Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Snyrtileg smálægð

Smálægð fer yfir landið á morgun, sunnudag 25.apríl. Hún er svo grunn að varla má greina heildregna jafnþrýstilínu í kringum miðjuna.

w-blogg240421a

Klukkan 9 í fyrramálið á hin mjög svo ógreinilega lægðarmiðja að vera við Vestmannaeyjar - eða einhvers staðar við suðvesturströndina. Varla að lægðin sjáist á þessu spákorti evrópureiknimiðstöðvarinnar. En eins og kortið sýnir er töluverð úrkoma samfara lægðinni - misdreifð en talað um 15 til 30 mm sólarhringsúrkomu á stöku stað. Ef kortið er skoðað nánar má sjá litla þríhyrninga merkta í úrkomusvæðið. Það segir okkur að þetta sé svonefnd klakkaúrkoma - orðin til vegna þess hversu óstöðugt loftið er. Mestu úrkoman á að ganga yfir höfuðborgarsvæðið í nótt - en verður misáköf eftir svæðum - kannski 3 til 6 mm/klst þar sem mest verður - en víðast minna. - Þeir sem nenna geta rifjað upp gamlan hungursdiskapistil um úrkomuákefð.

En lægðin er ekki alveg öll þar sem hún sýnist. Uppi í 5 km hæð (500 hPa) sjáum við töluvert öfluga lægð - smáa um sig að vísu, en þar eru þéttar jafnhæðarlínur og þar með verulegur vindur.

w-blogg240421b

Sunnan við lægðarmiðjuna má sjá um 40 m/s þar sem mest er. Á þessu korti sýna litir hita. Mjög kalt er í lægðarmiðjunni, -32 stig yfir Reykjavík - en mun hlýrra allt um kring. Kalda loftið fyllir lægðina - ef svo má segja - jafnar sjávarmálsþrýstisviðið alveg út - þannig að hinn snarpi vindur nær ekki til jarðar. Enn ofar má sjá strokk í veðrahvörfunum - þar inni í er aftur hlýrra heldur en umhverfis. 

Lægð þessi hreyfist hratt til suðausturs í átt til Bretlands - og vindur nær sér smám saman á strik, er spáð allhvössum undan vesturströndum Skotlands og Írlands á þriðjudag. Fyrir tíma tölvuspáa voru lægðir af þessu tagi afskaplega erfiðar viðfangs. E.t.v. gátu gisnar háloftaathuganir rekist á þær - en ef til vill ekki. Hvernig á að spá úrhellisrigningu á lægð sem ekki er hægt að finna? En nú er öldin önnur (eða þannig). 


Mildur vetur

Íslenska vetrarmisserið var milt að þessu sinni - eins og langoftast á þessari öld. Telst varla til tíðinda lengur. Við lítum eins og oft áður á samanburð við hita fyrri vetra og veljum hitamælingar í Stykkishólmi að þessu sinni.

w-blogg210421

Vetrarhitinn nú er nákvæmlega í meðallagi áranna 2001 til 2020, en -0,1 stigi lægri en meðallag síðustu tíu vetra. Vetrarhiti þessarar aldar hefur verið ótrúlega stöðugur miðað við það sem venjan var (og verður?). Hinn hlýi vetur 2002-2003 sá eini sem sker sig úr. Fyrra hlýskeið, það sem stóð á að giska frá 1923 til 1964 (vetur fóru hlýnandi á undan sumrunum og vetrarhlýindi stóðu lengur heldur en sumarhlýindin) sker sig úr, en hiti þá var áberandi breytilegri heldur en verið hefur á því núverandi. Veturinn 1950 til 1951 var þannig fullt eins kaldur og vetur hafísáranna - en ekki boðaði það skyndilega breytingu. 

Eins og sjá má á línuritinu er aldrei á vísan að róa. Veturinn 1879 til 1880 var einn sá hlýjasti á 19.öld, en sá næsti á eftir, 1880 til 1881, varð sá langkaldasti. Töldu menn að þá hefði fullhefnt verið fyrir blíðuna árið áður (en harðindin héldu bara áfram).

Ritstjóri hungurdiska óskar dyggum lesendum og landsmönnum öllum gleðilegs sumars og þakkar fyrir áhuga og hlýjar kveðjur.


Fyrstu 20 dagar aprílmánaðar

Meðalhiti í Reykjavík fyrstu 20 daga aprílmánaðar er +1,9 stig, -1,2 neðan meðallags áranna 1991 til 2020 og -1,8 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára og í 20.hlýjasta (af 21) á öldinni. Kaldara var sömu daga árið 2006, meðalhiti þá 0,9 stig, en hlýjast árið 2003, meðalhiti +6,0 stig. Á langa listanum er hitinn í 91. hlýjasta sæti (af 147). Hlýjast var sömu daga 1974, meðalhiti þá 6,1 stig, en kaldast 1876, meðalhiti -3,7 stig.
 
Á Akureyri er meðalhiti nú +1,9 stig (eins og í Reykjavík), en -0,1 stigi neðan meðallags 1991 til 2020 og -1,4 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára.
 
Að tiltölu hefur verið kaldast á Suðurlandi og á Miðhálendinu, þar eru dagarnir 20 þeir næstköldustu á öldinni. Hlýjast að tiltölu hefur verið á Austurlandi að Glettingi, hiti þar í 14.hlýjasta sæti á öldinni.
 
Hiti er neðan meðallags síðustu tíu ára á öllum veðurstöðvum. Minnst er vikið á Gjögurflugvelli og Siglufirði, -0,6 stig, en mest á Þingvöllum, -2,6 stig.
 
Úrkoma hefur mælst 34,5 mm í Reykjavík, og er það um 80 prósent meðalúrkomu. Úrkoma á Akureyri hefur mælst 13,8 mm og er það um þrír fjórðu hlutar meðalúrkomu.
 
Sólskinsstundir hafa mælst 88,3 í Reykjavík og er það í slöku meðallagi.
 
Loftþrýstingur hefur sem fyrr verið óvenju hár, er nú í 7.hæsta sæti síðustu 200 ára - og ekki mjög langt frá hæstu gildum (1822 og 1936).

Hiti á 19. og 20.öld - enn og aftur

Við berum nú saman hitafar á 19. og 20. öld. Mælingar eru alláreiðanlegar aftur til áranna fyrir 1850 - og sæmilega áreiðanlegar til 1830. Nokkur óvissa er um fyrstu þrjá áratugi 19.aldarinnar - en við sjáum þó sveiflur frá ári til árs ágætlega og sömuleiðis hvaða áraklasar á því tímabili eru kaldari heldur en aðrir. 

w-blogg170421a

Fyrsta myndin sýnir 7-árakeðjur ársmeðalhita í Stykkishólmi aldirnar tvær. Bláu súlurnar sýna hitafar á 19.öld, rauða línan hitafar á þeirri 20. og sú græna hita fyrstu 20 ára 21.aldar. Mestur vafi leikur á því hversu kalt var í kringum 1810 - hugsanlega ekki alveg jafnkalt og hér er sýnt, en ritstjóri hungurdiska hefur trú á öðrum hlutum myndarinnar. Þessi mynd sýnir ekki heildarhlýnun á tímabilinu öllu, en leitni hennar reiknast um 0,8°C á öld. Það hefur hlýnað um 1,7 stig í Stykkishólmi frá því í byrjun 19.aldar. 

Þrátt fyrir alla þessa hlýnun eru ára- og áratugasveiflur samt miklar. Það er t.d. nærri 2 stiga munur á hita kaldasta og hlýjasta 7-ára tímabils 19.aldar og 1,7 stiga munur á hita kaldasta og hlýjasta 7-ára tímabili 20.aldar. Það vekur athygli að nær öll 7-ára tímabil 20.aldar eru umtalsvert hlýrri heldur en sömu ár 19.aldar - eina undantekningin er um 1820 og 1920 - þá er hiti sambærilegur. 

Nú - og svo virkar hitinn á 21.öldinni (það sem af er) alveg út „úr kortinu“ miðað við hinar aldirnar tvær. Auðvitað er spurningin hversu lengi hlýindin halda út - við vitum ekki enn hversu stór hlutur hnattrænnar hlýnunar er í núverandi hlýindum hér á landi - hann er umtalsverður - enginn vafi er á því, en er hann nægur til þess að hiti fari ekki aftur (tímabundið) niður fyrir það sem hann var á 20.aldar hlýindaskeiðinu mikla? Mun hita 21.aldar takast að halda öldinni nær alveg „hreinni“ - eins og 20.öldinni tókst (nærri því) gagnvart þeirri 19?

Hiti á kuldaskeiðinu 1965 til 1995 var lengst af lægri heldur enn hann var á hlýskeiðum 19.aldarinnar [við kölluðum það kuldaskeið sem nítjándualdarmenn hefðu kallað hlýskeið]. Við sem það munum getum því sagt að við höfum kynnst 19.aldarveðurlagi að einhverju leyti. Það er fyrst og fremst kuldinn í kringum 1810 (sé hann þá raunverulegur) og kuldinn á 7. og 9. áratug 19.aldarinnar sem vantar alveg í okkar reynsluheim - og ekki fengum við mikla eða langvinna reynslu af venjulegu 19.aldarástandi. 

Þrátt fyrir hlýnandi veðurfar getum við seint gert ráð fyrir því að aldrei kólni aftur. Á hinn bóginn má segja að taki hitinn enn eitt hlýindastökkið hljóti að vera illt í efni - fengjum við t.d. ámóta hlýnun og varð milli 1920 til 1930 ofan í þá hlýnun sem nú þegar hefur orðið. 

Við lítum fljótlega á vitnisburði sem geta hugsanlega sagt okkur eitthvað um hitafar snemma á 19.öld og berum saman við tölurnar.


Úrkomumet (óstaðfest)

Mikið vatnsveður gekk yfir landið sunnan- og suðaustanvert í gær (15.apríl). Sólarhringsúrkoma (kl.00 til 24) mældist 229,7 mm á Kvískerjum í Öræfum). Það er meira en áður hefur mælst í apríl á landinu og meira en mælst hefur á einum sólarhring á sjálfvirkri veðurstöð. Ef við miðum við hefðbundið úrkomumælitímabil (kl.9 til kl.9) hefði talan orðið enn hærri eða 237,8 mm. Svo vill til að ekki munar miklu. Rétt er að taka fram að þetta nýja met er óstaðfest.

Hér að neðan eru landsmet hvers mánaðar fyrir sig rifjuð upp.

w-blogg160421-manurk_met

Súlurnar sýna mestu úrkomu hvers mánaðar - þær bláu ná til mönnuðu stöðvanna, en þær gráu sýna sjálfvirkar mælingar. Hæsta talan er íslandsmetið, 293,3 mm, sett í Kvískerjum 9.janúar árið 2002. Sá úrkomuatburður hitti sérlega vel í mælingasólarhringinn eins og fjallað er um í pistli á vef Veðurstofunnar. Þar er einnig fjallað um fleiri tilvik, meðal annars febrúar- og októbermetin. Hæsta tala hingað til á sjálfvirku stöðvunum mældist á Seyðisfirði í desember síðastliðnum - og er reyndar nokkrum vafa undirorpin - en önnur óumdeild gildi úr firðinum sömu daga eru litlu lægri. 

w-blogg160421b

Hér má sjá tölur, tíma og staði - mannaðar athuganir. Að úrkoma sé meiri en 200 mm á sólarhring hér á landi er greinilega ekki algengt. Athygli vekur að slík úrkoma getur eiginlega mælst í hvaða mánuði sem vera skal. 

w-blogg160421c

Síðari taflan sýnir sjálfvirku stöðvarnar. Þær hafa ekki verið lengi í rekstri - en munu væntanlega smám saman hirða öll mánaðametin. Kvískerjametið nýja - og desember-Seyðisfjarðarmetið eru höfð með - eins og ekkert sé. 

Úrkoman mikla í Kvískerjum 2002 sýndi okkur þá sérstöku tillitssemi að falla öll milli kl.9 þann 8.janúar og kl.9 þann 9. Þess er ekki að vænta að aðrir atburðir séu jafnþægir. Þess vegna eru talsverðar líkur á á að sólarhringsskiptingarstund klippi þá marga í tvennt, sumir atburðir geta þannig alveg klippst í tvennt 340 mm sólarhringsúrkoma sem fellur jafnt sitt hvoru megin skiptingarstundar á því ekki möguleika á að teljast með - sem er harla ósanngjarnt. Meðan ekki var mælt nema einu sinni á sólarhring var ekkert við því að gera - varla var nokkur leið að meta hver mesta 24-stunda úrkoma var. Nú eru mælingar oftast gerðar á 10-mínútna fresti. Því er hægt að finna mestu 24-stunda úrkomuna hvernig sem hún fellur á sólarhringinn. Búast má við því að úrkomumetatöflur framtíðarinnar muni fremur innihalda slíkar tölur heldur en þær klipptu sem við nú notum - enda höfum við meiri áhuga á þeim í reikningum sem meta aftakaúrkomu. Við skulum því ekki gera okkur mikla rellu út af því hvaða sólarhringur er notaður. 


Af árinu 1804

Árið 1804 var tiltölulega hagstætt. Engir samfelldir kulda- eða illviðrakaflar. Hlýtt var í febrúar og desember og talað um gæðatíð. Nokkuð hart var seint í mars og þó veður væru ekki ill um sumarið var suddasamt fyrir norðan og heyskapur gekk ekki vel framan af. Hafís var kennt um. Hann var talsverður fyrir landi. Giskað er á að meðalhiti í Reykjavík hafi verið 4,8 stig og 4,2 í Stykkishólmi. Hlýtt var í febrúar, en fremur kalt í mars. Svalt var framan af sumri, en hlýrra í ágúst og óvenjuhlýtt virðist hafa verið í desember.

ar_1804t

Heldur lítið er um mælingar. Sveinn Pálsson var settur landlæknir um það bil hálft árið og mældi þá hita við Reykjavíkurskóla - væntanlega á Hólavöllum, en fyrstu mánuðina var einnig mælt í Kotmúla - hver gerði það er ekki læsilegt. Línuritið sýnir mælingar frá báðum stöðum og má sjá að vetrarmánuðina ber þeim vel saman, kuldaköst og hlýir kaflar samtímis eins og vera ber. Eykur það trú á mælingunum. Sveinn nefnir að hann hafi 12.mars flutt Reykjavíkurmælinn af austur- á suðurvegg - til að mæla hita í sól um miðjan dag skiljist athugasemd hans rétt. Þetta veldur villum í athugunum - við getum séð þær flestar á myndinni. Í júní var oftast annað hvort skýjað eða þá þoka - og því sólarlaust á mæli.

Hér að neðan eru helstu ritaðar heimildir um tíðarfar og veður á árinu tíundaðar. Þær eru óvenjurýrar. Ítarlegust er samantekt Brandstaðaannáls. Ekki mjög mikið að hafa hjá Espólin, en tíðavísur Jóns Hjaltalín og Þórarins í Múla mjög gagnlegar - eins og oft er. Jón Jónsson á Möðrufelli hélt veðurdagbók og dró saman oftast viku- og mánaðarlega. Mjög erfitt er hins vegar að lesa handrit hans - og ekki víst að þau brot sem hér birtast séu rétt eftir höfð. Þó góðar upplýsingar séu hjá Sveini Pálssyni um veður frá degi til dags eru atahugasemdir og samantektir öllu færri þetta ár en oftast annars. Trúlega voru miklar annir hjá honum. 

Brandsstaðaannáll [vetur]:

Sama mild og stillt, mest sunnanátt hélst með þíðum og smáblotum, en litlum snjó á milli, fram til góu. Var síðast á þorra stöðug hlákuvika. Voru þá heiðar auðar. Sunnudag 1. í góu kom fönn, en brátt tók af með blotum og var hún nokkuð óstöðugri. 23.-25 mars gjörði norðanhríð og snjóaskorpu. Var þá farið að gefa fé. Aftur á skírdag 29. mars hríð mikil. Ís var nú enn með landi og frostamikið þennan tíma.

Brandsstaðaannáll [vor og sumar]:

Aldrei varð jarð- (s46) laust og góður bati kom 8. apríl. Eftir það var gott. Gróður kom með maí og heiðar snemma færar. Um fardaga frostasamt og þurrkar allt vorið. Lestir voru almennt aftur komnar fyrir fráfærur að vestan og fengu góð kaup. 19.-20. júní gerði stórt fráfærnahret svo ám var inni gefið. Eftir það héldust enn frost á nætur og þurrkar, svo grasbrestur varð mikill. Í 14. viku sumars tekið til að slá. Var þá skipt um veður með þoku, vætu og rigningum, þar með staklegu þerrileysi. 6. ágúst mesta rigning, svo jörð flóði mjög. ... 11, ágúst náðust töður fyrst inn, en 15.-18. kom góður þerrir. Var þá mikið af töðu ónýtt orðið til nytjar, en almenn fangageymsla var þó orsök til ónýtingar, því hægt var að flæsa ljá eða þunnt hey í flekkjum, svo vel mætti geyma í baggasæti og meðfram hirða. Ennþá var úrfella- og rosasamt til 31. ágúst, svo þerrikafli góður. Í miðjum september hirtu menn hey, þó illa þurrt.

Sveinn Pálsson getur um éljagang í Reykjavík 25.maí. Sláttur hófst í Kotmúla 19.júlí. Næturfrost gerði þar bæði 25. og 28.júlí - en við vitum ekki hvort það var aðeins á jörð. Tún voru síðast hirt á Kotmúla 14. og 15.ágúst. Alhvítt varð fyrst í byggð í Fljótshlíð þann 12.október.  

Brandsstaðaannáll [haust og vetur til áramóta]:

Um jafndægur mikið hret og tvö nokkru síðar, en gott aukavikuna. Þaðan til nýárs besta vetrartíð. Jólafastan einstakleg: Aldrei kom snjókorn né skarpt frost, heldur hægar þíður og staðviðri. 30.-31. des, kom mikil vestanrigning. (s47)

Espólin segir ekki margt um árið 1804:

C. Kap. Landfarsótt gekk þá yfir, og dóu allmargir í henni, en nokkrir af harðrétti. (s 135). CII. Kap. var þá heyskapur góður og svo nýting sunnanlands, en meðallagi nyrðra, og betri en hið fyrra árið hafði verið. Veturinn eftir gjörði allgóðan. (s 137).

Reynt að komast fram úr dagbókum Jóns á Möðrufelli:

Janúar var yfir höfuð mikið staðviðrasamur og úrkomulítill en frost voru ærið hörð oft og tíðum. Febrúar eins gæða góður. Gjörði þá fyrstu hláku þann 11. Mars fyrra part sæmilegur, en þann síðari býsna harður, æði snjór kominn og mikill hafís. Grimmasta stórhríð á skírdag (29.mars). Apríl var með miklum kuldum sífelldum og frostum, nema eina viku, fullt af hafís fyrir utan. Maí segir Jón í meðallagi. Kalt fyrstu dagana, en síðan mildara. Þann 12. segir hann undangengna viku ei kalda og að gróðri fari nokkuð fram og þann 19. segir hann vikuna hafa verið kalda nema 3 daga, þann 26. segir hann frá rétt góðri viku. Síðan tók við öllu kaldari kafli, vikan sem endar 2.júní var æði andköld og sú sem endaði þann 9. sárlega köld. Þann 16. er betra, gæða góð og hlý vika og grasvexti fer fram og þann 23. segir hann frá rétt hlýrri viku og ei óhagkvæmri. Hafís sagður útifyrir. Júlí spillti þurrkleysi þó veður væru góð. Þann 22. segir hann frá æði þokusuddasamri, andsvalri og þurrklítilli viku. Svipað er þann 29., veðrátta að sönnu góð, ei mjög köld en óþurrkasöm. Svipað var í ágúst, þann 4. segir hann vikuna mikið hlýja, en ofur votsama og þar með óþæga fyrir heyverkun. Viku síðar er enn sára þurrkleysa og bág tíð að því leyti. Síðari hluti mánaðarins virðist hafa verið hagstæðari, meiri hlýindi og hagkvæm heyskapartíð. September var eitthvað skiptari en síðustu vikuna segir hann (29.) mikið hlýja að veðráttu en æði stormasama. Október telur hann yfir höfuð góðan að veðráttu þó æði skorpu hafi gert fyrri partinn. Nóvember allur gæða góður, snjólaust fyrst en svo kom fönn æðimikil á jörðu (sé rétt lesið).
Desember var ágætur að veðráttufari.

Úr tíðavísu Jóns Hjaltalíns yfir árið 1804

Bestu vetur sveitti síst
sveit með önnum hörðu
festi letur vottar víst
varla fönn um jörðu.

Einmánaðar reif upp röst,
réði kyrrðum enda,
meina hraður kulda köst
kunni firðum senda.

Frosti hætti uppheims örn
yl þá glæddist vænum
lofti bætti föl því fjörn
feldi klæddist grænum.

Miður sprottið frón var frítt
foldar langs við blakið
fiður dottið nær þó nýtt
náðist vangs óhrakið.

Veður bestu hér gaf haust
hríðir bágar sefast
gleður hesta nera naust
nógir hagar gefast.

Úr tíðavísum Þórarins í Múla:

Skjótt þá nýárs skein fram sól um skýja brautir
gaf oss einkar góðan vetur
að góu fram og jafnvel betur.


Fögnuðu menn að fá nú vetur fagra´ og milda
eftir hina áðurtöldu
er ákaft skepnur drápu´ og kvöldu.


Góe þótti geysi hörð í geði´ og fasi
storð um braust með storma vési
stundum æði kalt þó blési.

Vinda barði viðblinds kvinnu vængjum dreki
hríðir jóku hrelling kviku
hröktu´ og skóku´ um dymbilviku.

Grænlands norðan greypti landið grimmur ísa
alinn hörku ærinn klasi
áttar hafs í storma þrasi.

Eftir páska aftur stilltust áhlaups veður
himins urðu úr hörkum þíður
hagkvæmar á allar síður.

Sumars heilsun sárköld þótti' á sumum stöðum
varðist þó samt vonsku hríðum
vægar hörkur oft og tíðum.

Virðast mátti vorið þó með vægra móti
græna sáum gróður feiti
græða sig um túna reiti.

Grasvöxtur þó grannvaxinn á grund að lokum
hrjáðist mjög af súldi, svækjum
og sára köldum daggar lækjum.

Hafíss-stanglið hörkur jók og hríðar norðan
utan hverjum fyrir firði
fannar storðar yfir gyrði.

Volkuðust heyin víða hvar en vart til skaða
sumir blautum saman hlóðu
sjóðheit nærri bruna stóðu.

Haustið allt var hörku blandið hríðar flögrum
út að messu allr´heilagara
upp þá rann oss veðrið fagra.

Allt til nýárs æskilega entist tíðin
gladdist mjög við þetta þjóðin
þróast mundi vonar gróðinn.

Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um árið 1804. Sigurði Þór Guðjónssyni er þakkað fyrir innslátt Brandstaðaannáls og Hjördísi Guðmundsdóttur fyrir innslátt Árbóka Espólíns (stafsetningu hnikað hér - mistök við þá aðgerð sem og allan annan innslátt eru ritstjóra hungurdiska). Örfáar tölur í viðhengi.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Fyrri hluti aprílmánaðar

Meðalhiti fyrri helmings aprílmánaðar er +1,4 stig í Reykjavík, -1,5 stigi neðan meðallags áranna 1991 til 2020, en -2,1 stigi neðan meðallags síðustu tíu ára. Hitinn er í 19. hlýjasta sæti (af 21) á öldinni. Fyrri hluti apríl var kaldastur 2006, meðalhiti þá +0,4 stig, en hlýjast var 2003, meðalhiti +5,1 stig. Á langa listanum er hitinn nú í 95. hlýjasta sæti (af 147). Hlýjastir voru sömu dagar 1929, meðalhiti þá +6,6 stig, en kaldastir voru þeir 1876, meðalhiti -4,1 stig.

Á Akureyri er meðalhiti nú +0,8 stig, -0,9 stigum neðan meðallags 1991 til 2020, en -1,5 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára.

Meðalhitinn er nú kominn upp úr botnsæti aldarinnar á öllu landinu. Kaldast að tiltölu hefur verið á Suðausturlandi þar sem hitinn er í næstneðsta sætinu en hlýjast á Vestfjörðum þar sem hiti er í 14.hlýjasta sæti.

Hiti er neðan meðallags síðustu tíu ára á öllum veðurstöðvum. Minnst er vikið á Gufuskálum, -0,8 stig, en mest í Þúfuveri, -2,9 stig.

Úrkoma hefur mælst 26,6 mm í Reykjavík, um 70 prósent meðallags, en 8,8 mm á Akureyri og er það um helmingur meðallags.

Sólskinsstundir í Reykjavík hafa mælst 67,4 og er það rétt undir meðallagi.

Loftþrýstingur hefur verið óvenjuhár, aðeins tvisvar verið hærri í fyrri hluta apríl síðustu 200 ár, það var 1934 og 1986, árið 1979 var hann jafnhár og nú.

Svo virðist (óstaðfest þó) að nýtt landssólarhringsúrkomumet sjálfvirkrar stöðvar hafi verið sett á Kvískerjum í Öræfum - ekki enn ljóst þó hver endanleg tala verður - nær þó varla Íslandsmetinu frá 2002. Meir en 200 mm hafa fallið síðastliðinn sólarhring. 


Af árinu 1803

Tíð var talsvert skárri en árið áður, en harðindi í maí settu strik í reikninginn og víða syðra var erfið heyskapartíð. Talsverður hafís var við land, en ekki nærri því eins og árið áður. Mælingar eru heldur rýrar. Sveinn Pálsson mældi þó stóran hluta ársins í Kotmúla í Fljótshlíð og undir lok árs í Reykjavík, en hann var um hríð settur landlæknir. Giskað er á að ársmeðalhiti í Reykjavík hafi verið 4,3 stig, en 3,2 stig í Stykkishólmi. Þessar tölur eru þó mjög óvissar. 

ar_1803t

Við sjáum af mælingum Sveins að ekki er kalt fyrr en kemur fram í miðjan febrúar, vorið virtist síðan ætla að fara eðlilega af stað, en talsvert bakslag kom með sumri og sárkalt var langt fram eftir maí. Hiti var viðunandi um hásumarið, en seint í ágúst kom verulegt kuldakast, óvenjulegt að því leyti að þá snjóaði í Fljótshlíðinni ef rétt er skilið. Síðasti hluti ársins fékk allgóða dóma. 

Hér að neðan eru helstu heimildir um tíðarfar og veður á árinu. Ítarlegust er frásögn Minnisverðra tíðinda, samantekt Brandstaðaannáls er einnig góð, lítið þetta ár hjá Espólin. Jón Jónsson á Möðrufelli og Sveinn Pálsson skráðu veður daglega auk þess að draga það saman viku- eða mánaðarlega. Mjög erfitt er hins vegar að lesa þessi handrit - og ekki víst að þau brot sem hér birtast séu rétt eftir höfð. Að vanda var talsvert um slys, menn drukknuðu og urðu úti, óljóst hvað tengist veðri. Lesa má um það í Annál 19.aldar. Þar má m.a. lesa alllanga frásögn um sjóskaða við Grímsey á einmánuði - en því miður er dagsetningar ekki getið. Þar segir frá lygnu veðri sem hafi litlu eftir miðjan dag snúist í dimmviðrishríðarbyl af norðri með ofsaveðri svo hús hristust við. Níu konur urðu ekkjur. Segir einnig af öðru skipi sem í veðrinu lenti, en komst af við illan leik. Annállinn segir að 17 menn hafi orðið úti á árinu. 

Minnisverð tíðindi segja frá [1804 2.hefti bls. 224-232]

Veturinn 1802 [til 1803] , byrjaði á Suðurlandi með stakri veðurgæsku, er líktist vorblíðu, og hélst það veður að kalla fram seint á þorra, enda skall þá veturinn á, með náttúrlegri hörku, snjó og frostum, er viðhélst framyfir sumarmál, eins og síðar greinir. Líkt þessu var árferðið i syðri hluta hluta Vestfirðingafjórðungs; þó gjörði í Dalasýslu, þann 30. nóvember [1802] mikið áhlaups kafald, en afleiðingar þess voru ekki mjög skaðvænar. Í Ísafjarðarsýslu var veturinn rétt góður, allt að góubyrjun, en þá skall á með kaföldum, hafísum og stormum, sem að segja héldust veturinn út. Í Strandasýslu gjörði óveðrakast mikið á jólaföstu, þá sumstaðar tók af alla jörð, er síðan ekki uppkom á þeim vetri. Annars var veðurátt rétt góð fram á þorra, en þaðan af mjög óstöðugt með stóráhlaupum framyfir sumarmál. Í Norðurlandi var veturinn víðast sæmilegur á þorra, þá hörkur ágnúðu og viðhéldust það eftir var vetrar. Í nyrðra hluta Austfjarða byrjaði vetur þessi með framhaldi haustharðindanna, er varaði til skömmu fyrir aðventu, þá góða hláku gjörði, var þá sauðfé komið á hvassa merg, en hestar horfallnir, þó ekki, að menn meintu, af eiginlegum vetrarhörkum, heldur af einskonar pestartaðri sýki, um hverja síðar mun getið verða. Í syðra parti Norður-Múlasýslu, einkum Fljótsdalshéraði, var fyrri hluti vetrar rétt góður, og kýr gengu hér sumstaðar úti alt til jólaföstu; þaðan af var veturinn óvenjulega góður víðast í sýslunni, allt að sumarmálum, nema í Hrafnkels- og Jökuldal upp til fjalla, hvar hann var einn harðasti í manna minnum. Í Suður-Múlasýslu var veturinn, í tilliti til veðráttufars, einn hinn æskilegasti.

Brandsstaðaannáll [vetur]:

Í janúar þíður og smáblotar, þess á milli gott og stillt frostveður; eftir miðþorra [um 5.febrúar] vestanátt mjög óstöðug og í síðustu viku [12. til 19.febrúar] norðanhríðar og fannlög. Kom þá fé á gjöf, en beit var nú notuð sem mest var mögulegt. Á góu var snöp lengst og hross lítið inntekin, en óstöðugt veður; ... Hafísinn kom á þorra og lá fram á sumar, ... (s45)

Geir Vídalín biskup lýsir vetrinum 1802 til 1803 í bréfi:

Lambastöðum 1. apríl 1803: Veturinn byrjaði hér strax með Mikaelsmessu [29.september 1802] með norðan- (s32) veðri, frosti og snjó, svo heiðar urðu ófærar, og mörgum, sem á ferð voru, lá við stórslysum. Margir átti þá enn hey úti, sem allt varð að litlum eða engum notum. Þetta veður varaði hér um mánuð, batnaði síðan ágæta vel hér sunnanlands, og sama góða veður viðvaraði til febrúarm. byrjun. Síðan hafa oftast verið umhleypingar, frost, kaföld og stundum jarðleysur. Norðanlands hefur fyrri partur vetrarins verið harðari, en sá seinni betri. ... Svo var stór grasbrestur á Ströndum í sumar eð var [1802], að tún urðu ekki ljáborin, og margir flúðu með gripi sína inn að Ísafjarðardjúpi og fengu þar leyfi til að slá fyrir þeim, það sem aðrir ekki vildu nota, svo þessi sveit sýndist framar öðrum stödd í dauðans kverkum. Þar skal annars í Hælavík, skammt frá Horni, vera enn nú einu sinni strandað skip frá Skagaströnd, hlaðið með kjöt, tólg og ull. Menn meina menn komist hafi lífs á land, en drukknað í forvaða einum, en þaðan er yfir að fara til mannabyggða. ... (s33)

Frú Gytha Thorlacius sýslumannsfrú á Eskifirði minnist á vetur og sumar:

(Úr „Fru Th.s Erindringer fra Iisland“) „Den følgende Vinter 1802—1803 var haard“. (s19) „Sommeren var god".(s23)

Í lauslegri þýðingu: „Veturinn 1802 til 1803 var harður. Sumarið (1803) var gott.

Brandsstaðaannáll [vor]:

... með einmánuði [byrjaði 22.mars] góður bati, svo frostalitið og gott til sumarmála. Þá skipti til landnyrðingsstorma með frostum miklum, er héldust allt vorið. 3. til 13. maí var mikil norðan- og suðaustanhríð. Seint í maí kom gróður. Var þá mjög þrotin taða að vonum og kýr magrar.

Minnisverð tíðindi halda áfram - og lýsa vori og síðan sumri og hausti:

Vorið 1803, var á Suðurlandi mjög kalt og stirt, hver veðrátta viðhélst langt fram á sumar, fylgdi henni grasvöxtur í minna lagi, sumstaðar mjög aumur. Töður nýttust nokkurnveginn víðast hvar, en útheyjanýtingin varð bágari; haustveðráttan var þó góð og blíð. Í Vestfirðingafjórðungi var líkt veðráttufar. Heyskapur, einkum í Mýra-, Snæfellsness-, Ísafjarðar- og Strandasýslum, mjög aumur, vegna grasbrests og bágrar nýtingar. Í Mýrasýslu var, af þeim langvinnu rigningum, sjaldgæft vatnsmegn samsafnað í hennar mörgu flóum og mýrum. Að álíðanda sumri varð veðráttan í Strandasýslu aftur mjög kafalda- og úrfellasöm, en frost fylgdi hverri fannkomu, og voru þar um haustið skornar ungar og hagbærar kýr vegna fóðurleysis. Í Norðurlandi var vor þetta mjög hart; þó voru skepnur víðast í nokkurnveginn holdum, en gróður vara bæði seinn og lítill, og fyrst í júlímánuði fyrir sauðfé nýkominn að kalla. Í Þingeyjarsýslu var sannkallað vetrarveður allt fram að trínitatishátíð [5.júní]. Í nyrðri hluta Vestfjarða sýndist náttúran að breyta eðli sínu í tilliti til veðráttufarsins á fyrrtéðu sumri. Að enduðum þeim, víðast þar, yfrið góða vetri, og sauðfé, er horað hafði verið undan haustinu, aftur var komið í sæmilegt stand, skall á með sumarmálum geysiharka, er kom sér því verr, sem menn þá voru orðnir heylausir fyrir pening sinn, og væntu síst þvílíkrar veðráttu um þær mundir. Þó tók út yfir hið stóra áfelli, sem gjörðist fyrir hvítasunnuhátíð [29.maí], er varaði rúmar 3 vikur, og gjörfelldi mestan þorra sauðpenings í mörgum sveitum, en einkum í Hjaltastaðarþinghá og Eiðasókn, í hverjum og hestar í mannsminni ekki höfðu þannig gjörfallið. Afleiðingar þessara harðinda létu sig strax í ljósi, nefnilega: mesta hungur og hallæri; keyptu þeir, er gátu kjöt og tólg, fyrir dýra dóma, úr kaupstöðum, er þeir þangað sjálfir fellt höfðu haustinu áður, fyrir miklu minna verð, en fluttu nú þangað með miklum kostnaði, í ófærð og snjóum, heim til sín aftur. Með messum batnaði veðuráttan, og varð hin hagstæðasta, er viðhélst til höfuðdags [29.ágúst]. Tún, sem um vorið kalið hafði til skaða, voru mjög graslítil; úthagi betri og nýting á heyjum sæmileg. Eftir höfuðdaginn versnaði veður, er gekk með snjóhretum, frostum og stormum allt til Mikaelsmessu [29.september]. Í Suður-Múlasýslu var sumarið framan af vindasamt og rosablandið, en seinni hluti þess og haustið hið blíðasta að veðráttufari. Grasbrestur var þó hér mikill, vegna undangengis gróðurlítils vors, en heynýting yfir höfuð hin besta. Veturinn 1803, byrjaði á Suðurlandi með blíðri veðurátt, og hélt þannig við til nýjárs 1804. Sama hagstæða veðurlag gekk einnig víðast í hinum landsins fjórðungum, og kvaddi þannig ár þetta, í því tilliti, land vort eins mildilega og hið næst undanfarna.

Brandsstaðaannáll [sumar]:

Á fráfærum, fært frá 10 vikur af sumri [23. til 29.júní], gróðurlaust á heiðum og fjöllum. Sláttur byrjaði í 15. viku sumars [28.júlí til 3.ágúst]. Voru þá vætur og óþurrkar, þar til í 18. viku [19. til 24.ágúst] og kom góður þerrir. Grasbrestur mikill varð á túni og engi. Í 19.-20. viku mikið snjóhret [25.ágúst til 7.september], er tók fyrir vinnu um vikutíma í meðallagi hálendum sveitum. Eftir það flóði jörð. Eftir það hélst úrfelli og þerrileysi fram yfir göngur. Síðan voru hey inn látin hrakin og illa þurr.

Brandsstaðaannáll [haust og vetur til áramóta]:

Haustið var vott og óstöðugt. Mikil norðanhríð á Mikaelsmessu og ofsa vestanveður á föstudag fyrstan í vetri [29.október], eftir það allgott utan íkast á hverjum föstudegi til jólaföstu. Var þá kominn snjór og frost, en allan desember stillt veður, auð jörð og frostalítið, svo ei þurfti að gefa lömbum. Eftir áður sögðum málnytuskorti og ýmislegum aðdráttahnekki, þá kalla mætti, að allar bjargir væri bannaðar.

Espólin er heldur stuttorður um tíðarfar ársins 1803:

Espólín: XCIV. Kap. Var þá vetur áhlaupasamur öndverður [1802], en rættist vel af. Var miður veturinn góður, en misjafn endrarnær. Þá dó margt fólk úr sótt, en sumt úr harðrétti. (s 125). XCVI. Kap. Það vor var hið kaldasta, og svo öndvert sumar, og voru hafísar við land. (s 126). Var þá þungt árferði, og lítill fiskifengur víða. (s 127). XCVII. Kap. Á því ári dóu ei allfáir úr harðrétti, og fleiri dóu en fæddust; skipatjón þeirra, er í förum voru, urðu í ýmsum stöðum. Allmargir menn drukknuðu, og fleiri urðu misfarir. (s 128). XCVIII. Kap. Þá gjörði vetur hinn besta [1803-1804]. (s 130).

Við reynum að draga saman nokkra punkta úr dagbókum Jóns Jónssonar á Möðrufelli í Eyjafirði og vonum að ekki sé mikið um mislestur:

Hann segir janúar allan gæðagóðan og stilltan. Febrúar hafi verið allsæmilegur nema ein vika, sú fyrsta (bókuð þann 5.) var stillt og aldrei var frosthart enda þó skafheiðríkt væri, jarðir nógar. Þann 12. segir Jón af sæmilegri viku, en nokkuð óstöðugri en áður. Þann 19. segir Jón af harðri viku, en sæmilegri þann 26. en frosthörð hafi hún verið síðast. Mars segir hann í meðallagi, nokkuð óstöðugar og frostaríkan síðast af hafískomu. Í apríl var fyrri partur dágóður en síðan sára bág tíð. Í maí samfelld bágindi og harðindi með sífelldum fannhríðum og norðan stormum, oft jarðlaust af snjó. Júní var sæmilegur og gróðri fór fram. Júlí segir hann gæðagóðan mestallan að veðráttu og grasvöxtur besti. Ágúst mikið hlýr og góður fyrri part en síðast kaldur mjög með áfelli. September allur mjög andkaldur og óþurrkasamur. Október mikið stilltur og góður. Nóvember teljist þar um pláss góður þó frost væru mikil um tíma, jörð alltaf dágóð. Desember stillur og góður að veðráttu og snjólaust allstaðar. Sama góðviðri fréttist að vestan og sunnan.

Vikuyfirlit Sveins Pálssonar eru illlæsileg eins og venjulega - en smávegis má lesa um veðurviðburði, merkastur frá okkar sjónarhóli er snjókoman í ágúst:

Nokkuð var um þrumuveður í Kotmúla, 4.janúar (með ljósagangi), 21.mars og 7.apríl Þann 14.mars segir Sveinn að gluggafluga sé fyrst séð. Seint í mars segir hann frá „fiskreki“ meðfram Eyjafjöllum öllum. Þverá ruddi sig nærri Kotmúla 12.apríl. Alhvít jörð 29.apríl. Ofsaflóð var í jökulvötnum þann 27.júní. Að kvöldi 24.ágúst snjóaði niður í byggð og um nóttina hvítnaði niður í Landeyjar, mikið snjóaði í fjöll. 

Brot úr tíðavísu Jóns Hjaltalín yfir árið 1803:

Veitti snjóa vítt á móa vetur liðinn
lítinn góa græddi friðinn
gaf óróa logna biðin.


Gróðurs kyrða kraft réð myrða kælinn andi
hafís nyrðra lá að landi,
læsti stirður eyjabandi.


Njótar meina nóg spratt ei þó nýttust töður
en úthey um engja stöður
í fór þvegið garð og hlöður.

Haust veðráttan hefur mátt þó heita blíða
kvikfé fátt sem lifir lýða
lurast smátt um jörðu víða.

Úr tíðavísum Þórarins í Múla 1803:

Árið leið fyrir utan neyð mjög stóra
þorra skeið ei þreytti hríð
þá gekk heiðrík frosta tíð.

Storma þrasi stýrði lasin góe
um nam flasa yggjar sprund
ör í fasi` og stygg í lund.

Einmánaðar ofsa-glaðir vindar
hétu skaða hauðri` og lá
harðlundaðir víða þá.

Vorið allt sár voða kalt með hretum
kosta hallt af kvikfénað
komst gjörvallt og lotum að.

Menn því kviðu mundu við ei standast
frost-hretviðrum frekum þó
fram að miðjum júlíó.

Sendi drottinn sumars gott hádegi
heitt og vott því hagsæld bar
hauðri` er sprottið lítt þá var.


Mæðu klemmdir menn við rembdust sláttinn
vætur stemmdu verkin því
víða skemmdust heyin ný.

September þó sýndist verr útleika
hretin þver og hryðju loft
hreyfðu sér til þrautar oft.

Úr Mikkaelismessu vel nam batna
frosta él og fjúka þrá
framar teljast ekki má.

Hret á ný í nóvembrí kom miðjum
allt frá því, á árs-lok fram
örn ei skýja bærði hramm.

Hefði tíð svo hæð og blíð ei fallið
fyrir kvíða máttu menn
missi víða stórum enn.

Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um árið 1803. Sigurði Þór Guðjónssyni er þakkað fyrir innslátt Brandstaðaannáls og Hjördísi Guðmundsdóttur fyrir innslátt Árbóka Espólíns (stafsetningu hnikað hér - mistök við þá aðgerð sem og allan annan innslátt eru ritstjóra hungurdiska). Örfáar tölur í viðhengi.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Ósamstæðar spár

Maður er nokkuð farinn að venjast því að spár þær sem evrópureiknimiðstöðin gefur út á fimmtudögum og segir til um veðurlag næstu viku (mánudags til sunnudags) vísi sæmilega á hita- og úrkomufar, jafnvel þó veður einstaka daga víki síðan frá því sem gert var ráð fyrir. Hér er verið að tala um svonefndan spáklasa, 51 spá sem eru eins að öðru leyti en því að upphafsskilyrðum er hnikað lítillega (ein er að vísu í hærri upplausn).

Þetta er spáin sem blasti við á fimmtudaginn var (8.apríl) og gilti fyrir alþjóðavikuna sem hófst í dag, mánudaginn 12.apríl. [Íslenskar vikur byrja sem kunnugt er á sunnudegi - en ekki mánudegi]. 

w-blogg120421a

Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar, jafnþykktarlínur eru strikaðar (mjög daufar), en þykktarvik eru sýnd með lít. Spáð er ríkjandi norðvestanátt í háloftum og kulda hér á landi, en mjög miklum hlýindum yfir Labrador.

Reiknimiðstöðin endurskoðar löngu klasaspárnar á mánudögum - og sendir út fyrir næstu fjórar vikur. Þetta er spáin sem kom í dag - og gildir fyrir sama tímabil - þessa sömu viku, frá deginum í dag til næsta sunnudags.

w-blogg120421b

Hér er allt annað veðurlag - suðvestanátt í stað þeirrar norðvestlægu og þykktarvikin orðin jákvæð, vel jákvæð fyrir norðaustan lands þar sem kaldast átti að vera í spánni fyrir nokkrum dögum.

Nú verðum við auðvitað að benda á að vikan er rétt að byrja og hver endanleg útkoma verður vitum við ekki - en líklega er seinni spáin þó nær því sem verður heldur en hin fyrri. 

Þetta sýnir rétt einu sinni að spár eru bara spár - þó sannfærandi séu og dýrt kveðnar. - Gagnlegar engu að síður - munum það líka. 


Af árinu 1802

Almennt samkomulag virðist um að telja árið 1802 eitt hið versta sem um getur hér á landi. Við eigum þó engar hitamælingar veturinn 1801 til 1802. Svo sýnist samt sem frost hafi e.t.v. ekki verið meiri en oft áður og síðar, en tíð var mjög ill. Fannkomur, blotar,  áfreðar og illviðri. Vorið var mjög kalt og snjór alveg sérlega mikill lengi fram eftir. Sumarið var kalt, bleytur og ísaþokur ríktu nyrðra, en syðra var lengst af þurrt, bjart og mjög næðingasamt - oft með næturfrostum. Heyskapur gekk sérlega illa fyrir norðan. Séra Jón dagbókarhaldari Jónsson á Möðrufelli í Eyjafirði greinir skilmerkilega frá heyfeng nær allan sinn búskapartíma - og varð heyfengur aldrei jafn lakur hjá honum og þetta sumar. Við gefum þessari merku tímaröð meiri gaum síðar. Nóvember var eini mánuður ársins sem virðist hafa fengið sæmilega dóma.  

ar_1802t

Þó Sveinn Pálsson hafi setið með brotinn mæli allt fram í miðjan nóvember reynir hann samt að segja okkur eitthvað af hitafari. Við fáum að vita hvort frost hafi verið á athugunartíma eða ekki og hvort sumardagur hafi verið kaldur eða hlýr. Á myndinni er reynt að koma þessum upplýsingum hans til skila á myndrænan hátt. Við sjáum vel þá daga sem hann telur hafa verið kaldasta (merktir -2 eða meira á vísikvarðanum til vinstri. Annars fær dagur með frosti töluna -1 að vetrinum - en hláka fær +1. Að sumarlagi segir hann allmarga daga hlýja - við merkjum hlýjan dag með +2, kaldan sem +1. Tveir hlýir dagar eru í maí - en enginn í júní og mestallan ágúst skiptast á kaldir dagar og hlýir. Jafnvel er frost á athugunartíma - frostnætur eru reyndar enn fleiri. Frá því um 20.september er oftar frost en ekki. - Síðan kemur hitamælir og við getum litið á kvarðann lengst til hægri á myndinni. Athugið að ekkert  beint samræmi er á milli hans og vísiskvarðans - nema að frostmark er á sama stað. 

Hér að neðan eru helstu heimildir um tíðarfar og veður á árinu. Ítarlegust er frásögn Minnisverðra tíðinda, samantekt Brandstaðaannáls er einnig góð, einnig er eitthvað hjá Espólin. Jón Jónsson á Möðrufelli og Sveinn Pálsson skráðu veður daglega auk þess að draga það saman viku- eða mánaðarlega. Mjög erfitt er hins vegar að lesa þessi handrit - og ekki víst að þau brot sem hér birtast séu rétt eftir höfð. Að vanda var talsvert um slys, menn drukknuðu og urðu úti, óljóst hvað tengist veðri. Lesa má um það í Annál 19.aldar.    

Ítarlegasta árferðislýsingin er í Minnisverðum tíðindum 1803: (s108-112, 114 hafís) Fyrri hluti árs (og aðeins lengra):

Um haustið [1801] var í Barðastrandarsýslu eins og víðast hvar annarsstaðar, allbærileg veðrátta, þó nokkuð vindasöm og óstöðug, en um nýársleytið 1802 umbreyttist hún til kafalda og blota. Strax í fyrstu blotum tók hreint fyrir alla jörð, sem ekki kom til gagns upp fyrr enn í maímánuði. Um sama bil féll veturinn á Ísafjarðarsýslu og var hann þar (eins og um allt land) hinn harðasti, sem menn til mundu, og vissulega harðari og lengri en nokkur á hinni umliðnu 18. öld. Í Strandasýslu lögðust harðindin sumstaðar á með jólum, en allstaðar með þorra og svo geysilegum snjóþyngslum, óminnilegum frostum og margföldum áfreðum, að hvergi sást hin allraminnsta vitund af jörð fyrir útigangspening, og seinast í maí var hún enn þá ekki til hlítar uppkomin; olli þessu að miklu leyti hafísinn, um hvern síðar mun greint verða.

Af því, sem hér er sagt er auðsagt, að vorið á Vestfjörðum mátti í þetta sinn heldur vetur nefna; komu þar sumstaðar ekki tún upp fyrr en undir venjulega sláttarbyrjun, hver veðrátta olli stöku gróðurleysi, og var undirrót fádæmalegs grasbrests á sumrinu 1802, frá hverjum næstu Tíðindum byrjar nákvæmlegar að skrifa. Á sama máta er það hér af augljóst, að þessi óvanalegu harðindi, ásamt undanfarið bágt árferði, hafa eins hér, sem annarstaðar, orsakað hallæri fólks á milli. Víðast hvar bönnuðu ísalög, hafísar og ófærð fólki sjóróður og kaupstaðarferðir, svo mjög fáir þannig gátu leitað bjargar sinnar. Alltsaman þetta var orsök í, að margir um vordaga 1802, flosnuðu upp í öllum Vestfirðingafjórðungi, og kvað það svo rammt að í Barðastrandarsýslu, að börn fóru þar að leita sér uppeldis á húsgangsflakki; var þá líka víðast hvar fé tekið að stráfella, en þótt flestir hefðu farið að skera á þorra, og síðan á ýmsum tímum, en hesta og kýr drápu menn þó sumstaðar niður. Svo bjargþrota fólk í þessum kringumstæðum varð hinum betur megnandi til þyngsla, olli að nokkru leyti þeirra tjóni, sem ekki höfðu hjarta til að sjá nauðstadda bræður allt í kringum sig deyja flokkum saman af hungri.

Veðráttan var í Norðurlandi stirð og og misjöfn frá veturnóttum 1801 fram til jóla, þó nokkru stilltari enn hinn fyrra vetur. Grimmastur skall þessi víðast á um nýársbil, og tók víðast alla jörð af upp til dala, sumstaðar fyrr, t.d. í Fljótum og Svarfaðardal. Í miðjum febrúar var jarðlaust það tilfréttist um allan Norðlendingafjórðung. Þó hafði í Húnavatnssýslu vetur nær því allt þangað til verið hvað skástur, og nóg jörð á svokölluðum Ásum fyrir hross og fé, en jarðskarpara til dala. Eins var lengi frameftir vetri allgóð útiganga í Blönduhlíð í Skagafirði, en dalir þar skyldu þó hafa verið undirlagðir jafnmeiru fannfergi en veturinn 1800 og 1801, svo að jörð, var bönnuð þar skepnum nú, sem hún þá var nóg; en þegar áleið, gengu harðindin eins almennt yfir í Skagafirði sem annarstaðar. Í Vaðla- og Þingeyjarsýslum urðu menn strax, öndverðlega á vetri, að taka bæði hesta og og fé inn á hey, og við það mátti víðast standa fram að (og sumstaðar fram af) sumarmálum; í einstöku stöðum kom þó jörð upp þann 30. mars. Framarlega í Eyjafirði var nokkru fyrr reynt til að hleypa hrossum út, en forgefins, þar þau vildu ekki standa á stundu lengur. Vorið var hér mjög hart og kalt, sem sérdeilis orsakaðist af óvenjulega miklum og langvarandi hafís, fylgdi þessum vorharðindum hræðilegur lambadauði yfir allt, var víðast hvar ekki fært frá fyrr en í 11. viku sumars [júlí], og urðu þá sumir að skera hvert einasta lamb, sem þeir áttu, sökum snjókyngju og gróðurleysis á afréttum. Þriðjudag í nefndri viku [6.júlí] var fyrst hleypt kúm úr fjósi í Fljótum. Hross nokkur féllu í Norðurlandi af hor og harðindum, og fátt sauðfé á einstöku stöðum. Að nú, þennan vetur og vor, sem hvorttveggja var þá harðara en hin nærst umliðnu, drápust færri skepnur en þá, olli fæð þeirra, þar flestir áttu ekki eftir nema þær hörðustu og útvöldustu skepnur, er ekki gátu týnst og fargast af hins fyrra árs harðindum; líka var heyaflinn 1801 (eins og hér að framan er sagt) sæmilegur, og hinn fyrri vetur hafði gjört bændur varsamari en áður með ásetningu skepna á sumarheyin. Vetrinum 1802 fylgdi hér hér gróður- og grasleysi, en bágindi fólks á milli, er voru því þyngri, sem ófærð og aðrar kringumstæður hindruðu velflesta frá vanalegum suðurferðum til sjóróðra og kaupskipakoma varð líka mjög sein.

Á Austfjörðum gnúði vetrarharkan á strax á veturnóttum [1801], með köföldum og snjóþyngslum; þó urðu þar ekki stórkostleg jarðbönn fyrr enn með jólaföstu, og síðan voru allir gripir á heyi, að kalla, fram yfir sumarmál. Fellir varð mikill á fénaði víðast hvar í Múlasýslum, þó mestur í Álfta-, Hamars-, Stöðvar-, Fáskrúðs- og Reyðarfjörðum. Sumarið byrjaði þar með stórviðrum og fannfergi; enda var þar lengst af kuldasamt, og fylgdi þar af grasbrestur í nokkrum sveitum, þó heyjavon væri allgóð í sumum mýrlendum hreppum um miðsumarsbil 1802.

Hér á Suðurlandi var veturinn ekki stórum betri en í hinum landsins fjórðungum, féll hann sumstaðar á upp til dala öndverðlega á jólaföstu - Í Skaftafellssýslum strax með veturnóttum – en í láglendum plássum og við sjóarsíðu, vart eftir nýár, hélt við með iðulegum kaföldum, blotum og frostum langt fram yfir sumarmál, og olli hér (einkum í Borgarfjarðar-, Árness- og Skaftafellssýslum) dæmafáum harðindum. Vorið var yfrið kuldasamt og þurrt, svo grasvöxtur varð á túnum og vallendi mjög seinn og bágur, en víða hvar á engjum og í mýrlendi góður. Miðvikudaginn í 14. viku sumars [28.júlí] var heysláttur almennt byrjaður í Kjósarsýslu.

Fyrir skömmu nefnda ég hafís þann, sem á öndverðum vetri umkringdi Vestfjarða-, Norðurlands-, og Austfjarða-strandir. Sérdeilis kom mikill ís fyrir allar Vesturstrandir, og með honum 2 bjarndýr, af hverjum annað kom á land í Trékyllisvík, og var, eftir nokkurra daga dvöl í fiskihjöllum, lagt að velli, urðu menn þó þar varla varir við nokkurn trjáreka, er ísnum fylgdi. Héðan fór hafísinn um höfuðdag 1802. Um Jólaleytið 1801 sást hann frá mörgum stöðum í Þingeyjar-, Vöðlu- og Hegranessýslum, en litlu fyrr frá Vopnafirði og Langanessströndum, og skömmu seinna umkringdi hann öll annes í Norðlendingafjórðungi og nefndum byggðarlögum. Þann 14. ágúst 1802 fór ísinn fyrst burt af Skagafirði, um sömu daga af Húnafirði, en fullri viku síðar af Eyjafirði. Þá björg, sem Skagfirðingar eru vanir að hafa af fuglaveiði og eggjatekju kringum og á Drangey, samt fiskiafla og sérdeilis hákarlsveiðar, fyrirmunaði og bannaði ísinn algjörlega. Líka tálmaði hann mikillega komu danskra kaupskipa, svo 2 af þeim náðu ekki Eyjafirði fyrr en þann 29. ágúst, og urðu þó þangað skipa fyrst; hafði annað þeirra átt langa og harða útivist í 17 vikur, og verið 14 daga blýfast í hafís fyrir framan Langanes. Fáum dögum áður komu 6 Norðurlandsskip inn að Hrísey á Eyjafirði, en komust þá ekki lengra fyrir jökum. Eitt af Spákonufellshöfða skipum varð, vegna hafíss, að fara inn á Vopnafjörð og létta þar af sér farmi, sem að mestu leyti var innifalinn í matvörum, og sigldi þaðan heim aftur til Kaupmannahafnar.

... (s121) Síðan varð í Norðurlandi þann 12. janúar 1802 vart við jarðskjálfta, sem þó hvergi orsakaði húshrun eður viðlíkan skaða.

Brandsstaðaannáll [vetur]:

Varð mikið neyðarár. Á sunnudaginn 29. janúar hlóð niður stórfönn í sunnanhríð. Kom þá fé á gjöf. 17. hleypti bloti í gadd, og komu þá öll hross á hús og hey. Ísinn rak þá fast að landi. Á Pálsmessu [25. janúar] og í miðþorra [um 5. febrúar] voru mestar hríðar og fannalög orðin mikil. Í Holti [þar sem faðir annálsritans bjó] var 15 faðma langur snjórangali í brunninn. 25. febrúar gjörði mikinn vatnshríðarblota, hleypti í krapi, og þar ofan í norðanhríð með bitru frosti, sem bræddi yfir og svellaði allt. Aftur blotaði 10. mars allmikið, en vann (s40) ei á, og svo í marslok. Veður sífellt frosta- og kafaldasamt.

Brandsstaðaannáll [vor]:

Fyrir páska [18.apríl] gjörði hláku, er vann ei á utan hnjóta móti vestri, en páskadagana, 18.-19. apríl, var mesta vestan fannkomuhríð, svo ei var éljaskil 4 dægur. Skafhríðin var eins á þriðja. Var þá sú fönn komin mót austri, að enginn hafði séð því líka. Ennþá var á sunnudag, mánudag og þriðjudag fyrsta í sumri [25. til 27.apríl] sífelld norðanhríð með fannkomu og brunafrosti. Fór þá að bera á heyleysi og treiningi. Lifðu þá víða hross við lítið. Síðan bjartviðri með hörkufrosti. Sást þá ei munur á hafi og jörð, hæðum og dalverpi, brekkum, giljum og brúnum. Allt var slétt, yfir þakið með harðan snjó, svo sleðafæri var hið besta, en bágt var orðið að fá hey við þessi ódæmi. 2 maí kom mikil hláka í 5 daga. Urðu vandræði mestu að verja hús og bæi, er allt var sokkið í gaddinn, ásamt litlu heyi í tóftum, fyrir vatnsgangi, þá allt neðra hljóp í krap, en náði ei framrás utan með miklum skurðum og mokstrum. Við þetta komu aðeins upp litlir jarðarrindar mót vestri, en enginn móti austri. Eftir það hjarnaði aftur, en úr því lifðu hross og sauðir, sem vel gátu borið sig. Þokur, frost og slyddur gengu út maí. Rýmdi mest um jörð að neðan af rennsli og jarðvarmi. Á þeim tíma var hestum vart við komið, því gaddur var holur, þó svell sýndist yfir. Samt tók upp nokkuð með köflum, svo í fardögum sá á 3 þúfur í Gaflsvelli.

Brandsstaðaannáll [sumar]:

... í fardögum sá á 3 þúfur í Gaflsvelli. Þá gjörði drápshríð mikla. Stóð þá sumstaðar fé málþola inni, en þar hey var eftir, gekk það nú upp, því margir voru þá þrotnir. ... Eftir hvítasunnu [6.júní] fóru ær algjörlega út og í 8. viku sumars [10. til 16.júní] var brú á Blöndu og ís á vötnum öllum og ýmsum ám. (s41) ... Loks var fært frá eftir Maríumessu [2.júlí], lömb setin, aldrei rekin á fjall. Kýr, sem gefið varð, fóru út í miðjum júní. Þá linnti fyrst frostum og kulda. Hross og sauðir stóðu við um 15-16 vikur. Miklar skemmdir urðu á úthaga við vatnsgang og flóð 15.-17. júní. Annars tók aldrei upp gadd í giljum og austan undir brekkum og Hrafnabjargartúni allt sumarið. Jörð á heiðum og fjallendi fúnaði til skemmda og tapaðist þar gras og kvistur, en varð upptök að foksandi. Jökulbreiður voru yfir öll fjöll og hafísinn fór í ágústlok. Grasleysi var hið mesta. Sláttur byrjaði í 15. viku sumars [29.júlí til 4. ágúst]. Þá var þurrkatími, nýting besta, en heyafli hinn minnsti. Skást var sinumýrlendi mót vestri og deiglend tún. Við heyskap var verið til jafndægra, þar sinureytingur fékkst. Ekki kom frostlaus nótt til fjalla. Snemma i september 3. daga hret. ... Grasfengur varð lítill, um mitt sumar einasta. (s43)

Geir Vídalín fjallar um tíðina í bréfi:

Lambastöðum 30. september 1802 (Geir Vídalín biskup): Veturinn sem leið var sá harðasti yfir allt land, sem nokkur man, og líklega síðan hvítavetur [1633]. Vorið sambauð honum, svo enn nú um Jónsmessu var Mosfellsheiði alls ófær fyrir snjó. Sumarið þurrt, svo hér hefur ekki verið regn yfir 3 daga. Á túnum og harðvelli hefur grasbrestur verið, víðast allt til helminga, en mýrar spruttu vel síðast, svo í Flóa og Ölvesi skal vera ágætlega heyjað, en báglega til fjalls. Haustið hefur verið gott, allt til þessa, en afli mjög lítill hér um pláss. (s29)

Gytha Thorlacius sýslumannsfrú á Eskifirði segir frá í endurminningum sínum (Erindringer fra Island):

Det følgende Foraar (1802) var meget strængt. Ved Paaske kom „den grønlandske Haviis", der medfører en overordentlig Kulde, og kuer alle Væxter, saa at Foraar og Efteraar synes at ville reekke hinanden Haanden, og ganske udelukke den længe med Længsel forventede korte Sommer. Den dannede en Bro flere Mile ud i Havet, og endnu ved St. Hansdag bespændte den Eskefjord. Dog var der smale Aabninger mellem Isen, gjennem bvilke man med Forsigtighed kunde seile.(s15)

Í lauslegri þýðingu: „Eftirfarandi vor (1802) var mjög hart. Grænlandsísinn kom um páska. Með honum kemur yfirgengilegur kuldi sem kvelur allan gróður þannig að vor og haust virðast takast í hendur og algjörlega útiloka hið langþráða stutta sumar. Ísinn myndaði brú fleiri mílur (dönsk míla er rúmir 7 km) á haf út og á Jónsmessu fyllti hann enn Eskifjörð.

Brandsstaðaannáll [haust og vetur til áramóta]:

1. október gjörði nær því vikuhríð með stórfenni, svo vatnsföll voru lengi ófær og vegir ófærir. Með vetri tók það vel upp og varð gott í nóvember. Með desember hríð og harðviðri. Jörð varð vel notuð til nýárs. (s42)

Frásögn Minnisverðra tíðinda heldur áfram í  2. tölublaði (s224-232):

Með tilliti til veðurlags og árferðis, var meirihluti sumarsins 1802, á Suðurlandi mjög kaldur, eins og vorið verið hafði, svo frost og snjóar gengu hér, sérdeilis nálægt fjallbyggðum, í miðjum júlímánuði, einkum þann 19. þess mánaðar, þá verulegt kafald gjörði. Víðast hvar var, eins og áður er ádrepið, grasvöxtur mjög bágur, nema á fáeinum mýrlendisjörðum, einkum í Kjósarsýslu, hvar hann var í betra lagi, en hreinveðurs vegna mestan parts sumars varð nýting hin besta. Um haustið, nálægt Mikaelsmessu, gjörði fáheyrða frosta- og snjóa-skorpu, á þeim árstíma, með geysilegum kafaldshríðum, er urðu nokkrum mönnum að bana. Afleiðingar þessa veðrabáls urðu þó ekki fénaði svo banvænar, sem fólk í fyrstu uggði, því góð og bráð hláka fylgdi honum á eftir.

Um árferði til lands á þessum tíma, gengu misjafnar fréttir úr þeim víðlenda Vestfirðingafjórðungi: Í Mýrasýslu tjáðist grasvöxtur víðast hvar sæmilegur, og nýting hin besta. Í Snæfellsesssýslu heyafli í minna lagi. Í Dalasýslu hermdist sumarið mjög kalt, svo að þær nætur voru fleiri, sem fraus, jafnvel í byggð, og stundum varð svo mikið fjúk og frost um hádag, að varla var vinnufært úti. Þessi harða sumarveðrátta varaði allt til haustjafndægra; grasbrestur var hinn mesti á túnum, og þau til stórskemmda kalin. Vott útengi spratt nokkuð, en allt harðlendi var svo að segja graslaust. Það lítið, sem fékkst af heyjum, nýttist þó bærilega, en horuð málnyta gjörði lítið gagn. Fyrrnefnt Mikaelsmessukast geisaði hér, eins og í nálægum sýslum, með mestu snjókomu; urðu þá sumstaðar töluverð hey úti, og komu síðan að litlu liði; misstist einnig sauðfé nokkurt. Í Barðastrandarsýslu féll heyskapur út miklu betur, en menn áður gátu ímyndað sér, er mest orsakaðist af æskilegustu veðurátt, er gekk þar mestan hluta sumars, og stöðugum þurrkum frá sláttarbyrjun, svo heyja nýting varð þar hin besta. Í Ísafjarðarsýslu fylgdi aftakshörðu vori – svo að ísalög ekki tóku af jörðum, fyrr en eftir messur, hver svo höfðu verið samföstuð orðin, að eftir kóngsbænadag [14.maí] urðu fiskiskip að setjast úr Vatnsfirði á ísi útá Snæfjallaströnd, nær því þingmannaleið vegar - kalt og þurrt sumar, með náttfrostum og grasleysi, hafís fyrir Ströndum og stórköföldum við sjóarsíðu, einkum seinni part ágústmánaðar, með fannfergi og bitrum frostum; áttu þá margir hey úti; en skömmu seinna leysti snjóinn upp, og varð því þá að nokkru leyti heimkomið. Úr Strandasýslu fluttust sorglegar fréttir um veðráttufar sumars þessa: frost og kuldi og snjór er sumstaðar lá á túnum fram á engjaslátt, hindraði grasvöxtinn svo, að hann varð loksins óvenjulega lítill, og norðarlega víða nær því enginn, þar eftir fór heyskapurinn í þokum og votviðrum, enda var ljár óviða borinn á gras utangarðs, nema sinuforæði, þar til þeirra náðist, og urðu þesskonar heyföng mjög léttvæg. Óvenjulegt kafald og hörkufrost sem innféll frá 17. til 20. júlí, neyddi nokkra í Árnessókn til að gefa kúm og sauðfé fisk til fóðurs, eins og menn víða hvar, á næsta gegnum harða vetri, höfðu, af heyskorti, gefið peningi sínum, til lífsbjargar, harðan fisk, hákarl, hval og lýsi, og jafnvel mjólk. Um Mikaelsmessu [29.september] féll aftur snjór mikill, og byrgði hey, er víðast úti lá, svo það aldrei síðan náðist, nema vott og freðið uppbarið úr klaka. Hláka sú er fylgdi kasti þessu á Suðurlandi, varð hér að engum notum.

Í Norðurlandi fylgdi hörðu og gróðurlitlu vori, kalt og óveðrasamt sumar, heyjabrestur og bág nýting. Í Þingeyjarsýslu var einkum graslendið stakt, og veðráttu harka ekki minni, svo sumarið var sannkallaður vetur. Gekk þá staðföst norðan átt, hörku krapahríðir og áfelli á víxl, en aldrei náttúrlegt sumarregn eða landvindar, að undantekinni einni viku, samantöldu öllu þessu sumri. Peningur var þar mjög gagnslítill sumarlangt, og hafís allsstaðar landfastur til höfuðdags (29.ágúst). Heyafli samsvaraði þessu, svo á einni, annars sæmilegri, jörð, fegnust t.d. eftir 4 sláttumenn, einungis 100 hestar af moðsalla. Norðurpartur sýslunnar var þá um haustið gjörfalinn að nautpeningi, og öll matvara útfeld í Húsavíkurkaupstað seinast í september, þá fæstir höfðu fengið svo mikið sem þörf krafði.

Austfjörðum viðvíkjandi, var sumar þetta í Norður-Múlasýslu, eins og næst undanfarið vor og vetur, eitt hið harðasta í elstu manna minni. Í norðurhluta hennar greru ekki tún og úthagi fyrr en eftir miðsumar, sökum sífelldra stórhríða og hörkufrosts, nálega dag sem nótt. Grasvöxtur varð því mjög vesæll, svo fáir fengu meira hey enn naumlega til kúnna, til hvers heyafla í þeim fjársveitum þykir lítið koma – og urðu margir því að skera þær, sér til stórs skaða. Með Mikaelsmessu gjörði hér, sem annarstaðar um land, mikið áfelli, varð þá að mestu leiti jarðlaust, og undir snjónum það lítið er laust var af útheyi, einkum í Vopnafirði, norður um Strandir og Langanes. Heyleysið, og hið harða haustáfelli, gjörði, að margir förguðu flestu eftirlifandi fé sínu, bæði í kaupstað og heima, jafnvel þó lítið frálag væri í því, þar flest ekki var betur en mergjað, og svo kvað rammt að á einum bæ, hvar slátrað var 30 fullorðins fjár, meðal hvers 10 sauðum gömlum, að ekki fékkst úr öllu því fullt kvartil tólgar. Í Suður-Múlasýslu, hvar vorið hafði verið sömu artar, kom varla daggardropi úr lofti sumarið út, heldur nokkrum sinnum krapi og snjór, með sífeldum sterkum landnyrðingum, oft heitu sólskini um daga, en hörðu frosti um nætur. Grasbrestur varð því hér stór og nýting hin versta; varð því, ofaná hinn stórkostlega sauðafjárfelli veturinn fyrir, fólk að skera niður fjölda kúa um haustið.

Veðráttu vetrarins til jóla lýsa Minnisverð tíðindi í umfjöllun um árið 1803 (innan um afgang vetrarins). Við birtum þá frásögn í pistli „af árinu 1803“. 

Espólín: XCI. Kap. lýsir árinu svo:

Með veturnóttum [1801] lagði þegar að vetur mikinn fyrir norðan og austan land, og helst eystra, og jafnvel syðra, með hríðum og snjóaþunga, öndverðlega á jólaföstu, en með nýári gnúði hann á víðast um allt land, og var hinn harðasti, tók fyrir jörð alla í hinum fyrstu blotum, og kom víða ei upp aftur fyrr en hálfur mánuður var af sumri [í maí]; gengu blotarnir allan veturinn milli hverrar hríðar; enginn maður mundi þá jafnharðan vetur og langan. Var jarðlaust í Strandasýslu, og kom ei upp til hlítar fyrr en mánuður var af sumri, svo var og víðar. (s 121). Bönnuðu ísalög, hafísar og ófærðir, bjargir allar, og flosnuðu margir upp vestra. Í dölum öllum norðanlands var jarðbann mikið, en þó best í Húnavatnssýslu, en í Eyjafirði voru harðindi mikil, og norður þaðan frá. Eystra var engin jörð fram um sumarmál, svo var og víða syðra, helst í Borgarfirði, Árnessþingi og Skaftafellsþingi. (s 122). Hafísar miklir lágu fyrir landi vestan, norðan og austan, og komu á þeim tveir birnir vestra, var annar unninn í Trékyllisvík. Var þá hinn mesti vorkuldi með hríðum, og aldrei hlýnaði á því sumri eftir, svo telja mætti, og spratt mjög illa, en fiskitekja var sumstaðar, og eigi síst fyrir norðan, og mikil síldarganga á Eyjafirði. (s 122). Hvali rak víða fyrir norðan. (s 122).

Jón Jónsson á Möðrufelli er nokkuð langorður um veður og tíð á árinu - en ritstjóri hungurdiskar ræður illa við lestur á hönd hans (þó hún sé hér skýrari en oft var síðar). Við reynum þó að ná orði og orði á stangli.

Janúar var allur mjög harður vegna jarðbanna, tvo blota gerði. Febrúar allur mjög harður og allstaðar jarðbönn. Mars einnig harður - mest af jarðbönnum. Apríl á sama hátt, sólbráð nokkur, en líka hríðar og snjókoma. Um miðjan maí segir Jón að almenningur sé kominn í allra stærstu nauð því margur sé uppiskroppa orðinn. Júní var sárbágur og júlí ogso mjög bágur, ágúst kaldur. Október oftar harður og stirður en þó komu góðir kaflar í bland en 2 áhlaupastórhríða. Nóvember allur mikið stilltur og góður að veðráttufari. Desember í meðallagi, (ástöðuveður sæmilegt oftast), jörð nokkuð óskemmd í rót. Að lokum segir hann að þetta afliðna ár megi teljast fullkomið harðindaár.

Svipað er með það sem Sveinn Pálsson skrifar. Hér eru sundurlausir punktar frá árinu 1802:

Þann 9.janúar jöklafýla, 20.janúar snjór í mið læri. Þann 31.mars getur hann um vatnsflóð og mikið hafi þiðnað daginn áður. Um vikuna 9. til 15.maí skrifar hann (lauslega þýtt hér úr dönsku): Þessa viku mikið frost, kuldi. Norðan og norðaustanblástur. [Þjórsá ennú á gaddís]. 25.maí Blátt mistur í austri, 31.maí Eldmistur í austri. Þann 5. júní segir af rekís vestur fyrir (Reynis)Dranga að landi og meðfram ströndinni til vesturs. Sömuleiðis milli Eyja og lands. 10. júní. Rekís með allri ströndinni. Næturfrost þann 25.júní og þann 29. segir hann að frosið hafi á vatni í nótt. Þann 3.júlí snjóaði í fjöll. Þ.19. segir hann (eftir fréttum kannski - en 28.segist hann þó hafa komið heim að sunnan) að alsnjóa hafi orðið í sjó á Kjalarnesi. Þann 24.júlí segir hann um undangegna viku að fyrst hafi verið mikill kuldi og snjór síðan mildara veður (snjó hefur þó varla fest í Kotmúla). Þurrt var flesta daga í ágúst, en oft ryk og kólga. Talsvert næturfrost gerði nótt eftir nótt um 20.ágúst. 10.september segir hann að vötn hafi spillst af frosti. 29.nóvember var sterk jöklafýla. 22.desember ofsaflóð.

Hér stingur Jón Hjaltalín upp á nafni á veturinn:

Blota fanna sendir sá
svells um hvanna reita,
lýsing fanna liðinn á
Lurkur annar heita.

Þórarinn í Múla er efnislega sömu skoðunar í sínum vísum og líkir sumrinu við meðalvetur:

Lurkur títt um landið vítt
lék í þjóð-minningum
þessi par ei vægri var
vetur, að fanna dyngjum.

Harðindin og hafviðrin
hótuðu grimmum dauða
væri heyja-aflinn ei
eins til hesta og sauða.

Þorri og góa með þungum snjó
þegar niður hlóðu
hafís-þök með hörku blök
hring um landið tróðu.

Ærsli hríðar enn nú stríð
einmánuður þreytti
ekki hót á böli bót
byrjað sumar veitti.

Á út-kjálkum óárs bálk
allt fram dró að messum
engin jörð en áföll hörð
oft á tíma þessum.

Vetrartíðin var óblíð
vorið snautt af góðu
misseri heilt við hey óveilt
hestar víða stóðu.

Sumarið allt var sára kalt
sinnti ei högum betur,
enn meðal ára margur klár
mildur og góður vetur.


Haustið eins var mjög til meins
mengað fjúka rokum
heyaflinn var harðsnúinn
harla rýr að lokum.

Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um árið 1802. Sigurði Þór Guðjónssyni er þakkað fyrir innslátt Brandstaðaannáls og Hjördísi Guðmundsdóttur fyrir innslátt Árbóka Espólíns (stafsetningu hnikað hér - mistök við þá aðgerð sem og allan annan innslátt eru ritstjóra hungurdiska). Örfáar tölur í viðhengi.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • w-blogg170725
  • w-blogg110725b
  • w-blogg110725a
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.7.): 23
  • Sl. sólarhring: 226
  • Sl. viku: 1323
  • Frá upphafi: 2485999

Annað

  • Innlit í dag: 21
  • Innlit sl. viku: 1167
  • Gestir í dag: 20
  • IP-tölur í dag: 20

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband