Hlýtt það sem af er ári

Í reglubundnu mánaðaryfirliti Veðurstofunnar fyrir júlímánuð er dálítil samantekt um fyrstu sjö mánuði ársins. Þar kemur fram að í ár lendir meðalhiti mánaðanna sjö í fimmta sæti sé gerður listi um hlýjustu tímabilin í Reykjavík, Stykkishólmi og í Vestmannaeyjum. Á Akureyri er það í sjöunda sæti, en því fimmtánda austur á Teigarhorni við Berufjörð. Á öllum stöðunum hafa mælingar staðið í að minnsta kosti 130 ár.

Það er áberandi hvað fyrstu ár þessarar aldar hafa staðið sig vel fyrri hluta árs - og reyndar fram í ágúst. Síðustu fimm mánuðirnir hafa einnig oftast verið hlýir á síðustu tíu árum - en standa sig ekki alveg jafn vel gagnvart hlýindaskeiðinu mikla á 20. öld.

w-blogg040812a

Lárétti ásinn sýnir árin, en sá lóðrétti er meðalhiti fyrstu sjö mánaðanna. Árin tíu frá og með 2003 fram til ársins í ár, 2012 eru einstök að því leyti að aldrei hefur brugðið út af með hitann. Hlýindaskeiðið frá því um 1925 og fram til 1965 sker sig líka úr en þar er samt ekkert skeið með jafnsamfelldum hlýindum og þeim sem ríkt hafa upp á síðkastið. Við hljótum að spyrja okkur hvenær þetta taki enda.

Næsta mynd sýnir meðalhitann í Reykjavík síðustu fimm mánuði ársins yfir sama tímabil.

w-blogg030812b

Margt er líkt með myndunum tveimur. Hlýindi síðustu ára eru mikil - en skera sig samt ekki alveg jafn mikið frá fyrri hlýju árum - einnig má taka eftir því að hlýskeiðið um miðja 20. öld er styttra síðari hluta ársins heldur en fyrri hlutann. Kuldaskeiðið í kringum 1980 er jafnvel verra en ástandið á 19. öld.

Af þessum myndum má sjá tímabil með hlýjum fyrri hluta árs fylgja í grófum dráttum hlýjum tímabilum síðari hluta ársins og sömuleiðis á köldu hliðinni. En þegar farið er í sauma á einstökum árum verður myndin flóknari og þótt samband hita fyrri og síðari hluta ársins sé marktækt er það samt svo slaklegt að nákvæmlega engu er að treysta. Þótt fyrri hluti ársins hafi verið afspyrnuhlýr er ekki víst að síðari hlutinn verði það. En við getum lifað í voninni.

Að meðaltali eru síðustu fimm mánuðir ársins 0,7 stigum hlýrri heldur en sjö fyrstu í Reykjavík. Færi svo myndi ársmeðalhitinn verða 6,4 stig. Varla trúum við því - allt þarf að ganga upp. Þótt lítið samband sé á milli hita fyrri og síðari hluta árs er fylgnin auðvitað mikil milli meðalhita fyrstu sjö mánaðanna og ársmeðalhitans eins og hann verður að lokum. Tökum við það samband bókstaflega ætti meðalhiti ársins 2012 að verða 5,5 stig. Það nægir í þrettánda hitasætið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

''Við hljótum að spyrja okkur hvenær þetta taki enda.'' - Tekur þetta nokkurn enda? Eru þetta ekki gróðurhúsaáhrifin ógurlegu. Og þau eru sko ekki til að spauga með! 

Sigurður Þór Guðjónsson, 5.8.2012 kl. 11:28

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Já, hvenær skyldi Litla-gróðurhúsaöld byrja? Eða er hún þegar byrjuð? Hvers vegna lauk Litlu-ísöld? Hvenær lauk henni? Tók Litla-gróðurhúsaöld beint við af henni? Eða var eitthvað millistig, Litla-millimeðalöld? Hvers vegna kom það? Er það búið?

Trausti Jónsson, 6.8.2012 kl. 01:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 210
  • Sl. sólarhring: 326
  • Sl. viku: 2035
  • Frá upphafi: 2350771

Annað

  • Innlit í dag: 193
  • Innlit sl. viku: 1821
  • Gestir í dag: 188
  • IP-tölur í dag: 188

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband