upphafi: 2434569
Annað
- Innlit í dag: 10
- Innlit sl. viku: 2184
- Gestir í dag: 10
- IP-tölur í dag: 10
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010