Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2012
20.11.2012 | 00:56
Smálægðaskothríð
Kalda loftið hefur legið yfir landinu í friði og spekt í dag - mánudag (19. nóvember) - en næstu daga upphefst skothríð úr suðri. Kuldinn er þó þungur fyrir þannig að óhjákvæmilega hvessir nokkuð þegar lægðaskotin þrýsta á. Á gervihnattamynd frá miðnætti (aðfaranótt þriðjudags) má sjá þrjá sveipi - kannski eru þeir skotfærin. Horfum á innrauða mynd (seviri).
Stór og köld háloftalægð (kuldapollur) er suðvestur í hafi - þar sem stórt K hefur verið sett á myndina. Austan og suðaustan við hana er mikið klakkasvæði þar sem má sjá skipulega skúragarða. Til hægri við klakkasvæðið á myndinni má sjá þrjá sveipi - e.t.v. eru þar þrjár smálægðir - í sunnanáttinni austan kuldapollsins. Sveipirnir þrír hreyfast allir til norðurs - trúlega fer sá austasti (S3 á myndinni) fyrir austan land en hinir tveir kýla kuldann við Ísland.
Ef trúa má tölvuspám mun nokkuð kröpp lægð verða skammt fyrir suðaustan land á þriðjudagskvöld. Þá á leið til vestnorðvesturs. Lægðinni fylgir norðaustan hvassviðri eða stormur - varla þó um land allt. Lægðin hörfar síðan til suðvesturs en tveir sveipir eða lægðir fylgja síðan í kjölfarið. Svo er að sjá að það takist í þessum þremur atlögum að koma kaldasta loftinu norður fyrir landið.
Sú var tíðin að þegar aðeins sáust 3 til 5 gervihnattamyndir á dag hélt maður að sveipir af þessu tagi væru stöðugri heldur en þeir í raun og veru eru. Nú, þegar nýjar myndir berast á 15 mínútna til klukkustundarfresti kemur í ljós að sífellt eru að myndast nýir sveipir en þeir eldri eyðast. Þess vegna er erfitt að segja hvaða sveipur verður að hinni kröppu lægð morgundagsins, það er ábyggilega ekki sveipur 1 - e.t.v. sveipur 2 en gæti líka verið einhver sem ekki hefur enn holdgerst á myndinni.
Fylgjast má með þróuninni á sevirimyndasíðuá vef Veðurstofunnar.
19.11.2012 | 00:25
Hægur uppi - norðaustanátt niðri
Enn einn froðupistillinn í dag - en kortið er fallegt.
Nú virðist sem snjókastið á Norðurlandi dragi sig heldur í hlé - alla vega í einn til tvo daga. Það stafar e.t.v. af því að veikur hæðarhryggur í háloftunum tekur völdin yfir landinu. Það sést vel á kortinu að neðan. Það sýnir hæð, hita og vind í 500 hPa-fletinum kl. 15 á mánudag (19. nóvember).
Ísland er á miðri mynd og neðst til hægri má sjá í Skotland. Í suðvesturjaðri kortsins er myndarleg háloftalægð - en köld miðja hennar (blá) er utan við kortið - lægðin hreyfist hægt til austnorðausturs. Brúnu svæðin eru hluti af hlýjum háloftahrygg sem hreyfist hratt til norðausturs án þess að koma frekar við sögu hér.
Yfir landinu er mjög hæg suðvestanátt og fyrir norðan land er mjög hæg austlæg eða norðaustlæg átt. Hér eiga lesendur (í uppeldisskyni) að taka eftir því að talsverður hitabratti er yfir landinu. Þrjá liti þarf til þess að sýna hitann. Kalda loftið fyrir norðan land er þyngra heldur en það hlýrra yfir Suðurlandi. Vegna þess að hæðarsviðið er flatt þýðir það að þrýstingur við sjávarmál er hærri fyrir norðan land heldur en fyrir sunnan - hitabrattinn býr til vind. Öfug vindstefna er því við jörð, þar á vindur á sama tíma að blása úr austnorðaustri eða norðaustri - ekki fjarri því að vera samsíða jafnhitalínum.
Það er ekkert í háloftunum í augnablikinu sem heldur á móti kuldastraumnum úr norðaustri - norðurfrá er reyndar enn kaldara loft á lager. Síðdegis á þriðjudag verður kalda lægðin í suðvestri komin það austarlega að hún verður farin að dæla upp hlýju lofti úr suðri í átt til okkar - þá líður að nýjum átökum við Ísland og snjókast upphefst að nýju norðaustanlands - en um það er enn ekki fullt samkomulag í reikniheimi.
18.11.2012 | 01:04
Lengra inni í kuldanum
Spár greinir nokkuð á um veður vikunnar - aðaldeilan stendur um miðvikudaginn - verður norðaustankaldi, austnorðaustanþræsingur eða norðnorðaustanstormur? Eða kannski eitthvað allt annað? Það er ekki vaninn hér á hungurdiskum að fjalla um veður marga daga fram í tímann og óþarfi að bregða út af þessu sinni. En kalt loft hefur nú breiðst út um stórt svæði austur og suður í haf. Það sést best á þykktarkortinu að neðan en það gildir kl. 12 á sunnudag (18. nóvember).
Jafnþykktarlínur eru hér svartar en litir sýna hita í 850 hPa-fletinum. Frost er í honum á öllu kortinu, litlu grænu blettirnir við England tákna hita á bilinu 0 til -2 stig. Norðanhvassviðrið er á undanhaldi á landinu en samt liggur enn kaldur straumur frá Norðaustur-Grænlandi beint til Íslands og skiptist þar í tvennt eins og oft er.
Það er 5160 metra jafnþykktarlínan sem þverar landið frá vestri til austurs. Þetta er ekkert sérlega lág þykkt að vetrarlagi - samsvarar um -4°C meðalhita sólarhringsins við sjávarmál. Sé veður bjart og vindur hægur hrapar hiti yfir flötu landi miklu neðar en er aftur á móti hærri yfir hlýjum sjó. Þykktin fer neðar en þetta í þremur nóvembermánuðum af fjórum yfir Suðvesturlandi.
Það er allt í lagi að halda því til haga að hið óvenjulega varðandi þykktina byrjar fari hún niður fyrir 5040 metra í nóvember og mjög óvenjulegt er að hún fari niður fyrir 5000 metra - það virðist ekki hafa gerst nema einu sinni á síðustu 60 árum, 17. nóvember 1971. Við vonum að við sleppum við það. Rétt að endurtaka að hér er miðað við landið suðvestanvert.
Ekkert hlýtt loft er nærri en á að nálgast næstu daga - mikil spurning virðist vera um hvernig það gerist eða jafnvel hvort það gerist yfirleitt næstu viku til tíu daga. En við gefum því gaum.
17.11.2012 | 01:34
Af 100 hPa-fletinum
Hundrað hPa-flöturinn - hvernig er þetta? Er hann nú líka til? Ritstjóri hungurdiska hefur lengi ætlað sér að fara skipulega í gegnum háloftafletina lið fyrir lið og hvaða sérstakt gagn má hafa af kortum sem sýna aðskiljanlegt ástand í þeim. - En hann skortir enn snerpu til að ganga í málið í eitt skipti fyrir öll. Æ. En í dag er enn einum fletinum laumað í safnið og er hann kenndur við 100 hPa-þrýsting en það er um það bil tíundihluti þrýstings við sjávarmál.
Þetta er reyndar hálfafskiptur flötur sem veðurfræðingar hafa flestir ekki mikinn áhuga á. Lesendur (nördin) ættu því að smjatta aðeins á kortinu hér að neðan - afskaplega sjaldséður gripur - meira að segja á veraldarvefnum öllum. Flöturinn er nú í um 15,5 km hæð yfir landinu. Hann hallast í átt að hitabeltinu eins og flestir fletir á þessum tíma árs. Þessi hæð er vel ofan veðrahvarfa hér norðurfrá - en rétt í þeim þar sem þau eru hæst í hitabeltinu.
Þótt langflestir veðurfræðingar skeyti lítt um flötinn er hann samt í gjörgæslu hjá þeim sem reyna að skilja hvað það er sem er á seyði í veðrahvörfum hitabeltisins. Þar eiga sér stað ferli sem illa hefur gengið að taka föstum tökum - en skipta mjög miklu máli í heildarbókhaldi lofthjúpsins - bæði hvað varðar gang veðurkerfa frá degi til dags eða viku til viku í hitabeltinu - en líka í veðurfarslegu samhengi til lengri tíma. Þeir sem nú fyllast forvitni ættu að spyrja frú gúgl um orðasambandið "tropical tropopause layer" eða TTL og reyna að ná áttum í þeirri hrúgu greina og skýringarmynda sem þá birtast.
En hvað um það - 100 hPa-kort eru sjaldséð. Kemur nú kort dagsins en það er eins og flest önnur sem sjást hér á hungurdiskum úr smiðju Bolla Pálmasonar korta- og myndagerðameistara á Veðurstofunni - takk fyrir það Bolli:
Ísland er til hægri rétt ofan við miðja mynd sem nær suður til Spánar og langleiðina norður yfir Grænland. Jafnhæðarlínur eru svartar og heildregnar og tölur sem við þær standa sýna að vanda dekametra (1 dam = 10 metrar). Kortið verður mun skýrara við hefðbundna tvöfalda smellastækkun. Vindhraði og vindátt er sýnd með venjulegum vindörvum en hiti í litum.
Frostið á dökka, gulbrúna svæðinu fyrir miðri mynd er á bilinu -48 til -52 stig. Talsverður hæðarbratti er í fletinum, frá um 15,2 km nyrst og upp í 16,4 km syðst. Hitadreifingin má vekja sérstaka athygli, hlýjast er á belti á miðju korti en kaldara bæði norðan og sunnan við. Það eru væntanlega nokkrir samverkandi þættir sem valda þessu. en líklega stafar "hár" hiti af niðurstreymi í tengslum við heimskautaröstina sem ólmast austur um Atlantshafið í veðrahvarfahæð.
16.11.2012 | 00:24
Inni í kuldanum
Landið er þegar þetta er skrifað komið inn í kulda að vestan með tilheyrandi éljagangi suðvestanlands. Fyrsta kort pistilsins sýnir gríðarkalt svæði í 500 hPa suðvestur á Grænlandshafi. Kortið er frá evrópureiknimiðstöðinni og gildir kl. 3 í nótt - aðfaranótt föstudags.
Ísland er á miðri mynd. Jafnhæðarlínur eru svartar og heildregnar, litafletir sýna hita í 500 hPa og hefðbundnar vindörvar vindhraða og stefnu. Í fjólubláa flekknum er meir en -40 stiga frost. Sjórinn hitar að neðan og á korti sem gildir 9 klukkustundum síðar (ekki sýnt hér) er fjólublái flekkurinn horfinn. Gríðarlegir klakkar myndast við þessar aðstæður og jafnvel éljagarðar eða litlar lægðir. Eftir gervihnatta- og ratsjármyndum að dæma er Suðvesturland rétt í jaðri úrkomunnar. Erfitt er að spá hversu norðarlega meginúrkoman nær. Það verður ekki reynt hér.
Rétt er einnig að vekja athygli á því að fyrir norðan land er talsvert hlýrra í þessari hæð heldur en í kuldaflekknum suðvesturundan, munar hér meiru en 10 stigum. Veðurfræðingar skoða gjarnan kort í nokkrum hæðum eða staðalflötum. Það er 700 hPa-flöturinn sem er sá næsti fyrir neðan 500 hPa - við sleppum honum úr og förum niður í 850 hPa staðalflötinn. Á kortinu hér að neðan er sá flötur í um 1100 metra hæð yfir landinu. Táknmál kortsins er það sama og að ofan og gildistíminn sá sami. - athugið þó að litakvarðinn á við annan hita.
Við sjáum vel kaldan strók liggja frá vesturjaðri kortsins í stefnu á Ísland. En enn kaldara loft kemur úr norðri fyrir hornið á Tobinhöfða á Grænlandi, liggur til suðurs en breiðir úr sér þegar aðhaldi lægðarinnar í austri og strandar Grænlands í vestri sleppir. Allt kalda loftið hvort sem það er komið úr vestri eða norðri hlýnar yfir sjónum. Nú er hins vegar spurning um hvort norðanloftið er kaldara eða hlýrra en það vestræna þar sem loftstraumarnir mætast.
Svo virðist sem norðanloftið nái undirtökunum og fleygist undir það vestræna. Við það vex stöðugleikinn - jafnvel umtalsvert. Þá hörfar éljabakkinn undan - en ekki er ótrúlegt að él eða snjókoma gangi yfir Vesturland um leið og norðanloftið er að hafa það. Norðanlands gerir talsverða hríð í hvassri norðanáttinni - þeir sem ferðast á milli landshluta ættu að fylgjast vel með veðri og veðurspám.
En þótt kalda loftið að vestan tapi fyrir norðanáttinni í átökunum um Ísland heldur það áfram að ýta hlýja loftinu sem er austanmegin á kortunum á brott af svæðinu þannig að það hlýnar varla næstu dagana.
Við lítum að lokum á norðurhvelskort sem gildir um hádegi á sunnudag.
Norðurskautið er nærri miðri mynd og Ísland þar undir, 20°V-baugurinn liggur lóðrétt frá norðurskauti og niður, Marokkó í Afríku er neðst á kortinu. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru svartar, en litafletir sýna þykktina. Ísland er vel inni í kalda loftinu og litla björg að hafa. Köld lægðardrög koma hvert á fætur öðru frá Norður-Kanada og berast suðaustur yfir Atlantshafið. Það tekur nokkra daga fyrir hlýja loftið að ná merkjum sínum á okkar slóðum. Mikill gangur er þó víða í heimskautaröstinni (það svæði þar sem jafnhæðarlínurnar eru þéttastar) og bylgjurnar stórar.
15.11.2012 | 00:05
Hlýindakeiðin tvö - skrap
Hungurdiskar hafa að undanförnu fjallað um mismun veðurs áratuganna hlýju, 1931 til 1940 og 2001 til 2010. Fyrst var gerður samanburður á meðalhita á Íslandi á skeiðunum tveimur, annar pistillinn fjallaði aðallega um hitafar á Íslandi borið saman við nágrannalönd og heiminn allan, sá þriðji um snjólag og úrkomu og fjórði um vindáttatíðni og þrýstibratta. Líklegt er að þetta verði síðasti pistillinn í samanburðarsyrpunni - þótt enn fleira mætti tína til.
Munur á ársmeðalloftþrýstingi tímabilanna tveggja er sáralítill. Sama má segja um breytileika hans - munur tímabilanna er enginn. Þrýstingur á sumrin er örlitið hærri á síðara tímabilinu en því fyrra - en ívið lægri á vetrum - varla þó marktækt.
Í ritgerðum um hitabylgjur og kuldaköst (fáanlegar á vef Veðurstofunnar) eru skilgreindar hitabylgju- og kuldakastavísitölur - ekki einhlítar. Þar geta þeir fróðleiksþyrstustu sótt skilgreiningarnar. Munur er á vísitölum tímabilanna - sjá töfluna að neðan.
stiki | m6190 | m0110 | m3140 | mism-hlýskeiða |
kuldakastavísitala | 287,2 | 211,1 | 170,4 | 40,7 |
hitabylgjuvísitala | 65,1 | 104,2 | 122,4 | -18,2 |
Tímabilið 1961 til 1990 er sett inn til samanburðar - flestir vita að það var talsvert kaldara heldur en hlýindaskeiðin. Því hærri sem kuldakastavísitalan er því fleiri eru kuldaköstin. Meðalvísitala áranna 1961 til 1990 er mun hærri heldur en gerðist í hlýindunum - og árin 2001 til 2010 eru hærri heldur en 1931 til 1940. Hitabylgjuvístala áranna 1961 til 1990 er miklu lægri heldur en vísitölur hlýskeiðanna. Gamli tíminn hefur vinninginn yfir þeim nýja - hitabylgjur virðast hafa verið fleiri þá heldur en núna eftir aldamótin. Auðvitað getur verið að þetta sé bara suð í stöðvakerfinu - en þetta eru tölurnar hráar á borðinu.
Síðan koma sólskinsstundirnar í Reykjavík og á Akureyri:
stiki | m6190 | m0110 | m3140 | mism-hlýskeiða |
Sólskinsstundafjöldi - Reykjavík | 1268,5 | 1454,0 | 1265,1 | 188,9 |
Sólskinsstundafjöldi - Akureyri | 1045,0 | 1038,0 | 989,5 | 48,5 |
Sólskinsstundirnar eru miklu fleiri í Reykjavík á tímabilinu 2001 til 2010 heldur en 1931 til 1940 - munar nærri heilum venjulegum sumarmánuði. Sólskinsstundir á fyrra hlýindaskeiðinu eru þar nákvæmlega jafnmargar og á kalda skeiðinu 1961 til 1990. Á Akureyri er tímabilið 1931 til 1940 líka sólskinsrýrara heldur en 2001 til 2010 - sem er þar jafngilt meðaltali áranna 1961 til 1990.
Að lokum er það hafísinn. Hér er notuð vísitala ritstjóra hungurdiska sem hefur þann kost umfram aðrar ísvísitölur að hún nær allt fram á síðustu ár - en hefur marga ónefnda ókosti.
stiki | m6190 | m0110 | m3140 | mism-hlýskeiða |
ísvísitala (mánuðir á ári) | 2,7 | 0,9 | 1,4 | -0,5 |
Hér er mikill munur á 1961 til 1990 annars vegar og hlýskeiðunum hins vegar. Munurinn á hlýskeiðunum tveimur (hálfur mánuður) er trúlega marktækur. Síðasti áratugur hefur verið einn sá íslausasti sem um getur. Reyndar var áratugurinn 1951 til 1960 enn ísrýrari, með meðalvísitöluna 0,4 mánuði. - En það er önnur saga.
Hitabylgjur og hlýir dagar (ritgerð 2003)
Kuldaköst og kaldir dagar (ritgerð 2003)
14.11.2012 | 01:02
Snjókomudagafjöldi - í 165 ár (eða þar um bil)
Við lítum nú til gamans á árlegan fjölda snjókomudaga í Stykkishólmi frá upphafi athugana þar haustið 1845. Hugsanlegt er að snjókomudagur hafi ekki verið skilgreindur á nákvæmlega sama hátt allt tímabilið. Þó er ljóst að engin krafa hefur verið gerð um að snjóinn festi til að dagur komist á blað sem snjókomudagur. Sömuleiðis getur verið talsverður munur á snjókomudagafjölda eftir því hversu vel athugunarmaðurinn fylgist með veðri sólarhringsins. Auðvelt er t.d. að missa af lítilsháttar snjókomu að nóttu. Snjókomudagafjöldaraðir (já) frá einni veðurstöð verða því að teljast heldur óáreiðanlegar.
Röðin frá Stykkishólmi og sýnd er á myndinni hér að neðan er þess vegna ekki sérlega áreiðanleg - en sýnir samt í heild eindregna drætti sem gætu vel verið réttir.
Lóðrétti ásinn sýnir fjölda snjókomudaga á ári hverju en sá lárétti árin frá 1846 til 2011 (árið í ár er ekki búið). Hlýindaskeiðið svonefnda um og fyrir miðja 20. öld sker sig úr hvað fátækt snjókomudaga varðar. Mikil og skyndileg aukning varð hins vegar um 1980 og á mörkunum að ástandið hafi jafnað sig síðan. Fyrstu 25 ár línuritsins skera sig einnig úr - en þá í miklum fjölda snjókomudaga. Hámarksárið er 1854 - á síðari tímum er 1983 með flesta snjókomudagana í Stykkishólmi. Árið 1941 var bæði hlýtt og þurrt - snjókomudagarnir voru þá sérlega fáir. Einnig voru mjög fáir snjókomudagar árið 1960.
Við skulum vara okkur á því að draga miklar ályktanir af línuritinu varðandi langtímabreytingar á veðurfari. Stöðin er hér einmana og athugunarmenn fjölmargir á tímabilinu. En myndin er skemmtileg engu að síður.
13.11.2012 | 00:30
Enn af ofviðrametingi
Það sem af er mánuðinum (nóvember 2012) hafa þrjú illviðri gengið yfir landið. Fyrir nokkrum dögum litum við það fyrsta - en lítið mál er að bæta þeim tveim síðari við til samanburðar. Þó er látið nægja að horfa á mynd sem sýnir meðalvindhraða á klukkustundarfresti og hvassviðrahlutfall sömu klukkustunda, þ.e. hlutfall stöðva með meiri vindhraða en 17 m/s af heildarfjölda.
Myndin nær til síðustu 18 daga, frá 26. október til og með 12. nóvember. Blái ferillinn sýnir meðalvindhraða. Fyrsta illviðrið er langveigamest, stóð frá því síðdegis 30. október fram á kvöld þriðja nóvember - eða í um fjóra sólarhringa. Það er óvenjulegt. Hvassviðrahlutfallið fór upp fyrir 60 prósent þegar mest var og meðalvindhraði í nærri 18 m/s.
Undir miðnætti að kvöldi þess 8. fór aftur að blása, meðalvindhraði var mestur tæplega 13 m/s og hlutfallið fór upp í um 35 prósent. Síðasta veðrið gekk yfir í dag (þ. 12. nóvember), það stóð skemmst veðranna þriggja, en meðalvindhraði fór í rúma 14 m/s og hlutfallið í 45 prósent.
Ætli sé komið nóg í bili? Fyrsta veðrið var af vindáttum í kringum norður, annað veðrið var af norðri og norðaustri en það síðasta af austsuðaustri og áttum þar í kring.
Alkunnugt er að það er mjög misjafnt hvaða áttir eru vondar á hverjum stað. Það er því misjafnt hvaða dag hvassast hefur verið á einstökum veðurstöðvum. Ef við teljum vegagerðarstöðvarnar með var 2. hvassastur á 109 stöðvum, 9. á 43 stöðvum og 12. á 46 stöðvum.
Sé litið á mánuðinn það sem af er kemur í ljós að vindur hefur einhvern tíma farið upp fyrir 17 m/s á 93 prósentum almennu stöðvanna, en 96 prósent vegagerðarstöðvanna. Því má segja að veðrin þrjú hafi samanlagt hirt upp flestallar veðurstöðvar landsins. En hvaða stöðvar hafa orðið útundan enn sem komið er? Það sýnir taflan.
mesti v. | mesta hv. | nafn | |
12,0 | 21,4 | Hallormsstaður | |
12,6 | 33,1 | Botn í Súgandafirði | |
13,7 | 21,8 | Bíldudalur | |
13,9 | 21,5 | Tálknafjörður | |
14,9 | 21,8 | Hvanneyri | |
16,1 | 25,2 | Kolás | |
16,2 | 33,8 | Hauksstaðir | |
16,3 | 29,1 | Básar á Goðalandi | |
16,5 | 23,6 | Akureyri - Krossanesbraut | |
16,8 | 32,6 | Ísafjörður sjálfvirk stöð | |
16,8 | 29,2 | Flateyri |
Fyrsti dálkurinn sýnir hæsta 10-mínútna meðalvindhraða á stöðinni fyrstu 12 daga nóvembermánaðar. Annar dálkur sýnir mestu vindhviðu á þessu tímabili. Það vekur eftirtekt að enginn staðanna hefur alveg sloppið við slæmar vindhviður. Flestar stöðvarnar í töflunni fá alloft á sig slæm veður í ákveðnum áttum. Vestan- og suðvestan- og sunnanveður hafa ekki sýnt sig það sem af er mánuðinum. Komi slíkt veður er líklegt að flestar þessar stöðvar falli.
Það gæti alveg orðið.
12.11.2012 | 00:45
Þrýstibreytingakort
Áður en tölvuspár urðu (nærri því) jafngóðar og nú er var mikið lagt í greiningarkort. Þau eru reyndar gerð enn. Á kortin eru færðar samtímaveðurathuganir á gildistíma kortsins. Hér á landi allt frá Bandaríkjunum í vestri og austur til Finnlands. Veðurfræðingur dregur jafnþrýstilínur á kortið, reynir að staðsetja veðraskil og úrkomusvæði. Út frá kortinu og breytingum frá næstu greiningu á undan er síðan reynt að meta hverjar breytingar séu líklegar næsta sólarhringinn. Já, spár náðu yfirleitt ekki meir en um það bil sólarhring fram í tímann.
Eitt þeirra atriða sem mikilvægt var að greina á kortinu voru nýlegar þrýstibreytingar. Að hefð var alltaf miðað við breytingu síðustu 3 klst. Oft voru þá dregnar jafnþrýstibreytingalínur, fallandi þrýstingur var einkenndur með rauðum strikalínum, en stígandi með bláum. Á milli þeirra var stundum sett núlllína þar sem þrýstingur hafði ekki breyst neitt.
Af þrýstibreytingunum má ráða hvert veðurkerfi eru að hreyfast og hvort þau eru að styrkjast eða veikjast. Auk þessa komu á árum áður ýmsar reynslureglur til hjálpar - m.a. þarf að vita hvað er venjulegt og óvenjulegt. Ein þessara reglna var t.d. sú að huga átti að stormi ef þrýstingur breyttist meira en 8 hPa á þremur klukkustundum - jafnvel þótt lægðir sýndust ekki illvígar. Mjög ískyggilegra var ef þrýstingur féll mikið vestan megin við dýpkandi lægð, þrýstibreytingar suðaustan við lægðina voru taldar merki um dýpkunarhraða hennar o.s.frv.
Við skulum nú til gamans líta á spákort sem gildir kl. 9 að morgni mánudagsins 12. nóvember (sá tími verður liðinn hjá þegar flestir lesendur lesa þetta).
Ísland er rétt ofan við miðja mynd - Bretlandseyjar í neðra hægra horni en Grænland vinstra megin. Allkröpp lægð er á Grænlandshafi og þrýstilínur (heildregnar) mjög þéttar við Ísland, enda austan- eða suðaustanstormur um landið sunnan og vestanvert.
Þrýstibreytingar síðustu 3 klst eru merktar með rauðum (fallandi) og bláum (stígandi) litaflötum. Á dökkrauða svæðinu hefur þrýstingur fallið um 6 til 8 hPa á þremur klukkustundum. Mjög skarpt lægðardrag er á mörkum rauða fallsvæðisins og hógværara stigssvæðis sunnan við. Þetta þýðir að veðrið gengur fljótt niður. Fyrr á árum var giskað á hraða lægðardragsins með því annað hvort að bera saman stöðu þess á kortinu næst á undan og reikna með svipuðum hraða - eða þá að reiknaður var þrýstivindur hornrétt á bakhlið lægðardragsins. Ekki er gott að meta hann af þessu korti (kvarða vantar) - en þó má giska á um 15 m/s (nálægt 50 km/klst). Svo virðist (en það er ágiskun) að skilin séu á kortinu um 200 km suðvestur af Reykjanesi - ágiskunin segir því að það eigi að lægja á höfuðborgarsvæðinu um 4 klst síðar - eða um kl. 13.
Nú á tímum treystum við tölvunum fyrir þessum reikningum - þeir eru miklu betri heldur en ágiskanir gerðar með reglustiku - auk þess sem greiningin er að jafnaði betri. En samt - er rétt að fylgjast vel með því sem athuganir eru að segja - þær eru sannleikurinn.
11.11.2012 | 01:46
Hlýskeiðin tvö - vafasamur vindasamanburður
Hungurdiskar fjölluðu nýlega um mismun veðurs áratuganna hlýju, 1931 til 1940 og 2001 til 2019. Fyrst var gerður samanburður á meðalhita á Íslandi á skeiðunum tveimur, annar pistillinn fjallaði aðallega um hitafar á Íslandi borið saman við nágrannalönd og heiminn allan, en sá þriðji um snjólag og úrkomu. Hér verður litið á samanburð vindátta. Er pistill dagsins hinn vafasamasti - höfum það í huga - þetta er bara til gamans.
Reiknuð hefur verið vindáttatíðni á landinu í heild með því að taka meðaltal tíðninnar á öllum mönnuðum veðurstöðvum. Þó er það gert þannig að áttirnar eru aðeins taldar fjórar, norður, austur, suður og vestur. Það upplýsist ekki hvernig niðurstaðan er fengin - aðferðin þolir ekki dagsljósið. Tímabilið 1961 til 1990 er haft með til hliðsjónar - tölurnar eru prósentur.
m6190 | m0110 | m3140 | mism-hlýskeiða | |
nv/n/na | 26 | 29 | 25 | 3 |
na/a/sa | 31 | 30 | 29 | 0 |
sa/s/sv | 25 | 25 | 25 | 0 |
sv/v/nv | 18 | 17 | 20 | -3 |
Við sjáum strax að norðanáttir hafa færst aðeins í aukana - en bara á kostnað vestlægu áttanna. Hversu trúlegt er þetta? Ekki gott að segja - en við getum líka leitað svara í bandarísku endurgreiningunni sem oft hefur verið nefnd á hungurdiskum. Þar tökum við nokkuð stærra svæði, allt frá 70°N og suður á 60°N og frá 10°V til 30°V. Tölurnar eru m/s.
stiki | m6190 | m0110 | m3140 | mism-hlýskeiða |
vestanátt (500 hPa) | 5,6 | 5,1 | 5,6 | -0,5 |
sunnanátt (500 hPa) | 3,4 | 3,3 | 3,4 | -0,1 |
vestanátt (1000 hPa) | -1,9 | -1,9 | -1,6 | -0,3 |
sunnanátt (1000 hPa) | 0,5 | 0,5 | 0,4 | 0,1 |
Vestanátt er jákvæð, en austanátt neikvæð. Vestanáttin nærri jörð - við 1000 hPa er alltaf neikvæð. Það þýðir einfaldlega að austanátt er ríkjandi á þessu svæði, sunnanáttin er jákvæð þannig að vindur er oftar (eða meiri) úr suðri heldur en norðri). Í háloftunum (veðrahvolfinu miðju, við 500 hPa) er vestanvindur ríkjandi (jákvæð tala). Þetta eru ekki mjög háar tölur - enda eru þetta vigurmeðaltöl vindhraði er meiri en þetta - við fjöllum e.t.v. um meðalvindhraða í háloftunum síðar.
Séu meðaltöl hlýju áratuganna borin saman kemur í ljós að vestanáttin í háloftunum var aðeins meiri 1931 til 1940 heldur en á árunum 2001 til 2010 - sama er að segja um vindinn við jörð en tölurnar eru svo lágar að við vitum ekki hvort þær eru marktækar. Þeim ber þó saman við tíðnitöfluna fyrir ofan. Kannski var vestanáttin raunverulega minni á síðara tímabilinu. Tímabilið 1961 til 1990 er heldur líkara 1931 til 1940 í háloftunum en 2001 til 2010 við jörð.
Þriðja samanburðaraðferðin er til á lager - við getum reiknað mun á loftþrýstingi á Suðurlandi annars vegar og Norðurlandi hins vegar. Niðurstaðan er sú sama - þrýstimunur var ívið meiri 2001 til 2010 heldur en 1931 til 1940. Meðalþrýstingur er hærri á Norðurlandi heldur en syðra. Vaxi þrýstimunurinn er það merki um að austanáttin yfir landinu hafi aukist eða með öðrum orðum að það hafi dregið úr vestanátt.
Þrenns konar mat segir okkur að vestanátt hafi verið ívið minni 2001 til 2010 heldur en 1931 til 1940. Freistandi er að trúa því - en það segir ekkert um framtíðina og má ekki heldur túlkast sem eins konar leitni.
Ýmislegt smálegt í samanburði hlýskeiðanna liggur enn óbirt - e.t.v. lítum við á þau atriði síðar.
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.12.): 20
- Sl. sólarhring: 214
- Sl. viku: 985
- Frá upphafi: 2420869
Annað
- Innlit í dag: 15
- Innlit sl. viku: 864
- Gestir í dag: 15
- IP-tölur í dag: 15
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010