Tvö mikil kuldaköst eiga stórafmæli

Í blaðinu Norðra segir 2. ágúst 1912: „Veðrátta um síðustu helgi brá til norðaustan áttar með kulda og nokkurri úrkomu. Snjóaði þá ofan í mið fjöll, en nær því frost um nætur niður við sjó, um 7 stiga hiti á daginn. Nú í tvo sólarhringa hefir verið snjóhríð á fjöllum og til dala en krepjuhríð við sjó. í nótt hvítnaði ofan í sjó. Í gær og dag ekki hægt að slá í Fnjóskadal fyrir fönn“.

Snjóhula var ekki athuguð á Akureyri fyrir hundrað árum en sennilega mun óhætt að fullyrða að ekki hafi verið hvítt ofan í sjó á hefðbundnum snjóathugunartíma (kl. 9) þótt snjór hafi verið á jörð undir morgun. Nýlega birtist í fjölmiðlum mynd sem tekin var af pollinum á Akureyri og skipum þar með Vaðlaheiði í bakgrunni. Myndin var einmitt tekin um mjög svipað leyti og fréttin birtist - og Vaðlaheiði er hvít sem á hausti. Veit einhver hvar myndin er niðurkomin?

Þetta var fyrir hundrað árum. Fyrir tvöhundruð árum gerði líka gríðarlegt kuldakast - ámóta mikið. Við vitum það nokkuð nákvæmlega því mælingar voru þá gerðar á Akureyri. Þar héldu danskir landmælingamenn til í sjö ár er þeir þríhyrningamældu strandlengju Íslands. Þeir geta sérstaklega um snjókomu í þessu hreti. Fram kemur í athugunum að þá snjóaði á Akureyri svipað og 1912 en ekki er um það getið hvort alhvítt varð - sennilega ekki.

Við skulum líta á hitamælingarnar á Akureyri þessa daga fyrir hundrað og tvöhundruð árum.

w-blogg010812

Lóðrétti ásinn sýnir hita - athuganir voru gerðar þrisvar á dag bæði árin að morgni og uppúr hádegi, en 1912 einnig síðdegis og 1812 að kvöldi. Lárétti ásinn sýnir daga í júlí og ágúst.

Blái ferillinn markar hitann 1812, en sá rauði sömu daga 1912. Við tökum eftir því að dægursveifla er töluverð - sérstaklega eftir kuldakastið 1812 en köldustu dagana er hún lítil - það bendir til úrkomu og skýja. Enginn lágmarksmælir var á staðnum (hvorugt árið) en þrátt fyrir það nálgast hitinn frostmarkið. Bæði kuldaköstin stóðu í nokkra daga.

Í bandarísku endurgreiningunni fór þykktin við Norðausturland rétt niður fyrir 5300 metra fyrstu dagana í ágúst 1912 og er það mjög óvenjulegt miðað við árstíma. Ber frekar við alveg undir lok mánaðarins.

Ekki er vitað um frost í júlímánuði á Akureyri - en það kann að stafa af lágmarksmælingaskorti frekar en að það hafi aldrei gerst. En eitt af því sem gerir athuganir strandmælingaflokksins trúverðugar er sú staðreynd að aldrei mældist frost í júlí á Akureyri á árunum 1808 til 1814 - þrátt fyrir skelfilega kulda að öðru leyti.

Frost mældist -1,5 stig á Vífilsstöðum ofan við Reykjavík aðfaranótt 4. ágúst 1912 - undir lok kuldakastsins. Hvað með kartöflurnar. Við endum þennan pistil með frétt sem birtist í blaðinu „Suðurlandi“ 3. ágúst 1912:

„Veðrátta s. l. viku hefir verið mjög köld og stöðugir norðanstormar. Snjóveður á Kolviðarhól í nótt og grátt niður undir Kamba. Veðurskeytin segja snjó á Grímsstöðum á Fjöllum og frost, á Akureyri snjó ög 1 gr. hita, á ísafirði tæpar 3. gr. hiti og Rvík 3 gr. hiti“.

Jæja - ekki mikið betra hér - hálka á Hellisheiði í ágústbyrjun. Hlýindin 2012 halda vonandi áfram - þótt kuldapollar eigri enn tilviljanakennt um á heimskautaslóðum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Takk fyrir þetta Trausti. Það var mjög kalt snemma í morgun. Vonandi koma ekki næturfrost svona snemma, eins og 1912.

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 1.8.2012 kl. 08:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 9
  • Sl. sólarhring: 364
  • Sl. viku: 1834
  • Frá upphafi: 2350570

Annað

  • Innlit í dag: 9
  • Innlit sl. viku: 1637
  • Gestir í dag: 9
  • IP-tölur í dag: 9

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband