Færsluflokkur: Vísindi og fræði
11.4.2021 | 01:49
Fyrstu tíu dagar aprílmánaðar
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 03:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.4.2021 | 03:19
Óvenjukalt í Alaska
Óvenjukalt er nú í Alaska, heimamenn tala um metkulda (en hér erum við langt frá metum - alla vega enn). Lítum á hefðbundið háloftakort - það er greining evrópureiknimiðstöðvarinnar á hádegi í dag (fimmtudag 8.apríl).
Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins heildregnar - af þeim ráðum við vindstyrk og stefnu. Litir sýna þykktina en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Fjólubláu litirnir eru kaldastir - ef vel er að gáð eru þeir þrír, sá dekksti sýnir lítið svæði þar sem þykktin er minni en 4800 metrar. Það er talsvert lægra en nokkurn tíma hefur mælst hér við land. Það er tvennt sem er óvenjulegt. (i) Óvenjulegt að sjá þrjá fjólubláa liti á kortinu í apríl - kemur þó fyrir, en dekksti liturinn þekur þá alltaf lítið svæði og lifir aldrei lengi. Ef við þó gerum ráð fyrir því að hann beri einhvers staðar niður - eru líkurnar á því að einhver ákveðinn staður verði undir afskaplega litlar (ii), Norðuríshaf og strendur þess eru víðfeðm. Hvar sem svona lág þykkt verður (á þessum árstíma) verða kuldamet nær óhjákvæmilega slegin - það er líklegt að áratugir líði á milli þess að einhver ákveðinn staður verði fyrir - jafnvel þó kuldi af þessu tagi sé ekki einstakur - einhvers staðar.
Þessi kuldi lifir væntanlega ekki lengi - en samt nægilega til þess að við verðum að gefa Stóra-Bola og hreyfingum hans á næstunni gaum. Sá kuldi sem nú ríkir hér á landi er - eins og við sjáum - eins konar afleggjari kuldans í Norður-Íshafi. Þykktin yfir landinu í dag var um og innan við 5060 metrar (um 13°C hærri en nærri miðju Stóra-Bola). Það er óvenjulegt í apríl - en langt í frá einstakt.
Eins og nefnt hefur verið á þessum vettvangi áður er þó mesta furða að veðrið skuli ekki vera verra heldur en það er. Svo virðist sem lítillega hlýni næstu daga en veður haldist lengst af skaplegt í byggð (fylgist þó með spám Veðurstofunnar). Versnandi veðurlags er fyrst og fremst að vænta sæki hlýtt loft að úr suðri - eða jaðar Stóra-Bola úr norðri eða vestri.
7.4.2021 | 17:32
Norðvestanáttin fláráða
Um þessar mundir er norðvestanátt ríkjandi í háloftunum við landið og útlit fyrir að það ástand haldi áfram - að vísu með einhverjum tilbrigðum eins og gengur. Lægðardrög berast úr vestri yfir Grænland og svo ýmist austur, suðaustur eða suður yfir Ísland. Köld norðanátt steypist yfir landið í kjölfar þeirra allra. Miðað við kuldann sem kom með páskadraginu kemur það þó á óvart að veðrið skuli þó ekki vera verra heldur en það er.
Drag er við landið í dag (miðvikudag 7.apríl). Norðanáttin í kjölfar þess er að vísu nokkuð snörp - veldur vetrarveðri - en virðist eiga að ganga fljótt hjá. Næsta drag verður síðan í undirbúningi síðdegis á föstudag - eins og kortið hér að neðan sýnir.
Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar, þykkt er sýnd með litum. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því minni sem hún er því kaldara er loftið. Kuldapollur er yfir Austurlandi - leifar norðanáttar lægðarinnar sem er við Vesturland í dag - en lægðin sjálf verður á föstudaginn komin til Noregs.
Næsta lægðardrag er hér við Vestur-Grænland - fer yfir jökulinn aðfaranótt laugardags og lægð myndast á Grænlandshafi. Eins og spár eru í augnablikinu er gert ráð fyrir öðru lægðardragi strax í kjölfarið - sem sameinist því fyrra og valdi nokkuð snarpri norðanátt upp úr helginni.
Kuldinn á þannig að halda áfram. En eins og áður sagði hefur samt farið til þess að gera vel með veður til þessa - miðað við stöðu og tilefni. Vonandi að slíkt haldi áfram.
En útnorðanátt í háloftum er mjög fláráð og getur með skömmum fyrirvara farið að sýna á sér hinar verstu hliðar - þannig að rétt er að fylgjast vel með.
Kuldinn þessa dagana hefur verið fremur óvenjulegur fyrir aprílmánuð - sé miðað við síðustu áratugi. Aðeins einn apríldagur á öldinni hefur verið kaldari - á landsvísu. Það var 7.apríl árið 2005 - einnig í snarpri háloftanorðvestanátt. Sú staða stóð hins vegar aðeins þann eina dag.
Í eldri gögnum - aftur til 1949 finnum við 24 kaldari apríldaga heldur en nú. Kaldastur þeirra var auðvitað hinn illræmdi 1.apríl 1968 - honum fylgdu 2 aðrir kaldari en nú. Sá næsti á undan þeim 2005 var 1991 - en á árunum 1949 til 1991 komu kaldari apríldagar í 12 árum (af 53) - svona fjórða hvert ár. Varla mjög óvenjulegt.
Tíðnin í Reykjavík er ekki ósvipuð - frá 1990 er aðeins einn apríldagur kaldari en nú (7. 2005) og 14 ár á tímabilinu 1949 til 1991 skreyta sig með að minnsta kosti einum apríldegi kaldari en nú. Frá 1871 eru slíkir dagar hins vegar 69 (fáeina aprílmánuði vantar), kaldastur 1.apríl 1886 - ómarktækt kaldari heldur en sá 1. 1968.
Fyrstu 3 dagar mánaðarins voru hlýir nú þannig að meðalhitinn er ekki enn kominn á aldarbotninn - en mun væntanlega ná honum fljótlega haldi kuldinn áfram.
5.4.2021 | 14:14
Mars í háloftunum
Tíð var hagstæð í nýliðnum mars (eins og fram kemur í yfirliti Veðurstofunnar) og hiti vel yfir meðallagi. Við lítum nú á hitavik í neðri hluta veðrahvolfs.
Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar, daufar strikalínur sýna meðalþykkt, en litir þykktarvik, miðað við tímabilið 1981 til 2010. Eins og sjá má var hiti nærri meðallagi víðast hvar við norðanvert Atlantshaf - en nokkuð ofan þess við Ísland. Við Austurland er vikið mest um 65 metrar - það segir okkur að hiti í neðri hluta veðrahvolfs hafi verið rúmum 3 stigum ofan meðallags 1981 til 2010. Hér á landi er meðaltalið 1981 til 2010 um -0,5 stigum lægra heldur en nýja meðaltalið 1991 til 2010 - og líklega á svipað við um neðri hluta veðrahvolfs.
Við þökkum Bolla P. að vanda fyrir kortagerðina.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 14:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.4.2021 | 04:09
Kaldur dagur
Páskadagur, 4.apríl, var kaldur í ár. Meðalhiti í byggðum landsins var -6,8 stig, sá lægsti sem við vitum um þennan almanaksdag - við eigum meðaltal aftur til 1949. Sami dagur í fyrra (2020) var líka kaldasti 4.apríl á sama tímabili, meðalhiti þá var -5,9 stig. Slatti af öðrum dögum hefur þó verið kaldari í apríl heldur en þessi - bara ekki hitt á þann fjórða. Kaldastur var 1.apríl 1968, meðalhiti þá var -12,7 stig og síðan koma 10.apríl 1963 með -10,7 stig og 2.apríl 1953 með -10,1 stig.
Við eigum lengri raðir fyrir Reykjavík - þar var meðalhitinn sá fimmtilægsti meðal almanaksbræðranna (4.apríl) - sá lægsti síðan 1921. Á Akureyri var hitinn sá lægsti 4.apríl síðan 1990.
Lágmarkshiti dagsins var sá lægsti á árinu (og vetrinum öllum) hingað til á allmörgum veðurstöðvum. Það er ekki sérlega algengt að kaldasti dagur vetrarins sé í apríl, en gerist þó rétt endrum og sinnum. Um slíkt hefur verið lauslega fjallað áður á hungurdiskum - og fyrir hefur komið að apríl hefur verið kaldasti mánuður ársins (1953).
Viðbót:
Eins og nefnt er að ofan var meðalhiti gærdagsins í byggðum landsins -6,8 stig. Hann var þó ekki kaldasti dagur ársins til þessa því þann 10.janúar var sólarhringsmeðalhitinn -7,4 stig. Við vitum ekki enn hver meðalhiti dagsins í dag (5.apríl) verður - og er enn rétt hugsanlegt að hann verði ámóta kaldur.
Það rétt ber við að apríldagur er sá kaldasti á árinu (á landsvísu), við vitum alla vega af 2.apríl 1953 og 10.apríl 1963. Engir aðrir dagar þeirra ára voru kaldari. Svipað var með 7.apríl árið 2005. Það var kaldasti dagur ársins sé miðað við mönnuðu stöðvarnar eingöngu, en hann var sá næstkaldasti á sjálfvirku stöðvunum.
Það hefur gerst aðeins einu sinni í Reykjavík að apríldagur hefur verið sá kaldasti á árinu (sólarhringsmeðalhiti). Það var 1953. Í Stykkishólmi gerðist þetta 1901, 1914, 1925, 1953 og 1963. Við höfum upplýsingar frá Akureyri aftur til 1936. Þar var 2.apríl 1953 kaldasti dagur ársins - eins og í Reykjavík og Stykkishólmi. Á Stórhöfða í Vestmannaeyjum vitum við um 4 tilvik eftir 1948, það var 1953, 1963, 1968 og 2005.
Athugið að hér er miðað við sólarhringsmeðalhita en ekki lágmarkshita - við athugum hann e.t.v. betur síðar.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 14:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.4.2021 | 22:01
Af árinu 1801
Tíð var erfið á árinu 1801. Veturinn var snjóþungur og jarðbönn mikil. Mars var illviðrasamur. Sumarið var mjög óþurrkasamt syðra, en nýting góð norðanlands og austan. Hitamælingar Sveins Pálssonar í Kotmúla eru þær einu sem vitað er um að hafi varðveist, en mælir hans brotnaði í maí og féllu mælingar niður eftir það. Hann getur þó sérlega kaldra og hlýrra daga. Við giskum á að ársmeðalhiti í Stykkishólmi hafi verið um 2,4 stig. Mars var mjög kaldur, og janúar og apríl einnig fremur kaldir, febrúar hlýrri.
Hér að neðan eru helstu heimildir um tíðarfar og veður á árinu. Ítarlegust er frásögn Minnisverðra tíðinda (nokkuð ruglingsleg þó á köflum), samantekt Brandstaðaannáls er einnig góð, en Espólin tyggur að mestu eftir Tíðindunum. Jón Jónsson á Möðrufelli og Sveinn Pálsson skráðu veður daglega auk þess að draga það saman viku- og mánaðarlega. Mjög erfitt er hins vegar að lesa þessi handrit - og ekki víst að þau brot sem hér birtast séu rétt eftir höfð.
Minnisverð tíðindi: (1801, s414-417) rekja tíðarfar ársins:
Vetrarfarið frá nýári 1801. mátti heita, eins og ég umgat bls. 417. víðast um landið allgott heita til miðgóu, en með þeim 11.mars lagðist vetrarríkið algjörlega að með ofsa kafalds-kyngjum og uppfrá því sífelldum ofviðrum, ísalögum og fjúkbyljum, allt til þess 13. apríl, svo varla mátti kafalds-hríða upprof kalla, eða gegnt bæja á milli, án lífsháska. Margan skaðræðis-byl , mátti þá telja hér og hvar um landið um seinni hluta marsmánaðar, þó eru hvað orðlagðastir þeir, sem tilféllu fyrrgreindan 11.mars og á góuþrælinn [23.mars]. Fyrra daginn fylltust allar Norðurlands og Vestfjarðahafnir, firðir og sjáarstrendur með grænlenskum hafís, sem loks umspennti allt landið norðanvert, jafnvel frá Barðastrandasýslu vestra allt suðaustur á Reyðarfjörð í Suður-Múlasýslu, langt fram á vor, allt undir Jónsmessu og sumstaðar lengur. Þá varð úti í geysilegu kafalds-áhlaupi fjársmali í Hítardal með 161 af rosknu fé, af hverju hér um 30 alls fundust með litlu lífi á 3ja degi, ásamt smalamanni tórandi. Um hann get ég framar þegar slysfarir nefni. Þá hrakti í sjóinn og fórust 40 fjár frá Hamraendum í Hraunhrepp í Mýrasýslu, á Svarfhóli þar misstust um 30 fjár, á Staðarhrauni 17, mestallt fé á Litla-Fjalli í Borgarhrepp, og nokkuð í Þverárhlíð, allt í sömu sýslu. Hvort heldur þessi sami kafaldsbylur, eða góuþrælsbylurinn, ellegar aðrir þar á milli, ellegar Allraheilagra-messu kastið þann sama vetur [haustið 1800], orsakað hefir hið mikla fjártjón, er varð á Vatnsnesi, á Torfalæk, á Hjaltabakka, en einkum í Vatnsdal á Haukagili (allt í Húnavatnssýslu) hvar allt sauðfé efnugs sauða-bónda Jóns Ísakssonar, að sögn hérum bil 200 fjár, eður fleira, varð úti, áfram hirðinum Sæmundi Guðmundssyni, efnilegum ungum manni giftum, er mér ekki tilnefnt; hann minnist ég síðar ásamt öðrum slysförum, en ef sauðkindunum er mælt, að einar 9 hafi lifandi fundist. Góuþrælsbylurinn varð víða um landið skaðvænn, en þó einkanlegast, á sjó, hvers ég síðar mun geta undir eins og slysfaranna.
Vorbati náttúrunnar kom ekki fyrr en að liðnum fardögum sunnan- og vestanlands, og þó var vorið sárkalt og gróðurlítið, en norðan- og austanlands kom hann ekki fyrr enn eftir Jónsmessu, þegar hafísinn var þar loksins viðskilinn. Vetrarfarið hafði í Múlasýslunum verið áþekkt því, sem sagt er um Norðurland, og varð því fyrir norðan og austan, hvar jarðbönn lengst af haldið hefðu við frá allraheilagramessu, stórfellir penings bæði á hestum og kúm, en þótt vægari enn sauðfénaðarins, af hverjum hr. Amtmaður Stephán Þórarinsson telur að þá hafi fallið í sínu amti hérum 50 þúsund fjár. Í Skagafjarðar-sýslu varð hrossafellirinn einna mestur, jafnvel í vornæðingunum 1801. En Norður-og Austurland þarf ekki til að taka í þessu tilliti, því fellirinn varð því nær eins stórkostlegur á sauðfé og hrossum víða um Suður- og Vesturland, þó vægur og lítill til margra dala, eins og á Norðurlandi. Nokkrar sveitir misstu alls ekkert, aðrar mikið og þannig reyndist það í Skaftafells- og Rangárvallasýslum, í efra parti Árnessýslu féll lítið, í öllum neðra eður fyrri hluta hennar stórmikið, eins og um Mosfellssveit og Kjalarnes, Borgarfjörð, Mýrar og allt Vesturland, þó féll þetta ár lítið í Strandasýslu, og Vestmannaeyjar kenndu ekki á fellinum. Köldu, næðingasömu og kafaldskastasömu vori 1801, fylgdi, að líkindum, lélegur og lítill gróður allvíða, þó náði hann um Norður- og Vesturland sumstaðar meðallagi, nýting heyja varð þar og betri, en á Suðurlandi og eystra víðast hvar aumur gróður, einkum á útengi, og nýting hálfu verri. ...
Þess gat ég, bls. 421, að Grænlandshafís hafi þann 11.mars 1801 fyllt upp Norðurland og Vestfjarðahafnir og firði. Af því hlutu margir í Bolungarvík þeirri ystu og helstu verstöðu við Ísafjarðardjúp ærinn baga. Þann 21.apríl eður mánudag síðastan í vetri 1800, rauk á mesta ofsaveður af norðri. Þá týndust 3 skip úr Staðarsveit nálægt Jökli, 2 þaðan hröktust, og öll önnur náðu báglega lendingu. Úr þeim þremur, sem týndust voru 2 áttæringar og 1 feræringur, og á þeim 22 manns, flestir úr Dalasýslu. Góuþrællinn hefur oftar en einu sinni á Suðurlandi orðið mannskæður sjófarendum og svo varð hann árið 1801. Fullgreinilega eru mér ekki tilkynnt hans skaða tilfelli, því set ég hér, hvað mér hefir eftir ýmsum um þau borist, nefnilega: að þá hafi 3 skip farist í Höfnum, með 15 manns á, bátur með tveimur mönnum í Garði, og annar með jafnmörgum á Strönd, allt í Gullbringusýslu. Þann 3.apríl drukknaði skip frá Keflavík undir Jökli nálægt Eyrarsveit, með 7 (önnur fregn telur 9) mönnum á, er ætluðu heim til sveita í Dala- og Snæfellsness-sýslum.
(1803, s108 ...) Seinni hluta sumars 1801 var á Suðurlandi sérdeilis votviðrasamur, svo heynýting varð mjög bág; annars var grasvöxtur hér um pláss, sem víðast um landið, í betra meðallagi. Í Norðurlandi þar á móti var allvíðast þurrari veðrátta þá áleið, en bæði grasvöxtur og nýting rétt góð. Um haustið voru bæði hér og á Suðurlandi mjög slæmar heimtur á fé af afréttum. Á Austfjörðum var hin besta og blíðasta sumartíð með sífeldu hægviðri, þurrkum og og hitum, sem að sönnu gjörðu góða nýting á grasi, en þarhjá skemmdu stórum hálend tún, er fyrir þá orsök sumstaðar skrælnuðu og brunnu til stórskemmda; urðu helst uppsveitir, einkum Fljótsdalshérað fyrir þessum skaða; Í Tungusveit hafði téð veðrátta betri afleiðingar, þar útengi spratt í betra lagi, og nýting var rétt góð. Á Vestfjörðum var víðast hvar sumarið allnotalegt og bærilegur heyskapur, en bágari var tíðin kringum Jökul vegna óþerra þegar áleið. Um haustið var í Barðastrandarsýslu eins og víðast hvar annarsstaðar, allbærileg veðrátta, þó nokkuð vindasöm og óstöðug, en um nýárs-leytið 1802 umbreyttist hún til kafalda og blota.
Brandsstaðaannáll [vetur]:
Viku fyrir jólaföstu hleypti bloti fönn í gadd, svo hestar voru innteknir í Svínadal, en mót austri í dölum, á Ásum og Þingi var snöp og næg jörð frá jólum fram yfir miðþorra. Um jólatímann blotar og einkum 3 vikur síðast í janúar, þess á milli frost mikil og köföld. Fór þá flatlendi i ófær svell, svo lítt varð beit notuð. Skepnur komust frá húsum aðeins á tilbúnum brautum. Með góu versnaði veður. Jörð þraut í flestum stöðum, og harðviðri börðu á gaddi, en ei blotar. [Öskudaginn] 18. febr. var hleypt út fé á Haukagili. Brast á bylur mikill. Hrakti og tapaðist þá um 200 fjár bónda Jóns Ísakssonar. 9 kindur náðust, (s37) en Sæmundur Guðmundsson, fyrirvinna og sonarsonur Jóns, varð úti fram á Skútaeyrum [í athugasemd útgefanda segir að Sæmundur hafi orðið úti 4. mars samkvæmt kirkjubók]. ... Á góu kom hafís og umkringdi landið frá Breiðafirði og að Reyðarfirði. Lá hann á fram yfir fardaga. 5 vikna skorpa varð hin harðasta, með hörkum og hríðum yfir allt land, en í Svínadal stóðu hross við gjöf 17 vikur. 3 vikur voru þau úti um miðjan vetur. ... skaði mikill í Bolungarvík á veiðarfærum, þá ísinn rak að 11. mars. (s39).
Espólín [vetur] (að miklu leyti endurtekning á texta Minnisverðra tíðinda):
Espólín: LXXXVI. Kap. Vetrarfar var allgott víða frá nýári til miðgóu, en hinn 11. dag mars lagðist að mikið vetrarríki með hríðum og stórviðrum, frostum og ísalögum; gjörði varla upprof til hins 13da apríl, svo að fært væri á milli bæja hættulaust; gjörði þá bylji marga skaðvæna, en þó má helst telja þann hinn 11. mars, og á góuþrælinn [23.mara]. Í hinum fyrra rak inn hafísa fyrir Norðurlandi öllu, og tóku frá Barðaströnd til Reyðarfjarðar austur, umhverfis land; varð þá úti smalamaður í Hítardal með 160 fjár, og fannst 30 af því á þriðja degi með litlu lífi, og maðurinn mjög skemmdur, svo að af honum voru sagaðar síðan hendur og fætur, gjörði það ólærður læknir, og þótti þeim sumum miður takast, er lærðir voru til þess. (s 115). Í byljum týndist einnig sauðfé að Vatnsnesi í Húnavatnsþingi, að Torfalæk og Hjaltabakka, en að Haukagili í Vatnsdal, ..., varð tjón mikið á öskudaginn; þar var sauðamaður Sæmundur, hann las húslestur um daginn, og er honum lauk, hljóp hann út, því að brast á hríðin; var forráðsveður hið mesta, fann hann 7 eða 8 kindur, og hafði látið inn; en eftir á föstudaginn fannst Sæmundur fram á Skútueyrum, nær hálfri þingmannaleið frá Haukagili, frosinn við svell niður, með litlu lífsmarki, og andaðist síðan, er hann var fluttur heim, en féð fannst aldrei, nema ein eða tvær kindur um vorið, og týndust 200. (s 115). Það varð enn á góuþrælinn, at fórust 3 skip í Höfnum með 15 mönnum, bátur með tveimur mönnum í Garði, og annar á Strönd, en hinn þriðja apríl týndist skip fyrir Keflavík vestra, með 8 mönnum eða 9, er voru á heimleið til Dala. (s 115).
Brandsstaðaannáll [vor]:
Fyrsta sunnudag eftir páska, 12. apríl, kom góður bati, þann 18. harður bylur. Varð þá mikill fjárskaði í Sauðadal. Vorið var kalt og þurrt, síðgróið, en eftir fardaga góð tíð, og varð grasvöxtur í betra lagi.
Espólín [vor]:
Var þá kalt vor og batnaði seint, og féll mikill fjöldi kvikfjár um Austurland, svo at Stephán amtmaður sagði, að verið mundi hafa um 50 þúsundir í hans amti. Var sú hin fyrsta hnekking, er þessi vetur ofanverður og vorið gjörði á velgengni manna, er þá var áður orðin allgóð víða í sveitum, því að allir lifðu í þann tíma sæmilega. (s 116). LXXXVII. Kap. Þá var mislægur fiskafli og ógæftir stórar, þó var vorfengur mikill á Innnesjum þegar gaf, og þegar varð fyrir lagnaðarísum, jafnvel meira en 9 hundruð stór; fiskaðist og allvel umhverfis Jökul; en af því varð mörgum manni bagi í Bolungarvík við Ísafjörð, að fyllti alla fjörðu af ísi, þar sem veiðarfærin höfðu lögð verið, og misstust þau öll af 30 skipum, og varð lítið eitt upp slætt af seinna, en menn urðu at yfirgefa skipin og brjótast heim með allmiklu vosi, og voru þó áður máttþrota mjög af hallæri, því er þar var. (s 116). Hvalur braust þar upp um ís á föstudaginn langa [3.apríl] og nýttu menn það eftir því sem við varð komist en örðugt var um aðfærslu alla, því ófærðir voru miklar, en hestar illa orðnir undan vetri. (s 116). Vor var þá kalt, og gróður lítill, en fiskafli í Múlasýslum var næsta mikill um sumarið, og svo fyrir norðan, svo að bátar í Eyjafirði fengu 300 af góðum þorski á hálfum mánuði, en tví- ok þrí-hlaðið á degi skammt undan landi á Sléttu og Langanesströndum, þar ei hafði lengi fiskast. Selir voru og allmargir teknir á Langanesi, en í fjörðunum: Borgar-, Loðmundar- og Seyðisfirði voru tvö eða þrjú hundruð sela rotuð í ísi. (s 116).
Brandsstaðaannáll [sumar]:
Þurrkasumar og heyin góð. Áttu enn flestir allmiklar fyrningar, þó mikið gæfist upp um veturinn.
Espólín [sumar]:
XC. Kap. Það sumar voru illar nýtingar fyrir sunnan, helst þar sem ei var þurrlendi, en þó heyjaðist víða eigi all-lítið. (s 119). Það sumar var víða grasgott, nýttist vel fyrir norðan þó votsamt væri, og allt var sumar hið besta fyrir austan. Hvali rak hér og hvar, og tvo mikla á Vestfjörðum, seint um sumarið. (s 121). Þá var fólk á landi hér á áttunda hundraði hinnar fimmtugustu þúsundar. (s 121).
Brandsstaðaannáll [haust og vetur til áramóta]:
Haustið oft frostamikið og ekki fannir miklar, um veturinn blotasamt og hörkur á milli, óstöðugt, en þó víðast nóg jörð til nýárs. (s38)
Sveinn Pálsson ritar talsvert um veður á árinu 1801 - verst hvað ritstjóra hungurdiska gengur illa að komast fram úr skrift hans. Það sem hér fer á eftir er því misáreiðanlegt því hætta á mislestri er veruleg.
Getið er um sterka jöklafýlu þann 12.janúar. Þó umhleypingasamt hafi verið í janúar og febrúar getur Sveinn aldrei um storm í þessum mánuðum - en 8 sinnum í mars. Sveinn var í Reykjavík seint í júní. Í mánaðaryfirlitinu kvartar hann undan tíðinni, þrálátri þokufullri og óþægilegri suðvestanátt. Að kvöldi þess 25. júní hafi gengið í sterkan (hæftig) storm með sjógangi. Þá hafi bátum hlekkst á. Um nóttina hafi snjóað niður í byggð (sjálfsagt útsynningsél). Fram eftir júlí var vindur aðallega af vestri og oft þoka - en síðan varð áttin norðlægari í nokkra daga - oftast skýjað og fjallaskúrir. Hann segir mjög hlýtt þann 17.júlí. Þann 19. var sunnan stormur og rigning. Suðlægar og suðvestlægar áttir voru ríkjandi í ágúst oft rigning eða skúrir - en fáeinir flæsudagar, t.d. 12. til 14. Seint í mánuðinum fór Sveinn aftur austur í Kotmúla. Næturfrost gerði snemma í september og þrumuveður með óvenjusnörpu hagli þann 15. Svo er að sjá að í kringum 10.desember hafi verið mikið frost hann giskar á -15 til -20°R (-19 til -25°C) - og minnist á meiri frostbresti en hann hafi áður heyrt. Jörð hafi sprungið í kringum hús í Odda á Rangárvöllum. Frost í jörð hafi verið 1 3/4 alin [ekki fjarri 100 cm] í Þingvallakirkjugarði, en um 3/4 alin á Breiðabólstað í Fljótshlíð.
Brot úr dagbók Jóns Jónssonar í Möðrufelli - athugið að lestri ritstjórans er ekki alveg treystandi.
Jón segir janúar allan harðan vegna jarðbanna af áfreðum. Fyrsta vika febrúar var mild og stillt, önnur vika hans einnig still og gerði þá góða hláku. Mánuðurinn var þrátt fyrir að veðrátta hefði ekki verið svo slæm - allur harður vegna sífelldra jarðbanna.Mars allur harður af jarðbönnum. Fyrri partur apríl ákaflega harður, en síðari partur batnaði með sumartungli. Hafís. Maí allur harður, nema síðasta vikan. Júní að vísu stillur að veðuráttu, enn oftast lofkaldur. Fyrsta vikan rétt góð og grænkaði jörð þá í betra lagi en síðan spratt seint. Júlí allur mjög þurr og loftkaldur, en veðráttan stillt. Ágúst allur þurr og stilltur. September. Um tíma kaldur en yfirhöfuð góður. Vikan 6. til 12. september stillt, en óþurrkasöm er áleið, vikan 13. til 19. köld og fjöll alsnjóa, vikan 20. til 26. rétt góð og hagstæð. Október má yfirhöfuð teljast rétt sæmilegur nokkuð. Nóvember í meðallagi uppá veðráttu en jörð léleg. Desember allur í harðara lagi. Umliðið ár má víst teljast hart ár.
Úr tíðavísu Jóns Hjaltalín 1801:
Margt ángræði, mein og fár
mæddi svæði þetta ár
hjarl og víðir hörku bar
harðna tíðir víða hvar.
Orma myrðir ánauð bjó,
einatt stirður framast þó
gjörðu hretin hörkustands
harðan vetur norðanlands.
Örlynd góa illsku til
af sér snjóa fæddi byl
sem framundir sumarmál
svell um grundir barði hál.
Hrundu víða hross og féð
hjarðir lýða fenntu með
banasárin sveltið gaf
sumir skáru heyjum af.
Sveitar trega sumarið hratt
sæmilega grasið spratt
skaða-næm þó nærði grand
nýting slæm um Suðurland.
Rosum hreyfði haustið þó,
hörkur, leysti frost og snjó.
skafla hvíta hauður ber
hagalítið víðast er.
Minnisverð tíðindi 3.árgangur 1.tölublað s121 segja frá því sem líklega var framhlaup í Bægisárjökli:
Um sumarið 1801 sáu menn hraun uppkomið í svokölluðum Bægisárjökli, er liggur til landsuðurs frá Yxnadalnum, hvert hraun aldrei fyrr skal sést hafa: hvaraf orsakaðist, að Bægisáin sjálf, ein lítil Þverá, er fellur í Hörgá, varð, móti allri venju að undanförnu, á lit, sem korgótt jökulvatn, hvað eð viðhélst frameftir öllu sumri, þá þessi þverá og jafnan var í ótíðvænlegum vexti, og vatnið að sögn volgt. Geta menn ekki ólíklega til, að orsökin til uppkomu nefnds hrauns hafi verið jarðelds hiti, en þótt þar annars ekki eigi að hafa sést merki til reyks eður eldsuppkomu.
Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um árið 1801. Sigurði Þór Guðjónssyni er þakkað fyrir innslátt Brandstaðaannáls og Hjördísi Guðmundsdóttur fyrir innslátt Árbóka Espólíns (stafsetningu hnikað hér - mistök við þá aðgerð sem og allan annan innslátt eru ritstjóra hungurdiska). Örfáar tölur í viðhengi.
Vísindi og fræði | Breytt 10.4.2021 kl. 03:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.4.2021 | 21:46
Kuldakast (páskahret)
Það virðist stefna í snarpt kuldakast um helgina og að það verði viðloðandi á einhvern hátt alla næstu viku. En spár gefa nú (að kvöldi skírdags) til kynna að við sleppum við mesta hvassviðrið - það ryðst til suðurs fyrir austan land. - Nóg samt.
Við sjáum hér spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um hita í Reykjavík næstu daga, frá fimmtudegi - fram á fimmtudag í næstu viku. Höfum í huga að margs konar staðhætti vantar í líkan reiknimiðstöðvarinnar - en aðalatriði koma vel fram. Hitakvarðinn er lengst til vinstri, af honum má ráða að hiti á að vera á bilinu 4 til 6 stig fram undir kvöld á laugardag - en þá kólnar snögglega (sé að marka spána) og á sunnudagskvöld á að vera komið -7 stiga frost. Þrettán stiga hitasveifla - sem er býsna mikið í Reykjavík við það að skipta um loft, Síðan á að hlýna nokkuð aftur - en búist er við öðru kasti á miðvikudaginn með þónokkurri hitasveiflu og ámóta frosti.
Kortið hér að ofan sýnir spá um hita í 850 hPa-fletinum (litir) og þykkt (heildregnar línur) um hádegi á páskadag. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs - því minni sem hún er því kaldara er loftið. Það er sjaldan sem við sjáum svona lágar tölur við landið í apríl. Ekki stefnir þó í met að því er sýnist - þó ekki muni mjög miklu.
Ef hægt er að tala um að eitthvað sé hagstætt í þessu miðað við ámóta eldri tilvik má nefna tvennt: Annars vegar að hreyfistefna kuldans er okkur hagstæð - hann er á mikilli siglingu til suðausturs - og kaldasta loftið fer fljótt hjá. Hvassviðrið nær sér eitthvað á strik - sérstaklega austanlands - en það stendur ekki lengi og versta veðrið er alveg austan við landið. Hins vegar er mjög lítill ís í norðurhöfum og sjór er hlýr norðan við land miðað við það sem hann var t.d. 1968 og 1963 þegar þykktin (og hiti í 850 hPa) varð jafnlítil eða minni heldur en nú. Það þýðir að sjórinn nær að hita kaldasta loftið um nærri 1 stig á klukkustund á leið þess frá ísjaðrinum til landsins. Því var t.d. ekki að heilsa 1968 eða 1963.
Bæði 1963 og 1953 lenti vindstrengurinn yfir landinu og lá þar - sem virðist ekki eiga að gerast nú. Kastið 1968 var líkara því nú hvað vind varðar. Við eigum líka fleiri ámóta köst á lager, t.d. páskahretið fræga 1917 - sem var mjög líkt 1863 hretinu (nema gróður varð ekki eins illa úti vegna þess að hann var ekkert kominn á legg þegar kastið reið yfir). Sömuleiðis var svipað uppi á teningnum 1920.
En þó óneitanlega sé ættarsvipur með þessu yfirvofandi hreti og þeim fyrri er hvert og eitt með sínum sérstöku einkennum - ekkert þeirra er nákvæmlega eins. Norðvestanátt á að ríkja í háloftum næstu vikuna - hún er afskaplega svikul - henni fylgir oft hið besta bjartviðri - jafnvel hlýindi á þeim tíma árs sem sól er hæst á lofti - en oft er hún hið allraversta sem yfir okkur getur gengið - með ísköldum norðansveljanda og hríðarköstum heilu vikurnar út - jafnvel þótt langt sé komið fram á vor.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 22:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
31.3.2021 | 13:49
Af árinu 1819
Talið meðalár á sínum tíma - en heldur kalt nú á dögum. Reglubundnar hitamælingar voru aðeins gerðar á einum stað á landinu svo vitað sé, Víðivöllum í Skagafirði. Út frá þeim mælingum giskum við á meðalhita í Reykjavík (4,7 stig) og í Stykkishólmi (3,8 stig). Veturinn var ekki frostamikill, fremur hlýtt var í mars, en kuldi í apríl og síðari hluta maímánaðar spilltu heldur fyrir. Sumir sögðu vorið þó hagsstætt. Rigningar spilltu sumrinu mjög á Suður- og Vesturlandi og gætti þeirra líka fyrir norðan - en eyfirðingar segja að hlýtt hafi verið í ágúst. Þó tókst að koma heyjum í garða - en þau voru vond. Haustið var fremur hagstætt.
Þegar horft er á myndina þarf að hafa í huga að mælingarnar eru gerðar í morgunsárið - á kaldasta tíma dags. Að sumarlagi var einnig mælt um miðjan dag, en þá skein sól stundum á mælinn - en þær mælingar hafa verið felldar brott á myndinni.
Aðalprentheimildir um tíðarfar og veður eru fengnar úr Klausturpóstinum og Brandstaðaannál og fáein bréf geta einnig um tíðarfar. Árbækur Espólins eru rýrar þetta ár - en gagnorðar. Tíðavísur Jóns Hjaltalín eru upplýsandi að vanda. Dagbækur eru nokkrar aðgengilegar, en erfiðar aflestrar (eins og venjulega). Hér að neðan má finna það helsta sem tekist hefur að ná saman um tíðarfar og veður á árinu. Stafsetning er að mestu færð til nútímahorfs.
Brandsstaðaannáll [vetur]:
Þíða og góðviðri hélst til 15. jan., að snjó og frostveður gjörði, oftast stillt veður og jarðsælt. Jarðskjálfti varð á þorraþrælinn. Í mars óstöðugt; hláka 4.-5. og 13., en 16. fyrsta innistaða og vikufönn og aftur mikil páskahríð á norðan, 11. apríl. Varð að öllu afferðagóður vetur og hvergi þungur. Hross úti gengin í besta standi. Á þessum vetri var aldrei jarðskortur.
Espólin er heldur stuttorður um tíðarfar á árinu:
Espólín: CIII. Kap. Þá var góður afli syðra öndverðan vetur, en lítill um vertíð, og höfðu menn þó sótt langt að, og allt norðan af Sléttu; var ofanverður vetur góður og vorið, nema lítið kast um páskatímann, en eigi rættist þó vel úr vorinu. (s 111). CV. Kap. Sumar það var votsamt og eigi gott. Um vorið var drepið á ís mikið af vöðuselum í Norður-Múlasýslu. (112).
Klausturpósturinn 1819 (II, 4, bls 60) segir af vetrartíð, aflabrögðum og fleira:
[...] Vetur má þá segja hér, einhvern hinn besta og mildasta, frosta- og snjóa-lítinn, en storma og hretviðrasaman mjög, um allt Suðurland, fram yfir nýár [1818/19]. Hey reynast nú víða dáðlaus til holda og mjólkur, líka stórum skemmd um Suðurland og víðar, og því illa fóðurgæf; enda er gagn af kú sár-rýrt, og bjargarskortur víða almennur, nema syðra við sjá, hvar aflabrögð allgóð bættu úr kaupstaðaörbyrgð matar. Nyrðra er velmegun almennt góð sögð; en vestra, einkum undir Jökli, bágindi meðal fólks, vegna sérlegs aflabrests af sjó, kringum Jökulinn. Nú er fyrir nokkru besta aflavon líkleg með öllu Austurlandi, á Suðurnesjum og í Norðvíkum, og þegar í blóma væntist og, að hún þá og þegar færast muni inn með Strönd og öllum Nesjum. Aflalítið fyrir Norðurlandi næst afliðið ár, nema af hákarli og seli í vissum plássum. Góður afli varð þó í Suðurmúlasýslu, en rýr í þeirri nyrðri árið sem leið [1818]. Ofsastormur af norðaustri tjáist, þann 23ja janúar þ.á. að hafa til muna skemmt höndlunarhús í Siglufirði nyrðra. [...] [Hér kemur síðan langur kafli um alls konar slys ekki tengd veðri þar til]: Í miðjum september [1818] króknaði unglingsmaður til dauðs, við fjárgöngur, á Vatnsnesi í Húnavatnssýslu. Þann 22.janúar 1819, drukknuðu 7 menn af skipi við Ólafsvík; formaðurinn einn komst af.
Klausturpósturinn heldur áfram í 6.hefti 1819 (II, 6, bls 93):
Vetrarvertíð umliðin fyllti engan veginn þá líklegu aflavon, sem menn víðast um Suðurland gjörðu sér við hennar byrjun, en hún varð í flestum veiðistöðum austan með í Vestmannaeyjum þó góð í rýrasta meðallagi: sunnan með allvíðast aum; á Innnesjum og Akranesi sáraum, og sama var frá Jökulveiðistöðum vestra að heyra. Af Vestfjörðum fréttast harðindi mikil, allt að sumarmálum, og þar mikill hafís og eins nyrðra fyrir. Bráðdauði mikill á mönnum og skepnum, 8(?) menn bráðdauðir í Önundarfirði, nokkrir annarstaðar vestur um firði, og 3 í Hornafirði austur, allir, að menn halda, af óhollri nautn illa þurrkaðs verkaðs og nýlegs hákarls, sem bágindi þrýsta of mörgum til í ótíma, og heldur frekt í einu, sér til munns að leggja, máski sem einmeti.
Um seinan er mér nú kunngjörður skiptapi, þann 28.apríl 1818, á sundinu milli Vestmannaeyja og lands; fórust þar 8 menn, en 2 varð bjargað úr landi. Þann 10da sama mánaðar drukknuðu 2 menn í lendingu undir Eyjafjöllum ...
Brandsstaðaannáll [vor]:
Vorið gott. Sást með maí gróður og kýrgras um krossmessu á láglendi. Kuldakast fyrir fardaga, svo þurrkasamt með góðviðrum. Fráfærur voru í fyrra lagi, um sólstöður og lestir fóru í júlíbyrjun.
Sveinn Pálsson getur um tvo væga jarðskjálftakippi 16.apríl.
Klausturpósturinn 1819 (II, 7, bls 110) segir af vortíð og síðan í næsta tölublaði frá hafís og fleiru:
Veðurátt hefir fallið hin besta á umliðnu vori; grasvöxtur varð því víðast ágætur, svo skepnur tóku bráðri bröggun, nema hvar létt, skemmd og óholl hey á næstliðnum vetri stóðu þeim fyrir þrifum, sem allvíða reyndist svo um Suðurland, að óvenja þótti að sjá fjölda fullorðins nautpenings, kúa og nauta vella í lús, tálgast og dragast við það í hor; en þetta varð þó almennt um mýrarjarðir, hvar hey voru slæm og skemmd. Nokkrir reyndu að kaffæra pening í sjó eða vatni, til að eyða henni, en forgefins, því aðeins við langt sund drepst þessi vargur til fullnustu. Besta meðalið verður því ítrekaður þvottur gripsins í keitu og ösku, sem skerpir lútina, eða, hvar föng eru til, í kalkblöndnu vatni, hver skerpa er þeim illyrmum banvæn. Vorafli syðra varð af ýsu í meðallagi á lóðum, en mjög rýr á færi. Á Suðurnesjum var nú með góðri heppni reynd hákarlalóð, ...
Klausturpósturinn 1819 (II, 8, bls 127)
Sá hafís, hvers No. 6. á bls.94 getur fyrir Vestfjörðum, og nyrðra, kom og við fyrir austan, en aðeins um stutta hríð þar og nyrðra, og ýmsum héruðum til óvenjulegra heilla; því á þessum hafísi kom þvílík mergð af vöðuselum og kópum, að í Þingeyjarsýslu urðu 491 veiddir í nótum, en 664 rotaðir á ísnum. Í Norður-Múlasýslu er talan enn þá óviss, þó tjáir prófastur Hr. Guttormur Pálsson, að þar muni rotaðir vera á ísum af vöðuselum og kópum, full 2000 eða fleiri. Eitt bjarndýr var þar og fellt, en 12 hreindýr í Þingeyjarsýslu, við hvað þessu þó sást lítið fækka. Heyrt hefi ég kunnuga reikna 1 vætt fisks af hverjum meðal vöðuseli fullorðnum, en miklu meira af þeim stærstu.
Slysfarir og voveiflega dánir. [...] Þann 17da júní þ.á., týndist fiskafarmsskip fyrir Eyrarsveit vestra, með 4 mönnum. Þann 26ta f.m. [?] drukknuðu 2 danskir farmenn af slúffu á Reykjarfirði. Þann 7da júlí fórust 2 menn af báti fyrir Leirársveit í Borgarfirði, í svo kölluðum Ósum. [...]
Brandsstaðaannáll [sumar]:
1.-22. júlí stórrignt og seinast hret mikið. Tóku síðbúnir lestamenn út neyð vegna ófærðar og snjóa i fjöllum. Sláttur hófst á miðsumri. Ekki varð grasvöxtur meiri en í meðallagi, regnsamt um töðuslátt til 2.-3. ágúst, að góður þerrir kom, svo rekjusamt til 10. ágúst, að mikið hey var sætt. 3 daga eftir það (með sunnanátt) rigndi ákaflega í sífellu, svo skemmdir urðu miklar á þurru heyi, er olli sóttardrepi á fé síðar. Eftir það lítið um þurrk, þó hljóp (s80) mesta vatnið af og varð nýting sæmileg. Til Mikaelsmessu oftar vætusamt en frostalaust að mestu.
Brandsstaðaannáll [haust og vetur til áramóta]:
Fyrst í október hörkufrost vikutíma, svo óstöðugt með slyddum og þíðu og síðari helming hans þurrt og stillt. Í nóvember sunnanátt og þíður til 15., þá hríð og snjór, óstöðugt, harka og blotar. Með desember snjór af suðvestri allmikill, 5.-9. góðhláka; 13. norðanhríð og stórhríðar fyrir jólin með fannlögum, svo fé kom á gjöf. Varð þá krafsjörð móti austri, þó snjókyngja væri hins vegar. Árferði var nú gott og blómguðust sveitabúin með vaxandi lifandi pening og heyjanægtum. (s81)
Klausturpósturinn 1819 (II, 12, bls. 189) lýsir sumar- og hausttíð
Á veðráttufar og árferði frá vetrarkomu 1818, allt fram á slátt 1819, minntist ég á bls. 61,61,93-94, 110 og 127. Úr því reyndist sumarið kalt og vætusamt um mest allt Suður- og Vesturland, grasvöxtur góður en nýting slæm, svo töður og hey hröktust og skemmdust víða í haustrigningum. Í Húnavatnssýslu var og vætusamt, betri heyjafengur í Skagafirði, ágætur og árgæska norðar og um allt Austurland. Haustveðrátta góð, mild, en vindasöm, svo sjógæftir urðu bágar, sumar og haustafli mjög rýr, hvar af og af algjörlegu þroti allra lífs-nauðsynja í kaupstöðum Suðurlands (...) við útsiglingu skipa, og póstskipsins útvist ennþá þ. 2. desember, sem menn vonuðu, að þó bæta kynni bágindi og almennan bjargræða útvega hnekkir, komist það ekki hingað í ár. Að vestan fréttist betri haustafli undir Jökli, þó sjaldgæft væri. Mælt er að nálægt því 100 smáhvalir hefi hlaupið á land við Þingeyrarsand en hér um 16 náðust í Hrútafirði; líka að ósamheldi og ágreiningur um upprekstursstaðinn hafi opnað stórvöðum nokkurra þúsunda smáhvala í haust, aðkrekktum af upprekstarmönnum nálægt Vogastapa, útgöngu leið það til hafs um greipar þessara. ... Eystra tjáist Skeiðarárjökull syðri, enn þótt oft svo áður, mjög svo ókyrrlátur í sumar og hlaupsamur; sem afsprengi eldjökla, en enginn eldjökull sjálfur, boðar hann máski minna, á meðan umbrot ekki sjást í eldjöklunum norður og austur af honum, við hver hann oft áður hefir mjög órór sést. En mjög gjósa nú eldfjöllin Vesuvius á Vallandi, og Etna í Sikiley, sem oft hafa samfara orðið eldgosum hér, hverjum Drottinn oss forði!
Bessastöðum 31. ágúst 1819 [Ingibjörg Jónsdóttir] (s71): Sífelldar rigningar hafa fordjarfað flestra töður, en rétt nú kom þerrir.
Gufunesi 15. september 1819 (Bjarni Thorarensen): Sumarið hefir hér syðra verið eitthvert hið argasta og nú er enn kominn óþerrir, nyrðra hefir alltaf verið besta tíð. Þú getur þá nærri að heyskapur hefir orðið að ganga hér illa.
Jón á Möðrufelli talar vel um veður á árinu - (að því er virðist) af þessum fáu orðum sem ritstjóri hungurdiska gat lesið. Í almennu yfirliti í lok árs 1839 segir hann 1819 hafa verið meðalár:
Febrúar mikið stilltur og hægviðrasamur, mars mikið góður, apríl yfir höfuð góður, fyrripartur kaldur. Maí, fyrri partur dágóður, síðari partur í kaldara lagi. Gróður í meðallagi. Júní andkaldur um tíma. Júlí allur rétt góður að veðráttufari, ágúst allur sérlega hlýr. September óstöðugur. Október mikið góður. Nóvember góður, snjólaust að kalla.
Úr tíðavísum Jóns Hjaltalín 1819
Vetur góður var í ár
víðast hér á landi
hjalls um rjóður hópur fjár
hlaut því fóður stór og smár.
Vorið svalt en veður hreint
vökvan jörðu sparði
lagði kalt um loftið beint
láðið allt því greri seint.
Spruttu túnin þegna þæg
þó í betra lagi
mörk tilbúna mild og væg
mána rúna vermdi næg.
Stormi blandið hret og hríð
hæst oss sumar færði,
baga vanda veitti lýð
voru landi óþörf tíð.
Svall um haga hlýrnis sút
heyja nýting gjörði
hunda-daga alla út
Ýmis baga hvarma lút.
Veðrið harða vítt um bý
vinnu arði spillti
haddur jarðar hrakinn því
haugaðist garða fólksins í.
Tíð á hausti valla vær
var, en hörkulítil
tregðulaust því fóður fær
fíls um naustið jór og ær.
Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um árið 1819. Sigurði Þór Guðjónssyni er þakkað fyrir innslátt Brandstaðaannáls og Hjördísi Guðmundsdóttur fyrir innslátt Árbóka Espólíns (stafsetningu hnikað hér - mistök við þá aðgerð sem og allan annan innslátt eru ritstjóra hungurdiska). Örfáar tölur má finna í viðhengi.
30.3.2021 | 23:07
Veðurstofuveturinn
Að vanda lítum við nú á meðalhita veðurstofuvetrarins í byggðum landsins. Veðurstofuveturinn nær til mánaðanna desember til mars, er mánuði lengri heldur en alþjóðaveturinn - Mars er víðast á norðurhveli talinn til vorsins - en við getum það varla. Hitinn nú endar í 0,3 stigum. Það er nákvæmlega í meðallagi síðustu 10 ára - og vetra það sem af er öldinni, en +0,4 stigum ofan meðallags 1991 til 2020. Á tímabilinu 1965 til 2002 voru aðeins tveir vetur hlýrri heldur en sá nýliðni - en tíu eftir 2002 (19 ár). Svona eru umskiptin milli þessara tveggja tímabila mikil.
Umskiptin sjást vel á myndinni hér að ofan - sömuleiðis umskiptin sem urðu frá og með vetrinum 1964 til 1965. Á tímabilinu 1923 til 1964 (41 ár) voru tíu vetur hlýrri heldur en sá sem nú er nýliðinn. Meðalhiti síðustu 20 ára er þó hærri heldur en hann var á fyrra hlýskeiði - munar mest um það að kalda vetur hefur alveg vantað á þessari öld, en þeir sáust einn og einn á hlýskeiðinu fyrir 1965. Það hlýtur að koma að því að kaldur vetur sýni sig - það á að gerast þrátt fyrir almennt hlýnandi veðurlag í heiminum. Kröfur okkar um það hvað kaldur vetur er linast með hverju árinu.
Veturinn í fyrra var heldur kaldari en þessi (-0,3 stig á móti +0,3 nú) en flestir munu þó væntanlega sammála um að veður hafi verið mun betra nú heldur en þá. Mun minna hefur borið á illviðrum í vetur heldur en í fyrra. Loftþrýstingur hefur verið talsvert hærri. Við lítum e.t.v. á hann síðar.
Janúar var kaldasti vetrarmánuðurinn nú, eins og algengast er. Meðalhiti á landsvísu í janúar var -1,6 stig. Það er mjög ólíklegt að apríl nái að slá þá tölu út og verði þar með kaldasti vetrarmánuðurinn - meðalhiti í apríl hefur ekki orðið svo lágur síðan 1917. Þeir sem vilja velta vöngum yfir apríl - sem vetrarmánuði - geta rifjað upp gamlan pistil hungurdiska.
28.3.2021 | 22:42
Af árinu 1818
Árið 1818 var fremur svalt, veturinn 1817 til 1818 var þó ekki frostamikill en snjór talsverður og áfreðar spilltu beit. Vorið var illviðrasamt en gróður komst vel á legg um síðir. Rigningar þvældu síðan heyskap um landið sunnan- og vestanvert. Litlar upplýsingar eru um hitafar. Giskum þó á að ársmeðalhiti hafi verið 3,1 stig í Stykkishólmi og 3,6 í Reykjavík. Erfið hret gerði um sumarið, síðast og verst seint í september. Hlýtt virðist hafa verið í desember. Hafís kom að Norðurlandi seint um sumarið - sem er óvenjulegt, en hann stóð ekki lengi við.
Ágætar samantektir birtust í bæði Íslenskum sagnablöðum sem og Klausturpóstinum og fáein bréf geta einnig um tíðarfar. Árbækur Espólins tína einnig til. Tíðavísur Jóns Hjaltalín eru sömuleiðis upplýsandi að vanda. Dagbækur eru nokkrar aðgengilegar, en erfiðar aflestrar (eins og venjulega). Hér að neðan má finna það helsta sem tekist hefur að ná saman um tíðarfar og veður á árinu. Stafsetning er að mestu færð til nútímahorfs.
Íslensk sagnablöð lýsa tíð 1818 [3. deild 1818 (s1-2)]
[M]eð nýári 1818 gerðist vetur strax mjög snjóasamur um allt land, sló í blotum á milli, frysti svo að og gerði jarðbönn mikil allstaðar; varla muna menn til þeirra langvinnari og almennari um Suðurland en þau urðu þá. Á Vestfjörðum, samt í Húnavatns- og Skagafjarðarsýslum var vetur nokkuð vægari en annarsstaðar. Víða förguðu bændur fénaði sínum, en færri fyrr en í ótíma á útmánuðum, og margir felldu pening til muna helst á austurlandinu. Sunnanlands hefði fellirinn orðið meiri en varð, hefði ei (s1-2) bati komið þar fyrir sumar, og flestir verið heybirgir. Vorið bætti ei um fyrir vetrinum, það var víða kalt og votsamt, sem olli því að ær, er gengu magrar undan týndu lömbum, og urðu arðlitlar sumartímann. Gróðurleysi var langt fram eftir vorinu, og lítill grasvöxtur; þó varð víðast meðal grasvöxtur syðra en vestur um land í minnalagi, þar á mót austur í Skaftafellssýslu, og eystri parti Rangárvallasýslu í bestamáta. Sumarið varð yfirhöfuð að tala kalt og votsamt framan af slætti, nema nyrðra og eystra, svo töður voru annaðhvort hirtar svo votar að í görðum skemmdust, eða hröktust á túninu til mikils skaða fyrir bændur. Haustið varð aftur votsamt og veturinn eins allt fram að nýári, en varla lagði nokkurn tíma snjó á jörðu, og frost voru heldur ekki að kalla.
Votviðri sem byrjaði að kalla strax í vertíðarlokin gerði afla ... mjög ódrjúgan; fiskurinn skemmdist víða til muna, og varð sumstaðar hartnær óætur, vegna meltu og slepju enn rýrnaði til muna allur, þegar ei varð þurrkaður í tækan tíma. Verst var sagt af skemmdum fisks í Vestamannaeyjum, og sumstaðar í Snæfells nes sýslu, þar sem góð þerripláss munu ei vera; í Njarðvíkum og Vogum varð og nokkuð af afla skemmt, meðfram vegna þess að fólk gat ei komist yfir að hirða, sem þurfti, þann mikla fisk er þar hafði á land borist. (s3-4)
Brandsstaðaannáll [vetur]:
[Árið] Byrjaði með hláku og góðviðri. 9.-12. janúar hríðarkafli, er lagði fönn og gadd til hagleysis í Eyjafjarðar- og Þingeyjarsýslum, er við hélst til krossmessu [3.maí], en þar var næstliðinn vetur betra en hér og gott grasár fyrir rekjum um töðusláttinn. Hér, einkum til framsveita, var gott vetrarfar, mild og stillt veður og snjóalítið. Í fyrstu viku góu kom lognfönn. Hélst þó jörð lengst af, einkum móti austri og veður stillt.
Klausturpósturinn lýsir vetri frá áramótum [I, 1818, 4 (bls 62)]
Veðráttufar
Þetta hefir frá nýári 1818 til 1ta apríl, um allt Suðurland, mikinn hluta Vesturlands, og Norðurlands nyrðri part, nefnilega: Vaðla- og Þingeyjarsýslur, verið mjög svo þungbært, vegna snjóþyngsla, en einkum áfreða, sem gjörðu langvinnar jarðbannir víðast hvar, allt til nefnds tíma. Útigangspeningur er því víða sárdreginn orðinn og að falli kominn; heybjörg margra, einkum fyrir austan Þjórsá, lítil, og ýmsir hafa þar, og víðar, neyðst til að lóga peningi talsverðum í ótíma. Í Húnavatns- og Hegranessýslum, og nokkrum hluta Vesturlands varð vetur þarámót hinn mildasti og jarðir auðar. Frost þar hjá allstaða væg. Veðurátt stirð, tók fyrir sjógæftir syðra, hvað allt að aprílkomu ekki varð í Faxafirði fiskvart, en, þó nokkuð austanmeð, í Rangárvalla- og Skafta- [hér endar textinn allt í einu]
Þann 22. [janúar], í vökulok, sló loftelding niður í baðstofu í Kross-hjáleigu í Landeyjum, innan Rangárvallasýslu, og deyddi þar 4 ára gamalt barn í rúmi, en öðru barni í sama rúmi varð þó ekki meint. Foreldrar hins dána barns féllu í öngvit. Mælt er að hár á höfði þessa barns hafi lítið eitt sviðnað. Flest bramlaðast eða sundraðist í húsinu, en rjáfri þess feykti ofviðri og éljagarri eins útá hlað. Þann 19da mars þ.á., er mælt að 2 menn hafi orðið úti á Fróðárheiði í Snæfellsnessýslu. Þann 4ða [apríl ?] forgekk 6æringur frá Hafnarfirði, á suðurleið til netafiskiafla, fyrir Vatnsleysuströnd, með 8ta mönnum á, sem týndust allir.
Klausturpósturinn [1818 4 s.64] Við landskjálfta, þó hæga, hefir nokkrum sinnum í vetur vart orðið eystra, líka þrisvar hér syðra á Innnesjum.
Veðráttufar og Fiskiafli [5-78] Í No. 4, bls. 63 og 64, er vikið á veðráttu og fiskiafla. Vetur varð, sem mælt, harður mjög eystra, helst í Skaftafellssýslum, góður og mildur vestanlands í Ísafjarðar, Barðastrandar og Dalasýslum: þungur í Snæfellsness- og Strandasýslum, og í þeirri síðari mikill bjargræða skortur, matur tjáist nógur vera við Kúvíkna höndlun, fátækir fá ei leyst með 1 tunnu lýsis fyrir hverja tunnu rúgs, eða 60rbdli ... sem hér á landi er óheyrilegt verð á þessu ári. Síðan apríl mánaðar byrjun, allt til hvítasunnu, hefir veðurátt hér á Suðurlandi verið stillt, en þurr og köld, með hörðu frosti á nóttum, og jörð þess vegna enn þá gróðurlaus. Hvað fiskiaflanum viðvíkur, þá varð hann góður í Vestmannaeyjum og Landeyjum, og loks nú seint á vertíð, sunnan og austan með, hvar víða komu megn fiskihlaup, þó ekki á Suðurnesjum fyrr en undir vertíðarlok. Þarámóti kom mikil fiskigengd í Garð, Leiru, Keflavík, Njarðvíkur, undir Vogastapa, inn með Strönd, en einkum í Hafnarfjörð, hvar, og á Strönd, nú teljast 6hundraða hlutir hæstir, minna miklu í Ytri-Njarðvík, Leiru og Garði. þar hæst, vart 4 hundruð. Á Seltjarnarnesi lengst af fiskilítið, nema með sókn í Hafnarfjörð, teljast á þessu nesi 2 til 3 hndr. hæst. Á Akranesi sáraum fiskibrögð; einn einasti telur þar 2 hundr., en flestir um hundrað og minna. Fyrir vestan Snæfellsjökul tjáðist góður afli á útmánuðum, en síðan hafa þaðan engar áreiðanlegar fiskifregnir hingað borist.
Klausturpósturinn heldur áfram með vetrar og vorfréttir [1818 (6 bls.94]
Voveifleg tilfelli og slysfarir. [líklega eftir bréfi úr Ísafjarðarsýslu, 10. maí 1818]
Nóttina milli þess 19da og 20ta mars þ.á. féll snjóskriða á bæinn Augnavelli í Skutulsfirði, hvar 9 naktar manneskjur lágu í fasta svefni. Tók hún nokkuð af baðstofunnar viðum og þaki með sér 150 faðma langt, en braut hitt niður ofan á fólkið sem engu bolmagni viðkom, en varð þannig nakið að pressast undir viðum, torfi og klaka í full fjögur dægur, eða til þess um morguninn þann 22. sama mánaðar, þá umbylting þessi sást af næsta bæ. Mönnum var þegar í hasti safnað, og, í blindbyl af kafaldi, farið til bæjarins með verkfærum. Reyndust hjónin þá lifandi, 2 börn þeirra og vinnukerling, en 3ja barnið lá dautt á fótum foreldranna. Varð nú ekki meira aðgjört þenna dag fyrir myrkri og þreytu manna. Þann 23ja mars, fannst 4da barnið dautt og 1 ungmenni, en gamalmenni 1 enn þá tórandi, sem deyði samdægris. Líkt því fólki sem deyði, þoldi það, er af komst, harmkvæli mikil, og tórir enn þann 10da maí flest sængurliggjandi við sár og örkuml. - Sömu nótt tók snjóflóð hjall að veggjum á Bæ í Súgandafirði, með miklu af matvælum í og flutti út í sjó, og fjárhús á Gelti í sömu sveit með 20 fjár í, sem allt fórst. Annað fjárhús á Vatnadal í sama firði fórst og, með fé öllu. Varð fyrir snjófallinu maður, er gekk frá húsinu heim til bæjar, en hverjum þó bjargað varð með litlu lífi. Jökla- og skriðuhlaup féllu hættuleg á tún á Neðri-Miðvík í Aðalvík þessa sömu nótt.
Þann 22. apríl drukknaði stúlka ofan um ís á Belgsholtsvog í Borgarfjarðarsýslu. Þann 9da maí drukknuðu 2 menn úr Kjós af báti, við landsteina á Kjalarnesi. ... Í þessum sama mánuði drukknaði maður í Bugsósi í Snæfellsnessýslu, og í Örnudalsá í Þverárhlíð flakkari úr Kjós. Piltur 12 til 14 ára, drukknaði og í gili við kinda yfirsetu, ... .
Espólín: XCV. Kap. [vetur og vor]
Vetur hafði verið þungur syðra og eystra, en góður vestra, einkum í Húnavatnsþingi, og allt í Skagafjörð; svo var og sjógæftalítið, þó varð góður vetrarafli syðra, en spilltist af rigningum, og gjörðust þær miklar með sumrinu. XCVIII. Kap. Um vorið í mars tók snjóskriða Augnavelli í Skutulsfirði, og voru níu manneskjur naktar í svefni; hún tók nokkuð af baðstofunni 150 faðma með sér, en braut annað ofan á fólkið, lá það undir viðum, torfi og klaka í fjögur dægur, en síðan urðu menn af næsta bæ varir við, heimtu að sér fleiri, og fóru til bæjarins í blindhríð með verkfærum, ..., fleiri snjóflóð gjörðu skaða, og drukknuðu nokkrir menn. (s 105).
Reykjavík 6. mars 1818 (Geir Vídalín biskup):
Haustið var hér gott og vetur í betra meðallagi allt til jóla, á gjörði hér snjó og illt til jarðar, en þann snjó tók allan upp með nýári. En með þrettánda kom veturinn alskapaður með snjókyngi og áfrerum, úr því hér jarðlaust að öllu fyrir allar skepnur til þess 16. febrúar, kom þá bloti, svo að hér skaut upp snöp hér við sjóinn, en engri til sveita, þar sem snjóþyngslin (s160) voru meiri. Sama vetrarfar er að frétta úr Árnes-, Rangárvalla og Vestur-Skaftafellssýslum, þó bágast úr þeirri síðast nefndu, því þar heyjaðist illa í sumar eð var vegna votviðra. Í Borgarfjarðarsýslu hafa verið nokkrar jarðir, einkum til dala, og í Húnavatns- og Skagafjarðarsýslum besti vetur, hér harður bæði í Skagafirði, Eyjafirði og fyrir vestan. Frost hafa ekki verið mikil og veðurátt oftast sæmileg, ef jarðir hefðu verið. ... Um veturnæturnar komu hér tvö áhlaupaveður af suðaustri og það þriðja þann 2.-3. janúar af sömu átt. Gjörði það fyrsta víða skaða á heyjum, húsum og skipum. Óvenjulegt skrugguveður kom á Rangárvöllum þann 21. janúar (si recte memini), sló þá þruma niður í baðstofuna í Krosshjáleigu og drap barn í rúminu hjá móður sinni, en bæði hún og bóndinn, sem var á ferð í göngunum, féllu í óvit. Við þetta veður varð hér ekki vart. Í fyrstu vetrarvikunni og síðan oftar í vetur hefur hér orðið var til jarðskjálfta, þó alla hæga, og hvergi hef ég frétt, að mein hafi orðið af þeim. (s161)
Bessastöðum 5. mars 1818 [Ingibjörg Jónsdóttir] (s55):
... eins var veturinn fram að jólum hinn besti, en síðan hefur oftast verið haglaust og líka þar, sem jörð hefur ekki brugðist í 30 ár. Frostlítið hefur oftast verið.
Brandsstaðaannáll [vor]:
Eftir miðjan einmánuð kom sólbráð og eftir sumarmál kuldar og frostamikið. Ekki kom hláka eða gróður fyrr en eftir 22. maí. Leysti þá fljótt gadd af heiðum og hálsum, ásamt uppsveitum, er þangað til höfðu aðeins snapir. Þar eftir var vorið gott, en regnsamt, einkum lestatímann, er byrjaði 4. júlí. (s79) Ís kom um vorið seint [festist ei við land (neðanmáls)] og varð á honum mikið seladráp á Austurlandi og Ísafirði. (s80)
Klausturpósturinn (6 bls.96) er sagt af vortíðinni:
Frá vordögum skipti um vetrarharðindi, sem gengu, einkum yfir Suðurland, með mestu stórhretum og óveðrum fram undir Jónsmessu, svo sjaldan gaf á sjó; enda varð vorafli víðast sáraaumur, eins fyrir vestan Jökul, og skemmdist líka töluvert af vetrar- og vorafla manna, af langvarandi óþurrkum. Snjó lagði um vorið svo mikinn víða í Ísafjarðarsýslu, að jarðbönn gjörðu, hvar af leiddi sumstaðar horsóttir af fóðurþröng fénaðar, og víða þar og um Suðurland unglambadauða mikinn, hvar fé var mjög grannt og dregið orðið. Kúpeningur, sármagur allvíða, dró ekki ljóst, og nokkrar kýr króknuðu úti í óveðrum, bæði í Árness- og Ísafjarðarsýslum, en fleiri geltust öldungis upp af fóðurþröng og óveðráttu. ... Úr Norðurlandi heyrist þar á mót sérleg árgæska og bestu peningshöld, en kvillasamt með fólki. Við Ísafjarðardjúp eru í vetur skutlaðir hér um 400 vöðuselir, hver, yfir höfuð reiknað með vættar spiki á.
Brandsstaðaannáll [sumar]:
Voru þá fjöll lítt fær [4.júlí]. Grasvöxtur varð í meðallagi. Sláttur byrjaður á miðsumri. Var lengst rekjusamt, þó þurfti ekki ónýting að verða á heyi norðanlands. Í 16. viku náðust töður lítt skemmdar.
Klausturpósturinn 1818 (I 10 bls. 154) - rekur sumartíð og fleira:
Veðráttufar og heyskapur. Það má heita satt; að vér, í þessu harðviðrasama landi, eigum í ár, seint og snemma, af litlu sumri eða sumarblíðu að segja. Í No.4, bls.63 lýsti ég því, víða um land, þungbæra vetrarfari, til marsmánaðar loka; en á vorveðráttu frá aprílbyrjun til Jónsmessu, minntist ég í No. 5 og 6 bls. 78 og 96. Voru stormar þeir, stórhret og ákafar rigningar, einlægt frá hvítasunnu fram á messur orsök þess, að málnyta hefir mjög svo gagnslítil verið þetta sumar víða á Suðurlandi. Í rigningum þessum féllu víða óttalegar skriður úr fjöllum, en stórum skemmdu beitilönd; en ekki er þess getið, að sérleg óhöpp eða fjárskaðar hafi af þeim skriðum orsakast, nema á Bleiksmýrardal í Þingeyjarsýslu afrétt Fnjóskdælinga hvar meint er að farist hafi af skriðuföllum hér um 500 (eða 300), sem ofan eftir öllum dal hafi rekið upp úr Fnjóská. Aldrei fundust hér í ár nein náttúruleg sumarhlýindi, þó veðurátt skánaði nokkuð og stilltist frá messum fram á sláttarbyrjun. Með honum hófst á ný mánaðar óveðra- og rigningakafli um meiri hluta Suðurlands, hvar þó grasvöxtur var nálægt meðallagi, en góður og vægri rigning Norðanlands, eins um Austurland, einkum fyrir austan Mýrdalssand, hvar heyfengur skal vera ágætur. Um Suður- og Vesturland hröktust töður og svívirtust, og fæstir hirtu tún fyrr enn um höfuðdag. Kuldasamur norðanstorma kafli um engjaslátt, bætti að sönnu þar mörgum góðan útheyjafeng, hvar gras og engjar gáfust þar til, en færði undir eins norður og vestur ströndum á öldungis óvenjulegum árstíma, megn hafþök af hafís, af hverjum, þann 23. ágúst, mikill hroði dreif inn á Skagafjörð og Húnaflóa, og bægði Hofsóss- og Skagastrandarskipum þar frá höfnum, og tálmaði mikið heyvinnu fólks, uns hann, þann 9da september rak aftur til hafs, komst þá Skagastrandarskip á höfn, en hitt til Hofsóss var ókomið þegar seinast fréttist. Frá 27da ágúst og framundir Michalelismessu hefur sjaldan linnt norðan bálkum með ofsa stormum og köföldum í fjöllum, og snjókomu ofan að flæðarmáli, en einkum var hér framúrskarandi áhlaupa norðanbylur, nóttina milli þess 18da og 19da september, með grófustu fannfergi og ofsaveðri, í hverjum kvikfé kaffennti á nokkrum fjallbæjum sunnan Skarðsheiðar í Borgarfirði, er að sönnu náðist lifandi, en þó fenntu til dauðs hér um 20 sauðkindur heim við stöðulból á Hlíðarfæti í Svínadal. Sauðfjárheimtur urðu víða slæmar, einkum lamba, í þeim plássum hvar fjallgöngum ekki var lokið fyrir nefndan kafaldsbyl; fé reyndist nú annars bæði rýrt og mörlítið, sem öll von er á, eftir svo hretviðrasamt og stutt sumar; því með höfuðdegi mátti vetur langan og óttalegan telja hér í garð genginn. Vor stutta og lélega jarð- og garðyrkja sem eins með kálgresi öll, rætur og jarðepli, hefir í ár sérlega mislukkast, svo langt, sem ég hefi tilfrétt, var á endaður 2ur mánuðum fyrri en venjulega. ... Þann 23ja september næstliðinn, voru rúmlega 100 marsvín rekin á land í Hlíðarhúsa og Örfarseyjarlóð við Reykjavík, af nágrönnum þar.
Bessastöðum 23. ágúst 1818 [Ingibjörg Jónsdóttir] (s58)
Grasvöxtur var sumstaðar í betra meðallagi og eins víða verri. En dæmalaus óþurrkur hefur gengið sífellt síðan sláttur byrjaðist. Alla hundadagana hefur komið einn þurrkdagur.
Bessastöðum 5. september 1818 [Ingibjörg Jónsdóttir] (s64): ... því hörð norðanveður ganga nú.
Brandsstaðaannáll [haust og vetur til áramóta]:
Hretalaust þar til í göngum á mánu- og þriðjudag. Föstudag í réttum gjörði hríð mikla og fönn á fjöllum, svo kaupafólk snéri frá Sandi ofan í Vatnsdal. Varð réttafærsla. Á föstudaginn fannkoma svo mikil, að sléttfenni varð yfir fé í dilkum við Stafnsrétt. Eftir 4. okt. þíður og góðviðri, í nóvemberbyrjun frostakafli, 6.-14. hláka mikil. Eftir það var jarðbert og oft þíður, besta vetrarfar til nýárs.
Klausturpósturinn 1818 (I, 12, bls. 191) segir af hausttíðinni:
Í No. 10 minntist ég á bls. 155-56, að með höfuðdegi mætti vetur hér telja í garð genginn. Snjóa- og harðviðraköst gjörði og um og skammt eftir veturnætur víða um Suðurland og undir Eyjafjöllum; eins fréttist af snjókomu mikilli og harðviðri úr Húnavatnssýslu litlu seinna; en frá veturnóttum varð annars víðast um Suðurland veðurátt þýð og mild, en vindasöm til baga sjógæftum og haustafla, sem því varð harla rýr. Úr Skaftafellssýslum fréttist seinast mesta árgæska til lands og sjóar, og allra besti hákarlaafli á afliðnum sumri í hennar eystra parti. Um kvöld þess 10da október strandaði mitt í Eyjafirði, undan Gáseyri, kaupfar Kaupmanns J. L. Buschs, nefnt: Det gode Haab (góð von), í innsiglingu þangað frá Reykjarfirði í Strandasýslu, með ull og ullarvöru, og um 100 tunnur lýsis. Mönnum og vöru varð bjargað.
Espólín [sumar og haust] (að mestu dregið úr Klausturpóstinum):
C. Kap. Þá var óblítt sumar eftir eigi góðan vetur, veður mikil og rigningar, frá hvítasunnu að messum fram, og spillti mjög málnytu sunnanlands og austan, en víða hleypti fram skriðum; tók af mjög mikið af Bleiksmýrardal, og týndist allmargt sauðfé, hugðu menn nær þrem hundruðum hafa rekið dautt upp úr Fnjóská hið efra og neðra. Aftur spillti með slætti, og gjörði stórar rigningar, mest sunnanlands, og urðu heyskemmdir miklar. Afli var enginn norðanlands, en þó var þá eigi öllu betur ært annarstaðar en í Húnavatnsþingi og Skagafirði, kom þó engin sigling á Skagafjörð, en lítil í Höfðann. (s 106). Heyskapur varð sæmilegur norðanlands, en vel fyrir austan Mýrdalssand, en suður og vestur hröktust töður, var þá og lítið fiskifang fyrir Jökli, og allill tíð. Kuldi var um engjasláttinn, og komu hafísar miklir; og þótti þá óvenjulegt; rak nokkuð af þeim inn á Húnaflóa, Skagafjörð og Eyjafjörð, en eftir hundadaga og fram til Mikjálsmessu gjörði snjóa, og mest nóttina milli hins 28da og 29da september, svo að kaffennti fénað á fjallbæjum við Skarðsheiði í Borgarfirði, og 20 sauðkindur til dauðs við stöðulból að Hlíðarfæti í Svínadal. Menn urðu og úti við göngur í Húnavatnsþingi um þann tíma og dó einn af kulda, er heim var kominn; var þá lítil kályrkja þeirra er á það stunduðu. Litlu síðar var vel 100 marsvína rekið á land við Reykjavík, á Hlíðarhúsa- og Örfarseyjarlóð. Eftir veturnætur gjörði væga veðurátt, og síðan vetur hinn besta. (s 107).
Úr tíðavísum Jóns Hjaltalín 1818
Flestum sveitum Íslands í
orma bana liðin stund
mátti heita hörð af því
hún gaf djúpa fönn á grund.
Frosta-hægur hér um svörð
horfinn vetur oft var samt
snjór harðdrægur huldi jörð
hjörðum veitti rýran skammt.
Vorsins gróður varð og smár
vatn þó drypi skýjum af
Þrymshold fóður þetta ár
þó í meðallagi gaf.
Nýting versta vítt um bý
var í sumar lýðum send
hey hjá flestum heita því
hrakin mygluð eða brennd.
Sumarstíða hretin hér
hver eð baga fengu léð
endti síðast september
svellu snjóa kasti með.
Hér á svæði held ég enn
heiti nýjar fréttirnar
fennti bæði fé og menn
fjúk í haust um réttirnar.
Það sem vetri af nú er
ekki getur kallast strítt
fáein hret þó fyndum vér
frosthæg veður gengu títt.
Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um árið 1818. Sigurði Þór Guðjónssyni er þakkað fyrir innslátt Brandstaðaannáls og Hjördísi Guðmundsdóttur fyrir innslátt Árbóka Espólíns (stafsetningu hnikað hér - mistök við þá aðgerð sem og allan annan innslátt eru ritstjóra hungurdiska). Örfáar tölur má finna í viðhengi.
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (20.7.): 78
- Sl. sólarhring: 173
- Sl. viku: 1378
- Frá upphafi: 2486054
Annað
- Innlit í dag: 63
- Innlit sl. viku: 1209
- Gestir í dag: 58
- IP-tölur í dag: 58
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Júlí 2025
- Júní 2025
- Maí 2025
- Apríl 2025
- Mars 2025
- Febrúar 2025
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010