Hlýskeiðin tvö - vafasamur vindasamanburður

Hungurdiskar fjölluðu nýlega um mismun veðurs áratuganna hlýju, 1931 til 1940 og 2001 til 2019. Fyrst var gerður samanburður á meðalhita á Íslandi á skeiðunum tveimur, annar pistillinn fjallaði aðallega um hitafar á Íslandi borið saman við nágrannalönd og heiminn allan, en sá þriðji um snjólag og úrkomu. Hér verður litið á samanburð vindátta. Er pistill dagsins hinn vafasamasti - höfum það í huga - þetta er bara til gamans.

Reiknuð hefur verið vindáttatíðni á landinu í heild með því að taka meðaltal tíðninnar á öllum mönnuðum veðurstöðvum. Þó er það gert þannig að áttirnar eru aðeins taldar fjórar, norður, austur, suður og vestur. Það upplýsist ekki hvernig niðurstaðan er fengin - aðferðin þolir ekki dagsljósið. Tímabilið 1961 til 1990 er haft með til hliðsjónar - tölurnar eru prósentur.

 m6190m0110m3140mism-hlýskeiða
nv/n/na2629253
na/a/sa3130290
sa/s/sv2525250
sv/v/nv181720-3

Við sjáum strax að norðanáttir hafa færst aðeins í aukana - en bara á kostnað vestlægu áttanna. Hversu trúlegt er þetta? Ekki gott að segja - en við getum líka leitað svara í bandarísku endurgreiningunni sem oft hefur verið nefnd á hungurdiskum. Þar tökum við nokkuð stærra svæði, allt frá 70°N og suður á 60°N og frá 10°V til 30°V. Tölurnar eru m/s.

stikim6190m0110m3140mism-hlýskeiða
vestanátt (500 hPa)5,65,15,6-0,5
sunnanátt (500 hPa)3,43,33,4-0,1
vestanátt (1000 hPa)-1,9-1,9-1,6-0,3
sunnanátt (1000 hPa)0,50,50,40,1

Vestanátt er jákvæð, en austanátt neikvæð. Vestanáttin nærri jörð - við 1000 hPa er alltaf neikvæð. Það þýðir einfaldlega að austanátt er ríkjandi á þessu svæði, sunnanáttin er jákvæð þannig að vindur er oftar (eða meiri) úr suðri heldur en norðri). Í háloftunum (veðrahvolfinu miðju, við 500 hPa) er vestanvindur ríkjandi (jákvæð tala). Þetta eru ekki mjög háar tölur - enda eru þetta vigurmeðaltöl vindhraði er meiri en þetta - við fjöllum e.t.v. um meðalvindhraða í háloftunum síðar.

Séu meðaltöl hlýju áratuganna borin saman kemur í ljós að vestanáttin í háloftunum var aðeins meiri 1931 til 1940 heldur en á árunum 2001 til 2010 - sama er að segja um vindinn við jörð en tölurnar eru svo lágar að við vitum ekki hvort þær eru marktækar. Þeim ber þó saman við tíðnitöfluna fyrir ofan. Kannski var vestanáttin raunverulega minni á síðara tímabilinu. Tímabilið 1961 til 1990 er heldur líkara 1931 til 1940 í háloftunum en 2001 til 2010 við jörð.

Þriðja samanburðaraðferðin er til á lager - við getum reiknað mun á loftþrýstingi á Suðurlandi annars vegar og Norðurlandi hins vegar. Niðurstaðan er sú sama - þrýstimunur var ívið meiri 2001 til 2010 heldur en 1931 til 1940. Meðalþrýstingur er hærri á Norðurlandi heldur en syðra. Vaxi þrýstimunurinn er það merki um að austanáttin yfir landinu hafi aukist eða með öðrum orðum að það hafi dregið úr vestanátt.

Þrenns konar mat segir okkur að vestanátt hafi verið ívið minni 2001 til 2010 heldur en 1931 til 1940. Freistandi er að trúa því - en það segir ekkert um framtíðina og má ekki heldur túlkast sem eins konar leitni.

Ýmislegt smálegt í samanburði hlýskeiðanna liggur enn óbirt - e.t.v. lítum við á þau atriði síðar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Trausti. Ég bíð enn eftir svari við spurningu minni: Hvernig rímar það annars við eplið þitt að meint hnatthlýnun virðist hafa stöðvast fyrir 16 árum ef aukið CO2 í andrúmslofti af mannavöldum (sem reyndar telur tæpt 1% af heildarmagni CO2) er sagt fara stigvaxandi?

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 11.11.2012 kl. 16:42

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Hér gætir ákveðinnar óþolinmæði. Þegar síðast kom hik í hlýnunina stóð það í 25 til 40 ár - hvers vegna ekki nú? Meint hik nú er reyndar enn svo skamvinnt að sérstök gleraugu þarf til þess að sjá það. Fyrra hik hafði staðið mun lengur áður en nokkur fór að hafa orð á því. Ástandið væri alveg hrikalegt ef sérhvert ár væri hlýrra en það undanfarandi. Sama má segja að væri sérhver áratugur hlýrri en sá næsti á undan yrði ástandið líka hrikalegt eftir fáeina áratugi. Við þökkum bara pent fyrir að svo virðist ekki vera. Mjög, mjög margt er óvíst um framtíðarskipan veðurfars - en geislunareiginleikar andrúmsloftsins hafa breyst og eru enn að breytast -.

Trausti Jónsson, 12.11.2012 kl. 01:04

3 identicon

Kærar þakkir fyrir svarið Trausti. Þú virðist a.m.k. samþykkja núverandi 16 ára "hik" á framgangi meintrar hnatthlýnunar. Það er sannarlega mjög margt óvíst um framtíðarskipan veðurfars og því skýtur það skökku við - virðist einskonar hortittur í eplisríminu þínu - að fyrir örfáum dögum fullyrtir þú: "Framtíðin er alltaf hulin og engin trygging fyrir hlýju áframhaldi - en svo er einnig  möguleiki að enn eigi eftir að bæta um betur." Síðan virðast naprir háloftavindar hafa náð yfirhöndinni þegar þú yfirgefur - nokkrum dögum seinna - sjálfan þig og fullyrðir: "Það hefur hlýnað á jörðinni (alla vega á norðurhveli) síðustu 100 til 150 árin - á því blasir ein eindöld skýring við - breyting á efnasamsetningu andrúmsloftsins og þar með geislunarbúskap þess. Svo vill til að skýringin er þar að auki studd með góðum eðlisfræðilegum rökum."

Hvort á ég nú að treysta vísindamanninum trausta eða vísindamanninum Trausta?

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 12.11.2012 kl. 13:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 282
  • Sl. sólarhring: 432
  • Sl. viku: 1598
  • Frá upphafi: 2350067

Annað

  • Innlit í dag: 251
  • Innlit sl. viku: 1454
  • Gestir í dag: 248
  • IP-tölur í dag: 240

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband