Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2012

Ólík illviðri (sýnidæmi)

Í dag má líta á sýnidæmi um ólík illviðri sem birtast í spám evrópureiknimiðstöðvarinnar næstu daga. Það fyrra gengur nú raunverulega yfir en það síðara er enn aðeins til í reikniheimum. Þetta er skrifað um miðnæturbil á föstudagskvöldi (9. nóv.). Rétt er að taka fram í upphafi að efnið hér að neðan er þungt undir tönn og kryddið í sterkara lagi. (Bragðstyrkur = 4 á piparmáli).

Kortið að neðan sýnir spá reiknimiðstöðvarinnar um hæð 500 hPa-flatarins og þykkt á milli 1000 og 500 hPa á hádegi á laugardag.

w-blogg101112a

Jafnhæðarlínur eru svartar, en jafnþykktarlínur rauðar. Það er 5100 m jafnþykktarlínan sem snertir Vestfirði. Hungurdiskar hafa stundum kallað hana vetrarlínuna, en við Suðausturland er þykktin um 5200 metrar. Munurinn er 120 metrar - aðeins meir ef við reiknum út á jaðra landsins. Ef hægviðri er í 500 hPa-fletinum býr þessi þykktarmunur til 15 hPa þrýstibratta norðvestur um landið frá Suðausturlandi talið. Nú um miðnæturbil er hann um 22 hPa þannig að um hádegi hefur heldur dregið úr vindi miðað við það sem nú er. En þetta illviðri er greinilega drifið af hitamun í neðri hluta veðrahvolfs.

Rétt vestan við land er hins vegar talsverður bratti í hæðarsviðinu og þegar vestar dregur eru þykktar- og hæðarlínurnar nær því að vera álíka þéttar og samsíða, auk þess sem lægri gildi þeirra liggja sömu megin brattans. - Já, þarna er nærri hægviðri við jörð.

En nú eru öll veðurkerfi á hraðri leið til austurs. Norðanillviðrið hörfar til austurs og hæðarhryggur með hægu og kalda veðrið fer á miklum hraða austur fyrir land. Aðfaranótt mánudags blasir næsta lægðakerfi við.

Kortið að neðan sýnir spána kl. 6 að morgni mánudags. Hér ber þó að hafa í huga að þessi spá er mun óvissari en sú að ofan - þótt hún nái ekki nema tvo daga lengra fram í tímann. Undanfarna daga hafa spár verið hringlandi með afl þessa veðurs - og ekki er ótrúlegt að sannleikurinn sé ekki enn kominn fram - kortið er e.t.v. ekki raunverulegt.

w-blogg101112b

Hér liggja jafnhæðar- og jafnþykktarlínur þvert á hvorar aðrar yfir landinu - við skulum ekki reikna það dæmi hér (þótt auðvelt sé) en tökum þess í stað eftir ástandinu milli lægðarmiðjunnar og Íslands. Þar er stórt svæði þar sem þykktarlínur vantar - einskonar þykktarpoki sker sig langt inn í átt að lægðarmiðjunni. Þar eru alla vega mun fleiri hæðar- en þykktarlínur. Ef farið er að reikna kemur í ljós að sterk suðaustanátt í 500 hPa nær lítt trufluð til jarðar. Hér er sum sé allt önnur gerð af illviðri. - Knúin af einhverju ofar - grunur fellur á brött veðrahvörf. Þykktarpulsan fýkur þó væntanlega fljótt framhjá.

En ekki er allt búið enn. Við sjáum þarna mjög krappt lægðardrag (þar sem grábleiki liturinn er hvað mest áberandi) þar sem er flækja jafnþykktar- og jafnhæðarlína. Auðvelt ætti að vera að sjá að hér þurfa línur lítt að hnikast til að annað hvort verði ofsaveður eða bara stinningskaldi. Á það við um bæði þykkt og hæð. Við verðum alla vega á leið suðaustan- og austanáttar þykktarpulsunnar - en vonandi sleppum við við suðvestan- og vestanveðrið bakvið lægðardragið - kannski verður það heldur ekki til.


Litið inn á efri hæðina (ekki þó risið)

Hungurdiskar hafa endrum og sinnum sýnt kort af ástandinu í heiðhvolfinu - ofan á veðrahvolfinu - veðrahvörfin eru þar á milli. Þrýstingur fellur með hæð - gróflega helmingast hann á hverjum 5 km upp á við. Kortið að neðan sýnir hæð og hita í 30 hPa-fletinum - í um 23 km hæð. Þrýstingur er aðeins 3 prósent af þrýstingi við yfirborð - en þó fjórum sinnum meiri heldur en er á yfirborði plánetunnar Mars.

Uppi í þessari hæð verður mjög merkilegur viðsnúningur á vindum haust og vor. Að sumarlagi blása austlægir vindar í kringum hæð sem situr í námunda við norðurskautið. Hún var sýnd á mynd sem birtist í pistli 16. júní í sumar og óhætt er að rifja upp. Þegar líður á sumarið minnkar hæðin og hverfur oftast alveg í september. Þá fer lægð að myndast, væg í fyrstu en færist síðan mjög í aukana og er orðin mjög gerðarleg þegar komið er fram í byrjun nóvember (sjá kortið að neðan).

w-blogg091112

Á kortinu er norðurskautið ekki fjarri miðju myndar, Ísland er ekki langt þar fyrir neðan inni í græna svæðinu. Litirnir sýna hita, bláir litir byrja við -70 stiga frost, sjá má hitatölur á stangli - þær sjást miklu betur sé kortið smellistækkað (tvisvar). Jafnhæðarlínur 30 hPa-flatarins eru svartar. Því þéttari sem þær eru því meiri er vindurinn.

Sem stendur sýnir innsta línan í kringum lægðina 2250 dekametra (= 22500 metra = 22,5 km). Línurnar eru dregnar með 10 dam bili. Orðalagið „sem stendur“ má taka alveg bókstaflega því lægðin dýpkar svo ört þessa dagana að nýr hringur með 10 dam lægra gildi birtist nú á um það bil 2 daga fresti.

Það sem fyrst og fremst veldur því að lægðin myndast á haustin er kólnun lofthjúpsins neðar. Eftir því sem kuldinn vex minnkar fyrirferð loftsins og styttra og styttra verður upp í 30 hPa. Loftið í þessari hæð kólnar einnig en einkum þó þannig að flatarmál innan -70 stiga jafnhitalínunnar stækkar. Kortið er úr bandaríska gfs-líkaninu sem spáir því að eftir um það bil viku fari frostið í fletinum í -80 stig þar sem lægst verður. Þá byrjar glitskýjatíminn.

Yfir Asíu er mikill sveigur með hlýrra lofti - minnst er frostið á myndinni -47 stig. Ástæða hitamunarins er einkum sú að heimskautavindröstin togar loft niður norðan við skotvinda rastarinnar. Í niðurstreyminu hlýnar loftið. Röstin er mun eindregnari yfir Austur-Asíu og Kyrrahafi heldur en yfir Atlantshafi. Yfir háveturinn eru háreistar bylgjur í vestanvindabeltinu sjaldgæfari eystra heldur en hér. Það mun vera afstaða meginlanda, hafa og fjallgarða sem mestu ræður um þetta fyrirkomulag.

Þrjár meginvindrastir koma við sögu á norðurhveli að vetrarlagi. Mestu máli fyrir okkur skiptir heimskautaröstin (polar jet stream) sem hefur mestan styrk við veðrahvörfin - hér í um 7 til 10 km hæð að vetrarlagi. Hún skýtur kryppum sínum stundum norður fyrir Ísland - en er þó oftar sunnan við land yfir háveturinn. Önnur röst kemur ekki við sögu hér á landi, við köllum hana hvarfbaugsröst (sub-tropical jet stream) hún er öflugust rastanna og bylgjast yfir hlýtempraða beltinu, oftast mun hærra en heimskautaröstin. Á vetrum „stelur“ hún heimskautaröstinni yfir Austur-Asíu og í sameiningu sjá rastirnar um niðurdráttinn í heiðhvolfinu sem við sjáum sem hlýja sveiginn á kortinu og minnst var á að ofan.

Sá möguleiki er hugsanlegur að meiri samvinna geti verið á milli rastanna tveggja á Atlantshafi rétt eins og nú er við Austur-Asíu. Slíkt ástand gæti t.d. hafa ríkt á ísöld - með þeim afleiðingum að engar hlýjar bylgjur að sunnan hafi komist norður til okkar á vetrum - nærri því aldrei. Þetta hefði m.a. í för með sér að vestanvindabeltið á Atlantshafi færðist lítillega sunnar en nú er. Þá myndi skerpast á Golfstraumnum en hann jafnframt hliðrast til suðurs. Skerping á straumnum gæti líka raskað varmaflutningi hans og árstíðasveifla breyst.

Þriðja höfuðröst norðurhvels er kennd við skammdegið - skammdegisnæturröstin (polar night jet). Hún nær sér á strik sem mikil vestanátt í 25 til 30 km hæð í nóvember til desember og er þá tiltölulega stöðug - en tekur stundum þátt í furðulegum sveiflum sem verða á vindum og hita í heiðhvolfinu þegar kemur fram í febrúar (við bíðum þess tíma).

Allar þessar rastir - ásamt staðvindum og vestanvindabeltinu við jörð - auk hafstrauma taka þátt í jafnvægisdansi sem virðist vera furðustöðugur - en er jafnframt þannig að hugsanlegt er að tiltölulega litlar breytingar á dansinum geti komið fram í miklum kúnstum í veðurfari. Það er ein af mörgum gildum ástæðum þess að menn hafa áhyggjur af hnattrænni hlýnun af völdum aukinna gróðurhúsaáhrifa. 


Þrálát háloftanorðanátt

Ritstjóri hungurdiska fylgist reglulega með ástandinu í háloftunum í nágrenni landsins, m.a. reiknar hann mánaðarlega út meðalvigurvindáttir í 500 hPa-fletinum. Þeir reikningar sýna að vigurvindurinn hefur nú verið úr norðri sjö mánuði samfellt. Norðanáttin var að vísu slöpp í september - en samt þess megin garðs. Öruggar heimildir ná um það bil 60 ár aftur í tímann og ekki er að sjá að kerfisbundin villa sé í vindáttum í reikningum sem ná nokkra áratugi til viðbótar aftur í tímann. Reiknað hefur verið alveg aftur til 1871 - og engin sjö mánaða samfelld norðanáttartímabil birtast.

Þetta er sérlega skemmtilegt (frá nördasjónarhóli) fyrir það að þetta norðanáttartímabil fylgir beint í kjölfarið á óvenju öflugri sunnanátt mestallt árið 2011 og fyrstu þrjá mánuði ársins í ár. Árið 2010 var hins vegar einnig norðanáttarár - nánast einstakt fram að þeim tíma. Óhætt er því að segja að við höfum hrokkið öfganna á milli á síðustu þremur árum. Mikið los hefur verið á hefðbundnu bylgjumynstri háloftanna á okkar slóðum - og er það hluti af óvenjulegu veðurlagi víða um lönd á sama tíma. Ekkert er vitað um ástæður þessa ástands. Því hefur þó verið haldið fram að takturinn í árstíðaskiptum á norðurhveli hafi ruglast í Norður-Íshafi austanverðu og þaðan berist nú önnur taktboð en venjulega á haustin. Sem kunnugt er hefur ís þar verið miklu minni á síðustu árum heldur en áður hefur þekkst. Uppástungan er góðra gjalda verð - en óvarlegt er að halda því fram að nú fari einfaldlega nýir tímar í hönd. Slíku hefur verið haldið fram svo oft áður.  

Það hlýtur að vekja sérstaka athygli veðurnörda á Íslandi að þrátt fyrir alla þessa norðanátt hefur lengst af alls ekki verið kalt. En veðrið kemur sífellt á óvart og mun væntanlega halda því áfram.


Tvö stöðvakerfi - samanburður

Þessi pistill er einn af þeim sem hlýtur að vera alveg úti á jaðri áhugasviðs lesenda - sjálfsagt utan við það hjá langflestum. En við látum slag standa. Áhugalitlir geta bara skipt um rás og litið inn síðar.

Í illviðrinu á dögunum var veður á 232 sjálfvirkum veðurstöðvum skráð í gagnagrunn Veðurstofunnar. Stöðvunum er skipt á tvær töflur, aðra getum við kallað „almenna“ (148 stöðvar) en hin er kennd við Vegagerðina (84 stöðvar). Lítilsháttar munur er á töflunum tveimur - hitaútgildi eru ekki skráð á nákvæmlega sama hátt, munur er á skráningu á vindhviðum og sömuleiðis er hæð vindmæla yfir jörðu almennt ekki sú sama. Þetta eru tvö athugunarkerfi. Það hefur komið fyrir að annað þeirra hefur dottið út vegna tölvubilana - en hitt ekki. Mikið öryggi felst því að kerfin skuli vera að einhverju leyti óháð.

En hvað um það, kerfin lentu bæði í illviðrinu í síðustu viku. Hér berum við saman þrjá þætti í vindmælingum kerfanna, meðalvindhraða allra stöðva á klukkustundar fresti, meðalvigurvindátt og áttfestu. Lesið stuttan skýringartexta í viðhenginu ef þið áttið ykkur ekki á því hvað verið er að tala um. 

Lítum fyrst á meðalvindhraða beggja kerfa.

w-blogg07112Meðalvindhraði

Lóðréttu ásarnir sýna meðalvindhraða í metrum á sekúndu. Blái ferillinn er sá sami og birtist í bloggpistli gærdagsins, en sá rauði er meðalvindhraði á vegagerðarstöðvunum. Ferlarnir fylgjast ótrúlega vel að og sýna lágmörk og hámörk nánast á sama tíma. Í áranna rás hafa bæði kerfin þróast. Fyrstu ár almenna kerfisins voru stöðvar á hálendi og við strendur heldur stærri hluti þess heldur en síðar varð. Vegagerðarkerfinu er beinlínis ætlað að vakta þá staði í vegakerfinu þar sem vindar eru hættulega miklir. Nýlegar vegagerðarstöðvar virðast heldur draga vindhraðameðaltöl þeirra niður, ekki má þó hafa það eftir - kerfisbundinn samanburður hefur ekki átt sér stað.

w-blogg071112Meðalvigurvindátt

Næsta mynd sýnir meðalvigurvindátt beggja kerfa, vegagerðarkerfið er rautt á myndinni. Vindátt er á lóðréttu ásunum - þannig þó að norður er hér sett við núll og síðan er farið til beggja handa - mínustölur tákna vindátt vestan við norður, -90 = vestur, -180 = suður, +90 = austur. Kerfin tvö fylgjast hér líka nákvæmlega að - þau eru alveg sammála um vindáttina. Að kvöldi þess 30. var vindátt um það bil úr hánorðri en snerist síðan til norðnorðausturs - en mjakaðist svo aftur til norðurs eftir því sem leið á illviðrið. Aðfaranótt þess 4. hrökk vindur til suðvesturs.

w-blogg071112c

Þriðja myndin sýnir áttfestuna. Ef vindátt á öllum stöðvum væri nákvæmlega sú sama teldist áttfestan vera = 1,0. Meðan illviðrið stóð yfir var áttfestan nálægt 0,9. Það sýnir að lítil tilbrigði eru í áttinni - flestar stöðvar eru sammála. Nú mætti reikna út hver stefna þrýstivindsins hefur verið - og í framhaldi af því reikna út hve stöðvameðaltalið víkur frá honum. Er það +30° eða einhver önnur tala? Spurning hvort ofsaveður af þessu tagi myndi annað horn við þrýstisviðið heldur en kaldi eða stinningskaldi? Við svörum því ekki að sinni.

Um leið og lægði datt áttfestan niður. Þá hafa staðbundnir fallvindar af ýmsum áttum væntanlega tekið völdin, en síðan rauk festan upp aftur - þegar þrýstibrattinn ýtti undir suðvestanátt.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Fáeinar tölur úr illviðrinu í síðustu viku

Illviðrið í síðustu viku var auðvitað óvenjulegt en ekki er á þessu stigi málsins mögulegt að setja það endanlega í sæti á lista yfir verstu veður. Sú flokkun sem er ritstjóranum tömust skiptir veðrum á 8 vindáttir og reiknar síðan hversu hátt hlutfall stöðva hefur mælt vindhraða yfir tilgreindum mörkum.

