Færsluflokkur: Vísindi og fræði
6.8.2012 | 01:44
Suðvestanátt í nokkra daga?
Ef trúa má spám reiknimiðstöðva stefnir í nokkurra daga suðvestanátt í vikunni. Ekki er samkomulag um hvað síðan gerist og við látum það liggja á milli hluta. En suðvestanáttinni fylgir hlýtt loft um stund og e.t.v. komið að hlýindum nyrðra og eystra.
Kortið sýnir stöðuna eins og evrópureiknimiðstöðin telur hana verða um hádegi á þriðjudag. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru svartar og heildregnar, en jafnþykktarlínur eru rauðar (mjóar) strikalínur. Þykktin sýnir hita í neðri hluta veðrahvolfs - því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Vindur er hins vegar nokkuð samsíða jafnhæðarlínunum og er því meiri sem þær eru þéttari. Kortið skýrist að mun við smellastækkun og þá má sjá merkingarnar betur en hæðar- og jafnþykktarlínur eru merktar í dekametrum (1 dam = 10 metrar).
Svarta, þykka, strikalínan sýnir legu hæðarhryggjar sem að undanförnu hefur aðallega legið frá suðri til norðurs fyrir vestan land - en sveigist nú til austurs þannig að stefna hans verður úr suðvestri til norðausturs. Rauðbrúna, þykka, strikalínan sýnir þykktarhrygginn á sama hátt. Þar er þykkt lægri á báða vegu línunnar.
Hér er Ísland enn í norðvestanátt - en suðvestanáttin tekur brátt völdin og með henni hlýja loftið. Það er 5640 metra jafnþykktarlínan sem snertir Suður-Grænland - hún fer langt með að komast hingað sé að marka spár - en þó ekki alveg. Kalda loftið vestan hryggjar slær þykktarhrygginn til suðausturs þannig að skotið geigar.
En það verður spennandi að sjá hversu hátt hitinn fer austanlands um miðja viku. Hingað til er hæsti hiti sumarsins 24,0 stig. Tími er til kominn að gera betur þótt enn sé ekkert víst í þeim efnum. Sömuleiðis væri ágætt að fá nokkra rigningardaga á vestanverðu landinu í þeirri von að berjasprettan komist á rétt ról. Jú, það er talsvert af berjum - en ósköp er að sjá þau smá og væskilsleg á hálfsviðnuðu lyngi. Vonandi kemur rigningin ekki of seint.
5.8.2012 | 01:54
Frétt um fjórða mánuð (lítil og vart lestrartilefni)
Fyrir um það bil tíu dögum fjölluðu hungurdiskar um það óvenjulega ástand að hlýrra sé vestan við land (30°V) heldur austan við (10°V) í marga mánuði í röð (að meðaltali). Þar var upplýst að þetta ástand hafi verið ríkjandi í apríl, maí og júní á þessu ári og fundust fá eldri dæmi um ámóta. Nú hefur komið í ljós að júlí féll líka í þennan flokk og ástandsmánuðirnir því orðnir fjórir.
Þetta gerðist síðast fyrir aðeins tveimur árum - afbrigðaárið mikla 2010 - en aldrei annars á tíma háloftaathugana en þær hófust um 1950. Endurgreiningin bandaríska segir þetta einnig hafa gerst 1932 - þá urðu mánuðirnir fimm.
Nú hefur norðanátt líka verið ríkjandi í 500 hPa-fletinum í fjóra mánuði í röð. Ef trúa má endurgreiningunni hefur það ekki gerst nema einu sinni áður, í júlí til október 1932. Að þessu sinni hefur norðanáttin hvað eftir annað fært okkur niðurstreymisloft frá Grænlandi, bjart veður og sólskin. Sólin hefur séð um að halda hitanum uppi - þótt þykktin hafi varla farið upp fyrir 5500 metra. Enda hefur ekki enn mælst 25 stiga hiti á landinu í sumar. Nú þegar sól fer að lækka á lofti minnka líkur á að svona norðanáttarástand geti stutt við hlýindi - þótt það færi veðurgæði á flestum árstímum.
Hvenær skyldu umskiptin koma? Hvernig verða þau? Fáeinum sinnum í sumar hefur breyting virst ætla að verða - en allt gengið í sama far eftir 3 til 4 daga.
4.8.2012 | 01:35
Hlýtt það sem af er ári
Í reglubundnu mánaðaryfirliti Veðurstofunnar fyrir júlímánuð er dálítil samantekt um fyrstu sjö mánuði ársins. Þar kemur fram að í ár lendir meðalhiti mánaðanna sjö í fimmta sæti sé gerður listi um hlýjustu tímabilin í Reykjavík, Stykkishólmi og í Vestmannaeyjum. Á Akureyri er það í sjöunda sæti, en því fimmtánda austur á Teigarhorni við Berufjörð. Á öllum stöðunum hafa mælingar staðið í að minnsta kosti 130 ár.
Það er áberandi hvað fyrstu ár þessarar aldar hafa staðið sig vel fyrri hluta árs - og reyndar fram í ágúst. Síðustu fimm mánuðirnir hafa einnig oftast verið hlýir á síðustu tíu árum - en standa sig ekki alveg jafn vel gagnvart hlýindaskeiðinu mikla á 20. öld.
Lárétti ásinn sýnir árin, en sá lóðrétti er meðalhiti fyrstu sjö mánaðanna. Árin tíu frá og með 2003 fram til ársins í ár, 2012 eru einstök að því leyti að aldrei hefur brugðið út af með hitann. Hlýindaskeiðið frá því um 1925 og fram til 1965 sker sig líka úr en þar er samt ekkert skeið með jafnsamfelldum hlýindum og þeim sem ríkt hafa upp á síðkastið. Við hljótum að spyrja okkur hvenær þetta taki enda.
Næsta mynd sýnir meðalhitann í Reykjavík síðustu fimm mánuði ársins yfir sama tímabil.
Margt er líkt með myndunum tveimur. Hlýindi síðustu ára eru mikil - en skera sig samt ekki alveg jafn mikið frá fyrri hlýju árum - einnig má taka eftir því að hlýskeiðið um miðja 20. öld er styttra síðari hluta ársins heldur en fyrri hlutann. Kuldaskeiðið í kringum 1980 er jafnvel verra en ástandið á 19. öld.
Af þessum myndum má sjá tímabil með hlýjum fyrri hluta árs fylgja í grófum dráttum hlýjum tímabilum síðari hluta ársins og sömuleiðis á köldu hliðinni. En þegar farið er í sauma á einstökum árum verður myndin flóknari og þótt samband hita fyrri og síðari hluta ársins sé marktækt er það samt svo slaklegt að nákvæmlega engu er að treysta. Þótt fyrri hluti ársins hafi verið afspyrnuhlýr er ekki víst að síðari hlutinn verði það. En við getum lifað í voninni.
Að meðaltali eru síðustu fimm mánuðir ársins 0,7 stigum hlýrri heldur en sjö fyrstu í Reykjavík. Færi svo myndi ársmeðalhitinn verða 6,4 stig. Varla trúum við því - allt þarf að ganga upp. Þótt lítið samband sé á milli hita fyrri og síðari hluta árs er fylgnin auðvitað mikil milli meðalhita fyrstu sjö mánaðanna og ársmeðalhitans eins og hann verður að lokum. Tökum við það samband bókstaflega ætti meðalhiti ársins 2012 að verða 5,5 stig. Það nægir í þrettánda hitasætið.
3.8.2012 | 00:26
Júlíhitinn í Vestmannaeyjum
Eins og fram hefur komið í fréttum var nýliðinn júlímánuður sá hlýjasti sem mælst hefur á Stórhöfða í Vestmannaeyjum. Þótt lítið mark sé takandi á tveimur aukastöfum í meðalhita skulum við samt nota þá í því sem hér fer á eftir. Júlíhitinn núna var 11,89 stig, næsthlýjast var í júlí fyrir tveimur árum, 2010, 11,75 stig og júlí 1933 er í þriðja sæti með 11,66 stig.
En danska veðurstofan setti upp stöð í Vestmannaeyjakaupstað í júní 1877 og þar var linnulaust mælt í 44 ár eða fram í september 1921 að flutt var til Stórhöfða. Flutningurinn var skyndilegur ef kalla má svo - engar samanburðarmælingar fóru fram sem gætu gefið til kynna hversu mikillar breytingar var að vænta. Rúmlega 100 metra hæðarmunur er á stöðvunum tveimur þannig að búast má við kerfisbundnum hitamun.
Þegar giskað er á breytingu hita með hæð hér á landi er oftast gripið til talna á bilinu 0,6 til 0,7 stig á hverja hundrað metra hækkun. Þegar þær tölur sem verða notaðar i línuritinu hér að neðan voru reiknaðar var ákveðið að kerfisbundinn munur, 0,75 stig væri á stöðunum tveimur þannig að hlýrra var í Kaupstaðnum. Til að fá samfellda röð var hitinn í kaupstaðnum 1877 til 1921 lækkaður um þessa tölu, jafnt í öllum mánuðum ársins.
Eftir að þetta var gert var farið að mæla hita á sjálfvirkum stöðvum bæði á Stórhöfða og í kaupstaðnum. Þetta gerir að verkum að við vitum nú miklu meira um raunverulegan mun staðanna tveggja heldur en áður. Í ljós kom að hann er aðeins minni yfir árið heldur en talið var (0,55 stig) og á sér að auki dálitla árstíðasveiflu. Hann er mestur á vorin og fram á sumar (um 0,7 stig) en minnstur í janúar (um 0,3 stig). Hægt er að giska á ástæðu. Líklega myndast á vetrum mjög grunnstæð hitahvörf við stöðina í kaupstaðnum sem vinna á móti hitamun staðanna þegar vindur er hægur.
Sömuleiðis gefa sjálfvirku athuganirnar í kaupstaðnum góðar upplýsingar um hegðan dægursveiflunnar þar miðað við Stórhöfða. En þessar nýju upplýsingar hafa ekki enn verið notaðar við endurútreikning gamalla meðaltala. Svo vill til að í júlímánuði er munur á nýrri og gamalli hæðarleiðréttingu ómarktækur (0,07 stig) - en svo virðist sem viðbótarupplýsingarnar um dægursveifluna lækki gamla kaupstaðarhitann um 0,1 stig eða svo frá því sem síðast var reiknað. Þessir tveir þættir gætu því jafnað hvorn annan út að mestu.
Meðalhiti í júlí 1880 í kaupstaðnum var 12,66 stig sem reiknaðist niður í 11,91 stig á Stórhöfða. Júlíhitinn nú var eins og áður sagði 11,89 stig. Reikniaðferð dönsku veðurstofunnar gaf 12,8 stig í kaupstaðnum - en þá var dægursveiflan ekki nærri því eins vel þekkt og nú er.
Á árunum 1869 til 1880 var athugað á prestsetrinu Ofanleiti. Þessar mælingar voru ekki eins staðlaðar og veðurstofumælingarnar dönsku (ekkert skýli) en vegna þess að mælt var samtímis á stöðunum í þrjú og hálft ár er unnt að giska á kaupstaðar- og þar með Stórhöfðahitann allt aftur til 1869.
En lítum að lokum á línurit sem sýnir meðalhita á Stórhöfða í júlí 1869 til 2012.
Lárétti ásinn markar árin, en sá lóðrétti sýnir meðalhita júlímánaðar. Nærri fjórum stigum munar á hlýjasta og kaldasta mánuði á línuritinu. Kaldastur varð júlí sumarið endemisfræga, 1983. Við sjáum að varla er hægt að velja 30 ára tímabil sem er öllu kaldara en það sem nú er notað til viðmiðunar, 1961 til 1990. Klasar af mjög köldum júlímánuðum komu á árunum 1874 til 1876 og sömuleiðis 1885 til 1888. Nú hafa komið 13 júlímánuðir í röð með yfir 10 stiga meðalhita.
Tímabilið sýnir litla leitni hitans. Sjávarhiti ræður talsverðu um sumarhita í Vestmannaeyjum og veldur því t.d. að talsverð fylgni er á milli hita einstakra mánaða að sumarlagi. Líkur á hlýjum ágúst á eftir hlýjum júlí eru þannig meiri heldur en að kaldur ágúst fylgi hlýjum júlí. Rétt er þó að taka slíka spádóma ekki of alvarlega.
2.8.2012 | 00:17
Sólskinsmetin á Akureyri og í Reykjavík
Sólskinsstundafjöldi í júlí náði ekki metum í Reykjavík eða á Akureyri. Mjög litlu munaði þó fyrir norðan. Hins vegar er algjörlega einstakt hvað sól hefur skinið á þessum stöðum síðustu þrjá mánuði samtals. Bæði metin eru afgerandi. Í Reykjavík munar 43 stundum á næsthæsta gildi (1924) og því sem nú mældist. En á Akureyri munar 120 stundum. Þetta er svo mikið að ótrúlegt verður að teljast.
Lítum hér á tvö línurit. Hið fyrra sýnir samanlagðan sólskinsstundafjölda á Akureyri í maí, júní og júlí áranna 1928 til 2012.
Lóðrétti ásinn sýnir samanlagðan sólskinsstundafjölda mánaðanna þriggja en sá lárétti markar árin. Árið 2012 hrekkur langt upp fyrir öll önnur ár. Áður en þetta gerðist þótti manni 1939 (663 stundir) vera furðuhátt og árið 2000 hafa gert það býsna gott. En hvað skal segja um 2012?
Spurning hlýtur að vakna um hvort hægt sé að trúa þessu. Mælingar á sólskinsstundafjölda eru tiltölulega öruggar - sé vel séð um mælinn - alla vega eru þær ekki undirlagðar mati einstakra veðurathugunarmanna. Skýjahulan er mun vafasamari í mati og vitað er að skýjahula hefur hrokkið til við athugunarmannaskipti á veðurstöð.
En við athugum skýjahulu á Akureyri á sama tíma sömu ár og merkjum á móti sólskinsstundafjöldanum.
Hér sýnir lóðrétti ásinn sem fyrr sólskinsstundafjöldann en sá lárétti markar meðalskýjahulu sama tímabils á hverju ári. Við sjáum að sambandið er furðugott. Okkur léttir þegar það kemur í ljós að parið fyrir árið 2012 er algjörlega sér á báti - langt upp til vinstri á myndinni - en það er á nokkurn veginn réttum stað miðað við það sem vænta má. Línan reiknar sólskinsstundafjölda við skýjahuluna 4,8 áttunduhluta sem 727 klukkustundir. Þetta nægir alveg til að sannfæra okkur um að metið er rétt.
En fleira merkilegt hefur verið á seyði eins og alloft er búið að minnast á hér á hungurdiskum að undanförnu. Júlímánuður hefur aldrei verið svona hlýr á Stórhöfða í Vestmannaeyjum, en mælingar byrjuðu þar haustið 1921. Hann deilir hugsanlega fyrsta sætinu í Vestmannaeyjum með júlí 1880 - en fjalla mætti um það og samanburð mælinga á Stórhöfða og í kaupstaðnum einhvern tíma næstu daga.
Júlí var líka fjórði mánuðurinn í röð með hlýrra lofti vestan við land (30°V) heldur en austan við (10°V). En um þá merkilegu stöðu var fjallað á hungurdiskum fyrir nokkrum dögum (26. júlí).
Fleira má lesa um júlímánuð og fyrstu sjö mánuði ársins í frétt á vef Veðurstofunnar.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 00:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.8.2012 | 00:56
Tvö mikil kuldaköst eiga stórafmæli
Í blaðinu Norðra segir 2. ágúst 1912: Veðrátta um síðustu helgi brá til norðaustan áttar með kulda og nokkurri úrkomu. Snjóaði þá ofan í mið fjöll, en nær því frost um nætur niður við sjó, um 7 stiga hiti á daginn. Nú í tvo sólarhringa hefir verið snjóhríð á fjöllum og til dala en krepjuhríð við sjó. í nótt hvítnaði ofan í sjó. Í gær og dag ekki hægt að slá í Fnjóskadal fyrir fönn.
Snjóhula var ekki athuguð á Akureyri fyrir hundrað árum en sennilega mun óhætt að fullyrða að ekki hafi verið hvítt ofan í sjó á hefðbundnum snjóathugunartíma (kl. 9) þótt snjór hafi verið á jörð undir morgun. Nýlega birtist í fjölmiðlum mynd sem tekin var af pollinum á Akureyri og skipum þar með Vaðlaheiði í bakgrunni. Myndin var einmitt tekin um mjög svipað leyti og fréttin birtist - og Vaðlaheiði er hvít sem á hausti. Veit einhver hvar myndin er niðurkomin?
Þetta var fyrir hundrað árum. Fyrir tvöhundruð árum gerði líka gríðarlegt kuldakast - ámóta mikið. Við vitum það nokkuð nákvæmlega því mælingar voru þá gerðar á Akureyri. Þar héldu danskir landmælingamenn til í sjö ár er þeir þríhyrningamældu strandlengju Íslands. Þeir geta sérstaklega um snjókomu í þessu hreti. Fram kemur í athugunum að þá snjóaði á Akureyri svipað og 1912 en ekki er um það getið hvort alhvítt varð - sennilega ekki.
Við skulum líta á hitamælingarnar á Akureyri þessa daga fyrir hundrað og tvöhundruð árum.
Lóðrétti ásinn sýnir hita - athuganir voru gerðar þrisvar á dag bæði árin að morgni og uppúr hádegi, en 1912 einnig síðdegis og 1812 að kvöldi. Lárétti ásinn sýnir daga í júlí og ágúst.
Blái ferillinn markar hitann 1812, en sá rauði sömu daga 1912. Við tökum eftir því að dægursveifla er töluverð - sérstaklega eftir kuldakastið 1812 en köldustu dagana er hún lítil - það bendir til úrkomu og skýja. Enginn lágmarksmælir var á staðnum (hvorugt árið) en þrátt fyrir það nálgast hitinn frostmarkið. Bæði kuldaköstin stóðu í nokkra daga.
Í bandarísku endurgreiningunni fór þykktin við Norðausturland rétt niður fyrir 5300 metra fyrstu dagana í ágúst 1912 og er það mjög óvenjulegt miðað við árstíma. Ber frekar við alveg undir lok mánaðarins.
Ekki er vitað um frost í júlímánuði á Akureyri - en það kann að stafa af lágmarksmælingaskorti frekar en að það hafi aldrei gerst. En eitt af því sem gerir athuganir strandmælingaflokksins trúverðugar er sú staðreynd að aldrei mældist frost í júlí á Akureyri á árunum 1808 til 1814 - þrátt fyrir skelfilega kulda að öðru leyti.
Frost mældist -1,5 stig á Vífilsstöðum ofan við Reykjavík aðfaranótt 4. ágúst 1912 - undir lok kuldakastsins. Hvað með kartöflurnar. Við endum þennan pistil með frétt sem birtist í blaðinu Suðurlandi 3. ágúst 1912:
Veðrátta s. l. viku hefir verið mjög köld og stöðugir norðanstormar. Snjóveður á Kolviðarhól í nótt og grátt niður undir Kamba. Veðurskeytin segja snjó á Grímsstöðum á Fjöllum og frost, á Akureyri snjó ög 1 gr. hita, á ísafirði tæpar 3. gr. hiti og Rvík 3 gr. hiti.
Jæja - ekki mikið betra hér - hálka á Hellisheiði í ágústbyrjun. Hlýindin 2012 halda vonandi áfram - þótt kuldapollar eigri enn tilviljanakennt um á heimskautaslóðum.
31.7.2012 | 16:20
Júlímet í Vestmannaeyjum?
Þegar þetta er skrifað (kl. 16:15 31. júlí) vantar aðeins þrjár athuganir upp á júlímánuð á mönnuðum veðurstöðvum landsins. Meðalhiti júlí það sem af er stendur nú í 11,89°C á Stórhöfða í Vestmannaeyjum, 11,79°C á sjálfvirku stöðinni á sama stað og 12,57°C á stöðinni í kaupstaðnum.
Mælingar í júlí á Stórhöfða ná aftur til 1922. Hæstu júlígildin síðan þá eru:
1936 11.61°C
1933 11.66°C
2010 11.75°C
Munurinn er ekki mikill. Í júlí 1880 var meðalhiti í Vestmannaeyjakaupstað 12,66°C - ætti þá að hafa verið 11,91 á Stórhöfða miðað við þær færslur sem hafa verið í notkun. Auðvitað er ekkert að marka tvo aukastafi - og sömuleiðis eru mæliaðstæður talsvert aðrar nú heldur en 1880.
Uppgjör ætti að koma frá Veðurstofunni á morgun (1. ágúst).
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 16:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.7.2012 | 01:11
Kemur ekki við hér
Nú gera spár ráð fyrir því að á miðvikudag dýpki lægð niður í 973 hPa vestan við Írland. Margir muna e.t.v. metlægðina sem hér fór hjá nýlega. Hún var reyndar enn dýpri - en samt er merkilegt að sjá tvær svona djúpar lægðir með skömmu millibili á Norður-Atlantshafi á þessum tíma árs. Þessi nýja lægð hefur ekki bein áhrif hér á landi - nema helst til bóta. Kortið gildir kl. 18 síðdegis á miðvikudag 1. ágúst.
Hér má sjá sjávarmálsþrýsting sem svartar heildregnar línur - afskaplega þéttar nærri lægðarmiðju. Ekki skemmtilegt fyrir seglbáta sem lenda í því ofsaveðri. Lægðin sem olli slysinu mikla í Fastnet siglingakeppninni í ágúst 1979 var ekki alveg jafndjúp - 15 fórust (aðrar heimildir segja 19). Frú gúgl skilar leitarniðurstöðum á svipstundu fyrir þá sem vilja kynna sér málið nánar.
Það er mikið skaðræði að fá veður sem þetta á þeim slóðum þar sem smábátaumferð er mikil. En nú ættu menn að hafa betri fyrirvara heldur en var 1979. Enn bætir í bleytuna á Bretlandseyjum.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 01:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.7.2012 | 00:20
Norðurhvel í júlílok
Nú er sumar í hámarki á norðurhveli og héðan í frá fer að halla til hausts. Hafið er þó enn að hlýna og ís mun bráðna í Norðuríshafi í nokkrar vikur til viðbótar. Víðast hvar hér á landi er meðalhiti hæstur síðustu vikuna júlí en lætur lítið á sjá fyrr en um það bil tíu dagar eru liðnir af ágústmánuði. Lítillega er farið að kólna í heiðhvolfinu en sumarhæðin mikla sem nær um allt norðurhvel sýnir enn enga veikleika.
En lítum nú á spá dagsins. Hún er úr safni evrópureiknimiðstöðvarinnar og sýnir hæð 500 hPa-flatarins á norðurhveli suður undir hitabelti á hádegi þriðjudaginn 31. júlí. Jafnhæðarlínur eru svartar og heildregnar og merktar í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Þykktin er mörkuð með litaflötum. Hún er einnig tilfærð í dekametrum og mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Því hærri sem hitinn er því meiri er þykktin. Mörkin á milli grænu og gulbrúnu litanna liggja við 5460 metra. Við viljum helst vera ofan við þessi mörk að sumarlagi.
Norðurskaut er rétt ofan við miðja mynd en Ísland rétt neðan miðjunnar við 20°V en sá baugur er lóðréttur á myndinni. Kortið batnar mjög við smellastækkun og verður kvarðinn mun skýrari. Enginn blár litur sést nú á kortinu - í fyrsta sinn í sumar. Þykktin er hvergi minni en 5280 metrar. En kuldapollarnir eru samt nógu krassandi.
Hæðarhryggurinn mikli við Grænland hefur hér tengst öðrum yfir Norður-Noregi og lokar inni kuldapoll sem á kortinu er með miðju norður af Skotlandi en teygir sig til vesturs fyrir sunnan land. Svona eða svipuð verður staðan næstu daga. Það er auðvitað leiðinlegt að þykktin hér á landi sé ekki meiri en þrátt fyrir allt er ekki langt í hlýja loftið og vel má vera að molar af því berist á borð okkar næstu daga. Hér ríkir alla vega hásumar - vonandi sem lengst.
Bláa örin bendir á þann kuldapoll sem gæti helst raskað stöðunni hér við land - en spár greinir enn á um leið hans. Sú reikniruna evrópureiknimiðstöðvarinnar sem þetta kort er úr sýnir hann rúlla alla leið til Íslands - en vonandi verður sá möguleiki horfinn í næstu runu.
Við skulum líka líta á kort sem sýnir hæð 30 hPa-flatarins í rúmlega 24 km hæð. Eins og nefnt var að ofan ríkir þar hæð um allt hvelið og austlægar áttir eru ríkjandi. Á næstu vikum fer hæðin að falla saman og mun um síðir breytast í miklu meiri lægð. Áhugasamir lesendur mega gjarnan leggja stöðuna á minnið. Kortið er úr safni bandarísku veðurstofunnar. Jafnhæðarlínur eru svartar og heildregnar - merktar í dekametrum. Línan næst hæðarmiðju sýnir 2450 dam (= 24,5 km). Litafletirnir sýna hita, kvarðinn verður greinilegri sé myndin smellastækkuð.
29.7.2012 | 01:44
Korpa - Geldinganes (meðalhitamunur)
Í pistli gærdagsins var fjallað um árstíðasveiflu hitamunar á Akureyri og í Bolungarvík. Þessar stöðvar eru í sitt hvorum landshlutanum. Nú lítum við á árstíðabundinn hitamun á stöðvum sem eru nærri því á sama stað - og þó ekki. Önnur stöðin er Korpa, rétt hjá Korpúlfsstöðum - sjálfvirk stöð þar sem athugað hefur verið síðan 1997 og Geldinganes þar sem athugað hefur verið síðan 2004. Við lítum á vindhraðann í leiðinni.
Talsverður trjágróður hefur vaxið upp í kringum Korpustöðina - svo mikill að sumir telja að athuganir fari að líða fyrir það. Geldinganes er á berangri (nema að gróður hafi vaxið mikið við stöðina alveg nýlega). Það er einnig nær sjó heldur en Korpustöðin.
Hitakvarðinn er til vinstri á myndinni og það er blái ferillinn sem sýnir meðalhitamun staðanna tveggja. Hann er afskaplega lítill. Aðeins hlýrra er þó á Korpu í febrúar til júní og í nóvember og desember. Munurinn er mestur í mars - en í júlí til október og í janúar er hitinn á stöðvunum jafn.
Skyldi skjólið á Korpu valda því að hlýrra sé þar á sólardögum seint á vorin heldur en úti á Geldinganesi? Sé litið á dægursveifluna (ekki sýnd hér) komumst við að því að ívið hlýrra er á Korpu heldur en á Geldinganesi yfir hádaginn. Lágmarkshiti sólarhringsins er lægri á Korpu í öllum mánuðum nema mars - þegar hann er sá sami á báðum stöðvum.
Munur á vindhraða (hægri kvarði - rauður ferill) er minnstur í maí. Athugið að allar tölur eru neikvæðar - það þýðir að vindhraði er meiri á Geldinganesi heldur en við Korpu allt árið - lengst af munar 1,2 til 1,4 m/s. Hvassviðri eru líka algengari á Geldinganesi og þar hefur hámarksvindhraði mælst meiri á samanburðartímabilinu heldur en á Korpu.
Frost hefur mælst í öllum mánuðum ársins á Korpu - en enn hefur ekki mælst frost á Geldinganesi í júní, júlí og ágúst.
Í framhjáhlaupi má geta þess að nú er silfurskýjatímabilið hafið. Ritstjórinn sá fyrstu silfurskýjabreiðuna í kringum miðnætti aðfaranótt laugardags (28. júlí). Silfurský myndast að sumarlagi við miðhvörf lofthjúpsins í um 90 km hæð frá jörðu. Hér sjást þau ekki fyrir 25. júlí vegna næturbirtu - og tímabilinu lýkur um 15. ágúst en þá eru þau hætt að myndast.
Allt of fáir taka eftir þessum fallegu skýjum. Svo virðist sem tíðni þeirra hafi aukist á síðustu áratugum miðað við það sem áður var - sumir telja það stafa af veðurfarsbreytingum af mannavöldum. Ekkert skal um það fullyrt hér. Ritstjórinn hefur nú gefið þeim auga í nærri 40 ár. Hann verður nú orðið helst hissa ef þau sjást ekki á umræddum tíma ef léttskýjað er. - En það kemur fyrir og mjög mismikil eru þau. Um silfurský er fjallað í fróðleikspistli á vef Veðurstofunnar.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 22:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (10.7.): 22
- Sl. sólarhring: 307
- Sl. viku: 1616
- Frá upphafi: 2483308
Annað
- Innlit í dag: 22
- Innlit sl. viku: 1459
- Gestir í dag: 22
- IP-tölur í dag: 22
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Júlí 2025
- Júní 2025
- Maí 2025
- Apríl 2025
- Mars 2025
- Febrúar 2025
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010