Tilraun til breytinga

Veðurlag hefur nú verið í svipuðum skorðum hér við land í um það bil mánuð. Mikil hlýindi um landið norðan- og austanvert, en þungbúið á Suðvesturlandi og hiti þar nærri meðallagi. Úrkoma hefur á þessu tímabili verið lítil um land allt. 

Snemma í vikunni varð ljóst að allöflugur kuldapollur myndi stefna til landsins vestan yfir Grænland. Þó tölvuspár hafi verið sammála um komu pollsins hingað hafa þær verið heldur óvissar um framhaldið. Samkomulag hefur nú tekist að mestu um það að pollurinn fari fyrst lítinn hring um sjálfan sig fyrir vestan land á morgun (sunnudag 25.júlí) og á mánudag, en síðan taki hann á rás til suðausturs í átt til Bretlands og enn síðar til Danmerkur.

w-blogg240721a

Kortið sýnir tillögu evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir síðdegis á mánudag. Þá verður miðja pollsins við Vesturland. Óstöðugt loft fylgir - (það er mjög kalt í háloftunum) og úrkoma gæti orðið töluverð bæði á sunnudag og mánudag. Kannski rignir eitthvað eystra líka þegar frá líður og vindur nær að snúast til austurs í háloftunum. 

Litirnir á kortinu segja okkur af þykktinni, en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því minni sem hún er því kaldara er loftið. Hún hefur upp á síðkastið lengst af verið á milli 5500 og 5600 metrar (jafnvel enn meiri suma daga), en dekkri græni liturinn segir af þykkt minni en 5400 metrum - og allt að tíu stigum kaldara lofti heldur en hefur verið yfir landinu að undanförnu. Það þýðir að erfiðara er að koma síðdegishitanum yfir 20 stigin (þykktartölurnar yfir Norðausturlandi eru ekki svona lágar). Hér á Suðvesturlandi munar minna á því sem verið hefur - yfir okkur hefur legið fremur svalt sjávarloft þó hlýindi hafi verið ofar. 

Þegar kuldapollurinn fer suður um sækir hlýja loftið aftur að - bara spurning um hvort það kemur úr austri eða vestri - og hvort einhverjar leifar af kaldara lofti lokast inni á milli þessara hlýju loftstrauma - og þar með tafið hingaðkomu þeirra. 

Komi hlýja loftið úr austri eru talsverðar líkur á að hiti komist síðar í vikunni yfir 20 stig á Suðurlandi. En um það vitum við lítið enn sem komið er.

Fleiri kuldapollar eru reikandi um í norðurhöfum - mislíklegir til áhrifa hér á landi. Sömuleiðis gæti farið að draga til tíðinda suður við hvarfbaug - en hlýr og rakur hroði þaðan getur líka valdið breytingum á veðurlagi hér á landi síðla sumars.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Trausti

Geturðu útskýrt stuttlega hvað þú átt við með orðunum: „Sömuleiðis gæti farið að draga til tíðinda suður við hvarfbaug - en hlýr og rakur hroði þaðan getur líka valdið breytingum á veðurlagi hér á landi síðla sumars“.  

kveðja frá traustum lesanda bloggsins :)

Vigfus Sigurdsson (IP-tala skráð) 27.7.2021 kl. 09:23

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Um það er fjallað lítillega hér: Hásumar á norðurhveli - trj.blog.is

Trausti Jónsson, 27.7.2021 kl. 10:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 255
  • Sl. sólarhring: 305
  • Sl. viku: 1829
  • Frá upphafi: 2350456

Annað

  • Innlit í dag: 181
  • Innlit sl. viku: 1630
  • Gestir í dag: 171
  • IP-tölur í dag: 171

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband