Úr Rímbeglu

Rímbeygla (eða rímbegla) er ævagömul samsuða handrita um tímatal og fleira - sem var svo prentað ásamt latneskri þýðingu og athugasemdum fyrir margt löngu - útgáfan sem ritstjóri hungurdiska horfir á er frá 1801 (fáanleg á bækur.is). Yngri prentun mun einnig til. 

Í ritinu er minnst á stjörnumerki dýrahringsins og þau tengd við sólargang og veður. Fróðleg lesning, þótt greinilega sé hún innflutt að mestu. Tilgangurinn er ábyggilega meðfram sá að auðvelda lesendum að muna röð þessara stjörnumerkja - muna auðveldlega hvort er á undan í árinu meyjar- eða  vogarmerkið, svo dæmi sé tekið af handahófi. Tölurnar eru kaflafyrirsagnir. Ég hef leyft mér að hnika stafsetningu til nútímahorfs (ekki endilega rétt gert). Ég hef sett nútímanöfn merkjanna í sviga séu þau önnur en við eigum að venjast. Höfum í huga að sumar dagsetninganna vísa til „gamla stíls“ og eiga ekki við nú. 

[66.] Þá hefur sól göngu sína â merki því er hrútur er kallaður, af því var það hrútsmerki haft, að þá snýst veðurátta á hinn hægra veg, sem hrútur hvílir á hægri síðu meir um sumar; en um vetur hvílir hann meir á vinstri hlið.

[67.] Sól gengur þá næst fyrir uxamerki (nautið); þar kemur hún átta nóttum fyrir gagndaginn enn eina að almannatali (yfirleitt kallast hann gangdagur - nú 25.apríl): því höfðu spekingar þar uxamerki, að þá er jarðir á flestum löndum best að erja; en yxn eru oftast fyrir arði höfð. Þá gengur hún næst fyrir tveggja bræðra merki; þar kemur hún XV nóttum eftir krossmessu að almennu tali, því var þar kallað tvíburamerki, að í því sólmerki verða sólhvörf um sumar; verða þá tveir dagar líkir að lengd; svo sem þeir menn verða líkastir er tvíburar eru. Þaðan gengur sól fyrir krabbamerki, þar kemur hún viku fyrir Jónsmessu, að alþýðu tali. Krabbi gengur öfugur löngum; enda snýr sól göngu sinni aftur, þá er hún kemur í það merki; því að þá þver göngu hennar.

[68.] Síðan gengur hún í hins óargadýrs merki (ljónsmerkið), þar kemur hún viku fyrir Jakobs messu; þá er sólarganga í kólnan; svo að minni hiti er af sól ofanvert það merki, heldur en öndvert, svo sem óargadýr hefur kaldara eðli aftur frá miðju, heldur en fram. Þaðan gengur sól fyrir meyjarmerki, þar kemur hún þrem nóttum eftir Maríumessu ena fyrri, því settu þeir það mark þar, að þá er engin fræ von hvorki grass né viðar; sem meyjar eðli er að geta ekki eðli af sér. Eftir það gengur sól fyrir skálamerki (vogin), þar kemur hún þrem nóttum eftir krossmessu; þá eru jafndægur að rímtali á því merki; nú af því að skálar eru jafn höfgar báðar, þá skildi af því jafndægurs merki vera kallað skálamerki. Síðan gengur sól fyrir sporðdreka merki, þar kemur hún tíu nóttum fyrir Símons messu; þann dag er Lúkas messa. Það dýr er sporðdreki er kallaður, hefur eitur í enum eftra hlut sínum; en meðan sól gengur um það merki, þá er von hríða og illviðra.

[69.] Eftir það gengur sól fyrir bogmanns merki, þar kemur hún VI nóttum eftir Marteinsmessu; þann mánuð er eldingaflug mest í lofti á suðurlöndum. Má af því að við þeim er óhægt að sjá, er vel kann skjóta, ef hann vill til meins; þá skyldi eldinga mánuðurinn vera af því í bogmanns líki, að við hvoru tveggju er illt að sjá, við eldingum og örvum. Þaðan hverfur hún fyrir steingeitar merki, þar kemur hún þrem nóttum fyrir Tómas messu; það er steingeitar eðli, að hún klifrar í hærri stað heldur en hún væri áður, og vill hún staðar nema í hæstu hömrum. Nú af því að sól gengur annan dag öðrum hærra, þá hún fylgir því merki; þá var af því það nafn gefið þeim sólmánuði.

{70] Eftir það gengur sól fyrir vatnsbera merki, þar kemur hún þrem nóttum fyrir Agnesar messu, þann mánuð telja menn á suðurlöndum vera öskursaman (harðan?); þann köllum vér þorra, og skyldi af því kenna mánuðinn við þann mann sem vatnsins gætir, að þá eru vötnin mest lokinn, þau er í himninum eru, en hér eru lokin með ísum. Síðan gengur sól fyrir fiska merki, þar kemur hún viku fyrir Péturs messu. Nú af því að þá skal gróði koma bæði í sjó og vötn, og þá er sækvikinda frævon mest; þá skyldi af því sá sólmánuður kenndur við fiska. Nú er komið til móts við hrútsmerki, sem upp var hafið að öndverðu þessu tali.

Rymbegla i. e. Computistica et chronologica varia veterum Islandorum“. Ár 1801 814s


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 9
  • Sl. sólarhring: 364
  • Sl. viku: 1834
  • Frá upphafi: 2350570

Annað

  • Innlit í dag: 9
  • Innlit sl. viku: 1637
  • Gestir í dag: 9
  • IP-tölur í dag: 9

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband