Haustlægðin Celia - 1962

Orðið „haustlægð“ komst seint á prent í blöðunum sé að marka flettingar á timarit.is, fyrst 1983 og síðan ekki fyrr en 1990. Það hefur þó verið á róli nokkuð lengur manna á meðal - minnir ritstjóra hungurdiska. Enginn veit þó nákvæmlega hvað það er sem greinir haustlægðir frá öðrum, né heldur hvort þeim bregður fyrir á öllum árstímum - eða þær skilgreina haustkomu á einhvern óræðan máta. Við veðurfræðingar ættum sennilega að fara varlega í notkun þessa orðs - en ráðum auðvitað engu um það hvað aðrir gera.

Þrátt fyrir allan efa er það nú samt svo að stundum birtist haustveðrið nokkuð snögglega og fer ekki aftur - jafnvel þótt stöku síðari dagar sama árs sýni sig í gervi sumars. 

Ritstjóri hungurdiska hefur lengi fylgst með veðri, kannski allt frá hausti 1961 - sumt man hann enn eldra - [en margt síðan man hann auðvitað alls ekki] og man fáeinar raunverulegar haustlægðir. Hvað um það, haustkoman 1961 er ekki alveg negld niður á dag eða lægð í huganum  (kom samt) - en er það aftur á móti 1962. 

Óvenju rólegt var á fellibyljaslóðum haustið 1962 og fengu aðeins 5 hitabeltislægðir nafn. Þar af voru þrír fellibyljir. Lægðin Celia náði aldrei styrk fellibyls (svo vitað sé), veðrið snerti Nýfundnaland, en olli engu tjóni fyrr en hér á landi. Þann 22. september var hún austan Nýfundnalands – fremur sakleysisleg að öðru leyti en því að hún virtist bera vel í háloftabylgju sem að vestan kom. Á þessum tíma var ekki mikið um veðurathuganir á þeim slóðum sem hún er stödd. Þetta tilvik er gott dæmi um það að ekkert beint samband er á milli styrks hitabeltislægða og fellibylja og áhrifa afkvæma þeirra hér á norðurslóðum.

celia220962

Kortið hér að ofan er af síðum Morgunblaðsins - þori ekki að fullyrða um höfund þess - líklega Knútur Knudsen - hann var á vakt þennan morgun. Það gildir kl.6 að morgni 22.september. Þessi kort voru ungum veðuráhugamönnum mikils virði og smám saman töluvert á þeim að græða.

w-blogg080919-celia62a

Endurgreining japönsku veðurstofunnar og morgunblaðskortinu ber allvel saman. Vaxandi lægð austur af Nýfundnalandi á leið norðaustur, en hæð yfir Bretlandi. Á handteiknaða kortinu má einnig sjá veðurathuganir veðurskipanna Bravó, Alfa og Charlie, hið síðarnefnda á kortinu í hlýja geiranum austan lægðarmiðjunnar og sérlega mikilvægt í þessu tilviki. Veðurskipið Bravó fylgist með á norðurjaðri úrkomusvæðis sem sýnt er á japanska kortinu. Veðurfræðingar bíða spenntir eftir því hvað gerist á Alfa sem var á Grænlandshafi miðju - og því hvort lægðin tæki austlægari braut - sem hér var alveg hugsanlegt - skipið Indía, beint suður af Íslandi gæti gefið það til kynna. - Engar tölvuspár var að hafa - og engin von til þess að segja mætti af neinni nákvæmni um dýpkun lægðarinnar - og enn síður hvað síðan gerðist. 

Þrátt fyrir þetta má segja að allvel hafi tekist til með spána - nema hvað norðanáttinni hvössu yfir Vestfjörðum var alls ekki spáð - fyrr en hún var komin. 

spabok-1962

Veðurspár voru handskrifaðar í bók sem þessa. Spá sem lesin var í útvarp kl.10:10 þann 22.september hljóðaði svo (yfirlit og upphaf):

Um 1400 km suðvestur í hafi er lægð sem dýpkar ört og hreyfist norðaustur. [Veðurhorfur næsta sólarhring] Suðvesturland til Vestfjarða, Suðvesturmið til Vestfjarðamiða: Suðvestankaldi og skúrir í dag. Vaxandi sunnan- og síðan suðaustanátt í kvöld. Hvasst og rigning í nótt. 

Takið eftir því að ekkert segir um veður morgundagsins. - Þess var fyrst getið kl.16:30 - allir biðu spenntir eftir þeirri spá. [Hvass suðvestan og skúrir síðdegis].  

w-blogg080919-celia62b

Lægðin hrökk nú í ofurvöxt, dýpkaði um rúmlega 40 hPa á sólarhring, þrýstingur fór líklega niður undir 950 hPa þegar best lét að morgni þess 23. Kortið hér að ofan gildir kl.18 þann dag - sunnudag. Þá var lægðin yfir Breiðafirði og hafði grynnst lítillega. Endurgreiningin nær henni allvel. 

Sá sem þetta skrifar minnist vel veðurhörkunnar þennan dag - betur en veðrið í gær, fyrst í suðaustanáttinni og ekki síður í suðvestanáttinni í svokölluðum snúð lægðarinnar. Þetta tók fljótt af, en síðan skall haustið á með öllum sínum þunga og snjókomu um norðvestanvert landið. Þrýstingur mældist lægstur á landi 956 hPa. Það var í Stykkishólmi. Veðrið varð langverst suðvestanlands, en gætti minna í öðrum landshlutum - nema hvað mjög hvasst varð af norðri um tíma á hluta Vestfjarða. Dægurlagið sem hékk á heilanum þessa daga var „Walk right in“ með hópnum Rooftop Singers (undarlegt að muna það líka).  

w-blogg080919ii-a

Kortið sýnir veðurathuganir á skeytastöðvum kl.18 síðdegis. Kröpp lægðarmiðjan yfir Breiðafirði - en aðeins farin að fletjast í botninn. Takið eftir norðanáttinni á Hvallátrum. Um nóttina skilaði hún snjókomu suður á vestanvert Snæfellsnes og það snjóaði niður í miðjar hlíðar í Hafnarfjalli - haustið var komið þó hlýja og hvassa austanátt drifi yfir nokkrum dögum síðar. Illviðrið hafði rifið lauf af trjám í stórum stíl og lyktin gjörbreyttist. Allt var breytt.   

celia_frjett_mbl250908

Í veðrinu urðu skemmdir á bátum í Reykjavíkurhöfn, sex trillur sukku. Bátur sökk í Þorlákshöfn og stórskemmdir urðu á mannvirkjum í smíðum í Keflavík, tveim síldarþróm og fiskhúsi. Fokskemmdir urðu einnig nokkrar í Sandgerði. Járnplötur tók af nokkrum húsum í Reykjavík, þar skemmdust líka girðingar og tré brotnuðu. Stór mótauppsláttur fauk í Vestmannaeyjum og þar fauk steingirðing um koll. Menn voru hætt komnir er bát rak upp í kletta við Drangsnes. Járnplötur fuku af húsum í Höfn í Hornafirði og á Akranesi. Bíll með knattspyrnuliði ÍA fauk út af vegi í Hvalfirði, slys urðu ekki á fólki. Sjór gekk yfir grjótgarðinn við höfnina í Bolungarvík (í norðanátt) og ljósker brotnuðu, brimið sagt 30 metra hátt. Brimstrókar við Arnarstapa þóttu óvenju tignarlegir. Mikið af korni fauk á Rangárvöllum og eins á ökrum á Héraði. 

Á þessum árum voru stöðug vandræði í höfnum landsins hvessti mikið. Gríðarmikið hefur verið bætt úr síðan. Þó var smástreymt í þessu tilviki, mikill áhlaðandi hefur samt borist inn til Reykjavíkur. 

w-blogg090919-celia

Myndin sýnir þrýstispönn (munur á hæsta og lægsta þrýstingi á landinu á öllum athugunartímum mánaðarins) - grátt, og lægsta þrýsting hvers athugunartíma (rauður ferill). Mikil sveifla fylgdi Celíu og mikil þrýstispönn - og mikill vindur. Næsta spannarhámark á undan (þann 15.) fylgdi allmiklu norðanveðri - en ekki fylgdi hausttilfinning því á sama hátt og Celíu. Eins var allmikill vindur þann 1. - kannski tengdur leifum fellibylsins Ölmu - kannski einhverju öðru suðlægu kerfi). Djúp lægð var langt suður í hafi og vindur af austri hér á landi. Hætt við að einhver hefði misst út úr sér haustlægðarmerkilappann þegar í upphafi mánaðarins - þó ekki væri ástæða til. Drjúghvasst varð einnig síðasta dag mánaðarins - þá af austri enda mjög djúp lægð fyrir sunnan land. Austanáttin sú var þó mild um landið vestanvert - en náði ekki að skapa tilfinningu fyrir endurkomu sumars. 

Þetta veður sýnir að til þess að gera sakleysisleg hitabeltiskerfi geta verið mjög varasöm - reyndar virðist meira máli skipta að rekja sú og hlýindi sem þau draga með sér langt sunnan úr höfum „hitti rétt í“ vestanvindabeltið heldur en það vindafl sem þau bjuggu yfir í sinni fyrri tilveru. Ekkert virðist ameríska fellibyljamiðstöðin vita af tjóni því sem kerfið olli hér á landi (og er sjálfsagt alveg sama). 

Fyrsta haustlægðin árið eftir var líka minnisstæð - hún kom enn fyrr, 10.september. Ekki varð þá aftur snúið. - En förum sparlega með þetta hugtak - haustlægð - á meðan við vitum ekki almennilega hvað það er. 


Af háloftastöðunni í ágúst

Við lítum nú á hæð 500 hPa-flatarins í ágústmánuði síðastliðnum og vik hennar frá meðaltalinu 1981 til 2010. Kortið gerði Bolli Pálmason eftir gögnum frá evrópureiknimiðstöðinni.

w-blogg090919a

Jafnhæðarlínur eru heildregnar, en vik eru sýnd í lit, neikvæðu vikin eru bláleit, en þau jákvæðu rauðbrún. Þó lægðarmiðja sé yfir Íslandi á kortinu var hæð flatarins ekki svo mjög undir meðallagi. Vikin voru mun meiri fyrir sunnan land heldur en við lægðarmiðjuna sjálfa. Lögun vikanna segir okkur að norðaustlægar áttir hafi verið mun algengari í veðrahvolfinu heldur en venjulegt er - afleiðingar munum við enn. Þungbúið veður norðaustanlands, en bjartara um landið suðvestanvert. 

Við sjáum líka að suðvestanáttin yfir Bretlandseyjum hefur verið talsvert öflugri en venjulegt er og sömuleiðis má sjá óvenjulega stöðu við Grænland norðvestanvert - þar ríktu óvenjuleg hlýindi í neðanverðu veðrahvolfi - við fréttum af óvenjulegum hitum á Ellesmereeyju - en því miður eru mælingar gisnar á þeim slóðum og nær engar inni í „sveitum“ - ástandið í mælimálum svipað og hér var fyrir 1880. Hvernig skyldu sumur hafa verið þar þá? Veðurstöðin Alert er nefnd eftir skipi sem bar sama nafn og kannaði þessar slóðir á árunum 1875 til 1876, en leiðangursmenn héldu sig við sjávarsíðuna. Tala mikið um kulda, m.a. var kvikasilfurshitamælirinn beinfrosinn mestallan marsmánuð 1876. En lægsti hiti sem leiðangurinn mældi var -74°F eða -53°C (mælt á vínandamæli), það var 4.mars. 


Hlýinda- og kuldaskot

Eins og minnst var á hér á hungurdiskum fyrir fáeinum dögum hlýnaði snögglega í veðri hér á landi rétt eftir aldamótin - langt fram úr væntingum vegna hnattrænnar hlýnunar. Meðalhiti í Stykkishólmi 12-mánuðina frá september 2002 til ágúst 2003 var 2,07 stigum hærri en ársmeðalhiti næstu tíu ára á undan. 

Sú spurning kemur upp hvort við finnum eitthvað ámóta í mæligögnum. Við þekkjum meðalhita í Stykkishólmi allvel aftur til 1820 eða þar um bil, og vitum nokkuð um hann enn lengra aftur, en leitin nú hefst 1830 og við búum til lista tilvika þar sem meðalhiti 12-mánaða er 1,7 stigum (eða meira) hærri heldur en meðalhiti næstu tíu ára á undan. Tilvikin reynast aðeins fimm. Hið fyrsta 1847, þá fór 12-mánaða meðaltalið 1,92 stig yfir meðalhita áranna tíu á undan, árið 1880 þegar hitinn fór 2,05 stig framúr, 1890 er hiti fór 1,78 stig framúr og árið 1929, en þá var hiti í apríl 1928 til mars 1929 2,16 stigum hærri en meðalhiti næstu tíu ára á undan. 

Tilvikin 1880 og 1890 voru öðru vísi en hin að því leyti að þeim fylgdu ámóta stórar niðursveiflur (kuldaskot), 1881 var það -3,13 stig, en -1,71 stig árið 1892. Önnur ámóta kuldaskot komu 1836 þegar 12-mánaða meðalhiti var -1,79 stigum neðan meðalhita næstu tíu ára á undan, 1859 var hitinn -2,46 stig neðan 10-ára meðalhitans, 1866 var vikið -1,93 og 1918 var það -2,21 stig. Ekkert ámóta kuldaskot hefur komið síðan - mest finnum við -1,57 stig árið 1968 og -1,39 stig 1949. 

Meðalhiti síðustu 10 ára í Stykkishólmi er 4,83 stig. Kæmi stórt hlýindaskot [+1,7 stig eða meira] ofan í hann færi ársmeðalhitinn í 6,5 stig. Það er um 0,6 stigum hærra heldur en hæsti 12-mánaða meðalhiti í Hólminum til þessa [5,93 stig, í mars 2016 til febrúar 2017] - hversu líklegt er slíkt? Stórt kuldakast drægi 12-mánaða hitann niður í 3,1 stig - svo kalt var síðast árið 1995. Snöggt kuldakast eins og 1881 myndi draga hitann niður í 1,7 stig. Svo kalt var síðast árið 1918 [12-mánuðirnir nóvember 1917 til október 1918]. Það er þó 1,6 stigum hærra heldur en lægstu 12-mánuðirnir 1881 [september 1880 til ágúst 1881]. - Munurinn er rífleg sú hnattræna hlýnun sem átt hefur sér stað. 

Hlýindasveiflurnar 1929 og 2003 reyndust að nokkru leyti „varanlegar“ - næstu tíu ár í kjölfar þeirra voru mun hlýrri en tíu árin á undan (munaði 1,0 stigi 2003, en 0,8 stigum 1929). Nítjándualdarhlýindaskotin voru það ekki - þau komu og fóru. Stærstu kuldaskotin voru ekki „varanleg“ heldur - svakaleg á skelfilega köldum tímum. 

Ekkert mælir því mót að skyndilegar sveiflur eins og þær sem hér hafa verið gerðar að umfjöllunarefni geti átt sér stað hvenær sem er - þær eru bara ólíklegar. Sömuleiðis er næsta víst að þær geta orðið ennþá stærri - ólíklegt er að þær allra stærstu sem hafa átt sér stað séu inni á mælitímabilinu.  


Hitavik síðustu 40 ára - samanburður Íslands og Evrópu

Copernicus-verkefnið svokallaða fylgist náið með hitabreytingum á jörðinni - eins og þær koma fram í greiningum Evrópureiknimiðstöðvarinnar. Munur á greiningu þessari og raunveruleikanum er sáralítill á þessu tímabili (ein einhver samt - staðbundið). Auðvelt er að komast í hluta þessara gagna. Við skulum nú líta lauslega á hitaþróun í Evrópu síðustu 40 árin og bera saman við það sem gerst hefur á Íslandi.

Fyrsta myndin er endurberð línurits sem birtist mánaðarlega á vettvangi Copernicusar og synir 12-mánaða keðjumeðaltal hita í Evrópu frá 1979 til loka síðasta mánaðar (ágúst 2019 í þessu tilviki).

w-blogg070919a

Lárétti ásinn sýnir árin - en sá lóðrétti hitavik miðað við 1981-2010. Það er auðvitað óheppilegt að greiningin hefjist einmitt þegar kaldara var en verið hafði lengi. Hefur það umtalsverð áhrif á leitnireikninga. Allítarlega var fjallað um slíkt á hungurdiskum þann 26.janúar 2017. Þar var rýnt í íslenskar tökur og niðurstaðan sú að þó hlýnunarleitni síðustu áratuga sé mikil (meir en 4°C á öld) hefur hún verið enn meiri álíkalengi áður, á fyrri hluta 20. aldar og á fyrri hluta þeirrar 19. litlu minni en nú hefur verið. Lesendur eru hvattir til þess að lesa (eða rifja upp þennan pistil). 

Hlýnunin er engu að síður gríðarleg í Evrópu síðustu 40 árin [um 4,6 stig á öld] - en samt hafa töluverðar sveiflur verið í vikunum. Varla er hægt að segja að hiti hafi farið niður fyrir meðaltalið allt frá 1996. 

Svipað má segja um Ísland - við notum Reykjavíkurhitann sem dæmi.

w-blogg070919b

Reiknum við leitnina fáum við út risatölu, 4,9 stig á öld, en hún er þó ójafnari heldur en á meginlandinu - kannski tvö þrep, hið fyrra 1996, en hið síðara 2002 til 2004 - síðan hefur hiti ekki hækkað að ráði. 

Það er athyglisvert að sjá Evrópu- og Reykjavíkurtölurnar á sama línuriti (þó það sé pínulítið erfitt fyrir augun).

w-blogg070919

Grái ferillinn sýnir evrópuvikin, en sá græni þau í Reykjavík. Hlýnunin er svipuð - örlítið meiri í Reykjavík - en ómarktækt. Þegar við horfum á smáatriði ferlanna kemur í ljós að mjög oft standast jákvæð vik í Evrópu á við neikvæð í Reykjavík og einnig öfugt. Að baki því liggur aflfræðilegt eðli veðrakerfisins. - En ef við reynum að reikna slíkt samband út beint úr þessum gögnum drekkir hin gríðarlega sameiginlega hlýnun því - hún er annars eðlis. Til að reikna þyrftum við að nema leitnina á brott áður (það er auðvelt, en við sleppum því hér).

Leitni hefur einnig verið mikil á heimsvísu á þessum tíma, um 1,8°C á öld. Fyrst hún er svona mikið meiri í Evrópu hlýtur hún að hafa verið minni annars staðar - sem er raunin. Þó trúlegt sé að heimshlýnun haldi áfram, annað hvort af svipuðum eða auknum þunga, næstu 40 árin væri með miklum ólíkindum ef hlýnunin í Evrópu og hér á landi héldi áfram eins og verið hefur á sama tíma. En ritstjóri hungurdiska hefur svosem sagt eitthvað ámóta áður - og hlýnunin mikla bara haldið sínu striki þrátt fyrir það. Það er líka hugsanlegt að við fáum að sjá fleiri og stærri skammvinn „umframskot“ þá með alllöngum tímabilum á milli þegar hiti virðist standa í stað eða jafnvel lækka lítillega. Skemmtilegt gamalt dæmi um slíkt skot var árið 1880 þegar hiti fór 1,7 stig fram úr meðalhita næstu tíu ára á undan í Reykjavík, samsvarandi því að 12-mánaða hiti nú færi í 7,1 stig, 0,5 stigum hærra heldur en hlýindaskotið 2003 - en það var 1,9 stig umfram meðalhita síðustu 10-ára. Hitaskot sem þessi eru sum sé hluti af íslensku veðurfari - við þekkjum fáein. 

Lítum að lokum á 12-mánaða vikamun Evrópu og Reykjavíkur á mynd.

w-blogg070919d

Hér er engin regla (eða lítil). Neðri hluti myndarinnar sýnir skeið þegar kaldara var í Reykjavík (að tiltölu) heldur en á meginlandinu, en efri hlutinn hið öfuga. Leitnin er nánast engin. 


Áttatíu ára gamalt septembermet

Í dag rifjaði Sigurður Þór Guðjónsson upp septemberhitamet Reykjavíkur sem sett var fyrir nákvæmlega 80 árum, þann 3. árið 1939. Hámarkshiti dagsins fór þá í 20,1 stig í Reykjavík og er það í eina skipti sem hiti þar hefur náð 20 stigum í september. Þann 31.ágúst hafði hitinn í Reykjavík farið í 21,4 stig og einnig var allgóður hiti næstu tvo daga þar á undan. Hámarkshitinn í Reykjavík 2.september 1939 (19,9 stig) er einnig hærri heldur en annars hefur mælst svo seint á sumri í Reykjavík. Í þriðja sæti eru 18,5 stig sem mældust þann 10. 1968. Þetta er því mjög óvenjuleg hitasyrpa í langtímasamhengi (verður samt slegin um síðir). [Við skulum til gamans láta þess getið að Rasmus Lievog færir 15,5°R = 19,4°C til bókar þann 2.september 1789]. 

Mjög víða var hlýtt þessa daga - þó misjafnt frá degi til dags í hvaða landshluta var hlýjast. Hæstur mældist hitinn vestur á Lambavatni, 25,0 stig. Hámarksmælingar þar þykja þó grunsamlegar þessi árin - svo grunsamlegar að við getum varla tekið þær trúanlegar. Ef til vill munar þó ekki nema 2 til 3 stigum frá réttu lagi. Norður á Sandi í Aðaldal hafði hiti farið í 24,6 stig þann 1. Hámarkshiti þess 3. á Hvanneyri í Borgarfirði (22,7 stig) mun enn standa sem hæsti hiti þar á bæ og í Síðumúla fór hiti í 22,3 stig, hærra en nokkru sinni annars í september.  

Myndin hér að neðan sýnir hitamælingar í Reykjavík fyrstu fjóra daga septembermánaðar 1939. 

w-blogg030919a

Lesið var af sírita á 2 klukkustunda bili allan sólarhringinn. Til að rétta hann af var notast við hefðbundnar hitamælingar - þær eru merktar með litlum rauðum krossum á myndinni. Ef við rýnum í mismuninn sjáum við að blaðið hefur verið aðeins skakkt í ritanum, tölur hans eru aðeins of lágar þann 1., réttast síðan af og eru orðnar aðeins of háar þann 4. Þetta er ekki mikill munur og við erum ekkert að leiðrétta hann hér. Svo vill til að þann 3. ber sírita og mælingum mjög vel saman. 

Rauðu punktarnir sýna hámarkshitamælingu hvers dags. Á þessum tíma var hámark ekki mælt nema síðdegis - við sleppum því við svokallað tvöfalt hámark sem með núverandi lesháttum hefði lent á þeim 4. - hámarkshiti talinn 19,0 stig - en var í raun ekki nema 14,9 stig - eins og rauði bletturinn sýnir. Bláu ferhyrningarnir sýna lágmarkshitann, aðfaranótt þess 3. var mjög hlý, næturlágmarkið 14,4 stig. Það er líka septembermet og lágmarkið þann 2. er í öðru sæti allra tíma (rétt eins og hámarkið þann dag) - þar á eftir koma svo 13,4 stig þann 3.september 2010. 

En hvernig var veðurstaðan?

w-blogg030919c

Við notum bandarísku endurgreininguna til að segja okkur frá henni- nægilega nákvæm er hún. Ekki er hægt að segja að hún komi á óvart. Hlý austanátt yfir landinu - dæmigerð fyrir hinar mestu hlýindavæntingar um landið vestanvert. Lægð fyrir suðvestan land, en hæð norðausturundan. Kerfin ekki nægilega sterk til þess að vindur valdi leiðindum en þó nægilega til að halda sjávarlofti í skefjum. Við sjáum að ekki er eins mikilla hlýinda að vænta á Austfjörðum og Suðausturlandi. 

Við eigum líka Íslandskort frá þessum degi, reyndar aðeins eitt, og sýnir það veðrið kl.8 um morguninn (sem við segjum sé kl.9). 

w-blogg030919d

Sé myndin stækkuð skýrist hún nokkuð - en einnig má finna skýrara eintak í viðhenginu. Hiti var þá þegar 16 stig í Reykjavík og 18 stig í Borgarfirði og á Akureyri, en ekki nema 8 á Blönduósi. Þar átti hins vegar eftir að hlýna talsvert og fór hiti þar í 19 stig síðdegis. Allhvass austsuðaustanátt (7 vindstig) var á Stórhöfða í Vestmannaeyjum kl.8. 

Við látum síðdegisathuganir á nokkrum stöðvum einnig fylgja hér með - verða læsilegri við stækkun:

w-blogg030919b

En þetta voru miklir örlagadagar. Þjóðverjar (og rússar) höfðu ráðist inn í Pólland þann 1. og frakkar og bretar voru um það bil að segja þjóðverjum stríð á hendur - að sögn til að bjarga Pólverjum (sem mikið álitamál er svo hvort þeir gerðu þegar upp var staðið - verkar á okkar tíma eins og hver annar fyrirsláttur). En hér á landi er sumarið 1939 mjög í minnum haft fyrir einstök veðurgæði. Júlímánuður fær toppeinkunn á sumarkvarða ritstjóra hungurdiska - ágúst kemur ekki eins vel út (sökum úrkomu), en september gerði útslagið - kannski ætti ritstjórinn að herða sig upp í að gefa þeim mánuði einkunnir líka? 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Sumareinkunn Akureyrar 2019 (og fleira)

Í síðasta pistli litum við á „sumareinkunn“ Reykjavíkur. Nú lítum við til Akureyrar en að því loknu teljum við „sumardaga“ á báðum stöðum.

w-blogg020919a

Hér má sjá að sumarið 2019 kemur heldur laklega út á Akureyri - eins og reyndar öll sumur frá 2015 að telja. Ástæðan er trúlega sú að úrkoma hefur af einhverjum ástæðum verið meiri á Akureyri hin síðari ár heldur en áður - hugsanlega er það raunverulegt, en hugsanlega hafa mæliaðstæður eitthvað breyst. Úrkoman vegur mjög þungt í einkunnagjöfinni. 

Ritstjóri hungurdiska hefur einnig talið „sumardaga“. Sumarið er reyndar ekki búið og í september er að meðaltali einn sumardagur í Reykjavík, en 4 til 5 á Akureyri - hafa verið flestir 12 í Reykjavík eftir 1. september, en 16 á Akureyri. Talningin nær aftur til 1949.

w-blogg020919b

Í Reykjavík er heildarmyndin svipuð og sumareinkunnin sýndi, sumardagar hafa verið mun fleiri á þessari öld en venjan var á kalda tímabilinu næst á undan, hálfgerð eyðimörk frá og með 1961 til og með 1986, en frá og með 2003. Síðan hafa aðeins komið tvö sumur í gömlum stíl, 2013 og 2018. 

w-blogg020919c

Ekki er alveg jafn gott samræmi á milli sumardagafjölda og sumareinkunnar á Akureyri og eru síðustu sumur í góðu meðallagi hvað dagafjöldann varðar - nema þá 2015. Sumarið 2019 hefur alls ekki verið glórulaust við Eyjafjörð á sama hátt og þau hraksumur sem merkt eru sérstaklega á myndinni. Flestir voru sumardagarnir á Akureyri sumrin 1955 og 1976. Sumardagar eru fleiri á Akureyri á þessari öld en var að jafnaði áður - munurinn er bara ekki eins mikill og í Reykjavík. 

Þetta sést vel á næstu mynd.

w-blogg020919d

Hér má sjá 10-árakeðjur sumardagafjölda á stöðunum tveimur. Fjöldi þeirra hefur nánast tvöfaldast í Reykjavík frá því sem áður var venjulegt, en aukningin á Akureyri er „aðeins“ í kringum 30 prósent. Hlýindin sem ríkt hafa frá og með 2003 ráða hér mestu. Sumardagafjöldi hefur á þessari öld verið svipaður og var að meðaltali á Akureyri áður fyrr - en fjöldinn á Akureyri hefur aukist nægilega þannig að enn er marktækur munur á meðalfjöldanum. 

Það gerist ekki oft að sumardagar árs eru fleiri í Reykjavík heldur en á Akureyri, við getum talið þau tilvik upp: 1950, 1958, 2011 og 2015. Sumardagar eru það sem af er þessu ári tveimur fleiri á Akureyri heldur en í Reykjavík, mestu munar um stöðuna í vor. Í apríl og maí voru 12 sumardagar á Akureyri, en aðeins 1 í Reykjavík, sá raunar í apríl, í eina skipti sem slíkt hefur gerst á því tímabili sem hér er til skoðunar. 

Hvort þetta gæðaástand varir er svo allt annað mál og rétt að reikna ekki með að svo verði, en þakka bara fyrir góða tíð svo lengi sem hún endist. 


Sumareinkunn Reykjavíkur 2019

Flestir eru sammála um að sumarið hafi verið harla gott í Reykjavík. Ritstjóri hungurdiska hefur frá 2013 reiknað út það sem hann kallar einkunn sumarsins. Um hugsunina að baki einkunnagjafarinnar má lesa í eldri pistlum, en þess þó getið hér að miðað er við hita, úrkomumagn, úrkomudagafjölda og sólskinsstundafjölda. Þetta er samkeppniskerfi sem reiknað er upp á nýtt á hverju ári. Hvert viðbótarár getur því haft áhrif á einkunn þeirra fyrri og raskað matsröð frá því sem var árið áður. 

w-blogg010919-sumareink-rvk

Lárétti ásinn sýnir tíma, en sá lárétti er einkunnarstigi, súlurnar einkunn einstakra sumra. Hæsta mögulega einkunn er 48, lægsta er núll. Fjögur sumur eru nú efst og jöfn með 38 stig hvert, 1928, 1931, 2009 og 2012. Einkunn sumarsins 2019 er 36, það er því í hópi þeirra bestu samkvæmt þessum kvarða - mjög ólíkt 2018 sem aðeins fékk 12 stig. Sumarið nú er því svipað og gæðum og var orðin eins konar „regla“ á árunum 2007 til 2012  Sumrin 2013 og 2014 ollu ákveðnum vonbrigðum (það síðarnefnda þó yfir meðaltali áranna 1961-1990), en 2015, 2016 og 2017 voru öll með svipaða einkunn og best gerðist árunum 1961 fram til 2007. Rigninga- og kuldasumarið 1983 er á botninum með 1 stig (ótrúlega vont). 

Þó sólskinsstundasumma ágústmánaðar hafi enn ekki verið staðfest virðist ljóst að sumarið 2019 er það þriðjasólríkasta frá upphafi mælinga, sólskinsstundirnar voru lítillega fleiri en nú sumrin 1928 og 1929. - En við bíðum samt með staðfestingu á því þar til mælingarnar hafa verið yfirfarnar. 

Þegar þetta er skrifað hafa endanlegar tölur frá Akureyri ekki verið reiknaðar - en ættu að verða til á morgun, mánudag, eða þá á þriðjudaginn. Sömuleiðis víkjum við að sumardagafjöldanum síðar. 

Munum svo að hér er um leik að ræða - aðrir meta málin á annan hátt. 


Ágúst - nærri liðinn

Svo virðist sem ágústmánuður muni verða sá kaldasti á öldinni á landsvísu - og sá kaldasti frá 1993 að telja, en þá var talsvert kaldara en nú. Að vísu munar mjög litlu á meðalhita ágústmánaðar nú og ágústmánaðar í fyrra. Sem kunnugt er hafa ágústmánuðir þessarar aldar verið sérlega hlýir flestir miðað við það sem almennt gerðist hér á árum áður. Sem dæmi má nefna að á árunum 1961-1990 var meir en helmingur ágústmánaða kaldari en sá sem nú er nær liðinn. Það sem okkur þykir kaldur ágúst hefði okkur þótt í góðu meðallagi um þær mundir sem ritstjóri hungurdiska vann við veðurspár. Svona breytast væntingarnar. Vik á landsvísu er nú -0,8 stig miðað við síðustu tíu ár, en -0,1 stig miðað við 1961-1990. 

Taflan hér að neðan sýnir meðalvik og aldarröðun hitans á einstökum spásvæðum.

 

w-blogg310719a

Hér má sjá að þetta er kaldasti ágúst aldarinnar um landið norðan- og norðaustanvert, en hlýjast að tiltölu hefur verið á Suðausturlandi. [Viðbót 1.sept.: Hiti þann 31. breytti töfluröð lítillega, Austfirðir og Suðausturland hröpuðu um 1 sæti og enduðu í því 17 og 15. - vik breyttust sömuleiðis lítillega]. 

Hiti sumarsins, það sem af er, er á landsvísu -0,1 stig neðan meðallags síðustu tíu ára. Sú tala felur auðvitað þann mikla mun sem hefur verið viðvarandi á hita á landinu, góðviðra go sólskinsdaga suðvestanlangs og kuldans og súldarinnar á Ströndum og mestöllu Norður- og Austurlandi. 

w-blogg310719b

Taflan sýnir hitann í sumar (það sem af er, einn mánuður er eftir af Veðurstofusumrinu), hvernig hann raðast miðað við önnur sumur aldarinnar og hvert vik er miðað við síðustu tíu sumur, skipt á spásvæði Veðurstofunnar. Ef við notum svonefnda þriðjungaskiptingu teljast 6 sumur af 19 köld, 6 hlý, en 7 í meðallagi. Sumarið 2019 telst þannig kalt á þremur spásvæðum, frá Ströndum austur að Glettingi, en annars í meðallagi (blámerkt), aðeins þrjú sumur (til ágústloka) kaldari á öldinni. Mest er jákvæða vikið (miðað við síðustu tíu ár) á Suðurlandi, +0,4 stig, og mánuðirnir þrír þeir 8.hlýjustu á öldinni þar, en mest er neikvæða vikið á Austurlandi að Glettingi, -0,8 stig miðað við síðustu tíu ár. 

Þetta er búið að vera þráviðrasumar hingað til - en nú er komið fram yfir höfuðdag (29. ágúst) og Egedíusmessa er víst á morgun (1.september). Gömul trú sagði að veður fyrstu þrjá daga september segði til um veður hausts til jólaföstu. Brygðist breyting um höfuðdaginn töldu menn breytinga von á Fiskivatnsréttardag, fimmtudag í 21.viku sumars, en hann ber nú upp á 12.september („réttir byrja“ stendur í almanaki háskólans). Að meðaltali er sú dagsetning 9.september - en í gamla stíl bar það meðaltal upp á höfuðdaginn - ekki alveg auðveld breyting fyrir almanaksveðurspámenn. Um höfuðdaginn og marktækni hans hefur oft verið rætt hér á hungurdiskum (höfuðdiskum var ritsjórinn nærri því búinn að skrifa) - og verður ekki endurtekið hér og nú. 


Af árinu 1815

Vetur þótti í mildara lagi, vorið heldur laklegt, sumarið í betra lagi syðra, en verra nyrðra og eystra. Við vitum af mælingum á aðeins einum stað á landinu, hjá séra Pétri Péturssyni á Víðivöllum í Skagafirði - ekki langt þar frá sem vegagerðin mælir verður og heitir Miðsitja. Mælir Péturs var ekki varinn og um hádaginn að sumarlagi komst að honum bein eða óbein geislun, trúlega hefur bleyta einnig átt greiða leið að mælinum. En mælingarnar eru samt miklu betri en ekki neitt. 

ar_1815t

Mælingar voru gerðar snemma að morgni allt árið, en einnig um miðjan dag að sumarlagi. Við sjáum sveiflukenndan vetrarhita, frost aldrei þó mjög mikið eftir því sem gerist á þessum slóðum og hlákur margar. Ákveðnara kuldakast gerði á jöklaföstu næsta vetur (desember) og haustið kom nokkuð snögglega um miðjan október. Býsna svalt var flestar nætur í ágústmánuði - heldur óþægilegt þætti okkur - en hugsanlegt er að mæliaðstæður valdi hér nokkru - miðað við nútímastaðla. Frosts er þó ekki getið nema tvisvar í júní til ágúst, 23.júní og 29.ágúst. Séu tölur teknar bókstaflega var kaldara í ágúst heldur en september, það kemur enn fyrir. Mælingarnar eru notaðar til að giska á árs- og mánaðameðalhita í Stykkishólmi. Ársmeðalhitinn reiknast 3,1 stig, lítillega undir meðallagi áranna 1961-1990. 

Annáll 19.aldar greinir svo frá tíðarfari ársins:

Frá nýári til þorraloka voru góðviðri mikil víðsvegar um land; eftir því fór tíðarfar að spillast, harðnaði að mun með miðri góu, var norðanátt með hörkum og jarðbönnum til páska [26.mars], hófust þá geystir útsynningar, er héldust til hvítasunnu [14.maí]. Kom þá norðan áhlaupshríð með hörku, er víða reið útigangspeningi að fullu, einkum norðan- og vestanlands. Sumar var votsamt og eitthvert hið örðugasta nyrðra, en syðra með hinum bestu, spillti þá grasmaðkur mikill víða túnum manna og görðum. Haustið var hrakviðra- og vindasamt. Veður mikil um jólaföstu og umhleypingar allt til ársloka. ... Hlutir voru lágir kring um allt land. 

Annállinn getur að vanda fjölda mannskaða. Hér eru aðeins þeir taldir sem dagsetningar fylgja og tengst gætu veðri. Þann 28.febrúar drukknuðu 9 menn af skipi frá Gufuskálum. Þann 29.mars varð skipskaði á Eyrarbakka, 8 fórust (að sögn Jóns Hjaltalín). Þann 22.apríl fórust 12 menn af skipi frá Vestmanneyjum milli lands og eyja, 20. júní fórust 9 af skipi frá Bökkum við Fljót.  

Við reynum að rekja okkur í gegnum árstíðirnar með hjálp samtímaheimilda - brot úr tíðavísum Þórarins í Múla og Jóns Hjaltalín eru þó aftan við. 

Vetur:

Brandsstaðaannáll: Góður vetur til mars, utan viku snjógangur og harðviðri eftir þrettánda, en áður og eftir hláka góð. Á þorra var blíðviðrasamt, svo hann taldist með þeim bestu. Stillt sunnan-og vestanátt hafði yfirráð. Frostharka var nokkra daga síðast á þorra. Með mars vestanéljagangur og snjómikið. Eftir miðgóu hríð mikil á norðan og hörkufrost. Á góuþrælinn [20.mars]  varð jarðleysi mikið með fannkyngi og rigning ofan í.

Espólín: Eftir það með jólum, og svo allan þorra, gjörði góðviðri mikil, en síðan þyngdi aftur veðurátt; var gæftalítið undir Jökli, en aflalítið annarstaðar. (s 77). Þá týndist skip á Gufuskálum með 9 mönnum, og var þungur veturinn ofanverður og snjóamikill, og vorið kalt og gróðurlítið sakir þurrka; kom svo mikill grasmaðkur, að sumstaðar var allt krökkt, spillti hann bæði túnum manna og görðum; var þá harla lítill afli fyrir sunnan, en vestra sæmilegur. (s 78).

 

Vor:

Brandsstaðaannáll: Lítil snöp kom með apríl. Aftur kafaldskast 5.-11. apríl, síðan sumarmálahríð og harðviðri, en 27. kom hláka og upp nóg jörð; eftir það snjógangur og skammt á milli. Kuldar og gróðurleysi gjörðu vorharðindi mikil. Misstust lömb mörg. Líka var, hvar sem til spurðist, dýrbítir, og hræfuglar lögðust líka á þau. Hættur voru venju framar fyrir snjó og frost um vortímann. Ísinn var að hrekjast hér úti fyrir, sem jók á vorharðindin.

(Úr Fru Th.s Erindringer fra Iisland) [Var 1815 á Eyrarbakka]

Vinteren hengik dog langt bedre, end bun havde ventet; den var meget mild. I Foraaret 1815 havde hun et kort Anfald af sin gamle hysteriske Sygdom, der gjorde hende meget forknyt; men det mildere Veir gjorde snart en glædelig Forandring i hendes Tilstand.(s129)

Í lauslegri þýðingu segir af frú Gyðu: „Veturinn varð þó mun betri en hún hafði búist við; hann var mjög mildur. Vorið 1815 fékk hún skammvinnt kast af sínum gamla hysteríska sjúkdómi sem gerði hana mjög þunglynda; en með mildara veðri batnaði ástand hennar á ánægjulegan veg. 

 

Sumar:

Brandsstaðaannáll: Gróður kom í 6. viku sumars [25. til 31. maí]. Fór honum seint fram, því næturfrost og þurrkar yfirgnæfðu. Þó voru lömb rekin á fjall í júnílok. Með júlí lögðust lestir suður. Var þá gróðurleysi á leið þeirra, með því hestagrúinn þurfti mikils við í áfangastöðum. Í júlí var grasviðri besta. Eftir mitt sumar byrjaði sláttur. Gáfust hægar rekjur og meðfram nægur þerrir; líka stormasamt, hvar vestanáttin nær sér. Allmargir náðu ei töðu inn fyrr en í 17. viku sumars [10.ágúst]; eftir það votviðrasamt, svo hey hraktist hjá mörgum og leið langt á milli, að hirt varð, því einsýnn þerrir gafst ei utan 3 dagar í 19. viku [24. til 30.ágúst]. Grasvöxtur varð í betra lagi og heyskapur til framsveita, en bágt sumar á útkjálkum.

Espólín: LXXIII. Kap. Það sumar var afli nokkur fyrir norðan. Þungt var þá um fiskifang og aðdráttu alla; varð að sækja suður, og þó heldur vestur að norðan, og fékkst ei, fyrir stórum boðum útlendra við fiskinum, nema lítið eitt og með afarkostum, en grasár var þá í allgóðu lagi, en þótt óþurrkasamt, og ill nýting víða. (s 82).

 

Reykjavík 30-8 1815 (Bjarni Thorarensen): Heyskapur hefir í sumar verið góður allstaðar hvar til hefir frést, en fiskiafli var hinn rýrasti í vor, svo illa lítur út fyrir sjávarbændum í haust, þar matvörur nú eru engvar í kaupstöðum, en það sem af þeim var gekk mest til sveitarbænda.

Haust:

Brandsstaðaannáll: Hret gjörði um gangnatímann. Eftir þær, 18.-20. sept. náðu fleiri inn miklu heyi og alhirtu. Eftir það rigning, er gerði þeim (s70) síðbúnu nokkurn skaða. Haustið varð gott og þíðusamt, snjóalaust og frostlítið fram í nóvember. Eftir þann 5. lagði á snjó og aftur þann 14. feiknafönn, sem upptók eftir þann 25.; síðan allgott til 15. des., að skorpa byrjaði með hörku og fönn. Á Þorláksdag mesta hríð á norðan og í árslokin jarðleysi yfir allar sveitir. Málnyt og skurðarfé var nú í lakara lagi; heyjanægtir og aukafúlgur miklar fyrir fyrningar undanfarin 3 vor. (s71)   

Espólín: LXXVII. Kap. Nú kom á vetur snemma, með jöfnum snjó, blotum og jarðbönnum; var fiskafli góður syðra á honum öndverðum, en enginn síðan, en vestra var hann lítill, nema nokkur í veiðistöðum út, var laungum ógæftasamt. Þá voru reknir upp hnýðingar 1500 í Njarðvík, en reyðarkálf rak í Reykjavík, sjór var gagnlítill fyrir norðan, sem fyrri, og mjög þungt árferði, en áþján svo mikil af sveitarþyngslum, að enginn þóttist mega undir rísa. (s 85). Fyrir jólin voru veður mikil; var eitt á Þorláksmessu, það braut sakristíið, er kallað var, af Hólakirkju, og víðar gjörði það mein. (s 85).

Í Norðanfara 1.júlí 1864 er þess getið (úr dagbók úr Ólafsfirði) að árið 1815 hafi þar komið íshroði í miðjum marsmánuði en farið eftir mánuð. 

Tímaritið Annals of Philosophy birti 1815 (s395) bréf frá Magnúsi Stephensen, dagsett 16.ágúst 1815. Þar segir um tíðina:

From thence [desemberlok 1814] to the middle of March succeeded very fine mild weather, without frost; yet often so windy that the fishing could not begin during all that period. Afterwards the weather became calm and agreeable, which continued; and we have scareely had any frost in 1815 here in the south and the eastern parts of the island: but in the northern part, the winter being milder from September to January, afterwards changed to very stormy, with snow. It continued thus until far in the spring: the consequence of which as been a great loss of sheep in the north country, where  the grass came late, and was very scarce every where: besides which it was in some parishes eateen quite away by a caterpillar last spring, which was exceedingly cold, although no drift ice has appeared this year on the northern coast.

Í lauslegri þýðingu: „Þaðan af (frá áramótum) og fram í miðjan mars fylgdi mjög gott og milt veður, frostlaust, en oft svo hvassviðrasamt að hamlaði fiskveiðum allan þan tíma. Síðan varð lygnara og hagstæðara, hélst áfram svo að varla hefur nokkurt frost gert á árinu 1815 um landið sunnan- og austanvert: en nyrðra var milt í september til janúar, en snerist þá til illviðra með snjókomu sem hélst svo til vors. Norðanlands hefur fjártjón orðið mikið og gras greri seint og illa, auk þess sem það var í sumum sóknum étið upp af maðki síðastliðið vor, sem var sérlega kalt, þó enginn hafís hafi birst á þessu ári á norðurströndinni. [Þetta með ísleysið er ekki alveg rétt - eins og nefnt var að ofan]. 

Að vanda er reynist ritstjóra hungurdiska erfitt að komast fram úr dagbókum, bæði Jóns á Möðrufelli í Eyjafirði sem og Sveins Pálssonar í Vík. Hann reyndi þó að krafsa í þessar bækur og hér er það helsta (án ábyrgðar um að rétt sé lesið):

Jón segir janúar 1815 hafa verið mikið góðan að veðráttu, stilltur hafi hann verið og snjóléttur. Febrúar einnig dágóðan, en óstöðugan. Mars virðist hafa verið harður vegna jarðbanna. Maí allur mikið bágur. Júní sæmilegur og september með rétt góðri tíð. Október ágætur og nóvember allsæmilegur, en mikill snjór hafi verið um miðbikið. Desember dágóður. Árið telur hann hafa verið í sumu tilliti bágindaár, en að sumu leyti hafi það verið fínt. Veðráttufar í sveitinni að kallast í betra lagi og grasvöxtur rétt góður. 

Sveinn segir af -9,7 stiga frosti í Vík 7.janúar, 8.mars segir hann frostið vera -15,0 stig. Næturfrost segir hann 4.september. Þann 16.desember segir hann frostið vera -14 stig og -13 á aðfangadagskvöld. 

Þeir sem rita um árið hafa drjúgmiklar upplýsingar úr tíðavísum þeirra Jóns Hjaltalín og Þórarins í Múla. Það er gaman að lesa þessar vísur - en við birtum hér aðeins hluta.

Jón Hjaltalín 1815

Vetur stirður víða hvar
varði hulda engið
fönnum byrgður vangur var
vorið kulda fengið

Himnar þræða lands um laut
lukku buðu standi
öld því gæða heyskap hlaut
helst á Suðurlandi

Haustið rosum hlaðið títt
hreyfði lúru grundum
vallar losað farið frítt
fékk því skúr á stundum

Mána þó að grundin góð,
grimmdum hér ei beitti,
nægan snjó á náttar jóð
nóvember þó veitti


Þórarinn í Múla

Veðuráttin síst til sveita
sem ei misstu jörð
þorra mátti þeigi heita
þjóðum bist og hörð.

Skapstór allmjög hríða hreggi
hreytt þó fengi' á lóð
eða karlinn skyrpti' úr skeggi
skorpa' ei lengi stóð

Fallin storka' á fyrra ári
frostið harða við
mest réð orka fákum fári
fóður- og jarðleysið.

Ofan í lungu góa gapti,
geystum fram úr hvopt
hríðar sprungu hörðum krafti
hörku rammar oft.

Fannir á krapa feldi jókust
færð mesta nauð
allar snapir af þá tókust
eins fyrir hest og sauð.

Þá einmáni hörku harði
hér ei seldi grið
storð og rán með stormum barði
sterkt sem héldust við.

Ekki skaut upp einni þúfu
eður að heppni bar
heyið þraut en hungurs skrúfu
hjörðu skepnurnar

Fólkið píndi angurs ótti
aldrei hlána vann
hestar týndu holdi' og þrótti
hver svo máni rann.

...
Veðurátt mikið bar að beinni
bættist þrautin hörð
sumars viku síðar einni
sauðum skaut upp jörð

...
Hvíta- þó nær - sunnu síðar
sóaðist fengin hægð
féllu' á snjóar frost og hríðar
fékkst þá engin vægð.

...
Bylurinn reisti baga mönnum
bús með smalann hart
kafnaði eystra féð í fönnum
frosti kalið margt.

Ljósin blánuð lífsins gæða
leið að höllun þjóð
hálfan mánuð skorpan skæða
skaðvæn öllu stóð.

...
Ofan á þetta' ei upp nam taka
að sólhvörfum snjó
lönd afrétta lágu klaka
læst með jöðrum þó.

...
Miðsumars gæða mánuð fengum
mjög svo fashægan
vindar bæði' og vætur gengu
vel upp grasið rann

Sunnanvindar blésu blíðir
bleyttu stífan gadd
elja rindar og um síðir
öðlaðist rífan hadd

...
Ágústus með ægum baugum
úða skýja rann
vætu gusum veitti' úr augum
vært ei því um hann.

Sælir blésu sunnanvindar
septembers um mið
eðli hlés og elju rindar
aptur hressa við.

Meðan norðurlandsins lýði
löður vætu rann
syðra storðar þerrir þýði
þjóðir kæta vann.

...
Haustið ól oss heyja snauðum
hægð og gleði jók
veturinn kjóli víða rauðum
vist sér með oss tók.

Skjótt um kjóla skipti síðan
skorti fóður hjörð
fyrir jólaföstu þíðan
færði' oss góða jörð.

...
Framar þessu hafbrims harði
hríðar bylur um frón
Þorláks messu báta barði
og gyttur til í spón

Hóla því að kirkju kreisti
Kári oft og sló
sakristíið sundur leysti
súð í loftið fló.

Þess má geta að í apríl varð hið stórkostlega eldgos í Tambórafjalli í Indónesíu og er talið að það hafi haft áhrif á veðurfar heimsins næstu 2 til 3 árin á eftir. Öskuskýið hefur væntanlega farið að sjást hér á landi um haustið - og reyndar nefnir Sveinn Pálsson að sólarlag hafi verið óvenjurautt - við eltum það e.t.v. betur uppi ef lestrarhæfni ritstjórans batnar (varla von til þess).  

Lýkur hér að sinni samantekt hungurdiska um árið 1815. Ritstjórinn þakkar Sigurði Þór Guðjónssyni fyrir innslátt Brandstaðaannáls og Hjördísi Guðmundsdóttur fyrir innslátt texta úr árbókum Espólíns. Smávegis (nærri því ekki neitt) af tölulegum upplýsingum er í viðhenginu. 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Haustlægð?

Hugtakið „haustlægð“ virðist farið að skjóta rótum í málinu - og sennilega lítið við því að segja. Ritstjóra hungurdiska virðist það samt nokkuð frjálslega notað - án þess hann hafi hugmynd um það hvernig öguð og nákvæm notkun eigi að vera - og víst er að ekki hefur hann neitt boðvald í þeim efnum. Svo frjálslega virðist vera farið með hugtakið að það nær nú yfir allan strekking og rigningu sem á sér stað á þeim tíma árs þegar rökkva fer á kvöldin - nú jafnvel hvassviðri og rigningu á miðju sumri - hefur meira að segja sést í júní - áður en sumrið er eiginlega byrjað. En ekki tjáir að kveina yfir því.

Haustið er sennilega fyrr á ferðinni á síðari árum í huga fólks heldur en var áður fyrr - breyttir þjóðfélagshættir ráða þar sjálfsagt mestu. Síðari hluti sumarsins hefur hlýnað - eins og flestir aðrir tímar ársins, en breytingar hafa hins vegar ekki orðið á vendipunktum veðrakerfisins - hiti fer óhjákvæmilega að falla frá og með 10.ágúst eða þar um bil (nokkur áraskipti að sjálfsögðu), vestanvindar veðrahvolfsins eru sem fyrr í lágmarki um 10.ágúst - en aukast að styrk eftir það - og austanvindur dettur niður í heiðhvolfinu upp úr 20.ágúst. Og sólstöður og jafndægur eru auðvitað allaf (nánast) á sama tíma (almanakið er þannig gert - útbúið hefur verið hlaupárakerfi sem sér um að sólstöður reki ekki út og suður um almanaksárið). 

Að sögn kom „haustlægð“ að landinu í dag - ekki var samt sérlega hvasst - meðalvindhraði sólarhringsins ekki nema 5,3 m/s - minna en marga aðra daga í mánuðinum og hæsta klukkustundargildi 8,1 m/s. Og ekki var einhver kuldagjóstur á ferð - síður en svo - þó hæsta hámark dagsins á landinu væri hið næstlægsta í mánuðinum hingað til. Að einu leyti má þó e.t.v. tala um haustboða - lægðin var dýpri en algengt er yfir hásumarið og þrýstifall (milli sólarhringa) sömuleiðis í meira lagi - bæði atriði þó langt frá ágústmetum. Þrýstifallið var rúm 25 hPa milli sólarhringa - gerist ekki nema á um 10 ára fresti í ágúst að þrýstingur breytist svo ört. 

Þegar þetta er ritað er lægsta þrýstingi sem fylgir lægðinni (á veðurstöð) sennilega ekki náð, en spár gera ráð fyrir því að hann fari niður í um 976-978 hPa á morgun (mánudag). Það gerist að meðaltali á um 10 ára fresti að þrýstingur fari niður í 976 hPa eða neðar í ágúst. Sennilega er tíðnin þó aðeins meiri vegna þess að á fyrri tíð voru athuganir mun gisnari bæði í tíma og rúmi heldur en nú er og líkur á að missa af mjög lágum gildum voru því mun meiri á árum áður. 

Munur á hæsta og lægsta þrýstingi á landinu (á sama tíma) segir talsvert um vindhraða. Mesti munur (þrýstispönn) í lægðinni í dag var tæp 18 hPa. Það er nokkuð drjúgt, en samt talsvert algengara heldur sú tíðni sem nefnd var að ofan (þrýstifall og lágþrýstingur).

Hvort við getum minnst á haust í sambandi við hita lægðarloftsins vitum við ekki enn. Dæmi eru um að nokkuð kalt norðanloft hafi fylgt í kjölfar ámóta lægða - jafnvel svo að eitthvað sem við getum kallað raunverulegt haust hafi tekið við. 

Við skulum nota tækifærið og líta á nokkrar (sjaldséðar) metatölur ágústmánaðar. Tölurnar verðs læsilegri séu þær stækkaðar (eins og hefðbundnar myndir). 

w-blogg260819a

Við sjáum að sjaldgæft er að þrýstingur fari neðar en 970 hPa í ágúst. Á listum yfir storma skorar 27.ágúst 1933 mjög hátt. Þá gekk mikið landsynningsveður yfir landið með töluverðu foktjóni. Í lægðinni 1927 voru leifar fellibyls sunnan úr höfum. 

w-blogg260819b

Veðrið í ágúst 1971 var raunverulegt haustveður með fannkomu fjársköðum og ísingu á rafmagns- og símalínum norðaustanlands. Lægðin sem olli veðrinu 1955 var kannski enn dýpri en sú 1927 - en var farin að grynnast nokkuð þegar hún gekk yfir landið. Hún olli heyfoki og hárri sjávarstöðu. Nokkuð foktjón varð í veðrinu 2008 - það var slæmur landsynningshvellur. Veðrið 1950 er það sama og olli skriðuföllunum mannskæðu á Seyðisfirði. Veðrið 1974 olli líka skriðum eystra - og ófærð á fjallvegum - kannski alvöru haustveður og fylgdi kuldi í kjölfar þess. Veðrið 1988 olli miklum skriðuföllum í Ólafsfirði og á Stöndum. Eftirminnilegt varð einnig landsynningsveðrið 1977 - haust fylgdi strax á eftir. Þetta var fyrsta illviðri sem ritstjóri hungurdiska kom eitthvað nærri sem vaktarveðurfræðingur - reyndar á svokölluðum æfingavöktum. Mikill kuldi fylgdi veðrinu 1964 - ökklasnjór sagður á Siglufirði. Og veðrið 2014 muna e.t.v. sumir sem leifar fellibylsins Christobal - mikið úrhelli fylgdi þeim. 

w-blogg260819c

Hér má sjá mörg sömu veður og á fyrri listum - en önnur voru fremur meinlítil eins og veðrið í dag - sum þau elstu þekkjum við ekki nógu vel, t.d. það sem trónir efst á listanum. Það féll nokkuð í skugga enn verri veðra mánuði síðar. 

w-blogg260819d

Við höfum minnst á sumar þessara dagsetninga hér að ofan - ekki þó 1969 - þá varð nokkuð foktjón - einkum fyrir norðan, en segir líka í annálum: „Markatafla á Laugardalsvelli fauk meðan á leik ÍBV og Búlgarsks knattspyrnuliðs fór fram í 8 til 9 vindstigum“. Kannski einhverjir eldri knattspyrnuunnendur muni þetta? Veðrið 1952 var slæmt hret með hríð á heiðum og 1968 féllu skriður eystra. 

Kannski hefur ritstjórinn einhvern tíma þrek til að lýsa einhverju þessara veðra betur - það væri ástæða til. Við sjáum þegar að þau falla í nokkra flokka - sum minna með sanni á haust, en önnur eru frekar sumarslæmska. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg170925b
  • w-blogg170925a
  • w-blogg130925-ak-a
  • w-blogg130925a
  • w-blogg130925b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.9.): 7
  • Sl. sólarhring: 223
  • Sl. viku: 1337
  • Frá upphafi: 2499927

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 1209
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband