Færsluflokkur: Vísindi og fræði
25.8.2021 | 14:38
Merkir veðurdagar
Ritstjóri hungurdiska lætur á hverri nóttu tölvu á Veðurstofunni fara í gegnum athuganir dagsins og tilkynna um merka - og ómerka veðurviðburði næstliðins sólarhrings sem og reikna meðalhita, úrkomusummur og margt fleira. Úr verður heljarlangur listi - svo langur að ekki nema allra mestu áhugamenn um veður komast í gegnum hann - og varla einu sinni þeir. Lítill tilgangur er því í að auglýsa hann meðal almennings. Að auki er rekstur tölvunnar ekki tryggður til langframa - því um einkaframtak ritstjórans er að ræða.
Við skulum nú renna yfir nokkur merk atriði sem fram koma á lista dagsins (hinu daglega ritstjórnarbrauði) - þess sem framleiddur var síðastliðna nótt.
Meðalhiti mánaðarins í Reykjavík til þessa er 12,8 stig, en 13,4 á Akureyri. Hæsti hiti á landinu í gær var 29,4 stig - á Hallormsstað, hæsti hiti á hálendinu mældist 24,7 stig á Eyjabökkum. Lægsti hiti á landinu mældist í Jökulheimum 8,8 stig og 8,9 í Seley. Sólarhringslágmarkshiti landsins hefur aldrei verið jafn hár frá upphafi sjálfvirkra mælinga fyrir rúmum 20 árum. Meðan mannaða stöðvakerfið var fullþétt varð landslágmarkshiti heldur aldrei svona hár - en höfum þó í huga að sólarhringurinn er þar frá 18-18, en 0-24 í sjálfvirka kerfinu (ætti samt litlu að skipta í þessu tilviki).
Landsmeðalhiti í byggð í gær (24.ágúst) var 15,5 stig. Hann hefur einu sinni verð hærri á tíma sjálfvirku stöðvanna. Það var 11.ágúst árið 2004 (15,9 stig) og 30.júlí 2008 var hann 15,3 stig. Landsmeðalhámarkshiti í gær var 19,0 stig og hefur 7 sinnum verið jafnhár eða hærri á tíma sjálfvirku stöðvanna, hæstur 21,3 stig 11. ágúst 2004. Landsmeðallágmark (í byggð) reiknast í gær 13,0 stig. Þetta er nýtt met, þann 11.ágúst árið 2012 var meðaltalið 12,2 stig. - Við skulum hafa í huga að allar tölur gærdagsins eru til bráðabirgða - gætu breyst lítillega þegar allt hefur skilað sér.
Við sjáum því að næturhitinn var ekki síður óvenjulegur á landinu heldur en dagshámarkið.
Meir en hundrað dægurhámarksmet einstakra stöðva féllu í gær - allt of langt mál að tíunda það.
Hið daglega brauð rifjar upp fyrir okkur að 25.ágúst 1974 lentu ferðamenn í hrakningum í hríðarbyl á hálendinu og Möðrudalsöræfi og Vopnafjarðarheiði urðu illfær. Alhvítt varð á Grímsstöðum og 10 cm snjódýpt 26. Þá var 21 cm snjódýpt á Sandbúðum sama dag. Bíll fauk 40 m út af vegi á Varmadalsmelum í Mosfellssveit, tvö hjólhýsi fuku undir Ingólfsfjalli. - Kannski verður staðan aftur þannig á næsta ári?
Við sjáum að sunnanstormur var um tíma í Ólafsvík í gær, 22,7 m/s. Hiti fór í 20 stig eða meira á 35 prósent veðurstöðva (á láglendi) - það er mikið, en langt í frá met.
Ágústhitamet féllu á fjölmörgum veðurstöðvum - nú og ágústhitamet landsins alls fauk - eins og þegar hefur verið fjallað um á þessum vettvangi. Hæsti hiti ársins til þessa mældist í Stykkishólmi, 19,5 stig.
Listinn segir okkur líka frá úrkomumetum. Komu ritstjóranum nokkuð á óvart - kannski vegna þess hversu lítið rigndi á hans slóðum. Fimm ágústsólarhringsúrkomumet féllu á veðurstöðvum. Í Hjarðarlandi í Biskupstungum, á Hjarðarfelli, Bláfeldi , Brjánslæk og í Hænuvík. Mest var sólarhringsúrkoman á Bláfeldi, 134,2 mm og 107,2 mm á Hjarðarfelli. Sums staðar austanlands er úrkoma hins vegar minni en vitað er um áður í ágúst.
Hiti það sem af er mánuði er víða óvenjuhár. Þetta er sem stendur hlýjasti ágústmánuður aldarinnar við Breiðafjörð og á Vestfjörðum - og í Stykkishólmi eru dagarnir 24 þeir hlýjustu frá upphafi mælinga fyrir 176 árum - auðvitað spurning hvert úthaldið verður síðustu dagana.
Meðalhiti mánaðarins til þessa er hæstur á Akureyri (Lögreglustöðinni) 14,4 stig, á Bíldudal er hann nærri því eins hár, 14,3 stig.
Í gær vék hiti mest frá meðallagi við Upptyppinga, þar var hann 12,0 stigum ofan meðallags síðustu 10 ára. Ámóta vik, en litlu minni voru á Gagnheiði, Möðrudal, Reykjum í Fnjóskadal og á Brúsastöðum í Vatnsdal.
Nokkuð stórgerðar hitasveiflur voru fáeinum stöðvum á Austfjörðum í gær. Mest 9,7 stig innan sömu klukkustundar á Kollaleiru í Reyðarfirði. Þar fór hiti snögglega úr 12,5 stigum upp í 22,2 milli kl.3 og 4 um nóttina. Hér takast á loft að ofan og sjávarloftið að utan.
Hiti komst í 20 stig í gær á fáeinum stöðvum á höfuðborgarsvæðinu, 20,0 í Urriðaholti í Garðabæ, 21,7 á Skrauthólum, 21,8 í Tiðaskarði og 23,8 við Blikdalsá. Meðalhiti í Reykjavik var 15,6 stig, hlýjasti 24. ágúst sem við vitum um. Dagurinn var einnig langhlýjasti 24.ágúst á Akureyri - þó dægurhámarksmet hafi ekki verið sett þar.
Við látum þessa yfirferð duga. Dagurinn í dag (25.ágúst) býður líka upp á óvenjuleg hlýindi. Þegar þetta er skrifað er hiti kominn í 28,4 stig á Egilsstöðum.
24.8.2021 | 17:05
Nýtt ágústhitamet á landinu
Í dag mældist hiti á Hallormsstað 29,4 stig. Þetta er hæsti hiti sem mælst hefur í ágústmánuði á landinu. Fyrra met var sett á Egilsstaðaflugvelli 11.ágúst 2004, 29,2 stig. Mesti hiti sem við vitum um á Hallormsstað er 30°C sem mældust þar 17.júlí 1946 (um þá mælingu er fjallað í gömlum hungurdiskapistli).
Met voru þó ekki sett víða í dag - ágústmet á fáeinum stöðvum á hálendi í námunda við Hallormsstað, og nýtt árshitamet var sett á Brú á Jökuldal, 27,3 stig. Þar höfðu mest mælst 27,0 stig áður (í júlí 1991).
Hafgola setti víða strik í reikninginn - og sló mjög á hitann einmitt þegar hann var á hraðri uppleið. Hún gæti þó gefið sig aftur og ekki alveg útséð um lokahámarkstölur á einstökum stöðvum.
Þess má geta í framhjáhlaupi að dagurinn í dag (24.ágúst) er sá 52. á árinu þegar hámarkshiti nær einhvers staðar 20 stigum eða meira á landinu. Lítið var um slíka daga fyrir sólstöður í ár, fyrstu 20 stigin komu þó fyrr en nokkru sinni áður, eða 18.mars þegar hiti fór í 20,3 stig á Dalatanga. Síðan gerðist ekkert í tuttugustigamálum fyrr en 27.maí og svo aftur 5.júní. Frá og með 24.júní hafa hins vegar flestir dagar náð 20 stigum einhvers staðar á landinu og eins og áður sagði eru dagarnir nú orðnir 52 á árinu. Metfjöldi slíkra daga var árið 2010, þá urðu þeir 55 talsins, og 54 árið 2012. Góð von virðist um að árið í ár muni skila fleiri slíkum dögum en vitað er um áður.
Ritstjóri hungurdiska reiknar einnig hitabylgjuvísitölur eins konar. Ein þeirra er hlutfallstala tuttugustigahita á hverjum degi. Vantar nokkuð upp á met einstakra daga (ekki hefur verið mikið um tuttugustig suðvestanlands), en vísitölusumma sumarsins er komin langt upp fyrir það sem mest er vitað um áður - og enn mun bætast við næstu daga.
Miklum hlýindum er spáð á morgun (miðvikudaginn 25.ágúst) - og víðar heldur en í dag. Það er hins vegar óvíst hvort hið nýja ágústmet fellur og við fáum að sjá enn hærri tölu.
Svo þarf auðvitað að fylgjast með sólarhringsmeðalhita, meðalhámarks- og lágmarkshita og ýmsu öðru.
23.8.2021 | 16:59
Óvenjuleg hlýindaspá (rétt einu sinni)
Enn er spáð óvenjulegum hlýindum í háloftunum yfir landinu, í byggðum norðan- og austanlands sem og á hálendinu austanverðu. Skýjafar, úrkoma og vindur af hafi heldur hita hins vegar niðri víðast hvar um landið sunnan- og vestanvert - sé að marka spár. Svonefnd þykkt - eða fjarlægð milli þrýstiflata - mælir hita milli flatanna og gefur góðar vísbendingar um hversu óvenjuleg hlýindi (eða kuldar) eru. Algengast er að nota þykktina á milli 1000 hPa og 500 hPa þrýstiflatanna í þessu skyni. Það er ekki algengt hér á landi að þykktin milli þessara flata sé meiri en 5600 metrar - og er aðeins vitað um fáein slík tilvik síðasta þriðjung ágústmánaðar frá upphafi háloftaathugana fyrir um 70 árum.
Mesta þykkt yfir Keflavíkurflugvelli í síðasta þriðjungi ágústmánaðar mældist þann 26. árið 2003, 5660 metrar. Þá reiknaði bandaríska endurgreiningin 5613 metra þykkt yfir miðju landi (65°N, 20°V). Hiti fór þá í 25,0 stig í Básum í Þórsmörk. Í þessu tilviki var hlýjast fyrir vestan land og áttin norðvestlæg í háloftunum - og þar með ekki alveg jafnvænleg til hlýinda á norðausturlandi eins og þegar þetta gerist í suðlægum áttum. Vindur var hægur - og háloftahlýindum erfitt um vik að ná til jarðar. Meðalhámarkshiti á landinu þessa daga 2003 var hæstur þann 25. 17,7 stig, sá næsthæsti sem við vitum um í síðasta þriðjungi ágústmánaðar. Meðallágmarkshiti á landinu var 11,9 stig - sá hæsti sem við vitum um í síðasta þriðjungi ágústmánaðar.
Endurgreiningar eru oft gagnlegar þegar leitað er að óvenjulegu veðri. Þykktin 2003 er sú næstmesta í síðasta þriðjungi ágústmánaðar á því tímabili sem þær endurgreiningar sem ritstjóri hungurdiska hefur við höndina ná til. Hæsta tilvikið er frá 1976. Þá segir bandaríska endurgreiningin þykktina yfir miðju landi hafa farið í 5618 metra þann 27. Elstu veðurnörd muna vel þetta tilvik, þá fór hiti í 27,7 stig á Akureyri (þann 28.), 27,0 stig á Seyðisfirði og í meir en 25 stig á fáeinum stöðvum öðrum um landið norðaustan- og austanvert. Þetta er það tilvik sem keppt verður við nú - sé að marka veðurspár.
Við skulum líta á háloftaspá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir um hádegi á morgun (þriðjudag 24.ágúst).
Jafnhæðarlínur eru heildregnar og af þeim má ráða vindstefnu og vindstyrk í miðju veðrahvolfi. Litirnir gefa þykktina til kynna. Hún er rétt rúmlega 5640 metrar yfir miðju landi og eins og þegar er fram komið gerist hún ekki öllu meiri hér við land. Áttin er suðvestlæg yfir landinu - en loft langt að sunnan streymir í átt til landsins.
Hér að ofan er endurgreining japönsku veðurstofunnar frá hádegi 27.ágúst 1976. Þar má sjá dálítinn blett þar sem þykktin er meiri en 5640 metrar við Norðausturland. Kortin eru að mörgu leyti svipuð - hlýindin nú virðast þó meiri, en á móti kemur að jafnhæðarlínur yfir landinu eru nokkru þéttari 1976 heldur en nú, þar með meiri von til þess að háloftahlýindin berist niður til jarðar heldur en nú. Hvort hefur betur - meiri háloftahlýindi nú eða þá meiri vindur 1976 vitum við ekki enn. Við vitum ekki hvort hlýindin nú ná einhverjum meti á landsvísu. Hámarksdægurmet munu þó falla á fjölmörgum stöðvum. Kannski landsdægurmet hámarkshita.
Gríðarleg hlýindi voru einnig í ágúst 1947. Hiti fór þá í 27,2 stig á Sandi í Aðaldal þann 22., og sama dag mældust 25,0 stig á Hallormsstað. Mjög hlýtt varð víðar þessa daga. Bandaríska endurgreiningin nefnir þykktina 5592 metra yfir miðju landi þennan dag í eindreginni suðvestanátt. Endurgreiningin nefnir einnig 23.ágúst 1932 sem óvenjuhlýjan dag í háloftum. Þá mældist hiti mestur á landinu á Eiðum 23,8 stig. Sömuleiðis er minnst á háloftahlýindi 27.ágúst 1960. Hiti fór þann 26. í 22,2 stig í Reykjahlíð við Mývatn. Trúlega hefði athugunarkerfi nútímans veitt hærri tölur í báðum þessum tilvikum.
Þann 22. og 23. ágúst 1999 er getið um 27,3 stig í Miðfjarðarnesi, en þær tölur eru mjög vafasamar - líklega á þetta að vera 22,3 stig.
Veðrið í ágúst 1976 var mjög eftirminnilegt. Óvenjuleg hlýindi ríktu um landið norðan- og austanvert. Suðvestanlands voru hins vegar óminnilegar rigningar, ár flæddu um engjar og jafnvel upp á tún og heyskapur var erfiður. Vegarskemmdir urðu víða, sérstaklega á Snæfellsnesi. Hvassviðri voru tíð. Norrænt veðurfræðingaþing var haldið í Reykjavík þessa daga - og síðan einnig vatnafræðiþing. Þetta sumar voru veðurfarsbreytingar talsvert í umræðum manna á meðal, óvenjulegir þurrkar og hitar voru t.d. á Bretlandseyjum. Sýndist sitt hverjum um ástæður. Á veðurfræðiþinginu var t.d. haldinn fyrirlestur um ískjarnarannsóknir á Grænlandi, ljóst þótti að veðurfar myndi lítillega kólna næstu 5 þúsund árin ef áhrif af athöfnum manna kæmu ekki í veg fyrir það. Morgunblaðið vitnar í norræna veðurfræðinga sem þeir ræddu við í tilefni þingsins [28.ágúst, s.31]: Þeim hafði komið saman um að ekki væri ástæða til að óttast róttækar breytingar i veðurfari. Aðspurðir um rigninguna í Reykjavik og áhyggjur Sunnlendinga vöfðu þeir aðeins regnkápunum fastar að sér, áður en þeir héldu út i bílinn, sem beið þeirra. Óþarfa svartsýni að búast við sömu sögu næsta ár. Enda rann höfuðdagurinn upp - og það stytti rækilega upp. Einhver mest afgerandi veðurbreyting sem ritstjóri hungurdiska man nokkru sinni eftir.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 17:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
21.8.2021 | 17:14
Fyrstu 20 dagar ágústmánaðar
Hlýtt hefur verið á landinu fyrstu 20 daga ágústmánaðar. Meðalhiti í Reykjavík er 12,6 stig, +1,2 stigum ofan meðallags áranna 1991 til 2020 og +1,3 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Hitinn nú er í 5. hlýjasta sæti (af 21) á öldinni. Hlýjastir voru sömu dagar árið 2004, meðalhiti þá 13,5 stig, en kaldast var 2013, meðalhiti 10,2 stig. Á langa listanum er hitinn í 6. til 7. hlýjasta sæti ásamt hita sömu ágústdaga árið 1880. Kaldastir voru dagarnir 20 árið 1912, meðalhiti þá 7,6 stig.
Meðalhiti dagana 20 á Akureyri nú er 13,1 stig - í þriðjahlýjasta sæti aldarinnar. +2,0 stig ofan meðallags áranna 1991 til 2020, og 2,4 stig ofan meðallags síðustu tíu ára.
Að tiltölu hefur verið hlýjast á Vestfjörðum og á Miðhálendinu, meðalhiti þar sá næsthæsti á öldinni. Að tiltölu hefur verið kaldast á Austurlandi að Glettingi og á Suðausturlandi, meðalhiti sá sjöttihæsti á öldinni.
Á einstökum stöðvum er jákvætt vik frá meðallagi síðustu tíu ára mest á Þverfjalli, +4,1 stig, en minnst á Streiti, Hvalsnesi og í Hamarsfirði, þar sem hiti er í meðallagi.
Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 29,4 mm og er það um 80 prósent meðalúrkomu. Á Akureyri hafa aðeins mælst 6,6 mm, rúmur fjórðungur meðalúrkomu þar.
Sólskinsstundir í Reykjavík eru 84,4, tæplega 30 færri en í meðalári - hafa þó oft verið mun færri þessa sömu almanaksdaga. Á Akureyri virðast sólskinsstundir nú vera talsvert fleiri en í meðalári.
18.8.2021 | 16:31
Örstutt um þurrkinn
Eins og fram hefur komið í fréttum hefur veður verið í þurrara lagi á höfuðborgarsvæðinu á þessu ári. Það sem er hvað óvenjulegast við þurrviðrið er að lítið hefur verið um langa alveg þurra kafla, heldur er fremur að stórrigningar hafa ekki látið sjá sig um alllangt skeið. Ritstjóri hungurdiska hefur gert lauslega athugun á stöðunni fyrir mislöng tímabil. Að tiltölu er úrkomurýrð síðustu 10 mánaða einna óvenjulegust, styttri og lengri tímabil eru (þegar hér er komið sögu) síður óvenjuleg.
Úrkoma síðustu 10 mánuði í Reykjavík er 479 mm, rétt um 60 prósent ársúrkomu. Síðustu 100 árin hefur tíu mánaða úrkoma tíu sinnum verið minni en nú í Reykjavík, síðast 2010, þar áður 1995. Minnsta tíu mánaða úrkoma sem við vitum um í Reykjavík er 377 mm eða innan við helmingur meðalársúrkomu, (í desember 1950 til september 1951). Við erum því frekast að tala um 10-ára 10-mánaðaþurrk heldur en eitthvað enn óvenjulegra.
Úrkoma það sem af er ágúst hefur verið nærri meðallagi. Í ágúst og september í fyrra (2020) var úrkoma í Reykjavík vel yfir meðallagi, úrkoma var einnig í ríflegu meðallagi í nóvember, en neðan þess í öðrum mánuðum - þar af var hún neðan meðallags alla fyrstu 7 mánuði þessa árs.
Þurrkar eru lengi að byggjast upp, en úrhelli fljót að rétta þá af. Árið 1951 var það þurrasta sem við vitum um í Reykjavík á tímabili áreiðanlegra úrkomumælinga. Úrkoma það ár mældist aðeins 560 mm. Úrkoma á þessu ári til þessa stendur nú nærri 330 mm. Til að slá út metið frá 1951 þyrfti úrkoma afgang ársins að mælast innan við 60 prósent af meðallagi - heldur er það ólíklegt (enn mögulegt engu að síður). Minnsta úrkoma 12-mánaða tímabils í Reykjavík er 515 mm, frá september 1950 til og með ágúst 1951. Til að komast í flokk tíu þurrustu ára síðustu 100 árin verður ársúrkoman 2021 að vera innan við 665 mm - það er - að ekki mega falla nema 335 mm hér í frá til ársloka - en það er nærri meðalúrkomu.
Úrkomumælingar voru gerðar í Reykjavík á árunum 1829 til 1854. Kannski ekki alveg áreiðanlegar - líklega vantar um 10 prósent upp á ársúrkomu í þurrustu árunum, en munur í votum árum er líklega minni. Þurrasta árið var 1839. Þá mældist úrkoman aðeins 376 mm (kannski rúmir 400 mm með núverandi mælitækjum). Fáein ár þar um kring voru sérlega úrkomurýr, sé að marka mælingar, en síðan skipti um til úrkomutíðar. Meðalársúrkoma alls þessa fyrsta mælitímabils er nánast sú sama og nú - rétt tæpir 800 mm.
Haldi þurrkatíðin áfram munum við á hungurdiskum reyna að fylgjast með og segja frá tíðindum. Skipti hins vegar um tíð (eins og oft gerir á þessum árstíma) verður lengra frekari þurrkfréttir.
16.8.2021 | 11:17
Fyrri hluti ágústmánaðar
Fyrri hluti ágústmánaðar var hlýr á landinu. Meðalhiti í Reykjavík er 12,8 stig, 1,3 stigum ofan meðallags sömu daga árin 1991 til 2020 og +1,5 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára og í fimmtahlýjasta sæti (af 21) á öldinni. Hlýjastir voru sömu dagar 2004, meðalhiti þá 14,0 stig, en kaldastir voru þeir 2013, meðalhiti 10,4 stig. Á langa listanum er hiti nú í 8.hlýjasta sæti (af 147). Kaldastur var fyrri hluti ágúst árið 1912, meðalhiti aðeins 7,4 stig.
Á Akureyri er meðalhiti fyrri hluta ágústmánaðar nú 13,3 stig, 1,9 stigum ofan meðallags 1991 til 2020 og 2,3 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára.
Að tiltölu hefur verið hlýjast á Miðhálendinu, þetta er þriðjahlýjasta ágústbyrjun á öldinni þar, en svalast hefur verið á Austurlandi að Glettingi og á Suðausturlandi, hiti í 6.hlýjasta sæti á öldinni.
Á einstökum veðurstöðvum hefur verið hlýjast að tiltölu á Þverfjalli. Þar er hiti +4,2 stig ofan meðallags síðustu tíu ára. Í Hamarsfirði hefur hiti verið -0,1 stigi neðan meðallags síðustu tíu ára, eins á Hvalsnesi.
Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 27 mm og er það í meðallagi. Á Akureyri hafa aðeins mælst 4,7 mm, um fjórðungur meðallags.
Sólskinsstundir í Reykjavík hafa mælst 81,7 - og er það í meðallagi. Sólríkt hefur verið á Akureyri.
11.8.2021 | 17:38
Óvenjuhár sjávarhiti
Sjávarhiti við Norðurland er í fréttum þessa dagana. Því miður er sjávarhitamælir Veðurstofunnar í Grímsey ekki í lagi um þessar mundir og við verðum aðallega að reiða okkur á fjarkönnunargögn - en þó eru fáein dufl á reki norðan við land og frá þeim koma einhverjar upplýsingar. Sjávarhitamælingar úr gervihnöttum hafa þann ókost að sjá ekki nema hita yfirborðsins - sá hiti getur verið töluvert annar heldur en hiti rétt neðan yfirborðs - sérstaklega hafi vindar verið mjög hægir í nokkra daga. Slíkur sjór getur á örskotsstund blandast kaldari, hreyfi vind að ráði.
Hér má sjá sjávarhita gærdagsins eins og hann var í líkani evrópureiknimiðstöðvarinnar. Það sem er sérlega óvenjulegt er hinn hái hiti í Austur-Grænlandsstraumnum, en á árum áður voru oft talsverðar ísleifar í honum á þessum tíma árs, stundum miklar. Í miklum ísárum fyrri tíma náði sá ís jafnvel til Íslands í ágúst, vestur fyrir Horn og suður fyrir Berufjörð á Austfjörðum. Nær aldrei var greið leið til austurstrandar Grænlands. En nú er það ekki aðeins ísleysi, heldur er hiti ekkert nærri frostmarki heldur. Annað atriði er sérlega hár hiti undan austanverðu Norðurlandi, allt að 13 stigum. Árin 2003 og 2004 fór meðalsjávarhiti í júlí og ágúst yfir 10 stig við Grímsey. Sama gerðist í ágúst 1955, 1939, 1933 og 1931. Á þessu korti er hitinn við Grímsey nærri 12 stig. Höfum í huga að þetta er í dag - líklega fellur hitinn síðar í mánuðinum þannig að spurning er enn hvort mánaðarmeðalhitinn verði þar hærri en áður hefur borið við - alls ekki er það víst.
Evrópureiknimiðstöðin sýnir okkur einnig vikakort.
Ef við trúum því er vikið hér við land mest við Melrakkasléttu, meira en 6 stig. Enn meiri vik eru síðan á ísaslóðum við Grænland. Svipað má svo reyndar sjá líka á allstórum svæðum við norðurstrendur Síberíu. Hiti undan Suðurlandi er einnig meir en 2 stigum ofan meðallags á stóru svæði. Dálítið neikvætt vik er undan Suðausturlandi - ekki fjarri straumamótunum. Ritstjóra hungurdiska þykja tvær skýringar koma til greina - sú fyrri er að ríkjandi suðvestanáttir hafi dregið upp sjó að neðan - nokkuð sem gerist alloft blási vindur af sömu átt mjög lengi. Hin skýringin er að hlýrri og saltari sjór berist í einhverjum sveipum inn á svæðið - yfir kaldari og seltuminni - við það verður blöndun ákafari við straumamótin - alla vega eru líkur á blöndun meiri við straumamót heldur en annars.
Gervihnattamælingar sjávarhita eru sérlega ónákvæmar við strendur - þannig að ekki er gott að segja hvort hin neikvæðu vik (síðara kortið) og lági hiti (fyrra kortið) sem við getum greint inni á fjörðum Norðaustur-Grænlands eru raunveruleg. Á þeim slóðum hafa óvenjuleg hlýindi verið ríkjandi upp á síðkastið, svipað og á Norðaustur- og Austurlandi, bráðnun snævar og jökla er þar sjálfsagt með mesta móti, það skilar sér út á firðina þar sem hiti er því nærri frostmarki - þrátt fyrir hitabylgju á snjólausum svæðum.
Fáein flotdufl eru á reki fyrir norðan land, þau taka dýfur reglulega - mislangt niður - mæla seltu- og hitasnið, og senda síðan mælingarnar til gervihnatta þegar þau koma úr kafi. Í fyrradag fengust upplýsingar frá dufli sem statt var á 68,9°N og 14,8°V. Þar var yfirborðshiti um 8,5 stig, um 4 stig á 50 metra dýpi og 0,5 stig á 100 metra dýpi. Yfirborðið var tiltölulega ferskt (og því gat það vatn flotið) - en ferskasta lagið var örþunnt - aðeins um 10 metrar ef trúa má mælingunni. Gangi mikil hvassviðri yfir þetta svæði á næstunni mun hiti þar geta fallið um mörg stig á stuttum tíma. Svipað mun eiga við um stóra hluta þess svæðis þar sem hitavikin eru hvað mest.
Nú er spurning hvernig fer með haustið - undir venjulegum kringumstæðum fer mikill hluti sumarorkunnar í að bræða ís við Austur-Grænland - því er venjulega ekki lokið í lok sumars. Nú er hins vegar engan ís þar að finna - fyrr en norðan við 80. breiddargráðu. Varmi getur því safnast fyrir í yfirborðslögum sjávar. Kannski blandast varminn niður í hauststormum - en þá geymist hann þar til lengri tíma - getur e.t.v. nýst til að éta ís síðar og annars staðar - kannski fer varminn í aukna haustuppgufun - austanvindar á Austur-Grænlandi og norðanvindar hér á landi þá e.t.v. orðið blautari en vandi er til. Til þess að við verðum fyrir slíku þarf vindur auðvitað að blása af norðri - en hlýr sjór ræður harla litlu um vindáttir - (jú, einhverju - en vart afgerandi í þessu tilviki).
Hluti vandans á norðurslóðum fellst svo í því að útflutningur ferskvatns út úr Norður-Íshafi og með Austur-Grænlandsstraumnum gengur greiðar fyrir sig sé ferskvatnið í formi íss en ekki vökva, vindur nær mun betri tökum á ís heldur en sjávaryfirborði. Hugsanlega geta þannig safnast fyrir umframferskvatnsbirgðir í norðurhöfum. Enginn veit með vissu hvernig fer með slíkt eða hvaða afleiðingar slík birgðasöfnun hefur til lengri tíma. Það eitt er víst að mjög miklar breytingar hafa átt sér stað að undanförnu fyrir norðan okkur. Óþægilegt er að vita af því að enn meira kunni að vera í pípunum - og að vita ekki hvers eðlis það verður - gott eða slæmt - við vitum ekki einu sinni hvort það sem sýnist gott er í raun slæmt (þá án gæsalappa).
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 17:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.8.2021 | 11:41
Fyrstu tíu dagar ágústmánaðar hafa verið hlýir á landinu
6.8.2021 | 21:06
Örlítið söguslef - hitafar
Ritstjóri hungurdiska er um þessar mundir í starfslokatiltekt, flettir og hendir gömlum blöðum og skýrslum. Rifjast þá sitthvað upp. Á dögunum rakst hann á aldarfjórðungsgamla norska ráðstefnugrein. Fjallar hún um tilraun til mats á hitafari á hellaslóðum við Mo í Rana í Noregi. Mo i Rana er í Nordland-fylki í Noregi, á svipuðu breiddarstigi og Ísland. Ársmeðalhiti 1961-1990 var eiginlega sá sami og í Stykkishólmi, eða 3,5 stig. Staðurinn er þó ekki alveg við ströndina og eru vetur heldur kaldari og sumur hlýrri heldur en í Hólminum.
Hér að neðan lítum við á mynd (línurit) þar sem reynt er að giska á ársmeðalhitann á þessum slóðum síðustu 9 þúsund ár eða svo. Notast er við samsætumælingar í dropasteinum hellisins. Ritstjórinn minnist þess að línurit þetta fór allvíða á sínum tíma og beið hann lengi eftir því að greinin birtist í því sem kallað er ritrýnt tímarit - eða alla vega einhverju ítarlegra en ráðstefnuriti. Svo virðist sem úr því hafi ekki orðið, kannski vegna þess að eitthvað ábótavant hefur fundist, t.d. í aðferðafræðinni. Aftur á móti birtist grein um niðurstöður mælinga úr sama helli nokkrum árum síðar - en þar var fjallað um hitafar í hellinum á hlýskeiði ísaldar - frá því fyrir um 130 þúsund árum að 70 þúsund árum fyrir okkar daga. Ritstjóri hungurdiska hefur ekkert vit á dropasteinum - né þeim aðferðum sem menn nota til að galdra út úr þeim upplýsingar um hita og/eða úrkomu. En hitaferill myndarinnar er forvitnilegur.
Í haus myndarinnar segir að þar fari ársmeðalhiti í Mo i Rana. Lárétti ás myndarinnar sýnir tíma, frá okkar tíð aftur til 8500 ára fortíðar. Eins og gengur má búast við einhverjum villum í tímasetningum. Lóðrétti ásinn sýnir hita - efri strikalínan merkir meðalhita á okkar tímum (hvað þeir eru er ekki skilgreint - en hér virðist þó átt við meðaltalið 1961 til 1990). Neðri strikalínan vísar á meðalhita á 18.öld - litla ísöld er þar nefnd til sögu. Rétt er að benda á að ferillinn endar þar - fyrir um 250 árum (um 1750) - en nær ekki til 19. og 20. aldar. Höfundurinn ákveður nú að hiti um 1750 hafi verið um 1,5 stigum lægri heldur en nú. Um það eru svosem engar alveg áreiðanlegar heimildir - sem og að sú tala gæti jafnvel átt við annað nú heldur en höfundurinn virðist vísa til - t.d. til tímabilsins 1931 til 1960, sem var heldur hlýrra en það síðara, í Noregi eins og hérlendis. Sé munurinn á hita nú og hita litlu ísaldar minni en 1,5 stig hefur það þær afleiðingar að hitakvarðinn breytist lítillega - en lögun hans ætti samt ekki að gera það.
Nú er það svo að töluverður munur getur verið á hitafari í Noregi og á Íslandi, mjög mikill í einstökum árum, en minni eftir því sem þau tímabil sem til athugunar eru eru lengri. Allmiklar líkur eru því á að megindrættir þessa línurits eigi einnig við Ísland - sé vit í því á annað borð.
Höfundurinn (Lauritzen) tekur fram að hver punktur á línuritinu sé eins konar meðaltal 25 til 30 ára og útjafnaða línan svari gróflega til 5 til 6 punkta keðjumeðaltals - og eigi því við 100 til 200 ár. Sé farið meir en 5 þúsund ár aftur í tímann gisna sýnatökurnar og lengri tími líður milli punkta - sveiflur svipaðar þeim og síðar verða gætu því leynst betur.
En hvað segir þá þetta línurit? Ekki þarf mjög fjörugt ímyndunarafl til að falla í þá freistni að segja að hér sé líka kominn hitaferill fyrir Ísland á sama tíma.
Samkvæmt þessu hlýnaði mjög fyrir um 8 þúsund árum og var hitinn þá um og yfir 6°C. Almennt samkomulag virðist ríkja um að mikið kuldakast hafi þá verið nýgengið yfir við norðanvert Atlantshaf.
Meðalhiti í Stykkishólmi er rúm 3,5°C síðustu 200 árin, hlýjustu 10 árin eru nærri 1°C hlýrri og á hlýjustu árunum fór hiti í rúm 5,5 stig. Getur verið að meðalhiti þar hafi verið 5 til 6°C í rúm 2000 ár? Sú er reyndar hugmyndin - jöklar landsins áttu mjög bágt og virðast í raun og veru hafa hopað upp undir hæstu tinda. Ástæður þessara miklu hlýinda eru allvel þekktar - við höfum nokkrum sinnum slefað um þær hér á hungurdiskum og áherslu verður að leggja á að þær eru allt aðrar heldur en ástæður hlýnunar nú á dögum.
Höldum áfram að taka myndina bókstaflega. Frá hitahámarkinu fyrir hátt í 8 þúsund árum tók við mjög hægfara kólnun, niður í hita sem er um gráðu yfir langtímameðallagi okkar tíma. Síðan kemur mjög stór og athyglisverð sveifla. Toppur skömmu fyrir um 5000 árum nær rúmum 5 stigum, en dæld skömmu síðar, færir hitann niður í um 1°C, það lægsta á öllu tímabilinu sem línuritið nær yfir fyrir um 4500 árum, eða 2500 árum fyrir Krist. Þessar tölur báðar eru nærri útmörkum á því sem orðið hefur í einstökum árum síðustu 170 árin. En þær eiga, eins og áður er bent á, væntanlega við marga áratugi. Ýmsar aðrar heimildir benda til verulegrar kólnunar á okkar slóðum fyrir rúmum 4000 árum. Þessi umskipti voru á sínum tíma nefnd sem upphaf litlu ísaldar - en því heiti var síðar stolið á grófan hátt - síðari tíma fræðimenn hafa stundum nefnt þessa uppbreytingu upphaf nýísaldar (Neoglaciation á ensku).
Á þessum tíma hafa jöklar landsins snaraukist og náð að festa sig í sessi að mestu leyti. Jökulár hafa þá farið að flengjast aftur um stækkandi sanda með tilheyrandi leirburði og sandfoki, gróðureyðing virðist hafa orðið á hálendinu um það leyti. Ef við trúum myndinni stóð þetta kuldaskeið í 700 til 800 ár - nægilega lengi til að tryggja tilveru jöklanna, jafnvel þó þeir hafi búið við sveiflukennt og stundum nokkuð hlýtt veðurlag síðan.
Línuritið sýnir allmikið kuldakast fyrir um 2500 árum síðan (500 árum fyrir Krists burð). Þá hrakaði gróðri e.t.v. aftur hér á landi. Það hitafar sem línuritið sýnir milli Kristburðar og ársins 1000 greinir nokkuð á við önnur ámóta línurit sem sýna hitafar á þeim tíma. Ef við tökum tölurnar alveg bókstaflega ætti þannig að hafa verið hlýjast um 500 árum eftir Krist, en aðrir segja að einmitt þá (eða skömmu síðar öllu heldur) hafi orðið sérlega kalt. En línuritið segir aftur á móti frá kólnun eftir 1000.
Það eru almenn sannindi að þó að e.t.v. sé samkomulag að nást um allra stærstu drætti veðurlags á nútíma gætir gríðarlegs misræmis í öllu tali um smáatriði - hvort sem er á heimsvísu eða staðbundið. Frá því að þessi grein birtist hefur mikið áunnist í rannsóknum á veðurfarssögu Íslands á nútíma, en samt er enn margt verulega óljóst í þeim efnum.
Línurit sem þessi geta á góðum degi hjálpað okkur í umræðunni - en við skulum samt ekki taka smáatriðin allt of bókstaflega.
Rétt er að nefna greinina sem myndin er fengin úr (tökum eftir spurningamerkinu í titlinum):
Stein-Eirk Lauritzen (1996) Calibration of speleothem stable isotopes against historical records: a Holocene temperature curve for north Norway?, Climate Change: The Karst Record, Karst Waters Institute Special Publications 3, p.78-80.
4.8.2021 | 17:42
Hlýindamet í háloftum yfir Keflavík
Enn fjölgar fréttum af hlýindametum. Ritstjórinn hefur reiknað út meðalhita í háloftunum yfir Keflavík. Í júlí voru sett þar met í þremur hæðum, 400 hPa, 500 hPa og 700 hPa. Meðalhiti í 400 hPa (rúmlega 7 km hæð) var -28,1 stig og er það um 0,8 stigum hærra en hæst hefur áður orðið í júlímánuði (1991). Meðalhiti í 500 hPa (um 5,5 km hæð) var -16,5 stig, um 0,9 stigum hærri en hæst áður í júlí (líka 1991) og 3,2 stigum ofan meðaltals síðustu 70 ára. Í 700 hPa (rúmlega 3 km hæð) var meðalhiti júlímánaðar -0,9 stig, 1,3 stigum hærri en hæst hefur orðið áður (einnig í júlí 1991). Í 850 hPa (um 1400 metra hæð) var meðalhiti 6,0 stig, -0,1 stigi lægri en í júlí 1991 og sá næsthæsti frá upphafi mælinga.
Uppi í 300 hPa var meðalhiti mánaðarins -42,2 stig, sá fjórðihæsti í í júlí frá upphafi (1952). Þar uppi var hlýrra en nú í júlí rigningasumrin miklu 1955 og 1983 - og sömuleiðis 1952 (en mælingar í þeim mánuði kunna að vera gallaðar). Aftur á móti var hiti í heiðhvolfinu með lægra móti nú - en engin mánaðamet þó. Í 925 hPa (um 700 m hæð) var heldur ekki um met að ræða - hiti ekki fjarri meðallagi, rétt eins og niðri á Keflavíkurflugvelli. Þar réði sjávarloftið sem umlék vestanvert landið mestallan mánuðinn.
Þykktin (mismunur á hæð 1000 og 500 hPa-flatanna) yfir Keflavík hefur heldur aldrei verið meiri en nú (rétt eins þykktin í greiningu evrópureiknimiðstöðvarinnar sem þegar hefur verið minnst á hér á hungurdiskum), um 10 metrum meiri en hæst áður í júlí (1991) og um 60 metrum meiri heldur en meðaltal síðustu 70 ára. Samsvarar það um +3°C viki frá meðallagi. Ef trúa má greiningu evrópureiknimiðstöðvarinnar var vikið enn meira yfir Norðausturlandi.
Spurt var um ástæður hlýindanna - svar liggur auðvitað ekki á reiðum höndum, en sú er tilfinning ritstjóra hungurdiska að hin almenna hnattræna hlýnun hafi e.t.v. komið hitanum nú fram úr hlýindunum 1991 - en afgangs skýringanna sé að leita í öðru. Ekki síst því að margir styttri hlýindakaflar hafi nú af tilviljun raðast saman í einn bunka - rétt eins og þegar óvenjumargir ásar birtast á sömu hendi í pókergjöf. Þetta má t.d. marka af því að þrátt fyrir öll þessi hlýindi var ekki mikið um algjör hitamet einstaka daga - hvorki í háloftum né á veðurstöðvum (það bar þó við). Við bíðum enn slíkrar hrinu - hvort hún kemur þá ein og sér eða í bunka með fleiri ásum verður bara að sýna síg.
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.9.): 230
- Sl. sólarhring: 277
- Sl. viku: 1560
- Frá upphafi: 2500150
Annað
- Innlit í dag: 189
- Innlit sl. viku: 1392
- Gestir í dag: 182
- IP-tölur í dag: 179
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- September 2025
- Ágúst 2025
- Júlí 2025
- Júní 2025
- Maí 2025
- Apríl 2025
- Mars 2025
- Febrúar 2025
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010