Það sem helst veldur vandræðum við samanburð fyrri ára er að stöðvakerfið er nú að breytast mjög ört. Mönnuðum stöðvum fækkar og sjálfvirkum fjölgar. Vindhraðamælingar sjálfvirka kerfisins eru bæði betri og ítarlegri heldur en þær sem gerðar voru með því mannaða. Kerfin tvö hafa enn ekki verið „splæst saman“ hvað illviðraflokkun snertir.

Þótt veðrið í síðustu viku hafi verið slæmt er það ekki meðal þeirra allra verstu á hefðbundna mannaða listanum - og er heldur ekki í allra efstu sætunum á lista mestu illviðra á sjálfvirku stöðvunum. En þegar farið er að taka tillit til lengdar veðursins og hámarksvindhraða vænkar vegur þess talsvert. Þá fer það að keppa við illviðri eins og það sem kennt er við snjóflóðið í Súðavík í janúar 1995 - en það var bæði illt og langvinnt. Af heldur styttri norðanveðrum en nærri því eins vondum má nefna októberveðrin tvö 2004 og mikið norðanveður sem gerði um miðjan janúar 1999 og annað fyrstu dagana í febrúar 2002.

Glæsileg vindhraðamet voru sett á nokkrum stöðvum - en ekki mjög mörgum. Í viðhengi eru listar yfir mesta vindhraða á einstökum stöðvum sem og listi yfir nýju vindhraðametin. Langflest metanna eru ekki merkileg og ættu jafnvel að falla fljótlega - á stöðvum sem hafa starfað mjög stuttan tíma. Innan um eru þó stöðvar sem starfræktar hafa verið í 8 til 15 ár og eru niðurstöður þar trúlega nær því að teljast til marktækra meta. - En e.t.v. eiga sum metin á nýju stöðvunum eftir að standa lengi - hver veit?

En við lítum á meðalvindhraða á sjálfvirku stöðvanna á klukkustundarfresti illviðrisdagana. Á myndinni er útbreiðslan einnig sýnd á sama tíma - hlutfall þeirra stöðva þar sem 10-mínútna meðalvindhraði náði meira en 17 m/s.

iillv_nov2012stg

Á myndinni sést að meðalvindhraði (blátt) náði hámarki kl. 10 að morgni föstudagsins 2. Um svipað leyti (kl. 11) var einnig hvassast á flestum stöðvum. Það var ekki fyrr en upp úr hádegi laugardags sem stöðvahlutfallið lækkaði að mun.

Viðhengið má líma inn í töflureikni og endurraða því þar að vild.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hitahjakk

Nú streymir hlýtt loft yfir landið úr vestri og suðvestri og sennilega hlánar á láglendi um land allt. Spár gera ráð fyrir því að síðdegis eða annað kvöld snúist vindur til norðanáttar með kólnandi veðri og frosti. Spurningin er hvort norðanáttin ná til landsins alls því suðvestanáttin sækir aftur á á þriðjudag - en með talsverðu hiki. Ekki er víst að þá hláni norðanlands - og reyndar óvíst hvernig staðan verður um sunnan- og vestanvert landið. Talsverð úrkoma fylgir - en þar sem hitaspáin er óljós er einnig óljóst hvar mörkin milli snjókomu og rigningar verða.

Kortið sýnir hitann í nágrenni landsins seint á mánudagskvöld (5. nóvember) - eins og evrópureiknimiðstöðin spáir honum. Landið er nokkuð einfaldað í líkaninu og þess vegna má ekki taka mark á hitaspá þess inn til landsins - en vonandi eru spár um hita yfir sjó og við strendur betri.

w-blogg051112

Ísland er nærri miðju kortsins. Litafletirnir sýna hita, kvarðinn verður mun greinilegri ef kortið er stækkað með smellum. Örvar sýna vindstefnu og hraða - hraðinn er sýndur með mismunandi lengd örvanna. Við sjáum vel kaldan strók ryðjast suður með Norðaustur-Grænlandi - mestur kraftur fer reyndar til suðausturs - ekki fjarri Jan Mayen - en það loft sem fer suður breiðir úr sér til vesturs og vindhraði minnkar suður á bóginn eftir því sem straumurinn breikkar. Heildregnu línurnar efst á kortinu afmarka svæði þar sem vindhviður ná 25 m/s eða meir.

Hér nær norðanáttin yfir nærri því allt Ísland - en allra syðst á landinu er enn vestanátt. Á þriðjudag berjast kalda og hlýja loftið um Ísland. Hversu sunnarlega nær snjókoman?


Sparkað burt

Hæðarhryggurinn fyrir vestan land er nú að sparka illviðrinu austur af og ekki aðeins það heldur er lægðinni sjálfri einnig eytt. Þetta er hluti af miklum gangi sem þessa dagana er í vestanvindabeltinu í nágrenni við okkur. Við lítum á 500 hPa hæðar- og þykktarspá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem nær um mestallt norðurhvel (norðan við 30. breiddarstig) og gildir um hádegi á mánudag.

w-blogg041112

Jafnhæðarlínur eru svartar en litafletir sýna þykktina en hún er hitamælir neðri hluta veðrahvolfs. Því meiri sem þykktin er því hærri er hitinn. Á mánudaginn fer mjög hlýtt loft yfir Ísland, hluti af hæðarhyggnum áðurnefnda. Mörkin á milli gulu og grænu svæðanna er við 5460 metra jafnþykktarlínuna sem nær nærri því norður til Íslands. Ef vindur verður nægilega hvass á Suðaustur- og Austurlandi getur hiti farið furðuhátt þegar hlýjasta loftið fer hjá.

Það vekur athygli á þessu korti að heimskautaröstin (svæðið þar sem hæðar- og þykktarlínur eru hvað þéttastar) hefur hreinsað upp ýmsar smálægðir sem langoftast eru að þvælast fyrir. Talsverð hæð er þó norður af Rússlandi - en sé að marka spár verður henni sparkað burt líka.

Hryggurinn hreyfist hratt til austurs en hneigir sig um leið til suðausturs og hverfur. Framhaldið er frekar óljóst.


Máltíðinni lokið?

Nú fer að styttast í máltíðarlok - og eftirrétturinn e.t.v. ekki borinn alveg jafn hreinlega fram eins og fyrri réttirnir tveir. Við skulum samt gera tilraun til þess að kyngja honum á korti.

Þegar þetta er skrifað virðist vera farið að hægja - varla enn hægt að segja að hann sé að lægja. Þegar vindhraðinn í dag (föstudag) var borinn saman við metaskrár kom í ljós að það voru ekki margar stöðvar af þeim sem hafa athugað lengur en tvö til þrjú ár sem náðu meti. Fyrirspurnin var gerð í gagnagrunninn kl. 19 en hámarksvindhraða var ekki náð á öllum stöðvum fyrr en eftir þann tíma. Við lítum e.t.v. á endanlegar tölur eftir helgina.

En fáein merkileg vindhraðamet voru þó sett. Þar á meðal eru ný met á  Móum á Kjalarnesi (Kjalarnes, frá 1998) og Hraunsmúla í Staðarsveit (frá 1999).  Met var að minnsta kosti jafnað á Bláfeldi í Staðarsveit. Sömuleiðis var sett met á Geldinganesi í nágrenni Reykjavíkur. Veðurharkan þar kom mjög á óvart. Þar var vindur við fárviðrisstyrk í nærri 10 klukkustundir, fárviðri var enn lengur á Kjalarnesi og í Staðarsveitinni. Þetta er mjög óvenjulegt.

Mesti vindhraði sem enn hefur frést af í veðrinu mældist 40,6 m/s í Hamarsfirði rétt fyrir miðnætti á miðvikudagskvöld (1. nóv.). Þar hefur hins vegar aðeins verið mælt í tvö ár - við vitum því ekki enn hversu merkilegt það er á þessum stað. Vindhviða sem þar mældist á sama tíma, 70,5 m/s, er hins vegar mjög merkileg á landsvísu - í fljótu bragði snarpasta vindhviða sem nokkru sinni hefur mælst á Vegagerðarstöð. Smámunur er á hviðumælingu almennra sjálfvirkra stöðva og vegagerðarstöðvanna sem hleypir óvissu í samanburðinn. Ræða má það síðar.

Eins og algengt er með veður af þessu tagi - hvassast er þar sem loft steypist niður af fjöllum - var hvassviðrinu mjög misskipt. Þéttbýliskjarnar á sunnanverðum Vestfjörðum virðast hafa sloppið vel að þessu sinni. Það á t.d. við um Patreksfjörð, Tálknafjörð og Bíldudal. Fárviðri var aftur á móti í Æðey við Ísafjarðardjúp - en norðaustanillviðri eru margfræg þar um slóðir. Sunnan megin í Djúpinu, á Ögri, varð aðeins allhvasst þegar mest var.

Samanburður við önnur veður og eldri verður að bíða betri tíma, en við lítum á eitt 500 hPa-kortið í viðbót - til að ljúka máltíðinni. Myndmálið er það sama, svartar línur sýna hæð 500 hPa-flatarins, en lituð svæði sýna hita í fletinum. Vindörvar eru hefðbundnar.

w-blogg031112

Ef menn bera saman þetta kort saman við kort úr sama fleti sem birtust í næstu tveimur pistlum hungurdiska á undan sést mikill munur. Kaldast er nú langt fyrir suðaustan land en hlýjast vestur við Grænland - alveg öfugt við það sem var fyrir tveimur dögum. Staðan þessa tvo daga á það þó sameiginlegt að vindur uppi og niðri er nokkurn veginn samstefna - allt öðru vísi en var í gær. Því hafa dagarnir þrír boðið upp á þrenns konar þrívítt ástand - en þó haldið uppi miklu og nær samfelldu illviðri alla dagana.

Á kortinu eru tvær gulbrúnar örvar. Sú sem er lengra til hægri á myndinni sýnir vindröstina yfir landinu - hún er ekki alveg búin að ljúka sér af þegar kortið gildir, kl. 9 á laugardagsmorgun. Vestari röstin er á austurleið í átt til landsins og verður komin austur á það sólarhring eftir að þetta kort gildir - snemma á sunnudagsmorgni. En tekur hvassviðrið sig þá upp? Nei, þessi strengur að vestan nær ekki til jarðar - ekkert dularfullt við það. Enn eitt þrívíddarástandið. Um það hefur áður verið fjallað á hungurdiskum - enginn man eftir því.


Norðankastið enn á matseðlinum

Norðanáttin er nú með öðru bragði heldur en var fyrir sólarhring. Við lítum á 500 hPa spákort frá evrópureiknimiðstöðinni - í sama gervi og í gær. Heildregnar línur sýna hæð 500 hPa flatarins í dekametrum (1 dam = 10 metrar), litafletir gefa hitann til kynna og hefðbundnar vindörvar greina frá vindstyrk og stefnu. Kortið gildir kl. 6 að morgni föstudags 2. nóvember.

w-blogg021112a

Í gær var fleygur af mjög köldu lofti sem lá til suðurs yfir landið og hafið vestur af. Nú er þessi fleygur (dökkblái liturinn) kominn langt vestur af en hlýtt loft úr austri breiðist vestur yfir landið. Vindörvarnar sýna um 20 hnúta (10 m/s) vind af norðaustri yfir Vesturlandi en yfir Austurlandi er heldur sterkari austanátt. Mikill hitabratti er yfir landinu frá vestri til austurs.

Í grófum dráttum má segja að kalda loftið hrannist upp undan ásókn þess hlýja, við lendum í átökunum miðjum. Hlýja loftinu gengur vesturferðin mun betur í 5 km hæð heldur en neðar. Einnig má taka eftir miklum háloftavindstreng úr norðri yfir Grænlandi. Hæðarhryggurinn vestan við hann á að fara yfir landið á mánudag - þannig að segja má að sótt sé að kalda fleygnum úr báðum áttum - og hann þrjóskast við svo lengi sem loft getur streymt til suðurs frá Norðaustur-Grænlandi.

Við sjáum fleyginn betur á næsta korti, en það sýnir hæð, hita og vind í 925 hPa-fletinum á sama tíma og kortið að ofan.

w-blogg021112b

Tölurnar við svörtu jafnhæðarlínurnar eru enn dekametrar, með stækkun má sjá að flöturinn er í um 340  metra hæð í lægðarmiðjunni, en 660 metra línan bylgjast um Vestfirði. Hér eru mörkin milli hlýja og kalda loftsins enn skarpari og jafnhæðarlínur mjög þéttar. Hálendi landsins nær upp fyrir þennan flöt og vindörvar yfir hálendinu eru lítt marktækar.

Hitamunurinn mikli býr til veðrið ef svo má segja, í gær var aftur á móti miklu meiri samsvörun á milli ástands í háloftunum og niður undir jörð. Brattinn í hæðarflatalandslaginu var miklu líkari í 500 og 5000 metra hæð heldur en er í dag. Í þrívídd er veðrið sem þetta kort sýnir því mjög ólíkt veðrinu í gær. Á aðfaranótt laugardags verður staðan enn breytt og vindáttir aftur orðnar meira samstíga.

Með hlýja loftinu fylgir trúlega meiri úrkoma áveðurs á landinu en verið hefur. Þótt þetta hlýja loft fljóti að mestu yfir það kalda mun samt eitthvað blandast niður og hiti því hækka - kannski breytist úrkoma á láglendi í slyddu eða rigningu norðaustanlands. Ekki er það þó víst því mjög mikil úrkoma kælir loftið sem hún fellur niður í úr myndunarhæð.

Við höfum stundum á hungurdiskum litið á mættishita í 850 hPa-fletinum. Nú er sú fremur óvænta staða uppi að sunnan Vatnajökuls og Mýrdalsjökuls fer hitinn sá í 16 til 17 stig á föstudagskvöld og aðfaranótt laugardags. Varla er nokkur von til þess að sú ofurhlýja norðanátt nái til jarðar - en það væri þá eina skemmtiatriði þessa afleita norðankasts.


Norðankastið

Það væri hægt að skrifa mikinn langhund um norðankastið sem nú gengur yfir landið - en bitinn er bara svo stór - og svo langur - að nóttin endist vart til að gleypa hann. Við förum frekar að sofa.

En þetta kast er eiginlega þrískipt - hver sólarhringur sinnar gerðar. Spurning hvort þeir sem takast á við það finna einhvern bragðmun á bitunum þremur. Það er óvíst - en lítum á kort sem sýnir bragð dagsins. Það er reyndar bara forréttur sem stóð stutt við - hinir réttirnir taka við - strax í nótt og síðan á föstudaginn.

w-blogg011112

Kortið sýnir greiningu evrópureiknimiðstöðvarinnar á hita í 500 hPa-fletinum og hæð hans á hádegi í dag (miðvikudag). Kortið er reyndar svo helblátt af kulda að vindörvar sjást ekki mjög vel - betur þó ef kortið er smellastækkað. En jafnhæðarlínurnar eru mjög þéttar yfir landinu vestanverðu og þar er um 30 m/s vindur úr norðaustri. Lægðabeygja er sömuleiðis yfir landinu.

Vindur og vindátt í veðrahvolfi miðju annars vegar og niður undir jörð hins vegar voru sem sagt nokkuð samstíga. En þessu ástandi var lokið nú strax í kvöld, á miðnætti var vindur í 500 hPa yfir Keflavík dottinn niður í 10 m/s - en áttin var enn af norðaustri. Allkröpp háloftalægð er á hraðri leið suður með Grænlandi - fer framhjá okkur, en veldur því að norðaustanáttin uppi gengur niður að miklu leyti. - En illviðrið heldur áfram niðri af sama krafti.

Hér er engu spáð - en breytingar á vindi með hæð breyta stöðugleika og þar með því hvernig loft fer framhjá fyrirstöðum - vindstrengir geta færst til eftir því sem samband efri og neðri vinda þróast, auk þess sem úrkomumyndunarsvæði færast sömuleiðis til. Veður getur því ýmist versnað eða batnað staðbundið af því er virðist tilefnislitlu. Höfum það í huga á ferðalögum.

Ef til vill lítum við á bragð næsta bita á morgun. Kannski stendur hann í ritstjóranum en hann hefur fyrir löngu fengið fylli sína af norðanköstum.


« Fyrri síða

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg160424b
  • w-blogg160424a
  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 87
  • Sl. sólarhring: 282
  • Sl. viku: 2329
  • Frá upphafi: 2348556

Annað

  • Innlit í dag: 78
  • Innlit sl. viku: 2041
  • Gestir í dag: 75
  • IP-tölur í dag: 75

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband